Hæstiréttur íslands

Mál nr. 48/2000


Lykilorð

  • Kærumál
  • Félagsdómur
  • Dómstóll
  • Kröfugerð
  • Samlagsaðild
  • Kröfusamlag
  • Vanreifun
  • Frávísunarúrskurður felldur úr gildi
  • Gjafsókn


           

Mánudaginn 21. febrúar 2000.

Nr. 48/2000.

Samtök atvinnulífsins

(Jakob R. Möller hrl.)

gegn

Verkalýðs- og sjómannafélagi

Álftfirðinga

Verkalýðsfélaginu Baldri

Aðalheiði Steinsdóttur

Jóni Helga Gíslasyni

Sigríði Bragadóttur

Trausta Magnúsi Ágústssyni

Veturliða Arnari Gunnarssyni og

(Björn L. Bergsson  hrl.)

Valsteini Heiðari Guðbrandssyni

(Guðni Á. Haraldsson hrl.)

             

Kærumál. Félagsdómur. Dómstólar. Kröfugerð. Samlagsaðild. Kröfusamlag. Vanreifun. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi. Gjafsókn.

 

Samtök atvinnulífsins (SA) stefndu tveimur verkalýðsfélögum og nokkrum einstaklingum til greiðslu skaðabóta vegna tjóns, sem SA töldu stefndu hafa valdið með ólögmætum hætti við verkfallsvörslu. Hafði SA fengið kröfurnar framseldar frá félagsmanni sínum. Héraðsdómur vísaði málinu frá á þeirri forsendu að sakarefnið ætti undir Félagsdóm. Þar sem ekki var ágreiningur um lögmæti þess verkfalls sem stóð yfir í umrætt sinn þótti sérákvæði laga um stéttarfélög og vinnudeilur um verkefni Félagsdóms ekki eiga við heldur ætti málið undir hina almennu dómstóla. Ekki þóttu aðrir gallar á málatilbúnaði SA eiga að leiða til frávísunar og var frávísunarúrskurðurinn því felldur úr gildi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. febrúar 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 8. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 21. janúar 2000, þar sem vísað var frá dómi máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðilinn Valsteinn Heiðar Guðbrandsson kærði úrskurð héraðsdómara fyrir sitt leyti 3. febrúar 2000. Hann krefst staðfestingar úrskurðarins um annað en málskostnað, sem hann krefst í héraði ásamt kærumálskostnaði án tillits til gjafsóknar, sem honum hefur verið veitt á báðum dómstigum.

Aðrir varnaraðilar krefjast þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sóknaraðila gert að greiða kærumálskostnað.

I.

Samkvæmt gögnum málsins á það rætur að rekja til þess að 24. mars 1997 gerðu Vinnuveitendasamband Íslands og Verkamannasamband Íslands kjarasamning. Munu nokkur félög innan síðarnefnda sambandsins ýmist hafa hafnað þeim samningi eða ekki staðið að gerð hans, þar á meðal félög innan Alþýðusambands Vestfjarða. Munu félög innan alþýðusambandsins, meðal annars varnaraðilarnir Verkalýðs- og sjómannafélag Álftfirðinga og Verkalýðsfélagið Baldur, hafa gripið til vinnustöðvunar, sem hófst 21. apríl 1997 og beindist að Vinnuveitendafélagi Vestfjarða. Mun þessi vinnustöðvun ekki hafa tekið til sjómanna.

