Hæstiréttur íslands
Mál nr. 659/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Þrotabú
- Skiptastjóri
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. september 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 30. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. september 2016 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði vikið úr starfi skiptastjóra í þrotabúi Háttar ehf. Kæruheimild er í 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að fyrrgreind krafa verði tekin til greina. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Samkvæmt kröfulýsingu sóknaraðila 5. október 2012 lýsti hann kröfu í þrotabú Háttar ehf. í þremur liðum. Í fyrsta lið var lýst kröfu samkvæmt tveimur veðskuldabréfum, báðum útgefnum af Hætti ehf. til handa sóknaraðila, með veði í öllum eignarhlutum í Hrossaræktarbúinu Feti ehf. Hið fyrra var útgefið 2. júní 2007, að fjárhæð 225.000.000 krónur og hið síðara 4. janúar 2008 að fjárhæð 170.000.000 krónur. Í kröfulýsingunni sagði að samkvæmt samkomulagi 15. september 2011 milli sóknaraðila og Háttar ehf. hafi skuld samkvæmt framangreindum veðskuldabréfum verið lækkuð í 210.353.990 krónur í kjölfar þess að sóknaraðili leysti til sín veð samkvæmt veðskuldabréfunum. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 21. september 2015 var fyrrgreindu samkomulagi 15. september 2011 um skuldauppgjör sóknaraðila og Háttar ehf. rift og sóknaraðila gert að afhenda þrotabúi Háttar ehf. alla hluti í Hrossaræktarbúinu Feti ehf. Í öðrum lið kröfulýsingar sóknaraðila var lýst kröfu samkvæmt skuldabréfi, útgefnu 4. janúar 2008, að höfuðstólsfjárhæð 175.000.000 krónur og nam krafan með vöxtum 260.406.848 krónum. Í þriðja lið var lýst kröfu að fjárhæð 228.925.791 króna. Framangreindum kröfum var öllum lýst sem almennum kröfum.
Í málinu hafa verið lögð fram drög að kröfuskrá Háttar ehf. 8. ágúst 2016. Af þeim verður ráðið að skiptastjóri hafi samþykkt sem almenna kröfu í þrotabúið kröfu sóknaraðila samkvæmt öðrum lið kröfulýsingar hans að fjárhæð 260.406.848 krónur. Þá kom fram í endurriti skiptafundar 10. ágúst 2016 að skiptastjóri hafi samþykkt kröfu samkvæmt þriðja lið kröfulýsingarinnar að fjárhæð 228.925.791 króna og muni breyta kröfuskrá því til samræmis. Hefur varnaraðili samkvæmt þessu tekið afstöðu til og samþykkt tvo liði í kröfulýsingu sóknaraðila. Eins og að framan var rakið var með dómi héraðsdóms 21. september 2015 rift samkomulagi um uppgjör skuldar sóknaraðila við Hátt ehf., en krafa samkvæmt fyrsta lið kröfulýsingar sóknaraðila var reist á því samkomulagi. Hefur umræddum dómi verið áfrýjað til Hæstaréttar. Er skiptastjóra ómögulegt að svo stöddu að taka endanlega afstöðu til fjárhæðar kröfu sóknaraðila þegar ekki liggur fyrir hver úrslit málsins verða hér fyrir dómi. Samkvæmt framangreindu verður skiptastjóra ekki um kennt að ekki hefur enn verið tekin afstaða til allra krafna sóknaraðila sem hann hefur lýst í þrotabúið.
Samkvæmt 2. mgr. 78. gr. laga nr. 21/1991 skal skiptastjóri gera yfirlit yfir efnahag og rekstur þrotabús, hafi skiptum ekki verið lokið innan sex mánaða frá því úrskurður gekk um gjaldþrotaskipti, en upp frá því um hver áramót og mitt hvert ár þar til skiptum er lokið. Þótt ráðið verði af gögnum málsins að varnaraðili hafi ekki fullnægt þessari skyldu sinni sem skiptastjóri er ekki tilefni til að verða við kröfu sóknaraðila um að víkja honum úr starfi af þeirri ástæðu. Þá varðar það heldur ekki frávikningu varnaraðila þótt skipti hafi dregist nokkuð á langinn, enda verður honum ekki að öllu leyti um það kennt. Þó ber að árétta þá meginreglu að hraða ber gjaldþrotaskiptum eftir því sem kostur er.
Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Um kærumálskostnað fer eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Karl Emil Wernersson, greiði varnaraðila, þrotabúi Háttar ehf., 350.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. september
Með bréfi Ólafs Eiríkssonar hrl., f.h. sóknaraðila, Karls Emils Wernerssonar, sem móttekið var í Héraðsdómi Reykjavíkur, 14. júní sl., var þess farið á leit við dóminn, með vísan til 2. mgr. 76. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., að varnaraðila, Jóhanni Baldurssyni hdl., skiptastjóra í þrotabúi Háttar ehf., kt. 710805-0240, Hlíðarsmára 6, Reykjavík, yrði vikið frá störfum. Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað.
Fyrirtaka kröfu sóknaraðila fór fram 6. júlí sl. þar sem gögn málsins voru lögð fram, þ. á m. athugasemdir varnaraðila. Boðað var til næsta þinghalds í málinu 30. ágúst sl. í samræmi við 1. mgr. 76. gr. laga nr. 21/1991. Leitaði dómari sátta með aðilum í því þinghaldi. Sættir tókust ekki og ítrekaði sóknaraðili kröfu sína um úrskurð dómara um frávikningu skiptastjóra á grundvelli 3. mgr. 76. gr. laga nr. 21/1991. Var þá þingfest mál þetta samkvæmt 1. mgr. 176. gr. laganna, sbr. 169. gr. þeirra Hafnaði varnaraðili kröfu sóknaraðila um úrskurð á grundvelli 76. gr. laga nr. 21/1991. Af hálfu lögmanna var ekki óskað eftir frekari fresti og fór málflutningur því strax fram um kröfu sóknaraðila í því þinghaldi. Var málið að því búnu tekið til úrskurðar eftir að lögmenn höfðu fengið að tjá sig um ágreiningsefnið og reifa sjónarmið sín þar að lútandi.
