Hæstiréttur íslands
Mál nr. 304/2015
Lykilorð
- Lánssamningur
- Gjaldfelling
- Vextir
- Dráttarvextir
|
|
Fimmtudaginn 17. desember 2015. |
|
Nr. 304/2015.
|
Skeifan ehf. (Sigurður Sigurjónsson hrl.) gegn Íslandsbanka hf. (Jón Auðunn Jónsson hrl.) |
Lánssamningur. Gjaldfelling. Vextir. Dráttarvextir.
Í hf. höfðaði mál þetta til heimtu skuldar samkvæmt lánssamningi aðila frá árinu 2007. Ágreiningur málsins laut að því við hvaða dag Í hf. mætti miða upphafstíma dráttarvaxta af eftirstöðvum lánsins. Í dómi Hæstaréttar kom fram að samkvæmt gögnum málsins hefði S ehf. innt af hendi greiðslu á vöxtum í síðasta sinn í október 2011. Greiðslufall hafi orðið hjá S ehf. á þessum fyrirfram ákveðna gjalddaga lánsins og hefði hann að engu leyti sinnt skyldu sinni til greiðslu lánsfjárhæðarinnar. Samkvæmt því og 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu var talið að miða bæri upphafstíma dráttarvaxta frá október 2011. Þá var staðfestur veðréttur Í hf. í nánar tilgreindri fasteign fyrir skuld S ehf.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Benedikt Bogason og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 27. apríl 2015. Hann krefst þess að héraðsdómi verði breytt á þann veg að sér verði gert að greiða stefnda 31.000.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 3. október 2011 til 13. febrúar 2014, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms að öðru leyti en því að fjárhæð sú sem dæmd var í héraði beri ekki dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 fyrr en 1. apríl 2012. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Eins og fram kemur í hinum áfrýjaða dómi tók áfrýjandi lán hjá Glitni banka hf. 20. mars 2007 að fjárhæð 31.000.000 krónur sem bundin var gengi fjögurra erlendra mynta. Stefndi er nú eigandi kröfunnar. Skyldi lánið endurgreiðast með einni greiðslu 1. apríl 2012, en vextir á sex mánaða fresti í fyrsta sinn 1. október 2007. Málsaðilar eru sammála um að lánið hafi verið í íslenskum krónum bundið ólögmætu gengisviðmiði. Samkvæmt gögnum málsins innti áfrýjandi af hendi greiðslu á vöxtum í síðasta sinn 3. október 2011 og því til samræmis breytti stefndi kröfugerð sinni við flutning málsins hér fyrir dómi og krafðist ekki lengur dráttarvaxta frá þeim degi heldur frá 1. apríl 2012, sem eins og áður segir var sá dagur er greiða skyldi lánið upp. Greiðslufall varð á hinn bóginn hjá áfrýjanda á þessum fyrirfram ákveðna gjalddaga lánsins og hefur hann að engu leyti sinnt skyldu sinni til greiðslu framangreindrar lánsfjárhæðar í íslenskum krónum. Samkvæmt því og 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 verður fallist á fjárkröfu stefnda fyrir Hæstarétti á þann hátt sem í dómsorði greinir. Þá verður ákvæði héraðsdóms um staðfestingu veðréttar fyrir skuld áfrýjanda látið standa óraskað.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað verður staðfest, en málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómsorð:
Áfrýjandi, Skeifan ehf., greiði stefnda, Íslandsbanka hf., 31.000.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. október 2011 til 1. apríl 2012 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákvæði héraðsdóms um staðfestingu veðréttar og málskostnað skulu vera óröskuð.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 6. febrúar 2015.
Mál þetta sem dómtekið var 19. janúar 2015 var höfðað með stefnu, útgefinni 7. janúar 2014 og þingfestri 13. febrúar s.á., af hálfu Íslandsbanka hf., Kirkjusandi 2 í Reykjavík á hendur Ólafi E. Thoroddsen, Tjarnargötu 40, Reykjavík, stjórnarformanni Skeifunnar ehf., Tjarnargötu 40, Reykjavík, f.h. félagsins, til greiðslu skuldar og staðfestingar á veðrétti.
Stefnandi krefst þess að stefnda verði gert að greiða honum 31.000.000 króna, með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 3. október 2011 til greiðsludags. Einnig er þess krafist að stefnanda verði heimilað að færa dráttarvexti upp á höfuðstól skuldarinnar á 12 mánaða fresti, sbr. 12. gr. laga nr. 38/2001, í fyrsta skipti 3. október 2012.