Nokkru eftir að vinnustöðvunin hófst mun hafa komið upp ágreiningur um hvort heimilt væri að landa afla úr skipum, sem væru gerð út frá Vestfjörðum, í höfnum utan þess svæðis, sem hún tók til. Félagið Frosti hf. beindi þannig skipi sínu, Bessa ÍS 410, til Hafnarfjarðar til að landa afla eftir að varnaraðilinn Verkalýðs- og sjómannafélag Álftfirðinga hafnaði 16. maí 1997 beiðni um undanþágu frá vinnustöðvuninni til að landa mætti úr skipinu á Súðavík. Þegar landa átti úr skipinu í Hafnarfirði 20. sama mánaðar mun hafa komið á vettvang nokkur fjöldi félagsmanna úr Verkalýðs- og sjómannafélagi Álftfirðinga og Verkalýðsfélaginu Baldri, meðal annars varnaraðilarnir Trausti Magnús Ágústsson og Valsteinn Heiðar Guðbrandsson. Komu umræddir félagsmenn í veg fyrir löndun með því að leggja bifreiðum á bryggju við hlið skipsins. Á miðnætti þann dag mun síðan hafa byrjað samúðarvinnustöðvun Verkalýðsfélagsins Hlífar í Hafnarfirði og þannig orðið útséð að um löndun yrði þar ekki að ræða. Var skipinu siglt frá Hafnarfirði og mun hafa komið 23. maí 1997 til Grundarfjarðar, þar sem reyna átti að landa úr því. Þangað munu hafa komið félagsmenn í fyrrnefndum verkalýðsfélögum, þeirra á meðal varnaraðilarnir Jón Helgi Gíslason, Sigríður Bragadóttir og Veturliði Arnar Gunnarsson, auk áðurnefndra Trausta og Valsteins. Á sambærilegan hátt og áður var lýst var aftur komið í veg fyrir löndun úr skipinu, sem hélt eftir þetta til Súðavíkur. Skipið Andey ÍS 440, sem eftir gögnum málsins er einnig í eigu Frosta hf., mun hafa komið 28. maí 1997 til hafnar á Sauðárkróki, þar sem landa átti afla úr því. Þangað á vettvang munu hafa komið félagsmenn í umræddum verkalýðsfélögum, meðal annarra varnaraðilinn Aðalheiður Steinsdóttir og fyrrnefnd Sigríður, Trausti og Valsteinn. Enn var hindruð löndun úr skipinu, sem var siglt til Raufarhafnar. Þar mun ekki hafa fengist löndun og hélt skipið því til hafnar á Súðavík.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum sótti Frosti hf. 26. júní 1997 um greiðslur úr vinnudeilusjóði Vinnuveitendasambands Íslands vegna tjóns, sem félagið taldi vinnustöðvun hafa valdið sér. Í umsókn félagsins var því meðal annars lýst yfir að það framseldi vinnuveitendasambandinu „ódæmdar bótakröfur vegna vinnustöðvunar“. Sóknaraðili, sem nú hefur tekið við réttindum og skyldum Vinnuveitendasambands Íslands, hefur lagt fram í málinu gögn um að Frosta hf. hafi verið greidd samtals 2.493.561 króna úr vinnudeilusjóði á tímabilinu frá 5. júní til 9. júlí 1997.

Í málinu krefst sóknaraðili bóta úr hendi varnaraðila vegna fjártjóns, sem hann kveður áðurnefndar aðgerðir hafa valdið Frosta hf. Reisir hann aðild sína að málinu á áður tilvitnaðri yfirlýsingu Frosta hf. um framsal krafna.

II.

Í málinu vefengir sóknaraðili ekki lögmæti vinnustöðvunar varnaraðilanna Verkalýðs- og sjómannafélags Álftfirðinga og Verkalýðsfélagsins Baldurs, sem hófst eins og áður greinir 21. apríl 1997 og mun hafa staðið fram í júní sama árs. Krafa sóknaraðila er á hinn bóginn reist á því að fyrrnefndar aðgerðir, sem hann kveður umrædd verkalýðsfélög hafa staðið að og aðra varnaraðila hrundið í framkvæmd, hafi verið ólögmætar verkfallsaðgerðir, sem hafi valdið tjóni.

Með IV. kafla laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur, sbr. og IV. kafla laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna, er lagt á vald Félagsdóms að leysa úr ágreiningi um nánar tiltekin atriði, sem talin eru í 44. gr. fyrrnefndu laganna, sbr. 26. gr. þeirra síðarnefndu. Með þetta vald fer Félagsdómur sem sérdómstóll, sbr. 3. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla. Heyra í skjóli þess undir hann mál, sem ella yrðu rekin fyrir almennum dómstólum eftir þeirri meginreglu, sem fram kemur í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 91/1991. Skýra verður fyrrnefndar lagareglur um valdsvið Félagsdóms í þessu ljósi.

Samkvæmt 1. tölulið 1. mgr. 44. gr. laga nr. 80/1938 er meðal verkefna Félagsdóms að dæma í málum, sem rísa út af „tjóni, sem orðið hefur vegna ólögmætra vinnustöðvana.“ Eins og fyrr segir er ekki deilt í málinu um lögmæti þeirrar vinnustöðvunar, sem áður er greint frá. Tilvitnað lagaákvæði tekur ekki eftir orðanna hljóðan til kröfu, sem á rætur að rekja til tjóns vegna óheimilla aðgerða til að fylgja eftir vinnustöðvun. Í ljósi þess, sem að framan greinir, eru ekki efni til að skýra ákvæðið á rýmri veg en orð þess gefa beint tilefni til. Verður því ekki fallist á með héraðsdómara að mál um kröfur sóknaraðila eigi undir Félagsdóm. Málinu verður þannig ekki vísað frá héraðsdómi af þeirri ástæðu.

