Hæstiréttur íslands

Mál nr. 241/2005


Lykilorð

  • Skaðabætur
  • Vinnuslys
  • Líkamstjón
  • Gjafsókn


Fimmtudaginn 24

 

Fimmtudaginn 24. nóvember 2005.

Nr. 241/2005.

Erna Sigþórsdóttir

(Lilja Jónasdóttir hrl.)

gegn

Olíufélaginu ehf.

(Hákon Árnason hrl.)

 

Skaðabætur. Vinnuslys. Líkamstjón. Gjafsókn.

E varð fyrir slysi utan dyra á vinnustað sínum í nóvember 2001, er hún féll um stein sem þar var staðsettur. Krafðist hún bóta úr hendi vinnuveitanda síns, O, vegna þess tjóns sem af hlaust. Ekkert lá fyrir um að vinnueftirlitið, eða aðrir opinberir aðilar, hefðu áður en slysið varð gert athugasemdir við staðsetningu steinsins, en staðsetning hans var í samræmi við teikningu af húsnæðinu. Varð ekki litið svo á að tjón E yrði rakið til annmarka á húsnæði O, sem fyrirtækinu yrði metinn til sakar og var O sýknað af kröfu E.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 10. júní 2005. Hún krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 1.608.918 krónur, með 4,5 % ársvöxtum af 265.645 krónum frá 2. nóvember 2001 til 30. apríl 2002, en af 1.608.918 krónum frá þeim degi til 24. október 2003, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádreginni greiðslu að fjárhæð 412.235 krónur 30. október 2003. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt á báðum dómstigum.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara lækkunar á stefnukröfu og að málskostnaður verði felldur niður.

Með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms verður ekki litið svo á að tjón áfrýjanda verði rakið til annmarka á húsnæði stefnda sem honum verði metinn til sakar.  Verður héraðsdómur því staðfestur.

Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður. Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, svo sem nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, Ernu Sigþórsdóttur, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningslaun lögmanns hennar, 300.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 18. apríl 2005.

             Mál þetta, sem dómtekið var 31. mars 2005, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Ernu Sigþórsdóttur, kt. 191239-4909, Skeljatanga 25, Mosfellsbæ gegn Olíufélaginu ehf., kt. 541201-3940. Suðurlandsbraut 18, Reykjavík og Vátryggingafélagi Íslands hf., kt. 690689-2009, Ármúla 3, Reykjavík, til réttargæslu, með stefnu, sem birt var 8. desember 2003.

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skaðabætur að fjárhæð 1.608.918 kr. með vöxtum samkvæmt 16. gr. laga nr. 50/1993 af 265.645 kr. frá 2. nóvember 2001 til 30. apríl 2002, en af 1.608.918 kr. frá 30. apríl 2002 til 24. október 2003, en með dráttarvöxtum samkvæmt IV. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 af þeirri fjárhæð frá 24. október 2003 til greiðsludags.  Allt að frádreginni greiðslu að fjárhæð 412.235 kr. þann 30. október 2003.  Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.

Dómkröfur stefnda, Olíufélagsins ehf., eru aðallega þær að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og honum dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati dómsins.  Til vara gerir stefndi þær dómkröfur að sök verði skipt í málinu, stefnukröfur lækkaðar og málskostnaður látinn niður falla.

Af hálfu réttargæslustefnda, Vátryggingafélags Íslands hf., eru ekki gerðar sjálfstæðar dómkröfur enda engar kröfur gerðar á hendur félaginu.

Helstu málavextir eru að stefnandi varð fyrir slysi utan dyra á vinnustað sínum, ESSO, Ártúnshöfða 2. nóvember 2001.  Stefnandi hafði gengið út í kaffihléi um kl. 22:00 ásamt starfsfélaga sínum, Ríkharði, til að reykja og drekka kaffi.  Er stefnandi ætlaði aftur inn um starfsmannainngang, er greint frá því í skýrslu lögreglunnar - sem tekin var vegna slyssins 30. október 2002 - að stefnandi hafi dottið um stein, sem staðsettur var við innganginn að vestanverðu, með þeim afleiðingum að tvö rifbein brotnuðu, þrjú rifbein sködduðust auk þess sem hún hafi fengið áverka á háls og handleggjum.  Kvað stefnandi myrkt hafa verið úti, rigningu og rok.  Er hún gekk áleiðis inn hafi hún snúið höfði undan veðri til að skýla gleraugum sínum og dottið um stein, sem staðsettur var við innganginn, en hún hefði gleymt staðsetningu hans og verið að flýta sér inn vegna veðurs.

