Hæstiréttur íslands
Mál nr. 289/1998
Lykilorð
- Börn
- Forsjá
- Matsgerð
|
|
Fimmtudaginn 11. mars 1999. |
|
Nr. 289/1998. |
M (Helgi Birgisson hrl.) gegn K (Ingibjörg Rafnar hrl.) |
Börn. Forsjá. Matsgerðir.
M og K deildu um forsjá 7 ára dóttur sinnar, A. Með héraðsdómi var K falin forsjá A. Voru báðir foreldrarnir taldir hæfir til að fara með forsjána en K var talin hafa nokkurt forskot á M varðandi ýmsa mikilvæga eiginleika. Fyrir Hæstarétt var lögð álitsgerð dómkvaddra yfirmatsmanna sem staðfestu að báðir foreldrar væru hæfir til að fara með forsjá barnsins. Þá kom fram það álit þeirra að fyrirhugaður flutningur K með barnið til Danmerkur stefndi þroska og velferð þess ekki í hættu. Var héraðsdómur staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Pétur Kr. Hafstein, Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hjörtur Torfason og Hrafn Bragason.
Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar með stefnu 9. júlí 1998. Hann krefst þess að honum verði falin forsjá dóttur hans og stefndu, A, sem fædd er [...] 1992. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Nokkur ný gögn hafa verið lögð fyrir Hæstarétt. Skiptir þar mestu yfirmat sálfræðinganna Eiríks Arnar Arnarsonar og Páls Magnússonar 24. nóvember 1998. Niðurstöður þeirra eru þær að báðir foreldrarnir séu færir um að bera ábyrgð á uppeldi barnsins og séu tengdir því sterkum tilfinningaböndum. Barnið hafi ríkuleg og traust tengsl við báða foreldrana en skynji þó ást og þörf fyrir nærveru sterkar frá áfrýjanda. Stefnda virðist hins vegar hafa meira næmi á tilfinningalíf barnsins. Það tjái sjálft ríka þörf fyrir umönnun og nánd við báða foreldra. Matsmennirnir leggja áherslu á ríkulega umgengni við það foreldrið sem ekki fái forsjána og að friðsamleg samvinna foreldra um umgengnina og annað sem barnið varðar muni tvímælalaust bæta líðan þess. Vegna fyrirhugaðs flutnings móður til Danmerkur láta matsmenn í ljós það álit að ekki verði séð að þroska eða velferð barnsins ætti að stafa hætta af honum. Sá flutningur sé vel undirbúinn og virðist sem allar forsendur séu til þess að búa barninu traust og öruggt uppeldisumhverfi í Danmörku.
Framangreint álit matsmannanna er mjög í samræmi við það álit Álfheiðar Steinþórsdóttur, sem lá fyrir héraðsdómi. Af gögnum málsins verður ráðið að samkomulag hafi verið um umgengni barns og foreldra. Þykir ekki ástæða til að ætla annað en að svo geti orðið áfram þrátt fyrir flutning til Danmerkur, eftir því sem aðstæður leyfa.
Með hliðsjón af framanrituðu og skírskotun til forsendna héraðsdóms, en hann var skipaður tveimur sérfróðum meðdómsmönnum, verður hann staðfestur.
Rétt þykir að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 11. júní 1998.
Mál þetta, sem dómtekið var 25. maí sl. er höfðað með birtingu stefnu, þann 19. september sl.
Stefnandi er K [...]
Stefndi er M [...]
Dómkröfur stefnanda eru þær að henni verði dæmd forsjá barnsins A, kt. ....92-..... Þá krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu að mati réttarins að viðbættum virðisaukaskatti og að vextir af málskostnaði án virðisaukaskatts reiknist frá 15. degi frá uppkvaðningu dóms.
Dómkröfur stefnda eru þær að stefnda verði með dómi veitt forsjá dóttur hans og stefnanda A[...]. Þá krefst stefndi að sér verði tildæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda samkvæmt mati dómsins að viðbættum 24,5% virðisaukaskatti.