III.

Sóknaraðili reisir sem fyrr segir aðild sína að þeim kröfum, sem hann sækir í málinu, á yfirlýsingu Frosta hf. um framsal ódæmdra bótakrafna sinna vegna vinnustöðvunar, eins og sagði í umsókn félagsins 26. júní 1997 um greiðslur úr vinnudeilusjóði Vinnuveitendasambands Íslands. Séu annmarkar á því framsali eða vafi um umfang þess, eins og borið er öðrum þræði við í málatilbúnaði varnaraðila, gætu þeir ekki leitt til annars en aðildarskorts sóknaraðila að kröfunum í heild eða að hluta. Getur það ekki valdið frávísun málsins, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991. Líta verður svo á að sóknaraðili hafi lagt málið fyrir dómstóla á þeim grundvelli að Frosti hf. hafi framselt sér til eignar þær kröfur, sem leitað er dóms um. Er því heldur ekkert hald í þeirri málsástæðu, sem aðrir varnaraðilar en Valsteinn Heiðar Guðbrandsson hafa borið fyrir sig, að sóknaraðili sæki málið í skjóli óheimils málsóknarumboðs.

Varnaraðilar hafa réttilega bent á að í upphafi héraðsdómsstefnu segi að sóknaraðili höfði málið til heimtu skaðabóta að fjárhæð alls 4.956.239 krónur, en í kjölfarið komi þó fram að hennar sé ekki krafist í heild úr hendi þeirra allra. Í stefnunni er hins vegar greint skilmerkilega á milli krafna vegna tjóns, sem sóknaraðili rekur í fyrsta lagi til áðurnefndra atvika í Hafnarfirði 20. maí 1997, í öðru lagi til atvikanna í Grundarfirði 23. sama mánaðar og loks í þriðja lagi til atvika á Sauðárkróki 28. maí 1997. Er krafan vegna fyrsta tilviksins sögð nema 2.867.948 krónum og er henni beint að varnaraðilunum Verkalýðs- og sjómannafélagi Álftfirðinga, Verkalýðsfélaginu Baldri, Trausta Magnúsi Ágústssyni og Valsteini Heiðari Guðbrandssyni. Krafan vegna annars tilviksins er talin að fjárhæð 762.277 krónur og er henni beint að sömu aðilum ásamt varnaraðilunum Jóni Helga Gíslasyni, Sigríði Bragadóttur og Veturliða Arnari Gunnarssyni. Sóknaraðili kveður kröfuna vegna þriðja tilviksins vera 1.326.014 krónur. Henni beinir hann að sömu aðilunum og fyrstu kröfunni ásamt varnaraðilunum Aðalheiði Steinsdóttur og Sigríði Bragadóttur. Kröfugerð sóknaraðila er því nægilega ljós, þótt orðalag í upphafi héraðsdómsstefnu eitt og sér gefi að nokkru villandi mynd af henni.

Eins og sóknaraðili hefur gert málið úr garði leitar hann með því dóms um þrjár kröfur um skaðabætur, sem hver verður rakin til sjálfstæðra atvika. Öllum kröfunum þremur er beint að sömu aðilum hvað varðar Verkalýðs- og sjómannafélag Álftfirðinga, Verkalýðsfélagið Baldur, Trausta Magnús Ágústsson og Valstein Heiðar Guðbrandsson. Þær eru allar um greiðslu peningafjárhæðar og því samkynja. Sóknaraðila er því heimilt samkvæmt 1. mgr. 27. gr. laga nr. 91/1991 að höfða eitt mál á hendur þessum fjórum varnaraðilum um allar kröfurnar. Kröfunum, sem sóknaraðili gerir vegna atburða annars vegar í Grundarfirði 23. maí 1997 og hins vegar á Sauðárkróki 28. sama mánaðar, er í hvoru tilviki fyrir sig að auki beint að fleiri varnaraðilum, sem hann telur hafa bakað sér bótaskyldu með sömu atvikum og fyrrnefndir fjórir varnaraðilar. Að þessu leyti er sóknaraðila heimilt að hafa aðilasamlag til varnar um hverja kröfu fyrir sig, sbr. 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991. Eru því ekki efni til að vísa málinu frá dómi vegna annmarka í þessum efnum, svo sem varnaraðilinn Valsteinn hefur haldið fram.