Stefnandi byggir á því að stefndi beri skaðabótaábyrgð á því tjóni sem stefnandi varð fyrir sem starfsmaður stefnda samkvæmt almennu skaðabótareglunni og reglum skaðabótaréttarins um ábyrgð húseiganda.  Stefndi beri skaðabótaábyrgð á tjóni stefnanda sem sé afleiðing af þeirri háttsemi stefnda að koma fyrir háum steinum við vinnustað er skapi hættu fyrir fótgangendur.  Ámælisvert hafi verið að staðsetja stein við starfsmannainnganginn.

             Vísað er til þess að tilmæli hafi borist til stefnda frá Vinnueftirlitinu um að gera gönguleiðir við vinnustaðinn hindrunarlausar, en tilmælunum hafi ekki verið sinnt.  Mikil hætta stafi af umræddum steinum.  Forráðamönnum stefnda hafi mátt vera ljóst að nauðsynlegt væri að fjarlægja þá til að koma í veg fyrir slys.  Skylda hafi hvílt á stefnda að sjá til þess að umbúnaður í og við vinnustaðinn væri ekki hættulegur fyrir starfsmenn og aðra sem þar eiga leið um.  Um slysagildru sé að ræða, starfsmenn og viðskiptamenn hafi hrasað um steinana.  Þrátt fyrir það hafi stefndi ekki gripið til neinna aðgerða eða ráðstafana til að koma í veg fyrir slys af þessum orsökum.

             Þá er vísað til þess að stefndi hafi ekki hlutast til um rannsókn á slysi stefnanda, hvorki hjá lögreglu né Vinnueftirlitinu.

             Bent er á að Vátryggingafélagi Íslands hf. sé stefnt til réttargæslu sem vátryggjanda stefnda, en stefndi hafi verið með ábyrgðartryggingu atvinnurekanda í gildi hjá réttargæslustefnda á þeim tíma er slysið varð.

Stefnandi reisir fjárkröfu sína á matsgerð dómkvaddra matsmanna 1. september 2004.  Matsgerðin er dagsett 21.10.2004.  Undir fyrirsögninni SAMANTEKT OG ÁLIT segir:

Fyrir slysið 02.11.2001 hafði Erna óþægindi í hægra hné eftir bílslys 1985 og óþægindi í hálsi tengt hálshnykki við tvö bílslys á árinu 1986, en vegna þeirra hafi hún verið metin til 25% varanlegrar örorku að því er hún telur.  Þessi hálseinkenni jukust við bílslys á árinu 1993.  Á árinu 1994 voru komnar fram slitbreytingar á báðum mjöðmum ásamt vöðvagigt í hálsi, herðum og baki, sem síþreytu og svefntruflunum.  Á árinu 1999 var skipt um vinstri mjaðmarlið.  Frá 01.08.1999 fram til dagsins í dag og síðan varanlega hefur Erna verið metin til 75% varanlegrar örorku af Tryggingastofnun ríkisins vegna einkenna frá hálsi, baki, hægra hné, báðum mjöðmum, síþreytu og svefntruflana.  Starfsgeta Ernu hefur á þessum tíma verið skert. ...

Við vinnuslysið 02.11.2001 rak Erna fót í stein, féll fram fyrir sig og lenti vinstri helmingur brjóstkassa á steini eða stólpa.  Hún hlaut brákun á rifbein og hafði strax eftir slysið óþægindi á því svæði við þreifingu og djúpa innöndun.  Síðar sýndu röntgenmyndir og beinaskann útlit sem svarar til rifbeinsáverka.  Af þeim sökum er talið nokkuð víst að Erna hafi hlotið rifbeinsáverka við slysið sem hafa gróið.  Hún hefur enn í dag þyngsli á brotasvæði og stundum óþægindi við djúpa innöndun.  Þessi óþægindi trufla hana lítilsháttar í daglegu lífi.  Vegna þessara einkenna var Erna til meðhöndlunar hjá heimilislækni, Ingvari Ingvarssyni, frá slysi fram til 15.11.2001.

