Hæstiréttur íslands

Mál nr. 235/2016

Málsóknarfélag hluthafa Landsbanka Íslands (Jóhannes Bjarni Björnsson hrl.)
gegn
Björgólfi Thor Björgólfssyni (Reimar Pétursson hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Málsóknarfélag
  • Kröfugerð
  • Málsástæða
  • Frávísunarúrskurður staðfestur

Reifun

M krafðist þess aðallega að viðurkennd yrði skaðabótaskylda B á tjóni félagsmanna M, vegna hlutabréfa sem þeir, eða aðilar sem þeir leiddu rétt sinn frá, hefðu átt í L hf. 7. október 2008 vegna þrenns konar mismunandi atvika. Í dómi Hæstaréttar kom fram að það leiddi af 1. og 2. mgr. 19. gr. a. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála að málsóknarfélagi væri heimilt í samræmi við tilgang sinn að höfða mál í eigin nafni og krefjast viðurkenningar í einu lagi á skaðabótaskyldu þess, sem stefnt væri, á tjóni félagsmanna sinna, enda væru uppfyllt skilyrði 1. mgr. 19. gr. og 2. mgr. 25. gr. laganna. Þar sem áskilið væri í 1. mgr. 19. gr. a. að kröfur félagsmanna yrðu að vera af sömu rót runnar yrði sami bótagrundvöllur að búa að baki kröfunum þannig að málatilbúnaður allra félagsmanna yrði einsleitur. Eins og kröfur M væru úr garði gerðar þá tefldi hann í raun fram þremur aðalkröfum sem ættu það sammerkt að fela í sér viðurkenningu á skaðabótaskyldu B á ætluðu tjóni félagsmanna M með skírskotun til þrenns konar mismunandi atvika. Þessi háttur á kröfugerð var talinn í andstöðu við 1. og 2. mgr. 19. gr. a. laga nr. 19/1991. Þá yrði málatilbúnaður M ekki skilinn á þann hátt að hann héldi því fram að B hefði með athafnaleysi sínu valdið því að hlutabréf félagsmanna hefðu orðið verðlaus í byrjun október 2008, heldur að félagsmennirnir hefðu ekki verið í þeirri stöðu að eiga hlut í bankanum á þeim tíma ef B hefði hagað sér á þann veg sem honum hefði borið. Eins og varakrafa M væri orðuð í héraðsdómsstefnu var talið að hún endurspeglaði ekki þennan málatilbúnað og fullnægði því ekki þeim áskilnaði sem gerður væri til skýrleika kröfugerðar í 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Var úrskurður héraðsdóms um frávísun málsins því staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Benedikt Bogason og Eiríkur Tómasson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. mars 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 30. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. mars 2016 þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

I

Samkvæmt 3. grein samþykkta fyrir sóknaraðila er tilgangur hans „að höfða og reka dómsmál um skaðabótakröfur félagsmanna á hendur Björgólfi Thor Björgólfssyni ... vegna tjóns sem félagsmenn urðu fyrir sem hluthafar í Landsbanka Íslands hf., sem og innheimta á skaðabótum.“ Þar segir jafnframt að heimilt sé „að láta fyrst reyna á það hvort bótaskylda sé fyrir hendi í viðurkenningarmáli.“ Í 4. grein samþykktanna er svohljóðandi ákvæði: „Þeir einir geta verið félagsmenn sem geta átt aðild að því dómsmáli sem félagið er stofnað til að reka“.

Í héraðsdómsstefnu gerir sóknaraðili svofelldar kröfur á hendur varnaraðila: „Stefnandi krefst þess aðallega að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefnda á tjóni félagsmanna stefnanda, vegna hlutabréfa sem þeir, eða aðilar sem þeir leiða rétt sinn frá, áttu í Landsbanka Íslands hf. þann 7. október 2008, vegna þess að: 1. Ekki voru veittar upplýsingar um lánveitingar Landsbanka Íslands hf. til stefnda og tengdra félaga, í ársreikningi Landsbanka Íslands hf. fyrir rekstrarárið 2005 sem birtur var þann 27. janúar 2006 og í síðari árshlutauppgjörum og ársreikningum Landsbanka Íslands hf., allt til þess að Fjármálaeftirlitið tók yfir stjórn Landsbanka Íslands hf. og skipaði honum skilanefnd með ákvörðun þann 7. október 2008. 2. Stefndi vanrækti á tímabilinu frá 30. júní 2006 til 7. október 2008, að upplýsa opinberlega um að Samson eignarhaldsfélag ehf. færi með yfirráð yfir Landsbanka Íslands hf., og teldist því móðurfélag bankans. 3. Stefndi vanrækti að sjá til þess að Samson eignarhaldsfélag ehf. gerði öðrum hluthöfum Landsbanka Íslands hf. yfirtökutilboð hinn 30. júní 2006, eða síðar, í samræmi við ákvæði laga um verðbréfaviðskipti ... Stefnandi krefst þess til vara að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefnda á tjóni félagsmanna stefnanda vegna hlutabréfa sem þeir, eða aðilar sem þeir leiða rétt sinn frá, áttu í Landsbanka Íslands hf. þann 7. október 2008, þegar Fjármálaeftirlitið tók yfir stjórn bankans og skipaði honum skilanefnd.“

Eftir því sem fram kemur í stefnunni byggir sóknaraðili málsókn sína meðal annars á því að félagsmenn sínir „hefðu ekki verið hluthafar í Landsbanka Íslands hf. og þar með ekki orðið fyrir tjóni, ef ekki hefði komið til hinnar saknæmu og ólögmætu háttsemi stefnda ... Bótaskylda stefnda gagnvart félagsmönnum stefnanda byggir því á sömu atvikum og aðstæðum, skv. 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991“. Kröfugerð sóknaraðila er skýrð svo í stefnunni: „Aðalkrafa stefnanda miðar að því að fá viðurkennt að hin ólögmæta og saknæma háttsemi stefnda hafi leitt til tjóns fyrir félagsmenn stefnanda. Stefnandi hefur skipt hinni ólögmætu háttsemi stefnda í þrennt og leitar eftir því að fá úr því skorið með dómi hvort bótaskylda verði viðurkennd fyrir hvert tilvik fyrir sig. Byggir stefnandi á því að tjón félagsmanna hans gæti verið mismunandi eftir því á hvaða grundvelli fallist yrði á skaðabótakröfu þeirra og frá hvaða tíma talið verður að slíkur bótaréttur hafi stofnast. Af þessari ástæðu telur stefnandi að félagsmenn hans hafi hagsmuni af því að fá úr því leyst fyrir hvert tilvik fyrir sig hvort bótaskylda sé fyrir hendi og þá frá hvaða tíma ... Af réttarfarslegum ástæðum og í varfærnisskyni gerir stefnandi einnig varakröfu ef svo ólíklega vildi til að dómurinn teldi sig ekki geta leyst úr aðalkröfu stefnanda eins og hún er sett fram, en einnig ef talið verður að bótaskylda stefnda byggi á því að saman leiði brot hans til bótaskyldu þó svo hvert og eitt tilvik leiði ekki sjálfstætt til bótaskyldu.“ Í umfjöllun um málsástæður og lagarök sóknaraðila í stefnunni er ekki gerður greinarmunur á kröfum hans, sem teflt er fram aðallega og til vara, þar sem sömu röksemdir eru sagðar eiga við um þær.