Ekki verður fallist á með varnaraðilum að aðrir annmarkar séu á héraðsdómsstefnu, sem valdið geta frávísun málsins. Þá verður heldur ekki litið svo á að reifun á kröfum sóknaraðila eða sönnunarfærsla sé með þeim hætti að ekki verði undir áframhaldandi rekstri málsins bætt þar úr eftir því, sem efni kynnu að standa til.

Varnaraðilar hafa ekki fært fram önnur haldbær rök fyrir því að vísa þurfi málinu frá dómi. Verður ekki séð að annmarkar séu heldur á því, sem leiða ættu til frávísunar án kröfu. Samkvæmt því verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.

Rétt er að ákvörðun um málskostnað í héraði vegna þessa þáttar málsins bíði efnisdóms. Varnaraðilar verða hins vegar dæmdir í sameiningu til að greiða sóknaraðila kærumálskostnað, eins og í dómsorði greinir.

Varnaraðilanum Valsteini Heiðari Guðbrandssyni hefur sem áður segir verið veitt gjafsókn í héraði, svo og vegna þessa kærumáls. Í andstöðu við ákvæði 2. mgr. 127. gr. laga nr. 91/1991 lét héraðsdómari hjá líða að taka ákvörðun í hinum kærða úrskurði um gjafsóknarkostnað þessa varnaraðila, en kvað hins vegar upp sérstakan úrskurð um það efni 24. janúar 2000, þar sem ákveðið var að greiða ætti úr ríkissjóði málflutningsþóknun lögmanns varnaraðilans, 250.000 krónur. Þeim úrskurði hefur ekki verið skotið til Hæstaréttar. Vegna þessa verður ekki mælt hér fyrir um gjafsóknarkostnað varnaraðilans í héraði í þessum þætti málsins, en í efnisdómi í málinu verður þá að ákveða þóknun handa lögmanni aðilans fyrir frekari meðferð þess að teknu tilliti til þóknunarinnar, sem þegar hefur verið ákveðin. Um gjafsóknarkostnað þessa varnaraðila fyrir Hæstarétti fer samkvæmt því, sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

 Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi. Lagt er fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.

Málskostnaður í héraði dæmist ekki.

Varnaraðilar, Verkalýðs- og sjómannafélag Álftfirðinga, Verkalýðsfélagið Baldur, Aðalheiður Steinsdóttir, Jón Helgi Gíslason, Sigríður Bragadóttir, Trausti Magnús Ágústsson, Valsteinn Heiðar Guðbrandsson og Veturliði Arnar Gunnarsson, greiði í sameiningu sóknaraðila, Samtökum atvinnulífsins, 100.000 krónur í kærumálskostnað.

Gjafsóknarkostnaður varnaraðila Valsteins Heiðars Guðbrandssonar í þessum þætti málsins fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 25.000 krónur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 21. janúar  2000.

Mál þetta var þingfest 30. júní 1999 og tekið til úrskurðar 10. janúar 2000 um frávísunarkröfu stefndu.

Stefnandi er Vinnuveitendasamband Íslands, kt. 700269-3209, Garðastræti 41, Reykjavík, f.h. Vinnudeilusjóðs sambandsins.

Stefndu eru Verkalýðs- og sjómannafélag Álftfirðinga, kt. 540775-1259, Túngötu 5, Súðavík, Verkalýðsfélagið Baldur, kt. 490272-4299, Pólgötu 2, Ísafirði, Aðalheiður Steinsdóttir, kt. 150452-2609, Tangagötu 15, Ísafirði, Jón Helgi Gíslason, kt. 060570-4349, Hnífsdalsvegi 35, Ísafirði, Sigríður Bragadóttir, kt. 200158-7769, Fjarðarstræti 59, Ísafirði, Trausti Magnús Ásgeirsson, kt. 180961-5429, Tangagötu 22, Ísafirði, Valsteinn Heiðar Guðbrandsson, kt. 120447-4409, Árnesi, Súðavík og

Veturliði Arnar Gunnarsson, kt. 111067-4229, Sundstræti 29, Ísafirði.