Erna kvartar um að fyrri óþægindi í hálsi, höfði og baki hafi versnað strax eftir slysið og séu nú meiri en þau voru áður.  Fyrsta skriflega heimild um verki í hálsi er að finna þann 29.04.2002, er Erna leitar vegna verkja í hálsi á slysadeild og rekur hún þar einkenni til byltunnar í nóvember, eins og fram kemur í bréfi Ingvars Ingvarssonar dags. 29.07.2002.  Hins vegar er ekki getið um óþægindi í hálsi á þeim tíma sem Erna var til fyrstu meðferðar hjá heimilislækni, frá slysi fram til 15.11.2001.  Eftir þetta kvartar Erna um sömu óþægindi, þ.e. í hálsi, höfði, herðum og baki, en heldur vaxandi eins og fram kemur í fyrirliggjandi gögnum.  Ítarlegar röntgenrannsóknir og sneiðmyndatökur haf ekki sýnt fram á áverkamerki.

Við slysið 02.11.2001 féll Erna fram fyrir sig á stein eða stólpa og fékk aðaláverka á brjóstkassa ein og að ofan er lýst.  Við slíkt fall eru kraftar þeir sem að verki eru tæpast það miklir að þeir geti valdið eiginlegri hálstognun, en hins vegar geta þeir valdið álagi á háls og bak sem ýfi upp fyrri einkenni á þessum svæðum.  Því er tæpast hægt að kalla áverkann hálstognun, fremur aukin einkenni eldri háls- og bakóþæginda.

Við mat á varanlegum miska er því miðað við sannaðan áverka á brjóstkassa sem nú veldur vægum óþægindum á brotsvæði og ýfingu fyrri einkenn í hálsi og baki.  Varanlegur miski er metinn 5%.

Við mat á varanlegri örorku er horft til læknisfræðilegra afleiðinga slyssins.  Þrátt fyrir veruleg heilsufarsleg vandamál hafði matsbeiðandi verið í vinnu árin fyrir slysið.  Eftir slysið var matsbeiðandi um stuttan tíma frá vinnu og vann síðan fulla vinnu til mánaðarloka apríl/maí 2002.  Svo sem að framan er rakið eru engar skráðar heimildir fyrir kvörtunum frá hálsi fyrr en 29.04.2004.  Brotthvarf matsbeiðanda verður því ekki með vissu rakið til slyssins.  Hins vegar verður að telja líklegt að slysið hafi átt nokkurn þátt í því að matsbeiðandi hætti störfum enda þekkt að tiltölulega lítil meiðsli vega þyngra þegar þau koma til viðbótar verulegum heilsufarslegum vandamálum.  Matsbeiðandi gat unnið létt afgreiðslustörf fyrir slysið þar sem hún gat verið á hreyfingu við störf sín.  Vart verður séð að annar starfsvettvangur hafi komið til greina í ljósi fyrra heilsufars en leigubíl mátti hún ekki aka vegna hættu á röskun á mjaðmaraðgerðinni.  Mat á starfsorku er því miðað við fyrri störf.  Matsmenn telja ljóst að fyrri heilsufarsleg vandamál hefðu haft áhrif á starfsgetu  til lengri tíma lítið og ljóst að lítið þurfti út af að bregða til breytinga á starfsgetu og þá ekki horft til áhrifa slyssins.  Þegar vegin eru saman þau sjónarmið sem hér skipta mestu, áhrif slyssins og fyrra heilsufar og áhrif þess á starfsgetu til lengri tíma lítið og þau almennu sjónarmið sem við eiga telja matsmenn varanleg örorka rétt metna 20%

Við mat á tímabundnu atvinnutjóni er miðað við vinnuyfirlit frá vinnuveitanda og frásögn á matsfundi.  Matsbeiðandi var frá vinnu 03.11.2002 til og með 15.11.2001 og síðan aftur 04.12.2001 til og með 13.12.2001 en daginn eftir hóf hún starf að nýju og vann fulla vinnu þar til hún hætti störfum þann 30.04.2002.  Þá hafi hún farið í veikindaleyfi og ekki unnið síðan.  Samkvæmt ofansögðu er tímabundið atvinnutjón sem hér segir:

·         Frá 02.11.2001 til 16.11.2001  100%

·         Frá 03.12.2001 til 14.12.2001  100%

Við mat á þjáningatíma er miðað við tímabil óvinnufærni en matsmenn geta ekki fallist á að meta þjáningar þann tíma sem matsbeiðandi var í fullri vinnu.

