Hæstiréttur íslands
Mál nr. 22/2001
Lykilorð
- Lögmannsþóknun
- Fyrning
- Skriflegur málflutningur
|
|
Fimmtudaginn 21. júní 2001. |
|
Nr. 22/2001. |
Jakob A. Traustason(sjálfur) gegn Almennu málflutningsstofunni sf. (Ólafur Axelsson hrl.) |
Lögmannsþóknun. Fyrning. Skriflegur málflutningur.
A krafði J um þóknun og endurgreiðslu útlagðs kostnaðar í tengslum við lögfræðilega þjónustu og ráðgjöf sem A kvaðst hafa veitt J á árunum frá 1990 til 1994. A gerði J fyrst reikning vegna kröfunnar 3. október 1996. Viðurkenndi einn fyrirsvarsmanna A að framtaksleysi hans hefði verið einu um að kenna að J var ekki gerður reikningur fyrr. Ekki varð ráðið af gögnum málsins að A hefði unnið að þeim málum, sem krafan laut að, eftir 24. janúar 1994. Var því talið að krafan hefði orðið gjaldkræf þann dag. A höfðaði mál á hendur J 10. júní 1997, en því var vísað frá héraðsdómi 6. apríl 1998. Þar sem A gætti ekki að því að höfða nýtt mál innan sex mánaða frá þeim degi var fyrningu ekki slitið fyrr en nýtt mál var höfðað 3. nóvember 1998. Voru þá liðin meira en fjögur ár frá því að krafan varð gjaldkræf og var hún því fyrnd. Var J sýknaður af kröfu A.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 16. janúar 2001. Hann krefst þess aðallega að héraðsdómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar. Til vara krefst hann sýknu af kröfu stefnda, en til þrautavara að málinu verði vísað frá héraðsdómi. Í öllum tilvikum krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Að auki gerir áfrýjandi ýmsar nánar tilteknar dómkröfur, sem lúta eingöngu að rekstri málsins fyrir héraðsdómi. Atriðin, sem þar um ræðir, eiga ekki erindi í málinu sem sérstakar dómkröfur fyrir Hæstarétti og er því ástæðulaust að greina frekar frá þeim.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Málið var flutt skriflega eftir ákvörðun Hæstaréttar samkvæmt 3. mgr. 161. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 15. gr. laga nr. 38/1994, en sú ákvörðun var tekin að fram kominni ósk áfrýjanda um þetta efni, sem stefndi hreyfði ekki athugasemd við.
I.
Samkvæmt málatilbúnaði stefnda veitti hann áfrýjanda margs konar lögfræðilega þjónustu og ráðgjöf á árunum frá 1990 til 1994. Að stórum hluta hafi verið hér um að ræða innheimtu á vanskilaskuldum. Stefndi kveður samskipti við áfrýjanda hafa gengið vel og árekstrarlaust allt þar til á árinu 1994, þegar hann sleit skyndilega öllu sambandi við lögmenn, sem störfuðu hjá stefnda. Stefndi gerði áfrýjanda tvo reikninga 3. október 1996 fyrir annars vegar lögfræðikostnaði af rekstri fjögurra nánar tilgreindra mála og hins vegar útlögðum kostnaði í þágu áfrýjanda. Fyrrnefnda reikninginn sundurliðaði stefndi þannig að þóknun vegna máls áfrýjanda á hendur Ásgeiri S. Vagnssyni og fleirum væri 146.830 krónur, Agli Eyfjörð og fleirum 467.000 krónur, Guðmundi Sigurbjarnarsyni og fleirum 99.569 krónur og Pyramid heildverslun 40.000 krónur. Við þessar fjárhæðir samanlagðar bættist virðisaukaskattur, 184.583 krónur, og var þannig reikningurinn gerður fyrir samtals 937.982 krónum. Síðarnefnda reikningnum skipti stefndi í útlagðan kostnað vegna fjögurra mála, sem hann auðkenndi með númerum, auk tveggja sérstakra kostnaðarliða vegna þeirra tveggja mála, sem fyrst voru talin á fyrrnefnda reikningnum. Var útlagður kostnaður samkvæmt síðarnefnda reikningnum samtals 156.334 krónur.
Áfrýjandi beindi erindi 30. október 1996 til Lögmannafélags Íslands vegna skipta sinna við stefnda varðandi tvö málanna, sem áður er getið, annars vegar málið, sem í fyrrgreindum reikningi var kennt við Ásgeir S. Vagnsson og fleiri, og hins vegar málið, sem þar var kennt við Egil Eyfjörð og fleiri. Bar áfrýjandi þar sakir á stefnda um mistök við rekstur þessara mála, sem hafi að endingu leitt til þess að áfrýjandi hafi tapað kröfum sínum. Taldi hann þetta hafa bakað sér tjón að fjárhæð alls 11.942.261 króna. Í álitsgerð stjórnar lögmannafélagsins 25. mars 1997 var fjallað í einstökum atriðum um þær ávirðingar, sem áfrýjandi bar á stefnda, og jafnframt látið uppi mat á fjárhæð reikninganna, sem áður er getið. Af ástæðum, sem þar greindi nánar, var talið að hæfileg þóknun vegna málsins, sem í reikningi stefnda var kennt við Ásgeir S. Vagnsson og fleiri, væri 85.000 krónur auk virðisaukaskatts. Þá var talið að þóknun fyrir flutning máls, sem rekið var um úthlutun söluverðs fasteignar að Kleppsvegi 86 í Reykjavík við nauðungarsölu vegna innheimtu á síðastnefndri kröfu og innheimtu á kröfunni, sem í reikningnum var kennd við Egil Eyfjörð og fleiri, væri hæfilega ákveðin 195.000 krónur auk virðisaukaskatts. Loks taldi stjórnin að gögn skorti til stuðnings einum lið að fjárhæð 53.356 krónur í reikningi stefnda fyrir útlögðum kostnaði og væri því ekki unnt að fallast á hann. Að öðru leyti gerði stjórnin ekki athugasemdir við fjárhæð reikninga stefnda.
Stefndi höfðaði mál gegn áfrýjanda 10. júní 1997 til heimtu skuldar samkvæmt framangreindum reikningum. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 6. apríl 1998 var því máli vísað frá dómi. Áfrýjandi kærði þann úrskurð og krafðist þess að lagt yrði fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Stefndi gerði jafnframt sömu kröfu fyrir Hæstarétti, en kærði þó ekki úrskurðinn fyrir sitt leyti. Með því að áfrýjandi þótti sem stefndi í málinu ekki hafa lögvarða hagsmuni af því að fá frávísun þess fellda úr gildi var kærumálinu vísað sjálfkrafa frá Hæstarétti með dómi 8. maí 1998, sem birtur er í dómasafni þess árs bls. 1793.
