Hæstiréttur íslands

Mál nr. 113/2002


Lykilorð

  • Kærumál
  • Kröfugerð
  • Vanreifun
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


Föstudaginn 15

 

Föstudaginn 15. mars 2002.

Nr. 113/2002.

Hjölur ehf.

(Helga Leifsdóttir hdl.)

gegn

Sigríði Sigurlínu Pálsdóttur

(Þorsteinn Einarsson hrl.)

 

Kærumál. Kröfugerð. Vanreifun. Frávísunarúrskurður staðfestur.

Máli H ehf. gegn S var vísað frá dómi vegna vanreifunar.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 25. febrúar 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 6. mars sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. febrúar 2002, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og varnaraðila gert að greiða sér málskostnað í héraði og kærumálskostnað. Til vara krefst hann þess að málskostnaður verði felldur niður, en til þrautavara lækkaður.

Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og sóknaraðili dæmdur til að greiða sér kærumálskostnað.

I.

Sóknaraðili höfðaði þetta mál með stefnu 31. mars 2001, þar sem hann krafðist þess að varnaraðila yrði gert að greiða sér skuld að fjárhæð 531.675 krónur með dráttarvöxtum af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 1. febrúar sama árs til greiðsludags, auk málskostnaðar. Í stefnunni var greint þannig frá atvikum málsins að krafa sóknaraðila væri reist á 20 reikningum, með tilteknum númerum og útgáfudegi á tímabilinu frá 9. desember 2000 til 10. janúar 2001, vegna kaupa varnaraðila á vörum hjá honum. Var samanlögð fjárhæð reikninganna sögð vera 917.189 krónur, en frá henni dregin heildarfjárhæð ótilgreindra inneignarreikninga, 349.686 krónur, auk innborgunar varnaraðila 12. febrúar 2001, að fjárhæð 35.828 krónur.

Í greinargerð, sem lögð var fram á dómþingi í héraði 22. maí 2001, krafðist varnaraðili sýknu af kröfu sóknaraðila með vísan til þess að hún hefði auk áðurnefndrar innborgunar greitt í fernu lagi samtals 283.000 krónur á tímabilinu frá 22. desember 2000 til 1. mars 2001. Jafnframt hefði sóknaraðili gefið út frá 20. desember 2000 til 3. apríl 2001 fimm nánar tilgreinda inneignarreikninga fyrir samtals 255.871 krónu, en ekki tekið mið af þeim í kröfugerð sinni, auk þess að fjárhæðir tveggja þeirra væru lægri en efni stæðu til. Máli sínu til stuðnings lagði varnaraðili fram ódagsetta kvittun fyrir greiðslu á 100.000 krónum og staðfestingu á greiðslu 80.000 króna 7. febrúar 2001, tvo inneignarreikninga samtals að fjárhæð 154.051 króna og yfirlit um hreyfingar á viðskiptareikningi sínum hjá sóknaraðila á tímabilinu frá 1. desember 2000 til 3. apríl 2001.

Þegar héraðsdómari tók málið fyrir 15. október 2001 lækkaði sóknaraðili kröfu sína um 145.384 krónur eða úr 531.675 krónum í 386.291 krónu. Þá lagði hann fram á nýjan leik alla inneignarreikninga, sem aðilar höfðu áður lagt fram, tvo reikninga samtals að fjárhæð 83.440 krónur, tvo inneignarreikninga fyrir alls 79.370 krónur og yfirlit um hreyfingar á viðskiptareikningi varnaraðila á tímabilinu frá 10. maí 1999 til 3. apríl 2001. Á dómþingi 10. janúar 2002 lagði varnaraðili meðal annars fram fjölmarga reikninga og inneignarreikninga. Í endurriti úr þingbók frá því þinghaldi kemur fram að héraðsdómari hafi beðið sóknaraðila að gera grein fyrir því frá hvaða liðum í dómkröfu hafi verið fallið þegar hann lækkaði hana um 145.384 krónur á dómþingi 15. október 2001. Hafi sóknaraðili svarað með því að vísa til yfirlits um hreyfingar á viðskiptareikningi varnaraðila, sem hann hafi áður lagt fram.