Við mat á því hvenær heilsufar var orðið stöðugt telja matsmenn eðlilegt að leggja til grundvallar það tímamark er matsbeiðandi hætti störfum.  Matsbeiðandi hefur frá þessu tímamarki verið frá vinnu og matsmenn fá ekki séð að neinar þær breytingar hafi orðið á heilsufari eftir þetta tímamark að máli skipti hvað varðar mat á varanlegum afleiðingum slyssins.  Stöðugleikapunktur er samkvæmt þessu 30.04.2002.

             Svör við spurningum matsbeiðanda hver sé varanlegur miski hennar, sbr. 4. gr. laga nr. 50/1993, er því 5%, varanleg örorka, sbr. 5. gr. laga nr. 50/1993, er 20%, tímabundin örorka, sbr. 2. gr. laga nr. 50/1993, er 100% tímabilin 2. til 16. nóvember og 3. til 14. desember 2001, tímabil þjáninga, sbr. 3. gr. laga nr. 50/1993, er rúmliggjandi ekkert, en batnandi, án þess að vera rúmliggjandi sama tímabil óvinnufærni.  Þá er því svarað, hvenær heilsufar matsbeiðanda, hvað varðar afleiðingar slyssins, hafi orðið stöðugt í skilningi sakaðbótalaga nr. 50/1993, sbr. lög nr. 37/1999, með því að það hafi verið 30. apríl 2002.

             Tölulega sundurliðar stefnandi kröfu sína með eftirfarandi hætti:

                            1.         Þjáningabætur                                                                              25.220 kr.

                            2.         Varanlegur miski                                                                        240.425 kr.

                            3.         Varanleg örorka                                                                       1.342.273 kr.

                                                                                                Samtals                        1.608.918 kr.

             Kröfuliði kvaðst stefnandi byggja á matsgerð dómkvaddra matsmanna á dómskjali nr. 54.  Tímabundið atvinnutjón hennar væri að fullu greitt.  Þjáningabætur nemi 970 kr. á dag í 26 daga, eða samtals 25.220 kr., sbr. 3. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.  Miskabætur nemi 5% af 4.808.500 kr. eða 240.425 kr., sbr. 4. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.  Varanleg örorka sé miðuð við lágmarkslaun skv. 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.  Lágmarkslaun, uppfærð miðað við vísitölu nemi 1.655.500 kr.  Hún hafi verið 62 ára og 5 mánaða gömul við stöðugleikapunkt þann 30. apríl 2002 og miðist því stuðull töflu 6. gr. skaðabótalaga við 4,057.  Því reiknist krafan þannig: 1.655.500 x 4,057 x 20% eða 1.343.273 kr.

Stefndi byggir á því að hvorki hann né starfsmenn hans eigi sök á slysi stefnanda, slysið megi rekja til gáleysis stefnanda sjálfs og óhappatilviljunar.  Bent er á að steinninn sem stefnandi datt um sé um það bil 3 til 4 metrum frá starfsmannainnganginum og stefnandi hafi starfað hjá stefnda á þessum stað í tæpa átta mánuði þegar slysið varð.  Hún hafi gerþekkt aðstæður á vinnustað og farið oft á dag út þarna til að reykja enda þótt reykingar starfsmanna við þennan starfsmannainngang hafi af hálfu stefnda verið bannaðar.  Þá er bent á að lýsing sé góð þarna, auk sérlýsingar á lóð þá snúi starfsmannainngangurinn að Vesturlandsvegi sem sé flóðlýstur.  Stefnanda hafi verið kunnugt um steininn, er sást vel í birtunni, og hefði hún horft fram fyrir sig í þetta skipti þegar hún gekk þarna um, hefði slysið ekki orðið.

             Þá er byggt á því að lóð þjónustustöðvar stefnda hafi ekki verið vanbúin á þann hátt að stofnast hafi til bótaábyrgðar gagnvart stefnanda.  Teikningar af mannvirkinu hafi verið samþykktar og stimplaðar af byggingafulltrúa Reykjavíkurborgar.  Eftir að framkvæmdum lauk hafi byggingafulltrúi og Vinnueftirlit ríkisins tekið mannvirkið og lóð út í heild sinni og engar athugsemdir gert.  Umræddir steinar þjóni þeim tilgangi að verja burðarvirki hússins og hindra að viðskiptavinir stefnda leggi bifreiðum sínum of nálægt húsinu.  Jafnframt sé þarna gul vegamálning til að koma í veg fyrir að viðskiptavinir leggi bílum sín of nálæg húsinu og reki þá í steinana.