Stefndi höfðaði í kjölfarið mál þetta gegn áfrýjanda 3. nóvember 1998 vegna skuldar samkvæmt fyrrnefndum reikningum, en upphafleg dómkrafa stefnda var um greiðslu á 1.017.338 krónum. Var þar um að ræða samanlagða fjárhæð reikninganna tveggja, en þó þannig að stefndi tók í dómkröfu sinni tillit til áðurgreindrar niðurstöðu Lögmannafélags Íslands um þóknun vegna máls á hendur Ásgeiri S. Vagnssyni og fleirum og lækkaði því reikningskröfuna um samtals 76.978 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Undir rekstri málsins fyrir héraðsdómi lækkaði stefndi kröfu sína frekar með því að fella úr reikningnum fyrir lögfræðikostnaði þóknun að fjárhæð 40.000 krónur auk virðisaukaskatts vegna máls á hendur Pyramid heildverslun. Þá lækkaði stefndi jafnframt reikning vegna útlagðs kostnaðar um 26.433 krónur. Endanleg dómkrafa stefnda fyrir héraðsdómi var því sundurliðuð þannig að þóknun fyrir mál gegn Ásgeiri S. Vagnssyni og fleirum nam 85.000 krónum, Agli Eyfjörð og fleirum 467.000 krónum og Guðmundi Sigurbjarnarsyni og fleirum 99.569 krónum, en við þessar fjárhæðir bættist virðisaukaskattur, samtals 159.934 krónur. Var krafa stefnda vegna þessara liða því alls 811.503 krónur. Endanleg krafa stefnda vegna útlagðs kostnaðar var að fjárhæð alls 129.901 króna. Þar af rakti stefndi kostnað að fjárhæð samtals 56.884 krónur til tveggja fyrstnefndu málanna, en 73.017 krónur til þess þriðja. Endanleg krafa stefnda var því um greiðslu á 941.404 krónur.
Í hinum áfrýjaða dómi var vísað frá héraðsdómi kröfuliðum stefnda, sem lutu að máli gegn Guðmundi Sigurbjarnarsyni og fleirum, bæði að því er varðar þóknun að fjárhæð 99.569 krónur að viðbættum virðisaukaskatti og útlagðan kostnað að fjárhæð 73.017 krónur. Áfrýjandi var hins vegar dæmdur til að greiða aðra liði í dómkröfu stefnda eða samtals 744.124 krónur. Stefndi unir þeirri niðurstöðu. Fyrir Hæstarétti tekur því ágreiningur aðilanna eingöngu til þóknunar fyrir mál, sem stefndi kenndi í reikningi sínum við Ásgeir S. Vagnsson og fleiri og Egil Eyfjörð og fleiri, auk virðisaukaskatts af þeirri þóknun og útlagðs kostnaðar vegna málanna.
II.
Krafa áfrýjanda, sem stefndi krefst þóknunar fyrir að hafa leitast við að innheimta og kennir í fyrrnefndum reikningi sínum við Ásgeir S. Vagnsson og fleiri, var samkvæmt skuldabréfi að fjárhæð 1.140.000 krónur, sem Ess hf. gaf út 10. júní 1990 til handhafa, en Egill Eyfjörð, Jörundur Pálsson og Ásgeir Svan Vagnsson gengust í sjálfskuldarábyrgð fyrir. Krafan, sem stefndi kennir í reikningnum við Egil Eyfjörð og fleiri, var samkvæmt víxli að fjárhæð 3.100.000 krónur, útgefnum 25. júlí 1990 af Jörundi Pálssyni og ábektum af honum og Guðrúnu Stefánsdóttur, en samþykktum til greiðslu af Ess hf. 10. ágúst 1990. Fyrir báðum þessum kröfum gaf Jörundur Pálsson út tryggingarbréf 15. nóvember 1990 til handhafa, þar sem hann setti að veði fasteign sína að Kleppsvegi 86 í Reykjavík með 10. veðrétti.
Stefndi höfðaði mál fyrir áfrýjanda með stefnu 16. janúar 1991 til heimtu kröfu samkvæmt skuldabréfinu frá 10. júní 1990. Stefnan var árituð um aðfararhæfi 19. febrúar 1991 og áfrýjanda þar dæmdur málskostnaður að fjárhæð 163.000 krónur. Með stefnu, sem jafnframt var gefin út 16. janúar 1991, höfðaði stefndi mál fyrir áfrýjanda vegna víxilsins, sem var í gjalddaga 10. ágúst 1990. Sú stefna var einnig árituð um aðfararhæfi 19. febrúar 1991. Var áfrýjanda þar ákveðinn málskostnaður að fjárhæð 320.000 krónur. Af gögnum málsins verður ráðið að stefndi hafi 26. ágúst 1991 fengið gert fjárnám fyrir þessum kröfum í fasteigninni Kleppsvegi 86. Krafðist hann sama dag nauðungaruppboðs á henni. Ágreiningur reis um uppboðsbeiðnirnar, sem lauk með dómi Hæstaréttar 29. september 1992, sbr. dómasafn þess árs bls. 1473, þar sem hafnað var framgangi nauðungarsölu á grundvelli beiðnanna. Fasteignin að Kleppsvegi 86 var seld nauðungarsölu á uppboði 8. júlí 1993. Við uppboðið lagði stefndi fram í nafni áfrýjanda kröfulýsingar í söluverðið, annars vegar vegna kröfunnar á grundvelli skuldabréfsins frá 10. júní 1990 og hins vegar vegna kröfunnar samkvæmt víxlinum, sem var í gjalddaga 10. ágúst sama árs. Var fyrrnefnda krafan þar sögð nema alls 2.333.035 krónum, en sú síðarnefnda 5.924.705 krónum. Í frumvarpi sýslumanns 28. júlí 1993 til úthlutunar á söluverði fasteignarinnar, sem var 10.600.000 krónur, var gert ráð fyrir að 906.716 krónur kæmu í hlut áfrýjanda til greiðslu upp í þessar kröfur samanlagðar. Ágreiningur reis milli áfrýjanda og tveggja annarra veðhafa í fasteigninni um þessa úthlutun. Lauk þeim ágreiningi með dómi Hæstaréttar 24. janúar 1994, sem er birtur í dómasafni þess árs á bls. 110. Leiddi sá dómur til þess að ekkert kom í hlut áfrýjanda af söluverðinu.
III.
Áfrýjandi hefur engin haldbær rök fært fyrir aðalkröfu sinni um ómerkingu héraðsdóms og heimvísun málsins. Gegnir sama máli um kröfu hans um að málinu verði vísað frá héraðsdómi, sem hann ranglega hefur uppi sem þrautavarakröfu að baki kröfu um sýknu.
IV.
Eins og áður er rakið lýtur krafa stefnda að þóknun fyrir gæslu hagsmuna áfrýjanda við innheimtu tveggja krafna hans. Í meginatriðum fólst vinna stefnda að þessu verki í því að höfða mál fyrir áfrýjanda á hendur þeim, sem kröfurnar beindust að, fá fjárnám í fasteign, sem áður hafði verið sett að veði fyrir þeim, og beiðast síðan uppboðs á henni, gæta hagsmuna áfrýjanda í ágreiningsmáli um uppboðsbeiðnirnar, lýsa kröfum fyrir hann í söluverð fasteignarinnar við nauðungarsölu og gæta loks hagsmuna hans í dómsmáli vegna ágreinings um úthlutun söluverðs fasteignarinnar. Svo sem áður segir var dómur Hæstaréttar í síðastnefndu máli kveðinn upp 24. janúar 1994. Verður ekkert ráðið af gögnum málsins um að stefndi hafi nokkuð frekar gert eftir þann tíma til að sinna þessum málum áfrýjanda. Stefndi gerði áfrýjanda á hinn bóginn fyrst reikning vegna vinnu sinnar við þau 3. október 1996. Gerðist það í framhaldi af því að áfrýjandi hafði ritað stefnda bréf 13. september sama árs, þar sem hann krafðist skaðabóta vegna vangæslu stefnda við innheimtu umræddra krafna. Ekki verður séð af gögnum málsins að neinar ástæður hafi verið fyrir töfum á gerð reiknings fyrir verkið aðrar en þær, sem greindi í tilsvörum stefnda 17. nóvember 1996 til Lögmannafélags Íslands vegna áðurnefnds erindis áfrýjanda til félagsins, en þar sagði einn fyrirsvarsmanna stefnda að það hafi verið „einvörðungu framtaksleysi af hálfu undirritaðs að ekki var gengið fyrr til uppgjörs en nú í ár.” Verður í þessu ljósi að miða við að krafa stefnda á hendur áfrýjanda hafi í reynd orðið gjaldkræf þegar stefndi lauk verki sínu 24. janúar 1994.
Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda hefst fyrningarfrestur kröfu á þeim degi, sem hún varð gjaldkræf. Verður ekki litið svo á að hér geti átt við sérregla 1. töluliðar 3. gr. sömu laga um upphaf fyrningar kröfu, sem stofnað er til í föstu viðskiptasambandi, enda styðst krafa stefnda við tvo staka reikninga en ekki niðurstöðu viðskiptareiknings vegna viðskipta aðilanna á lengra tímabili. Stefndi höfðaði eins og áður greinir mál til heimtu kröfu sinnar á hendur áfrýjanda 10. júní 1997. Því máli var vísað frá héraðsdómi með úrskurði 6. apríl 1998. Urðu það endanlegar lyktir þess, enda var kæru áfrýjanda á úrskurðinum vísað frá Hæstarétti. Stefndi höfðaði mál þetta sem áður segir 3. nóvember 1998. Liðu þannig nærfellt sjö mánuðir frá því að fyrra málinu var vísað frá héraðsdómi þar til stefndi höfðaði mál að nýju. Af 6. málslið 1. mgr. 11. gr. laga nr. 14/1905 leiðir því að stefndi sleit ekki fyrningu kröfu sinnar með fyrri málsókn á hendur áfrýjanda. Þegar mál þetta var höfðað 3. nóvember 1998 voru liðin meira en fjögur ár frá því að krafan varð gjaldkræf. Hún var því fyrnd, sbr. 1. tölulið 3. gr. laga nr. 14/1905. Samkvæmt þessu verður að sýkna áfrýjanda af kröfu stefnda.
Dæma verður stefnda til að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem er ákveðinn í einu lagi eins og í dómsorði greinir. Við ákvörðun málskostnaðarins er tekið tillit til þess að áfrýjandi flutti mál sitt sjálfur, svo og að málatilbúnaður hans í héraði og fyrir Hæstarétti er háður stórfelldum og um margt vítaverðum annmörkum, sem hafa gert alla meðferð málsins og úrlausn þess stórum örðugri en nokkur efni hefðu átt að standa til.
Dómsorð:
Áfrýjandi, Jakob A. Traustason, er sýkn af kröfu stefnda, Almennu málflutningsstofunnar sf.
Stefndi greiði áfrýjanda samtals 100.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 17. nóvember 2000.
I.
Mál þetta, sem tekið var til dóms að afloknum munnlegum málflutningi 20. október sl., er höfðað fyrir dómþinginu með stefnu birtri 3. nóvember 1998. Málið var þingfest 19. nóvember sama ár. Málið var dómtekið að afloknum munnlegum málflutningi 10. maí sl., en var endurupptekið á grundvelli 104. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 hinn 20. október sl. til framlagningar frekari gagna. Málið var flutt að nýju og dómtekið sama dag.
Stefnandi er Almenna málflutningsstofan sf., kt. 460886-1399, Kringlunni 6, Reykjavík.
Stefndi er Jakob A. Traustason, kt. 180846-2049, Barónsstíg 3, Reykjavík.
Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 941.404 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 með síðari breytingum frá 1. desember 1996 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda að mati dómsins.
Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi stefnanda, auk álags á málskostnað. Til vara krefst hann þess að stefnufjárhæðin verði lækkuð stórlega og í því tilviki verði honum dæmdur málskostnaður eða málskostnaður látinn niður falla.
II.
Málavextir
Mál þetta hefur stefnandi höfðað á hendur stefnda til greiðslu endurgjalds vegna lögfræðiþjónustu í þágu stefnda, svo og til greiðslu útlagðs kostnaðar vegna málareksturs í hans þágu.
Af gögnum málsins má ráða að á árunum 1989 til 1994 hafi stefnandi annast innheimtu ýmissa fjárkrafna í eigu stefnda. Endanlegar dómkröfur stefnanda eru vegna reksturs eftirfarandi innheimtumála í þágu stefnda og útlagðs kostnaðar vegna þeirra:
Í fyrsta lagi var þjónusta stefnanda fólgin í rekstri innheimtumáls gegn Ess hf., Agli Eyfjörð, Jörundi Pálssyni og Ásgeiri Svani Vagnssyni vegna skuldabréfs að fjárhæð 1.140.000 krónur, sem stefnandi hafði leyst til sín vegna vanefnda stefndu hinn 15. júlí og 13. nóvember 1990. Málið var höfðað sem áskorunarmál fyrir bæjarþingi Reykjavíkur 7. febrúar 1991 og var stefnufjárhæðin 1.197.542 krónur. Stefnan var árituð um aðfararhæfi 19. febrúar sama ár.
Í öðru lagi var um að ræða rekstur innheimtumáls gegn Ess hf., Jörundi Pálssyni og Guðrúnu Stefánsdóttur vegna víxils að fjárhæð 3.100.000 krónur, útgefnum 25. júlí 1990 og með gjalddaga 10. ágúst sama ár. Málið var einnig höfðað sem áskorunarmál fyrir bæjarþingi Reykjavíkur 7. febrúar 1991 og var stefnan árituð um aðfararhæfi 19. febrúar sama ár.
Til tryggingar skaðlausri og skilvísri greiðslu á ofangreindum viðskiptabréfum var tryggingarbréf útgefið af Jörundi Pálssyni 15. nóvember 1990 með veði í fasteigninni að Kleppsvegi 86 í Reykjavík.
Stefnandi kveður stefnda hafa falið sér að gæta hagsmuna sinna vegna uppboðsmeðferðar á fasteigninni að Kleppsvegi 86, Reykjavík í nóvember 1990, en sjá má af gögnum málsins að Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis og Sparisjóður vélstjóra höfðu krafist uppboðs á fasteigninni í ágúst og september sama ár.
Stefnandi gerði fjárnám í fasteigninni 26. ágúst 1991 á grundvelli ofangreindra dóma. Hann fór fram á sölu eignarinnar á uppboði sama dag, með tveimur uppboðsbeiðnum, en þær sættu mótmælum af hálfu uppboðsþola, þar sem rangra uppboðsheimilda var getið í þeim. Um þann ágreining var rekið mál fyrir uppboðsrétti og Hæstarétti Íslands. Dómur Hæstaréttar 29. september 1992 féll á þá lund að uppboðsbeiðnirnar þóttu ekki uppfylla lagaskilyrði og því ekki tækar í uppboðsréttinum.