I
Málsatvik
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 12. júlí 2012 var bú félagsins Háttar ehf. tekið til gjaldþrotaskipta. Innköllun vegna skiptanna var birt fyrra sinni 7. ágúst 2012 og fyrsti skiptafundur var haldinn 16. október 2012. Sóknaraðili gerði kröfu í búið með kröfulýsingu í þremur liðum 5. október 2012 og fyrir hönd félagsins Nordic Pharma Investments Ltd. sama dag. Með bréfum skiptastjóra 7. október 2012 var báðum kröfunum hafnað. Sóknaraðili mun hafa sent skiptastjóra bréf þar sem þeirri afstöðu skiptastjóra var mótmælt.
Á skiptafundi 16. október 2012, þar sem fjallað var um lýstar kröfur og ráðstöfun á eignum og réttindum búsins, ítrekaði sóknaraðili mótmæli sín við afstöðu skiptastjóra og var ákveðið að halda fund 6. nóvember 2012 til að jafna ágreining um kröfur sóknaraðila og félagsins Nordic Pharma Investments Ltd. Þá var einnig mótmælt, fyrir hönd sóknaraðila og áðurnefnds félags, kröfum sem skiptastjóri hafði samþykkt að hluta eða í heild og óskað eftir frekari gögnum. Þá var fundarmönnum skýrt frá ráðstöfunum skiptastjóra á eignum og öðrum réttindum búsins. Upplýsti skiptastjóri að hann hefði tekið tilboði að fjárhæð 120.000.000 króna í jörðin Efri-Rauðalæk. Þá upplýsti skiptastjóri að við skoðun á bankareikningum þrotabúsins hafi vaknað spurningar sem krefðust nánari rannsóknar á bókhaldi þess. Var skorað á sóknaraðila að skila bókhaldi, fundargerðarbókum og öðrum gögnum sem skiptastjóra kynni að vanhaga um varðandi búið eigi síðar en 30. október 2012. Jafnframt upplýsti skiptastjóri að tekjur vegna eigna búsins hefðu ekki skilað sér sem skyldi og að hann hygðist ræða við leigutaka um greiðslu á vangoldinni húsaleigu. Þá hefði ýmis kostnaður fallið til við rekstur búsins m.a. vegna greiðslu fasteignagjalda. Að lokum tilkynnti skiptastjóri hvert tímagjald hans væri og að greidd yrði þóknun samkvæmt 2. mgr. 77. gr. laga nr. 21/1991 eftir því sem vinna yrði unnin með tilliti til þess að hagsmunum kröfuhafa yrði ekki raskað. Auk þess tilkynnti skiptastjóri að hann hefði ráðið sér til aðstoðar löggiltan endurskoðanda.
Lögmaður sóknaraðila óskaði svara við því frá skiptastjóra hvers vegna tilboði að fjárhæð 360.000.000 króna sem honum hafði borist í eignir félagsins, þ.e. Síðumúla 20-22 og Efri-Rauðalæk, hefði verið hafnað. Kvað skiptastjóri tilboði hafa verið hafnað vegna langs frests sem áskilinn hafði verið til fjármögnunar og jafnframt að teknu tilliti til þeirra athugasemda veðhafa í Síðumúla 20-22 um að tilboðið væri of lágt.
Í ljósi áðurnefnds tilboðs að fjárhæð 360.000.000 króna töldu sóknaraðili og Nordic Pharma Investments Ltd. að ráðstafanir skiptastjóra varðandi eignir búsins, án samráðs við þessa kröfuhafa, kynnu að hafa valdið kröfuhöfum búsins tjóni og áskildu þeir sér allan rétt vegna þessa.
Ágreiningsfundur vegna lýstra krafna Nordic Pharma Investments Ltd. var haldinn 14. nóvember 2012. Gerði skiptastjóri grein fyrir athugasemdum sínum er lutu annars vegar að tilvist félagsins og hins vegar að því að gögn vantaði sem sönnuðu að Háttur ehf. skuldaði félaginu umrædda kröfu. Lögmaður sóknaraðila gerði grein fyrir gögnum að baki kröfunni og hver væri grundvöllur hennar. Var ákveðið að halda ágreiningsfund að nýju.
Annar fundur var einnig haldinn 14 nóvember 2012, á grundvelli 81. gr. laga nr. 21/1991 til að afla upplýsinga um eignir, skuldir, bókhald o.fl. er tengist hinu gjaldþrota félagi. Sóknaraðili hafði þá þegar afhent hluta bókhalds en ekki höfðu fundist nauðsynleg bókhaldsfylgiskjöl.
Ágreiningsfundur var haldinn 30. maí 2013 vegna kröfu Arion banka hf. í þrotabú Háttar ehf. að fjárhæð 1,3 milljarðar sem sóknaraðili hafði gert athugasemdir við og mótmælt. Fram komu athugasemdir af hálfu lögmanns sóknaraðila vegna gagna að baki kröfunni og um að ómögulegt væri að átta sig á því hvort hún væri lögmæt eða ekki. Hvað varðaði aðrar kröfur Arion banka hf. benti lögmaður sóknaraðila á að kröfunum fylgdi endurútreikningur erlendra lána en þar væri ekki gerð grein fyrir því hvernig upphaflegur höfuðstóll tengdist undirliggjandi veðskuldabréfi eða hvernig vaxtaútreikningur hefði farið fram. Arion banki tók fram að við endurútreikning lánanna væri upphaflegur höfuðstóll í íslenskum krónum miðaður við stöðu undirliggjandi veðskuldabréfa á þeim degi er skuldaraskipti voru gerð í hverju tilviki fyrir sig. Fjárhæð endurútreiknings tæki mið að fyrirmælum 18. gr. vaxtalaga. Áskildi hann sér rétt til að leggja fram endurskoðaðan útreikning í ljósi dóma Hæstaréttar um fullnaðarkvittanir. Lögmaður sóknaraðila áskildi sér þá rétt til að koma að frekari mótmælum þegar endurskoðaður endurútreikningur lægi fyrir. Var fundi frestað til 14. júní 2013.
Ágreiningsfundur var haldinn 23. janúar 2014 um kröfu sóknaraðila í búið sem skiptastjóri hafði hafnað. Gerði sóknaraðili grein fyrir grundvelli kröfu sinnar. Sú ósk var bókuð að sóknaraðili og endurskoðandi færu yfir kröfurnar lið fyrir lið á bankareikningum og í bókhaldi. Þá óskaði skiptastjóri einnig eftir því að upplýst yrði hver væri eigandi Nordic Pharma Investments Ltd. og hver hefði umboð til að koma fram fyrir þess hönd varðandi búskiptin. Þá þyrfti að sanna tilvist félagsins með lögformlegum hætti.