Leitað var sátta án árangurs.
I.
Stefnandi lýsir málsatvikum með eftirfarandi hætti í stefnu svo og þegar hún kom fyrir dóm. Málsaðilar hófu sambúð á árinu 1983. Þann [...] 1992 ól stefnandi barn þeirra A. Þann 14. maí 1997 slitnaði upp úr sambúð þeirra og stefnandi yfirgaf þeirra sameiginlega heimili, H, í Hafnarfirði
Stefnandi kveðst hafa skilið barnið eftir í umsjá föður er hún yfirgaf þeirra sameiginlega heimili vegna þess að hún taldi að sú ákvörðun myndi leiða til minni átaka milli hennar og stefnda og það væri í þágu barnsins og ennfremur hitt að stefndi neitaði að yfirgefa heimilið.
Stefnandi kveðst hafa farið til Florida í leyfi með barnið í viku, þann 17.- 26. maí 1997. Þegar hún hafi komið heim hafi barnið fyrst verið í umsjá stefnda svo aftur í umsjá stefnanda, þar til stefndi fór í vikufrí til Majorka ásamt barninu dagana 10.-17. júní sl. Að sögn stefnanda á stefndi að hafa lent í ryskingum þar ytra, en því var mótmælt af hálfu stefnda fyrir dómi. Þegar heim var komið dvaldi barnið í umsjá stefnanda, þar til stefndi kallaði eftir því aftur. Samskipti aðila á þessum tíma voru ekki átakalaus, en þeim ber ekki saman í frásögnum hvað þeim hafi farið nákvæmlega á milli. M.a. heldur stefnandi því fram að stefndi hafi skilið barnið eftir heima í reiðileysi að kveldi dags og farið í hús þar sem stefnandi dvaldi og tilkynnt henni að hann væri búinn að fá nóg og hún gæti nú hugsað um barnið. Ennfremur heldur stefnandi því fram að stefndi hafi ráðist á systur stefnanda, þann 24. júní 1997, með barnið í fanginu og hafi sá atburður verið kærður til lögreglunnar.
Fyrir dómi staðfesti stefndi að til átaka hefði komið milli sín og stefnanda í júní 1997. Hann mótmælti hins vegar lýsingu stefnanda á tilurð ágreiningsins. Hann mótmælti því einnig að hafa skilið barnið eitt eftir heima og einnig að hafa ruðst inn á heimili móður stefnanda og beitt heimilisfólk ofbeldi.
Í beinu framhaldi af þessum atburði kveðst stefnandi hafa farið daginn eftir til sýslumannsins í Hafnarfirði og krafist forsjár barnsins. Þann 30. júní 1997 hafi stefndi mætt hjá sýslumanni og einnig krafist forsjár barnsins. Mikil spenna var milli málsaðila á þessum tíma og er því haldið fram af hálfu stefnanda að stefndi hafi hótað sér líkamsmeiðingum. Hafi hún því ákveðið að fara til útlanda í frí dagana 7.-27. júlí 1997 og hafi haft barnið með sér. Stefnandi kvaðst hafa farið án vitundar stefnda. Barnið fékk að tala við föður sinn símleiðis á meðan á dvöl þeirra mæðgna stóð. Þegar heim var komið dvaldi barnið í umsjá föður og hefur barnið dvalið á víxl hjá foreldrum sínum samkvæmt samkomulagi frá því í september sl.
Stefnandi kveðst búa í góðri þriggja herbergja íbúð að [...], Reykjavík, sem hún leigi af móður sinni. Þar hafi barnið sérherbergi.
Af hálfu stefnanda er krafa um forsjá barnsins á því byggð að hún hafi betri aðstöðu til að búa barninu öryggi og festu. Stefnandi sé í góðri og vellaunaðri vinnu og hafi nánast verið fyrirvinna heimilis um árabil. Hún hafi nýverið skipt um starf innan þess fyrirtækis sem hún hafi starfað hjá í mörg ár. Það starf hafi ekki í för með sér mikla fjarveru frá heimilinu utan venjulegs vinnutíma. Þá hafi stefnandi sagt af sér sem [varaformaður í samtökunum D].