Í kæru sinni til Hæstaréttar lætur sóknaraðili meðal annars svo um mælt: „Vandinn sem sóknaraðili leitast eftir að leysa með aðalkröfu sinni er sá að ef viðurkenningarkrafa er sett fram án tilgreiningar til bótaskyldrar háttsemi gæti niðurstaða dóms orðið sú að viðurkenndur sé bótaréttur þegar eftir úrlausn á fyrstu málsástæðu sóknaraðila, sem snýr að vanrækslu á upplýsingagjöf um viðskipti varnaraðila við Landsbanka Íslands hf. Þar sem dómurinn hafi þá þegar fallist á kröfu sóknaraðila um viðurkenningu bótaréttar verði ekki leyst frekar úr málsástæðum hans. Í bótamáli í framhaldi af slíkri niðurstöðu er hugsandi að bótaréttur á þeim grundvelli reynist takmarkaðri en á þeim grundvelli ef brotið hefði verið gegn upplýsingaskyldu um að bankinn lyti yfirráðum Samson eignarhaldsfélags ehf. eða ef skylt hefði verið að setja fram yfirtökutilboð. Ljóst er að hagræði af rekstri viðurkenningarmálsins hefur þá ekki orðið það sem að var stefnt.“

II

Með lögum nr. 117/2010 var leitt í lög sérstakt úrræði til málshöfðunar, kennt við málsóknarfélög. Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. a. laga nr. 91/1991, sbr. 1. gr. laga nr. 117/2010, er þremur aðilum eða fleiri, sem eiga kröfur á hendur sama aðila, heimilt að láta málsóknarfélag, sem þeir eiga hlut að, reka í einu lagi mál um kröfur þeirra allra, enda eigi þær rætur að rekja til sama atviks, aðstöðu eða löggernings, í stað þess að sækja málið á grundvelli 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991. Skal málsóknarfélag stofnað til að reka tiltekið mál fyrir dómi og er óheimilt að láta það starfa við annað en rekstur málsins og eftir atvikum fullnustu á réttindum félagsmanna og uppgjör krafna þeirra. Séu málsóknarfélagi ekki settar sérstakar samþykktir skulu gilda um það almennar samþykktir sem ráðherra ákveður í reglugerð. Þá skal halda skrá um félagsmenn. Í 2. mgr. 19. gr. a. er kveðið á um að þótt málsóknarfélag eigi aðild að máli eigi félagsmenn hver fyrir sitt leyti þá hagsmuni sem málið varðar og njóti þar sömu stöðu og aðilar að því leyti sem annað leiði ekki af ákvæðum lagagreinarinnar. Í stefnu skal dómkrafa gerð í einu lagi í nafni félagsins en greint skal allt að einu frá félagsmönnum. Í 3. mgr. segir að gangi nýr aðili í málsóknarfélag eftir að mál er höfðað en áður en aðalmeðferð þess er hafin geti félagið aukið við dómkröfur sínar í þágu nýja félagsmannsins. Slík breyting á dómkröfum skal eftir þörfum gerð með framhaldsstefnu og gildir þá ekki það skilyrði 29. gr. laga nr. 91/1991 að félaginu verði metið til vanrækslu að hafa ekki gert kröfur sínar í einu lagi í öndverðu.

Í greinargerð með frumvarpi því, sem varð að lögum nr. 117/2010, var megininntaki þess lýst svo: „Í frumvarpinu felst sú grundvallarregla að um mál sem er höfðað og rekið af málsóknarfélagi gilda allar reglur réttarfarslaga að því marki sem ekki er beinlínis vikið frá þeim með reglum frumvarpsins. Frumvarpið nær til þeirra tilvika þar sem hver og einn sem telur til réttar á hendur öðrum hefði getið rekið mál fyrir dómi upp á sitt eindæmi eða með því að standa ásamt fleirum að málsókn með samlagsaðild samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga um meðferð einkamála. Þess í stað er með frumvarpinu lögð til heimild til stofnunar málsóknarfélags í því skyni að félagið komi fram og reki dómsmál en ekki þeir sem eiga þá hagsmuni sem leitað er fyrir dómi.“ Í skýringum með 1. mgr. 1. gr. frumvarpsins sagði meðal annars: „Einnig er áskilið með sama hætti og á við um samlagsaðild að félagsmenn í málsóknarfélagi eigi allir kröfur á hendur sama aðila sem eiga rætur að rekja til sama atviks, aðstöðu eða löggernings. Með öllu er ógerlegt að víkja frá þessu skilyrði enda verður ekki rekið í einu lagi mál þar sem sakarefnið er ekki eins gagnvart öllum sem eiga í hlut þannig að málatilbúnaður allra sé samhljóða ... Eins og beinlínis er tekið fram í 1. mgr. verður málsóknarfélag aðeins myndað til að reka tiltekið mál fyrir dómi og verður sakarefni þess að liggja fyrir við stofnun félagsins. Ef nauðsynlegt er af einhverju tilefni að reka fleiri mál fyrir dómi væri vitanlega hægt að stofna samtímis fleiri málsóknarfélög um hvert sakarefni og tæki þá aðild að hverju félagi mið af því hverjir ættu þá hagsmuni sem málareksturinn stendur um ... Þegar málsóknarfélag hefur verið myndað rekur það í einu lagi mál um kröfur allra félagsmanna. Í þessu felst að peningakröfur félagsmanna verða lagðar saman þannig að úr verði ein heildarkrafa sem beint verður að þeim sem málið er höfðað gegn. Ef málsóknarfélag gerir á hinn bóginn aðeins viðurkenningarkröfu er gert ráð fyrir því að sú krafa sé höfð uppi fyrir alla félagsmenn í senn án þess að þar sé gerður nokkur greinarmunur. Þannig yrði mál ekki rekið á þessum grundvelli ef aðstæður væru með því móti að tíunda yrði sérstaklega réttindi hvers og eins, enda er þá viðbúið að málatilbúnaður þeirra allra sé ekki einsleitur eins og áskilið er í frumvarpinu.“

