Hæstiréttur íslands

Mál nr. 190/2014


Lykilorð

  • Skuldamál
  • Aðild


Dómsatkvæði

                                     

Fimmtudaginn 23. október 2014.

Nr. 190/2014.

Flugþjónustan ehf.

(Valgeir Kristinsson hrl.)

gegn

Logos slf.

(Gunnar Sturluson hrl.)

Skuldamál. Aðild.

L slf. höfðaði mál á hendur F ehf. til greiðslu reikninga vegna lögfræðiþjónustu á nánar tilgreindu tímabili. F ehf. viðurkenndi tilvist reikningana en bar því á hinn bóginn við að  félagið væri ekki réttur aðili að málinu. L slf. hefði þannig verið rétt að beina kröfum sínum að dótturfélagi félagsins, K ehf., enda hefði vinnan verið unnin í þágu þess félags. Í dómi héraðsdóms kom meðal annars fram að hinir umþrættu reikningar væru allir gefnir út á F ehf., auk þess sem félagið hefði sjálft greitt inn á skuldina. Þá yrði af samskiptum aðilanna ekki annað ráðið en að þau hefðu farið fram í nafni F ehf. og að félagið væri greiðandi samkvæmt reikningunum. Voru kröfur L slf. því teknar til greina. Í dómi Hæstaréttar var vísað til tölvubréfs starfsmanns F ehf. til starfsmanns L slf., þar sem fram kom að fyrirtækið myndi standa við nánar tilgreint greiðsluplan, og tekið fram að tölvubréfinu hefði fylgt staðfesting á innborgun þar sem fram kæmi að F ehf. væri greiðandi. Af tölvubréfinu, og greiðslu F ehf. inn á skuld vegna K ehf., yrði ekki annað ráðið en að F ehf. hefði talið sig vera í skuld við L slf. vegna vinnu sem félagið hefði skuldbundið sig til að greiða, án tillits til þess hvort hún hefði verið í þágu hans eða K ehf. Þá yrði að líta til þess að F ehf. hefði ekki gert athugasemdir við reikninga L slf. fyrr en mánuði eftir að bú K ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta. Að þessu virtu, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms, var niðurstaða hans staðfest.  

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 18. mars 2014. Hann krefst aðallega að honum verði einungis gert að greiða stefnda 365.213 krónur, en til vara lækkunar á tildæmdri fjárhæð. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Fyrir Hæstarétt hefur verið lagt tölvubréf Hjalta Þórs Guðmundssonar 22. maí 2012 til starfsmanns stefnda, en Hjalti starfaði á þeim tíma sem atvik málsins gerðust fyrir Keflavik Flight Services ehf., sem var dótturfélag áfrýjanda, en var að öðru jöfnu verktaki hjá ýmsum fyrirtækjum í eigu aðaleiganda áfrýjanda. Í tölvubréfinu var vísað til samskipta við stefnda degi fyrr vegna gjaldfallinna reikninga félagsins við stefnda. Þar sagði svo: „Við munum standa við greiðsluplan það sem við höfum þegar sammælst um með fyrstu greiðslu í júlí og fram í september. Við munum svo að sjálfsögðu reyna að borga inná eftir hentugleika.“ Engin skýring fylgdi innborguninni, 300.000 krónum, en með tölvubréfinu fylgdi staðfesting á henni, þar sem fram kom að áfrýjandi væri greiðandinn. Áfrýjandi heldur því fram að greiðslan hafi verið vegna innborgunar sinnar á skuld við stefnda að fjárhæð 665.213 krónur samkvæmt tilgreindum reikningi, en sá reikningur var ekki gefinn út fyrr en níu dögum eftir að innborgunin var innt af hendi og var með eindaga 29. júní 2012. Fær því ekki staðist að um hafi verið að ræða innborgun á þann reikning. Þvert á móti verður ekki annað ráðið af því sem fram kemur í áðurnefndu tölvubréfi og greiðslu áfrýjanda inn á skuld vegna Keflavik Flight Services ehf. en að áfrýjandi hafi talið sig vera í skuld við stefnda vegna vinnu sem hann hafi skuldbundið sig til að greiða fyrir, án tillits til þess hvort hún var í þágu hans eða Keflavik Flight Services ehf. Þá er þess að gæta að áfrýjandi gerði ekki athugasemdir við reikninga stefnda til hans, sem gerðir voru á tímabilinu frá 31. mars til 31. maí 2012, fyrr en um mánuði eftir að bú Keflavik Flight Services ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði 18. júlí sama ár. Að framangreindu virtu, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.  