 

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndu verði dæmd til greiðslu ,,skaðabóta alls að fjárhæð kr. 4.956.239 með ársvöxtum samkvæmt 7. grein vaxtalaga nr. 25/1987 með síðari breytingum frá 30. maí 1997, það er 1% vöxtum frá 30. maí 1997 til 1. júní 1999, en vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga frá þeim degi til þingfestingardags máls þessa, 30. júní 1999, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 með síðari breytingum frá þeim degi til greiðsludags.

Stefnukröfurnar eru í þremur liðum og eiga stefndu mismunandi aðild að þeim, eins og fram kemur hér að neðan, en stefnt er sameiginlega þeim sem aðild eiga að hverjum þætti. Kröfurnar greinast samkvæmt þessu í þrjá meginþætti, það er vegna 1) hindrana á löndun úr Bessa ÍS 410 í Hafnarfirði; 2) vegna hindrana á löndun úr BESSA ÍS 410 í Grundarfirði; og 3) vegna hindrana á löndun úr ANDEY ÍS 440 á Sauðárkróki, og eru:

 

1. Bessi - Hafnarfjörður,

að stefndu Verkalýðs- og sjómannafélag Álftfirðinga, Verkalýðsfélagið Baldur, Trausti Magnús Ágústsson og Valsteinn Heiðar Guðbrandsson verði sameiginlega dæmdir til að greiða honum kr. 2.867.948,- með 1% vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 30. maí 1997 til 1. júní 1999, en með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga frá þeim degi til 30. júní 1999, en með dráttarvöxtum frá þeim degi auk málskostnaðar að mati dómsins.

 

2. Bessi - Gundarfjörður,

að stefndu, Verkalýðs- og sjómannafélag Álftfirðinga, Verkalýðsfélagið Baldur, Jón Helgi Gíslason, Sigríður Bragadóttir, Trausti Magnús Ágústsson, Valsteinn Heiðar Guðbrandsson og Veturliði Arnar Gunnarsson verði sameiginlega dæmdir til að greiða honum kr. 762.277,- með 1% vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga frá þeim degi til 30. júní 1999, en með dráttarvöxtum frá þeim degi auk málskostnaðar að mati dómsins.

 

3. Andey - Sauðárkrókur,

að stefndu, Vekalýðs- og sjómannafélag Álftfirðinga, Verkalýðsfélagið Baldur, Aðalheiður Steinsdóttir, Sigríður Bragadóttir, Trausti Magnús Ágústsson og Valsteinn Heiðar Guðbrandsson verði sameginlega dæmdir til að greiða honum kr. 1.326.014,- með 1% vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 30. maí 1997 til 1.júní 1999, en með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga frá þeim degi til 30. júní 1999, en með dráttarvöxtum frá þeim degi auk málskostnaðar að mati dómsins.

 

Þess er krafist, að dæmt verði, að vextir samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn þann 30. júní 1998, en síðan árlega þann dag, og að dráttarvextir leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn þann 30. júní 2000, en síðan árlega þann dag.

Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt gjaldskrá Málflutningsskrifstofu."

 

Stefndi Valsteinn Heiðar Guðbrandsson krefst aðallega frávísunar, en til vara sýknu og til þrautavara lækkunar á kröfum. Í öllum tilfellum er krafist málskostnaðar að mati réttarins eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

Aðrir stefndu krefjast aðallega frávísunar, en til vara sýknu. Þeir krefjast einnig málskostnaðar.

 

I.

Málavextir eru í stórum dráttum þeir, að veturinn 1996-1997 stóðu yfir viðræður milli aðila vinnumarkaðarins um kaup og kjör. Hinn 21. apríl 1997 hófst vinnustöðvun félagsmanna Verkalýðsfélagsins Baldurs og Verkalýðs- og sjómannafélags Álftfirðinga, en bæði þessi félög eiga aðild að Alþýðusambandi Vestfjarða sem aftur á aðild að Alþýðusambandi Íslands.

Frosti h.f., Súðavík, sem gerði á þessum tíma út skipin Bessa ÍS 410 og Andey ÍS 440, leitaðist við að komast hjá vinnustöðvun með því að landa úr skipunum í Hafnarfirði, Grundarfirði og Sauðárkróki. Verkfallsverðir á vegum verkalýðsfélaga tóku þátt í verkfallsvörslu og kröfðust þess að löndun úr skipunum á umræddum stöðum yrði hætt. Var ekki orðið við því og freistuðust þá verkfallsverðir þess að koma í veg fyrir löndun, m.a. með því að stöðva bifreiðar sínar á bryggjum á viðkomandi stöðum. Stefnandi telur sig hafa orðið fyrir tjóni vegna þessa og að stefndu beri ábyrgð á því tjóni og séu því skaðabótaskyld.

