Hæstiréttur íslands

Mál nr. 209/2016

Þrotabú Háfells ehf. (Bjarki Þór Sveinsson hrl.)
gegn
Rafmönnum ehf. (Arnar Þór Stefánsson hrl.)

Lykilorð

  • Niðurfelling máls
  • Málskostnaður

Reifun

Eftir kröfu þrotabús H ehf. var mál þess á hendur R ehf. fellt niður fyrir Hæstarétti. Var þrotabú H ehf. dæmt til greiðslu málskostnaðar fyrir réttinum að kröfu R ehf.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 15. mars 2016. Með bréfi til réttarins 30. ágúst sama ár tilkynnti áfrýjandi að hann félli frá áfrýjun málsins. Af hálfu stefnda er gerð krafa um málskostnað fyrir Hæstarétti.

Með vísan til c. liðar 1. mgr. 105. gr., sbr. 166. gr., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður málið fellt niður fyrir Hæstarétti.

Samkvæmt 2. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr., laga nr. 91/1991 verður áfrýjanda gert að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir. 

Dómsorð:

Mál þetta er fellt niður.

Áfrýjandi, þrotabú Háfells ehf., greiði stefnda, Rafmönnum ehf., 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

                                                           

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 18. desember 2015.

Mál þetta, sem dómtekið var að lokinni aðalmeðferð miðvikudaginn 28. október, er höfðað hinn 24. janúar 2014 af Rafmönnum ehf., Frostagötu 6 c, Akureyri, á hendur Háfelli ehf., Skeifunni 19, Reykjavík. Til réttargæzlu er stefnt Lýsingu hf., Ármúla 3, Reykjavík.

Stefnandi krefst þess að stefnda Háfell ehf. verði dæmt til að greiða stefnanda 46.376.895 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga 38/2001 af 31.077.341 krónu frá 28. janúar 2010 til 30. október 2010, en af 32.482.218 krónum frá þeim degi til 21. desember 2010, en af 32.546.382 krónum frá þeim degi til 26. febrúar 2011, en af 35.913.857 krónum frá þeim degi til 31. maí 2011, en af 46.376.895 krónum frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum innborgunum sem hér segir, 18.000.000 króna hinn 5. marz 2010, 2.000.000 króna hinn 26. marz 2010, 1.500.000 krónur hinn 31. marz 2010 og 577.539 króna hinn 20. ágúst 2010. Þá krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnda.

Stefnda krefst þess að sér verði gert að greiða stefnanda 1.404.877 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, en sýknu að öðru leyti. Stefnda krefst málskostnaðar úr hendi stefnanda.

Réttargæzlustefnda hefur ekki látið málið til sín taka.

Aðalkröfu stefndu um frávísun málsins var hafnað með úrskurði 19. desember 2014.

Málavextir

Stefnandi og tékkneskt fyrirtæki, Metrostav a.s., tóku að sér gerð Héðinsfjarðarganga fyrir Vegagerðina og var verkið unnið á árunum 2006 til 2010. Stefnandi, sem er verktakafyrirtæki á sviði rafvirkjunar, var undirverktaki stefnda samkvæmt verksamningi sem undirritaður var 22. maí 2006. Skyldi stefnandi sjá um „rafbúnað í verkinu“ og var í verksamningnum nánar tilgreint hvað í því fælist.  Í 3. gr. verksamningsins segir meðal annars að verkið skuli framkvæmt í samræmi í staðalinn ÍST30:2003 og sé hann hluti verksamningsins og „honum til skýringar og fyllingar.“ Í 4. gr. verksamningsins segir meðal annars: „Aðalverktaki skal greiða undirverktaka framlagða reikninga um leið og hann fær greiðslur frá verkkaupa, eða mest þremur dögum síðar. Verði tafir á greiðslum til undirverktaka vegna atvika sem undirverktaki getur ekki borið á er undirverktaka heimilt að stöðva vinnu/framkvæmd við verkþátt sinn þar til greiðsla hefur borist frá aðalverktaka.“

Hinn 23. febrúar 2010 gerðu aðilar með sér viðaukasamning við verksamninginn. Í 7. gr. viðaukans segir meðal annars: „[Stefnandi] fær greiddar verkstöður frá Lýsingu hf. og liggur fyrir greiðsluyfirlýsing þar sem Lýsing ábyrgist skilvísar greiðslur frá [stefnda] til [stefnanda] þar til lokagreiðsla berst vegna verksins.“

Hinn 2. marz 2010 lýsti réttargæzlustefndi yfir að hann ábyrgðist allar greiðslur til stefnanda vegna vinnu hans sem undirverktaka stefnda við Héðinsfjarðargöng, verkþátt 8.25, rafbúnað.

Í málinu liggja fimm reikningar frá stefnanda til stefnda.

Hinn fyrsti er dagsettur 31. desember 2009 og segir á honum að hann sé „Reikningur skv. verkstöðu“, 24.961.720 krónur en 31.077.341 króna með virðisaukaskatti. Á reikninginn er einnig skráð: „Verk: Hérðinsfj.göng, Verstaða [sic] 1“.

Annar er dagsettur 30. október 2010 og er sundurliðaður á þá leið að gerð sé krafa vegna vinnu rafvirkja og rafvirkjanema og vegna efnissölu ásamt virðisaukaskatti. Er reikningurinn að fjárhæð 1.119.424 krónur en 1.404.877 krónur með virðisaukaskatti. Á reikninginn er einnig skráð: „Verk: Aukaverk – Breyting á skúmsvæðum (up“.