 Það leiðir af 1. og 2. mgr. 19. gr. a. laga nr. 91/1991 að málsóknarfélagi er heimilt í samræmi við tilgang sinn að höfða mál í eigin nafni og krefjast viðurkenningar í einu lagi á skaðabótaskyldu þess, sem stefnt er, á tjóni félagsmanna sinna, enda séu uppfyllt skilyrði 1. mgr. 19. gr. og 2. mgr. 25. gr. laganna. Vegna þess að áskilið er í 1. mgr. 19. gr. a. að kröfur félagsmannanna verði að vera af sömu rót runnar verður sami bótagrundvöllur að búa að baki kröfunum þannig að málatilbúnaður allra félagsmanna sé einsleitur. Sé ekki um það að ræða, til dæmis ef kröfur þeirra um viðurkenningu á bótaskyldu styðjast við ólíkar málsástæður, væri af þeim sökum ekki unnt að beita því málsóknarúrræði sem hér um ræðir. Ef leiddar eru hins vegar nægar líkur að því að félagsmenn málsóknarfélags hafi orðið fyrir tjóni, svo sem vegna sömu atvika, jafnframt því sem gerð er grein fyrir í hverju tjón þeirra felist og hver tengsl þess séu við atvik máls, þannig að fullnægt sé áskilnaði 2. mgr. 25. gr. um lögvarða hagsmuni væri ekkert því til fyrirstöðu að félagið krefðist í einu lagi viðurkenningar á bótaskyldu gagnvart félagsmönnunum án tillits til bótafjárhæðar sem kæmi í hlut hvers og eins þeirra. 

III

Eins og kröfur sóknaraðila eru úr garði gerðar teflir hann í raun fram þremur aðalkröfum sem eiga það sammerkt að fela í sér viðurkenningu á skaðabótaskyldu varnaraðila á ætluðu tjóni félagsmanna sóknaraðila með skírskotun til þrenns konar mismunandi atvika. Svo sem áður greinir kveðst sóknaraðili vænta þess að tekin afstaða til allra krafnanna í þessu máli, jafnvel þótt mismunandi málsástæður búi þeim að baki og þær eigi við suma af félagsmönnum hans, en ekki aðra. Þessi háttur á kröfugerð er í andstöðu við 1. og 2. mgr. 19. gr. a. laga nr. 91/1991, eins og þau ákvæði verða skýrð samkvæmt framansögðu.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður málatilbúnaður sóknaraðila ekki skilinn á þann hátt að hann haldi því fram að varnaraðili hafi með athafnaleysi sínu valdið því að hlutabréf félagsmanna sóknaraðila hafi orðið verðlaus í byrjun október 2008, heldur að félagsmennirnir hefðu ekki verið í þeirri stöðu að eiga hlut í bankanum á þeim tíma ef varnaraðili hefði hagað sér á þann veg sem honum hefði borið. Eins og varakrafa sóknaraðila er orðuð í héraðsdómsstefnu endurspeglar hún ekki þennan málatilbúnað hans og fullnægir af þeim sökum ekki þeim áskilnaði, sem gerður er til skýrleika kröfugerðar í 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, auk þess sem hún er sama marki brennd og aðrar kröfur hans að röksemdir að baki henni eru ekki einsleitar, svo sem gert er ráð fyrir í 1. og 2. mgr. 19. gr. a. laganna.

Samkvæmt framansögðu verður hinn kærði úrskurður staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Málsóknarfélag hluthafa Landsbanka Íslands, greiði varnaraðila, Björgólfi Thor Björgólfssyni, 500.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. mars 2016.

I

         Mál þetta, sem var tekið til úrskurðar 11. febrúar sl., var höfðað 12. ágúst 2015 af Málsóknarfélagi hluthafa Landsbanka Íslands hf., Borgartúni 26 í Reykjavík, gegn Björgólfi Thor Björgólfssyni, 55 Clarendon Road, London, W11 4JD, Bretlandi.

         Í málinu gerir stefnandi þá kröfu aðallega að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefnda á tjóni félagsmanna stefnanda, vegna hlutabréfa sem þeir, eða aðilar sem þeir leiða rétt sinn frá, áttu í Landsbanka Íslands hf. þann 7. október 2008, vegna þess að:

1.      Ekki voru veittar upplýsingar um lánveitingar Landsbanka Íslands hf. til stefnda og tengdra félaga í ársreikningi Landsbanka Íslands hf. fyrir rekstrarárið 2005 sem birtur var þann 27. janúar 2006 og í síðari árshlutauppgjörum og ársreikningum Landsbanka Íslands hf., allt til þess að Fjármálaeftirlitið tók yfir stjórn Landsbanka Íslands hf. og skipaði honum skilanefnd með ákvörðun þann 7. október 2008.

2.      Stefndi vanrækti á tímabilinu frá 30. júní 2006 til 7. október 2008, að upplýsa opinberlega um að Samson eignarhaldsfélag ehf. færi með yfirráð yfir Landsbanka Íslands hf., og teldist því móðurfélag bankans.

3.      Stefndi vanrækti að sjá til þess að Samson eignarhaldsfélag ehf. gerði öðrum hluthöfum Landsbanka Íslands hf. yfirtökutilboð hinn 30. júní 2006, eða síðar, í samræmi við ákvæði laga um verðbréfaviðskipti.

         Til vara krefst stefnandi þess að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefnda á tjóni félagsmanna stefnanda vegna hlutabréfa sem þeir, eða aðilar sem þeir leiða rétt sinn frá, áttu í Landsbanka Íslands hf. þann 7. október 2008, þegar Fjármálaeftirlitið tók yfir stjórn bankans og skipaði honum skilanefnd. Í öllum tilvikum krefst stefnandi málskostnaðar.

