Hæstiréttur íslands

Mál nr. 116/2005


Lykilorð

  • Útboð
  • Lausafjárkaup
  • Tómlæti


Fimmtudaginn 13

 

Fimmtudaginn 13. október 2005.

Nr. 116/2005.

Íslenska ríkið

(Einar Karl Hallvarðsson hrl.)

gegn

Saltkaupum ehf.

(Jón Auðunn Jónsson hrl.)

og gagnsök

 

Útboð. Lausafjárkaup. Tómlæti.

Með almennu útboði í janúar 2002 óskaði Í eftir tilboðum í salt til rykbindingar á malarvegum fyrir Vegagerð ríkisins. Samkvæmt tilboðsskilmálum var óskað eftir cif tilboðum en ekki var tilgreint sérstaklega hvort saltið skyldi afhent í umbúðum. Í sendi 23. janúar út tilkynningu með myndsendi til bjóðenda, þar á meðal S, þar sem sagði að saltið skyldi afhent í svokölluðum stórsekkjum. Í gekk til samninga við S samkvæmt tilboði. S setti saltið í sekki, annaðist uppskipun þess og greiddi af því vöru- og vigtargjöld. Í mars 2003 gerði S Í viðbótarreikning, þar sem hann krafðist greiðslu fyrir þessa liði og deildu málsaðilar um greiðslu á þessum viðbótarreikningi. Var ekki talið sannað að S hafi borist fyrrnefnd tilkynning um afhendingu saltsins í sekkjum fyrr en á fundi fyrir opnun tilboða 31. janúar, en þar lét S bóka athugasemd um að tilkynningin hefði ekki borist honum. Þá varð heldur ekki fallist á að Í hafi mátt ætla að tilboð S hafi falið í sér þann kostnað sem um var deilt, þegar litið væri til fjárhæða tilboða S í fyrri útboðum. Var það talið hafa staðið Í nær að haga málum þannig að efni samnings milli aðila á grundvelli útboðsins væri ljóst. Var fallist á aðalkröfu S um greiðslu vegna sekkja, sekkjunar og uppskipunar á saltinu og um endurgjald fyrir greiðslu vöru- og vigtargjalda.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólaur Börkur Þorvaldsson.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 18. mars 2005. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu gagnáfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa gagnáfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður á báðum dómstigum.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 2. maí 2005. Hann krefst þess aðallega að aðaláfrýjanda verði gert að greiða sér 9.751.961 krónu með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 20. maí 2003 til greiðsludags. Til vara krefst hann greiðslu 7.707.048 króna með dráttarvöxtum á sama hátt og í aðalkröfu. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti og að málskostnaðarákvæði héraðsdóms verði endurskoðað til hækkunar.

I.

Með almennu útboði í janúar 2002 óskaði aðaláfrýjandi eftir tilboðum í 3.650 tonn af salti fyrir Vegagerð ríkisins sem nota átti til rykbindingar á malarvegum landsins. Í grein 1.3. útboðslýsingar sagði: „Tilboð skulu innifela allan kostnað bjóðanda af viðskiptunum hverju nafni sem hann nefnist, þ.m.t. virðisaukaskattur þar sem það á við.“ Jafnframt sagði í grein 1.4.: „Óskað er eftir Cif tilboðum (samkvæmt skilmálum, Incoterm 2000) og skal miða við saltið komið á viðkomandi hafnir, samkvæmt upptalningu á tilboðsblaði.“ Á því tilboðseyðublaði voru tilgreindar þrettán hafnir og það magn sem fara átti á hverja þeirra. Þar var ítrekað að skilmálar væru cif og jafnframt efnisinntak greinar 1.3. Tilgreindi gagnáfrýjandi á tilboðsblaði 31. janúar 2002 að hann myndi afhenda saltið í mars 2002. Þá sagði í grein 1.14. í útboðslýsingu að ef tilboði yrði tekið skyldi pöntun vera gerð hjá viðkomandi bjóðanda samkvæmt skilmálum útboðsgagna. Einnig kom fram í grein 1.7. að frestur bjóðenda til að óska eftir nánari upplýsingum, frekari skýringum á útboðsgögnum eða að koma með athugasemdir vegna þeirra skyldi renna út 24. janúar en opnun tilboða fara fram 31. þess mánaðar.

Í útboðsgögnum var ekki tilgreint sérstaklega hvort saltið skyldi afhent í umbúðum, en 23. janúar sendi aðaláfrýjandi út tilkynningu með myndsendi til þeirra fimm aðila, þar á meðal gagnáfrýjanda, sem sótt höfðu útboðsgögn þar sem sagði:„“Seljandi skal afhenda saltið í sk. stórsekkjum” til kaupanda. Kaupandi skilar síðan tómum sekkjum gegn skilagjaldi.“ Í upphafi fundar til opnunar tilboða lét gagnáfrýjandi bóka að „tilkynning um skilagjald á stórsekki“ hafi ekki borist honum. Gagnáfrýjandi átti lægsta tilboðið, 25.983.850 krónur, og 11. febrúar 2002 sendi aðaláfrýjandi skriflega pöntun um áðurnefnt magn af salti „samkvæmt tilboði“ og sama dag sendi gagnáfrýjandi staðfestingu um að hafa „móttekið pöntun á salti til rykbindingar.“ Gagnáfrýjandi mun síðan hafa sett saltið í sekki, annast uppskipun þess og greitt af því vöru- og vigtargjöld. Hann gerði aðaláfrýjanda reikning 23. apríl 2002 að fjárhæð 27.100.604 krónur, en 21. mars 2003 sendi hann viðbótarreikning þar sem hann krafðist greiðslu 3.960.250 króna vegna uppskipunar, 3.504.000 króna vegna sekkja og sekkjunar og endurgreiðslu á vöru- og vigtargjöldum 368.650 krónur, eða alls 9.751.961 krónu að meðtöldum virðisaukaskatti. Stendur deila málsaðila um greiðslu á þessum síðari reikningi og er málsástæðum og lagarökum þeirra lýst í hinum áfrýjaða dómi.