Sýslumannsembættið ákvað að byrjun uppboðs á fasteigninni skyldi fara fram 4. desember 1992. Ákveðið var að fresta byrjun uppboðs til 28. desember 1992. Framhaldssala á fasteigninni var ákveðin 22. janúar 1993 en féll niður, þar sem aðeins einn uppboðsbeiðandi var orðinn eftir í málinu og var uppboðsbeiðni hans afturkölluð. Beðið var um nauðungarsölu á eigninni að nýju 9. febrúar 1993 og var fasteignin seld 8. júlí 1993. Stefnandi bauð í eignina fyrir hönd stefnda og varð hæstbjóðandi. Stefnandi kveðst ekki hafa náð í stefnda til að inna af hendi greiðslu samkvæmt boðinu og kveðst því hafa orðið að falla frá boðinu. Stefndi kveður það hins vegar vanrækslu stefnanda um að kenna að ekki hafi verið haft samband við hann áður en frestur til að standa við boðið rann út. Kveðst hann hafa verið í sumarleyfi á þessum tíma, á Vestfjörðum og í Kaupmannahöfn, og hefði stefnanda verið í lófa lagið að fá upplýsingar um verustað hans og símanúmer hjá móður hans, fyrrum mágkonu og fleira fólki.
Þar sem stefnandi féll frá boði stefnda í eignina var hún boðin næstbjóðanda, Sparisjóði vélstjóra. Samkvæmt frumvarpi að úthlutun söluandvirðis hefði stefndi fengið greiddar rúmar 900.000 krónur af söluandvirðinu. Uppboðsbeiðandi mótmælti hins vegar frumvarpinu og var rekið sérstakt dómsmál til úrlausnar ágreiningnum, fyrir héraðsdómi og Hæstarétti Íslands. Krafa uppboðsbeiðandans var tekin til greina í dómi Hæstaréttar þann 24. janúar 1994, en við það féll niður greiðsla til stefnda af uppboðsandvirðinu.
Með bréfi 13. ágúst 1996 fór stefndi fram á greinargerð og gögn um rekstur innheimtumálanna tveggja. Af gögnum málsins má ráða að því bréfi hafi verið svarað af hálfu stefnanda með bréfi 16. ágúst 1996. Með bréfi 13. september 1996 krafði stefndi stefnanda um bætur vegna meintrar vanrækslu við meðferð innheimtumálanna tveggja, en stefndi taldi sig hafa glatað andvirði viðskiptabréfanna eftir sölu fasteignarinnar, sem bréfin voru tryggð með veði í. Nam bótakrafan 11.687.196 krónum. Í bréfi Hróbjarts Jónatanssonar hrl. fyrir hönd Almennu málflutningsstofunnar hf. til stefnanda l7. september 1996, er bótakröfunni hafnað. Hinn 3. október 1996 sendi stefnandi stefnda reikninga fyrir þóknun að fjárhæð 937.982 krónur og útlögðum kostnaði að fjárhæð 156.334 krónur vegna reksturs nokkurra mála í þágu stefnanda. Með bréfi 28. október 1996 neitaði stefndi að taka afstöðu til reikninganna fyrr en hann hefði fengið afrit viðeigandi gagna og skýringar á einstökum liðum. Jafnframt heldur stefndi því fram í bréfinu að svo hafi um samist að stefnandi myndi aðeins krefja stefnda um þóknun vegna krafna, sem fengjust greiddar, en fengjust kröfu ekki greiddar myndi stefnandi aðeins krefja stefnda um útlagðan kostnað. Þá víkur stefndi að því hversu stefnandi hafi dregið að gefa út reikning vegna mála þessara og að sá dráttur verði ekki skilinn öðruvísi en svo að um sé að ræða viðurkenningu á fyrrgreindu samkomulagi aðila.
Hinn 30. október 1996 óskaði stefnandi eftir áliti stjórnar Lögmannafélags Íslands á nokkrum atriðum, sem hann tiltók í 12 tölusettum liðum. Óskaði stefndi m.a. eftir áliti stjórnarinnar á því, hver væri eðlileg þóknun fyrir lögfræðiþjónustu stefnanda í þágu stefnda vegna reksturs innheimtumálanna á hendur Ess hf. og fleirum. Stjórnin félagsins áleit að lækka bæri þóknun stefnanda vegna innheimtu skuldabréfamálsins og féllst ekki á reikning vegna útlagðs kostnaðar vegna reksturs sama máls, þar sem ekki hefði verið sýnt fram á hvaða kostnaður þetta væri.
Í þriðja lagi var þjónusta stefnanda fólginn í innheimtu kröfu stefnda á hendur Guðmundi Sigurbjarnasyni, Sigurði Bjarna Guðmundssyni og Aðalbjörgu Jónsdóttur, samkvæmt þremur skuldabréfum útgefnum 16. desember 1986, upphaflega að fjárhæð 110.000 krónur hvort um sig, með fyrsta gjalddaga 16. maí 1986.
Samkvæmt gögnum málsins virðist stefnandi hafa höfðað mál vegna bréfanna á hendur skuldurunum þremur fyrir bæjarþingi Reykjavíkur í ársbyrjun 1992. Var gerð réttarsátt í málinu 19. nóvember sama ár þar sem ofangreindir skuldarar samþykktu að greiða stefnda stefnufjárhæðina, 365.172,50 krónur ásamt vöxtum og kostnaði að frádregnum innborgunum alls að fjárhæð 430.000 krónur, sbr. dskj. nr. 57 og 58. Stefnandi krafðist nauðungarsölu á fasteign Aðalbjargar Jónsdóttur 23. apríl 1993 á grundvelli fjárnáms frá 24. febrúar sama ár og lýsti stefnandi kröfu stefnda í söluandvirði umræddrar fasteignar 12. október 1993, alls að fjárhæð 1.052.798 krónur, sbr. dskj. nr. 59 og 60. Kemur fram í minnispunktum stefnanda á dskj. nr. 52 að fasteign Aðalbjargar hafi verið seld á nauðungaruppboði 23. apríl 1993 og hafi 200.000 krónur komið upp í kröfu stefnda. Þá kemur fram á dskj. nr. 61 að stefnandi krafðist fjárnáms hjá Sigurði Bjarna Guðmundssyni 30. maí 1995 fyrir sömu kröfu, sem þá var orðin að fjárhæð 1.312.377 krónur. Fjárnáminu var lokið án árangurs. Kemur fram í fyrrgreindum minnispunktum stefnanda að áfram hafi verið fylgst með skuldurunum, en þeir hafi reynst eignalausir. Þá kemur fram á dskj. nr. 62 að 17. febrúar 1998 krafðist stefnandi á ný fjárnáms hjá Sigurði Bjarna fyrir kröfu stefnda, sem þá var orðin að fjárhæð tæpar 2 milljónir og bauð skuldarinn 600.000 krónur sem fullnaðargreiðslu á kröfunni. Stefndi óskaði eftir því að stefnandi annaðist ekki samninga um þetta mál og varð því að hafna fyrrgreindu boði skuldarans.
Málið var áður höfðað með stefnu 10. júní 1997, en var vísað frá dómi vegna vanreifunar með úrskurði 6. apríl 1998.
Meðferð máls þessa hefur dregist vegna ítrekaðra, en árangurslausra sáttatilrauna aðila.