         Stefndi gerir kröfu um að málinu verði vísað frá dómi og að stefnda verði dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að skaðlausu. Er krafan sett fram með vísan til 2. mgr. 99. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

                                                                                        II

         Stefnandi er málsóknarfélag einstaklinga og lögaðila sem eiga það sammerkt að hafa verið hluthafar í Landsbanka Íslands hf. 7. október 2008 eða leiða rétt sinn frá aðila sem átti hlutabréf í bankanum á þeim degi, eins og segir í stefnu. Við þingfestingu málsins voru 235 félagsmenn í málsóknarfélaginu, en listi með upplýsingum um hvern þessara félagsmanna og nafnverð hlutbréfa þeirra í Landsbankanum var þá lagður fram. Í þinghaldi í málinu 17. nóvember 2015 var lagður fram nýr listi þar sem fram kemur að félagsmenn séu orðnir 266. Upplýst var að þrír nýir félagsmenn hefðu bæst í hópinn í þinghaldi 9. desember 2015 og fimm í þinghaldi 11. febrúar 2016. Á þeim degi voru því samtals 274 einstaklingar og lögaðilar félagsmenn í stefnanda.

         Hinn 7. október 2008 var stjórn Landsbanka Íslands hf. tekinn yfir af Fjármálaeftirlitinu á grundvelli heimildar í lögum nr. 125/2008 og bankanum skipuð skilanefnd. Í stefnu segir að við það hafi hlutabréf hluthafa í bankanum orðið verðlaus. Byggir stefnandi málshöfðun sína á því að félagsmenn hans hefðu ekki verið hluthafar í bankanum við fall hans, „og þar með ekki orðið fyrir tjóni“, ef ekki hefði komið til saknæm og ólögmæt háttsemi stefnda sem lýst er í stefnunni.

         Í stefnu er gerð grein fyrir kaupum Samsons eignarhaldsfélags ehf. (Samson) á 45,8% hlut í Landsbanka Íslands hf. í lok árs 2002. Þar er síðan lýst með hvaða hætti hlutur Samsons í bankanum breyttist samkvæmt því sem upplýst er í ársreikningum bankans. Jafnframt er þar gerð grein fyrir því hvernig eignarhaldi Samsons var háttað frá árslokum 2002 til 30. júní 2008. Þar er því haldið fram að til ársins 2004 hafi stefndi átt 42,74% hlut í Samson í gegnum félag sem ber heitið Givenshire Equities Limited (Givenshire). Eftir að Samson leysti á árinu 2005 til sín hlut Magnúsar Þorsteinssonar, sem hafði upphaflega átt hlut í Samson ásamt stefnda og föður hans, Björgólfi Guðmundssyni, er því haldið fram í stefnu að hlutur Givenshire í Samson hafi aukist, fyrst í 49,5% árið 2005 en að hann hafi síðan hækkað í 49,9% árið eftir og hafi haldist haldist óbreyttur síðan þá. Frá 2006 mun stefndi einnig hafa átt persónulega 0,1% hlut í Samson. Fram kemur í stefnu að stefndi hafi verið formaður stjórnar Samsons.

         Í stefnu er gerð grein fyrir reikningsskilum bankans frá árinu 2005, en á því ári varð bankanum skylt að gera reikningsskil sín í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla. Kemur þar fram að meðal þeirra hafi verið staðallinn IAS 24, en hann hafi lagt þá skyldu á bankann að skýra frá viðskiptum hans við tengda aðila. Í ársreikningum Landsbankans var aldrei gerð grein fyrir viðskiptum stefnda og tengdra félaga við bankann.

         Í stefnu er gerð grein fyrir umfangi þessara viðskipta bankans við stefnda og félög sem honum tengjast. Þar er því haldið fram að 30. júní 2005 hafi heildarskuldbindingar bankans gagnvart stefnda og félögum, sem að mati Fjármálaeftirlitsins voru fjárhagslega tengd stefnda, numið 53,6 milljörðum króna, en 51,3 milljörðum króna eftir að tekið hafði verið tillit til frádráttar sem heimilaður væri. Hafi þessar skuldbindingar numið 49,7% af eiginfjárgrunni bankans. Í stefnunni er jafnframt vísað til gagna sem gefi til kynna að skuldbindingar stefnda og fjárhagslega tengdra félaga hafi numið 101 milljarði króna um mitt ár 2007 og að þessar skuldbindingar hafi aukist eftir það og numið samtals 141,5 milljörðum króna við fall bankans.

         Stefnandi telur að skylt hafi verið að gera grein fyrir þessum viðskiptum Landsbankans við stefnda og félög, sem honum tengdust, í reikningsskilum bankans. Vísar stefnandi þá til þess að stefndi hafi átt að teljast tengdur aðili í skilningi fyrrgreinds staðals IAS 24, eins og nánar er rökstutt í stefnu, meðal annars með skírskotun til IAS-staðals 28.

         Því er haldið fram í stefnu að þegar mat hafi verið lagt á þessi tengsl hafi einungis verið litið til þess hvort stefndi hafi með óbeinum hætti ráðið yfir meira en 20% atkvæðisréttar í bankanum. Hafi þá verið stuðst við upplýsingar frá framkvæmdastjóra Samsons um óbeint eignarhald stefnda í Landsbankanum sem stefndi hafi borið ábyrgð á að væru réttar. Er á því byggt af hálfu stefnanda að stefndi hafi með ýmsum hætti komið því til leiðar að villandi og beinlínis rangar upplýsingar um þetta atriði hafi verið lagðar til grundvallar við reikningsskil bankans fyrir árið 2005, sbr. ársreikning hans sem birtur var 27. janúar 2006, og þar til yfir lauk. Meðal annars af þeim sökum hafi ekki verið upplýst um skuldbindingar stefnda og tengdra félaga við bankann í ársreikningum hans fyrir árin 2005, 2006 og 2007. Að auki hafi það viðgengist við útreikning á óbeinu atkvæðavægi stefnda í Landsbankanum að líta framhjá eða fara rangt með fjölda hluta sem voru án atkvæðisréttar á hluthafafundum og þannig vanmeta óbeinan atkvæðisrétt stefnda.

         Í stefnu er því haldið fram að með þessu hafi stefndi með saknæmum og ólögmætum hætti komið því til leiðar að ekki var getið um upplýsingar í framangreindum ársreikningum um tengsl hans við Landsbankann. Þannig hafi verið komið í veg fyrir að viðskipti hans við bankann væru gerð opinber. Með því telur stefnandi að stefndi hafi vísvitandi blekkt lesendur ársreikninganna, en hann hafi vitað eða mátt vita að upplýsingar í reikningum bankans hefðu áhrif á afstöðu þeirra til þess hvort þeir vildu vera hluthafar í bankanum.

