Hæstiréttur íslands

Mál nr. 1/2005


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Miðvikudaginn 5

 

Miðvikudaginn 5. janúar 2004.

Nr. 1/2005.

Lögreglustjórinn á Keflavíkurflugvelli

(Eyjólfur Kristjánsson fulltrúi)

gegn

X

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. A og b liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. og b. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. desember 2004, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 3. og 4. janúar 2005. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 30. desember 2004, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 7. janúar nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.

Samkvæmt gögnum málsins er varnaraðili grunaður um brot gegn 2. og 3. mgr. 57. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga, en neitar sök. Í hinum kærða úrskurði eru málavextir raktir eins og sóknaraðili lýsti þeim við meðferð málsins í héraði. Í greinargerð sóknaraðila til Hæstaréttar kemur auk þess meðal annars fram að lögregla hafi fundið ljósmyndir í farangri varnaraðila af réttum handhöfum vegabréfa samferðamanna hans. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 30. desember 2004.

Sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli hefur í dag krafist þess að kærði, X, sænskum ríkisborgara, fæddum 1. desember 1977, verði með úrskurði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til kl. 16:00 föstudaginn 7. janúar 2005.

Við fyrirtöku málsins í dag mótmælti kærði gæsluvarðhaldskröfunni.

Þann 29. desember sl. kl. 17:10 hafði lögreglan afskipti af þremur aðilum í Flugstöð Leifs Eiríkssonar sem  höfðu komið með flugi Flugleiða FI-319 frá Osló. Þau kváðust vera sænskir ríkisborgarar á leið til Baltimore í Bandaríkjum Norður Ameríku. Við skoðun á vegabréfum aðilanna kom í ljós að vegabréf eins þeirra var falsað og að vegabréf annars var vegabréf annars manns. Vegabréf kærða virtist vera ófalsað en við uppflettingu í SIS, upplýsingakerfi Schengen, kom í ljós smellur á kærða. Í ljósi þess og  að vegabréf hinna tveggja aðilanna reyndust ekki í lagi  og að aðilarnir voru samferða kærða var ákveðið að taka þau öll til frekari skoðunar á landamærunum. Upplýsingar úr bókunarkerfi Flugleiða hefur sýnt að aðilarnir eru bókaðir af sama aðila og fyrir ferðir þeirra greitt með einu og sama kreditkortinu. Þá kemur einnig fram í bókunarkerfum Flugleiða að kærði hefur áður ferðast í gegnum Ísland til Baltimore. Þannig mun hann hafa farið við annan mann til Baltimore þann 11. ágúst sl. Áttu kærði og samferðamaður hans í þeirri ferð bókað far til baka þann 10. september. Kærði breytti farmiða sínum og fór til baka þann  17. ágúst en samferðamaður hans mætti ekki í flug sitt til baka frá Bandaríkjunum þann 10. september. Upplýsingar frá landamæralögreglu í Svíþjóð staðfesta að kærði hefur á sl. 5 mánuðum fengið útgefin að minnsta kosti þrjú vegabréf og að þann 27. júlí sl. var aðila er bar vegabréf kærða frávísað frá Þýskalandi.

 

Rannsókn máls þessa er á frumstigi. Kærði er grunaður um standa að skipulagðri starfsemi til að aðstoða útlendinga við að koma ólöglega til landsins eða til annars ríkis. Beðið er gagna varðandi kærða frá lögregluyfirvöldum í Svíþjóð og Þýskalandi. Ætlað brot kærða getur varðað allt að 6 ára fangelsi , sbr. 3. mgr. 57. gr. laga um útlendinga.

Um lagarök vísast til 3. mgr. 67. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33, 1944, sbr. 5. gr. laga nr. 97, 1995 og a og b liða 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19, 1991.

 

Í málinu er fram kominn rökstuddur grunur um að hann hafi gerst sekur um brot á  2. og 3. mgr. 57. gr. laga nr. 96/2002 og verður að telja nauðsynlegt að fram fari frekari  rannsókn á þátt kærða í broti A og B sem voru handtekin með honum við komuna til Íslands.  Hætta þykir á að kærði muni hafa samband við hugsanlega samverkamenn sína ef hann heldur óskertu frelsi sínu meðan frumrannsókn fer fram og reyni jafnvel að komast úr landi, og er því fallist á að skilyrði laga sem vísað er til séu uppfyllt og því beri að verða við kröfu sýslumanns eins og hún er sett fram og nánar greinir í úrskurðarorði.

Guðmundur L. Jóhannesson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

            

ÚRSKURÐARORÐ

Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 7. janúar 2005 kl. 16:00.