Fyrir dómi kom fram að stefnandi hafi sagt starfi sínu lausu hjá E hf. og ráðgeri að flytja búferlum til Danmerkur og setjast að í Árósum. Hún sé í sambandi við fyrrum vinnufélaga sinn sem þar búi, J, f. [...]1967, sem sé stoðtækjafræðingur. Stefnandi hafi þekkt J í 7 ár og hafi A þekkt hann sem vinnufélaga stefnanda. A hafi hitt J þegar stefnandi fór í tvö skipti til Bandaríkjanna í leyfi á sl. ári. J hafi starfað við sitt fag hér á Íslandi svo og í Bandaríkjunum. Hann sé einkabarn foreldra sinna sem búi einnig í Árósum. J hefur aldrei kvænst og er barnlaus. Stefnandi og J ráðgeri að hefja sambúð í haust og hafa tekið á leigu raðhús í Árósum. Hún hyggst fara í framhaldsnám í Handelshöjskolen í Árósum og telur sig muni hafa rúman tíma til þess að sinna barninu fái hún forsjá þess. Þá kom fram hjá stefnanda fyrir dómi að hún hafi farið út til Árósa og kynnt sér allar aðstæður þar. Hún hafi einnig haft samband við íslenskar barnafjölskyldur á staðnum. Henni hafi einnig verið mjög vel tekið af fjölskyldu J. Stefnandi kveðst ekki hafa áhyggjur af aðlögun A í Danmörku. A sé opin og eigi auðvelt með að kynnast nýju fólki. Hún sé að ljúka veru sinni í leikskóla, þannig að framundan séu hvort sem er breytingar hjá barninu. Stefnandi heldur því fram að barninu líki vel við J og hlakki til að heimsækja hann, en stefnandi kveðst enn ekki hafa sagt barninu frá fyrirætlan sinni að flytja út. Það kom fram hjá stefnanda fyrir dómi að hún muni leggja sig fram við það að faðir fái að njóta samvista við barnið eins og mögulegt er fái hún forsjá þess. Hún lagði á það áherslu að hún gerði sér grein fyrir nánum tengslum barnsins við föður sinn og mikilvægi þess að þau mættu haldast sem best.
Af hálfu stefnanda er ennfremur á því byggt að henni verði veitt forsjá barnsins, að hún telji stefnda ekki hafa þroska til að búa barni sínu öruggt heimili. Hann hafi hagað sér á mjög óábyrgan hátt gagnvart barninu. Hann hafi ítrekað beitt fólk ofbeldi og geti ekki hamið skap sitt, eins og t.d. þegar hann á sl. hausti klifraði upp á fjórðu hæð húss að morgni dags, þar sem stefnandi dvaldi ásamt vini sínum J og ráðist inn í íbúðina með því að brjóta rúðu. Hafi stefnandi og vinur hennar flúið í geðshræringu út úr íbúðinni og leitað til lögreglu. Ennfremur er á því byggt að stefndi hafi ítrekað dregið barnið inn í ósætti sitt vegna sambúðarslitanna, rifið barnið upp seint um kvöld og farið út að keyra í leit að stefnanda. Auk þess hafi hann hringt í stefnanda og ausið yfir hana svívirðingum og skömmum í áheyrn barnsins. Þá búi stefndi ekki við fjárhagslegt öryggi. Hann standi ekki skil á sköttum og skyldum sem sé afleiðing þess að hann hafi verið úrskurðaður gjaldþrota á árinu 1993. Ennfremur búi hann við mikið vinnuálag þar sem hann sé að vinna sig út úr þessum fjárhagsörðugleikum.
Stefnandi vísar til barnalaga kröfu sinni til stuðnings, einkum 34. gr., sbr. VII. kafla og laga nr. 50/1988.