         Af hálfu stefnanda er jafnframt á því byggt að stefndi hafi borið ábyrgð á því að fylgjast með hvort Samson færi með yfirráð yfir Landsbankanum þannig að skylda til að gera öðrum hluthöfum yfirtökutilboð hafi orðið virk. Þessu til stuðnings vísar stefnandi meðal annars til ábendingar í ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 3. febrúar 2003, um heimild eigenda Samsons til að fara með virkan eignarhlut í Landsbankanum, og síðari bréfa Fjármálaeftirlitsins um þetta efni.

         Því er haldið fram í stefnu að eftir 30. júní 2006, þegar Samson hafi aukið við hlutafjáreign sína í Landsbankanum, hafi eignarhaldsfélagið í raun farið með meirihluta atkvæða í Landsbankanum og því átt að teljast móðurfélag hans. Af hálfu stefnanda er þá tekið mið af því að hlutafjáreign Landsbankans í Lúxemborg og svonefndra aflandsfélaga hafi verið óvirk. Stefnandi byggir á því að við þessar aðstæður hafi Samson borið að tilkynna öðrum hluthöfum um þessa breyttu stöðu og gera þeim yfirtökutilboð samkvæmt 1. mgr. 37. gr. laga nr. 33/2003. Hafi vafi leikið á þessu telur stefnandi að allri óvissu hafi verið eytt á aðalfundi Landsbankans 9. febrúar 2007 þegar í ljós hafi komið að hlutafé aflandsfélaganna var undir yfirráðum Landsbankans. Í kjölfarið telur stefnandi að stefnda hafi borið að bregðast við þessum upplýsingum og leggja mat á stöðu Samsons gagnvart Landsbankanum. Í síðasta lagi hafi yfirtökuskylda Samsons gagnvart öðrum hluthöfum orðið virk 30. júní 2008 eftir að hlutafé Samsons jókst úr 40,73% í 41,85%. Er þá tekið tillit til þess að líta hafi átt á hlutabréfaeign Straums-Burðaráss í Landsbankanum með hlutafjáreign Samsons í bankanum. Að því gættu hafi legið fyrir að Samson réði yfir meirihluta atkvæðisréttar í Landsbanknaum án tillits til hlutabréfaeignar aflandsfélaga í bankanum.

         Stefnandi byggir viðurkenningarkröfur sínar meðal annars á því að stefnandi hafi með saknæmum og ólögmætum hætti brotið gegn þeirri skyldu sinni að leggja mat á og upplýsa hluthafa í bankanum um að Samson færi með yfirráð yfir honum þegar hinn 30. júní 2006 eða við síðari tímamörk samkvæmt því sem rakið hefur verið. Hafi stefnda, sem formanni stjórnar Samsons, jafnframt borið að hafa frumkvæði að því að Samson gerði öðrum hluthöfum yfirtökutilboð í síðasta lagi fjórum vikum eftir að skylda til yfirtöku hafi stofnast.

         Í sérstökum kafla stefnunnar er vikið að því tjóni sem félagsmenn stefnanda telja sig hafa orðið fyrir. Þar er áréttað að hlutabréfin sem þeir áttu við fall Landsbankans 7. október 2008 hafi þá orðið verðlaus. Staðhæft er að félagsmenn stefnanda hefðu ekki kært sig um að vera hluthafar í Landsbankanum ef upplýst hefði verið um að bankinn lyti stjórn Samsons sem teldist móðurfélag hans og ef upplýsingar hefðu legið fyrir um umfangsmiklar lánveitingar bankans til stefnda. Þannig er því haldið fram að þeir félagsmenn sem áttu hlut í bankanum þegar skylt varð að veita þessar upplýsingar hefðu selt hlutabréf sín eftir að þær hefðu komið fram. Nemi fjártjónið þeirri fjárhæð sem greitt hefði verið fyrir hlutabréfin á almennum markaði. Þeir sem urðu hluthafar eftir að skylt varð að gefa þessar upplýsingar hefðu hins vegar ekki keypt hlutabréf í bankanum hefðu þær legið fyrir. Fjártjón þeirra svari til kaupverðs þeirra á hlutabréfunum.

         Stefnandi rökstyður þá ályktun sína að orsakatengsl séu milli tjónsins og saknæmrar og ólögmætrar háttsemi stefnda með því að vísa til þess að upplýsingar um hversu mikill óbeinn eignarhlutur stefnda hafi verið í Landsbankanum og um umfangsmiklar lánveitingar til stefnda og tengdra aðila, sem og að bankinn lyti fullum yfirráðum Samsons, séu allar mikilvægar upplýsingar fyrir fjárfesti í banka og skipti sköpum um það hvort hann vilji eiga hlut í honum. Það sé staðfest meðal annars í löggjöf auk þess sem það leiði af eðli máls.

         Af hálfu stefnanda er meðal annars á því byggt að stefndi verði að bera áhættuna af því að hafa leynt hluthafa upplýsingum um þessar umfangsmiklu lánveitingar svo að hlutahafar gætu tekið fjárfestingaákvarðanir á fullnægjandi forsendum. Þá hafi fjárfestar talið sig vera að fjárfesta í almenningshlutafélagi með dreifðri eignaraðild. Þegar sú forsenda hafi brugðist hafi grundvöllur þeirra fyrir kaupum á hlutum í félaginu einnig brostið.

         Stefnandi telur því að skilyrðum um orsakatengsl og sennilega afleiðingu milli saknæmrar háttsemi stefnda og tjóns félagsmanna stefnanda sé fullnægt. Þá er á því byggt að stefndi verði að bera sönnunarbyrði fyrir því ef hann vilji halda því fram að upplýsingar um þessi atriði hefðu ekki haft neikvæð áhrif á vilja félagsmanna stefnanda til að vera hluthafar í Landsbankanum. Vafi um viðbrögð félagsmanna stefnanda við réttum upplýsingum sé ekki unnt að meta stefnda í hag enda verði hann að bera áhættuna af því að hafa brotið gegn skyldum sínum. Þá telur stefnandi að stefndi hafi einnig orðið uppvís að því að því að stuðla að óheilbrigðum rekstri bankans, eins og nánar er rakið í stefnu. Hafi háttsemi hans sem eiganda virks eignarhluta í bankanum ekki verið til þess fallin að stuðla að traustum og heilbrigðum rekstri bankans, en það hafi átt þátt í því að hlutabréfin urðu verðlaus. Jafnframt eru færð rök fyrir því í stefnu að beita beri ströngu sakarmati í málinu.

