Hæstiréttur íslands
Mál nr. 760/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Nauðungarvistun
|
|
Föstudaginn 28. desember 2012. |
|
Nr. 760/2012.
|
A (Brynjólfur Eyvindsson hdl.) gegn fjölskyldusviði B (Hjördís E. Harðardóttir hrl.) |
Kærumál. Nauðungarvistun.
Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um nauðungarvistun A á sjúkrahúsi, sem ákveðin hafði verið af innanríkisráðuneytinu 15. desember 2012.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Helgi I. Jónsson og Þorgeir Örlygsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. desember 2012, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. desember 2012, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að felld yrði úr gildi ákvörðun innanríkisráðuneytisins 15. sama mánaðar um að hún skuli vistuð nauðug á sjúkrahúsi samkvæmt 3. mgr., sbr. 2. mgr., 19. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Kæruheimild 1. mgr. 16. gr., lögræðislaga. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hún kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr., sbr. 4. mgr. 31. gr., lögræðislaga greiðist úr ríkissjóði þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila og skipaðs talsmanns varnaraðila, sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, Brynjólfs Eyvindssonar héraðsdómslögmanns, og skipaðs talsmanns varnaraðila, Hjördísar E. Harðardóttur hæstaréttarlögmanns, vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, 100.400 krónur til hvors þeirra um sig, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur fimmtudaginn 20. desember 2012.
Mál þetta, sem varðar kröfu varnaraðila um að nauðungarvistun sem hún sætir á sjúkrahúsi verði felld niður, barst dóminum 17. desember sl. með beiðni varnaraðila sem dagsett er degi fyrr.
Sóknaraðili málsins er Fjölskyldusvið B, [...], [...] en varnaraðili er A, kt. [...],[...],[...].
Sóknaraðili krefst þess að beiðni varnaraðila verði hafnað og málskostnaður verði greiddur úr ríkissjóði og þar með talin hæfileg þóknun til handa skipuðum talsmanni hans.
Varnaraðili krefst þess að ákvörðun Innanríkisráðuneytisins 15. desember 2012, þar sem henni var gert að sæta nauðungarvistun á sjúkrahúsi á grundvelli 3. mgr. sbr. 2. mgr. 19. gr. lögræðislaga nr. 71/1991, verði felld úr gildi. Þá krefst hún þess að málskostnaður verði greiddur úr ríkissjóði og þar með talin hæfileg þóknun til handa skipuðum verjanda hennar.
Í málinu liggur fyrir læknisvottorð Þórgunnar Ársælsdóttur geðlæknis. Kemur þar fram að skoðun hafi farið fram 15. desember 2012. Í vottorðinu segir meðal annars að um sé að ræða 27 ára gamla kona konu, sem sé [...] en atvinnulaus. Hún hafi verið flutt á geðdeild 14. desember sl. í fylgd borgarlæknis og lögreglu vegna vaxandi ranghugmynda ofsóknarkenndar og einangrunar.
Þess er getið að varnaraðili hafi legið á geðdeild í vikutíma í júní 2011 vegna aðsóknarranghugmynda sem gengið hafi yfir í innlögninni. Hún hafi komið einu sinni í göngudeildareftirlit hjá lækni en hafi svo afþakkað frekari viðtöl.
Í vottorðinu er greint frá þeirri skoðun sem læknirinn framkvæmdi. Kemur þar m.a. fram að varnaraðili hafi verið reið og stutt í æsing hjá henni. Hún hafi verið hótandi í viðtalinu og hafi sagst ætla að kæra lækninn, hafi skipað lækninum fyrir og hafi hæðst að spurningum. Varnaraðili hafi verið tortryggin og árásargjörn. Enginn flötur hafi fundist á vinsamlegum samskiptum. Hafi varnaraðili neitað að ræða sína heilsu og hafi sagt að allt sem læknirinn héldi um hana sé tóm vitleysa. Þá kemur fram í vottorðinu að hún sé með aðsóknarranghugmyndir um að fólk sé á móti sér og vilji sér illt. Ekki komi fram hugsanir eða plön um að skaða sjálfa sig eða aðra, en það sé ljóst að fólk sem sé með slíkar hugmyndir geti verið öðrum hættulegt. Varnaraðili sé algerlega innsæislaus og segist vera fullkomlega heilbrigð í alla staði og telji sig ekki þurfa að liggja á geðdeild.