III.
Málsástæður stefnanda.
Stefnandi byggir endanlegar dómkröfur sínar á því að stefndi hafi á umræddu tímabili verið veitt lögfræðileg þjónusta við rekstur ofangreindra mála, sem greinir á málskostnaðarreikningi nr. 4040 á dskj. nr. 3, en fallið hafi verið frá kröfu um þóknun vegna reksturs máls stefnda gegn Pyramid, heildverslun að fjárhæð 40.000 krónur. Þá hafi verið fallið frá kröfu um greiðslu útlagðs kostnaðar vegna innheimtumála nr. 339-7 og 339-8, samtals að fjárhæð 17.344 krónur og kostnaðar vegna verðmats á fasteigninni að Kleppsvegi 86 að fjárhæð 9.089 krónur, sjá reikning nr. 4041 á dskj. nr. 3, samtals að fjárhæð 26.433 krónur.
Stefnandi kveður þóknun vegna reksturs innheimtumáls á hendur Ess hf., Agli Eyfjörð, Jörundi Pálssyni og Ásgeiri S. Vagnssyni vera að fjárhæð 85.000 krónur og hafi þá verið tekið tillit til álitsgerðar Lögmannafélags Íslands á dskj. nr. 17, en stjórn félagsins hafi komist að þeirri niðurstöðu að ekki hafi verið brýn nauðsyn til að taka dóm fyrir kröfu þessari. Dæmdur málskostnaður í máli þessu hafi hins vegar verið 163.000 krónur með virðisaukaskatti.
Stefnandi kveður þóknun vegna reksturs innheimtumáls á hendur Ess hf., Jörundi Pálssyni og Guðrúnu Stefánsdóttur nema 467.000 krónum og þóknun vegna reksturs innheimtumáls á hendur Guðmundi Sigurbjarnasyni og fleirum nema 99.569 krónum (málskostnaður kr. 91.085, ritun fjárnámsbeiðni kr. 2.828 krónur, ritun uppboðsbeiðni kr. 2.828 krónur og ritun kröfulýsingar kr. 2.828). Samtals nemi þóknun stefnanda vegna reksturs mála þessara 651.569 krónum. Ofan á þóknun þessa bætist 24,5% virðisaukaskattur að fjárhæð 159.934 krónur, sem samtals geri 811.503 krónur.
Stefnandi kveður endanlega kröfu sína um greiðslu útlagðs kostnaðar nema 129.901 krónum. Hann sundurliðar kröfu sína með eftirfarandi hætti:
Rekstur innheimtumáls á hendur Guðmundi Sigurbjarnasyni og fl. (innheimtumál nr. 339-6):
Kostnaður vegna fjárnáms27.321 króna
Þinglýsingar- og stimpilkostnaður
vegna fjárnáms13.341 króna
Kostnaður vegna uppboðs23.871 króna
Annar útlagður kostnaður8.484 krónur
Samtals73.017 krónur
Rekstur innheimtumáls á hendur Ess hf., Agli Eyfjörð, Jörundi Pálssyni og Ásgeiri S. Vagnssyni (innheimtumál nr. 339-10):
Kostnaður vegna fjárnáms3.528 krónur
Kostnaður vegna uppboðs49.828 krónur
Samtals53.356 krónur
Rekstur innheimtumáls á hendur Ess hf., Jörundi Pálssyni og Guðrúnu Stefánsdóttur (innheimtumál nr. 339-11):
Kostnaður vegna fjárnáms3.528 krónur
Stefnandi kveður endanlega kröfu sína um greiðslu útlagðs kostnaðar nema 941.404 krónum.
Fyrir ofangreinda lögfræðiþjónustu stefnanda beri stefnda að greiða eðlilega og sanngjarna þóknun. Endurgjald fyrir þessa þjónustu hafi fyrir tilverknað stefnda verið metið hæfilegt af Lögmannafélagi Íslands og kveður stefnandi stefnukröfu málsins við það álit miðað. Ekki sé þó fallist á álit Lögmannafélagsins varðandi útlagðan kostnað í máli gegn Ásgeiri Vagnssyni o.fl., sbr. fskj. 5 á dskj. nr. 3.
Við munnlegan málflutning kom fram hjá stefnanda að ekki hefði verið samið fyrirfram um endurgjald fyrir þjónustu stefnanda í þágu stefnda. Um innheimtumál hefði verið að ræða og samkvæmt venju miðaðist þóknun í þeim málum við þá fjárhagslegu hagsmuni, sem í húfi væru í viðkomandi máli. Stefndi hefði leitað til Lögmannafélags Íslands og fengið álit þess á umkrafðri lögmannsþóknun. Álit Lögmannafélagsins frá 25. mars 1997 lægi frammi í málinu og hefði verið tekið tillit til þess við gerð stefnukrafna. Þá hélt stefnandi því fram að málskostnaðarreikningur væri yfirleitt ekki gefinn út í innheimtumálum fyrr en endanlega lægi fyrir að tilraunir til innheimtu kröfunnar væru árangurslausar. Stefndi hefði verið með nokkrar kröfur í innheimtu hjá stefnanda á þessum tíma og hefði fé, sem innheimtist í einu máli gengið til greiðslu á útlögðum kostnaði í öðru málum, sem var lokið án þess að nokkurt hefði fengist greitt upp í viðkomandi kröfu. Væri þetta skýringin á því að dregist hefði að gefa út málskostnaðarreikning vegna þeirra mála, sem um væri fjallað í máli þessu. Það hefði hins vegar verið gert um leið og stefndi hafði slitið viðskiptasambandi sínu við stefnanda með bréfi 13. október 1996.
Stefnandi mótmælti fullyrðingum stefnda um að stefnandi hefði vanefnt skyldur sínar gagnvart stefnda að því er rekstur innheimtumálanna snertir.
Við munnlegan málflutning mótmælti stefnandi þeim skilningi stefnda að krafa lögmanns um þóknun úr hendi umbjóðanda síns félli í gjalddaga við uppkvaðningu dóms. Þá benti stefnandi á að eftir að áskorunarstefnur í málum stefnda gegn Ess hf. og fleirum voru áritaðar 19. febrúar 1991 hafi stefnandi rekið tvö mál fyrir Hæstarétti vegna sama máls og hafi dómur í því síðara verið kveðinn upp 24. janúar 1994. Sé þá fyrst hægt að tala um verklok.
Viðskiptasamband stefnda við stefnanda hafi verið fast og óslitið í skilningi 1. tl. 3. gr. fyrningarlaga nr. 14/1905. Líti stefnandi svo á að viðskiptasambandi þessu hafi verið slitið með bréfi stefnda 13. september 1996 þar sem stefndi hafi krafist bóta úr hendi stefnanda. Í tilefni þess hafi stefnandi gefið út reikning á dskj. nr. 3 og hafi krafa stefnanda þá fyrst orðið gjaldkræf í skilningi 1. tl. 5. gr. fyrningarlaga, þ.e. 3. október 1996.
Hvað varðar innheimtumál á hendur Guðmundi Sigurbjarnasyni þá hafi stefnandi krafist fjárnáms hjá Guðmundi Sigurbjarnasyni 30. maí 1995, sem verið hafi árangurslaust. Hér verði einnig að miða fyrningarfrest við útgáfu reiknings á dskj. nr. 3, þ.e. hinn 3. október 1996.