Fundur var haldinn í búinu 20. október 2015 til að fara yfir málefni Hrossaræktarbúsins Fets ehf. sem tengdist þrotabúi Háttar ehf. Hafði þess verið getið í fundarboði að skiptastjóri kynni á fundinum að skora á sóknaraðila að afhenda þrotabúinu alla hluti í hrossaræktarbúinu í samræmi við dómsorð í málinu nr. E-1546-2013 en dómur í málinu hafði verið kveðinn upp 21. september 2015. Sóknaraðili tók fram að skuldauppgjör hefði farið fram 14. september 2015 en í því hefði falist að fasteignir, hross og lausafjármunir hefðu verið framseld kröfuhafa. Fram kemur að í Feti séu engar eignir eftir en skuldir séu við sóknaraðila og félög honum tengd. Skiptastjóri skoraði á sóknaraðila að skrifa undir yfirlýsingu þess efni að hann afhenti þrotabúinu alla hluti í Feti ehf. Lögmaður hans upplýsti að ekki væri tímabært að ræða slíka yfirlýsingu þar sem dómur héraðsdóms væri ekki endanlegur. Teldi hann rétt að haldinn yrði annar fundur um þetta málefni.
Ágreiningsfundur var haldinn í búinu 20. nóvember 2015 til þess að freista þess að jafna ágreining skiptastjóra og sóknaraðila um kröfur hans í búið. Skiptastjóri lýsti því yfir að hann teldi að fullnægjandi gögn lægju nú fyrir varðandi kröfuna sem merkt væri ii) í kröfulýsingu hans til að unnt væri að taka afstöðu til hennar. Skiptastjóri kvaðst fallast á kröfuna sem almenna kröfu með þeim fyrirvara að farið yrði yfir vaxtareikning og innborganir á kröfuna. Sóknaraðili sætti sig við ákvörðun um rétthæð kröfunnar og var ákveðið að fresta fundi til að samþykkja kröfuna endanlega. Hvað varðar lið iii) í kröfugerð sóknaraðila kvaðst skiptastjóri þurfa meiri tíma til að fara yfir þær m.a. með tilliti til gagna sem honum hefðu borist á síðasta skiptafundi. Þá óskaði skiptastjóri eftir því að sóknaraðili útvegaði yfirlýsingu frá þrotabúi Milestone ehf. um að greiðsla sem það félag hafði innt af hendi inn á reikning Háttar ehf. hefði verið ætluð sóknaraðila og hann ætti því kröfu á þrotabúið hvað þá greiðslu varðaði. Þá var einnig haldinn ágreiningsfundur 20. nóvember 2015 vegna kröfu Nordic Pharma Investments Ltd. Skiptastjóri lýsti því yfir að hann teldi að fullnægjandi gögn lægju nú fyrir varðandi kröfuna og kvaðst fallast á hana með þeim fyrirvara að farið yrði yfir vaxtareikning og innborganir á kröfuna. Var ákveðið að fresta fundi til að samþykkja kröfuna endanlega.
Með dómi héraðsdóms í máli nr. E-1546/2013, sem kveðinn var upp 21. september 2015, var samkomulagi um skuldauppgjör 15. september 2011 á milli Háttar ehf. og sóknaraðila, þar sem sá síðarnefndi fékk afhenta alla hluti Háttar ehf. í Hrossaræktarbúinu Feti ehf., rift og honum gert að afhenda þrotabúinu alla hlutina.
Með dómi héraðsdóms í máli nr. E-1545/2013 sem kveðinn var upp 9. mars 2016 var greiðslum af reikningi Háttar ehf. hjá Arion banka hf. og af reikningi hjá Íslandsbanka hf. inn á reikning sóknaraðila rift, samtals að fjárhæð 51.979.000 krónur og sóknaraðila gert að greiða þrotabúinu þá fjárhæð.
Báðum málunum hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar og verða þau flutt fyrir réttinum á haustmánuðum.
II
Málsástæður og lagarök sóknaraðila
Sóknaraðili kveður fyrsta skiptafund í búinu hafa verið haldinn 16. október 2012. Í framhaldinu hafi verið haldnir nokkrir fundir með aðilum, en langt hafi liðið á milli þeirra. Skiptastjóri hafi ekki vísað neinum ágreiningsmálum til héraðsdóms um úrlausn einstakra krafna nú þegar um þrjú og hálft ár eru liðin frá fyrsta skiptafundi.
Skiptastjóri hafi höfðað tvö riftunarmál á hendur sóknaraðila, f.h. þrotabúsins fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Hafi dómar nú þegar verið kveðnir upp í þeim báðum, sbr. dóma í héraðsdómsmálunum nr. E-1545/2013 og E-1546/2013. Hafa báðir aðilar áfrýjað fyrrnefnda dóminum til Hæstaréttar, auk þess sem sóknaraðili hafi áfrýjað síðara málinu.
Sóknaraðili byggi kröfu sína um frávikningu skiptastjóra á því að hann hafi brotið gróflega gegn skyldum sínum sem skiptastjóri þrotabús Háttar ehf. með störfum sínum fyrir hönd búsins. Um margháttuð brot sé að ræða gegn skyldum hans sem skiptastjóri og vegna aðgerðarleysis hans. Byggir sóknaraðili á því að þau brot felist annars vegar í þeim verulega drætti sem orðið hafi á formlegri afstöðu til krafna í búið, og hins vegar á meðferð og upplýsingagjöf um fjármuni búsins.
Hvað fyrra atriðið varðar tekur sóknaraðili fram að við ritun kröfu þessarar, sem hér sé til umfjöllunar, sé liðið vel á fjórða ár frá fyrsta skiptafundi 16. október 2012. Tveir fundir hafi verið haldnir 14. nóvember 2012 til að jafna ágreining í búinu, nánar tiltekið vegna krafna sóknaraðila og Nordic Pharma Investments Ltd. ehf. Fundur hafi verið haldinn á ný 23. janúar 2014 til að jafna ágreining vegna krafna sóknaraðila en án árangurs.