Þriðji reikningur er dagsettur 30. október 2010 og er að fjárhæð 56.810 krónur en 64.167 krónur með virðisaukaskatti og er sagður vera vegna efnissölu með virðisaukaskatti. Á reikninginn er einnig skráð: „Verk: Héðinsfjarðargöng AUK-blásarar“.

Fjórði reikningur er dagsettur 26. febrúar 2011 og á hann er skráð: „Reikningur skv. yfirliti Ógreiddur virðisaukaskattur“. Er reikningurinn að fjárhæð 2.683.247 krónur en 3.367.475 krónur með virðisaukaskatti. Á reikninginn er skráð tilvísunin: Héðinsfjarðargöng.

Fimmti reikningur er dagsettur 31. maí 2011 og er sagður vera vegna leiðréttingar á byggingarvísitölu. Hann er að fjárhæð 8.337.082 krónur en 10.463.038 krónur með virðisaukaskatti. Á reikninginn er einnig skráð: „Verk: TB.Héðinsfjarðagöng“ [sic].  Með reikningnum fylgir skjal sem merkt er „Uppreikningur á verðbótum miðað við samning við vegagerðina“. Í lok skjalsins stendur: „Mismunur vegna leiðréttingar 10.463.038“.

Í málinu liggja fyrir allnokkur tölvupóstsamskipti aðila. Skal hér rakið að hinn 7. apríl 2010 skrifar Árni Páll Jóhannsson, forsvarsmaður stefnanda, Skarphéðni Ómarssyni, forsvarsmanni stefnda, og segir: „Við höfum áhyggjur af eftirstöðvum á því gamla þar sem greiðslur hafa ekki verið í samræmi við það sem talað var um, 3 greiðslur (eða minni upphæðir og reglulegra flæði) og allt uppgert í síðasta lagi 15. apríl. Nú er 7. apríl og við einungis fengið 3,5 milljón og eftirstöðvar rúmar 11,5. Er ekki öruggt að þetta verði allt uppgert í næstu viku??“ Skarphéðinn svarar sama dag: „Eins og stefnt hefur verið að þá verður þessi skuld að fullu greidd um miðjan þennan mánuð.“ Hinn 4. júní 2010 skrifar Árni Páll Skarphéðni og segir þá meðal annars: „Þetta eru peningar sem við eigum útistandandi og viljum gjarnan fá [greidda]. Við höfum sýnt ykkur mikinn skilning og þolinmæði en nú vil ég fá að sjá greiðslur.“ Þessu svarar Skarphéðinn sama dag og segir meðal annars: „Að sjálfsögðu greiðum við ykkur þessar eldri eftirstöðvar. [...] Það er því ljóst að lausafjárstaða okkar lagast ekki fyrr en um miðjan þennan mánuð. Við skulum þá reyna að greiða inn á þessa eldri skuld.“ Hinn 7. september 2010 skrifar Árni Páll Skarphéðni og spyr: „Hvernig er með þetta gamla, vil fá eitthvað inn á það.“ Skarphéðinn svarar sama dag: „Þetta er ennþá þungt. Ég gæti e.t.v. hent inn á það gamla eitthvað í þessari eða næstu viku.“ Árni Páll segir þá, sama dag: „Ef ég á að vera alveg hreinskilinn þá er mín tilfinning sú að þetta verði ekki greitt nema mjög seint og illa. Ef þið sjáið ekki framúr þessu nú eins og framvindan ykkar er í dag og óðum styttist í að þið ljúkið ykkar verkþætti, s.s. ykkar framvindum, verðum við að leita annarra leiða til að ganga frá þessu. Ég veit að það eru einhverjar magnaukningar í rafmagnsliðnum sem og aukaverk sem á eftir að sækja á verkkaupa. Ég legg til, í raun fer ég fram á, að við fáum ykkar álagningu af þeim liðum beint til okkar sem gengur þá upp í gömlu skuldina. Tel þetta vera eina færa leiðin til að greiða þetta niður.“ Skarphéðinn svarar þessu sama dag: „Það hefur alltaf verið mín áætlun að greiða upp alla skuldina við ykkur. Ég er til í að skoða alla möguleika til þess að það verði.“ Þessu svarar Árni Páll með tölvubréfi til Skarphéðins og fleiri einstaklinga, þar á meðal Einars Erlingssonar hjá stefnda, hinn 9. september 2010 og segir þar meðal annars: „Eins og ég kom inn á í vikunni þá er þolinmæðin okkar nú endanlega á þrotum varðandi gömlu skuldina og er ekki að sjá að þetta verði greitt. Það samkomulag sem við sættumst á um miðjan ágúst um greiðslu í þremur hlutum hefur ekki staðist. Ykkar eigin framvinda í verkinu er lítil að verða en þó nokkur framvinda er eftir í rafmagnspakkanum, meðal annars aukaverk og magnaukningar. Ég er búinn að leggja til ákveðna lausn, að ykkar framlegð út úr framvindum sem tengjast rafmagnspakkanum greiðist beint til okkar þar til gamla skuldin er greidd að fullu. Eina svarið sem ég hef fengið að þið séuð tilbúnir til að skoða allar leiðir. Ég vil hins vegar fá endanlega lausn frá ykkur varðandi greiðslu þessarar skuldar en á meðan þetta er ekki klárt kemur ekkert frá okkur varðandi magnaukningar og aukaverk.“ Þessu bréfi svarar Einar Erlingsson sama dag og segir meðal annars: „Þykir miður að þessi staða sé komin upp. Við verðum að vera samstiga í því að láta þetta uppgjör hafa sem minnst áhrif á framvinduna. Á verkfundi í gær var tilkynnt að vígsla jarðganganna verði þann 2. október eða eftir rúmlega þrjár vikur. Það ætti að hafast að klára þetta með samstilltu átaki en þá megum við ekki láta uppgjör frá því í fyrra tefja okkur.“ Hinn 1. desember 2010 skrifar Árni Páll Skarphéðni og fleirum og segir þar meðal annars: „Stjórn Rafmanna ehf. tók þá ákvörðun í gærkvöldi að stöðva sína vinnu frá og með deginum í dag í Héðinsfjarðargöngum. [Ástæðurnar] eru fjárhagslegar en í síðustu skipti hafa greiðslur á verkstöðum frá Háfelli dregist, það er þeir hafa ekki staðið í skilum á verkstöðum til okkar á tíma en skv. verksamningi milli Háfells og Rafmanna á okkur að berast greiðsla eigi síðar en þremur dögum eftir að Háfell fær greitt frá verkkaupa. Nú [er] enn ógreidd síðasta verkstaða sem Háfell fékk greitt frá verkkaupa þann 23. nóvember síðastliðinn. Einnig hefur Háfell ekki staðið í skilum á ca. 9.000.000 sem eru eftirstöðvar af fyrstu verkstöðum okkar frá því í desember 2009, þrátt fyrir ýmis loforð um greiðslu á verktímanum. Við komum ekki til með að mæta á verkstað fyrr en umræddar skuldir eru greiddar og fundin greiðsluleið sem tryggir skilvísar greiðslur til Rafmanna ehf. á því sem eftir er.“ Þessu bréfi svarar Skarphéðinn sama dag og segir meðal annars: „Ég ræddi við Árna Pál í síma síðastliðinn mánudag og upplýsti hann um stöðu mála. Þar ræddum við um þessa ógreiddu verkframvindu og þessa eldri skuld. Eftir það símtal var ég í góðri trú um að Rafmenn myndu ljúka við sína verkþætti. Ég lofaði að greiðsla á síðustu verkframvindu yrði framkvæmd þann 30. 11. 2010. Það gekk ekki eftir en greiðslan ætti að vera komin til Rafmanna núna. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem framkvæmdastjóri Rafmanna er með hótanir og þykir mér það miður. Skuld Háfells ehf. við Rafmenn nemur um 1,3% af veltu Rafmanna í verkinu og hafa Rafmenn fengið allar sínar verkframvindur greiddar fyrir utan þessar 9.000.000 kr.“

