Hæstiréttur íslands
Mál nr. 576/2007
Lykilorð
- Fíkniefnalagabrot
- Umferðarlagabrot
- Upptaka
- Sératkvæði
|
|
Fimmtudaginn 23. október 2008. |
|
Nr. 576/2007. |
Ákæruvaldið(Daði Kristjánsson, settur saksóknari) gegn Þengli Stefánssyni (Kristján Stefánsson hrl.) |
Fíkniefnabrot. Umferðalagabrot. Upptaka. Sératkvæði.
Þ var fundinn sekur um brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni með því að hafa fjórum sinnum haft fíkniefni í vörslum sínum en sýknaður af broti gegn umferðarlögum. Skilorðsbundinn hluti refsingar dóms sem féll eftir áfrýjun máls þessa var tekinn upp og honum gerð refsing í einu lagi samkvæmt 60. gr. almennra hegningarlaga. Refsing hans var ákveðin fangelsi í fjóra mánuði en frestað var fullnustu skilorðsbundið.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson.
Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 24. október 2007 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar á niðurstöðu héraðsdóms um sakfellingu ákærða, en að refsing verði þyngd. Staðfest verði niðurstaða um sviptingu ökuréttar og upptöku fíkniefna.
Ákærði krefst aðallega sýknu en til vara að honum verði ekki gerð refsing, en ella að hún verði milduð. Hrundið verði ákvörðun um ökuleyfissviptingu, en til vara að henni verði markaður skemmri tími.
I
Í fyrsta þætti hins áfrýjaða dóms er fjallað um ákæru 7. maí 2007 þar sem ákærða er gefið að sök að hafa þriðjudaginn 10. apríl 2007 ekið bifreið undir áhrifum fíkniefna.
Samkvæmt frumskýrslu lögreglu, gerðri fimm dögum eftir atvik, ók ákærði á miklum hraða í umrætt sinn yfir grasflöt og að inngangi B á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri, þar sem hann yfirgaf bifreiðina með kveikjulályklum í og kveikt á útvarpi. Fór hann inn á inn á geðdeild og var mjög æstur. Læknir sem tók á móti honum talaði hann til og gaf honum róandi lyf. Lögregla var kvödd að sjúkrahúsinu kl. 15.52 vegna aksturslags ákærða. Í skýrslunni kemur fram að læknir sá sem tók á móti ákærða hafi tjáð lögreglu að ákærði hafi verið í mjög annarlegu ástandi og mjög æstur. Þá lýsir lögregla ástandi ákærða svo í skýrslunni að það hafi verið annarlegt, sjáöldur hafi verið lítil og ákærði mjög ör í fasi. Var hann handtekinn og honum tilkynnt að hann væri grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna/lyfja. Í skýrslunni segir einnig að ákærði hafi tjáð lögreglu að honum hefði liðið mjög illa, fundist eins og hann væri að deyja og því orðið að keyra mjög hratt. Hafi hann sagst hafa tekið amfetamín fyrir þremur dögum. Á lögreglustöð kl. 16.33 hafi verið tekin Drugwipe prufa af ákærða sem gefið hafi merki um amfetamín. Vaktlæknir hafi þá verið kvaddur til að taka blóðsýni, en ákærði neitað blóðtöku og haft í hótunum. Þurft hafi að beita hann valdi til að hefja sýnatökuna, en hann þá látið undan. Ákærði var þá vistaður í fangaklefa en látinn laus næsta morgun. Samkvæmt blóðtökuvottorði var sýni tekið kl. 17.40. Mældist 550 ng/ml af amfetamíni í blóði ákærða, sem samkvæmt matsgerð 26. apríl 2007 „er langt umfram það sem búast má við eftir lækningalega skammta og bendir til eitrunar.” Þegar blóðsýnið var tekið taldist hann því hafa verið óhæfur til þess að stjórna ökutæki örugglega. Hvorki var tekin lögregluskýrsla af ákærða né vitnum vegna þessa máls.
Fyrir dómi neitaði ákærði sök. Kvaðst hann hafa komið á sjúkrahúsið vegna mikillar vanlíðunar. Hefði hann verið búinn að leita eftir aðstoð símleiðis en því hefði ekki verið sinnt. Læknirinn sem tók á móti honum hefði gefið honum tvær róandi töflur. Hann kvaðst hafa verið með amfetamínduft í opnum poka og gleypt það allt þegar hann hefði orðið var við lögregluna, til þess að vera ekki handtekinn með efnið. Læknirinn sem tók á móti ákærða á sjúkrahúsinu í umrætt sinn bar fyrir dóminum að ákærði hefði verið „við það að missa stjórn á sér“ þegar hann kom og viðhaft „dálítið glannaleg“ orð um annan lækni, sem hann var ósáttur við. Honum hefði verið gefin freyðitafla og það hefði tekist fljótt og vel að róa hann. Aðspurður kvaðst læknirinn ekki hafa séð ákærða vera með neitt meðferðis. Læknirinn bar að ákærði hefði verið greindur með svokallaða fjöllyfjafíkn og geðrof. Hann var ekki spurður hvort ákærði hefði borið þess merki að vera undir áhrifum fíkniefna í greint sinn. Lögreglumaður sem kom á staðinn kvaðst hvorki hafa séð ákærða taka freyðitöflu né gleypa amfetamín. Ákærði hafi verið með miklar skapsveiflur, hann hafi ekki viljað láta taka sér blóð og verið með hótanir. Hann hafi skýrt akstur sinn með mikilli vanlíðan. Aðrir voru ekki yfirheyrðir um ástand hans á sjúkrahúsinu.
Upplýst er með framburði vitna fyrir dómi að akstur ákærða að sjúkrahúsinu var mjög háskalegur. Það er hins vegar galli á rannsókn málsins að læknirinn var ekki spurður hvort ástand ákærða hefði mátt skýra með fíkniefnaneyslu eða hvort útlit hans hefði bent til slíkrar neyslu. Þá var sjúkraliði, sem aðstoðaði lækninn við að róa ákærða, ekki leidd fyrir dóminn. Blóðprufa var ekki tekin fyrr en tveimur tímum eftir aksturinn. Samkvæmt vætti sérfræðings sem rannsakaði blóðsýnið næst hámarks þéttni í blóðinu á tveimur til þremur tímum, en með blóðsýninu einu saman er ekki hægt að fullyrða um hvenær amfetamín hefur verið tekið inn. Eins og staðið var að rannsókn málsins er varhugavert að fullyrða á grundvelli gagna þess, að framburður ákærða sé rangur um að hann hafi tekið inn mikið magn amfetamíns eftir að akstri lauk er hann varð var lögreglu og að aksturslag hans hafi stafað af miklum geðrænum veikindum hans, sem upplýst er að hafi hrjáð hann á þessum tíma. Gegn neitun ákærða er því ekki komin fram lögfull sönnun um þá háttsemi sem honum er gefin að sök samkvæmt þessari ákæru. Verður hann því sýknaður, sbr. 45. og 46. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
II
Í öðrum þætti hins áfrýjaða dóms er fjallað um ákæru 7. maí 2007 þar sem ákærða er gefið að sök vörslur 5,50 gramma af amfetamíni sem fannst í bifreiðinni SJ 847 miðvikudaginn 10. maí 2006 þegar lögregla stöðvaði hana við býlið Teig í Eyjafjarðarsveit. Ákærði neitar sök. Ákærði sagði fyrir héraðsdómi að hann og meðákærður í héraði hefðu ekki átt efnið, en hefðu ætlað að nota það. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms er staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða samkvæmt þessari ákæru.