Skiptastjóri hafi loks í kjölfar fundar 20. nóvember 2015, tæpum þremur árum frá fyrsta skiptafundi, fallist á að samþykkja höfuðstól í kröfulýsingu félagsins Nordic Pharma Investments Ltd., og liði (ii) og (iii) í kröfulýsingu sóknaraðila. Enn hafi skiptastjóri á hinn bóginn enga afstöðu tekið til vaxtakrafna og ekki haft uppi sérstakar ábendingar um eitthvað sem hann kynni að gera athugasemdir við hvað varðar þá þætti krafnanna. Hafi því liðið yfir þrjú ár frá fyrsta skiptafundi þar til kröfur sóknaraðila og félagsins Nordic Pharma Investments Ltd. voru samþykktar að hluta. Í kjölfar áðurnefnds fundar óskaði lögmaður sóknaraðila eftir því að skiptastjóri sendi uppfærða kröfuskrá því til samræmis.
Svonefnd „drög að kröfuskrá“ hafi verið send með tölvupósti skiptastjóra 21. desember 2015. Sú kröfuskrá hafi þó ekki verið uppfærð svo nokkru nemi. Hún hafi því ekki endurspeglað þá afstöðu skiptastjóra að samþykkja höfuðstól krafna sóknaraðila og félagsins Nordic Pharma Investments Ltd. Þá hafi hún ekki endurspeglað þá staðreynd að veðsettar eignir, til tryggingar skuldum kröfuhafans Arion banka hf., höfðu nokkrum árum fyrr verið seldar og greiddar upp í kröfuna.
Lögmaður sóknaraðila hafi vakið athygli á þessu með tölvupósti 22. desember 2015 og óskað eftir því að kröfuskrá yrði uppfærð til samræmis við afstöðu til krafna. Skiptastjóri hafi með tölvupósti sama dag svarað því til að kröfur yrðu ekki samþykktar í kröfuskrá fyrr en búið væri „að ganga frá þeim í heild“, þ.e. bæði hvað varðaði höfuðstól og vexti. Taldi hann þó rétt að skoða málið hvað varðaði þær veðkröfur sem höfðu fengið fullnustu. Hafi þó sem fyrr engar athugasemdir verið að finna í tölvupóstinum við vaxtaútreikninga í kröfulýsingum sóknaraðila og Nordic Pharma Investments Ltd. Þær hafi ekki enn verið gerðar við ritun kröfu þessarar, tæpum sex mánuðum síðar.
Skiptastjóri hafi sent tölvupóst til lögmanns sóknaraðila 15. janúar 2016 þar sem hann upplýsti að hann ætlaði að uppfæra kröfuskrána, m.a. með tilliti til athugasemda sem gerðar höfðu voru í fyrrnefndum tölvupósti og hann taldi rétt að fallast á. Sagðist hann senda hana um leið og hann hefði leiðrétt skrána. Skemmst er frá því að segja að þrátt fyrir átta ítrekanir á tímabilinu 19. janúar 2016 til 17. mars 2016 hafi sóknaraðila ekki borist leiðrétt kröfuskrá enda þótt skiptastjóri hafi ítrekað sagst ætla að koma henni til lögmanns sóknaraðila á „allra næstu dögum“, hann væri að vinna í þessu, að hún kæmi „fyrir helgi“ og hann reyni að koma því við „sem allra fyrst“. Það hafi ekki verið fyrr en 17. mars 2016 sem skiptastjóri upplýsti að hann ætlaði að boða til skiptafundar „á næstunni til þess að fjalla um uppfærða kröfuskrá“. Sagðist hann munu senda uppfærða kröfuskrá til kröfuhafa tímanlega fyrir fundinn. Nú, tæpum þremur mánuðum síðar, hafi kröfuskráin ekki enn borist og enginn fundur verið haldinn.
Sóknaraðili telur málshraðaregluna vera eina af grundvallarreglum gjaldþrotaskiptaréttar. Þannig sé gengið út frá því að skiptastjóri leysi verk sín svo hratt af hendi sem verða megi. Sé þessi regla mikilvæg til að tryggja hagsmuni kröfuhafa, enda séu vextir á kröfur þeirra eftirstæðar kröfur frá upphafi skipta. Hafi kröfuhafar því mikla hagsmuni af því að skipti þrotabúa gangi hratt og örugglega fyrir sig.
Boða eigi „sem fyrst“ til ágreiningsfundar um meðferð krafna samkvæmt 2. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991. Takist ekki að leysa ágreining beri að vísa málinu til héraðsdóms samkvæmt fyrirmælum greinarinnar. Enn liggi ekki fyrir endanleg afstaða skiptastjóra til krafna, á fjórða ári eftir upphaf skipta, og þaðan af síður hafi ágreiningsmálum verið vísað til héraðsdóms. Þá hafi skiptastjóri í engu skýrt hvaða athugasemdir, ef einhverjar, hann geri til þess vaxtaútreiknings sem hann beri nú fyrir sig að standi því í vegi að formleg afstaða sé tekin til krafna. Í öllu falli megi vera ljóst að slík afstaða hefði átt að geta komið fram á síðastliðnum þremur og hálfa ári. Sóknaraðili telur framangreindar aðfinnslur vera með þeim hætti, og framferði skiptastjóra slíkt, að héraðsdómara beri að víkja honum úr starfi þegar í stað, sbr. 2. mgr. 76. gr. laga nr. 21/1991.
Hvað varði síðara atriðið bendir sóknaraðili á að samkvæmt 2. mgr. 78. gr. laga nr. 21/1991 beri skiptastjóra að gera yfirlit yfir efnahag og rekstur þrotabúsins, sé skiptum ekki lokið innan sex mánaða, og upp frá því á hálfs árs fresti þar til skiptum sé lokið. Samkvæmt sama ákvæði geti hver sá sem lýst hefur kröfu í búið krafist þess að fá að sjá reikninga búsins.
Með bréfi 20. október 2015 hafi þess verið krafist f.h. sóknaraðila að hann fengi afrit af sex mánaða skýrslu skiptastjóra yfir efnahag og rekstur þrotabúsins, allt frá því sex mánuðir voru liðnir frá því úrskurður gekk um gjaldþrotaskiptin. Að auki hafi sóknaraðili óskað eftir því að fá yfirlit yfir þóknun sem skiptastjóri og aðstoðarmenn hans hafi fengið greidda úr sjóðum þrotabúsins, ásamt tímaskýrslum þeim greiðslum til stuðnings. Á skiptafundi sem haldinn hafi verið 20. nóvember 2015 hafi sú beiðni verið ítrekuð.