Hinn 25. maí 2011 skrifar Jóhann Kristján Einarsson, rafverktaki hjá stefnanda,  Skarphéðni Ómarssyni og segir: „Nú hefur Vegagerðin samþykkt að leiðrétta afturvirkt reikninga vegna reiknivillu í byggingarvísitölunni. Hef sett inn í ykkar útfærslu af vísitölunni viðkomandi verkstöður og látið yfirfara það hjá PWC endurskoðanda okkar. Er eitthvað að frétta af þessum málum hvað varðar göngin, verum endilega í sambandi.“ Með bréfi Jóhanns mun hafa fylgt skjal, merkt „Uppreikningur á verðbótum miðað við samning við vegagerðina“. Í lok skjalsins segir að „mismunur vegna leiðréttingar“ nemi 10.463.038. Þessu tölvubréfi svarar Skarphéðinn sama dag og segir: „Vegagerðin hefur leiðrétt þetta [gagnvart] Metrostav-Háfelli ehf.“

Hinn 3. júní 2011 skrifar Jóhann Kristján Einarsson Skarphéðni og segir: „Þrátt fyrir margítrekaðar óskir framkvæmdastjóra Rafmanna um greiðslur, gömul skuld, virðisauki, reikningur og nú síðast leiðrétting á byggingarvísitölu án nokkurra efnda af ykkar hálfu þá hef ég sent beiðni til VR og vísa í ÍST 30 gr. 31.5 um greiðslur og reikningsskil að halda eftir af lokagreiðslu til ykkar þeirri upphæð sem ég tel að Háfell skuldi. Einnig hef ég falið lögfræðingi okkar að innheimta umræddar eftirstöðvar hjá Lýsingu samkvæmt útgefinni greiðsluyfirlýsingu.“ Þessu bréfi svarar Skarphéðinn hinn 9. júní 2011 og segir meðal annars: „Það er með öllu óskiljanlegt hvernig þið hagið ykkur. Hafið stórgrætt á verkinu á meðan ég sit uppi með gríðarlegt fjárhagslegt tap sem ég er að vinna í að fá leiðréttingu á hjá Vegagerðinni og Metrostav með kröfugerðum. Hvernig væri að treysta því að þið fáið [ykkar] skuld greidda og leyfa mér að vinna í skuldamálum félagsins gagnvart ykkur og öðrum.“