III
Í þriðja kafla dómsins er fjallað um ákæru 10. maí 2007. Ákært er fyrir vörslur fíkniefna sem fundust á heimili ákærða miðvikudaginn 12. apríl 2006, nánar tiltekið 1,78 grömm af hassi, 0,70 grömm af tóbakslönduðu hassi og 9,2 grömm af amfetamíni. Þar af voru 7,32 grömm í kúlu sem lögregla fann í snjóskafli bak við húsið. Þegar ákærði kom fyrir dóm 9. júlí 2007 játaði hann vörslur fíkniefnanna sem fundust inni á heimilinu, en neitaði sök vegna þeirra 7,32 gramma af amfetamíni sem fundust úti. Framburður hans við aðalmeðferð málsins samrýmist þessari játningu. Hann neitaði hins vegar að tjá sig um efnið sem lögregla fann í snjóskaflinum. Lögreglumennirnir Logi Geir Harðarson og Jón Valdimarsson báru fyrir dómi að ákærða hefði verið veitt bein eftirför út úr húsinu, kvaðst Jón hafa séð hann stinga hendi í skafl á baklóð þar sem þeir hafi fundið efnið. Með vísan til þessa og forsendna héraðsdóms að öðru leyti telst hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafði vörslur greindrar fíkniefnakúlu og setti hana í skaflinn. Er þannig staðfest sakfelling ákærða samkvæmt þessari ákæru.
IV
Í sjötta kafla dómsins er fjallað um ákæru 5. júní 2007 þar sem ákærða er gefið að sök að hafa haft ásamt tveimur öðrum vörslur 29,65 gramma af amfetamíni í bifreiðinni NA 740. Fannst efnið annars vegar í buxnavasa ökumanns, Eiríks Fannars Traustasonar, og hins vegar í poka sem var frammi í bifreiðinni þegar lögregla stöðvaði akstur hennar á Krossanesbraut á Akureyri. Farþegar í bifreiðinni voru ákærði og Elmar Þór Pétursson. Eiríkur Fannar og Elmar Þór voru einnig ákærðir en þáttur þeirra skilinn frá málinu. Dómur í þeim þætti málsins var kveðinn upp 9. júlí 2007 og voru þeir báðir sakfelldir samkvæmt játningu og gert að greiða sekt í ríkissjóð. Voru þeir yfirheyrðir sem vitni í þessu máli og er litið til þessa.
Skýrsla, sem lögregla tók af ákærða og þar sem hann játar að hafa átt annan pakkann, var ekki borin undir ákærða fyrir dómi. Í frumskýrslu lögreglu kemur fram að bifreiðinni hafi verið veitt eftirför í nokkra stund, komið hafi verið stuttlega við í húsi, áður en ákærði var tekinn upp í bifreiðina við Ak-inn. Þá er upplýst að báðir skammtarnir, sá sem Eiríkur Fannar var með á sér og sá sem fannst í bifreiðinni voru í sams konar pakkningum. Í vætti Bergs Jónssonar lögreglumanns kemur fram að ákærði hafi tjáð lögreglu að hann ætti efnið, en þeir Jón Valdimarsson, lögreglumaður, hafi talið framburðinn ótrúverðugan og talið að hann væri að taka á sig sakir, en hefði hins vegar haft í hyggju að kaupa efnið af hinum.
Í framburði Elmars Þórs fyrir dómi fullyrti hann að ákærði hefði haft fíkniefni meðferðis þegar hann hafi komið inn í bifreiðina, hann hafi rétt þeim pokann með 10 grömmum og Eiríkur Fannar sett hann í vasa sinn. Þeir hafi ætlað að kaupa þetta af ákærða. Þegar lögreglan kom að hafi ákærði svo reynt að troða öðrum poka með fíkniefnum fram í til sín. Í vætti Eiríks Fannars fyrir dómi kom fram að ákærði og Elmar Þór hefðu verið með fíkniefnin sem fundust í bílnum og „verið eitthvað að skipta“. Hann kvaðst fyrst hafa orðið var við efnið á þeim stað þar sem ákærði kom í bifreiðina. Nánar spurður af verjanda ákærða staðfesti hann lögregluskýrslu um að Elmar Þór hefði beðið sig að geyma það sem hann var með í vasanum áður en ákærði kom inn í bifreiðina.
Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið þykir hafið yfir skynsamlegan vafa að mennirnir þrír hafi allir saman verið með tilgreint efni. Er niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sakfellingu ákærða staðfest.
V
Í sjöunda kafla dómsins er fjallað um ákæru 6. júní 2007 sem varðar vörslur á 26,37 grömmum af amfetamíni sem lögreglan fann er hún veitti bifreiðinni ME 659 eftirför á Akureyri aðfaranótt 30. maí 2006. Í frumskýrslu lögreglunnar er eftirför lögreglu lýst en hún var jafnframt tekin upp á myndband. Þar sést hvar hönd kemur út um glugga bifreiðarinnar farþegamegin. Ákærði, sem var farþeginn, kannaðist við fyrir dómi að hafa opnað gluggann og sett höndina út og lögreglumennirnir Ólafur Tryggvi Ólafsson og Jón Valdimarsson staðfestu báðir að þeir hefðu talið sig sjá einhverju kastað út úr bifreiðinni. Í framhaldi fannst fíkniefni á þeim stað. Að þessu athuguðu er niðurstaða héraðsdóms staðfest um sakfellingu ákærða.
VI
Í áttunda kafla dómsins er fjallað um ákæru 5. júní 2007 þar sem ákærða er gefið sök að hafa haft vörslur 0,41 gramms af amfetamíni miðvikudaginn 13. september 2006 á heimili Hauks Geirs Jóhannssonar að Hafnarstræti 79 á Akureyri. Haukur Geir var einnig ákærður í málinu en útivistardómur var kveðinn upp í hans þætti málsins 13. júlí 2007 og honum gert að greiða sekt í ríkissjóð. Haukur Geir var yfirheyrður sem vitni í þessu máli og er til þessa litið.
Eins og fram kemur í héraðsdómi þá sá lögreglan ákærða og meðákærða fara út úr íbúð þess síðarnefnda. Lögreglan veitti þeim eftirför og hafði afskipti af þeim. Haukur Geir heimilaði í framhaldi leit í íbúðinni og fannst þar hvítt efni í poka og ein lína af hvítu efni á geislaplötuumslagi. Reyndust efnin vera amfetamín. Með hinum áfrýjaða dómi var ákærði sakfelldur samkvæmt ákæru. Fyrir dóminum kannaðist hann við að hafa neytt amfetamíns á heimili Hauks Geirs en sagðist ekki hafa átt það efni sem hér um ræðir. Haukur Geir bar að óþekktur maður hefði átt efnið sem fannst á heimili hans. Þá sagðist hann ekki kannast við það sem fram kæmi í skýrslu hans hjá lögreglu, að ákærði hefði átt umrædd fíkniefni eða að ákærði hefði verið á heimili hans þennan dag, og hafnaði því að hafa gefið skýrsluna þegar hún var borin undir hann.
Ákærða er gefið að sök að hafa haft vörslur efna sem fundust á heimili annars manns. Hann var ekki staddur á því heimili þegar efnið fannst. Ekkert er fram komið í málinu sem bendir til þess að ákærði hafi dvalið á þessu heimili eða að hann hafi haft að því aðgang að eigin vild. Að þessu virtu og gegn neitun ákærða hefur ákæruvaldinu ekki tekist að sanna að nefnd fíkniefni hafi verið í vörslu ákærða í skilningi 1. mgr. 2. gr. laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni. Skal ákærði því vera sýkn af sakargiftum samkvæmt þessari ákæru.