Í greinargerð stefnda kemur fram að í meginatriðum sé málavöxtum rétt lýst í stefnu, en þó telur stefndi á sig hallað réttu máli varðandi samskipti aðila eftir sambúðarslit. Það kemur fram hjá stefnda að þau hafi verið mjög ung að árum þegar þau hófu sambúð. Stefnandi hafi verið 14 ára gömul og hann 17 ára. Á sambúðarárum lauk stefndi sveinsprófi sem járniðnaðarmaður og stefnandi lauk stúdentsprófi á árinu 1992. Stefndi hafi undanfarin ár verið í sjálfstæðum rekstri en stefnandi hóf störf hjá stoðtækjafyrirtækinu E hf á árinu 1984 og hafi starfað þar síðan. Samvistarslit urðu í maí 1997 og hafi stefnandi dvalið hjá vinum sínum fyrst á eftir.
Stefndi heldur því fram að eftir samvistarslit hafi verið við það miðað að barnið yrði áfram hjá föður og í forsjá hans eða a.m.k. með búsetu hjá honum í sameiginlegri forsjá. Hafi það byggst á þeirri staðreynd að allt frá því að barnið fór til dagmóður til dagsins í dag hafi uppeldi A og umönnun hvílt meira á stefnda. Stefnandi hafi unnið mikla yfirvinnu hjá E hf og jafnframt verið virk í starfi D. Þátttaka hennar í D hafi leitt af sér margar utanlandsferðir svo og starf hennar hjá E hf einkum eftir 1995, er hún hafi fengið stöðuhækkun.
Eftir að barnið hafi farið til dagmóður og á dagheimili og allt fram til samvistarslita hafi það verið að mestu leyti á ábyrgð stefnda að sækja barnið á leikskóla og annast það, gefa því að borða og koma því í svefn. Hafi stefndi vinnu sinnar vegna ekki haft tök á því að sækja barnið hafi þau leitað til systur stefnda, B, eða foreldra stefnda, sem búi í sama húsi og B, eða til kunningjafólks stefnda. Stefndi heldur því fram að stefnandi hafi verið að meðaltali 5-7 daga erlendis í mánuði vegna vinnu og félagsstarfa. Af hálfu stefnanda var þessum fullyrðingum stefnda mótmælt fyrir dómi, og hélt stefnandi því fram að stefndi gerði of mikið úr umönnunarhlutverki sínu. Stefnandi viðurkenndi að það hafi oft komið í hlut stefnda að sækja barnið á leikskóla, þar sem hann hafi verið í vinnu í Hafnarfirði, en hún hafi verið í Reykjavík. Hins vegar hafi hún til jafns á við hann sinnt barninu þegar heim var komið. Það hafi einnig komið þeir tímar í lífi þeirra, að annríki var mikið hjá honum í vinnu og hafi hún þá alveg séð um barnið. Stefndi mótmælir lýsingu stefnanda á meintu húsbroti hans, þann 15. september 1997. Stefndi viðurkennir að hafa hlaupið á sig og harmar atvikið. Stefndi staðfesti að frá 24. september sl. hafi ríkt samkomulag milli málsaðila um samvistir barnsins þar til dómur gengur í málinu og dvelur barnið nú viku í senn hjá hvoru foreldri, en hefur þó verið meira hjá föður en móður vegna aðstæðna móður.
Stefndi byggir kröfu sína um forsjá barnsins á grunnreglum barnaréttar sérstaklega 2. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 20/1992, það er að segja að það sé barninu fyrir bestu að honum verði falin forsjá þess.
Því til stuðnings bendir stefndi á að umönnun barnsins hafi hvílt meira á sínum herðum en stefnanda undanfarin ár og barnið hafi umgengist sig meira að öllu jöfnu og meira eftir samvistarslit, ef undanskilin sé sá tími sem stefnandi fór af landi brott með barnið eftir samvistaslit aðila, án samþykkis stefnda.