Þá bendir stefnandi á að hann hafi áður höfðað mál út af kröfu þessari með stefnu birtri 10. júní 1997 og verði að telja að þá hafi nýr fyrningarfrestur byrjað að líða. Máli þessu hafi verið vísað frá dómi vegna vanreifunar 6. apríl 1998.
Að því er lagarök varðar vísar stefnandi til meginreglna kröfuréttar um skuldbindinargildi samninga, vanefndir og vanefndaúrræði, sem eigi sér einkum stoð í 5., 6. og 28. gr. laga nr. 39/1922 um lausafjárkaup og ákvæða samningalaga nr. 7/1936. Stefnandi kveður kröfu um málskostnað úr hendi stefnda reista á 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þá kveður hann kröfu um dráttarvexti byggða á 9., 10. og 12. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 með síðari breytingum
IV.
Málsástæður stefnda.
Af hálfu stefnda er á því byggt að stefnandi hafi vegna mistaka og vanrækslu í starfi valdið því að stefndi fékk ekkert upp í kröfu sína af söluandvirði fasteignarinnar að Kleppsvegi 86 og því geti ekki staðist að stefnandi eigi að fá þóknun fyrir störf sín vegna þessa máls. Óumdeilt sé að fjárkröfur þær, sem hér um ræðir, hafi haft góða veðstöðu á grundvelli tryggingabréfs með beinni uppboðsheimild og því hafi átt að vera vandalaust af hálfu stefnanda sjá til þess að þær fengjust greiddar að fullu ásamt vöxtum og kostnaði. Í stað þess hafi stefnandi dregið að óþörfu að beiðast uppboðs á fasteigninni fyrir hönd stefnda, staðið í óþörfum og tilgangslausum málarekstri fyrir Hæstarétti vegna gallaðra uppboðsbeiðna, en vegna þessa málarekstrar hafi sölumeðferð á eigninni tafist. Þá hafi stefnandi unnið gegn því að aðrir kröfuhafar byðu í eignina á uppboðinu og þannig unnið gegn hagsmunum stefnda. Stefndi mótmælir því að stefnandi hafi haft umboð hans til málareksturs um úthlutun söluandvirðis umræddrar fasteignar og alls ekki til málareksturs fyrir Hæstarétti, en til þess hefði stefnandi þurft að afla sérstaks umboðs stefnda. Ennfremur hafi stefnandi ekki tilkynnt stefnda um fyrirhugað uppboð 8. júlí 1993, svo og látið fyrirfarast að tilkynna stefnda um það sem fram fór á uppboðinu áður en frestur til að inna af hendi greiðslu samkvæmt boðinu rann út 28. júlí 1993. Stefnanda hafi þó verið í lófa lagið að hafa upp á stefnda með því að fá upplýsingar um verustað hans hjá móður stefnda, fyrrverandi sambýliskonu og fleira fólki, sem stefnanda hafi verið kunnugt um.
Þá byggir stefndi á að stefnandi hafi ekki haft umboð hans til að krefjast dóma í tveimur innheimtumálum hans gegn Ess hf. og fleirum. Krafa stefnanda hafi byggst á tryggingabréfi með beinni uppboðsheimild, auk þess sem uppboðsmeðferð hafi þegar verið hafin á fasteigninni. Tryggingabréfið hafi verið fullgild uppboðsheimild og hafi stefnanda því strax í upphafi borið að beiðast uppboðs á fasteigninni á grundvelli þess.
Hvað varðar kröfu stefnanda um þóknun vegna reksturs innheimtumáls gegn Guðmundi Sigurbjarnasyni og fleirum byggir stefndi á því að stefnandi hafi ekki skilað umbeðnu verki á áskilum tíma og ekki fengist til að svara fyrirspurnum hans varðandi innheimtumál þessi. Þá hafi stefnandi ekki lagt fram gögn til stuðning kröfu þessari.
Þá byggir stefnandi sýknukröfu sína á því að krafa stefnda um þóknun vegna innheimtumálanna gegn Ess hf. og fleirum, en stefnur í þeim málum hafi verið áritaðar um aðfararhæfi 19. febrúar 1992, sé löngu fyrnd, sbr. 1. tl. 3. gr. laga nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda. Líta verði svo á að krafa stefnanda um þóknun hafi stofnast strax eftir áritun stefnanna 19. febrúar 1991. Þá hafi þessu ákveðna verki verið lokið og fyrir hafi legið hver krafa stefnanda var og hafi hún því þá þegar verið gjaldkræf og í síðasta lagi 31. desember sama ár, sbr. 1. mgr. 5. gr. fyrningalaga. Stefndi kveður reglu 1. tl. 3. gr. fyrningalaga um föst og óslitin viðskipti eigi ekki við í máli þessu. Í fyrsta lagi gildi reglan aðeins um kröfur út af sölu eða annarri afhendingu á lausafé, stefndi hafi aldrei viðurkennt kröfuna og stefnda hafi aldrei verið sendur viðskiptareikningur. Þá hafi áskorunarmálin verið sérstakt verkefni, sem með öllu hafi verið óháð uppboðsmáli á grundvelli tryggingarbréfsins, sem umbeðin hagsmunagæsla hafi grundvallast á. Mál þetta sé höfðað nærri 8 árum eftir að áritun áskorunarstefnanna og krafa vegna þeirra vinnu varð gjaldkræf. Sú krafa sé því löngu fyrnd.
Þá byggir stefndi á því að krafa stefnanda um þóknun vegna reksturs innheimtumáls á hendur Guðmundi Sigurbjarnasyni og fleirum sé einnig fyrnd. Mál þessi hafi verið sett í innheimtu hjá stefnanda fyrir 1990. Stefnandi hafi ekki fengist til að veita neinar upplýsingar um mál þessi þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir stefnda og hafi hann því ekki sýnt fram á að unnið hafi verið að þessum málum.
Stefndi byggir á því með sömu rökum og að ofan að krafa stefnanda um greiðslu útlagðs kostnaðar samkvæmt reikningi nr. 4041 sé fyrnd.
Að lokum krefst stefndi sýknu vegna tómlætis stefnanda. Stefndi kveðst ekkert hafa vitað um rekstur fyrrnefndra áskorunarmála fyrr en hann hafi verið krafinn um þóknun vegna málanna með umstefndum reikningum, eða nærri 6 árum eftir að þóknun og útlagður kostnaður vegna þeirra urðu gjaldkræf.
Sama eigi við um kröfu um þóknun vegna innheimtumálanna gegn Guðmundi Sigurbjarnasyni og fleirum. Stefndi hafi verið grunlaus um kröfu þessa þar til honum barst reikningur stefnanda 3. október 1996. Stefnanda hafi verið falin mál þessi til innheimtu fyrri hluta árs 1989 og 1990 og því hafi liðið meira en 6 ár þar til stefnandi var krafinn um greiðslu þóknunar vegna þeirra og meira en 9 ár hafi liðið án þess að nokkur grein hafi verið gerð fyrir afdrifum innheimtumála þessara þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir stefnda.
Stefndi mótmælir dráttarvaxtakröfu stefnanda, sér í lagi upphafstíma hennar. Enginn áskilnaður hafi verið gerður um dráttarvexti í reikningum stefnanda.