VII
Af hálfu ákæruvalds var á það bent fyrir Hæstarétti að við heimfærslu til refsiákvæða hefði í ákæru 7. maí 2007 ranglega verið vísað til 6. gr. laga nr. 65/1974. Þá væri í sömu ákæru farið ranglega með heiti reglugerðar nr. 233/2001 um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni, sem og í ákærum 10. maí, 5. júní og 6. júní 2007 og einnig hefði númer á breytingareglugerð nr. 848/2002 misritast í ákærum 5. og 6. júní. Loks hefði þrisvar verið ranglega vísað til auglýsingar nr. 232/2001 í sömu ákærum. Þessar villur voru ekki leiðréttar í hinum áfrýjaða dómi. Með þessum athugasemdum og samkvæmt því sem að framan er rakið er heimfærsla til refsiákvæða staðfest.
VIII
Fram er komið að ákærði var 20. júní 2008 dæmdur samkvæmt fimm ákærum í fangelsi í einn mánuð, skilorðbundið í tvö ár, og til greiðslu sektar að fjárhæð 150.000 krónur fyrir brot gegn valdstjórninni, sem tengist þeim atvikum sem fjallað er um í I. kafla þessa dóms, og einnig hraðakstur í þrígang og vopnalagabrot. Öll þessi brot voru framin fyrir uppkvaðningu hins áfrýjaða dóms. Í dóminum segir að refsing sé ekki ákveðin sem hegningarauki samkvæmt 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 vegna áfrýjunar máls þess sem hér er til meðferðar, en við ákvörðun refsingarinnar var litið til 75. gr. sömu laga. Dóminum frá 20. júní 2008 var ekki áfrýjað. Refsimat í þeim dómi og ákvörðun um upptöku og sakarkostnað er því ekki til endurskoðunar hér. Samkvæmt ákvæði 60. gr. almennra hegningarlaga verður hins vegar að taka upp hina skilorðsbundnu refsingu samkvæmt dóminum frá 20. júní 2008 og ákveða fangelsisrefsingu nú í báðum málunum í einu lagi með hliðsjón af 78. gr. og 77. gr. laganna. Sakarferill ákærða er að öðru leyti rakinn í hinum áfrýjaða dómi. Sérstaklega er litið til þess að um er að ræða fjögur tilvik þar sem ákærði er fundinn sekur um vörslur 70,72 gramma af amfetamíni og 2,48 gramma af kannabisefni og að í þremur tilvikum var brotið framið í félagi við aðra. Refsing ákærða er ákveðin fangelsi í fjóra mánuði, en fresta má fullnustu hennar skilorðsbundið eins og greinir í dómsorði. Ákvæði hins áfrýjaða dóms um upptöku fíkniefna er ekki til endurskoðunar og stendur það óraskað.
Eins og að framan er rakið er ákærði sýknaður af tveimur ákærum. Samkvæmt yfirliti sakarkostnaðar og öðrum gögnum málsins verður ekki ráðið hver kostnaður var á rannsóknarstigi vegna þeirra ákæra. Verður ákærði látinn njóta vafa sem skapast vegna þessa og kostnaðurinn lagður á ríkissjóð, en staðfest verður ákvörðun héraðsdóms um málsvarnarlaun verjanda hans í héraði. Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns í Hæstarétti sem ákveðin verða ásamt virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, Þengill Stefánsson, skal sæta fangelsi í fjóra mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum þremur árum, haldi ákærði almennt skilorð 57.gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ákvæði héraðsdóms um upptöku skulu vera óröskuð.
Ákvæði héraðsdóms um skyldu ákærða til greiðslu málsvarnarlauna í héraði skal vera óraskað. Annar sakarkostnaður í héraði, er ákærða varðar, skal greiddur úr ríkissjóði.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins samtals 357.150 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 311.250 krónur.
Sératkvæði
Hjördísar Hákonardóttur
Ég er ósammála niðurstöðu meirihluta dómenda í I. kafla atkvæðisins.
Tvö vitni báru fyrir dómi að akstur ákærða að sjúkrahúsinu í umrætt sinn hefði verið mjög háskalegur, sagði annað þeirra að hann hefði komið „alveg á fleygiferð, alveg dauðasiglingu“. Vitnið Brynjólfur Ingvarsson, læknir, varð einnig var við bifreiðina og fór fram í móttöku. Kvað hann ákærða hafa verið „við það að missa stjórn á sér“ þegar hann kom inn. Vitnið var ekki spurður sérstaklega hvort ákærði hefði borið einkenni fíkniefnaneyslu. Þegar spurður um áhrif þess að gleypa amfetamín í duftformi, eins og ákærði sagðist hafa gert, kvaðst hann ekki vera sérfróður um það, en ef duftið hefði verið svo kröftugt að það samsvaraði 10-20 töflum af amfetamíni þá kæmi spenna í kjölfarið. Vitnið bar að vel hefði gengið að róa ákærða, honum hefði verið gefin freyðitafla sem leystist upp í munni og virkaði fljótt. Kvað hann lögregluna hafa komið þegar þeir hafi verið að enda samtal sitt og ákærði hafi þá verið orðinn rólegur. Aðspurður kvað hann ákærða ekki hafa orðið æstari við komu lögreglumannanna. Hafi þeir verið með hann nokkra stund inni á spítalanum og síðan fyrir utan án vandræða. Hann hafi séð ákærða taka freyðitöfluna, en ekki séð hann vera með annað.
Mjög mikið magn af amfetamíni mældist í blóði ákærða og benti til eitrunar samkvæmt matsgerð. Vitnið Guðlaug Þórsdóttir, læknir, sem annaðist mat á blóðsýninu, bar að þetta hefði verið með því mesta sem mælst hefði hjá rannsóknarstofunni. Við aðalmeðferð málsins kvað ákærði skýringu þessa vera, að hann hefði gleypt opinn poka með amfetamíndufti á sjúkrahúsinu, til þess að vera ekki handtekinn með það.
Ákærði var á sjúkrahúsinu í návist og undir eftirliti læknis og sjúkraliða, sem voru að róa hann niður, þar til lögregla kom á vettvang. Hann tók þar freyðitöflu að þeim ásjáandi. Ekki er ástæða til að ætla að ákærði hafi, við þessar aðstæður og án þess að læknirinn yrði þess var, gefist svigrúm til að gleypa amfetamínduft og umbúðir með. Héraðsdómari mat framburð ákærða um þetta ótrúverðugan. Þykir vörn ákærða ekki gefa tilefni til skynsamlegs vafa um, að hann hafi áður en hann ók bifreiðinni tekið inn efni það sem mældist í blóði hans. Af þessum ástæðum er rétt að staðfesta niðurstöðu héraðsdóms um að ákærði sé sekur samkvæmt ákæru 7. maí 2007 um að hafa ekið bifreiðinni RU 263 undir áhrifum fíkniefna þriðjudaginn 10. apríl 2007.
Að öðru leyti er ég samþykk atkvæði meirihluta dómenda, en tel samkvæmt framansögðu að ákærði skuli einnig sviptur ökurétti eins og gert var með hinum áfrýjaða dómi.
Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 21. september 2007.
Mál þetta, sem dómtekið var þann 12. september sl., er höfðað hér fyrir dómi með ákærum sýslumannsins á Akureyri, á hendur Þengli Stefánssyni, kt. 050177-4919, Vestursíðu 34, Akureyri, Óla Friðbergi Kristjánssyni, kt. 090166-3289, Hraunbæ 68, Reykjavík, Hrannari Þór Kjartanssyni, kt. 251183-8219, og Ásmundi Gunnari Stefánssyni, kt. 121075-4829, Höfn, Svalbarðsstrandarhreppi.