Við aðalmeðferð málsins 22. janúar 2002 lækkaði sóknaraðili kröfu sína enn um 200.000 krónur, eða úr 386.291 krónu í 186.291 krónu. Skýrði sóknaraðili breytinguna með því að nánar tiltekin greiðsla frá varnaraðila að fjárhæð 100.000 krónur hefði verið færð til skuldar í stað eignar á viðskiptareikningi hans.

II.

Í málinu deila aðilar um reikningsuppgjör vegna vörukaupa varnaraðila af sóknaraðila. Sóknaraðili hefur sem fyrr segir skýrt kröfu sína með því að um sé að ræða skuld samkvæmt 20 nánar tilgreindum reikningum að fjárhæð alls 917.189 krónur. Af gögnum málsins verður ráðið að heildarfjárhæð þessara reikninga sé 937.322 krónur. Hefur sóknaraðili ekki skýrt þennan mismun. Frá nefndum 917.189 krónum dró sóknaraðili framlagða inneignarreikninga, alls 349.686 krónur, og innborgun varnaraðila að fjárhæð 35.828 krónur. Þessa kröfu lækkaði sóknaraðili á síðari stigum um 145.384 krónur með vísan til yfirlits um hreyfingar á viðskiptareikningi varnaraðila og loks um 200.000 krónur vegna innborgunar varnaraðila, sem hafi þar verið færð til skuldar í stað eignar.

Samkvæmt framansögðu er ljóst að endanleg krafa sóknaraðila var öðrum þræði reist á skuld varnaraðila samkvæmt viðskiptareikningi hennar, en ekki eingöngu á nánar tilgreindum reikningum, inneignarreikningum og greiðslum þeim tengdum, svo sem þó var hermt í héraðsdómsstefnu. Í kæru til Hæstaréttar heldur sóknaraðili því fram að á umrætt yfirlit um hreyfingar á viðskiptareikningi varnaraðila séu færðir allir inneignarreikningar, sem hann hafi gefið út, og allar innborganir hennar. Samt sem áður hefur sóknaraðili enn enga grein gert fyrir því á hvaða grundvelli hann reisi kröfu sína eftir að hann lækkaði hana um samtals 145.384 krónur á dómþingi 15. október 2001. Var þó sérstakt tilefni til þess að sóknaraðili legði fram sundurliðun á kröfu sinni vegna athugasemda héraðsdómara í þinghaldi 10. janúar 2002, sbr. 2. mgr. og 3. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991.

Samkvæmt framansögðu er dómkrafa sóknaraðila það óljós að vísa verður málinu frá héraðsdómi. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Hjölur ehf., greiði varnaraðila, Sigríði Sigurlínu Pálsdóttur, 75.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. febrúar 2002.

Mál þetta, sem dómtekið var 10. janúar sl., var höfðað með stefnu, birtri 31. mars sl.

Stefnandi er Hjölur ehf., heildverslun, kt. 691200-5580, Bolholti 6, Reykjavík.

Stefnda er Sigríður Sigurlína Pálsdóttir, kt. 090566-3939, Írabakka 34, Reykjavík, persónulega og fyrir hönd óskráðs einkafyrirtækis hennar, Förðunarstúdíós Sillu, Fjarðargötu 13-15, Hafnarfirði.

Endanlegar dómkröfur stefnanda:

Að stefnda verði dæmd til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 186.291 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. mars 2001 til greiðsludags.

Jafnframt er krafist málskostnaðar úr hendi stefndu samkvæmt málskostnaðar-reikningi.

Dómkröfur stefndu:

Stefnda krefst sýknu af kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar að mati dómsins.

Til vara er þess krafist að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og að stefnandi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar að mati dómsins.

Málavaxtalýsing, málsástæður og rökstuðningur stefnanda

Í stefnu segir að stefnandi höfði mál þetta til heimtu skuldar samkvæmt 20 reikningum vegna vörukaupa stefndu hjá stefnanda sem rekur heildverslun með snyrtivörur og fleira í Reykjavík. Reikningarnir séu:

Reikn.nr.  

  Dags. 

Kr.