Þá er á því byggt að báðir aðilar teljast væntanlega hæfir í skilningi 42. gr. barnalaga nr. 20/1992, og ekki sé grundvallarmunur á atvinnuhögum eða stöðu fjármála. Það kom fram fyrir dómi að stefndi er að vinna sig út úr gjaldþroti því sem fyrirtæki hans varð fyrir. Rekstur fyrirtækisins gangi vel í dag og sé veltan 49 miljónir króna. Stefndi hafi keypt hlut stefnanda í þeirra sameiginlegu íbúð að H í Hafnarfirði. Hann skuldi enn opinber gjöld u.þ.b. 2 miljónir króna.
Á því er byggt að stefndi hafi meiri skilning á þörfum barnsins, enda hafi hann sinnt uppeldi þess og ásakanir um að hann hafi dregið barnið inn í ósætti séu fráleitar, enda hafi hann þvert á móti leitað til sérfræðings vegna barnsins til að stuðla að jákvæðum samskiptum milli móður og barns eftir samvistarslit.
Því er haldið fram að fái stefndi forsjá barnsins, þá feli sú ákvörðun minnsta röskun á högum barnsins og telur stefndi að barnið muni kjósa fremur að eiga heimili hjá föður sínum. Stefndi kveðst munu búa áfram í Hafnarfirði, enda eigi hann þar fjölskyldu. Hins vegar séu aðstæður móður óvissari, þar sem hún sé í sambandi við mann sem búi erlendis. Fyrir dómi upplýsti stefndi að hann ætti vingott við konu, en óvíst væri um framhald þess sambands.
Á því er byggt að dagleg umönnun barnsins hafi að öllu jöfnu hvílt meira á herðum stefnda og sé það hluti af hans daglega lífi að annast barnið. Ennfremur eigi stefndi kost á að leita til vandamanna sinna sem búi í Hafnarfirði, og sem hafi áður aðstoðað hann.
Stefndi telur að hann muni frekar stuðla að eðlilegum umgengisrétti barnsins við móður fái hann forsjá barnsins. Máli sínu til stuðnings bendir hann á, að hann hafi aldrei staðið því í vegi að stefnandi fái notið umgengnisréttar við barnið eftir samvistarslitin. Hins vegar heldur stefndi því fram að stefnandi hafi haldið barninu frá stefnda, þegar ágreiningur hafi orðið með aðilum. Stefndi heldur því fram að hann hafi haldið barninu utan við ágreining sinn við stefnanda, en sá ágreiningur varði aðallega vonbrigði stefnda vegna takmarkaðs áhuga stefnanda fyrir barninu eða samvistum við það og þar af leiðandi erfiðleikum sem af því leiddu. Máli sínu til stuðnings bendi stefndi á að stefnandi hafi t.d. farið erlendis í þrjár vikur með barnið, án hans vitundar, þrátt fyrir það að hann hafi farið með forsjá barnsins og annast barnið meira en stefnandi. Stefndi viðurkennir að í fyrstu eftir samvistarslitin hafi hann sýnt visst ójafnvægi í samskiptum sínum við stefnanda, sem rekja má til þess að hann hafi tekið það nærri sér að missa konu sína til annars manns. Stefndi hélt því fram fyrir dómi að hann hafi ekki gert sér grein fyrir því hvert stefndi í samskiptum sínum við stefnanda og hafi óskir stefnanda um skilnað komið sér algjörlega í opna skjöldu. Stefndi heldur því nú fram að hann sé búinn að jafna sig af áfallinu og hafi náð jafnvægi og mótmæli því sem stefnandi heldur fram að hann eigi við geðheilsuvandamál að stríða og sé í senn hættulegur barninu og sjálfum sér. Þessi afstaða stefnanda, sem hún hefur myndað sér án þess að hún styðjist við sérfræðilega álitsgerð bendir til þess að stefnandi muni í framtíðinni vera ósveigjanleg í samskiptum sínum við stefnda, fái hún forsjá barnsins og umgengni stefnda við barnið verði hverju sinni háð því að hegðun hans sé ásættanleg að mati stefnanda. Af þessu leiðir að stefndi telur hagsmunum barnsins betur borgið og umgengnisréttur þess foreldris sem ekki hefur forsjá barnsins betur tryggður með því að fela honum forsjá barnsins.