Miðlunartillaga ríkissáttasemjara frá 6. júní þetta ár var samþykkt af aðilum og komst þannig á nýr kjarasamningur milli aðila.

.

 

II.

Stefndi Valsteinn Heiðar Guðbrandsson, styður frávísunarkröfu sína eftirfarandi rökum:

 

1.             Skilyrðum 19. gr. 1aga nr. 91.1991 um samlagsaðild sé ekki fullnægt. Málið fjalli um þrjá aðskilda atburði er gerðust á þremur stöðum á landinu á mismunandi tíma. Því sé ekki unnt að stefna öllum stefndu  fyrir dóm í sama máli vegna aðgerða er áttu sér stað í Hafnarfirði, Grundarfirði og á Sauðárkróki.

2.             Í stefnu sé öllum aðilum stefnt til greiðslu á skaðabótum að fjárhæð 4.956.239 krónur en síðan sé í stefnu gerðar aðrar og lægri kröfur á hendur stefndu samkvæmt sundurliðun eftir því hverjir áttu aðild að málinu hverju sinni. Slíkt fáist ekki staðist lög um meðferð einkamála.

3.             Málið teljist vanreifað. Ekki sé að finna neinar skýringar á skaðabótakröfum að því er varðar olíueyðslu eða biðtíma. Það sama eigi við um útreikninga á töf. Á engan hátt sé hægt að átta sig á þeim útreikningum.

4.             Ekkert liggi fyrir um afgreiðslu Vinnudeilusjóðs stefnanda á þeim kröfum sem Frosti h.f. eigi að hafa lagt fyrir sjóðinn og hvort sú afgreiðsla samrýmist ákvæðum laga VSÍ, né hvort Frosti h.f. hafi fengið einhverjar greiðslur úr sjóðnum og þá hversu miklar.

5.             Aðilum sé stefnt sameiginlega til greiðslu skaðabóta án þess að fyrir liggi þáttur hvers og eins í meintu skaðaverki.

6.             Ekki liggi fyrir í hvaða verkalýðsfélögum þeir starfsmenn voru er áttu að landa úr skipum Frosta h.f. Þannig sé ekki vitað hvort þeir voru í félögum innan sama sambands og þau félög er stóðu að verkfallinu, sbr. orðalag 18. gr. 1aga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur.

 

Aðrir stefndu en Valsteinn Heiðar Guðbrandsson styðja frávísunarkröfu sína eftirfarandi rökum:

1.             Sakarefni þetta eigi ekki undir hina almennu dómstóla, heldur Félagsdóm. Sé beinlínis kveðið á um það í 1. tl. 44. gr. laga nr. 80/1938 þar sem segi að Félagsdómur dæmi í málum, sem rísi út af kærum um brot á þeim lögum og tjóni, sem orðið hefur vegna ólögmætra vinnustöðvanna. Í þessu sambandi bendir stefndi sérstaklega á Hrd. 1993. 1152.

2.             Stefna uppfylli ekki skilyrði 80. gr. laga nr. 91/1991. Dómkröfur séu í innbyrðis andstöðu hver við aðra og þá jafnframt í andstöðu við d-lið 80. gr. laga nr. 91/1991.

3.             Forsendur kröfugerðar stefnanda séu algerlega vanreifaðar og þannig í andstöðu við e-lið 80. gr. laga nr. 91/1991. Einstakir kröfuliðir séu ekki studdir fullnægjandi gögnum eða alls engum. Stefndu verði þannig í raun að geta sér til um hver uppruni hvers kröfuliðar sé og á hvaða forsendum þau eru krafin um greinda fjárhæð. Stefndu séu því mikill vandi á höndum að verjast kröfum stefnanda sem settar séu fram með óskýrum hætti.

4.             Engin gögn liggi fyrir um að stefnandi hafi greitt atvinnurekendum nokkrar bætur eins og fram sé haldið í stefnu. Ekkert framsal hafi heldur farið fram að kröfurétti.

 

III.