Jafnframt krefst stefnandi þess að staðfestur verði veðréttur hans samkvæmt veðtryggingarbréfi sem var útg. 22. mars 2006, tryggðu upphaflega með 2. veðr.í Ingólfsstræti 7, Reykjavík, fnr. 200-4532 og uppfærslurétti, að höfuðstól 33.000.000 króna.
Jafnframt krefst stefnandi þess að staðfestur verði veðréttur hans samkvæmt veðtryggingarbréfi sem var útg. 10. apríl 2007, tryggðu upphaflega með 2. veðr. í Ingólfsstræti 7, Reykjavík, fnr. 200-4532 og uppfærslurétti, að höfuðstól 8.000.000 króna.
Þá krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnda ásamt virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.
Stefndi viðurkennir, að skuld félagsins við stefnanda hafi verið 31.000.000 króna eftir afborgun 3. október 2011. Stefndi krefst þess, að skuldin beri vexti frá 3. október 2011 til 13. febrúar 2014 samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga nr. 38/2001, en dráttarvexti skv. 6. gr. l. nr. 38/2001 frá þeim tíma til greiðsludags.
Gerð er krafa um málskostnað úr hendi stefnanda að skaðlausu að mati réttarins.
Verði ekki fallist á kröfu stefnda um málskostnað úr hendi stefnanda er gerð sú krafa að málskostnaður verði látinn niður falla.
Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna
Hinn 20. mars 2007 tók stefndi lán að fjárhæð 31.000.000 króna eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í öðrum gjaldmiðlum hjá fyrirrennara stefnanda, Glitni banka hf., í dag Íslandsbanka hf. Lánið var greitt út í myntunum USD, SEK, CHF og JPY. Samkvæmt skilmálum lánssamningsins, sem bankinn sá um að útbúa, skyldi stefndi greiða stefnanda vexti af láninu sem skyldu reiknast frá kaupdegi samningsins og voru breytilegir LIBOR-/EURIBOR-vextir eins og þeir ákvarðast fyrir viðkomandi gjaldmiðil hverju sinni fyrir viðkomandi vaxtatímabil að viðbættu 1,9% vaxtaálagi. Vextir lánsins áttu að greiðast á sex mánaða fresti í fyrsta skipti 1. október 2007 og svo á sex mánaða fresti til 1. apríl 2012, er lánið skyldi endurgreiðast lánveitanda.
Stefndi greiddi vexti af láninu til og með október 2011, en skuldin er ógreidd að öðru leyti og er það óumdeilt. Stefndi lýsir málsatvikum svo að hann hafi talið ljóst að umræddur lánssamningur hafi verið með ólögmætt viðmið við þróun erlendra mynta. Stefndi kveðst því hafa knúið á um að fá fram afstöðu bankans til þess að geta gengið frá uppgjöri á endurútreiknuðu láni. Engin afstaða hafi komið fram af hálfu bankans, en stefndi kveðst ekki hafa þorað öðru en að standa í skilum með útreiknaðar kröfur bankans fram til október 2011. Á þeim tíma hafi hann ítrekað kröfu sína um að fá afstöðu bankans með endurútreikningi á láninu en við því hafi ekki verið brugðist og því borið við að bankinn biði niðurstöðu úrlausna dómstóla varðandi lánið. Stefndi hafi því ekki átt annan kost en að bíða eftir afstöðu stefnanda varðandi meint ólögmæti lánssamningsins og hafi, þrátt fyrir eftirgangsmuni af sinni hálfu, fyrst séð afstöðu stefnanda í stefnu í máli þessu um meint ólögmætt gengisviðmið samningsins. Þá fyrst hafi stefnandi látið það uppskátt gagnvart stefnda, að mat hans sé að slík óvissa sé um lögmæti ákvæða samningsins er lúti að tengingu lánsfjárhæðar við þróun gengis erlendra mynta, að stefnandi upplýsi stefnda að krafan hafi verið reiknuð í íslenskum krónum allt frá stofndegi lánssamningsins.