Þá liggur fyrir í málinu tölvubréf til forsvarsmanns stefnanda, dags. 17. febrúar 2014. Þar segir: „Hér með er staðfest að Metrostav-Háfell ehf. fékk greidda leiðréttingu á verðbótum vegna kerfisvillu í útreikningum Hagstofu Íslands vegna rafmagnshluta útboðsverksins Héðinsfjarðargöng.“ Undir bréfið ritar Leonard Birgisson skrifstofustjóri hjá Vegagerðinni á Akureyri.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi segir að vinna sín samkvæmt samningi aðila hafi hafizt um mitt ár 2006 og hafi framan af gengið vel að fá greitt. Stefnandi hafi sent stefnda verkstöðureikninga eftir því sem verkinu hafi miðað áfram og hafi yfirleitt ekki orðið mikill dráttur á greiðslu þeirra. Þegar liðið hafi á hafi fjárhagsstaða stefnda hinsvegar versnað og stefnanda gengið verr að innheimta reikninga sína. Í lok árs 2009 hafi útistandandi skuld stefnda við stefnanda á grundvelli verksamnings verið 31.077.341 króna. Hafi stefnda verið gerður reikningur fyrir þeirri fjáræð, dagsettur 30. desember 2009 með gjalddaga 28. janúar 2010. Á þessum tíma hafi stefnanda verið orðið ljóst að fjárhagsstaða stefnda væri ekki sem bezt og hafi það því valdið honum talsverðri áhyggju þegar þessi reikningur hafi ekki verið greiddur á gjalddaga. Til að knýja á um efndir hafi stefnandi lýst því yfir við stefnda, skömmu eftir að reikningurinn hafi fallið í gjalddaga, að hann myndi neyðast til að stöðva vinnu við þann verkþátt, er hann hafi þá unnið að, ef reikningurinn yrði ekki greiddur innan hæfilegs tíma. Til slíkrar vinnustöðvunar hafi verið heimild í 4. gr. verksamnings aðila. Bæði stefndi og Vegagerðin, sem hafi verið hinn endanlegi verkkaupi, hafi hinsvegar lagt hart að stefnanda að halda verkinu áfram og stöðva ekki framkvæmdir. Hafi stefnandi þá sett fram ákveðið skilyrði af sinni hálfu sem stefndi hafi að hluta fallizt á og hinn 23. febrúar 2010 hafi aðilar undirritað viðauka I við verksamning sinn frá 22. maí 2006 og skyldi viðaukinn vera hluti af þeim samningi. Í lokagrein þessa viðauka segi „Undirverktaki fær greiddar verkstöður frá [réttargæzlustefnda] og liggur fyrir greiðsluyfirlýsing þar sem Lýsing ábyrgist skilvísar greiðslur frá Aðalverktaka til undirverktaka þar til lokagreiðsla berst vegna verksins. [Stefnandi fær] tilkynningu frá verkaupa um leið og verkstaða greiðist til aðalverktaka“. Stefnandi segir að í greiðsluyfirlýsingu þeirri, sem vísað sé til í þessari tilvitnun, gangist réttargæzlustefndi  í ábyrgð fyrir greiðslu til stefnanda samkvæmt verksamningi aðila. Í yfirlýsingunni segi meðal annars: „[Réttargæzlustefndi] ábyrgist með greiðsluyfirlýsingu þessari allar greiðslur til [stefnanda] fyrir vinnu [hans] sem undirverktaka [stefndu]. Um er að ræða verkþátt 8.25 (rafbúnaður) í verkinu Héðinsfjarðargöng skv. verksamningi sem er í gildi á milli [stefnda] sem aðalverktaka og [stefnanda] sem undirverktaka.“ Stefnandi segir að eftir gerð þessa viðauka og að fenginni ábyrgðaryfirlýsingu réttargæzlustefnda hafi stefnandi talið hagsmunum sínum borgið og haldið áfram vinnu við verkið. Á tímabilinu 5. marz til 20. ágúst 2010 hafi stefndi greitt fjórar innborganir inn á skuld samkvæmt reikningnum sem hafði gjalddagann 28. janúar 2010, alls að fjárhæð 22.077.539 krónur, auk þess sem stefndi hafi staðið í skilum með greiðslur nokkurra annarra reikninga frá stefnanda. Þrátt fyrir innheimtutilraunir stefnanda hafi stefndi þó ekki fengizt til að greiða eftirstöðvar framangreinds reiknings, né heldur fjóra aðra reikninga með gjalddaga 30. október 2010, 21. desember 2010, 26. febrúar 2011 og 31. maí 2011, sem séu til komnir vegna lokauppgjörs verksins, alls að höfuðstólsfjárhæð 15.299.557 krónur.

Stefnandi segist reisa kröfu sína á fimm reikningum sem allir séu byggðir á verksamningi aðila, viðauka við þann samning og öðrum gögnum sem talin séu upp í samningnum. Reikningarnir sundurliðist svo: Fyrstur sé reikningur nr. 114046, útgefinn 31. desember 2009 með gjalddaga 28. janúar 2010 að fjárhæð 31.077.34 krónu. Annar sé reikningur nr. 116100, útgefinn 30. september 2010 með gjalddaga 30. október að fjárhæð 1.404.877 krónu. Þriðji sé reikningur nr. 116516, útgefinn 30. nóvember 2010 með gjalddaga 21. desember 2010 með gjalddaga að fjárhæð 63.167 krónur. Fjórði sé nr. 117199, útgefinn 11. febrúar 2011 með gjalddaga 26. sama mánaðar að fjárhæð 3.367.475 krónur, en hinn fimmti sé nr. 117895, útgefinn 16. maí 2011 með gjalddaga 31. sama mánaðar, að fjárhæð 10.463.038 krónur. Greitt hafi verið inn á fyrsta reikninginn en ekki hina. Þar sem innheimtutilraunir hafi engan árangur borið hafi stefnanda verið nauðsyn að höfða mál til greiðslu skuldarinnar. Reikningur nr. 114046 sé byggður á stöðu verksins í árslok 2009 og hafi stefnda borið að greiða hann að fullu eigi síðar en á gjalddaga samkvæmt 4. gr. verksamnings. Reikningar nr. 116100 og 116516 séu vegna auka- og viðbótarverka sem stefnda hafi borið að greiða sbr. 5. og 6. gr. í viðauka I og reikningar nr. 117199 og 117895 séu vegna virðisaukaskatts og leiðréttingar á byggingavísitölu sem stefnda hafi sömuleiðis borið að greiða, sbr. 3. gr. viðauka I. Stefnandi segist byggja á því gagnvart réttargæzlustefnda að hann hafi með yfirlýsingu sinni 2. marz 2010 gengizt í ábyrgð fyrir öllum greiðslum stefnda til stefnanda á grundvelli verksamnings aðila. Um einfalda kröfuábyrgð sé að ræða og því sé réttargæzlustefnda stefnt til réttargæzlu í málinu. Sé það meðal annars gert með skírskotun til 19. gr. laga nr. 150/2007.