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Flugþjónustan ehf., greiði stefnda, Logos slf., 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 20. desember 2013.

                Mál þetta, sem var dómtekið 19. desember sl. er höfðað með stefnu birtri 13. nóvember 2012. Stefnandi er Logos slf. Efstaleiti 5 í Reykjavík. Stefndi er Flugþjónustan ehf. Reykjavíkurflugvelli.

                Dómkröfur stefnanda eru þær að stefnda verði gert að greiða honum skuld að fjárhæð 8.803.557 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 2.267.854 kr. frá 31.03.2012 til 30.04.2012, af 3.492.207 kr. frá 30.04.2012 til 09.05.2012, af 4.170.723 kr. frá 09.05.2012 til 31.05.2012, af 5.095.125 kr. frá 31.05.2012 til 30.06.2012, af 6.138.598 kr. frá 30.06.2012 til 31.07.2012 og af 8.803.557 kr. frá 31.07.2012 til greiðsludags, allt að frá dreginni innborgun að fjárhæð 300.000 kr. þann 22.05. 2012 sem dragist frá skuldinni miðað við stöðu hennar á innborgunardegi. Þá krefst stefnandi málskostnaðar að mati dómsins.

                Stefndi viðurkennir kröfu að fjárhæð 365.213 kr. en krefst sýknu að öðru leyti auk greiðslu málskostnaðar.

                Atvik máls

                Stefnandi kveður stefnda hafa keypt af sér lögfræðiþjónustu. Krafa hans byggir á ógreiddum reikningum vegna þeirrar þjónustu. Dagsetningar og fjárhæð reikninganna er eftirfarandi:

Reikningur nr.

Dags.

Gjalddagi

Upphæð

12538

12534

12539

12540

12555

12536

12537

12535

12915

12916

12917

12918

12919

12920

12921

12931

13458

13459

13460

13557

13971

13972

13973

14197

14198

14199

14200

31.03.2012

31.03.2012

31.03.2012

31.03.2012

31.03.2012

31.03.2012

31.03.2012

31.03.2012

30.04.2012

30.04.2012

30.04.2012

30.04.2012

30.04.2012

30.04.2012

30.04.2012

09.05.2012

31.05.2012

31.05.2012

31.05.2012

31.05.2012

30.06.2012

30.06.2012

30.06.2012

31.07.2012

31.07.2012

31.07.2012

31.07.2012

31.03.2012

31.03.2012

31.03.2012

31.03.2012

31.03.2012

31.03.2012

31.03.2012

31.03.2012

30.04.2012

30.04.2012

30.04.2012

30.04.2012

30.04.2012

30.04.2012

30.04.2012

09.05.2012

31.05.2012

31.05.2012

31.05.2012

31.05.2012

30.06.2012

30.06.2012

30.06.2012

31.07.2012

31.07.2012

31.07.2012

31.07.2012

88.164

24.943

33.916

101.875

298.251

364.584

911.092

445.029

29.963

185.025

504.353

377.535

29.963

25.602

71.912

678.516

47.565

207.859

3.765

665.213

167.543

868.400

7.530

100.526

2.231.230

329.438

3.765

                Samtals er fjárhæð ofangreindra reikninga 8.803.557 krónur sem er stefnufjárhæð þessa máls. Frá kröfu sinni dregur stefnandi greiðslu, sem stefndi innti af hendi þann 22. maí 2012, að fjárhæð 300.000 krónur.

                Stefnandi kveðst ekki hafa fengið framangreinda kröfu greidda og af þeim sökum sé mál þetta höfðað.

                Fyrir dómi gaf aðilaskýrslu Alma Gunnlaugsdóttir, framkvæmdastjóri stefnda. Þá komu fyrir dóminn vitnin Hjalti Þór Guðmundsson lögfræðingur og núverandi starfsmaður stefnda í hlutastarfi og Atli Georg Lárusson fyrrum framkvæmdastjóri Keflavik Flight Services, dótturfélags stefnda.

                Málsástæður og lagarök stefnanda

                Stefnandi rekur mál þetta til innheimtu ógreiddra reikninga fyrir þjónustu sem hann kveðst hafa látið stefnda í té. Skuld þessa kveður hann stefnda ekki hafa greitt þrátt fyrir innheimtutilraunir. Stefnandi byggir á því að stefnda sé skylt að greiða fyrir þá þjónustu sem stefnandi sannanlega lét honum í té, að beiðni stefnda. Um framsetningu dómkröfu sinnar vísar stefnandi til dóms Hæstaréttar frá 17. október 2002 í málinu nr. 230/2002.