Ágreiningur aðila málsins snýst um það hvort stefnda beri að greiða stefnanda dráttarvexti eða almenna vexti samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga nr. 38/2001 af skuldinni á tímabilinu frá 3. október 2011 til þingfestingardags 13. febrúar 2014.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Vegna óvissu um lögmæti ákvæða samningsins er lúti að tengingu lánsfjárhæðarinnar við þróun gengis erlendra mynta, hafi krafan verið reiknuð í íslenskum krónum allt frá stofndegi lánssamningsins. Vextir hafi verið greiddir af láninu í samræmi við ákvæði samningsins til og með 3. október 2011. Þann dag hafi orðið greiðslufall á samningnum og við það hafi lánið allt fallið í gjalddaga í samræmi við ákvæði samningsins.
Við greiðslufall á samningnum 3. október 2011 hafi krafa stefnanda numið 31.000.000 króna sem sé stefnufjárhæð málsins. Krafist sé dráttarvaxta frá þeim degi að telja.
Stefnandi krefst þess að staðfestur verði veðréttur hans samkvæmt veðtryggingarbréfi sem var útg. 22.3.2006, tryggðu upphaflega með 2. veðr. í Ingólfsstræti 7, Reykjavík, fnr. 200-4532 og uppfærslurétti, að höfuðstól 33.000.000 króna.
Stefnandi krefst þess að staðfestur verði veðréttur hans samkvæmt veðtryggingarbréfi sem var útg. 10.4.2007, tryggðu upphaflega með 2. veðr. í Ingólfsstræti 7, Reykjavík, fnr. 200-4532 og uppfærslurétti, að höfuðstól 8.000.000 króna.
Þar sem stefndi hafi ekki greitt kröfuna þrátt fyrir ítrekaðar innheimtutilraunir sé málsókn þessi nauðsynleg.
Stefnandi byggi dómkröfur sínar á almennum reglum kröfuréttar um skyldu til greiðslu fjárskuldbindinga. Vaxtakröfu sína styðji stefnandi við III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001, sbr. 10. og 12. gr. Kröfur um málskostnað styðji stefnandi við 130. gr., sbr. 129. gr., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Um réttarfar vísi stefnandi til laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafan um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun sé reist á lögum nr. 50/1988, þar sem lögmönnum er gert að innheimta virðisaukaskatt af þjónustu sinni. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattsskyldur, því beri honum nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum.
Málsástæður og lagarök stefnda
Ágreiningur aðila lúti að því, hvort stefnanda sé heimilt að krefjast dráttarvaxta af kröfu sinni á hendur stefnda frá 3. október 2011, en frá þeim tíma hafi stefndi stöðvað allar frekari greiðslur á grundvelli lánssamningsins vegna meints ólögmæts viðmiðs við þróun erlendra gjaldmiðla.
Gera verði ríkar kröfur til fjármálafyrirtækis um vönduð vinnubrögð, þannig að ekki fari milli mála hver sé vilji og afstaða þess í hverju máli. Í máli þessu hafi verið lögð fram gögn, sem séu viðvörun um innheimtuaðgerðir og innheimtubréf dags. 16.11.2012 og 07.01.2013. Stefndi hafi upplýst að hann hafi aldrei fengið umrædd bréf. Reyndar sé það svo að engin innheimtubréf eða kröfur hafi borist stefnda frá bankanum, en bankinn hafi látið málið liggja allan þennan tíma í biðstöðu án aðgerða.
Af hálfu stefnda sé því haldið fram, að bréf þessi hafi verið útbúin síðar og séu seinni tíma tilbúningur og tilhæfulaus með öllu. Stefndi bendi á að Skeifan ehf. hafi verið skráð til heimilis að Boðagranda 7, Reykjavík fram til 30. maí 2013. Hvorki fyrirtækið né forsvarsmaður þess hafi verið búsett að Tjarnargötu 40 á þessum tíma en hafi hins vegar flutt þangað í maí 2013.
Því sé mótmælt, að á þessum tíma hafi legið fyrir afstaða bankans eins og látið sé að liggja í bréfunum. Sérkennilegt sé að sjá í viðvörunarbréfinu vísað til hins ólögmæta lánssamnings með tilgreiningu, en í bréfinu sé gerð krafa í íslenskum krónum auk dráttarvaxta. Stefndi telji ljóst, að bréf þessi hafi aldrei verið send og hafi verið tilbúin síðar til þess að renna stoðum undir kröfur stefnanda um dráttarvexti í málinu, eins og krafa sé gerð um frá 3. október 2011 til greiðsludags. Fullyrðing um að afstaða stefnanda hafi legið fyrir áður en stefna hafi verið útgefin sé einfaldlega röng. Fram að því liggi ekkert fyrir um afstöðu stefnanda til lögmætis lánssamningsins. Stefnandi verði að bera allan vafa af því að hafa ekki með skýrum og afdráttarlausum hætti lýst því yfir, að lánssamningurinn væri með ólögmætu gengisviðmiði. Enginn reki hafi hins vegar verið gerður að slíku af hálfu stefnanda og beri hann sem fjármálafyrirtæki með yfirburðastöðu á sviði lánsfjármála allan halla af slíkum óskýrleika.