Þetta hafi enn á ný verið ítrekað með tölvupósti 30. nóvember 2015 og því næst 8. desember 2015. Hafi sóknaraðila verið tjáð með tölvupósti 11. desember 2015 að umbeðin gögn yrðu send í næstu viku. Sé ljóst að á þeim tíma hafði skiptastjóri engin yfirlit gert, líkt og lagaskylda var fyrir, og hafi hann viðurkennt það á skiptafundi.
Skiptastjóri hafi upplýst með tölvupósti 21. desember 2015 að umbeðin gögn fylgdu þeim pósti. Þar hafi þó ekki verið um að ræða þau skjöl sem óskað hafði verið eftir heldur yfirlit yfir inngreiðslur og útgreiðslur þrotabúsins sem náði auk þess eingöngu til loka árs 2014. Er því ljóst að skiptastjóri fylgdi ekki skýrri lagaskyldu um sex mánaða skýrslur yfir efnahag og rekstur þrotabúsins.
Skiptastjóri hafi að auki afhent yfirlitsskjal yfir þóknun til handa sér og aðstoðarmanni sínum, en þó eingöngu fram í desember 2014. Byggir sóknaraðili á því að með þessari framkvæmd og drætti á upplýsingagjöf hafi skiptastjóri brotið með alvarlegum hætti gegn skyldum sínum samkvæmt 2. mgr. 78. gr. gjaldþrotaskiptalaga.
Fram kemur í yfirlitinu að bankainnstæða sé eina eign búsins í lok árs 2014, samtals að fjárhæð 30.092.184 krónur. Þá kemur fram í yfirlitinu að skiptastjóri hafi frá upphafi skipta til loka árs 2014 varið 517 klukkustundum í skipti þrotabúsins. Aðstoðarmaður skiptastjóra, Alfreð Atlason, hafin varið 254 klukkustundum í skiptin fram í byrjun febrúar 2015.
Sóknaraðili telur umræddar tímaskriftir sýna að skiptastjóri og aðstoðarmaður hans hafi skráð útselda tíma á þrotabúið langt umfram það sem eðlilegt, hvað þá nauðsynlegt, sé. Hafa verði í huga að 20 kröfum hafi verið lýst í þrotabúið og enn hafi engu ágreiningsmáli verið vísað til dóms. Þrátt fyrir það hafi skiptastjóri og aðstoðarmaður hans skráð sem nemi 771 klukkustundar vinnu á þrotabúið og þá sé ekki talinn með sá tími sem farið hafi í skiptin á árunum 2015 og 2016. Til að setja þessa vinnu í samhengi þá nemur þetta tæplega 97 heilum átta tíma vinnudögum í vinnu fyrir þrotabú með 20 kröfur þar sem ágreiningur sé um fæstar þeirra og engum ágreiningsmálum verið vísað til héraðsdóms. Telur sóknaraðili þetta langt umfram það sem eðlilegt megi telja við skipti á þrotabúi af þessari stærð.
Þóknun skiptastjóra og aðstoðarmanns hans fyrir tímabilið fram til loka ársins 2014 nemi rúmlega 20.000.000 króna, auk söluþóknunar fyrir sölu veðsettra eigna að fjárhæð 6.777.000 krónur. Því sé ljóst að aðeins fram til þess tíma hafi 40% af óveðsettum eignum búsins gengið til skiptastjóra og aðstoðarmanns hans. Óttast sóknaraðili að það hlutfall nemi við ritun kröfu þessarar vel yfir helmingi óveðsettra eigna búsins.
Sóknaraðili byggir á því að ekkert í störfum skiptastjóra geti réttlætt að stærstum hluta eigna búsins sé eytt í eigin þóknun og aðstoðarmanns síns. Fasteignir félagsins hafi verið veðsettar og kostnaður við sölu þeirra dragist því eingöngu af þeim eignum. Engin formleg afstaða hafi enn verið tekin til stærstu krafna, svo ekki skýrist kostnaðurinn af slíkum störfum. Loks hafi þau tvö dómsmál sem skiptastjóri hafi rekið verið afar einföld í eðli sínu líkt og bersýnilega megi sjá af stefnum málanna.
Sóknaraðili byggir á því að við þessar aðstæður sé ómögulegt annað en að nýr skiptastjóri verði skipaður sem geti þá gengið í þau verk sem nauðsynleg séu til að ljúka skiptum innan hæfilegs tíma, enda engin teikn á lofti um annað. Að öðrum kosti muni skiptin að óbreyttu dragast um ófyrirséðan tíma, án nokkurra aðgerða, og óveðsettar eignir búsins rýrna vegna þóknunar skiptastjóra og aðstoðarmanns hans. Gerir sóknaraðili því þá kröfu að skiptastjóra verði þegar í stað vikið frá störfum á grundvelli 2. mgr. 76. gr. gjaldþrotaskiptalaga.
III
Málsástæður og lagarök varnaraðila
Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað. Bendir hann á að krafan sé sett fram á grundvelli 2. mgr. 76. gr. laga nr. 91/1991 en ekki sé unnt að senda erindi til héraðsdóms um frávikningu skiptastjóra á grundvelli þess ákvæðis. Samkvæmt 1. mgr. 76. gr. geti þeir sem eigi kröfu á hendur búinu haft uppi skriflegar aðfinnslur við störf skiptastjóra. Á hinn bóginn fjalli 2. mgr. greinarinnar um afstöðu dómara til kröfu á grundvelli 1. mgr. hennar. Við munnlegan flutning málsins féll varnaraðili frá kröfu sinni um frávísun málsins af þessum sökum þar sem málinu hafði verið komið í lögmæltan farveg.
Í bréfi sóknaraðila sé vikið að því að engum ágreiningsmálum hafi verið vísað til héraðsdóms frá því að fyrsti skiptafundur var haldinn. Þess sé ógetið að leyst hafi verið úr ágreiningi um kröfu Arion banka að fjárhæð 1,3 milljarðar og að stór kröfuhafi hafi afturkallað kröfu sína eftir samskipti við skiptastjóra um afstöðu hans til kröfunnar. Eins liggi fyrir að skiptastjóri hafi haldið fundi til þess að jafna ágreining við sóknaraðila og félagið Nordic Pharma Investments Ltd. Hann hafi fallist á sumar kröfur þeirra þótt vissulega megi til sanns vegar færa að nokkuð hafi dregist hjá skiptastjóra að samþykkja kröfurnar endanlega vegna athugana hans á vaxtaútreikningi. Þá verði að hafa í huga að undir skiptum komi ekki til þess að ágreiningsmálum sé vísað til héraðsdóms verði sátt um þær, eins og eigi við um framangreindar kröfur, enda hafi þær nú verið samþykktar af fullu af hálfu skiptastjóra.