 

II.

Skilmálar Incoterm 2000 voru ekki lagðir fram í málinu en ekki er ágreiningur með aðilum að cif tilboð samkvæmt þeim feli í sér að seljandi skuli greiða fyrir vöruna sjálfa, flutning hennar í höfn og tryggja hana venjulegri flutningstryggingu, en kostnaður við að afferma skip og koma vörunni í hendur kaupanda sé seljanda óviðkomandi.

Ekki er fallist á með aðaláfrýjanda að almennt orðalag framangreindrar greinar 1.3. í útboðsskilmálum vegi þyngra en skýrt orðaðir flutningsskilmálar greinar 1.4., þannig að skilmálar útboðsins hafi augljóslega verið þeir að tilboðsverð hefði átt að fela í sér allan kostnað bjóðanda af viðskiptunum hverju nafni sem nefndist, þ.m.t. vegna uppskipunar, vöru- og vigtargjalda.

Eins og að framan greinir kvað tilkynningin 23. janúar 2002 einungis á um að afhenda skyldi saltið í sekkjum en ekkert um breytingu á cif skilmálunum, en skýrt var kveðið á um þá í sérstöku ákvæði í útboðslýsingu og áréttað í tilboðsblaði. Gegn mótmælum gagnáfrýjanda verður heldur ekki talið sannað að honum hafi borist tilkynningin með myndsendi. Breyta hvorki ákvæði 3. mgr. 48. gr. laga nr. 94/2001 um opinber innkaup þeirri niðurstöðu né að aðaláfrýjandi hafi lagt fram staðfestingarmiða þess efnis að sending hafi farið fram, sbr. dóm Hæstaréttar í dómasafni 1994 bls. 2350. Verður því að miða við að gagnáfrýjandi hafi ekki fengið vitneskju um tilkynninguna fyrr en á fundi fyrir opnun tilboða 31. janúar 2002 er hann lét bóka athugasemd um þetta atriði. Þá verður heldur ekki fallist á með aðaláfrýjanda að þegar litið sé til fjárhæða tilboða gagnáfrýjanda í fyrri útboðum um kaup á salti og viðskipta aðila í kjölfar þeirra, hafi gagnáfrýjandi mátt ætla að umþrættur kostnaður skyldi falla á hann. Framlögð gögn bera þvert á móti með sér að ýmsir skilmálar hafi gilt í þeim efnum, auk þess sem margvíslegar og breytilegar ytri aðstæður geta legið til grundvallar tilboðum í öðrum hliðstæðum útboðum. Samkvæmt framanrituðu mátti aðaláfrýjandi því ekki ætla að tilboð gagnáfrýjanda hafi falið í sér þann kostnað sem um er deilt. Eigi að síður féllst hann án fyrirvara á tilboð gagnáfrýjanda með því að senda honum pöntun samkvæmt grein 1.14. í útboðsskilmálum, án frekari könnunar á skilningi gagnáfrýjanda á því hvað hann teldi hafa falist í tilboði sínu. Þegar litið er til atvika allra verður að telja það hafa staðið aðaláfrýjanda nær að haga málum þannig að ljóst mætti vera hvert efni samnings væri milli aðila á grundvelli útboðs þess er hann stóð að. Ber hann hallann af því að það var ekki gert.

Eins og að framan greinir krefur gagnáfrýjandi aðaláfrýjanda annars vegar um greiðslu vegna sekkja, sekkjunar og uppskipunar á saltinu og hins vegar um endurgjald fyrir greiðslu vöru- og vigtargjalda. Ljóst er að ekki var fastákveðið við samningsgerð hver skyldi vera greiðsla fyrir uppskipun saltsins, umbúðir og sekkjun þess. Gagnáfrýjandi hefur lagt fram nokkur gögn til stuðnings kröfu sinni. Af þeim verður ekki annað ráðið en að fjárkrafa gagnáfrýjanda sé sanngjörn. Samkvæmt því og með vísan til 45. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup verður fallist á þennan hluta kröfu gagnáfrýjanda. Einnig verður að telja nægilega upplýst af gögnum málsins hver var fjárhæð þeirra opinberu gjalda er hann endurkrefur aðaláfrýjanda um. Þá verður heldur ekki talið að gagnáfrýjandi hafi glatað rétti sínum fyrir tómlæti, sbr. 53. gr. og 3. mgr. 23. gr. laga nr. 50/2000. Samkvæmt öllu framanrituðu verður fallist á aðalkröfu gagnáfrýjanda og aðaláfrýjandi dæmdur til greiðslu málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti svo sem í dómsorði greinir.  

Dómsorð:

Aðaláfrýjandi, íslenska ríkið, greiði gagnáfrýjanda, Saltkaupum ehf., 9.751.961 krónu með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 20. maí 2003 til greiðsludags.

Aðaláfrýjandi greiði gagnáfrýjanda samtals 700.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 22. desember 2004.

Mál þetta, sem dómtekið var 25. nóvember sl., að loknum munnlegum málflutningi, er höfðað með stefnu birtri 1. mars 2004.

Stefnandi er Saltkaup ehf., kt. 460290-1559, Fornubúðum 5, Hafnarfirði en stefndi er Ríkiskaup, kt. 660169-4749, Borgartúni 7, Reykjavík.