                                                                                        III

         Í greinargerð stefnda eru færð rök fyrir því að vísa beri málinu frá dómi. Rétt er að rekja þessar röksemdir í stuttu máli. Í fyrsta lagi er á því byggt að í stefnu skorti á að gerð sé grein fyrir tímasetningu viðskipta félagsmanna stefnanda með hluti í bankanum. Þess vegna sé vonlaust að ráða af stefnu að lögvarðir hagsmunir kalli á úrlausn einstakra krafna.

         Í öðru lagi telur stefndi að miðað við forsendur stefnanda geti engir félagsmenn í stefnanda hafa orðið fyrir tjóni. Þannig hefði hluthöfum sem eignuðust hluti sína fyrir 27. janúar 2006 verið ómögulegt að selja hluti sína ef þær upplýsingar sem stefnda á að hafa verið skylt að birta hefðu komið fram í ársreikningi bankans sem þá var gefinn út, því enginn hefði eftir það viljað kaupa þessa hluti. Þeir félagsmenn stefnanda sem hafi selt einhverja hluti í bankanum eftir það hafi því notið góðs af ætlaðri saknæmri háttsemi stefnda, en aðrir komið út á sléttu. Varðandi þá félagsmenn stefnanda sem eignuðust hluti í bankanum eftir 27. janúar 2006 en fyrir 7. október 2008 telur stefndi að nauðsynlegt sé að rekja hvort og þá hvenær þeir hafi selt hluti sem þeir áttu. Hafi þeir hæglega getað keypt og selt hluti á þessu tímabili með hagnaði og skipti þá jafnvel engu þó að þeir hlutir hafi orðið verðlausir í lok tímabilsins. Stefnandi hafi síðan engar líkur leitt að því að þeir sem eignuðust hluti í bankanum eftir 7. október 2008 hafi orðið fyrir tjóni. Af þessum sökum hafi stefnandi ekki leitt nægar líkur að því að félagsmenn hans hafi orðið fyrir tjóni. Því sé ekki fullnægt áskilnaði 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 fyrir því að stefnandi eigi lögvarða hagsmuni af því að fá leyst úr viðurkenningarkröfu sinni.

         Í þriðja lagi sé málið vanreifað í stefnu. Þannig sé óskýrt hverja dómur eigi að binda eins og kröfugerð stefnanda sé úr garði gerð. Þar er vísað til þess sem þar kemur fram um að krafist sé viðurkenningar á réttindum félagsmanna vegna hlutabréfa sem þeir „eða aðilar sem þeir leiða rétt sinn frá“ áttu í Landsbankanum 7. október 2008. Óljóst sé hverjir þessir aðilar eru auk þess sem samþykktir stefnanda heimili ekki aðild þessara aðila. Þá séu staðfestingar á félagsaðild ekki í traustu horfi. Jafnframt séu tímasetning og verð viðskipta félagsmanna vanreifuð. Án þeirra upplýsinga sé útilokað að slá neinu föstu um afkomu félagsmanna af viðskiptunum og ætlað tjón þeirra. Þá séu forsendur þær sem hafi búið að baki kaupum og sölu félagsmanna á hlutum í Landsbankanum á þessum tíma vanreifaðar. Að auki ríki óvissa um þá aðferð sem stefnandi telur rétt að leggja til grundvallar við mat á tjóni félagsmanna. Stefndi telur enn fremur að stefnanda hafi verið skylt samkvæmt 19. gr. a í lögum nr. 91/1991 að greina frá félagsmönnum í stefnu en það hafi ekki verið gert. Þá hafi verið nauðsynlegt að gefa út framhaldsstefnu varðandi hagsmuni félagsmanna sem bæst hafi við eftir að málið var höfðað. Án slíkrar framhaldsstefnu, er lýsi viðskiptum þeirra félagsmanna, sé stefnda ómögulegt að halda uppi vörnum í greinargerð um að einstakir félagsmenn hafi ekki orðið fyrir tjóni.

         Í fjórða lagi byggir stefnandi á því að skilyrði 19. gr. a í lögum nr. 91/1991, um að kröfur félagsmanna eigi rætur að rekja til sama atviks, aðstöðu eða löggernings, sé ekki fullnægt. Atvik að baki kröfu hvers og eins séu mismunandi er geti haft áhrif við mat á skaðabótaábyrgð stefnda. Stefndi vísar einnig til þess að í ákvæðinu sé veitt heimild til þess að láta málsóknarfélag reka í „einu lagi“ mál um kröfur þeirra allra. Óhjákvæmilegt sé af hálfu stefnanda að fjalla um það hvort einstakir félagsmenn hafi orðið fyrir tjóni, gera grein fyrir því í hverju tjón þeirra sé fólgið og hver séu tengsl þess við atvik máls. Eðli málsins samkvæmt geti þetta ekki gerst í „einu lagi“ enda séu forsendur félagsmanna mismunandi. Málið geti því ekki verið einsleitt eða verið rekið í „einu lagi“ um kröfur allra.

         Í fimmta lagi byggir stefndi á því að dómkröfur stefnanda séu ódómtækar. Aðalkrafan sé ekki nægilega skýr þar sem ekki komi þar fram hvaða daga uppgjörin, sem þar er vísað til, hafi verið birt. Þá sé enga afmörkun að finna í varakröfu hver sú háttsemi stefnda geti verið sem eigi að leiða til bótaskyldu. Að lokum telur stefndi að skilyrðum kröfusamlags, sbr. 27. gr. laga nr. 91/1991, sé ekki fullnægt, enda séu þær í eðli sínu ósamkynja og varði mismunandi atvik, aðstöðu og löggerninga.