Þá tekur varnaraðili fram að tvö riftunarmál sem hann hafi höfðað fyrir héraðsdómi f.h. þrotabúsins gegn sóknaraðila og unnið bíði meðferðar í Hæstarétti og verði þau væntanlega tekin fyrir í haust. Staðfesti Hæstiréttur niðurstöðu héraðsdóms í þeim málum liggi fyrir að innheimta þurfi kröfu á grundvelli máls nr. E-1545/2013 og fara í umfangsmikið skaðabótamál á hendur sóknaraðila vegna tjóns sem hann hafi valdið þrotabúinu í kjölfar máls nr. E-1546/2013.
Þess megi geta að ráðstafanir sem sóknaraðili hafi framkvæmt með framsali eigna, sem um sé fjallað í málinu nr. E-1546/2013 hafi, að mati skiptastjóra, valdið þrotabúinu verulegu tjóni og séu að hans mati brýnt brot á ákvæðum almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Hafi skiptastjóri, með vísan til 84. gr. laga nr. 21/1991, tilkynnt héraðssaksóknara um álit sitt og sé að afla gagna til að senda því embætti. Sóknaraðili hafi ítrekað neitað að afhenda skiptastjóra gögn er varða þennan meinta refsiverða verknað.
Þá hafi lögmaður sóknaraðila ítrekað farið þess á leit við skiptastjóra að hann geri uppfærða kröfuskrá. Hvergi sé að finna áskilnað um það í lögum nr. 21/1991 að kröfuskrá skuli uppfæra, hvorki sjálfkrafa, né að kröfu einstakra kröfuhafa.
Allt að einu kveðst skiptastjóri hafa samþykkt að útbúa slíka skrá og hafi hún verið afhent á fundi í þrotabúinu 10. ágúst. sl. Þar hafi einnig verið tekið fyrir hvort ágreiningur væri um einhverjar kröfur í búinu og fundir ákveðnir í kjölfarið til að freista þess að jafna ágreining. Verði því ekki séð að nokkur ástæða sé til kröfu sóknaraðila hvað þetta varðar, enda munu þá þau mál væntanlega hafa verið afgreidd áður en Hæstiréttur kveður upp dóma sína í áðurnefndum málum.
Telji héraðsdómur að skiptastjóri hefði getað brugðist fyrr við í einhverjum tilvikum sé a.m.k. ljóst að skiptastjóri hafi nú þegar með fundarboðun leyst úr þeim umkvörtunum sem sóknaraðili hafi haft uppi. Sé þá væntanlega hvorki ástæða til að gefa skiptastjóra kost á að bæta þar úr og enn síður að víkja honum úr starfi. Telji dómari á hinn bóginn ástæðu til að skiptastjóri bæti úr einhverju sem ekki hafi þegar verið gert muni skiptastjóri að sjálfsögðu verða við þeirri áminningu samstundis.
Þá vill skiptastjóri taka fram að drátt á framgangi skiptanna megi fyrst og fremst rekja til sóknaraðila. Hann hafi verið forsvarsmaður og eigandi hins gjaldþrota félags. Sóknaraðili hafi frá öndverðu hafnað samvinnu við skiptastjóra. Hann hafi m.a. neitað að afhenda bókhald félagsins nema með miklum eftirgangsmunum og synjað skiptastjóra um upplýsingar um hvar það hafi verið fært rafrænt. Eins og hann eigi rétt á hafi hann áfrýjað öllum úrlausnum héraðsdóms varðandi skiptin, m.a. tekið sér fullan þriggja mánaða áfrýjunarfrest í báðum riftunarmálunum. Þá hafi það verið að ósk lögmanns sóknaraðila að riftunarmálin voru ekki flutt á sama tíma heldur hvort á eftir öðru. Töluverður dráttur hafi orðið á framgöngu skiptanna vegna þessa.
Hvað varði skýrslur um fjárhag þrotabúa samkvæmt 2. mgr. 78. gr. laga nr. 21/1991 sé ekki algengt í raun að þær séu settar upp með formlegum hætti eða að beðið sé um hálfsársskýrslu á hverjum tíma. Auðvitað séu til drög að slíku skjali en það sé sjaldan sett upp til dreifingar til kröfuhafa. Undantekning frá þessu sé að í stórum þrotabúum, eins og þrotabúum banka og stórra fyrirtækja, séu settar upp slíkar skýrslur óumbeðið og kröfuhöfum til upplýsinga. Sé það einsdæmi að óskað hafi verið eftir skýrslum aftur í tímann með þeim hætti sem lögmaður sóknaraðila hafi gert í þessu máli. Við því hafi þó verið brugðist eins og vera ber. Þá hafi kröfuhöfum ávallt verið veittar upplýsingar um fjárhag búsins hafi verið óskað eftir því.
Þá geri sóknaraðili þóknun skiptastjóra og löggilts endurskoðanda, sem skiptastjóri fékk sér til aðstoðar, með vísan til 77. gr. laga nr. 71/1991, að sérstöku umtalsefni í bréfi sínu. Ekki verði séð að það eigi undir eftirlit dómara samkvæmt 76. gr. laganna að taka afstöðu til þóknunar skiptastjóra. Kveðst skiptastjóri um þetta vilja vísa til umfjöllunar í bókinni Gjaldþrotaskipti o.fl.
Auk þess sé þóknun skiptastjóra og kostnaður vegna reksturs búsins í fullkomnu samræmi við umfang verksins enda verði að hafa í huga að sóknaraðili hefur neitað samvinnu við skiptastjóra, m.a. með því að neita að svara ýmsum spurningum hans og upplýsa um skjöl og bókhald er varða hið gjaldþrota félag.