Stefnandi gerir þær kröfur aðallega að stefnda verði gert að greiða honum 9.751.961 krónu með dráttarvöxtum frá 20. maí 2003 til greiðsludags en til vara að stefnda verði gert að greiða stefnanda 7.707.048 krónur með dráttarvöxtum frá sama degi til greiðsludags. Þá gerir stefnandi þá kröfu að stefndi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað að skaðlausu, en málskostnaðarreikningur hefur verið lagður fram í málinu.

Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað samkvæmt mati dómsins. Til vara er þess krafist að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar og að málskostnaður verði látinn niður falla.

I.

             Málsatvik verða rakin í einu lagi og umdeildra atriða getið eftir því sem við á. Í janúar 2002 óskaði stefndi fyrir hönd Vegagerðarinnar eftir tilboðum í salt sem nota átti til rykbindingar á malarvegum landsins. Skyldi opnun tilboða fara fram 31. janúar sama ár. Bárust tilboð frá fjórum bjóðendum. Segir í greinargerð stefnda að þann 23. janúar sama ár hafi væntanlegum bjóðendum, þ.e. þeim sem sótt höfðu útboðsgögn, verið send tilkynning með símbréfi, þar sem sagði að seljandi skyldi afhenda saltið í stórsekkjum til kaupanda. Kaupandi myndi síðan skila tómum sekkjum gegn skilagjaldi. Hafi tilkynning þessi meðal annars verið send stefnanda og vísist þar til staðfestingar á símbréfssendingu sem liggi fyrir í málinu.  Kveður stefndi tilkynninguna í samræmi við þann viðskiptamáta sem tíðkast hafði milli aðila undanfarin ár. Saltið komi laust í skipi og sé því skipað upp víðs vegar um landið og síðan afhent í þar til gerðum sekkjum á einstök athafnasvæði Vegagerðarinnar. Þessari lýsingu á atvikum málsins kveðst stefnandi vera ósammála. Segir í stefnu að þegar forsvarsmenn stefnanda hafi mætt á fundinn 31. janúar til að vera viðstaddir opnun tilboða hafi þeim verið tjáð að stefndi hefði hinn 23. janúar sent út tilkynningar til allra bjóðenda með símbréfi, sem fyrr er getið. Kveðst stefnandi þá þegar hafa látið bóka athugasemd þess efnis að honum hafi ekki borist umrædd tilkynning. Þegar tilboðin voru opnuð reyndist stefnandi eiga lægsta tilboðið og hafi stefndi í framhaldinu gert pöntun hjá stefnanda á grundvelli tilboðsins um kaup á 3.650 tonnum. Segir í stefnu að þar sem kveðið hafi verið á um CIF (cost, insurance and freight) skilmála í útboðslýsingunni hafi stefnandi átt að sjá um að koma umsömdu magni af salti í viðkomandi hafnir, en uppskipun, sekkjun og vigtun þess hafi verið honum óviðkomandi. Í samræmi við óskir stefnda hafi stefnandi hins vegar annast þessa hluti auk þess sem hann greiddi af saltinu vöru- og vigtargjöld. Viðbótarreikning vegna alls þessa að fjárhæð 9.751.961 króna hafi stefnandi síðan sent stefnda tæpu ári síðar eða þann 21. mars 2003. Kveðst stefndi hafa mótmælt þeim reikningi harðlega og telur hann að viðskiptin milli aðila séu að fullu gerð upp. Sá kostnaður sem stefnandi hafi haft af saltinu eftir að það var komið í höfn, þ.e. kostnaður við uppskipun, sekkjun og ýmis gjöld, hafi allur verið innifalinn í tilboði stefnanda sem opnað var þann 31. janúar 2002 og liggur til grundvallar viðskiptum aðila. Bendir stefndi meðal annars til þeirrar staðreyndar að aðilar málsins hafi um nokkurra ára skeið átt í viðlíka viðskiptum með salt til rykbindingar og hafi þau viðskipti ávallt verið með þeim hætti að stefnandi afhenti saltið sekkjað til stefnda. Hafi sá viðbótarkostnaður sem stefnandi krefjist nú ávallt verið innifalinn í tilboðum hans.

II.

             Stefnandi byggir á þeirri málsástæðu að skilmálar útboðsins hafi verið CIF samkvæmt Incoterm 2000 skilmálum eins og fram komi í lið 1.4. í útboðslýsingunni. Þessir sömu skilmálar hafi síðan verið áréttaðir á sérstöku tilboðsblaði sem fylgdi útboðsgögnunum. Kveður stefnandi að hvorki við opnun tilboðanna þann 31. janúar 2002 né síðar þegar stefndi pantaði salt hjá stefnanda hafi komið fram að skilmálum útboðsins hefði verið breytt. Í ljósi þess að um CIF skilmála var að ræða hafi stefnandi ekki borið ábyrgð á neinum þeim kostnaði sem féll til vegna afhendingar vörunnar eftir að skipið var komið í viðkomandi hafnir hjá stefnda. Kveður stefnandi tilboð sitt ekki hafa miðast við að saltið yrði afhent í stórsekkjum enda hafi það ekki komið fram í skilmálum útboðsins. Stefnandi hafi þó í samræmi við óskir stefnda afhent saltið í stórsekkjum. Af þessu hafi hins vegar hlotist viðbótarkostnaður fyrir stefnanda sem aðaldómkrafa málsins hljóðar um. Kveður stefnandi þennan aukakostnað, sem ekki hafi verið innifalinn í tilboði hans, vera að fjárhæð 9.751.961 króna. Uppskipunarkostnaður hafi numið 3.960.250 krónum, vöru- og vigtargjöld 368.650 krónur og loks saltsekkir og sekkjun að fjárhæð 3.504.000 krónur, en þar af hafi kostnaður vegna sekkjunar numið 2.044.912 krónum með virðisaukaskatti. Þá vill stefnandi benda á það að stefndi hafi ekki enn skilað stefnanda þeim sekkjum sem hann hafi fengið saltið afhent í. Þessi viðbótarreikningur hafi síðan verið sendur stefnda um ellefu mánuðum síðar og verið dagsettur 21. mars 2003 með gjalddaga hinn 20. apríl sama ár.