Stefndi byggir kröfur sínar á ákvæðum barnalaga nr. 20/1992, einkum 34. gr. og er málið rekið samkvæmt VIII. kafla sömu laga, sbr. og meginsjónarmið VII. kafla sömu laga. Um lagasjónarmið er jafnframt vísað til greinargerðar með frumvarpi til barnalaga 2 mgr. 34. gr. laga nr. 20/1992. Krafa um málskostnað er reist á XXI kafla laga um meðferð einkamálalaga nr. 91/1991. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun er byggð á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.
Við aðalmeðferð málsins gáfu aðilar munnlegar skýrslur og Álfheiður Steinþórsdóttir, sálfræðingur, staðfesti álitsgerð sína. J gaf vitnaskýrslu.
Í máli vitnisins J kom fram að það er stoðtækjafræðingur og starfar í sínu fagi í Árósum. Vitnið er einkabarn foreldra sinna, sem eru fædd á árinu 1934. Vitnið kvaðst hafa ákveðið að flytja heim til Árósa, þar sem foreldrar þess búa, þegar faðir þess veiktist alvarlega. Áður hafði vitnið búið í Bandaríkjunum.
Vitnið sagði að starfi sínu í Bandaríkjunum hefðu fylgt mikil ferðalög, sem vitnið kvaðst vera orðið mjög þreytt á. Vitnið lýsti sér sem barngóðum manni sem hefði ágætt lag á börnum, en á það reyndi í starfi þess. Vitnið kvaðst hafa hitt A og myndað við hana góð tengsl. Vitnið kvaðst myndu standa við hlið stefnanda og aðstoða hana við uppeldi barnsins, fái stefnandi forsjá þess, en ekki ganga því í föður stað. Einnig kvaðst vitnið myndu leggja sig fram við að gera barninu það kleift að umgangast föður sinn og fjölskyldu þess, fái móðir forsjá barnsins. Vitnið hafði gott vald á íslensku og fór skýrslutaka fyrir dómi einvörðungu fram á íslensku.
II.
Samkvæmt 60. gr. barnalaga nr. 20/1992 var Álfheiður Steinþórsdóttir, sálfræðingur, dómkvödd til að meta hagi og aðstæður foreldra og barns.
Fyrir málsaðila voru lögð eftirfarandi próf; Wechsler greindarpróf munnlegur hluti, EPQ persónuleikapróf, Gough félagsþroskapróf, MMPI persónuleikapróf og forsjárhæfnispróf.
Í álitsgerð sálfræðingsins kemur fram að stefnandi er eðlilega greind og geðheilbrigði hennar er gott. Hún virðist opin og virk kona sem getur auðveldlega tekið frumkvæði í samskiptum við fólk. Hún getur sett sig í spor annarra, stundum jafnvel um of, þannig að hún bæli niður og byrgi inni vanlíðan. Í mótlæti eða streitu getur hún orðið óróleg og eirðarlaus en varnir eru allsterkar. Félagsþroski er góður og sjálfsstyrkur sömuleiðis. Forsjárhæfni K er mjög góð, hún á auðvelt með að tjá barni sínu ást og umhyggju á eðlilegan hátt. Á forsjárprófi eru hæstir þættir sem meta hæfni til að uppfylla tilfinningalega og líkamlega umhyggju, setja fasta ramma og leiðbeina barni. Hún virðist einnig eiga auðvelt með samvinnu við aðra sem tengjast barninu. K virðist þannig geta skapað barninu traust og öryggi í uppeldi.