                Um lagarök vísar stefnandi til meginreglu kröfuréttar um efndir fjárskuldbindinga og skuldbindingargildi loforða. Ennfremur til ákvæða laga um lausafjárkaup nr. 50/2000, einkum 45. gr. og laga nr. 42/2000 um þjónustukaup, einkum 28. gr. Krafa um dráttarvexti styður stefnandi við lög um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Krafa um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga 91/1991 um meðferð einkamála. Um varnarþing vísar stefnandi til 33. gr. laga nr. 91/1991.

                Málsástæður og lagarök stefnda

                Stefndi hafnar því að honum beri skylda til að greiða nokkurn þeirra reikninga sem lagðir eru fram í málinu ef frá er talinn reikningur nr. 13557 að fjárhæð 665.213 kr. Innborgun stefnda að fjárhæð 300.000 kr., sem innt var af hendi 22. maí 2012 hafi verið innborgun inn á skuld samkvæmt þeim reikningi. Stefndi viðurkennir að skulda stefnanda eftirstöðvar þessa reiknings.

                Stefndi gerir ekki athugasemdir við fjárhæð og sundurliðun reikninganna en hafnar greiðsluskyldu samkvæmt þeim vegna aðildarskorts. Stefnandi eigi engar kröfur á hendur stefnda samkvæmt öðrum reikningum en þeim sem hann hafi fallist á að greiða. Öll vinna sem komi fram á öðrum reikningum sé unnin í þágu annars lögaðila, Keflavik Flight Services ehf., kt. 520411-0540. Það félag sé sjálfstæður lögaðili, með eigin stjórn, framkvæmdastjóra og prókúruhafa. Skuldbindingar þess félags séu ekki á ábyrgð stefnda. Þá eru félögin með sitt hvora starfsstöðina, annað í Reykjavík og hitt í Keflavík. Stefndi starfi eingöngu í Reykjavík en Keflavik Flight Services aðeins í Keflavík.

                Í greinargerð rökstyður stefndi ítarlega, með tilvísun í texta einstakra reikninga að verkin að baki þeim varði ýmis verk sem tengjast nefndu félagi, Keflavik Flight Services, og séu því stefnda óviðkomandi. Helstu heiti umdeildra reikninga séu eftirfarandi: „KFS - Dómsmál á hendur Iceland Express”, „Skaðabótakrafa frá Iceland Express ehf. (á hendur KFS)“, „KFS – almenn lögfræðiþjónusta”, „KFS - innsetningarmál”, „KFS – vinnudeila”, „KFS – lögbann”, „KFS – útburður”, „KFS – almenn lögfræðiþjónusta 2012” og „KFS – innheimtumál N1”. Af framangreindri sé ljóst að stefnukrafan sé í aðalatriðum stefnda óviðkomandi. Eina undantekningin er vegna reiknings nr. 13557. Því sé réttur skuldari gagnvart stefnanda Keflavik Flight Services ehf., kt. 150411-0540. Það félag geti ekki skuldbundið aðra aðila, svo sem stefnda, nema fyrir liggi skýr heimild og samþykki fyrir því. Svo líti því út sem annað hvort sé um að ræða misskilning stefnanda eða óprúttna ósvífni. Hvorugt bindi stefnda að lögum. Beri af þessum sökum að sýkna stefnda vegna aðildarskorts.

                Þá byggir stefndi einnig á því að stefnandi hafi ekki sent stefnda innheimtuviðvörun samkvæmt innheimtulögum nr. 95/2008. Því eigi stefnandi hvorki rétt á innheimtu- né málskostnaði. Til stuðnings þessari málsástæðu vísar stefndi til 11. gr. sbr. 7. gr. nefndra laga. Varðandi lagarök vísar stefndi að öðru leyti til meginreglna kröfuréttar og samningaréttar og meginreglna um einkahlutafélög. Stefndi sé ekki virðisaukaskattskyldur og krefst virðisaukaskatts á málflutningsþóknun með vísan til skaðleysissjónarmiða.