Eins og mál þetta sé vaxið verði að telja ljóst, að kröfuhafa sé óheimilt að krefjast dráttarvaxta á grundvelli III. kafla laga um vexti og verðbætur nr. 38/2001, enda hafi krafa stefnanda ekki legið fyrir og því hafi ekki verið unnt að krefjast dráttarvaxta, fyrr en stefna hafi verið birt stefnda. Þannig hafi stefnandi ekki tilkynnt stefnda um afstöðu sína gagnvart lögmæti gengisviðmiðunarákvæða lánssamningsins. Þar af leiðandi hafi ekkert legið fyrir um fjárhæð kröfu stefnanda á hendur stefnda. Hér beri einnig að horfa til dómaframkvæmdar Hæstaréttar Íslands, þegar ágreiningur hafi verið um lögmæti gengisviðmiða og þar með um fjárhæð slíkra krafna. Í slíkum málum hafi verið tildæmdir samningsvextir á grundvelli 4. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 af umreiknaðri fjárhæð í íslenskum krónum. Dráttarvextir hafi hins vegar ekki verið tildæmdir, fyrr en ljóst hafi verið hvers kyns samningurinn væri og þá um leið kröfufjárhæð hans. Telji stefndi því eðlilegt að miða við að dráttarvexti beri að greiða frá þingfestingardegi máls þessa, 13. febrúar 2014.
Í stefnu sé því haldið fram, að krafan hafi verið reiknuð í íslenskum krónum allt frá stofndegi lánssamningsins. Það sé ekki rétt heldur hafi stefnandi litið til þess, að höfuðstóll lánsins hafi verið ógreiddur hinn 3. október 2011. Vextir hafi hins vegar ekki verið endurreiknaðir fram að þeim tíma miðað við það að lánið sé ólögmætt, heldur látið við svo búið standa að líta á vaxtagreiðslur til þess tíma sem ágreiningslaust uppgjör á vöxtum til þess tíma. Af hálfu stefnda sé fallist á þá tilhögun og aðferð stefnanda og að eftirstöðvar skuldar nemi 31.000.000 króna.
Í stefnu sé gerð krafa um málskostnað og virðisaukaskatt á tildæmda þóknun. Kröfum þessum sé mótmælt en málarekstur stefnanda sé tilhæfulaus og óþarfur en stefndi hafi ávallt verið reiðubúinn að greiða skuld sína en ekki náð eyrum stefnanda, sem eigi hafi haft á höndum skýra og rökstudda afstöðu gagnvart stefnda. Verði að telja rétt, ef ekki verður fallist á málskostnaðarkröfu stefnda, að málskostnaður verði látinn niður falla.
Af hálfu stefnda sé vísað til laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, einkum 19. gr. um góða viðskiptahætti og venjur. Vísað sé til laga nr. 38/2001 um vexti og verðbætur, einkum 4. og 5. gr. Varðandi málskostnað vísi stefndi 130. gr., sbr. 129. gr., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þá vísi stefndi til meginreglna samninga- og kröfuréttar.
Niðurstaða
Í máli þessu er deilt um það hvort stefnda beri að greiða dráttarvexti af skuld sinni við stefnanda, frá því greiðslufall varð á vaxtagjalddaga skuldarinnar 3. október 2011, til þingfestingardags máls þessa, eða almenna vexti. Stefnandi vísar, til stuðnings kröfu sinni um dráttarvexti frá gjalddaga, til III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001, en þar kemur fram, í 1. mgr. 5. gr. laganna, að hafi gjalddagi verið fyrir fram ákveðinn sé kröfuhafa heimilt að krefja skuldara um dráttarvexti sem reiknast af ógreiddri peningakröfu frá og með gjalddaga fram að greiðsludegi. Þá vísar stefnandi til ákvæða lánssamnings aðila sem hann hefur lagt fram í málinu. Samkvæmt ákvæðum hans skyldu vextir af láninu greiðast á þar til greindum gjalddögum á sex mánaða fresti og höfuðstóllinn skyldi endurgreiðast í einu lagi þann 1. apríl 2012.