Stefnandi segist vísa til meginreglu samningaréttar um skuldbindingagildi samninga, en einnig til meginreglu kröfuréttar um efndir fjárskuldbindinga. Krafa um dráttarvexti sé studd við reglu 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 en krafa um málskostnað við XXI. kafla laga nr. 91/1991, einkum 1. mgr. 130. gr. laganna. Vegna aðildar réttargæzlustefnda sé vísað til 1. mgr. 21. gr. laga nr. 91/1991 en vegna varnarþings sé vísað til 7. gr. verksamnings aðila, sbr. 3. mgr. 42. gr. laga nr. 91/1991.

Málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi segir að stefnandi hafi á tímabilinu 31. desember 2009 til 16. maí sent sér 5 „illskiljanlega reikninga“ sem stefndi hafi orðið að hafna greiðsluskyldu á.

Vegna reiknings nr. 114046

Stefnda segir að á umræddum reikningi sé tilgreiningin „verk: Héðinsfj.göng. verkstaða 1“ og „Reikningur skv. verkstöðu“. Stefnandi hafi ekki lagt nein gögn fram til skýringar eða sönnunar þeirrar verkstöðu sem tilgreind sé á reikningum svo að af framlögðum gögnum og skýringum stefnanda sé ekki unnt að heimfæra verkstöðuna á þá verkþætti sem tilgreindir séu í þriðju grein viðauka I við verksamninginn. Enginn reki sé gerður að því að gera grein fyrir tilurð kröfunnar og tengja hana við unna verkframkvæmd eða verksamning. Hafi stefnandi því ekki lagt fram sannanir fyrir kröfunni og sé henni því hafnað sem ósannaðri.

Vegna reikninga nr. 116100 og 116516

Undir rekstri málsins féllst stefnda á greiðsluskyldu vegna reiknings nr. 116100.

Stefnda segir að á reikningi nr. 116516 sé að finna tilgreininguna „Verk: Héðinsfjarðargöng A, UK-blásarar“. Beri reikningurinn því með sér að vera vegna aukaverka og því verði að liggja fyrir undirrituð verkbeiðni frá verkkaupa/aðalverktaka áður en verkið sé unnið, sbr. 5. gr. viðauka I við verksamninginn. Hafi stefnandi ekki lagt fram slíka verkbeiðni og því verði að hafna kröfunni sem ósannaðri. Það að auki verði ekki séð að þessir tveir reikningar séu nægilega skýrir svo ljóst sé hvaða verk hafi verið unnið og hvernig það stofni til greiðsluskyldu stefnda en reikningarnir tilgreini einungis hverjir hafi unnið tiltekna vinnu og að um efnissölu hafi verið að ræða. Einnig þess vegna verði að hafna kröfum samkvæmt reikningunum sem ósönnuðum.

Stefndi segir að ekki sé að ástæðulausu að skýr krafa sé gerð í samningi aðila um skriflega aukaverkabeiðni og sé það í samræmi við venjur og hefðir í samskiptum verktaka. Samstarfsaðili stefnda við gerð Héðinsfjarðaganga hafi verið tékkneska fyrirtækið Metrostav a.s. Hvort fyrirtæki hafi haft sína aðskildu verkþætti fyrir Vegagerðina. Vegna óljósrar kröfugerðar stefnanda sé stefnda ómögulegt að leggja fram staðfestingu á að umkrafðir reikningar séu vegna verka sem unnin hafi verið fyrir Metrostav a.s., en stefndi hafi sterkan grun um að svo sé. Ekkert í samningum aðila gefi til kynna að stefndi hafi borið ábyrgð á greiðslum frá Metrostav a.s. og því beri stefnanda að beina kröfum sínum að því fyrirtæki. Samkvæmt þessu sé um að ræða aðildarskort sem leiða beri til sýknu.