I. Ákæra sýslumannsins á Akureyri, útgefin 7. maí 2007 S-126/2007.
Með ákærunni er höfðað mál á hendur ákærða Þengli Stefánssyni
„fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa aðfaranótt þriðjudagsins 10. apríl 2007, ekið bifreiðinni RU-263, undir áhrifum fíkniefna (amfetamín 550 ng/ml) suður Eyrarlandsveg og að Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri, þar sem hann stöðvaði bifreiðina.
Telst þetta varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. A, sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987, sbr. 5. gr. laga nr. 66, 2006.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til sviptingar ökuréttar samkvæmt 101. gr. og 1. mgr., sbr. 4. mgr. 102. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. 18. gr. laga nr. 66, 2006.“
II. Ákæra sýslumannsins á Akureyri, útgefin 7. maí 2007 S-127/2007.
Með ákæru þessari er höfðað mál á hendur ákærðu Þengli Stefánssyni, Óla Friðbergi Kristjánssyni og Hrannari Þór Kjartanssyni
„fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa miðvikudaginn 10. maí 2006, verið með í vörslum sínum 5,50 grömm af amfetamíni í bifreiðinni SJ-847, þegar lögreglan stöðvaði för þeirra við býlið Teig í Eyjafjarðarsveit, en ákærðu Þengill og Óli Friðbergur voru með efnið í bifreiðinni, en ákærði Hrannar Þór var eigandi þess.
Telst þetta varða við 2. gr., sbr. 5. gr. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni, nr. 65, 1974, sbr. lög nr. 60, 1980, sbr. lög nr. 13, 1985 og sbr. lög nr. 82, 1998 og 2. gr. sbr. 14. gr. reglugerðar um sölu og meðferð ávana- og fíkniefna nr. 233, 2001.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og til að sæta upptöku á haldlögðu amfetamíni, sem tilgreint er í efnaskrá nr. 9.359, samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65, 1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233, 2001.“
III. Ákæra sýslumannsins á Akureyri, útgefin 10. maí 2007 S-134/2007.
Með ákærunni er höfðað mál á hendur Þengli Stefánssyni,
„fyrir fíkniefnabrot, með því að hafa miðvikudaginn 12. apríl 2006, verið með í vörslum sínum á heimili sínu 9,2 grömm af amfetamíni, 1,78 grömm af hassi og 0,70 grömm af tóbaksblönduðu hassi.
Telst þetta varða við 2. gr., sbr. 5. gr. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni, nr. 65, 1974, sbr. lög nr. 60, 1980, sbr. lög nr. 13, 1985 og sbr. lög nr. 82, 1998 og 2. gr. sbr. 14. gr. reglugerðar um sölu og meðferð ávana- og fíkniefna nr. 233, 2001.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til að sæta upptöku á 9,2 grömmum af amfetamíni, 1,78 grömmum af hassi og 0,70 grömmum af tóbaksblönduðu hassi, sem lögreglan lagði hald á og tilgreint er í efnaskrám nr. 8.998 & 8.999, samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65, 1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233, 2001.“
IV. Ákæra sýslumannsins á Akureyri, útgefin 1. júní 2007 S-142/2007.
Með ákæru þessari er höfðað mál á hendur Ásmundi Gunnari Stefánssyni,
„fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa mánudaginn 4. september 2006, ekið bifreiðinni ICE FOX norður þjóðveg nr. 1, Hringveg, með allt að 99 kílómetra hraða miðað við klukkustund, eftir vegarkafla við Húsasmiðjuna í Hörgárbyggð, en þar er leyfilegur hámarkshraði 70 kílómetrar, og að hafa meðan á akstrinum stóð talað í farsíma án þess að nota handfrjálsan búnað.
Telst þetta varða við 4. mgr. 37. gr. og 1. mgr. 47. gr. a, sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.“
V. Ákæra sýslumannsins á Akureyri, útgefin 1. júní 2007 S-171/2007.
Með ákæru þessari er höfðað mál á hendur Þengli Stefánssyni og Jóni Birki Jónssyni,
„fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa í byrjun október 2006 haft í vörslum sínum 17,26 grömm af amfetamíni sem þeir komu fyrir í lofthreinsara bifreiðarinnar RU-263 en þar fann lögreglan fíkniefnin við leit í bifreiðinni þann 9. október 2006.
Telst þetta varða við 2. gr., sbr. 5. gr. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni, nr. 65, 1974, sbr. lög nr. 60, 1980, sbr. lög nr. 13, 1985 og sbr. lög nr. 82, 1998 og 2. gr. sbr. 14. gr. reglugerðar um sölu og meðferð ávana- og fíkniefna nr. 233, 2001.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og til að sæta upptöku á 17,26 grömmum af amfetamíni sem lögreglan lagði hald á og tilgreint er í efnaskrá nr. 10564 samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65, 1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233, 2001.“
VI. Ákæra sýslumannsins á Akureyri, útgefin 5. júní 2007 S-172/2007.
Með ákærunni er höfðað mál á hendur Þengli Stefánssyni, Elmari Þór Péturssyni og Eiríki Fannari Traustasyni,
„fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa sunnudaginn 17. júní 2006 haft sameiginlega í vörslum sínum 29,65 grömm af amfetamíni í bifreiðinni NA-740 þegar lögregla stöðvaði akstur hennar á Krossanesbraut á Akureyri.
Teljast brot þessi varða við 2. gr., sbr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni, nr. 65, 1974, sbr. lög nr. 13, 1985 og sbr. lög nr. 68, 2001 og 2. gr. sbr. 14. gr. reglugerðar um sölu og meðferð ávana- og fíkniefna nr. 233, 2001, sbr. reglugerð nr. 838, 2002 og auglýsingu nr. 232, 2001.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og til að sæta upptöku á 29,65 grömmum af amfetamíni sem lögreglan lagði hald á og tilgreint er í efnaskrám nr. 9660 og 9661, samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65, 1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233, 2001.“
VII. Ákæra sýslumannsins á Akureyri, útgefin 6. júní 2007 S-173/2007.
Með ákærunni er höfðað mál á hendur Þengli Stefánssyni og Ásmundi Gunnari Stefánssyni,
„fyrir umferðar- og fíkniefnalagabrot:
A.
Gegn ákærðu Þengli og Ásmundi Gunnari fyrir að hafa þriðjudaginn 30. maí 2006 haft sameiginlega í vörslum sínum 26,37 grömm af amfetamíni í bifreiðinni ME-659 á Þórunnarstræti á Akureyri.
B.
Gegn ákærða Ásmundi Gunnari fyrir að hafa þriðjudaginn 30. maí 2006 ekið bifreiðinni ME-659 þrátt fyrir stöðvunarmerki lögreglu suður Þórunnarstræti á Akureyri, inn á gatnamót Þingvallastrætis gegnt rauðu umferðarljósi, beygt til vinstri austur Þingvallastræti af rangri akrein, ekið austur Þingvallastræti þvínæst á röngum vegarhelmingi í krappri beygju austur Kaupvangsstræti.