Óumdeilt er að stefndi hefur ekki greitt vexti af láninu frá og með vaxtagjalddaga 3. október 2011 og að hann hefur ekki endurgreitt stefnanda lánsfjárhæðina. Samkvæmt grein 11 í lánssamningnum telst það vanefnd lántaka ef hann greiðir ekki á réttum gjalddaga eða í réttum gjaldmiðli og slík vanefnd varir lengur en í 14 daga frá gjalddaga eða lántaki greiðir ítrekað hvorki á réttum tíma né í réttum gjaldmiðli. Komi vanefndatilvik upp getur lánveitandi fyrirvaralaust og án viðvarana gjaldfellt allar eftirstöðvar lánsins ásamt áföllnum vöxtum og öðrum greiðslum. Ber lántaka þá að greiða dráttarvexti af gjaldfallinni eða gjaldfelldri fjárhæð í samræmi við 3. gr. samningsins. Í e-lið greinar 3 í samningnum segir m.a. að við vanefnd sé lánveitanda heimilt að umreikna lánið í íslenskar krónur og að þá beri að greiða dráttarvexti í samræmi við 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá gjalddaga til greiðsludags.
Af hálfu stefnda er því haldið fram að miða beri upphaf dráttarvaxtakröfu stefnanda við málshöfðun í samræmi við 4. mgr. 5. gr. vaxtalaga, en fram að þeim tíma, frá greiðslufalli, beri stefnda aðeins að greiða almenna vexti af skuldinni, eins og þeir eru ákveðnir í 4. gr., sbr. 3. gr., laganna. Í 3. gr. segir að almenna vexti skuli því aðeins greiða af peningakröfu að það leiði af samningi, venju eða lögum. Stefndi vísar hér hvorki til samnings né laga, heldur telur hann að dómvenja hafi skapast fyrir því að greiða skuli almenna vexti af kröfum sem leiða af samningum þar sem ágreiningur hefur verið um lögmæti gengisviðmiða og þar með um fjárhæð slíkra krafna.
Stefndi vísaði við málflutning m.a til dóms Hæstaréttar í máli nr. 430/2013 þar sem dráttarvextir voru dæmdir frá málshöfðunardegi. Þar var um að ræða ákvörðun um upphafsdag dráttarvaxta á endurgreiðslukröfu lántaka á hendur lánveitanda vegna ofgreiðslu af láni með ólögmætt gengisviðmið, en ekki ákvörðun um dráttarvexti á kröfu með fyrir fram ákveðnum gjalddaga, eins og við á í máli þessu, og verða málin því ekki talin sambærileg. Sama verður að segja um dóm Hæstaréttar í máli nr. 110/2014, sem stefndi vísaði einnig til, þar sem deilt var um endurgreiðslukröfu lántaka, sem var krafa án fyrir fram umsamins gjalddaga. Dráttarvextir á þá kröfu voru dæmdir eftir 3. mgr. 5. gr. vaxtalaga, frá því mánuður var liðinn frá því að lántaki setti fram kröfu sína, en þá hafði lánveitandi fallist á ólögmæti gengisviðmiðs samninganna. Ekki verður á það fallist að það skapi fordæmi um þann ágreining sem uppi er í máli þessu hvernig lántaki reiknaði vexti á endurkröfu sína í því máli sem stefndi vísar hér til.
Stefndi heldur því fram að hann hafi reynt árangurslaust að fá fram afstöðu stefnanda til þess hvort lánssamningurinn væri með ólögmætt gengisviðmið, en engin svör fengið. Stefndi hefur þó ekki fært fram sönnunargögn um tilraunir sínar til að afla afstöðu stefnanda vegna þess lánssamnings sem hér er til umfjöllunar. Stefndi telur að honum hafi verið ómögulegt að halda áfram að greiða af skuldinni þar til afstaða stefnanda lægi fyrir, en það hafi ekki verið fyrr en við höfðun máls þessa sem stefnandi viðurkenni eðli samningsins og reikni skuldina í íslenskum krónum. Þótt það væri mat stefnda að lánssamningurinn kynni að vera bundinn ólögmætu gengisviðmiði og óljóst gæti verið hvaða vexti bæri að greiða af láninu á síðasta vaxtagjalddaga fyrir endurgreiðslu lánsins, þá mátti honum vera ljós skuldbinding sín til þess að endurgreiða lánið á gjalddaga þess. Ekki verður á það fallist að stefnda hafi verið ómögulegt að greiða af skuldinni, hann átti þess m.a. kost að greiða stefnanda þá fjárhæð í vexti sem hann teldi að honum bæri að greiða, meðan ekki væri úr því skorið hvernig skuldin yrði að endingu reiknuð, en það gerði hann ekki.