             Bent er á að umræddur inngangur í húsið sé fyrst og fremst notaður við vörumóttöku og því ekki almennur inngangur inn í húsið.  Þá er staðhæft að stefnda hafi ekki borist neinar kvartanir frá viðskiptavinum vegna steinanna.

             Þó að ekki hafi verið kallað á lögreglu og vinnueftirlit þegar slysið varð, geti það ekki haft áhrif á niðurstöðu málsins.  Aðstæður hafi verið óbreyttar þegar þessir opinberu aðilar komu að málinu.

             Verði ekki fallist á sýknukröfu er varakrafa reist á því að slysið verði að stærstum hluta rakið til eigin sakar stefnanda og óhappatilviljunar og verði stefnandi að bera tjón sitt í hlutfalli við það.

             Kröfu um dráttarvexti er mótmælt frá fyrri tíma en dómsuppsögudegi.

Stefnandi gaf skýrslu fyrir rétti.  Hún sagði m.a. að hún hefði verið búin að vinna hjá stefnda um nokkurt skeið þegar hún slasaðist.  Starfsvið hennar hafi verið að afgreiða á afgreiðslukassa.  Hún sagði að slysið 2. nóvember 2001 hafi orðið með þeim hætti að hún hafi verið á leiðinni inn úr kaffi- og reykpásu fyrir utan húsið.  Þetta kvöld hafi verið mikil rigning og rok, ljós séu í stéttinni, sem séu erfið í myrkri, lýsi beint upp í augun.  Kvaðst hún ætla að hún hafi blindast augnablik þannig að hún hafi ekki reiknað rétt út steininn, sem hún hrasaði um.  Hún kvaðst oft hafa gengið þessa leið, þar sem hún hrasaði, hvern vinnudag, ekki bara þegar hún tók pásu heldur einnig, þegar hún kom í og fór úr vinnu.  Til þess hafi verið ætlast að starfsmannainngangurinn væri notaður af starfs-mönnum stefnda, stimpilklukkan hafi verið þar rétt fyrir innan.

             Aðspurð kvaðst stefnandi hafa heyrt að aðrir hefðu rekið sig í umræddan stein og aðra steina við húsið.  Hún sagði að vaktstjórinn hefði sagt henni að hún hefði hrasað svo illilega um þennan stein og fengið svo slæman slink á bakið, að hún hefði verið slæm í lengi á eftir, og Richard, sem var með henni á vakt, hafi dottið um þennan stein.  Þessi steinn hafi verið mikið til umræðu.  Hún kvaðst ekki hafa kvartað við yfirmenn út af þessu en talað um það.

             Aðspurð kvaðst hún hafa fengið leyfi yfirmanns til að fara út til að reykja.  Við ákveðið horn hússins hafi reykingar verið leyfðar fyrir starfsmenn, þar hafi verið stór öskubakki.

             Aðspurð kvað hún geta staðist að hún hafi starfað hjá stefnanda frá 16. mars 2001 til 30. apríl 2002 og hafi verið búin að starfa í starfstöð stefnanda við Ártúnshöfða í átta mánuði þegar slysið varð.  Hún kvaðst hafa farið út í flestum kaffihléum til að reykja og sama leið hafi verið farin.

Guðmundur T. Sigurðsson gaf skýrslu fyrir rétti.  Hann sagði m.a. að hann starfaði sem deildarstjóri fasteigna- og framkvæmdadeildar hjá stefnda.  Hann sagði að hafist hefði verið handa við byggingu umræddrar starfstöðvar stefnanda við Ártúnshöfða í upphafi árs 1996 og verkefninu hafi lokið í júní og hafi mannvirkið verið tekið út af byggingar-yfirvöldum, heilbrigðisstofnunum og vinnueftirliti.  Hann sagði að ferillinn hafi verið sá, að sótt hefði verið um byggingarleyfi og lagðar inn allar byggingarnefndarteikningar og arkitektateikningar.  Þar komi fram að settir eru steinar fyrir utan í þeim tilgangi að verja mannvirkið, en mannvirkið sé byggt upp af súlum og bitum, veggir að utan séu flísaklæddir og væri ekið utan í flísar, myndu þær brotna og skemmast, og væri ekið utan í burðarvirkið, þá væri hætta á að það hryndi.  Arkitektinn hafi því teiknað þessa grjótaröð fyrir utan húsið með fram því til varnar gegn umferðinni.