Kveðst stefnandi mótmæla því sem komi fram í greinargerð að honum hafi borist tilkynning með símbréfi dagsett 23. janúar 2002 sem kvað meðal annars á um að saltið skyldi afhent í stórsekkjum til kaupanda. Kvaðst hann fyrst hafa heyrt um þetta atriði við opnun tilboða þann 31. janúar sama ár og þá hafi hann strax látið bóka athugasemd um það í fundargerð.

Aðalkrafa stefnanda er því sú að stefndi verði dæmdur til að greiða honum allan þann viðbótarkostnað sem til féll vegna óska hans um að saltið yrði afhent í sekkjum. Sá kostnaður hafi fallið á vöruna eftir að hún hafði réttilega verið afhent samkvæmt skilmálum útboðsins og hafi kostnaðurinn því ekki verið innifalinn í tilboðsverði vörunnar. Stefnandi hafi aldrei samþykkt neina breytingu á útboðsskilmálunum og eigi þeir því að gilda óbreyttir gagnvart honum.

Telji dómurinn hins vegar að stefnandi hafi með einhverjum hætti samþykkt það frávik frá útboðsskilmálunum að hann ætti að afhenda vöruna í sekkjum kveðst stefnandi hafa uppi þá varakröfu að stefndi verði dæmdur til að greiða allan viðbótarkostnað sem til hafi fallið eftir að varan var afhent stefnda samkvæmt CIF skilmálum, að undanskildum kostnaðinum við sekkjunina sjálfa. Stefndi hafi aldrei tilkynnt neina breytingu á útboðsskilmálunum aðra en þá að afhenda ætti saltið í sekkjum. Í tilkynningunni frá 23. janúar 2002 hafi sérstaklega verið tekið fram að sekkjunum yrði skilað en ekki hafi einu orði verið minnst á að skilmálunum yrði breytt varðandi uppskipun, vigtun og vörugjöld. Eins og fyrr segi hafi kostnaðurinn við sekkjunina numið 2.044.912 krónum með virðisaukaskatti og miðast varakrafan við að stefnufjárhæðin lækki sem því nemur.

Um lagarök kveðst stefnandi vísa til samnings aðila og til skilmála útboðsins, sbr. staðlaða skilmála CIF samkvæmt Incoterm 2000. Kveðst stefnandi ennfremur vísa til almennra reglna samninga- og kröfuréttar um skyldu til réttra efnda, sbr. einkum ákvæði kaupalaga nr. 50/2000. Dráttarvaxtakrafa stefnanda byggist á ákvæðum vaxtalaga nr. 38/2001 og um réttarfar vísast til laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, þ. á m. til 36. gr. um varnarþing og 130. gr. varðandi kröfu um málskostnað.

III.

             Áður en stefndi fjallar um málið efnislega telur hann að málið sé höfðað á röngu varnarþingi. Hafi stefndi og fyrirsvarsmaður hans báðir aðsetur í Reykjavík og kveður stefndi sérákvæði 3. mgr. 33. gr. laga nr. 91/1991 vera skýlaust af því er varnarþing í Reykjavík varðar og gangi það ákvæði framar öðrum, s.s. 36. gr. laganna sem geti tæplega átt við. Kveður stefndi að undantekningar samkvæmt nefndu ákvæði varðandi ríkið eða stofnanir þess eigi ekki við og hafi aðilar ekkert samkomulag gert um að víkja frá varnarþingi. Stefndi bendi því á að vísa beri málinu sjálfkrafa frá dómi þar sem það sé höfðað á röngu varnarþingi.

             Að mati stefnda hefur hann að fullu efnt fyrir sitt leyti þann samning sem komst á um saltkaup af stefnanda fyrir Vegagerðina á grundvelli útboðsins í janúar 2002. Hafi stefndi að fullu greitt það kaupverð sem um samdist og eigi stefnandi því engar frekari kröfur á hendur honum. Reikningur stefnanda sem kröfur hans grundvallast á eigi sér því enga stoð. Kveðst stefndi því mótmæla málatilbúnaði stefnanda og kröfum á honum reistum.

             Stefndi telur að stefnanda hafi verið það fyllilega ljóst er hann gerði tilboð sitt á grundvelli útboðslýsingarinnar í janúar 2002 að innifalið í því væri allur kostnaður hverju nafni sem nefndist. Það hafi sérstaklega verið tekið fram í grein 1.3. í útboðslýsingunni. Þá hafi stefnanda einnig verið ljóst að ekki hafi átt að afhenda saltið við hafnarbakkann án uppskipunar, heldur hafi átt að koma því til viðtakanda í stórsekkjum. Þessu til stuðnings kveðst stefndi vísa til tilkynningar sem send hafi verið öllum bjóðendum, þ. á m. stefnanda, með símbréfi þann 23. janúar 2002. Hafi því allur kostnaðurinn við saltkaupin, hvort sem um var að ræða vegna uppskipunar, sekkja, sekkjunar eða vöru- og vigtargjalda, verið innifalinn í tilboði stefnanda, eins honum hafi mátt vera og var í raun ljóst.