Vegna reiknings nr. 117199

Stefndi segir að á reikningum sé að finna tilgreininguna „Ógreiddur virðisaukaskattur“. Auk reikningsins sé lagður fram útreikningur tiltekinna fjárhæða þar sem þær hafi verið reiknaðar með 25,5% virðisaukaskatt í stað 24,5% og munur á samtölum fjárhæðanna samsvari þeirri fjárhæð sem að krafizt sé greiðslu á. Eina tilgreining stefnanda á þeim fjárhæðum sem settar séu fram í útreikningunum sé dálkur sem hafi titilinn „Verkst.“ og megi ætla að eigi að vísa til tiltekinnar verkstöðu. Eins og áður hafi komið fram hjá stefnda hafi stefnandi ekki lagt fram nein gögn til sönnunar verkstöðu og ekki heldur upplýsingar um hvað átt sé við með tiltekinni verkstöðu. Sé því ekki hægt að heimfæra tilvísanir í tiltekna verkstöðu á þá verkþætti sem að tilgreindir séu í 3. gr. viðauka I við verksamninginn. Þar sem stefnandi hafi ekki fært sönnur á verkþættina hafi honum ekki tekizt að sýna fram á greiðsluskyldu stefnda samkvæmt reikningunum. Sé kröfunni því hafnað sem ósannaðri. Þá kveðst stefndi vísa til dóms Héraðsdóms Reykjavíkur frá 19. september 2013 í máli nr. E-446/2002 [sic] en þar hafi stefndi krafizt greiðslu frá Vegagerðinni vegna hækkunar virðisaukaskatts úr 24,5% í 25,5%. Héraðsdómur hafi komizt að þeirri niðurstöðu að tjón stefnda væri ósannað og hafnað kröfu hans. Hafi málinu verið áfrýjað til Hæstaréttar. Segir stefnda í greinargerð sinni að verði niðurstaða Hæstaréttar á þá leið að verkkaupa beri að greiða hækkun virðisaukaskattsins muni stefnda líta á það sem fordæmi úrlausnar þessa máls og muni þá fallast á greiðsluskyldu í samræmi við þá niðurstöðu. Þetta sé hins vegar ekki í samræmi við kröfugerð stefnanda.

Vegna reiknings nr. 117895

Stefndi segir að á reikningum sé að finna tilgreininguna „Leiðrétting á byggingarvísitölu“. Í 4. gr. verksamnings sé kveðið á um að fjárhæð verksins skuli verðbætt samkvæmt útboðsgögnum miðað við byggingarvísitölu í janúar 2006 og samkvæmt 3. gr. viðauka I við verksamninginn skuli fjárhæð verksins verðbætt samkvæmt útboðsgögnum, miðað við byggingarvísitölu í desember 2009. Hafi því verið ljóst frá upphafi að fjárhæð verklauna myndu hækka eða lækka í samræmi við breytingar byggingarvísitölu og hafi báðir aðilar þessa máls tekið þá áhættu að atriði sem ekki tengdust framkvæmd verksins gætu haft áhrif á endurgjaldið. Segir stefndi að með vísan til dóma Hæstaréttar í málum nr. 393/2011 og 417/2011 hafni stefnda því að víkja eigi til hliðar þessum ákvæðum verksamnings og viðauka I við verksamninginn, þannig að stefnda beri að greiða stefnanda fjárhæð vegna breytingar á byggingarvísitölu.

Þá segir stefndi að stefnandi hafi lagt fram skjal sem beri titilinn „Uppreikningur verðbóta miðað við samning við Vegagerðina“. Eina tilgreining stefnanda á þeim fjárhæðum sem settar séu fram í þessu skjali virðist vera tilvísun í ákveðinn reikning en sú tilvísun sé ekki í samræmi við þau reikningsnúmer sem fram komi á framlögðum reikningum og sé ekki hægt að heimfæra tilvísunina að útlistun verkþátta sem tilgreindir séu í 3. gr. viðauka I við verksamninginn. Hafi stefnandi því ekki rökstutt þá fjárhæð sem hann krefji stefnda um samkvæmt þessum reikningi þar sem engin gögn hafi verið lögð fram um þann kostnað sem krafan sé byggð á og hvernig hann tengist verksamningi og viðauka við hann.

Stefndi segir að ábyrgðaryfirlýsing réttargæslustefndu Lýsingar sé dags. 2. marz 2010. Óumdeilt sé að yfirlýsingin taki aðeins til þeirra reikninga sem gefnir séu út eftir útgáfu ábyrgðarinnar og sé því ekkert tilefni til þess að beina kröfum að réttargæzlustefndu vegna þeirra fjárkrafna sem hafðar séu uppi í málinu.

Stefnda segist byggja sýknukröfu sína á almennum reglum samninga- og kröfuréttar. Vegna kröfu um sýknu vegna aðildarskorts sé vísað til III. kafla laga nr. 91/1991, einkum 2. mgr. 16. gr. Málskostnaðarkrafa stefnda eigi sér stoð í 1. mgr. 129. og 130. gr. sömu laga.

Niðurstaða

Stefnandi höfðar mál þetta til greiðslu skuldar sem hann kveður vera samkvæmt nokkurum nánar greindum reikningum.

Í gögnum málsins er að finna allnokkur tölvubréfaskipti aðila. Snúast þau að töluverðu leyti um tilraunir stefnanda til að þrýsta á um greiðslu reikninga sinna. Í svörum af hálfu stefndu kemur ítrekað fram að stefnda eigi erfitt með greiðslur þar og þá, en vonandi takist að greiða sem fyrst. Eru ekki færð efnisleg andmæli við reikningunum og verður ekki ráðið af samskiptunum að efni þeirra sé sérstaklega óljóst eða umdeilt. Verður mun fremur ráðið að stefnda hafi fullan vilja til að greiða kröfur stefnanda þegar úr rætist, en eigi erfitt með það eins og staðan sé. Hefur ekki verið sýnt fram á í málinu að reikningunum hafi verið andmælt efnislega eða þeir taldir ófullnægjandi, fyrr en í greinargerð í dómsmáli þessu.