                Niðurstaða

                Mál þetta snýst um greiðslu ógreiddra reikninga. Stefnandi mótmælir ekki staðhæfingu stefnda um að þjónustan, sem krafist er greiðslu fyrir, sé að mestu unnin í þágu Keflavik Flight Services og ekki er ágreiningur um það hvaða þjónusta liggur að baki reikningunum. Þá liggur fyrir yfirlýsing í greinargerð, sem áréttuð var af lögmanni stefnda við aðalmeðferð málsins, þess efnis að ekki sé ágreiningur um fjárhæð reikninganna. Er sú yfirlýsing hans bindandi um sakarefnið. Þá féll stefnandi frá þeirri málsástæðu að ákvæði innheimtulaga nr. 95/2008 hefðu þýðingu í málinu. Jafnframt áréttaði hann að krafa hans um sýknu á grundvelli aðildarskorts byggði á 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.

                Ágreiningur máls þessa lýtur því einvörðungu að því hvort stefndi sé réttur aðili að skuldamáli þessu. Stefnandi heldur því fram að hann hafi samið við stefnda um að láta í té umrædda þjónustu. Stefndi heldur því á hinn bóginn fram að ekkert samningssamband sé milli aðila þessa máls á grundvelli framlagðra reikninga heldur beri stefnanda að beina kröfu sinni að Keflavik Flight Services ehf. sem sé fyrirtæki óviðkomandi stefnda.

                Af gögnum málsins má ráða að stefndi hefur verið í viðskiptum við stefnanda um árabil. Ekki liggja fyrir verksamningar vegna neinna viðskipta. Umdeildir reikningar eru fyrir margvíslega lögfræðiþjónustu að mestu vegna mála sem tengjast Keflavik Flight Services. Reikningarnir eru 27 talsins, fjárhæð þeirra er samtals 8.803.577 krónur. Þeir eru gefnir út á tímabilinu 31. mars til 31. júlí 2012, með gjalddaga við útgáfu og eindaga mánuði síðar.

                Keflavik Flight Services ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta á 18. júlí 2012. Um tengsl stefnda og Keflavik Flight Services liggur fyrir að Keflavik Flight Services ehf. var dótturfélag stefnda að fullu í eigu hans. Samkvæmt tilkynningu um stofnun einkahlutafélags, sem barst Ríkisskattstjóra 7. apríl 2011 var lögheimili fyrirtækisins hjá stefnda, formaður stjórnar var Hilmar Hilmarsson, sem einnig er stjórnarformaður stefnda. Aðrir í stjórn Keflavik Flight Services voru Ævar Rafn Björnsson, sem jafnframt er framkvæmdastjóri. Stjórnarmenn báðir voru prókúruhafar samkvæmt tilkynningunni. Breytingar á þessu fyrirkomulagi var gerð með tilkynningu til Ríkisskattstjóra, dagsettri 13. júní 2012. Þá tekur Atli Georg Árnason við sem framkvæmdastjóri og fór hann ásamt Hilmari Hilmarssyni og Ölmu Gunnlaugsdóttur, framkvæmdastjóra stefnda, með prókúru fyrirtækisins.

                Stjórn stefnda er samkvæmt hlutafélagaskrá, uppfærðri 23. ágúst 2012, skipuð áðurnefndum Hilmari, sem er stjórnarformaður og Guðfinnu Magney Sævarsdóttur. Framkvæmdastjóri félagsins er Alma Gunnlaugsdóttir og prókúruumboð hafa þau þrjú.

                Við úrlausn ágreinings um hvort komist hafi á samningur á milli aðila verður að leggja mat á fyrirliggjandi gögn og vitnisburð aðila. Í því efni er fyrst til þess að líta að umdeildir reikningar eru allir gefnir út á stefnda, Flugþjónustuna ehf. og sendir á starfsstöð þess á Reykjavíkurflugvelli. Af hálfu stefnda voru ekki gerðar athugasemdir við reikningana þegar þeir bárust. Hins vegar bar framkvæmdastjóri stefnda, Alma Gunnlaugsdóttir, fyrir dómi að líklega hefðu verið gerðar athugasemdir við þá munnlega á fundum með forsvarsmönnum stefnanda eftir að innheimtuviðvörun barst, en slík viðvörun var send 17. ágúst 2012. Þá bar Alma að hún hafi verið gjaldkeri Keflavik Flight Services og því hafi hún fengið reikningana senda til sín en aldrei borgað neitt nema eftir fyrirmælum frá framkvæmdastjóra félagsins. Þessi framburður fær hvorki stoð í gögnum málsins né framburði Atla Georgs Árnasonar fyrrum framkvæmdastjóra Keflavik Flight Services fyrir dómi. Hann kannaðist ekki við að stefndi hafi séð um greiðslu reikninga fyrir félagið og kvaðst hafa greitt sjálfur eða látið greiða fyrir þá vinnu hann stofnaði til sem stjórnandi fyrirtækisins.