8018

09.12.00

51.821

8043

13.12.00         

155.496

8054

13.12.00 

8.256

8077

13.12.00 

9.865

8079

13.12.00 

2.687

8079

13.12.00

99.037

8096

13.12.00

36.439

8154

15.12.00

12.561

8163

16.12.00         

269.681

8173

18.12.00

37.904

8197

18.12.00

15.300

8240

20.12.00

59.946

8242

20.12.00 

2.627

8252

20.12.00

46.217

8254

20.12.00

4.121

8307

22.12.00

7.896

8332

23.12.00

60.380

8334

23.12.00

36.955

8440

09.01.01

18.013

8447

10.01.01 

2.120

Samtals 

 

917.189

Stefnandi segir að frá samtölu reikninganna, 917.189 kr., dragist framlagðir kreditreikningar samtals að fjárhæð 349.686 kr. og innborgun  hinn 12. febrúar 2001, 35.828 kr. Samtals dragist því frá framangreindum reikningum stefnanda 385.514 kr. Höfuðstóll skuldarinnar nemi því samtals 531.675 kr.

Við fyrirtöku málsins 15. okt. sl. lækkaði stefnandi kröfu sína í 386.291 kr. Við aðalmeðferð málsins 22. janúar sl. lækkaði stefnandi kröfur sínar um 200.000 kr.

Í stefnu er tekið fram að 1. janúar 2001 hafi stefnandi, Hjölur ehf., kt. 691200-5580, tekið yfir allar eignir og skuldir Hjalar, kt. 040543-3339, einkafyrirtækis Ingu Þyri Kjartansdóttur, sem áður hafi rekið einkafyrirtæki sitt Hjöl á sinni eigin kennitölu þar til hún stofnaði einkahlutafélag um  reksturinn.

Af hálfu stefnanda er vísað til meginreglu kröfuréttarins um efndir fjárskuldbindinga en regla þessi fái m.a. lagastoð í 5. gr., 6. gr. og 28. gr. laga nr. 39/1922. Um gjalddaga kröfunnar er einkum vísað til 12. gr. sömu laga. Kröfur um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti styður, stefnandi við reglur III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 með síðari breytingum. Málskostnaðarkröfu byggir stefnandi á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991. Um varnarþing er vísað til 32. gr. laga nr. 91/1991.

Málsástæður og rökstuðningur stefndu

Stefnda viðurkennir að hafa átt í viðskiptum við stefnanda en kveðst vera skuldlaus vegna þeirra viðskipta. Í raun standi stefnandi í skuld við stefndu.

Í stefnu geri stefnandi ekki grein fyrir öllum innborgunum stefndu inn á skuld við stefnanda og þá taki stefnandi ekki tillit til allra kreditreikninga er stefnandi hafi gefið út vegna skila stefndu á vörum til stefnanda. Auk þeirra innborgana sem tilgreindar eru í stefnu kveðst stefnda hafa greitt stefnanda alls 283.000 kr. á tímabilinu 22. desember 2000 til 1. mars 2001. Innborganir þessar séu:

Innborgun 22. desember 2000, 2.000 kr., 2. febrúar 2001, 80.000 kr., 12. febrúar 2001, 100.000 kr. og 1. mars 2001, 3.000 kr.

Til stuðnings þessu leggur stefnda m.a. fram hreyfingarlista úr bókhaldi stefnanda 9. janúar 2001 til 3. apríl 2001, færslukvittun og kvittun. Af hálfu stefndu er þess krafist að tekið verði tillit til framangreindra innborgana og krafa stefnanda því lækkuð að höfuðstól um 283.000 kr.

Auk kreditreikninganna sem taldir eru í stefnu hafi stefnandi gefið út eftirtalda kreditreikninga vegna skila stefndu á vörum til stefnanda:

Nr. 3595, dags. 20. desember 2000, 78.571 kr., nr. 3702, dags. 28. desember 2000, 17.038 kr., nr. 430, dags. 21. febrúar 2001, 6.211 kr., nr. 451, dags. 26. febrúar 2001, 52.071 kr. og nr. 976, dags. 3. apríl 2001, 101.980 kr.

Til stuðnings framangreindu leggur stefnda fram kreditreikninga nr. 451 og 976 og yfirlit úr viðskiptamannabókhaldi stefnanda. Framangreindir kreditreikningar séu samtals 255.871 kr. Stefnda telur að kreditreikningar nr. 451 og 976 séu of lágir og að rétt fjárhæð kreditreiknings nr. 451 sé 67.692 kr. og kreditreiknings nr. 976 132.574 kr.