Að lokum tekur skiptastjóri fram að það sé skoðun hans að krafa sóknaraðila sé sett fram til höfuðs skiptastjóra sem hafi fyrir hönd þrotabúsins unnið tvö riftunarmál á hendur sóknaraðila og hyggst, ef dómarnir verða staðfestir í Hæstarétti, gera kröfur á hendur sóknaraðila sem nemi hundruðum milljóna króna. Þá verði einnig að hafa í huga að skiptastjóri hefur vakið athygli héraðssaksóknara á gerðum sóknaraðila enda beri honum að gera það lögum samkvæmt. Það sé því búinu síður en svo til hagsældar að skiptastjóra verði vikið frá enda hafi aðrir kröfuhafar sem kunna að hagnast á framangreindum málaferlum engar kröfur gert í þá átt eða lýst yfir óánægju með niðurstöðu þeirra mála sem skiptastjóri hefur rekið fyrir hönd búsins.
IV
Niðurstaða
Í máli þessu krefst sóknaraðili þess að varnaraðila, skiptastjóra í þrotabúi Háttar ehf., verði vikið frá störfum á grundvelli 2. mgr. 76. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. vegna „margháttaðra brota gegn skyldum hans og aðgerðarleysis“ eins og nánar segir í kröfu sóknaraðila til dómsins.
Sóknaraðili hefur á því byggt að óhæfilegur dráttur hafi verið á skiptunum og meðferð skiptastjóra á kröfum hafi verið ábótavant. Þá hafi meðferð fjármuna og upplýsingagjöf vegna fjárhagsmálefna búsins einnig verið ábótavant auk þess sem þóknun skiptastjóra og aðstoðarmanns hans sé komin fram úr hófi.
Varnaraðili hefur hafnað kröfunni og telur hana ekki eiga við rök að styðjast. Ýmislegt hafi orðið til þess að tefja vinnu skiptastjóra, m.a. hafi gengið illa að afla upplýsinga og gagna frá sóknaraðila. Við upphaf skiptanna hafi orðið ljóst að félagið Háttur ehf. hafi átt fjölmörg félög. Mikil vinna hafi farið í að kortleggja þetta og ákveða hvort aðhafast þyrfti í einhverjum tilvikum. Skiptastjóri hafi, f.h. búsins, staðið í málaferlum vegna ráðstafana sóknaraðila. Sé þar um að ræða tvö riftunarmál, sem nú bíði meðferðar í Hæstarétti, auk ógildingarmála vegna glataðra gagna. Niðurstaða málanna í Hæstarétti hafi áhrif á framvindu skiptanna og á það til hvaða ráðstafana skiptastjóri grípi til að ná eignum undir búið. Þá hafi mikill tími farið í viðræður vegna kröfu Arion banka sem svo hafi verið felld niður fyrir tilstuðlan skiptastjóra. Þá hafi skiptastjóri nú þegar samþykkt kröfu sóknaraðila og Nordic Pharma Investments Ltd. í heild sinni þannig að athugsemdir sóknaraðila hvað það varðar eigi ekki lengur við. Þeirri afstöðu skiptastjóra hafi nú verið mótmælt af hálfu Arion banka. Þannig hafi verið haldinn skiptafundur 10. ágúst sl. þar sem lögð hafi verið fram gögn sem sóknaraðili hafði beðið um og fundur boðaður 24. ágúst sl. með sóknaraðila og Arion banka hf. til jöfnunar ágreinings vegna kröfu sóknaraðila og Nordic Pharma Investments Ltd. sem skiptastjóri hefur samþykkt, eins og áður sagði. Sá fundur hafi frestast vegna atvika sem ekki vörðuðu skiptastjóra og verði fundur haldinn innan tíðar. Þá bendir skiptastjóri á að álitaefni um þóknun eigi ekki undir dómara á þessu stigi málsins. Að lokum bendir skiptastjóri á að hafi eitthvað verið aðfinnsluvert við það hvernig hann hafi haldið á málefnum búsins hafi verið við því brugðist undir rekstri málsins og engin efni séu til að verða við kröfu sóknaraðila um frávikningu skiptastjóra.
Við munnlegan flutning um ágreiningsefni þetta kom fram í máli sóknaraðila að skýringar skiptastjóra og ráðstafanir hans í kjölfar þess að krafan var sett fram hefðu enga þýðingu í málinu. Ljóst væri að bústjórn skiptastjóra væri aðfinnsluverð. Sá tími sem hafi farið í skiptin væri óhæfilega langur og ekki í neinu samræmi við fjölda krafna eða umfang skiptanna. Þá hafi skiptastjóri farið á svig við skýr lagafyrirmæli 2. mgr. 78. gr. laga nr. 21/1991 um afhendingu yfirlita yfir stöðu búsins. Þá kvað sóknaraðili það heyra undir dómara að taka afstöðu til þóknunar skiptastjóra í tengslum við kröfu um frávikningu skiptastjóra.
Í máli þessu liggur fyrir að bú Háttar ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 12. júlí 2012. Birtist innköllun vegna skiptanna fyrra sinni 7. ágúst 2012 og fyrsti skiptafundur var haldinn 16. október 2012 um lýstar kröfur og kröfuskrá. Sóknaraðili, sem var fyrirsvarsmaður hins gjaldþrota félags, gerði kröfu í búið, fyrir sína hönd og fyrir hönd félagsins Nordic Pharma Investments Ltd. 5. október 2012. Auk þess lýstu KPMG, Arion banki, tollstjóri, Fasteignamiðstöðin, Sjóvá-Almennar hf. og Anton A. Kristinsson einnig kröfum í búið.
Starfssvið og verkefni skiptastjóra felast í að afla upplýsinga um kröfur á hendur hinu gjaldþrota félagi og skuldbindingar sem það hefur tekist á herðar, kanna réttmæti þeirra, ráðstafa eignum búsins og útdeila fjármunum til kröfuhafa í samræmi við reglur laga nr. 21/1991. Fram er komið í málinu að við upphaf skipta fór mikill tími skiptastjóra í að afla ýmissa upplýsinga varðandi hið gjaldþrota félag en það mun hafa átt fjölda annarra félaga og kanna þurfti gaumgæfilega hvort nauðsynlegt væri að höfða riftunarmál vegna ýmissa ráðstafana tengdum þeim félögum. Þá verður ekki fram hjá því litið að töluverð vinna hefur farið í það hjá skiptastjóra, að fjalla um lýstar kröfur sóknaraðila og Nordic Pharma Investments Ltd., að reka mál fyrir dómstólum vegna skiptanna og leysa úr málum vegna mjög hárrar kröfu Arion banka.