                Þá greiddi stefndi inn á skuldina 22. maí 2012. Stefndi staðhæfir að sú greiðsla hafi átt að fara inn á þann eina reikning sem hann hefur fallist á að greiða. Engin gögn styðja þá staðhæfingu. Auk þess var sá reikningur ekki gefin út fyrr en eftir að innborgun þessi var innt af hendi en fyrir lá að stefnandi hafði þá þegar gert stefnda marga af þeim reikningum sem um er deilt. Gögn málsins benda því fremur til hins gagnstæða. Hafi það verið skilningur stefnda á þeim tíma sem hann innti greiðsluna af hendi að honum bæri ekki að greiða útgefna reikninga bar honum að gera stefnanda grein fyrir því með skýrum hætti.

                Af ítarlegum tölvupóstsamskiptum aðila sem liggja fyrir í málinu virðist sem hvorugur þeirra geri mikinn greinarmun á hagsmunum stefnda og Keflavik Flight Services. Þá nota allir sem fram koma fyrir hönd stefnda og dótturfélags þess netföng frá léninu birk.is sem er í eigu stefnda. Þannig verður ekki gerður greinarmunur á sendendum skeyta eftir því hvaða netföng eru notuð. Hjalti Þór Guðmundsson sá um mikið af samskiptum við stefnanda vegna umdeildrar þjónustu. Verður ekki annað ráðið en hann tjái sig í nafni stefnda þótt viðfangsefnin sem unnið er að séu flest í þágu Keflavik Flight Services. Þetta á ekki hvað síst við samskiptin eftir að umdeildir reikningar höfðu verið gefnir út og rætt er um greiðslu þeirra. Þá gerir hann m.a. athugsemd um fjárhæð eins reikningsins og óskar eftir viðræðum um greiðslufrest og greiðsluskilmála. Í engu tilviki er vikið að því að stefndi telji sig ekki eiga að greiða reikninga vegna vinnu fyrir dótturfélagið. Hafa ber í huga að hluti af þjónustu stefnanda var innt af hendi eftir að orðið var verulega tvísýnt um greiðslugetu Keflavik Flight Services. Þegar þannig var komið gat stefndi með engu móti gert ráð fyrir að þjónusta yrði veitt Keflavik Flight Services án nokkurra trygginga og án ábyrgðar móðurfélagsins. Framkoma og samskipti beggja aðila, sem liggja fyrir í framangreindum tölvupóstsamskiptum, benda eindregið til þess að báðir aðilar hafi gengið út frá því að stefndi væri greiðandi umdeildra reikninga. Það er ekki fyrr en gjaldþrot Keflavik Flight Services liggur fyrir sem núverandi afstaða stefnda kemur í ljós.

                Allt framangreint gaf stefnanda réttmæta ástæðu til að ætla að stefndi væri viðsemjandi sinn. Hafi stefndi ekki ætlað sér að taka á sig neinar skyldur í þessum samningssambandi bar honum að gera stefnanda viðvart um það með skýrum hætti, í síðasta lagi við móttöku fyrstu reikninga. Að mati dómsins verður að líta svo á að stefndi hafi með framkomu sinni, bæði athöfnum og athafnaleysi, tekið á sig skyldur verkkaupa. Því hvílir á honum skylda til að greiða umdeilda reikninga og er honum því réttilega stefnt í máli þessu.

                Með vísan til framangreinds og þar sem ekki er deilt um annað en aðild stefnda eru kröfur stefnanda teknar til greina eins og nánar greinar í dómsorði. Með hliðsjón af þessum úrslitum máls og vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað sem telst hæfilega ákveðinn 450.000 krónur.

Ingibjörg Þorsteinsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan dóm.

D ó m s o r ð

                Stefndi, Flugþjónustan ehf., skal greiða stefnanda, Logos slf. 8.803.557 kr. með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 2.267.854 kr. frá 31.03.2012 til 30.04.2012, af 3.492.207 kr. frá 30.04.2012 til 09.05.2012, af 4.170.723 kr. frá 09.05.2012 til 31.05.2012, af 5.095.125 kr. frá 31.05.2012 til 30.06.2012, af 6.138.598 kr. frá 30.06.2012 til 31.07.2012 og af 8.803.557 kr. frá 31.07.2012 til greiðsludags, allt að frá dreginni 300.000 kr. innborgun þann 22.05. 2012.

                Stefndi greiði stefnanda málskostnað að fjárhæð 450.000 kr.