Samkvæmt prófniðurstöðum sálfræðingsins kemur fram að M er eðlilega greindur einstaklingur sem einnig er innan eðlilegra marka hvað varðar félagslyndi, en lýsir einnig að hann geti einnig verið einn og sjálfum sér nægur ef því er að skipta. Hann virðist ekki eiga auðvelt með að setja sig í spor annarra, virðist vera sjálflægur og fer eigin leiðir en aðlagar sig ekki auðveldlega að nýjum kringumstæðum. Líklegt er að hann safni innra með sér en geti misst stjórn á sér ef álag er langvarandi eða eykst snögglega. Prófmynd á klínísku persónuleikaprófi sýna einstakling sem er kvíðinn og svartsýnn, fram kemur að hann finnur til vanmáttar og hefur tilhneigingu til að einangra sig í mótlæti. En við eðlilegar aðstæður og líðan á hann að geta verið virkur og framkvæmdasamur en sú mynd kemur ekki fram í prófniðurstöðu.
Sjálfsstyrkur er í tæpu meðallagi. Forsjárhæfni er innan marka meðallags, M þykir einlæglega vænt um barn sitt og hefur sinnt þörfum þess, en það sem dregur úr hæfni samkvæmt prófinu eru ekki síst þættir svo sem að hann geti átt erfitt með að setja sig í spor barnsins, að hann leiðbeinir en setur ekki greinilega ytri umgjörð, að hann er fremur lokaður í tjáningu út á við t.d. í samstarfi, og virðist samkvæmt prófum vera sveiflukenndur í viðbrögðum og skapstjórn undir álagi.
Svör barnsins á sálfræðiprófum bera vott um að hún sé greind og bjargráðagóð í vanda og hún sé fylgin sér. Fram kemur að hún tekur talsverða ábyrgð á að gera ekki á neinn hátt upp á milli foreldra sinna heldur deila jafnt út til þeirra góðum tilfinningum. A er mjög tengd og háð báðum foreldrum sínum, hún skynjar mikilvægi sitt og efast ekki um að foreldrar elski hana og vilji annast hana. En henni finnst foreldrar ætlast til að börn séu talsvert stór og dugleg. Athyglisþörf hennar getur verið aukin vegna þess álags en einnig getur verið um að ræða að töluverður munur er á viðbrögðum foreldra við hana, þar sem móðir virðist setja mun skýrari ramma og fylgja honum eftir. Föður virðist skorta vissa festu eða ákveðni við að setja barninu mörk.
III.
Samkvæmt barnalögum nr. 20/1992 eiga móðir og faðir jafnan rétt til þess að krefjast og fá sér tildæmda forsjá barns. Engin skilyrði eru sett að þessu leyti heldur er sú eina leiðsögn veitt í 2. mgr. 34. gr. barnalaga að dæma skuli forsjá barns „eftir því sem barni er fyrir bestu.”
Við mat á því hvað sé barni fyrir bestu verða dómstólar m.a. að taka tillit til hæfni aðila sem uppalanda, tengsla þeirra við barnið og hæfni þeirra til tengslamyndunnar, hæfni þeirra til að búa barni þroskavænlegt uppeldi, andlegs ástands, stöðugleika þeirra í daglegu lífi og að meta málið í heild, allt í því augnamiði að komast að niðurstöðu um hvað sé barni fyrir bestu.
Til þess að meta þessi atriði sitja í dómi ásamt hinum reglulega dómara tveir sérfróðir dómarar. Ennfremur dómkvaddi dómurinn sérfræðing sem skilaði ítarlegri greinargerð.
Dómurinn lítur svo á að báðir forerldrar séu hæfir til þess að fara með forsjá barnsins. A virðist vera jafn tengd báðum foreldrum sínum. Hins vegar skynjar barnið öflugri skilaboð um ást og þörf fyrir náin tengsl frá stefnda en stefnanda. Það er álit dómsins að það beri fyrst og fremst vitni um þörf stefnda fyrir barnið frekar en þörf barnsins fyrir stefnda, fram yfir stefnanda. Ætla má því undir þessum kringumstæðum að stefnandi sé betur í stakk búin en stefndi til þess að sinna tilfinningalegum þörfum barnsins við núverandi aðstæður.