Aðilar höfðu gert verksamning og viðauka við hann. Samkvæmt verksamningnum skyldi staðallinn ÍST30:2003 vera hluti samningsins og honum til fyllingar og skýringar. Samkvæmt grein 31.1 í staðlinum skal verkkaupi greiða fyrir verkið „eftir framvindu þess“ og samkvæmt grein 31.3 skal greiðslu vera „lokið innan þriggja vikna frá því hennar var krafist nema verkkaupi hafi borið skriflega fram rökstudd andmæli gegn reikningi.“

Allnokkur tölvuskeyti milli aðila hafa verið rakin. Kemur þar meðal annars fram að stefnandi fer ítrekað fram á að það „gamla“ verði greitt, en af hálfu stefnda er ítrekað svarað á þá leið að erfitt sé að verða við því þá, en skuldin verði greidd. „Eins og stefnt hefur verið að þá verður þessi skuld að fullu greidd um miðjan þennan mánuð“, skrifar forsvarsmaður stefnda hinn 7. apríl 2010. „Að sjálfsögðu greiðum við ykkur þessar eldri eftirstöðvar“ skrifar hann hinn 4. júní sama ár. „Þetta er ennþá þungt. Ég gæti e.t.v. hent inn á það gamla eitthvað í þessari eða næstu viku“ skrifar hann hinn 7. september 2010. Fyrir dómi sagði Skarphéðinn Ómarsson að „það gamla“ væri reikningurinn sem dagsettur er 31. desember 2009. Þegar á allt framanritað er horft þykir ljóst að stefnda hefur verið fullkunnugt um reikninginn og engar athugasemdir gert við efni hans, skýrleika hans eða greiðsluskyldu sína, fyrr en með framlagningu greinargerðar í málinu. Er greiðsluskylda stefndu á þessum reikningi sönnuð í málinu.

Undir rekstri málsins viðurkenndi stefnda greiðsluskyldu sína samkvæmt reikningi sem gefinn var út hinn 30. september 2010 að fjárhæð 1.404.877 krónur.

Stefnda hafnar greiðsluskyldu vegna reiknings sem útgefinn var 30. nóvember 2010. Reikningurinn beri með sér að vera vegna aukaverka og því beri, samkvæmt viðauka við verksamning aðila, að liggja fyrir undirrituð verkbeiðni. Þar sem hún liggi ekki fyrir verði að hafna kröfunni sem ósannaðri. Fyrir dómi var Jóhann Gunnar Stefánsson, sem á verktíma var framkvæmdastjóri stefnda en er nú hluthafi í félaginu, spurður hvort því hefði verið fylgt í framkvæmd að ekki væru unnin aukaverk nema um þau hefði verið gerð skrifleg beiðni. Hann svaraði að „samkvæmt verksamningi skal það vera þannig, hvort að það hafi verið í einhverjum tilvikum horft fram hjá því, það getur, má meira en vel vera.“ Hann kvaðst hins vegar ekki kannast við þetta tiltekna verk. Eins og áður segir hefur ekki verið sýnt fram á að reikningnum hafi verið mótmælt eða farið fram á skýringar á þeim, fyrr en í greinargerð stefndu. Í ljósi framburðar Jóhanns Gunnars fyrir dómi þykir ekki unnt að byggja á því að aðilar hafi í raun litið svo á að skrifleg verkbeiðni væri skilyrði þess að aukaverk yrði unnið. Þegar á framangreint er horft verður að telja greiðsluskyldu stefndu vegna reikningsins sannaða.

Stefnandi krefst greiðslu reiknings sem gefinn var út hinn 11. febrúar 2011 að fjárhæð 3.367.475 krónur. Reikningurinn er vegna hækkunar virðisaukaskatts sem hækkaður var hinn 1. janúar 2010 úr 24,5% í 25,5%. Um samning aðila gilti staðallinn ÍST30:2003, þar á meðal grein 31.12 sem kveður á um að aðilar geti farið fram á breytingar á samningsfjárhæð ef fram komi breytingar á lögum sem hafi áhrif á kostnað, sem reglur um verðbreytingu í samningi endurspegli ekki. Telja verður dómaframkvæmd vera þá að í slíku tilfelli skuli einungis bæta raunverulegan kostnaðarauka. Verði tjón þannig ekki sjálfkrafa talið jafngilda hlutfallshækkun skatts. Má hér vísa til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 778/2013. Stefnandi hefur ekki fært sönnur á að umræddur reikningur sé vegna tjóns sem hann hafi sannanlega borið og þykir ekki unnt að taka kröfu vegna hans í greina í málinu.