         Stefnandi mótmælir framangreindum röksemdum stefnda. Byggir hann á því að fylgt hafi verið fyrirmælum 19. gr. a í lögum nr. 91/1991 í einu og öllu við höfðun málsins, þar á meðal um tilgreiningu félagsmanna, auk þess sem hann færir rök fyrir því að eins og kröfugerð sé háttað þurfi ekki að gefa út framhaldsstefnu þegar nýir félagsmenn bætist við. Þá sé skilyrðum samlagsaðildar fullnægt, enda eigi kröfugerðin rætur að rekja til sömu aðstæðna er lúti að óbeinu eignarhaldi stefnda á Landsbankanum í gegnum Samson og til sömu atvika er snúi að aðgerðum stefnda og Landsbankans sem áhrif hafi haft á óbeinan eignarhlut stefnda í bankanum. Þó að aðstæður einstakra félagsmanna geti að einhverju leyti verið mismunandi sé þessu skilyrði eftir sem áður fullnægt. Stefndi mótmælir því einnig að dómkröfurnar séu ekki nægilega skýrar eða að málið sé vanreifað, auk þess sem hann færir rök fyrir því að skilyrðum 1. mgr. 27. gr. laga nr. 91/1991 fyrir kröfusamlagi sé fullnægt, enda sé krafan samkynja fyrir alla félagsmenn.

         Varðandi athugasemdir stefnda um að stefnandi hafi ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins bendir stefnandi á að þótt leiða þurfi líkur að tjóni félagsmanna vegna vanrækslu stefnda sé ekki farið fram á það að neinu verði slegið föstu um tjónið. Þá bendir hann á að Hæstiréttur Íslands hafi þegar komist að þeirri niðurstöðu að einn stofnaðila hafi haft lögvarða hagsmuni af því að afla sönnunargagna vegna þeirra atvika er dómkröfur stefnanda taka til, sbr. dóm í máli nr. 259/2013. Telur stefnandi ljóst að félagsmenn hans hafi allir hagsmuni af því að fá leyst úr lögmæti gerða stefnda. Þá sé málið sett þannig fram að allir félagsmenn stefnanda eigi það sameiginlegt að hafa orðið fyrir tjóni vegna þess að hlutabréf í Landsbankanum urðu verðlaus.

                                                                                        IV

         Stefnandi leitar með málshöfðun sinni eftir því að fá viðurkenningu dómsins á skaðabótaskyldu stefnda gagnvart félagsmönnum stefnanda, sem allir eiga það sammerkt að hafa átt hlut í Landsbanka Íslands hf. þegar hann féll 7. október 2008. Málshöfðunin er reist á heimild í 19. gr. a í lögum nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. lög nr. 117/2010. Þar er aðilum, þremur eða fleiri, sem eiga kröfur á hendur sama aðila sem eiga rætur að rekja til sama atviks, aðstöðu eða löggernings, heimilað að láta málsóknarfélag, sem þeir eiga hlut að, reka í einu lagi mál um kröfur þeirra allra í stað þess að sækja mál samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laganna.

         Áskilnaður ákvæðisins um að krafan eigi rætur að rekja til sama atviks, aðstöðu eða löggernings er afdráttarlaus. Séu kröfur félagsmanna málsóknarfélags þannig ekki af sömu rót ber dómara að vísa málinu frá án kröfu. Í athugasemdum við frumvarp það sem varð að lögum nr. 117/2010 segir að ógerlegt sé að víkja frá þessu skilyrði „enda verður ekki rekið í einu lagi mál þar sem sakarefnið er ekki eins gagnvart öllum sem eiga í hlut þannig að málatilbúnaður allra sé samhljóða“. Þessi ummæli í lögskýringargögnum gefa þó ekki tilefni til að túlka þennan áskilnað með öðrum hætti en orðalagið gefur tilefni til og í samræmi við 19. gr. laga nr. 91/1991.

         Aðalkrafa stefnanda og málatilbúnaður hans í heild ber með sér að hann telji stefnda bera skaðabótaskyldu gagnvart félagsmönnum stefnanda vegna þriggja atriða er tengjast óbeinu eignarhaldi hans á Landsbanka Íslands. Þessi atriði lúta að skorti á nánar tilgreindum upplýsingum um tengsl stefnda við bankann og vanrækslu á að gera öðrum hluthöfum yfirtökutilboð. Stefnandi virðist byggja á því að hvert þessara atriða leiði til bótaskyldu stefnda gagnvart hverjum og einum félagsmanni stefnanda. Í umfjöllun um tjón félagsmanna er þannig lögð áhersla á að félagsmenn hans hafi átt hlutabréf í bankanum, sem hafi orðið verðlaus 7. október 2008. Ef þær upplýsingar hefðu legið fyrir, sem stefnandi telur að hafi skort, hefðu félagsmenn hans hins vegar ekki kært sig um að eiga bréf í bankanum. Þeir sem áttu bréf þegar upplýsingarnar áttu að liggja fyrir, eða þegar gera átti þeim yfirtökutilboð, hefðu því verið búnir að selja bréfin áður en þau urðu verðlaus. Þeir sem keyptu hlut í bankanum eftir þann tíma hefðu aftur á móti aldrei lagt fjármuni sína í slíka fjárfestingu ef þeir hefðu búið yfir vitneskju um þau atriði sem vísað er til í dómkröfum stefnanda.

         Í stefnu er þó viðurkennt að tjón félagsmanna stefnanda geti verið mismunandi eftir því á hvaða grundvelli fallist yrði á að slíkur bótaréttur hefði stofnast. Því telur stefnandi að félagsmenn hans hafi hagsmuni af því að fá leyst úr því fyrir dómi hvort hvert einstakt atriði, sem lýst er í þremur töluliðum í stefnukröfum, leiði til bótaskyldu stefnda. Skiptir það meðal annars máli til að fá úr því skorið frá hvaða tíma bótaskyldan hafi stofnast.

         Samkvæmt framansögðu felur aðalkrafa stefnanda í sér þrjár sjálfstæðar kröfur á hendur stefnda sem þó eru allar samkynja, þ.e. um viðurkenningu á skaðabótaskyldu. Heimilt er að haga kröfugerð með þessum hætti, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 91/1991. Kröfurnar eiga hver um sig rætur að rekja til sömu skaðaverka er lúta að ætlaðri vanrækslu stefnda á skyldum sínum til að upplýsa um tengsl sín og Samsons við Landsbankann. Sakarefnið horfir að þessu leyti eins við öllum félagsmönnum stefnanda. Þá gildir lýsing stefnanda á ætluðu tjóni félagsmanna, að því marki sem hennar er þörf, og umfjöllun um tengsl þessa tjóns við vanrækslu stefnda, jafnt fyrir alla félagsmenn þó að að umfang á tjóni hvers og eins geti ráðist af atriðum sem varði þá sérstaklega. Kröfur stefnanda verða samkvæmt framansögðu raktar til sömu atvika eða aðstöðu eins og áskilið er í 19. gr. a í lögum nr. 91/1991.