             Til stuðnings ofangreindu kveður stefndi að um árabil hafi viðskipti þessi gengið fyrir sig í samræmi við þá túlkun stefnda á útboðsskilmálum sem fyrir liggi. Stefnandi hafi um árabil selt salt sömu tegundar til Vegagerðarinnar og þekki þar af leiðandi þá venju sem gildi um skilmálana. Yfirlit yfir saltverð frá stefnanda til rykbindingar að undangengnu útboði án virðisaukaskatts á árunum 2000 til og með 2003, reiknað á verðlagi maímánaðar 2003, sýni að verðið frá árinu 2002, 5.602 krónur pr. tonn, sé sambærilegt við verð hinna áranna, heldur hærra en árin á undan ef eitthvað er. Hafi stefnanda verið fullkunnugt um þessa skilmála eins og greinilega sjáist ef borin séu saman þrenns konar tilboð hans frá árinu 2001 og meðaleiningarverð í því tilboði sem tekið hafi verið það ár. Einingarverðið sé þannig að jafnaði nokkru hærra 2002 en í hæsta tilboði stefnanda frá árinu þar sem miðað hafi verið við afhendingu í sekkjum á birgðastöðvar Vegagerðarinnar. Allur kostnaður, þ.á m. sá sem stefnandi krefji nú um hafi því án vafa verið innifalinn í tilboði hans sem var opnað 31. janúar 2002. Því til nánari sönnunar hafi stefndi gengið úr skugga um að hjá Vegagerðinni hafi engar greiðslur verið inntar af hendi til stefnanda á tímabilinu 2001 til 2002 vegna viðbótarkostnaðar af saltkaupum. Sýni yfirlit Vegagerðarinnar einungis tilfallandi viðbótarkaup á salti, en engan kostnað vegna uppskipunar, sekkja, sekkjunar eða vöru- og vigtargjalda eins og dómkröfur stefnanda hljóði um.

             Þann 1. febrúar 2002 hafi stefnda borist svar frá stefnanda vegna beiðni um vottorð fyrir það salt sem í boði var og hafi þar komið fram að stefnandi hefði selt Vegagerðinni salt til margra ára.  Kveðst stefndi í framhaldinu hafa sent stefnanda staðfestingu á að tilboði stefnanda væri tekið með innkaupapöntun sem dagsett var 11. febrúar sama ár. Í þeirri pöntun hafi komið fram að staðfestingin væri samkvæmt tilboði stefnanda vegna útboðs stefnda og hafi verð þar verið tilgreint meðal annars. Hafi hvorki fyrirvarar né athugasemdir borist frá stefnanda um að til viðbótar því tilboði myndi bætast einhver kostnaður. Þvert á móti hafi pöntunin verið staðfest samdægurs af stefnanda. Verði því að leggja til grundvallar að samningur hafi komist á milli aðila þess efnis að í tilboðsverði hafi verið innifalinn allur kostnaður, hverju nafni sem nefndist, þ. á m. vegna uppskipunar, sekkja, sekkjunar eða vöru- og vigtargjalda, enda hafi stefnanda þá verið ljóst sem fyrr að honum bæri að afhenda vöruna í stórsekkjum til Vegagerðarinnar. Viðbótarreikningur sá sem mál þetta snýst um eigi sér því enga stoð í þeim samningi sem komst á.

             Þá sýni einnig reikningur sem stefnandi gaf út 23. apríl 2002 að fjárhæð 27.100.604 krónur að tilboðsverðið hafi falið í sér allan kostnað. Telur stefndi reikninginn auðsýnilega vera fullnaðarreikning enda hafi hvorki fyrirvari né athugasemd verið gerð um viðbótarkostnað né hafi boðun frekari reikninga verið getið, en á þessum tíma hafi verið búið að afhenda Vegagerðinni saltið í stórsekkjum. Segir stefndi að í reikningnum sé tekið skýrlega fram að afhendingarmátinn sé með þeim hætti að varan sé send til viðtakanda og við það sé reikningsfjárhæðin greinilega miðuð. Þessi reikningur hafi síðan verið greiddur af stefnda á gjalddaga þann 13. maí 2002 og hafi greiðslan þá verið móttekin án nokkurra fyrirvara.

             Kveður stefndi að ekki sé í stefnu minnst einu orði á grein 1.3. í útboðslýsingu, þótt stefnandi hafi lagt hana fram í heild sinni sem og bréf stefnda frá 9. apríl og 10. júní 2003 þar sem þessa ákvæðis sé minnst. Í grein 1.3. segi að tilboð skuli innfela allan kostnað bjóðanda af viðskiptunum hverju nafni sem hann nefnist, þ.m.t. virðisaukaskatt þar sem það eigi við. Ákvæði þetta hafi grundvallarþýðingu í málinu og vegi þyngra en grein 1.4., eins og stefnanda hafi verið fullljóst. Ekki hafi heldur verið minnst á sömu skilmála í tilboðsblaði sem stefnandi hafi notað. Þannig hafi stefnandi ekki lagt upp með neina aðra túlkun eða skýringu á þessu ákvæði greinar 1.3. en stefndi hafi byggt á. Sé því einsýnt að leggja verði til grundvallar hina augljósu skilmála útboðsins sem og tilboð stefnanda sem byggt hafi verið á skilningi félagsins á þeim tíma er það bauð, afhenti vöruna, gerði fullnaðarreikning og móttók greiðslu athugasemdalaust, þ.e. að tilboðið hafi falið í sér allan kostnað hverju nafni sem nefndist. Kveður stefndi það hafa verið túlkun beggja málsaðila á þessum tíma og hafi viðskiptin gengið sjálfkrafa fyrir sig á þeim grundvelli, eins og fullnaðarreikningur stefnanda frá 23. apríl 2002 beri með sér. Önnur túlkun, tæpu ári eftir að samningur aðila hafði verið að fullu efndur, verði ekki lögð til grundvallar.