Gögn málsins bera þannig með sér að nokkur fjöldi funda hefur verið haldinn í búinu, bæði á grundvelli 2. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991, til að jafna ágreining um kröfur, og á grundvelli 81. gr. sömu laga, auk funda um málefni búsins og hefur efni þeirra verið rakið ítarlega hér framar. Þá er einnig ljóst að mikil vinna hefur farið í málefni búsins á milli funda. Þótt vera kunni að fundir hefðu mátt vera tíðari er ljóst að öflun upplýsinga og gagna auk málaferla skiptastjóra vegna ráðstafana sóknaraðila, sem auk þess tengdust kröfu sóknaraðila í búið samkvæmt lið i) í kröfulýsingu hans, skýrir að nokkru þann tíma sem búskiptin hafa tekið. Þá er jafnframt ljóst að ekki sér enn fyrir endann á skiptunum.
Þá er komið fram að skiptafundur var haldinn 10. ágúst sl. þar sem farið var yfir uppfærða kröfuskrá og ræddar breytingar á afstöðu skiptastjóra til kröfu sóknaraðila og kröfu Nordic Pharma Investments Ltd. sem skiptastjóri hefur nú samþykkt að fullu. Hafði skiptastjóri áður samþykkt kröfurnar að hluta en taldi sig ekki geta gefið upp endanlega afstöðu til krafnanna fyrr en hann hefði einnig lokið athugun og umfjöllun um vaxtahluta þeirra. Verður að telja það eðlilega afstöðu skiptastjóra og hafa kröfur samkvæmt liðum ii) og iii) í kröfulýsingu sóknaraðila nú verið endanlega samþykktar eins og áður sagði.
Á fundinum 10. ágúst sl. komu fram mótmæli Arion banka vegna áðurnefndra krafna sóknaraðila og Nordic Pharma Investments Ltd. og var ákveðið að fundur yrði haldinn til að jafna ágreining 24. ágúst sl. Af honum mun þó ekki hafa orðið vegna atvika sem voru skiptastjóra óviðkomandi og liggur fyrir að boðað verður til fundar á ný innan tíðar. Þá komu einnig fram á fundinum mótmæli sóknaraðila vegna kröfu Tollstjóra og kröfu KPMG auk þess sem athugasemdir voru gerðar við samþykkta kröfu Sjóvár-Almennra. Gögn með skýringum Tollstjóra munu hafa borist í kjölfar fundarins sem sóknaraðili mun fara yfir. Óskað var eftir skýringum vegna annarra mála á fundinum sem skiptastjóra kveður að verði brugðist við, kröfuskrá verði uppfærð í samræmi við ábendingar á fundinum og sóknaraðila verði auk þess afhent nýtt sex mánaða yfirlit vegna stöðu búsins eins og hann hafi óskað eftir í bréfi til skiptastjóra.
Þegar litið er á atvik máls í heild sinni verður ekki fallist á kröfu sóknaraðila um að bústjórn skiptastjóra hafi verið með þeim hætti að honum beri að víkja úr starfi sem slíkum. Þá verður ekki séð, eins og málið liggur fyrir dóminum, að ráðstafanir skiptastjóra hafi orðið til þess að rýra hagsmuni búsins. Einnig verður að telja að varnaraðili hafi nú brugðist við óskum sóknaraðila um gögn á grundvelli 2. mgr. 78. gr. laga nr. 21/1991 þótt vera kunni að skiptastjóri hefði mátt bregðast við þeim óskum með skjótari hætti. Getur það þó ekki orðið tilefni til þess að honum verði vikið sem skiptastjóra. Einnig hefur skiptastjóri leitast við að uppfæra kröfuskrá í samræmi við óskir sóknaraðila. Þá er þegar fram komið að dómurinn telur meðferð skiptastjóra á kröfum sóknaraðila ekki vera aðfinnsluverða. Þá telur dómurinn óhjákvæmilegt að horfa til þess að frávikning skiptastjóra og setning nýs geti ekki í ljósi aðstæðna orðið til þess að flýta skiptum heldur myndi það þvert á móti verða til þess að skiptalok drægjust. Þá verður ekki séð að nokkuð hafi verið leitt í ljós um að skiptastjóri hafi sýnt af sér aðra þá háttsemi sem leitt geti til þess að hann verði látinn víkja þegar í stað á grundvelli 2. mgr. 76. gr. laga nr. 21/1991.
Að lokum tekur dómurinn fram að athugasemdir sóknaraðila vegna þóknunar skiptastjóra verða ekki lagðar til úrlausnar dómsins í máli er varðar kröfu um frávikningu skiptastjóra. Skiptastjóri á samkvæmt 2. mgr. 77. gr. laga nr. 21/1991 rétt á þóknun fyrir störf sín af eignum bús með þeim skilyrðum að hann greini frá ákvörðun sinni um það á skiptafundi, þ. á m. hvernig hann ætli að reikna þóknun sína. Það gerði skiptastjóri á fyrsta skiptafundi sem haldinn var í búinu 16. október 2012. Dómari kemur því samkvæmt reglum laga nr. 21/1991 ekki að samningum við skiptastjóra um kjör hans. Af ákvæðum laga nr. 21/1991 verður ráðið að á þetta getur reynt í máli sem kemur til eftir reglum 128. gr. laganna um ágreining milli lánardrottins og skiptastjóra vegna bústjórnar, eða eftir reglum 171. gr. laganna sem veitir skiptastjóra almenna heimild til að leita til héraðsdóms með ágreiningsatriði vegna skiptanna. Getur lánardrottinn eftir atvikum leitað úrlausnar um þetta með því að hafa uppi mótmæli gegn frumvarpi til úthlutunar úr þrotabúinu þar sem þóknun skiptastjóra kæmi fram, sbr. 5. mgr. 160. gr. laga nr. 21/1991. Ekki verður því séð að lög standi til þess að leyst sé úr ágreiningi um þóknun í máli um frávikningu skiptastjóra og er þeim þætti kröfugerðar sóknaraðila því hafnað.
Með vísan til alls framangreinds verður kröfu sóknaraðila hafnað.
Hólmfríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan. Ekki var krafist málskostnaðar og úrskurðast hann því ekki.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Kröfu sóknaraðila, Karls Emils Wernerssonar, um frávikningu varnaraðila, Jóhanns Baldurssonar hdl, úr starfi skiptastjóra í þrotabúi Háttar ehf., er hafnað.