Brot samkvæmt A lið ákæru telst varða við 2. gr., sbr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni, nr. 65, 1974, sbr. lög nr. 13, 1985 og 68, 2001 og 2. gr. sbr. 14. gr. reglugerðar um sölu og meðferð ávana- og fíkniefna nr. 233, 2001, sbr. reglugerð nr. 838, 2002 og auglýsingu nr. 232, 2001. Brot samkvæmt B lið ákæru telst varða við 1. mgr. 5. gr., 1. mgr. 14. gr. og 1. mgr. 15. gr. sbr. 1. mgr. 100. gr. laga nr. 50/1987.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og til að sæta upptöku á 26,37 grömmum af amfetamíni sem lögreglan lagði hald á og tilgreint er í efnaskrá nr. 9270, samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65, 1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233, 2001.“
VIII. Ákæra sýslumannsins á Akureyri, útgefin 5. júní 2007 S-174/2007.
Með ákærunni er höfðað mál á hendur Þengli Stefánssyni og Hauki Geir Jóhannssyni
„fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa miðvikudaginn 13. september 2006 haft saman í vörslum sínum 0,41 gramm af amfetamíni á heimili ákærða Hauks Geirs á Akureyri.
Brot þetta telst varða við 2. gr., sbr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni, nr. 65, 1974, sbr. lög nr. 13, 1985 og 68, 2001 og 2. gr. sbr. 14. gr. reglugerðar um sölu og meðferð ávana- og fíkniefna nr. 233, 2001, sbr. reglugerð nr. 838, 2002 og auglýsingu nr. 232, 2001.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og til að sæta upptöku á 0,41 grammi af amfetamíni sem lögreglan lagði hald á og tilgreint er í efnaskrám nr. 10558, samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65, 1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233, 2001.“
Framangreindar ákærur voru sameinaðar í þetta mál undir rekstri þess, en á fyrri stigum var þáttur Jóns Birkis Jónssonar, Elmars Þórs Péturssonar, Eiríks Fannars Traustasonar og Hauks Geirs Jóhannssonar síðan skilinn frá og dæmdur sérstaklega í málum nr. S-171/2007, S-172/2007 og S-174/2007.
Ákærði Ásmundur Gunnar krefst þess að verða sýknaður af sakargiftum um brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni, en að sér verði ekki gerð sérstök refsing fyrir brot gegn umferðarlögum.
Ákærði Þengill krefst sýknu af öðrum sakargiftum en að hafa haft í vörslum sínum lítilræði af amfetamíni, sem fannst á heimili hans 12. apríl 2006, sbr. kafla III. hér á eftir. Til vara krefst hann vægustu refsingar sem lög leyfa og að hún verði bundin skilorði. Hann krefst sýknu af kröfu um sviptingu ökuréttar.
Ákærðu Óli Friðbergur og Hrannar Þór krefjast báðir sýknu en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa.
I. (Ákæra útgefin 7. maí 2007, mál nr. S-126/2007. Málsnr. ákæruvaldsins: 024-2007-02764)
Þann 10. apríl sl., klukkan 15:52, var lögreglu tilkynnt um háskalegan akstur ökumanns bifreiðarinnar RU-263 framan við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri. Á vettvangi fundu lögreglumenn þessa bifreið, framan við inngang B. Hún var mannlaus en lykill var í kveikjulásnum og útvarp í gangi. Lögregla ræddi við vitni sem kváðust hafa séð út um glugga að bifreiðinni hefði verið ekið hratt suður Eyrarlandsveg, yfir grasflöt og hún síðan stöðvuð framan við inngang B. Ökumaður hefði verið einn í bifreiðinni. Hann hefði hraðað sér inn í sjúkrahúsið.
Læknir vísaði lögreglu á ákærða inni á geðdeild. Kvað læknirinn hann hafa verið æstan er hann kom inn og kvaðst hafa gefið honum nánar tilgreint lyf. Hefði hann þá róast.
Ákærði var færður á lögreglustöð og honum dregið blóð. Samkvæmt matsgerð Guðlaugar Þórsdóttur læknis, f.h. Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði, mældist 550 ng/ml af amfetamíni í því blóði. Segir í matsgerðinni að sá styrkur sé langt umfram það sem megi búast við eftir lækningalega skammta og bendi til eitrunar. Amfetamín sé í flokki ávana- og fíkniefna sem séu óheimil á íslensku forráðasvæði. Guðlaug staðfesti matsgerð sína hér fyrir dómi. Kom fram í skýrslu hennar að þetta væri með því mesta sem mælst hefði hjá rannsóknastofunni.
Ákærði ber hér fyrir dómi að sér hafi legið mikið við að komast til læknis því að sig hafi vantað lyf. Hann hafi haft amfetamín á sér í poka. Er hann hafi orðið lögreglu var hafi hann gleypt hvort tveggja, efnið og pokann.
Við aðalmeðferð málsins voru að auki teknar vitnaskýrslur af Brynjólfi Ingvarssyni geðlækni, Rúnu Alexandersdóttur hjúkrunarfræðingi, Guðjóni Kristjánssyni lækni og Ólafi Hirti Ólafssyni lögreglumanni. Ekkert þessara vitna sá, eða var í aðstöðu til að sjá, ákærða gleypa amfetamín. Ekki er deilt um að ákærði hafi ekið greindri bifreið að sjúkrahúsinu. Ræðst niðurstaða í þessum þætti málsins af því hvort byggt verði á framburði ákærða um að hafa neytt amfetamínsins eftir að akstrinum lauk. Frásögn ákærða um þetta kom fyrst fram við aðalmeðferð málsins. Það er mat dómara að hún sé ótrúverðug. Er þá haft í huga að Brynjólfur Ingvarsson ber að ákærði hafi verið mjög æstur og þurfti Brynjólfur að lempa hann niður og gefa honum freyðitöflu af nánar greindu lyfi til að róa hann. Í framburði vitnanna Rúnu Alexandersdóttur og Guðjóns Kristjánssonar kom fram að bifreið ákærða hafi verið ekið hratt og ógætilega að sjúkrahúsinu. Er nærtækt að álykta að amfetamín sem mældist í blóði ákærða hafi þá þegar verið til staðar og haft áhrif á andlegt jafnvægi hans og akstursmáta. Verður framburður ákærða um neyslu efnisins eftir akstur að engu hafður. Samkvæmt því verður hann sakfelldur fyrir þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákærunni og varðar við þar tilgreint refsiákvæði.
II. (Ákæra útgefin 7. maí 2007. Málsnr. S-127/2007. Mál ákæruvalds nr. 024-2006-03181)
Síðdegis þann 10. maí 2006 veittu lögreglumenn því eftirtekt að ákærði Óli Friðbergur kom flugleiðis til Akureyrar og sté upp í bifreið hjá ákærða Þengli. Lögregla veitti bifreiðinni eftirför og stöðvaði för ákærðu skömmu síðar. Lögreglumenn fundu hvítt efni í poka á gólfi bifreiðarinnar. Greindi tæknideild lögreglustjórans í Reykjavík þetta efni sem 5,50 grömm af amfetamíni. Í frumskýrslu lögreglu segir að er lögreglumenn komu að bifreiðinni hafi ákærði Óli Friðbergur haldið á þjónustubók bifreiðarinnar í annarri hendi og upprúlluðum peningaseðli í hinni. Hafi þeir séð hvítar efnisleifar á nefi og í nösum þessa ákærða, svo og á bókinni.
Ákærði Þengill skýrir svo frá hér fyrir dómi að hann hafi ekki vitað neitt um þetta efni. Hafi þeir ákærði Óli Friðbergur séð það í bifreiðinni. Tók ákærði fram að ákærði Hrannar Þór hafi áður notað þessa bifreið auk annarra, hinna og þessara manna. Þeir ákærði Óli Friðbergur hafi ekki látið sig neinu skipta hvaða efni þetta hafi verið, enda hafi þeir tekið hvað sem var í nefið.
Ákærði Óli Friðbergur kom ekki fyrir dóm við aðalmeðferð málsins, en kom fyrir dóm við fyrirtöku þess þann 9. júlí síðastliðinn og kvaðst neita sök. Skipaður verjandi hans upplýsti við aðalmeðferðina að ákærði kysi að neyta réttar síns til að tjá sig ekki frekar um sakargiftir í ákæru.