             Þá kveðst stefndi byggja á þeirri málsástæðu að bæði athafnir og athafnaleysi stefnanda leiði til þess að sýkna beri stefnda af öllum kröfum stefnanda. Auk framangreindra atriða kveðst stefndi vísa til þessa að í útboðslýsingu hafi verið tekið fram að ef eitthvað gæfi tilefni til fyrirspurna um það sem áhrif hefði á tilboðsverðið, skyldi bjóðandi hafa sig í frammi um það innan tiltekins tíma, sbr. einnig 41. gr. laga nr. 94/2001 um opinber innkaup. Í ljósi þess að stefnandi hafi í mörg ár haft viðskiptin með höndum þar sem umþrættur kostnaður hafði verið innifalinn í tilboðsverði hefði hann átt að beina fyrirspurn um slíkt til stefnda teldi hann útboðsskilmála breytta frá því áður. Það hafi hann hins vegar ekki gert og sé engin önnur skýring á því en sú að honum hafi verið ljóst að umræddur kostnaður skyldi felast í tilboðsverðinu, s.s. tilboð hans og reikningur frá 23. apríl 2002 beri með sér. Eins og að framan greini hafi tilkynning þess efnis verið send öllum væntanlegum bjóðendum, þ. á m. stefnanda, með símbréfi 23. janúar sama ár og kveðst stefndi fullyrða að sú tilkynning hafi borist stefnanda, sbr. staðfesting símbréfssendingarinnar sem minnst var á hér áður. Þessu til stuðnings kveðst stefndi benda á að fulltrúi stefnanda hafi mætt á opnunarfundinn og tíðkist ekki að lesa útboðslýsingar þar upp eða einstök gögn. Sé ekki á það fallist hafi stefnanda að minnsta kosti verið kunnugt um þessa tilkynningu á fundinum sjálfum, en hafi þrátt fyrir allt ekki gripið til þess ráðs að biðja um frestun opnunar, sbr. 43. gr. laga nr. 94/2001. Telur stefndi að það hefði stefnandi gert ef hann hefði talið forsendur tilboðsins brostnar. Þetta ásamt skilmálum fyrri ára milli aðila um saltkaup sýni að stefnandi hafi talið, þrátt fyrir bókun sína á opnunarfundinum, að tilboð hans væri raunhæft miðað við þá skilmála að saltið skyldi afhent í stórsekkjum til Vegagerðarinnar og að allur kostnaður fram að afhendingu væri innfalinn í því.

             Þá telur stefndi að tómlæti stefnanda standi kröfum hans í vegi. Liðið hafi tæpt ár frá því að stefnandi gaf út þann reikning sem bar með sér að vera fullnaðarreikningur og þar til hinn umþrætti viðbótarreikningur var gefinn út.

             Stefndi byggir einnig á þeirri almennu reglu samninga- og kröfuréttar að allur kostnaður af sölu lausafjár sé seljandans fram að afhendingu, sbr. 7., 8. og 11. gr. laga um lausafjárkaup. Það sé deginum ljósara að útboð á rúmum 3.600 tonnum af salti gangi ekki þannig fyrir sig að það sé skilið eftir við höfn um borð í skipi, heldur sé slík vara afhent á ákvörðunarstað í þar til gerðum umbúðum og vigtuð á kostnað seljanda. Hafi stefnanda einnig hlotið að vera ljóst að opinber útboð gangi ekki þannig fyrir sig að svo stór hluti kaupverðs sé undanskilinn tilboðsverði og háður einhliða reikningsgerð seljanda ári eftir að viðskiptin væru um garð gengin. Tilboðið, ásamt þeim viðbótarreikningi sem stefnandi hafi framvísað um síðir, hefði ekki verið lægst heldur lang hæst og þar með hefði því ekki verið tekið. Engar löglíkur séu á slíkum viðskiptaháttum í ljósi tilgangs laga um opinber innkaup og framkvæmd útboða. Málatilbúnaður stefnanda sé því ekki aðeins í ósamræmi við þá venju í sambærilegum viðskiptum heldur einnig í ósamræmi við þá venju sem myndast hafi milli málsaðila um skilmála við útboð í saltkaupum fyrir Vegagerðina.

             Kveðst stefndi einnig byggja á þeirri málsástæðu að sýkna beri hann af kröfum stefnanda þar sem stefnandi hafi í engu lagt fram haldbær gögn til stuðnings kröfum sínum. Þær séu því órökstuddar. Í fyrsta lagi hafi hann ekki að því er verði séð lagt fram frumrit hins umþrætta reiknings. Í öðru lagi hafi hann ekki lagt fram gögn til stuðnings honum, t.d. skilagreinar fyrir vöru- og vigtargjöldum, samninga og eftir atvikum reikninga fyrir uppskipun, sekki eða sekkjun frá þeim tíma er tilboðið hafi verið gert og saltið afhent. Sé því þeim liðum í reikningsgerð stefnanda mótmælt sem röngum. Stefnandi hafi að vísu lagt fram yfirlit yfir ýmsa kostnaðarliði en þær tölur séu þó í engu samhengi við gögn málsins og skýri ekki neitt. Í þriðja lagi sé hvergi dregið frá skilagjald af sekkjum, en gera verði ráð fyrir því að stefnandi hafi fengið það greitt. Þannig hafi stefnandi ekki sýnt fram á með sundurliðun og eftir atvikum gögnum frá þeim tíma er hann bauð í viðskiptin að tilboð hans hafi verið án þessara liða, en fyrir því beri hann ótvírætt sönnunarbyrði. Reikningur stefnanda og þar með dómkröfur hans séu því með öllu órökstuddar og af þeim sökum sjálfstæð ástæða til sýknu. Stefnandi hafi á engum stigum sannað að tilboð hans og reikningur frá 23. apríl 2003 hafi verið án þeirra liða sem um er deilt í málinu.