             Hann sagði að á öllum framkvæmdaferli byggingarinnar hafi allar lögbundnar úttektir byggingayfirvalda verið reglulegar og mannvirkið hafi verið tekið út í lokin af byggingafulltrúa.  Vinnueftirlitið og heilbrigðiseftirlitið, sem kvödd voru til og unnið var mjög náið með, sérstaklega hvað varðaði eldhúsnotkun, vaska og hreinlæti o.þ.u.l., hafi verið upplýst um framkvæmdina og samþykkt hana.  Engar athugsemdir hafi verið gerðar um umrædda steina er voru hluti af mannvirkinu.

             Hann sagði aðspurður að gular línur með fram byggingunni séu til að afmarka meira umferðina frá húsinu, afmörkunin sé síðan ítrekuð með steinunum.

             Aðspurður kvaðst hann hafa heyrt að aðrir en stefnandi hefðu hrasað um umræddan stein eða aðra steina umhverfis húsið, en hann hefði ekkert í hendi um það, aðeins orðróm.  Hann kvaðst ekki þekkja til þess að tilkynnt hefði verið formlega um óhöpp sökum steinanna.

             Hann sagði að tekin hafi verið ákvörðun um að færa umræddan stein og aðra steina í gönguleiðinni, sem hér um ræðir, á yfirvegaðan hátt eftir að vinnueftirlitið krafðist þess og setti stefnda úrslitakosti um það að yrðu steinarnir ekki fjarlægðir, þá yrði rekstraröryggi í hættu, staðnum yrði lokað.  Hann sagði að stefndi hefði í raun ekkert val átt.  Hann sagði að vinnueftirlitið hefði gert þessa kröfu eftir að slysið varð er hér um ræðir - eftirlitið hefði engar athugsemdir gert fyrr en þá.

Richard Ásgrímsson gaf skýrslu fyrir rétti.  Hann sagði m.a. að hann hafi skroppið út í kaffipásu með stefnanda 2. nóvember 2001.  Hafi þau farið út þar sem gamli starfsmannainngangur er, rok hafi verið og kalt.  Hafi þau farið fram hjá umræddum steini, ljós í stéttinni lýsi upp á stöðina en skuggsýnt hafi verið og áliðið dags.  Er þau höfðu lokið að reykja og drekka kaffi þá hafi stefnandi lagt af stað til baka og hafi hann ekki veitt því athygli fyrr en hún hafnaði á steininum og kenndi verkja.  Hafi þau síðan farið inn í kaffistofu og látið vaktstjórann vita.

             Richard sagði að ekki hefði verið farið fram hjá umræddum steini milli hans og hússins heldur gengið við akbrautina fram hjá steininum.  Kvaðst Richard einu sinni hafa dottið um steininn þegar hann var að fara úr vinnu, verið búinn að gleyma honum.  Hann kvaðst ekki vita til þess að viðskiptavinir hefðu dottið um steininn, en einhverjir krakkar, sem unnu hjá stefnda, hefðu lent á honum án þess að um alvarleg slys hafi verið að ræða.

             Aðspurður kvaðst Richard einhvern tímann hafa haft ljót orð um staðsetningu á umræddum steini við yfirmenn sína.

             Richard kvaðst hafa unnið hjá stefnda í aukavinnu en ekki að staðaldri.  Hann kvaðst nú vera að byrja í fullri vinnu hjá stefnda.

Oddný Vala Kjartansdóttir gaf skýrslu fyrir rétti.  Hún sagði m.a. að hún hefði verið vaktstjóri hjá stefnanda þegar umrætt slys varð.  Hún kvaðst ekki hafa verið vitni að slysinu.  Hún sagði að kallað hafi verið á hana inn á kaffistofu.  Þar hafi stefnandi verið og borið sig illa.  Hafi hún spurt stefnanda hvort hún treysti sér til að vinna áfram.  Hafi hún ætlað að reyna það, en svo hafi hún farið síðar um kvöldið, líklegast á slysavarðstofu.