Ákærði Hrannar Þór kveðst hafa gefið sig fram á lögreglustöð nokkrum dögum eftir þetta, 13. maí 2006 samkvæmt staðhæfingu yfirheyranda í næst greindri lögregluskýrslu, til að skýra frá því að hann væri eigandi þess efnis sem fannst í pokanum. Skýrsla var ekki tekin af honum þá þegar. Lögregla tók skýrslu af honum 1. mars sl. Sagðist hann þá hafa gleymt efninu milli framsætanna í bifreiðinni, fimm til sex grömmum af amfetamíni að sig minnti.
Þessi ákærði skýrði frá því hér fyrir dómi að hann hafi sjálfur neytt fíkniefna, en hætt því snemma á þessu ári. Ákærði Þengill hafi átt hönk upp í bakið á sér og fengið sig til að fara á lögreglustöð og taka á sig sök fyrir að eiga þetta efni. Hann hafi greitt sér fyrir þetta með amfetamíni að verðmæti 100.000 krónur. Ákærði kveðst hafa breytt lífi sínu til hins betra og hafa ákveðið að hverfa frá því að skrökva því á sig að hafa átt greint amfetamín.
Fyrir dóminn var kallaður til vitnisburðar maður að nafni Gunnþór Ingólfsson. Hafði hann ekki frá neinu að segja sem skiptir máli hér.
Vitnið Logi Geir Harðarson lögreglumaður ber að hann og annar lögreglumaður hafi ákveðið að fylgjast með ferðum ákærðu Þengils og Óla Friðbergs. Þeir hafi ekki séð betur en að hinn síðarnefndi væri að bjástra við fíkniefnaneyslu. Þeir hafi stöðvað bifreiðina og fundið amfetamínið á gólfi hennar. Vitnið staðfesti það sem fram kemur í frumskýrslu lögreglu um efnisleifar á bók og í andliti ákærða Óla Friðbergs. Vitnið kveðst ekki hafa rætt við ákærða Hrannar Þór er hann kom á lögreglustöð 13. maí 2006. Vitnið kveðst hafa fylgst með rannsókn málsins. Vitnið ber að lögreglan hafi frá upphafi haft grun um það, studdan upplýsingum frá ónafngreindum heimildarmönnum, að ákærði Þengill hefði fengið þennan ákærða til að taka á sig sök.
Fyrir liggur að greint amfetamín fannst á gólfi bifreiðar sem ákærði Þengill ók og ákærði Óli Friðbergur var farþegi í. Þá benda vegsummerki, sem lögregla lýsir í frumskýrslu og vitnið Logi Geir Harðarson staðfesti, til þess að ákærði Óli Friðbergur hafi verið að taka eitthvað í nefið rétt áður en lögregla stöðvaði för ákærðu. Hver sem kann að hafa átt þetta efni og hvort sem ákærðu, annar hvor eða báðir, fundu það í bifreiðinni fyrir tilviljun eða annar hvor þeirra hafði það með sér, verður fallist á það með ákæruvaldinu að við þessar aðstæður hafi ákærðu Þengill og Óli Friðbergur haft þetta efni sameiginlega í sinni vörslu.
Af ákæru verður ráðið að ákærða Hrannari Þór er gefið að sök að hafa haft vörslur þessa sama efnis sem eigandi þess. Um það er engum sönnunargögnum til að dreifa nema framburði hans þess efnis fyrir lögreglu, sem hann hefur breytt hér fyrir dómi eins og áður er rakið og kveðst hafa gefið að beiðni ákærða Þengils og fengið greitt fyrir með amfetamíni. Verður framburður þessa ákærða hér fyrir dómi um að hafa skrökvað því að hann ætti efnið tekinn trúanlegur, sérstaklega með tilliti til þess að lögreglan taldi frá upphafi að hann segði ósatt um að eiga efnið. Verður þessi ákærði sýknaður af sakargiftum í ákærunni.
III. (Ákæra útgefin 10. maí 2007. Mál nr. S-134/2007. Mál ákæruvalds nr. 024-2006-024851)
Lögregla fylgdist á þeim tíma sem ákæra greinir með mannaferðum við heimili ákærða, vegna þess að hún grunaði hann um að dreifa fíkniefnum. Taldi hún í kjölfar þess ástæðu til að sækja ákærða heim. Er hann sá hverjir komnir voru flúði hann út um bakdyr og stakk hendinni ofan í skafl. Tók lögregla hann þar höndum. Þar sem hann hafði sett höndina í skaflinn fannst hvít kúla með meintum fíkniefnum. Segir í frumskýrslu lögreglu að kúlan hafi verið heit viðkomu og greinilega nýkomin í skaflinn. Tæknideild lögreglustjórans í Reykjavík greinir efni sem í kúlunni var sem 7,32 grömm af amfetamíni. Annað amfetamín og önnur efni sem ákæra greinir fundust við leit lögreglu í íbúð ákærða.
Ákærði tekur fram að hann geti í veikindum ekki neytt hass og hafi ekki hugmynd um hass sem fannst í íbúðinni. Að öðru leyti neitar hann að tjá sig um sakargiftir í þessari ákæru.
Vitnið Jón Valdimarsson lögreglumaður ber að þeir félagi hans Jónas Helgi Sigurðsson hafi ákveðið að heimsækja ákærða og kallað til liðstyrk. Þeir hafi barið að dyrum og stúlka opnað. Þeir hafi séð inn um dyrnar að ákærði hafi komið innan úr herbergi. Fát hafi komið á hann og hann hlaupið af stað. Þeir hafi farið á eftir. Ákærði hafi farið út um bakdyr út á lóð, stungið hendi í skafl og síðan snúið sér að þeim. Þeir hafi handtekið ákærða og leitað í skaflinum. Þar hafi þeir fundið fyrrgreinda kúlu.
Auk Jóns gaf Logi Geir Harðarson lögreglumaður skýrslu vitnis í þessum þætti málsins. Ekki þykir þurfa að rekja sérstaklega efni skýrslu hans.
Óljóst er, enda fjallar þetta mál ekki sérstaklega um það, hvað lögregla hugðist fyrir með því að sækja ákærða heim við fimmta mann án þess að hafa aflað sér heimildar til að leita á heimili hans. Fyrir liggur hins vegar að ákærði heimilaði lögreglu leit eftir að hann var handtekinn. Með hliðsjón af því er ekki alveg nægilegt tilefni að sýkna ákærða af þeirri ástæðu að lögregla hafi brotið af sér við rannsóknina.
Skynsamlegur vafi leikur ekki á því að ákærði hafi stungið í skaflinn því efni sem þar fannst. Verður hann sakfelldur fyrir vörslur þess og efna sem fundust á heimili hans. Varðar það við tilgreint refsiákvæði í ákæru.
IV. (Ákæra útgefin 1. júní 2007. Mál nr. S-142/2007. Mál ákæruvalds nr. 024-2006-06979)
Með játningu ákærða Ásmundar Gunnars, sem ekki er ástæða til að draga í efa að sé sannleikanum samkvæm, telst nægilega sannað að hann hafi framið þá háttsemi sem honum er gefin að sök í þessari ákæru og varðar við þar tilgreind ákvæði umferðarlaga.
V. (Ákæra útgefin 1. júní 2007. Mál nr. S-171/2007. Mál ákæruvalds nr. 024-2006-07960)
Ákærði var handtekinn við Varmahlíð að kvöldi 8. október 2006 og bifreið sem hann ók færð til Akureyrar og leit gerð í henni með samþykki ákærða. Í loftsíu hennar fannst hvítt efni vafið í sellófan. Greindi tæknideild lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu efnið sem 17,26 grömm af amfetamíni.