             Með vísan til framanritaðs telji stefndi því sannað að í tilboði stefnanda þann 31. janúar 2002 hafi verið innifalinn allur sá kostnaður sem hann krefji nú um til viðbótar. Dómkröfur stefnanda eigi sér þannig enga stoð í þeim samningi sem komist hafi á í kjölfar útboðsins eða öðrum lögskiptum.

             Til stuðnings lækkunarkröfu kveðst stefndi byggja á öllum framangreindum málsástæðum og lagarökum, m.a. sökum þess að ekki hafi verið dregið frá skilagjald af sekkjum. Þá kveðst stefndi mótmæla dráttarvaxtakröfu stefnanda, einkum upphafstíma þeirra. Verði í fyrsta lagi miðað við dómsuppkvaðningu ef að einhverju leyti verði fallist á málatilbúnað stefnanda.

             Kröfu sína um málskostnað kveðst stefndi í öllum tilvikum styðja við XXI. kafla laga nr. 91/1991.

IV.

Niðurstaða:

             Formhlið málsins.

             Stefndi hefur í greinargerð sinni gert kröfu um að málinu verði vísað frá þar sem það sé höfðað á röngu varnarþingi. Stefndi og fyrirsvarsmaður hans eigi aðsetur í Reykjavík og sé sérákvæði 3. mgr. 33. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála skýlaust hvað þetta varðar og gangi framar öðrum ákvæðum laganna, s.s. 36. gr. sem stefndi hefur vísað til í stefnu sinni varðandi rök fyrir varnarþingi.

Samkvæmt áliti fræðimanna hefur V. kafli einkamálalaganna um varnarþing það sameinkenni að allar reglur kaflans, þ. á m. 3. mgr. 33. gr., eru frávíkjanlegar og er því aldrei skylt að styðjast við eina reglu fremur en aðra þar sem fleiri en einn kostir koma til greina. Með hliðsjón af því verður ekki fallist á kröfu stefnda um frávísun málsins.

             Efnishlið málsins.

Í janúar 2002 fór fram útboð á vegum stefnda Ríkiskaupa fyrir hönd Vegagerðarinnar vegna saltkaupa til rykbindingar. Fór opnun tilboða fram 31. janúar sama ár og bárust fjögur tilboð.  Reyndist tilboð stefnanda lægst og sendi stefndi innkaupapöntun til stefnanda 11. febrúar sama ár tilboðinu til staðfestingar. Stefnandi sá síðan um að flytja saltið til landsins og skipa því upp í þær hafnir sem stefndi hafði óskað eftir. Í kjölfarið reis ágreiningur milli aðila um uppgjör vegna saltkaupanna og er mál þetta risið út af því.

             Stefnandi hefur byggt mál sitt á því að þar sem kveðið sé á um CIF skilmála í útboðslýsingunni hafi hann ekki borið ábyrgð á neinum þeim kostnaði sem féll til vegna afhendingar vörunnar eftir að skipið var komið í viðkomandi hafnir. Hafi tilboð hans ekki miðast við það að saltið skyldi afhent í stórsekkjum enda hafi það ekki komið fram í skilmálum útboðsins. Kveðst stefnandi ekki kannast við að hafa fengið í hendur tilkynningu dagsetta 23. janúar 2002, sem stefndi kveðst hafa sent honum með símbréfi, þar sem meðal annars kemur fram að saltið skyldi afhent í stórsekkjum til stefnda. Þvert á móti hafi hann bókað athugasemd um þetta atriði í fundargerð á opnunarfundinum 31. janúar sama ár. Hafi stefnandi aldrei samþykkt neina breytingu á útboðsskilmálunum og eiga þeir því að gilda óbreyttir gagnvart honum. Kostnaður sem fallið hafi á vöruna eftir afhendingu til stefnda hafi ekki verið innifalinn í tilboði stefnanda.

             Stefndi hefur meðal annars reist málatilbúnað sinn á því stefnandi hafi átt að bera þann kostnað sem hann nú krefur stefnda um. Það komi skýrt fram í lið 1.3. í útboðslýsingunni að tilboð skuli innifela allan kostnað bjóðanda af viðskiptunum hverju nafni sem hann nefnist, hvort sem um væri að ræða kostnað við uppskipun, sekki, sekkjun eða vöru- og vigtargjöld. Ennfremur hafi stefnanda verið ljóst að ekki hafi átt að afhenda saltið við hafnarbakkann án uppskipunar, heldur hafi átt að afhenda stefnda það í stórsekkjum. Þessu til stuðnings kveðst stefndi vísa til tilkynningar sem send hafi verið öllum bjóðendum, þ. á m. stefnanda, með símbréfi þann 23. janúar 2002. Engar athugasemdir hafi hins vegar borist frá stefnanda um að einhver kostnaður stæði út af í þeim tilboðsfjárhæðum sem lagðar voru til grundvallar. Í lið 1.4. í útboðslýsingunni frá janúar 2002 er tekið fram að óskað sé eftir CIF