             Oddný kvaðst hafa vitað hvað stefnandi og Richard höfðust að utan dyra, þau hafi verið að fá sér kaffi og að reykja.  Ekki hafi legið fyrir fullt bann við því að starfsmenn reyktu þarna þó raunar væri bannað að reykja á lóðum stefnda, en með vitneskju yfirmanna stefnda hafi starfsfólk farið út til að reykja.  Oddný kvað stefnanda oft hafa farið út til að reykja en í hvert skipti leitað leyfis til þess.

             Aðspurð kvaðst Oddný ekki kannast við að starfsmenn hefðu orðið áður fyrir slysi af umræddum steini.  Hún kvaðst sjálf hafa rekið tærnar í þennan stein, en ekki hrasað né meitt sig.  Hún kvaðst ekki hafa fengið kvartanir frá starfsfólki varðandi steininn.  Hún kvaðst ekki hafa hugsað út í það að kalla á lögreglu og vinnueftirlit þegar stefnandi slasaðist.  Hafi henni ekki verið kynntar reglur um að þörf væri á slíku.

Ályktunarorð: Af hálfu lögreglunnar voru aðstæður á slysstað að Ártúnshöfða í Reykjavík fyrst skoðaðar 31. október 2002, en af eftirlitsmanni Vinnueftirlits ríkisins 26. nóvember 2002.  Ekki verður þó talið að vanræksla stefnda að tilkynna vinnueftirlitinu án ástæðulausra tafa um slysið hafi skapað vanda á því að meta hvernig aðstæður voru á slysstað 2. nóvember 2001.

Í skýrslu vinnueftirlitsins segir að meginorsök slyssins megi rekja til þess að í gönguleiðum utanhúss, sérstaklega við norðurhlið hússins, séu stórir steinar í miðjum gönguleiðum.  Steinarnir skapi hættu fyrir fótgangendur, bæði hættu á að þeir falli um steinana og að fótgangendur gangi út í umferðarleið ökutækja til þess að krækja hjá þeim.  Með skýrslunni fylgir mynd sem m.a. sýnir steininn, sem stefnandi féll um, og staðsetningu steinsins hjá húsinu.  Við vettvangsgöngu 31. mars 2005 kom í ljós að þessi steinn hafði verið fjarlægður og annar steinn kominn á svipuðum stað, nema fjær húsinu, á línu, sem afmarkar ökuleiðina með fram húsinu, þannig að greiðari gönguleið er nú á milli hússins og akbrautarinnar en áður var.

Ekki liggur fyrir að vinnueftirlitið, eða aðrir opinberir aðilar, hafi, áður en slysið varð, gert athugsemdir við að umræddur steinn var hafður þar sem hann var.  Og þá hefur því ekki verið hnekkt að steinninn var staðsettur í samræmi við arkitektateikningu, sem samþykkt var af byggingaryfirvöldum, heilbrigðisstofnunum og vinnueftirliti.  Jafnframt liggur ekki fyrir með ótvíræðum hætti að forsvarsmönnum stefnda hafi mátt vera ljóst af öðrum ástæðum að sérstök slysahætta stafaði af því fyrir gangandi vegfarendur að hafa grjót með þessum hætti umhverfis húsið til varnar því að ekið væri á bygginguna.  Um saknæman galla á mannvirki var því naumast að ræða.

Upplýst er að stefnandi hafði starfað í átta mánuði í starfstöð stefnanda við Ártúnshöfða, þegar slysið varð, og gjörþekkti gönguleið fyrir utan húsið sem hún fór um það sinn.  Hún tók sjálf áhættu að fara út úr húsi, seint um kvöld í byrjun nóvember í rigningu og roki, til að reykja.  Á göngu til baka er ljóst að hún gætti ekki að sér sem skyldi, miðað við veður, skyggni og steininn í gönguleið, sem hún þekkti vel til og vissi að var við húsið.  Fall hennar um steininn verður þannig að teljast óhappatilvik, enda þótt vinnueftirlitið kæmist eftir slysið að því að umbúnaður við húsið, sem áður hafði verið talinn viðunandi, var hættulegur.

Samkvæmt framangreindu verður stefndi sýknaður af kröfum stefnanda.

Rétt er að aðilar beri hvor sinn kostnað af málinu, en um gjafsóknarkostnað stefnanda fer samkvæmt því sem í dómsorði greinir.

Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.

DÓMSORÐ:

             Stefndi, Olíufélagið ehf., skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Ernu Sigþórsdóttur.

             Málskostnaður fellur niður.

             Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 400.000 krónur.