Samkvæmt kreditreikningum þessum hafi stefnandi tekið sér 30% afslátt við skil á vörum samkvæmt þeim kreditreikningum. Stefnanda hafi verið óheimilt að taka sér þann afslátt. Umsamið hafi verið og venjulegt í viðskiptum aðila að stefnandi tæki til baka vörur á innkaupsverði. Vörur samkvæmt kreditreikningum nr. 451 og 976 hafi verið í fullkomnu lagi er þeim var skilað. Stefnda hafi þegar eftir útgáfu kreditreikninganna mótmælt þeirri einhliða og ólögmætu ákvörðun stefnanda að taka sér 30% afslátt við skil á þeim vörum. Stefnandi hafi ekki upplýst stefndu um þá ætlun sína að taka sér 30% afslátt er stefnda skilaði vörunum. Stefnda krefst þess að tekið verði tillit til fyrrgreindra kreditreikninga að teknu tilliti til 30% hækkunar kreditreikninga nr. 451 og 976 og krafa stefnanda verði því lækkuð að höfuðstól um 302.086 kr.

Samtals nemi því vantaldar innborganir stefndu og kreditreikningar útgefnir af stefnanda 585.086 kr. sem sé hærri fjárhæð en stefnukrafa. Fyrrgreindar innborganir og kreditreikningar komi til lækkunar á kröfu stefnanda og sé stefnda því skuldlaus við stefnanda. A.m.k. sé ósannað að stefnda standi í þeirri skuld við stefnanda sem fullyrt sé og krafa stefnanda sé með öllu vanreifuð.

Stefnandi hafi ekki enn gefið út kreditreikninga vegna allra vara er stefnda hafi skilað til stefnanda.

Af hálfu stefndu er vísað til reglna samninga- og kauparéttar. Þá vísar stefnda til laga um lausafjárkaup nr. 39/1922. Krafa stefndu um málskostnað er studd með vísan til XXI. kafla laga nr. 91/1991.

Niðurstaða

Að framan hefur verið rakið hvernig stefnandi hefur lækkað dómkröfu sína úr 531.675 kr. fyrst í 386,291 kr. og svo við aðalmeðferð málsins í 186.291 kr.

Við fyrirtöku málsins 10. janúar sl. lýsti fyrirsvarsmaður stefnanda því yfir vegna skjalaframlagningar stefndu að 10. des. 1999 hafi stefnda verið skuldlaus við stefnanda. Samt hefur stefnandi lagt fram fjölda skjala vegna viðskipta aðila fyrir þann tíma.

Þá er stefnukrafa var lækkuð í 386.291 kr. óskaði dómarinn eftir upplýsingum um það frá hvaða liðum í stefnukröfu hefði verið fallið. Um svar við spurningunni vísaði lögmaður stefnanda til dskj. 12. Það skjal er upp á 9 blaðsíður með allt upp í 57 færslur á síðu. Á bls. 1-3 á dskj. 12 eru færslur frá árinu 1999. Á eftir þessum þremur blaðsíðum koma blaðsíður merktar 1-5, það eru færslur frá árinu 2000. Síðast er svo ein blaðsíða með færslur frá árinu 2001.

Upphaflega var ætlunin að aðalmeðferð færi fram 10. janúar sl. en vegna framlagningar fjölda skjala í því þinghaldi og óljóss svars lögmanns stefnanda við spurningu dómara um það frá hvaða liðum í stefnukröfu hefði verið fallið þá er stefnukrafa var lækkuð í 386.291 kr. þótti rétt að fresta aðalmeðferð málsins. Þetta var gert í trausti þess að lögmaður stefnanda gæti skýrt kröfugerð sína og sett fram með skýrum hætti.

Þá er málið var tekið fyrir 22. janúar sl. lagði lögmaður stefnanda fram 8 skjöl en ekki skýrðist kröfugerð stefnanda við það.

Það sem hér hefur verið rakið þykir sýna að málatilbúnaður stefnanda er ekki í samræmi við meginreglu einkamálalaga nr. 91/1991 um skýran og ljósan málatilbúnað, sbr. e. lið 80. gr. laganna.

Ber því að vísa málinu frá dómi án kröfu.

Samkvæmt 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 ber að dæma stefnanda til þess að greiða stefndu málskostnað sem ákveðst 150.000 kr.

Auður Þorbergsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Máli þessu er vísað frá dómi.

Stefnandi, Hjölur ehf., greiði stefndu, Sigríði Sigurlínu Pálsdóttur, 150.000 kr. í málskostnað.