tilboðum og skuli „miða við saltið komið á viðkomandi hafnir“. Þetta er síðan áréttað í lið 3. í útboðslýsingunni þar sem stendur feitletrað í sviga: „(Cif = cost-insurance and freight)“. Samkvæmt skilgreiningu á CIF skilmálum felst í þeim að seljanda ber að greiða kostnað við flutning vöru í höfn kaupanda. Inn í þeim kostnaði er meðal annars frakt, vátrygging vörunnar og ýmis aðflutningsgjöld. Af því leiðir að kaupandi skal bera þann kostnað sem fellur til eftir að varan er komin í viðkomandi hafnir, m.a. kostnað við uppskipun og hafnargjöld. Í útboðslýsingunni er einnig að finna ákvæði í lið 1.3. þar sem segir að tilboð skuli „innifela allan kostnað bjóðanda af viðskiptunum hverju nafni sem hann nefnist, þ.m.t. virðisaukaskattur þar sem það á við“. Að mati dómsins eru ákvæðin í liðum 1.3. og 1.4. ósamrýmanleg þar sem þau ganga í berhögg hvort við annað. Samkvæmt almennum túlkunarreglum samningaréttar skal túlka umdeilanleg eða óljós samningsákvæði þeim aðila í óhag er einhliða stóð að samningu þeirra. Þar sem stefndi annaðist skilmálagerðina og ósamræmi er milli ákvæða í skilmálunum verður að túlka þá stefnanda í hag og leggja til grundvallar að CIF skilmálar hafi gilt.

             Óumdeilt er í málinu að stefndi sendi öllum bjóðendum, þ. á m. stefnanda, tilkynningu með símbréfi 23. janúar 2002 þar sem meðal annars kom fram að seljandi skyldi afhenda saltið í stórsekkjum. Því til stuðnings má benda á staðfestingu símbréfssendingarinnar sem lögð hefur verið fram í málinu. Hins vegar er alls óvíst hvort stefnanda barst þessi tilkynning, en hann hefur staðfastlega neitað því, og telst það því ósannað. Hvað sem því líður verður þó að leggja til grundvallar að stefnanda hafi verið efni tilkynningarinnar ljóst í síðasta lagi áður en tilboðin voru opnuð á fundinum 31. janúar 2002. Þessu til staðfestingar er framburður Jóns Rúnars Halldórssonar fyrirsvarsmanns stefnanda fyrir dómi, en hann bar að tilkynningin hefði verið lesin upp á fundinum. Einu viðbrögð stefnanda voru þau að bóka athugasemd í fundargerð um að umrædd tilkynning hefði ekki borist honum. Með því að aðhafast ekkert frekar verður að túlka háttsemi stefnanda með þeim hætti að hann hafi sætt sig við það að inni í tilboðsverði hans fælist kostnaður við að afhenda saltið í stórsekkjum til stefnda. Stefnandi hefur lagt fram í málinu sundurliðun á stefnufjárhæðinni. Þar kemur fram að kostnaður við uppskipun var 3.960.250 krónur, vöru- og vigtargjöld 368.650 krónur og sekkir og sekkjun 3.504.000 krónur án virðisaukaskatts, en þar af nam kostnaður við sekkjunina 2.044.912 krónum með virðisaukaskatti. Þessa síðastnefndu fjárhæð skal því stefnandi sjálfur bera.

Í sömu tilkynningu segir að kaupandi skili síðan tómum sekkjum gegn skilagjaldi. Að mati dómara ber að túlka þessi orð með þeim hætti að auk þess að fela í sér kostnað við sekkjun saltsins hafi í tilboði stefnanda einnig falist verð sekkjanna. Í málinu liggur ekkert fyrir um afdrif sekkjanna og verður því ekki í máli þessu lagður dómur á það. Heildarverð sekkja auk kostnaðar við sekkjun er samtals 3.504.000 krónur án virðisaukaskatts, en þar af nam kostnaður við sekkjunina 2.044.912 krónur með virðisaukaskatti. Verð sekkjanna er því 2.317.568 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti (3.504.000 kr. * 24,5 % vsk. – 2.044.912 kr. = 2.317.568 kr. (án virðisaukaskatts er þessi upphæð 1.861.500 kr.)). Ber að lækka dómkröfu stefnanda sem því nemur.

             Eins og að framan hefur verið rakið skal kaupandi bera allan kostnað af vöru eftir að hún er komin í hans höfn ef skilmálarnir eru CIF, ef ekki er samkomulag um annað. Sá kostnaður sem meðal annars bættist við eftir að varan var komin í höfn hjá stefnda var kostnaður við uppskipun og vöru- og vigtargjöld. Stefndi hefur ekki reynt að sýna fram á að í margumræddri tilkynningu frá 23. janúar 2002 hafi þessi kostnaður verið innifalinn. Með hliðsjón af því sem og skilgreiningu á hugtakinu CIF skal stefndi dæmdur til að greiða stefnanda þann kostnað sem er að fjárhæð 4.328.900 krónur (uppskipun 3.960.250 kr. og vöru- og vigtargjöld 368.650 kr.) eða samtals 5.389.481 krónu að meðtöldum virðisaukaskatti.

             Stefnda ber að greiða stefnanda dráttarvexti af tildæmdri fjárhæð mánuði eftir dagsetningu innheimtubréfs stefnanda til stefnda sem dagsett var 20. maí 2003 og reiknast því dráttarvextir frá 20. júní sama ár, sbr. 3. mgr. 5. gr. vaxtalaga nr. 38/2001.

Eftir framangreindum málsúrslitum og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefnda gert að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 400.000 krónur.

Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómari dæmir mál þetta.

D ó m s o r ð :

             Stefndi, Ríkiskaup, greiði stefnanda, Saltkaupum ehf., 5.389.481 krónu með dráttarvöxtum frá 20. júní 2003 til greiðsludags.

             Stefndi greiði stefnanda 400.000 í málskostnað.