Loks krefst stefnandi greiðslu reiknings sem gefinn var út hinn 16. maí 2011 að fjárhæð 10.463.038 krónur. Fram kemur í stefnu að reikningurinn sé vegna leiðréttingar á byggingarvísitölu og segir þar að stefndu beri að greiða leiðréttinguna. Fyrir dómi sagði vitnið Jón Magnússon, sem var umsjónarmaður með verkinu fyrir hönd Vegagerðarinnar og kvaðst hafa haft „yfirumsjón með því og samþykkti alla reikninga og slíkt“, að mistök hefðu orðið „hjá Hagstofunni við útreikninga á [byggingar]vísitölunni á ákveðnu tímabili, sem að var viðurkennt, og það var leiðrétt gagnvart verktakanum, [...] þetta voru einhverjar töluverðar upphæðir, [...] við leiðréttum þetta að fullu, sem eðlilegt var talið því þetta voru reyndar bara mistök hjá Hagstofunni og síðan voru orðnir það breyttir útreikningar og rétt byggingarvísitala fundin og þá leiðréttum við það aftur til baka þá reikninga sem við höfðum verðbætt með rangri byggingarvísitölu.“ Þessar leiðréttingar hefðu verið greiddar til aðalverktakans, Metrostavs-Háfells ehf. Sannað er með þessum framburði Jóns, sem fær stuðning í yfirlýsingu Leonards Birgissonar sem rakin hefur verið, að aðalverktakinn hafi fengið greiðslur til leiðréttingar þeirra mistaka sem orðið hafi verið vegna rangs útreiknings byggingarvísitölu. Þær greiðslur voru gerðar vegna leiðréttingar mistaka sem Hagstofan hafði gert við útreikning vísitölunnar en ekki vegna þess að vísitalan hefði vegna lagabreytinga eða stjórnvaldsákvarðana breytzt, umfram væntningar samningsaðila. Dómar Hæstaréttar Íslands í málum nr. 393/2011 og 417/2011 þykja því ekki skipta máli við úrlausn hér.

Hinn 25. maí 2011 var stefnda ritað tölvubréf af hálfu stefnanda þar sem vísað var til þess að Vegagerðin hefði „samþykkt að leiðrétta afturvirkt reikninga vegna reiknivillu í byggingarvísitölunni“. Með bréfinu mun hafa fylgt skjal með útreikningum undir fyrirsögninni „Uppreikningur á verðbótum miðað við samning við vegagerðina“. Í lok skjalsins segir að „mismunur vegna leiðréttingar“ nemi 10.463.038. Þessu tölvubréfi svarar stefnda sama og segir: „Vegagerðin hefur leiðrétt þetta [gagnvart] Metrostav-Háfelli ehf.“

Hinn 3. júní 2011 var stefnda enn skrifað tölvubréf af hálfu stefnanda þar sem fjallað var um „margítrekaðar óskir framkvæmdastjóra Rafmanna um greiðslur, gömul skuld, virðisauki, reikningur og nú síðast leiðrétting á byggingarvísitölu án nokkurra efnda af [hálfu stefndu]“. Því bréfi svaraði forsvarsmaður stefnda meðal annars með orðunum: „Hvernig væri að treysta því að þið fáið [ykkar] skuld greidda og leyfa mér að vinna í skuldamálum félagsins gagnvart ykkur og öðrum.“

Ekkert liggur fyrir í gögnum málsins um að stefnda hafi mótmælt greiðsluskyldu vegna reikningsins sem gefinn var út hinn 16. maí 2011. Fjárhæð hans er í samræmi við útreikninga sem fylgdu tölvubréfi til stefndu hinn 25. maí 2011. Orð stefndu í tölvubréfinu 3. júní 2011 verða skilin þannig að stefnanda sé ráðlagt að treysta því að hann fái skuldina greidda.

Af framanrituðu er ljóst að verkkaupi, Vegagerðin, hefur greitt aðalverktökum sínum greiðslur vegna mistaka sem Hagstofan hafi gert við útreikning byggingarvísitölu. Einnig er ljóst að stefndu var kunnugt um reikning stefnanda strax í maí 2011 og þau atvik og þá útreikninga sem honum voru að baki. Ekkert hefur komið fram um efnisleg andmæli stefndu við reikningnum, útreikningunum að baki honum eða greiðsluskyldu sinni, fyrr en í greinargerð þessa máls. Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið þykir greiðsluskylda stefndu samkvæmt reikningnum hafa verið sönnuð og verður krafa stefnanda vegna hans tekin til greina, en reikningnum þykir nægilega lýst í stefnu og hafi stefnda ekki átt að velkjast í vafa um efni kröfunnar.

Með vísan til alls framanritaðs verður niðurstaða máls þessa sú að kröfur stefnanda vegna annars en reikningsins sem út var gefinn hinn 11. febrúar 2011 verða teknar til greina og stefndu í samræmi við það gert að greiða stefnanda 43.009.423 krónur að frátöldum þeim innborgunum sem greindar eru í stefnu. Alls verður stefndu því gert að greiða stefnanda 20.931.884 krónur ásamt dráttarvöxtum eins og í dómsorði greinir. Loks verður stefndu gert að greiða stefnanda 1.500.000 krónur í málskostnað.

Af hálfu stefnanda fór Einar Ingimundarson hdl. með málið en Sigríður Dís Guðjónsdóttir hdl. af hálfu stefndu. Gætt var 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991.

Þorsteinn Davíðsson kveður upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð

Stefnda, Háfell ehf., greiði stefnanda, Rafmönnum ehf., 20.931.884 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 31.077.341 krónu frá 28. janúar 2010 til 5. marz 2010; af 13.077.341 krónu frá þeim degi til 26. marz 2010; af 11.077.341 krónu frá þeim degi til 31. marz 2010; af 9.577.341 krónu frá þeim degi til 20. ágúst 2010; af 8.999.802 krónum frá þeim degi til 30. október 2010; af 10.404.679 krónum frá þeim degi til 21. desember 2010; af 10.468.846 krónum frá þeim degi til 31. maí 2011 en af 20.931.884 krónum frá þeim degi til greiðsludags og 1.500.000 krónur í málskostnað.