Stefndi styður kröfu sína um álag á málskostnað þeim rökum að stefnandi hafi mátt gera sér grein fyrir að málsókn vegna ofangreindrar hagsmunagæslu í þágu stefnda væri afar vafasöm og í reynd tilgangslaus. Þá hafi máli stefnanda út af sömu kröfu áður verið vísað frá dómi og hafi stefnda ekki verið dæmdur málskostnaður í því máli.
Um lagarök vísar stefndi til 5., 6., 23., 28. og 31. gr. laga nr. 39/1922 um lausafjárkaup. Þá vísar stefndi til meginreglna kröfuréttar og bótareglna skaðabótaréttar. Þá vísar stefndi í heild til laga nr. 39/1922 um lausafjárkaup, með eða án lögjöfnunar, samningalaga nr. 7/1936, sömuleiðis með eða án lögjöfnunar, laga um nauðungaruppboð nr. 57/1949, laga um nauðungarsölu nr. 90/1991, norsku lög Kristjáns V frá 15. apríl 1687, 9. kap. 13. gr. og laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Hann kveður kröfu um málskostnað byggða á XXI. kafla laga nr. 91/1991, sbr. aðallega 129. gr., 130. og 131. gr. þeirra laga.
V.
Niðurstaða.
Við munnlegan flutning málsins 10. maí sl. hreyfði stefndi þeirri málsástæðu að stefnandi, Almenna málflutningsstofan sf., væri ekki réttur aðili málsins þar sem umstefndur reikningur væri gefinn út í nafni Almennu málflutningsstofunnar hf. Er málið var endurupptekið 20. október sl. lagði stefnandi fram gögn á dskj. nr. 46-50 til að skýra aðild sína að málinu.
Fram kemur í gögnum þessum að það samkomulag hafi orðið með sameigendum Almennu málflutningsstofunnar sf. og Lögmannsstofu Baldvins Jónssonar og Reynis Karlssonar 30. júlí 1992 að rekstur framangreindra tveggja firma yrði sameinaður í rekstri eins firma og að stofnað yrði hlutafélag í því skyni, Almenna málflutningsstofan hf. Skyldi Almenna málflutningsstofan sf. vera eiganda 2/3 hlutafjár í hlutafélaginu. Þá kemur fram að á hluthafafundi 21. ágúst 1996 í hlutafélaginu, Almenna málflutningsstofan, hafi verið ákveðið að hætta rekstri félagsins 31. ágúst og ganga um leið til samninga við samnefnt sameignarfélag um yfirtöku ólokinna mála og fleira. Var samþykkt á fundinum að slíta hlutafélaginu. Ennfremur liggur frammi kaupsamningur 1. september 1996 þar sem Almenna málflutningsstofan hf. og Almenna málflutningsstofan sf. gerðu með sér samning um kaup sameignarfélagsins á lausafjármunum hlutafélagsins og yfirtöku á starfsemi þess frá og með 1. september 1996. Var m.a. samið um kaup sameignarfélagsins á viðskiptakröfum hlutafélagsins miðað við 31. ágúst 1996. Þá kemur fram í 2. gr. kaupsamningsins að svo hafi um samist með hlutafélaginu og sameignarfélaginu að sameignarfélagið tæki yfir alla starfsemi hlutafélagsins frá og með 1. september 1996 og að hlutafélagið hætti þá allri starfsemi. Sameignarfélagið tæki frá og með sama tíma við öllum óloknum málum hlutafélagsins og ræki þau áfram undir firmaheiti sínu og hirti af þeim allar tekjur, sem til féllu eftir framangreind tímamörk.
Þá kemur fram á dskj. nr. 3, að fylgibréf með umstefndum reikningum nr. 4040 og 4041 er ritað á bréfsefni Almennu málflutningsstofunnar hf., en fyrrgreindir reikningar stafa hins vegar frá samnefndu sameignarfélagi og eru dagsettir eftir að sameignarfélagið tók yfir allan rekstur hlutafélagsins og síðarnefnda félaginu hafði verið slitið.
Með vísan til ofangreinds er ótvírætt að stefnandi er réttur aðili að máli þessu.
Gegn mótmælum stefnanda telst ósannað að svo hafi um samist með stefnanda og stefnda að stefnda bæri aðeins að greiða útlagðan kostnað í þeim málum, sem ekki tækist að innheimta.
Svo sem fyrr greinir var þjónusta stefnanda, sem hann krefst nú endurgjalds fyrir, annars vegar fólgin í rekstri innheimtumáls gegn Ess hf. og fleiri aðilum og byggðist sú innheimta á skuldabréfi og víxli, svo og tryggingarbréfi með veði í fasteigninni að Kleppsvegi 86. Tilraunir stefnanda til innheimtu krafna þessa lauk 24. janúar 1994 þegar Hæstiréttur tók til greina mótmæli uppboðsbeiðanda gegn frumvarpi að úthlutun söluandvirðis fyrrgreindrar fasteignar, sem varð til þess að greiðsla til stefnda af uppboðsandvirðinu féll niður. Hins vegar var þjónusta stefnda fólgin í rekstri innheimtumáls gegn Guðmundi Sigurbjarnasyni, Sigurði Bjarna Guðmundssyni og Aðalbjörgu Jónsdóttur og byggðist sú innheimta á þremur skuldabréfum. Fram kemur í gögnum málsins að fasteign Aðalbjargar hafi verið seld á nauðungaruppboði í apríl 1993 og hafi 200.000 krónur komið upp í kröfu stefnda af söluandvirðinu. Þá hafi verið gert árangurslaust fjárnám hjá Sigurði Bjarna í maí 1995. Ekki er að sjá að stefndi hafi tekið kröfur þessar úr innheimtu hjá stefnanda eftir að ofangreind niðurstaða var fengin og fram hefur komið að stefndi var með fleiri kröfur til innheimtu hjá stefnanda á þessum tíma. Stefnandi kveður að áfram hafi verið fylgst með skuldurum í ofangreindum málum, en þeir hafi verið eignalausir.
Stefnandi gaf út reikning fyrir þóknun vegna starfa sinna við rekstur ofangreindra innheimtumála 3. október 1996.
Krafa stefnanda fyrnist á 4 árum samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 46/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda. Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. þeirra laga byrjar fyrningarfrestur að líða þegar krafan verður gjaldkræf. Með vísan til meginreglu 12. gr. laga nr. 39/1922 um lausafjárkaup verður að telja að krafa verði fyrst gjaldkræf þegar hún er sett fram, en það var í þessu tilfelli gert með bréfi stefnanda 3. október 1996 og er reikningurinn, sem liggur til grundvallar kröfum stefnanda í málinu dagsettur sama dag. Fyrningu var slitið með birtingu stefnu í máli þessu 3. nóvember 1998, sbr. 11. gr. fyrningarlaga, en áður hafði stefnandi höfðað mál út af sömu kröfu með stefnu birtri 10. júní 1997, en því máli var vísað frá dómi vegna vanreifunar.