Í niðurstöðu vottorðsins greinir að varnaraðili sé með alvarlegan geðsjúkdóm (Delusional disorder) og hafi einangrað sig frá fjölskyldu og vinum undanfarna mánuði vegna aðsóknarranghugmynda. Hún sé algjörlega innsæislaus í sjúkdóm sinn og því sé óhjákvæmilegt að vista hana á geðdeild svo hægt verði að koma við nauðsynlegri meðferð. Læknirinn gaf skýrslu fyrir dóminum staðfesti vottorð sitt og tjáði sig nánar um efni þess. Kvað læknirinn að vegna innsæisleysis varnaraðila í sjúkdóm sinn væri nauðsynlegt að svipta hana frelsi þannig að koma mætti í kring viðeigandi meðferð. Læknirinn kvaðst aðspurð að með hliðsjón af þeirri læknisskoðun sem hún hafi sjálf framkvæmt sé hún ekki í neinum vafa um að varnaraðili sé alvarlega veik. Taldi læknirinn að það hefði það sýnt sig með fólk sem haldið væri sama sjúkdómi að vægari úrræði en nauðungarvistun kæmu ekki að gagni. Skipti hér mestu það einkenni sjúkdómsástandsins að hafa ekkert innsæi í að eitthvað væri að.
Varnaraðili talaði máli sínu fyrir dóminum. Kom fram í máli hennar að hún hafnaði því að hún ætti við geðsjúkdóm að stríða. Taldi hún að ástæða þess að hún væri nú nauðungarvistuð væri annars vegar deila hennar við starfsmenn hótels sem hún hafi dvalið á þegar hún hafi verið færð á sjúkrahúsið nauðug og hins vegar viðbrögð sjúkrahússins vegna máls sem hún hefði í undirbúningi vegna fyrri ólögmætrar innlagnar sinnar á sama sjúkrahús.
Það er mat dómsins að framburður varnaraðila hafi ekki verið með þeim hætti að varpað hafi rýrð á réttmæti fyrirliggjandi læknisvottorðs, eða þeirra ályktana sem þar eru dregnar um heilsufar hennar. Verður þvert á móti að telja að lýsingar varnaraðila sjálfrar á ástæðum þess að hún er nú vistuð nauðug á sjúkrahúsi sem koma fram í skýrslu hennar fyrir dómi séu með nokkrum ólíkindablæ og geti ekki talist trúverðugar eða að líklegt geti talist að þær eigi við rök að styðjast. Varnaraðili lagði fram tvo vottorð um niðurstöðu fíkniefnaprófa. Ekki verður séð að þessi gögn varði úrlausn málsins enda er niðurstaða Innanríkisráðuneytisins ekki reist á því að varnaraðili sé háð neyslu áfengis eða vímuefna. Vottorð læknis um geðheilsu varnaraðila 2. mars 2012 getur ekki hnekkt vottorði læknis um ástand hennar 15. desember sama ár.
Með vísan til þess sem rakið er hér að framan og þá einkum vottorðs og framburðar Þórgunnar Ársælsdóttur geðlæknis þykir sýnt að varnaraðili er haldin alvarlegum geðsjúkdómi sem hún hefur ekki innsæi í. Er fallist á með sóknaraðila að skilyrði 2. mgr. 19. gr. laga nr. 71/1997 séu uppfyllt. Eru því ekki efni til að verða við kröfu varnaraðila um að ákvörðun Innanríkisráðuneytisins frá 15. desember sl. um nauðungarvistun varnaraðila á sjúkrahúsi verði felld úr gildi.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist málskostnaður úr ríkissjóði og er þar meðtalin þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila og þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, sem þykir hæfilega ákveðin með þeim fjárhæðum sem nánar greinir í úrskurðarorði og er virðisaukaskattur þar meðtalinn.
Halldór Björnsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Kröfu varnaraðila, A, kt. [...], um að felld verði úr gildi ákvörðun Innanríkisráðuneytisins 15. desember 2012 um að hún skuli vistuð nauðug á sjúkrahúsi, skv. 3., mgr., sbr. 2. mgr. 19. gr. laga nr. 71/1997, er hafnað.
Málskostnaður greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila, Sonju Maríu Hreiðarsdóttur hdl., 75.300 krónur, og skipaðs verjanda varnaraðila, Brynjólfs Eyvindssonar hdl. 75.300 krónur.