Hæstiréttur íslands
Mál nr. 450/2004
Lykilorð
- Kærumál
- Upplýsingaskylda
- Fjarskipti
|
|
Miðvikudaginn 17. nóvember 2004. |
|
Nr. 450/2004. |
Sýslumaðurinn í Keflavík(Júlíus Magnússon fulltrúi) gegn Margmiðlun hf. (enginn) |
Kærumál. Upplýsingaskylda. Fjarskipti.
Hafnað var kröfu sýslumanns um að M hf. yrði gert að veita lögreglunni í Keflavík upplýsingar um handhafa tiltekinnar IP tölu.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. nóvember 2004, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 15. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 11. nóvember 2004, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði gert að veita lögreglunni í Keflavík upplýsingar um handhafa tiltekinnar IP tölu. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Sóknaraðili krefst þess að framangreind krafa hans verði tekin til greina.
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 11. nóvember 2004.
Í beiðni sýslumannsins í Keflavík kemur fram að hann hafi til rannsóknar kæru A vegna hótana sem hann taldi sig hafa fengið með svokölluðum SMS skilaboðum í símanúmer sitt [...] 5. júní sl. Sendingar SMS skilaboðanna hafa verið raktar til IP tölunnar [...], sem tilheyri Margmiðlun hf. Í málinu er gerð krafa um að Margmiðlun hf. verði með úrskurði gert að veita lögreglunni í Keflavík upplýsingar um hver hafi verið með framangreinda IP tölu, er textaskilaboð með hótuninni voru send í símann [...] 5. júní sl., en félagið hefur ekki viljað gefa upp notendanafn á framangreindri tölu án úrskurðar. A hafði fengið skilaboðin er hann var út á [...] í sumarfríi 5. júní sl. Voru þau á þennan veg: ,,Tad er fylgst með tér, ættir ad passa tig, tu veist utaf hverju". Tu verdur brádin í veidinni...Vid vitum um dagsetningarnar og hvad tu gerir, tu ert ekki ohultur...".
Fram kom hjá A við skýrslutöku hjá lögreglu 7. júní sl. að hann tæki þessar hótanir alvarlega og hefði ákveðinn aðila, sem hann hafði átt viðskipti við, sem farið hafi illa, grunaðan um að hafa sent skilaboðin. Hann áréttaði kæruna 28. júlí sl. og gerði refsikröfu. Með bréfi lögreglunnar í Keflavík dagsettu 1. júlí sl. var A tilkynnt að lögreglan hefði hætt rannsókn málsins og er í því sambandi vísað til 1. tl. 76. gr. laga nr. 19/1991 og tekið fram, að meintar hótanir væru ekki það skýrar, að ætla megi að þær leiði til ákæru. Vakin var athygli á því að bera mætti þessa ákvörðun lögreglu undir ríkissaksóknara, sem virðist hafa verið gert, og hann breytt ákvörðuninni og lagt fyrir lögreglu að halda rannsókn áfram.
Fallast má á það, sem fram kemur í bréfi lögreglunnar í Keflavík, til A, dagsettu 1. júlí sl. að hótanir í garð A séu fremur óljósar og í þeim sé ekki bein hótun um ákveðnar aðgerðir gegn honum.
Ekki þykir bráð eða yfirvofandi hætta fylgja þessari hótun, en liðnir eru nú um 5 mánuðir frá því að hún var sett fram án þess að séð verði að henni hafi á nokkurn hátt verið fylgt eftir en óljóst er hverju á að ná fram með henni.
Skilyrði þess að gripið verði til aðgerða, skv. 86. gr. laga nr. 19/1991 að rannsókn beinist að broti, sem varðað getur að lögum 8 ára fangelsi. Brot það sem rannsóknin beinist að getur varðað 2 árum skv. 233. gr. almennra hegningarlaga. Þá hefur ekki verið sýnt fram á að nú séu ríkir almannahagsmunir eða einkahagsmunir til að verða við kröfunni. Þegar allt þeta er virt, þykja ekki vera skilyrði til að verða við kröfunni í málinu og er synjað um þargreinda aðgerð.
Guðmundur L. Jóhannesson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
ÚRSKURÐARORÐ
Hafnað er kröfu sýslumannsins í Keflavík, um að Margmiðlun hf. verði gert að veita lögreglunni í Keflavík upplýsingar um handahafa IP tölunnar [...].