Ekki er fallist á að stefnandi hafi sýnt af sér tómlæti, sem leiða eigi til sýknu, með því að reikningur vegna umræddrar þjónustu í þágu stefnda var ekki gefinn út fyrr en raun ber vitni. Ber í því sambandi að líta til þess að stefndi virðist ekki hafa tekið fyrrgreind mál úr innheimtu hjá stefnanda og innheimtumáli lýkur eðli málsins ekki fyrr en viðkomandi krafa er að fullu greitt eða ákveðið er að hætta innheimtutilraunum. Þá ber og að líta til þess að stefndi var með fleiri mál til innheimtu hjá stefnanda á sama tíma og gat uppgjör þeirra mála farið að einhverju leyti saman.
Stefnandi kveður umkrafða þóknun vegna innheimtu kröfu á hendur Guðmundi Sigurbjarnasyni nema 99.569 krónum og útlagður kostnaður vegna sama máls nema 73.017 krónum. Á dskj. nr. 52, sem eru minnispunktar stefnanda vegna fyrrgreinds máls, kemur fram að 200.000 krónur hafi komið upp í kröfu stefnda við nauðungarsölu á fasteigninni að Úthlíð 15. Engin grein er gerð fyrir því hvernig þeirri innborgun var ráðstafað inn á kröfu stefnda. Þykir krafa stefnanda um þóknun úr hendi stefnda vegna máls þessa því vanreifuð að þessu leyti og verður henni því vísað frá dómi ex officio.
Stefndi heldur því fram að stefnandi hafi ekki haft umboð hans til að krefjast dóma vegna skuldabréfa- og víxilkröfu hans á hendur Ess hf. og fleirum. Óumdeilt er að stefndi fól stefnanda innheimtu krafna þessara, sem báðar voru gjaldfallnar. Almennt verður að telja það eðlilegan þátt í innheimtu kröfu að krefjast dóms á hendur skuldurum til að koma í veg fyrir fyrningu kröfunnar. Samkvæmt álitsgerð Lögmannafélags Íslands 25. mars 1997 var ekki brýn þörf á að fá dóm fyrir skuldabréfakröfunni vegna hættu á fyrningu. Hefur stefnandi lækkað þóknun sína vegna þessa máls í samræmi fyrrgreinda álitsgjörð. Ósannað þykir að stefnandi hafi ekki haft umboð hans til málareksturs vegna úthlutunar söluandvirðis fasteignarinnar að Kleppsvegi 86, enda kemur hún fyrst fram af hálfu stefnda í greinargerð hans í máli þessu.
Aðrar varnir stefnda í máli þessu, sem hann telur eiga að leiða til sýknu, lúta að því að stefnandi hafi valdið stefnda tjóni með því að hann hafi vanrækt með saknæmum og ólögmætum hætti að gæta hagsmuna stefnda við innheimtu krafna hans. Mál þetta er höfðað til heimtu reikningsskuldar. Stefndi hefur ekki gagnstefnt í málinu til heimtu bóta úr hendi stefnanda vegna ætlaðs tjóns og verður því í máli þessu ekki tekin afstaða til málsástæðna stefnda er lúta að ætlaðri bótaábyrgð stefnanda.
Ljóst þykir af gögnum málsins að stefnandi innti af hendi þá þjónustu í þágu stefnda, sem hann krefst nú endurgjalds fyrir. Fram kemur í framlögðu bréfi stefnda til Lögmannafélags Íslands 30. október 1996 að þegar hann hafi falið stefnanda innheimtu krafna sinna á hendur Ess hf. og fleirum hafi hann tekið sérstaklega fram að hann vildi aðeins að stefnandi fylgdist með þegar hafinni uppboðsmeðferð á umræddri fasteign og setti inn kröfulýsingu í uppboðsandvirðið þegar og ef til lokauppboðs kæmi. Jafnframt hafi hann beðið stefnanda um að bjóða í eignina yrði hún seld nauðungarsölu reyndist það nauðsynlegt til að verja hagsmuni hans. Gögn málsins benda til þess að störf stefnanda í þágu stefnda hafi verið í samræmi við ofangreindar óskir hans, en mál hafi síðar þróast þannig að hefja hafi þurft beinar aðgerðir gegn skuldurum til að verja kröfur stefnda.
Stefnandi krefst þóknunar að fjárhæð 85.000 krónur vegna reksturs innheimtumáls á hendur Ess ehf., Agli Eyfjörð, Jörundi Pálssyni og Ásgeiri S. Vagnssyni, en umrædd þóknun er í samræmi við álitsgerð Lögmannafélags Íslands svo sem fyrr greinir. Dæmdur málskostnaður í viðkomandi máli var hins vegar 163.000 krónur með virðisaukaskatti. Útlagður kostnaður vegna sama máls er að fjárhæð 53.356 krónur, sbr. dskj. nr. 3 og fskj. nr. 5.
Þá krefst stefnandi þóknunar að fjárhæð 467.000 krónur vegna reksturs innheimtumáls á hendur Ess ehf., Jörundi Pálssyni og Guðrúnu Stefánsdóttur. Fram kemur í bréfi stefnanda til Lögmannafélags Íslands 17. nóvember 1996 að miðað sé við dæmdan málskostnað í áskorunarstefnu að fjárhæð 258.126 krónur án virðisaukaskatts, sbr. dskj. nr. 9. Á dskj. nr. 9 er einnig krafist þóknunar vegna ritunar fjárnámsbeiðni, uppboðsbeiðni og kröfulýsingar, samtals að fjárhæð um 11.000 krónur. Þá kemur fram að ekki sé krafist þóknunar vegna reksturs uppboðsmáls, sem leiddi af mistökum við gerð uppboðsbeiðna. Hins vegar sé krafist þóknunar vegna reksturs ágreiningsmáls vegna úthlutunar söluandvirðis fasteignarinnar að Kleppsvegi 86, sem er þá að fjárhæð um 195.000 krónur. Útlagður kostnaður vegna þessa máls er að fjárhæð 3.528 krónur.
Stefnandi kveður þóknun í ofangreindum málum miðast við þá fjárhagslegu hagsmuni, sem í húfi hafi verið í viðkomandi málum. Samkvæmt 2. mgr. 2.gr. laga nr. 61/1942, sem í gildi voru þegar krafa stefnanda var sett fram og málið var höfðað, var lögmönnum heimilt að miða endurgjald fyrri störf sín við hluta af fjárhæð máls. Þykir stefndi ekki hafa sýnt fram á að endurgjald það, sem stefnandi áskildi sér vegna innheimtu ofangreindra krafna hafi verið bersýnilega ósanngjarnt í skilningi 5. gr. laga nr. 39/1922.
Samkvæmt ofangreindu verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda alls 744.124 krónur (467.000 + 85.000 = 552.000 * 24,5% = 135.240 = 687.240 + 53.356 + 3.528). Fyrri málssókn stefnanda vegna sömu kröfu lauk með frávísun málsins frá dómi. Þykir því rétt að ákveða að tildæmd fjárhæð beri dráttarvexti frá þingfestingardegi þessa máls, sem var 19. nóvember 1998.
Eftir úrslitum málsins ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilegur að fjárhæð 250.000 krónur og er þ.m.t. virðisaukaskattur.
Ragnheiður Bragadóttir settur héraðsdómari kvað upp dóminn.
Dómsorð:
Stefndi, Jakob A. Traustason, greiði stefnanda, Almennu málflutningsstofunni sf., 744.124 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 19. nóvember 1998 til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 250.000 krónur í málskostnað.