         Viðurkenningarkröfur stefnanda eru reistar á heimild í 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, en þar segir að hafi stefnandi lögvarða hagsmuni af því að skorið sé úr um tilvist eða efni réttinda eða réttarsambands geti hann leitað viðurkenningardóms um kröfur sínar í þeim efnum. Áskilnaður ákvæðisins um lögvarða hagsmuni hefur verið skýrður á þá leið að sá sem krefst viðurkenningar á skaðabótaskyldu verði að leiða nægar líkur að því að hann hafi orðið fyrir tjóni, auk þess sem hann verður að gera grein fyrir því í hverju tjón hans felist og hver tengsl þess séu við ætlað skaðaverk. Í stefnu verður stefnandi því að gera nokkra grein fyrir þessum atriðum svo viðhlítandi rök séu færð fyrir því að hann eigi lögvarða hagsmuni af úrlausn viðurkenningarkröfunnar.

         Ekki er ástæða til annars en að ætla að öll hlutabréf félagsmanna stefnanda í Landsbanka Íslands hf. hafi orðið verðlaus í kjölfar þess að stjórn bankans var yfirtekin af Fjármálaeftirlitinu í október 2008 eins og stefnandi gengur út frá. Eignir þeirra fóru því forgörðum við fall bankans. Stefnandi reisir röksemdir sínar fyrir skaðabótakröfunni á hendur stefnda hins vegar ekki á því að hann hafi valdið því með athafnaleysi sínu að þessar eignir urðu verðlausar. Aftur á móti telur hann að hefði stefndi hagað sér á þann veg sem honum hafi borið að gera hefðu félagsmenn stefnanda ekki verið í þeirri stöðu að eiga hlut í bankanum þegar hann féll. Að þessu leyti eru röksemdir stefnanda aðrar en sóknaraðila í dómi Hæstaréttar Íslands frá 15. maí 2013 í málinu nr. 259/2013.

         Þessi röksemdafærsla er ljóslega háð þeirri forsendu að hver og einn félagsmanna stefnanda hefði brugðist eins við hefði stefndi gert það sem honum bar að gera að mati stefnanda. Allir félagsmennirnir, sem áttu hlutabréf í bankanum á þeim tíma, hefðu samkvæmt þessu selt hlutabréf sín í bankanum, annað hvort á almennum hlutabréfamarkaði eða með því að taka yfirtökutilboði Samsons. Þá hefðu engir félagsmanna stefnanda keypt hlutabréf í bankanum ef stefndi hefði hagað sér eins og stefnandi telur að honum hafi verið skylt að gera.

         Almennt verður að ætla að ólíkar forsendur liggi að baki ákvörðunum einstakra fjárfesta við kaup og sölu á hlutabréfum. Á þeim grunni verður að telja með ólíkindum að allir félagsmenn stefnanda hefðu brugðist eins við þeim upplýsingum sem stefnandi telur að hafi skort um viðskipti stefnda við bankann og stöðu Samsons gagnvart honum. Á það við þó að um mikilsverðar upplýsingar hafi verið að ræða sem eru almennt til þess fallnar að hafa áhrif á ákvarðanir fjárfesta. Í þessu sambandi verður að hafa í huga að yfirlýsingar félagsmanna stefnanda, sem komu fram eftir að bréfin urðu verðlaus, um að þeir hefðu selt hlut sinn eða látið hjá líða að kaupa hlut í bankanum ef þessar upplýsingar hefðu komið fram, hefur enga þýðingu fyrir dómi. Þá verður því ekki varpað á stefnda að leiða líkum að því að félagsmenn stefnanda hefðu hvorki selt bréf í bankanum né látið hjá líða að kaupa þau, eins og haldið er fram í stefnu, en með því væri stefnandi leystur undan því að færa rök fyrir því að hann eigi lögvarða hagsmuni af úrlausn viðurkenningarkrafna sinna.

         Þau atriði sem hér hafa verið rakin eiga sérstaklega við um þann hóp félagsmanna sem átti hlut í bankanum áður en stefnandi telur að fyrst hafi átt að birta þær upplýsingar sem hann vísar til. Ef fallist yrði á röksemdir stefnanda verður jafnframt að leggja til grundvallar að við birtingu upplýsinganna hefði verulega dregið úr áhuga fjárfesta á því að kaupa hlutabréf í bankanum, auk þess sem söluþrýstingur á þeim hefði aukist með þeim afleiðingum að verð hlutabréfanna hefði lækkað. Einstakir fjárfestar í þessum hóp kunna að hafa selt hluti í bankanum frá þeim tíma og allt til þess að bankinn féll í október 2008. Þannig má reikna með að einhverjir félagsmenn stefnanda í þessum hóp hafi hagnast af því að stefndi lét hjá líða að gera það sem stefnandi telur að honum hafi verið skylt að gera.

         Eins og málið er lagt fyrir af hálfu stefnanda ríkir þannig óvissa um það hvort þeir sem tilheyra framangreindum hópi félagsmanna hafi orðið fyrir tjóni af ætlaðri vanrækslu stefnda. Þá er sú forsenda, sem stefnandi leggur til grundvallar málatilbúnaði sínum, að allir félagsmenn stefnanda hefðu brugðist við upplýsingagjöfinni ýmist með því að selja hlutabréf sín í bankanum eða láta hjá líða að kaupa þau, háð mikilli óvissu. Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið þykir stefnandi ekki hafa gert viðhlítandi grein fyrir því tjóni sem félagsmenn stefnanda eiga að hafa orðið fyrir vegna ætlaðrar vanrækslu stefnda. Ekki liggur því fyrir að félagsmenn stefnanda eigi lögvarða hagsmuni af því að fá leyst úr viðurkenningarkröfum sínum. Felur kröfugerð stefnanda því einungis í sér beiðni um álit á lögfræðilegu efni án þess að fyrir liggi að hún sé nauðsynleg til úrlausnar á ákveðnum kröfum. Með vísan til 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 2. mgr. sömu greinar, verður því að fallast á kröfu stefnda um að vísa málinu frá dómi.

         Með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefnanda gert að greiða stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 400.000 krónur.

         Ásmundur Helgason héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

                                                            Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

         Máli þessu er vísað frá dómi.

         Stefnandi, Málsóknarfélag hluthafa Landsbankans hf., greiði stefnda, Björgólfi Thor Björgólfssyni, 400.000 krónur í málskostnað.