Við samanburð á persónulegum eiginleikum og högum foreldranna, þá virðist stefnandi hafa forskot á stefnda hvað varðar sjálfstyrk, félagsþroska og forsjárhæfni samkvæmt matsgerð. Það kemur einnig fram í matsgerðinni að barnið gerir sér vel grein fyrir stöðu sinni í skilnaði foreldranna. Sálfræðileg próf bera vott um, að hún treystir betur stefnanda til að sinna þörfum sínum þegar á reynir.
Fyrir liggur að stefnandi hefur sagt starfi sínu lausu og ráðgerir að hefja nám í Danmörku. Jafnframt hyggst hún hefja sambúð með dönskum manni, fyrrum starfsfélaga sínum. Þau eru búinn að finna sér húsnæði. Barnið hefur hitt manninn, J, og hefur farið vel á með þeim, en maðurinn talar ágæta íslensku. Stefndi ráðgerir að búa áfram að H, Hafnarfirði, sem var þeirra sameiginlega heimili. Stefndi hefur stofnað til kynna við konu, en óráðið er um framhald þess sambands. Barnið sjálft hefur verið á leikskólanum H, en hættir þar í sumar og hefur nám í grunnskóla í haust.
Báðir foreldrar hafa komið að daglegri umönnun og umsjá barnsins áður en þau slitu samvistum. Stefndi hefur sinnt barninu í fjarveru stefnanda vegna starfa hennar á erlendri grundu.
Báðir foreldrar búa við nokkuð öruggan fjárhag, þó fjárhagur móður virðist vera öruggari. Báðir foreldrar virðast getað boðið barninu gott húsnæði og er ekki gerður greinarmunur þar á.
Barnið hefur góð tengsl bæði við föður- og móðurfjölskyldu sína. Það er álit dómsins að barninu sé mikilvægt að geta ræktað þau tengsl í framtíðinni. J skýrði frá því hér fyrir dómi að hann gerði sér mjög vel grein fyrir mikilvægi þessa og kvaðst myndu eftir fremsta megni stuðla að því að barnið haldi góðum tengslum við fjölskyldu sína fái stefnandi forsjá barnsins. Báðir foreldrar gerðu sér grein fyrir mikilvægi þess að umgengni þess foreldris sem ekki fær forsjá barnsins verði ríkuleg og gangi eðlilega fyrir sig. Þá kom fram hjá J að hann hefði góðan skilning á því að barninu væri mikilvægt að halda góðum tengslum við stefnda. Hann kveðst gera sér grein fyrir stöðu sinni gagnvart barninu, hann muni í framtíðinni standa við hlið móður og liðsinna henni sem uppalanda, en ekki ganga inn í föðurhlutverkið.
Með hliðsjón af framansögðu og gögnum málsins verður að telja það barninu, A, fyrir bestu að stefnandi hafi forsjá hennar, sbr. 2. mgr. 34. gr. barnalaga.
Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður milli aðila falli niður.
Kostnaður vegna sálfræðilegrar álitsgerðar Álfheiðar Steinþórsdóttur, sálfræðings, að fjárhæð 261.650, greiðist úr ríkissjóði, sbr. 3. mgr. 60. gr. barnalaga nr. 20/1992.
Dóminn kveða upp Ólöf Pétursdóttir, dómstjóri og meðdómsmennirnir Aðalsteinn Sigfússon, sálfræðingur og Oddi Erlingsson, sálfræðingur.
Dómsorð:
Stefnandi, K, skal fara með forsjá barnsins A.
Málskostnaður milli aðila fellur niður.
Kostnaður vegna öflunar sálfræðilegra umsagnar Álfheiðar Steinþórsdóttur, sálfræðings, 261.650, krónur greiðist úr ríkissjóði.