Stefnandi heldur því fram að hafna beri frávísunarkröfu stefndu. Málið eigi ekki undir Félagsdóm samkvæmt 1. mgr. 44. gr. laga nr. 80/1938, þar sem aðilar hafi verið í löglegri vinnustöðvun. Enda sé ekki ágreiningur um það, heldur hvort aðgerðir aðila í lögmætri vinnustöðvun hafi verið ólögmætar og skaðabótaskyldar. Máli sínu til stuðnings bendir stefnandi á Hrd. 1986. 1206, Hrd. 1991. 443 og Hrd. 1994. 367.

Stefnandi mótmælir því að kröfur séu óljósar. Þær séu nákvæmlega sundurliðaðar í stefnu. Það valdi ekki frávísun málsins þó að stefndu kunni að vera ósammála um  útreikning kröfunnar.

Samlagsaðild sé skipað  með þessum hætti þar sem mikið hagræði sé af því fyrir báða aðila að höfða eitt skaðabótamál í stað þriggja. Í þessu sambandi vísar stefnandi til greinargerðar með 19. gr. laga nr. 91/1991, en þar segi að ákvæðið hafi verið rýmkað til þess að greiða fyrir ,,notkun hagræðis" af samlagsaðild. Að sumu leyti eigi kröfur stefnanda rætur að rekja til sömu aðstöðu. Málagrunnurinn og málsástæður séu þær sömu varðandi öll atriðin. Að öðru leyti mótmælir stefnandi frávísunarkröfu stefndu og telur kröfugerð og málatilbúnaðinn allan nægilega skýran.

 

IV.

Frosti h.f. í Súðavík, sem gerði út umrædd skip, var í Vinnuveitendafélagi Vestfjarða, sem er félag atvinnurekenda á svæðinu. Vinnuveitendafélag Vestfjarða var félagi í Vinnuveitendasambandi Íslands (nú Samtökum atvinnulífsins). Frosti h.f. fékk greitt úr vinnudeilusjóði VSÍ vegna þeirra atvika sem mál þetta er risið af og framseldi síðan kröfuna til stefnanda.

Ekki er deilt í málinu um lögmæti verkfalls félagsmanna Verkalýðsfélagsins Baldurs og Verkalýðs- og sjómannafélags Álftfirðinga og að það hafi verið löglega boðað. Sjómenn á skipunum Bessa ÍS 410 og Andey ÍS 440 voru ekki í verkfalli, en ljóst var að ekki yrði landað í heimahöfn, nema veittar yrðu undanþágur af hálfu verkalýðsfélaganna. Var synjað um þær undanþágur og greip útgerðin þá til þess ráðs að landa utan heimahafnar.

Ágreiningur aðila um hvort málið eigi undir hina almennu dómstóla eða Félagsdóm er tvenns konar.

Annars vegar hvort sú ráðstöfun útgerðarinnar að landa afla utan heimahafnar í lögmætu verkfalli, hafi verið brot á 18. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur, þar sem segir að eftir að vinnustöðvun er hafin sé þeim, er hún beinist gegn, óheimilt að stuðla að því að afstýra henni með aðstoð einstakra meðlima þeirra félaga eða sambanda, sem að vinnustöðvuninni standa. Stefndu telja að útgerðin hafi aflað sér aðstoðar verkamanna innan Verkamannasambandsins og Alþýðusambands Íslands með því að landa í Hafnarfirði, Grundarfirði og Sauðárkróki en stefndu eru aðilar í þessum félögum. Fyrsta úrlausnarefnið er því að skera úr um hvort að þessi aðgerð útgerðarinnar hafi verið á svig við 18. gr. laga nr. 80/1938.

 Hins vegar lýtur ágreiningur aðila að því hvort aðgerðir stefndu í Hafnarfirði, Grundarfirði og Sauðárkrók hafi verið lögmætar eins og á stóð.

Samkvæmt 1. tl. 44. gr. laga ber Félagsdómi að dæma í málum sem rísa út af kæru um brot á lögum nr. 80/1938. Í máli þessu er fyrst og fremst deilt um túlkun á 18. gr. laganna. Verður talið að Félagsdómur hafi úrskurðarvald um þann ágreining samkvæmt tilvitnaðri 44. gr.

Verður því frávísunarkrafa stefndu tekin til greina þegar af þessari ástæðu og málinu vísað frá dómi með vísan til 2. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991. Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.

Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá dómi.

Málskostnaður fellur niður.