Ákærði ber hér fyrir dómi að hann hafi ekki átt þetta efni og ekki vitað að það væri þarna. Fyrir dóminn kom vitnið Jón Birkir Jónsson og skýrði frá því að hann hefði átt þetta efni. Hefði hann falið það í bifreiðinni án vitundar ákærða, þar sem hann hefði verið óttafullur um að það fyndist í vörslum sínum.
Vitnið Logi Geir Harðarson ber að lögregla hafi fengið ábendingu sem varð til þess að fylgst var með ferðum ákærða og hann handtekinn.
Ekkert hefur verið fært fram af hálfu ákæruvaldsins því til stuðnings að frásögn nefnds Jóns Birkis sé röng. Verður ákærði því sýknaður af sakargiftum í þessum þætti málsins.
VI. (Ákæra útgefin 5. júní 2007. Mál nr. S-172/2007. Málsnr. ákæruvalds 024-2006-04221)
Ákærði var farþegi í bifreið sem ákæra greinir, er lögregla stöðvaði för hennar þar og þá sem í ákærunni er lýst. Fannst í bifreiðinni duft í poka, sem tæknideild lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu greindi sem 19,96 grömm af amfetamíni. Sama deild greindi 9,69 grömm af sama efni í poka sem fannst í buxnavasa ökumannsins.
Ákærði ber að hann hafi verið sofandi í bifreiðinni, en vaknað við læti. Kveðst hann ekkert um efnið vita.
Vitnið Elmar Þór Pétursson ber að hafa verið í slagtogi með Eiríki Fannari Traustasyni kunningja sínum þennan dag. Ákærði hafi komið í bifreiðina við veitingastaðinn Ak-inn og haft fíkniefni meðferðis. Hafi hann rétt þeim poka með slíku efni, sem vitnið kveðst hafa ætlað að kaupa. Hafi Eiríkur Fannar stungið þeim poka í vasann. Hinum pokanum hafi ákærði reynt að troða fram í bifreiðina þegar lögreglan kom að.
Vitnið Eiríkur Fannar Traustason ber að hafa lítið vitað um þetta mál. Hann hafi ekið bifreiðinni og Elmar Þór setið við hlið hans. Ákærði hafi komið inn í bifreiðina við Ak-inn. Hafi ákærði og Elmar Þór verið með þetta efni, en hann hafi vitað vel að þeir voru að höndla með eitthvað.
Til skýrslugjafar voru kvaddir sem vitni lögreglumennirnir Bergur Jónsson og Jón Valdimarsson. Er óþarft að rekja framburð þeirra um handtöku ákærða og fund efnisins efnislega hér.
Framburður vitnanna Elmars Þórs og Eiríks Fannars er samhljóða um það atriði að ákærði og Elmar Þór voru að höndla með efnið eða skipta því með sér. Verður ákærði sakfelldur á grundvelli þess fyrir að hafa haft vörslur efnisins í sameiningu með þeim. Varðar það við tilgreint refsiákvæði í ákæru.
VII. (Ákæra útgefin 6. júní 2007. Mál nr. S-173/2007. Mál ákæruvalds nr. 024-2006-03585)
Aðfaranótt 30. maí 2006 veitti lögregla bifreið sem ákæra greinir eftirför. Tendruðu lögreglumenn forgangsljós, en ökumaður hélt samt sem áður áfram suður Þórunnarstræti. Segir í frumskýrslu lögreglu að hann hafi síðan beygt til vinstri austur Þingvallastræti og ekið gegn rauðu ljósi. Rétt eftir að bifreiðin kom á Þingvallastræti hafi hönd komið út um glugga farþegamegin og varpað einhverju suður fyrir götuna. Bifreiðinni hafi verið ekið áfram og á öfugum vegarhelmingi í beygju vestast á Kaupvangsstræti. Lögregla ók í veg fyrir hana á móts við Hótel KEA og stöðvaði för hennar. Ökumaður, ákærði Ásmundur Gunnar, og farþegi, ákærði Þengill, voru handteknir.
Lögregla leitaði þess sem varpað hafði verið út. Fannst lítil opin glerkrukka. Lagði úr henni mikla lykt. Efst í henni var plastpoki en neðar eitthvert rakt, þétt, hvítt efni. Lokið af krukkunni fannst skammt frá. Tæknideild lögreglustjórans í Reykjavík fékk þetta efni greint hjá Rannsóknastofu Háskólans sem 26,37 grömm af amfetamíni.
Ákærði Ásmundur Gunnar ber hér fyrir dómi að nefnt umferðarljós hafi verið „hálf gult“. Hann kveðst ekkert kannast við amfetamín, sem honum er gefið að sök að hafa haft í vörslu sinni, og kveðst alfarið neita sök.
Ákærði Þengill ber hér fyrir dómi að muna ekki vel eftir atvikum, en hafa rétt hönd út um glugga bifreiðarinnar til að steyta hnefa að lögreglunni.
Vitnið Ólafur Tryggvi Ólafsson lögreglumaður ber að þeir félagi hans Jón Valdimarsson hafi veitt bifreiðinni athygli og ákveðið að ræða við ökumann. Þeir hafi tendrað forgangsljós á gatnamótum Hamarstígs og Þórunnarstrætis. Ökumaður hafi ekki sinnt því og ekið gegn rauðu ljósi á gatnamótum Þórunnarstrætis og Þingvallastrætis, þar sem hann hafi snarbeygt til vinstri. Eftir að þeir stöðvuðu för ákærðu hafi þeir farið að leita þess sem þeir sáu varpað út úr bifreiðinni og fundið greinda krukku.
Vitnið Jón Valdimarsson lögreglumaður ber í öllum aðalatriðum á sama veg um atvik og síðast greint vitni.
Við aðalmeðferð málsins var sýnd kvikmynd af eftirförinni sem tekin var með myndavél á lögreglubifreiðinni. Eftir skoðun hennar metur dómari það útilokað að ákærði Ásmundur Gunnar hafi ekki tekið eftir forgangsljósum lögreglu og að þau hafi verið til þess tendruð að gefa honum merki um að stöðva för sína, að því gefnu að hann hafi verið með fullri rænu. Þessi háttsemi er ekki sérstaklega heimfærð til ákvæða umferðarlaga í ákæru og verður ákærða því ekki gerð refsing fyrir hana. Önnur brot sem hann framdi gegn umferðarlögum í þetta sinn framdi hann þrátt fyrir og raunar langlíklegast vegna þess að lögregla hafði gefið honum merki um að nema staðar. Verður það haft í huga við ákvörðun refsingar. Með þessari kvikmynd og vætti lögreglumannanna er sannað svo ekki leikur vafi á að ákærði ók gegn rauðu ljósi eins og lýst er í ákæru. Með kvikmyndinni er einnig sannað að ákærði beygði af rangri akrein og ók á röngum vegarhelmingi eins og í ákæru greinir.
Af nefndri kvikmynd má greina að einhverju er varpað út úr bifreiðinni um glugga farþegamegin að framan. Fannst krukka með amfetamíni við leit lögreglu. Leikur ekki skynsamlegur vafi á að þeirri krukku hafi verið varpað úr bifreiðinni sem ákærðu voru í. Með því að ekki er annað upplýst, verða þeir sakfelldir fyrir að hafa haft vörslu amfetamínsins sameiginlega, enda verður sú háttsemi ákærða Ásmundar Gunnars að sinna ekki stöðvunarmerkjum lögreglu best skýrð með því að hann hafi viljað skapa tækifæri til að koma efninu undan.