Stefndi heldur því fram að honum hafi aldrei borist þau viðvörunar- og innheimtubréf sem stefnandi lagði fram með stefnu. Ekkert hefur komið fram í málinu sem bendi til þess að stefndi hafi móttekið bréfin, enda eru þau ekki stíluð á það heimilisfang sem stefndi sannanlega hafði við dagsetningu bréfanna. Samkvæmt lánssamningnum er gjaldfelling heimil við greiðslufall, fyrirvaralaust og án viðvarana, og ræður það ekki úrslitum um réttmæti kröfu stefnanda um dráttarvexti frá gjalddaga skuldarinnar, þótt umrædd innheimtubréf hafi ekki skilað sér til stefnda.
Óumdeilt er að krafa samkvæmt lánssamningnum er fallin í gjalddaga og að stefnda ber að greiða stefnanda skuld sína samkvæmt samningnum. Stefndi hefur ekkert greitt af skuldinni frá og með vaxtagjalddaganum 3. október 2011, en við greiðslufall þann dag var lánið allt gjaldfellt í samræmi við ákvæði samningsins. Samkvæmt e-lið greinar 3 í lánssamningi aðila, og með vísan til 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, skulu dráttarvextir leggjast á skuldina við slíka vanefnd frá og með gjalddaga hennar fram að greiðsludegi. Stefnda hefur ekki tekist að sýna fram á að vegna dómvenju eða af öðrum ástæðum beri að víkja frá ákvæðum samnings aðila og ákvæðum 1. mgr. 5. gr. vaxtalaga við ákvörðun um upphafsdag dráttarvaxta á kröfuna. Því verður fallist á kröfu stefnanda eins og hún er fram sett, þannig að dráttarvextir verða reiknaðir frá 3. október 2011 og heimilað verður, svo sem krafist er, sbr. 12. gr. laga nr. 38/2001, að færa dráttarvexti upp á höfuðstól skuldarinnar á 12 mánaða fresti, í fyrsta skipti 3. október 2012.
Stefnandi hefur lagt fram fullnægjandi gögn til stuðnings kröfum sínum, sem er ómótmælt, um staðfestingu veðréttar í fasteigninni Ingólfsstræti 7 í Reykjavík samkvæmt tveimur veðtryggingarbréfum, og verður veðréttur því staðfestur svo sem krafist er.
Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefnda gert að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 300.000 krónur. Við ákvörðun hans er meðal annars tekið tillit til þess að samhliða máli þessu er rekið annað samkynja mál milli sömu aðila, mál nr. E-440/2014, og fór aðalmeðferð málanna fram í einu lagi. Jafnframt er tekið tillit til þess kostnaðar sem stefnandi hefur af greiðslu virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.
Kristrún Kristinsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð
Stefndi, Skeifan ehf., greiði stefnanda, Íslandsbanka hf., 31.000.000 króna, með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 3. október 2011 til greiðsludags. Heimilt er að færa dráttarvexti upp á höfuðstól skuldarinnar á 12 mánaða fresti, í fyrsta skipti 3. október 2012.
Staðfestur er veðréttur stefnanda samkvæmt veðtryggingarbréfi sem var útgefið 22. mars 2006, tryggðu upphaflega með 2. veðrétti í Ingólfsstræti 7, Reykjavík, fnr. 200-4532 og uppfærslurétti, að höfuðstól 33.000.000 króna.
Staðfestur er veðréttur stefnanda samkvæmt veðtryggingarbréfi sem var útgefið 10. apríl 2007, tryggðu upphaflega með 2. veðrétti í Ingólfsstræti 7, Reykjavík, fnr. 200-4532 og uppfærslurétti, að höfuðstól 8.000.000 króna.
Stefndi greiði stefnanda 300.000 krónur í málskostnað.