Háttsemi ákærðu varðar við tilgreind refsiákvæði í ákæru.
VIII. (Ákæra 5. júní 2007. Mál nr. S-174/2007. Mál ákæruvalds nr. 024-2006-07227)
Lögregla sá ákærða og Hauk Geir Jóhannsson yfirgefa íbúð hins síðarnefnda að Hafnarstræti 79, Akureyri, að kvöldi 13. september 2006. Veitti hún þeim eftirför og hafði afskipti af Hauki Geir, sem heimilaði leit í íbúðinni. Fannst þar hvítt efni í poka og ein lína af hvítu efni á geislaplötuumslagi. Tæknideild lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu greindi þetta efni sem 0,41 gramm af amfetamíni.
Ákærði ber hér fyrir dómi að hafa neytt amfetamíns heima hjá Hauki Geir í boði hans. Hafi Haukur Geir ranglega borið á hann að eiga amfetamín sem fannst á heimili hans.
Vitnið Haukur Geir Jóhannsson ber hér fyrir dómi að maður sem hann vilji ekki segja til hafi átt þetta efni.
Vitnið Logi Geir Harðarson lögreglumaður staðfestir að Haukur Geir hafi sagt ákærða eiga efnið, svo sem fram kemur í skýrslu lögreglu um framburð hans á rannsóknarstigi málsins.
Fyrir liggur að ákærði neytti amfetamíns á heimili Hauks Geirs og að Haukur Geir skýrði lögreglu frá því í upphafi að ákærði ætti það amfetamín sem þar fannst. Haukur Geir kveðst nú hafa skrökvað þessu. Breyttur framburður hans þykir ekki trúverðugur. Með skírskotun til neyslu ákærða heima hjá Hauki Geir og upphaflegs framburðar Hauks Geirs, verður talið nægilega sannað að þeir ákærði hafi haft vörslur þessa efnis í sameiningu. Samkvæmt því verður ákærði sakfelldur fyrir þá háttsemi sem lýst er í ákæru og þar er rétt heimfærð til refsiákvæðis.
IX. (Viðurlög og fleira.)
Ákærði Þengill Stefánsson hefur ekki sætt öðrum refsingum en tveimur sektum fyrir umferðarlagabrot árið 1999 og með dómi 27. nóvember 2006 til að greiða 90.000 króna sekt og sæta sviptingu ökuréttar í þrjá mánuði fyrir brot gegn 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. a umferðarlaga.
Ákærði hefur hér verið sakfelldur fyrir nýtt brot gegn nefndu umferðarlaga-ákvæði og fyrir fimm brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni með því að hafa í vörslum sínum, ýmist einn eða í sameiningu með öðrum, samtals rúm 70 grömm af amfetamíni auk lítilræðis af hassi.
Refsing ákærða ákveðst fangelsi í tvo mánuði og sekt til ríkissjóðs að fjárhæð 160.000 krónur. Með tilliti til þess að ákærði hefur ekki fyrr sætt refsingum fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni þykir rétt að skilorðsbinda fangelsisrefsinguna eins og nánar greinir í dómsorði. Sektin skal greiðast innan fjögurra vikna frá birtingu þessa dóms að telja, en ákærði ella sæta fangelsi í 12 daga.
Samkvæmt 6. mgr. 102. gr. umferðarlaga, sbr. 18. gr. laga nr. 66/2006, ber að svipta ákærða ökurétti. Með hliðsjón af því hve mikið magn amfetamíns mældist í blóði hans ákveðst sviptingartíminn þrjú ár frá birtingu þessa dóms að telja.
Ákærði Óli Friðbergur Kristjánsson á að baki töluverðan sakaferil fyrir brot gegn almennum hegningarlögum og umferðarlögum. Síðast var honum refsað með viðurlagaákvörðun 23. júní 2003, 10.000 króna sekt fyrir þjófnað. Sakaferill ákærða hefur ekki áhrif á ákvörðun refsingar hans í þessu máli, sem ákveðst 75.000 króna sekt til ríkissjóðs, sem skal greiða innan fjögurra vikna frá birtingu þessa dóms að telja, en ákærði ella sæta fangelsi í sex daga.
Ákærði Ásmundur Gunnar Stefánsson var þann 18. maí sl. dæmdur til greiðslu 75.000 króna sektar fyrir brot gegn 1. mgr. 37. gr. umferðarlaga. Ber að tiltaka refsingu hans sem hegningarauka við þann dóm. Refsing hans ákveðst sekt að fjárhæð 280.000 krónur, sem skal greiða innan fjögurra vikna frá birtingu þessa dóms að telja, en ákærði ella sæta fangelsi í 20 daga.
Gera ber upptækt amfetamín, hass og tóbaksblandað hass eins og krafist er.
Sakarkostnaður á rannsóknarstigi nemur 294.247 krónum, sem dæma ber ákærða Þengil til að greiða, þar af 74.002 krónur í sameiningu með ákærða Ásmundi Gunnari. Á dómstigi málsins leiddi ekki annan kostnað af rekstri þess en málsvarnarlaun og ferðakostnað skipaðra verjenda ákærðu. Ferðakostnaður skipaðs verjanda ákærðu Þengils og Ásmundar Gunnars, Kristjáns Stefánssonar hrl., nemur 61.120 krónum, sem þeir verða dæmdir til að greiða í sameiningu, sem og málsvarnarlaun hans, sem ákveðast eins og greinir í dómsorði.
Ákærði Óli Friðbergur greiði ferðakostnað og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Gríms Sigurðarsonar hdl., eins og nánar greinir í dómsorði.
Tekið er tillit til þess að báðir lögmennirnir þurftu að ferðast tvívegis frá Reykjavík til Akureyrar vegna þessa máls.
Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða Hrannars Þórs, Ingvars Þóroddssonar hdl., greiðast úr ríkissjóði eins og greinir í dómsorði.
Virðisaukaskattur er innifalinn í tilgreindum fjárhæðum í dómsorði þar sem við á.
Dóm þennan kveður upp Erlingur Sigtryggsson héraðsdómari.
D Ó M S O R Ð :
Ákærði Þengill Stefánsson sæti fangelsi í tvo mánuði og greiði 160.000 krónur í sekt til ríkissjóðs. Fresta skal fullnustu fangelsisrefsingarinnar og hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppsögu þessa dóms að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. Fangelsi í 12 daga komi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu þessa dóms að telja.
Ákærði Óli Friðbergur Kristjánsson greiði 75.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu þessa dóms að telja, en sæti ella fangelsi í 6 daga.
Ákærði Hrannar Þór Kjartansson er sýkn af kröfum ákæruvaldsins í þessu máli.
Ákærði Ásmundur Gunnar Stefánsson greiði 280.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu þessa dóms að telja, en sæti ella fangelsi í 20 daga.
Ákærði Þengill er sviptur ökurétti í þrjú ár frá birtingu dómsins að telja.
Upptækt er amfetamín, hass og tóbaksblandað hass, auðkennt nr. 9.359, 8.998, 8.999, 9660, 9661, 9270 og 10558 í efnaskrá lögreglu.
Ákærði Þengill greiði 705.367 krónur í sakarkostnað. Þar af greiði þeir ákærði Ásmundur Gunnar í sameiningu 424.002 krónur, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda þeirra, Kristjáns Stefánssonar hrl., 350.000 krónur.
Ákærði Óli Friðbergur greiði 350.070 krónur í sakarkostnað, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Gríms Sigurðarsonar hdl., 300.000 krónur.
Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða Hrannars Þórs, Ingvars Þóroddssonar hdl., 185.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.