Hæstiréttur íslands

Mál nr. 136/2009


Lykilorð

  • Kærumál
  • Þóknun verjanda


Mánudaginn 6

 

Mánudaginn 6. apríl 2009.

Nr. 136/2009.

Ríkislögreglustjóri

(enginn)

gegn

X

(Karl Axelsson hrl.)

 

Kærumál. Þóknun verjanda.

K var skipaður verjandi X við lögreglurannsókn, en ríkissaksóknari tók þá ákvörðun að fella málið niður. Gerði X þá kröfu um að héraðsdómari ákvarðaði K þóknun vegna framangreindra starfa og var það gert. Kærði X úrskurð héraðsdóms til Hæstaréttar og krafðist þess að þóknun til K yrði hækkuð, en með dómi Hæstaréttar var þóknunin hækkuð.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. mars 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður héraðsdóms Reykjavíkur 16. mars 2009, þar sem úrskurðað var um þóknun til handa Karli Axelssyni hæstaréttarlögmanni, skipuðum verjanda varnaraðila. Kæruheimild er í d. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði breytt á þá leið að skipuðum verjanda hans verði úrskurðaðar 3.667.194 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti, í þóknun úr ríkissjóði vegna rannsóknar ríkislögreglustjóra í máli nr. 006-2004-0076 á hendur honum. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili hefur ekki látið málið til sín taka.

Varnaraðila var skipaður verjandi 23. nóvember 2006 á grundvelli 1. mgr. 35. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála og 7. mgr. 103. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt vegna rannsóknar ríkislögreglustjóra á meintum brotum gegn lögum nr. 90/2003, lögum nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga og 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ekki var skylt að skipa varnaraðila verjanda, en heimild er til slíkrar skipunar eftir ósk sakbornings við rannsókn máls ef ástæða er til þess að mati dómara með tilliti til eðlis brots og allra aðstæðna. Sambærilegt ákvæði er nú í 2. mgr. 30. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Þeim sem borinn er sökum er einnig, samkvæmt 1. mgr. 32. gr. laga nr. 88/2008, heimilt á öllum stigum máls að ráða á sinn kostnað lögmann til þess að gæta hagsmuna sinna. Er þetta ákvæði efnislega óbreytt frá því sem var í eldri lögum. Þóknun skipaðs verjanda var ákveðin 13. febrúar 2009 samkvæmt 38. gr. laga nr. 88/2008 og endurskoðuð og rökstudd að kröfu sóknaraðila með hinum kærða úrskurði.

Varnaraðili krefst hér meðal annars greiðslu vegna vinnu verjanda út af deilu ríkislögreglustjóra og skattrannsóknarstjóra um afhendingu gagna sem vörðuðu varnaraðila. Sá kostnaður sem varnaraðili ákvað að stofna til af þessu tilefni fellur ekki undir störf verjanda sem þóknun er greidd fyrir samkvæmt 38. gr., sbr. 2. mgr. 30. gr., laga nr. 88/2008. Sama á almennt við um kostnað vegna vinnu annarra lögfræðinga sem aðstoða verjanda með þeim undantekningum sem greinir í 2. mgr. 35. gr. laga nr. 88/2008. Mál þetta er hins vegar viðamikið og útheimti lestur gagna og bréfa og ritun bréfa umfram það sem venjulegt má telja. Jafnframt verður litið til vinnu við tvær ítarlegar greinargerðir með rökstuðningi fyrir þeirri kröfu varnaraðila að málið skyldi fellt niður. Sú varð niðurstaða málsins. Þegar allt þetta er virt þykir mega áætla varnaraðila 85 klukkustundir vegna vinnu verjanda og fari um endurgjald samkvæmt viðmiðunarreglum dómstólaráðs í tilkynningu ráðsins nr. 3/2007 11.200 krónur fyrir hverja vinnustund eða samtals 1.185.240 krónur þegar tekið hefur verið tillit til virðisaukaskatts.

Um kærumálskostnað varnaraðila fer eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Þóknun Karls Axelssonar hæstaréttarlögmanns, skipaðs verjanda varnaraðila, X, við rannsókn máls ríkislögreglustjóra nr. 006-2004-0076 er ákveðin 1.185.240 krónur og greiðist úr ríkissjóði.

Kærumálskostnaður varnaraðila 150.000 krónur greiðist úr ríkissjóði.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. mars 2009.

Karl Axelsson hrl. hefur krafist þess með bréfi, dagsettu 18. febrúar 2009, að úrskurðað verði af hálfu dómsins um þóknun honum til handa vegna starfa hans sem skipaður verjandi X, kt. [...], vegna rannsóknar máls nr. 006-2004-0076. Um lagagrundvöll fyrir kröfunni vísar lögmaðurinn til 1. mgr. 181. gr. i.f. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. d-lið 1. mgr. 192. gr. sömu laga. Lögmaðurinn skilaði greinargerð ásamt fylgiskjölum vegna málsins 10. þessa mánaðar þar sem nánari grein var gerð fyrir kröfu hans.

Í bréfi ríkislögreglustjóra til Héraðsdóms Reykjavíkur 21. nóvember 2006 var greint frá því að fyrrnefndur X hefði beiðst þess að Karl Axelsson hrl. yrði skipaður verjandi hans vegna rannsóknar ríkislögreglustjóra á ætluðum brotum hins fyrrnefnda gegn lögum um tekjuskatt og eignarskatt nr. 75/1981, sbr. lög nr. 20/2003, lögum um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995 og 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með vísan til 7. mgr. 103. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, var Karl Axelsson hrl.  skipaður verjandi X með bréfi dómsins 23. nóvember 2006.  

Með bréfi verjanda 23. desember 2008, mótteknu 29. sama mánaðar, var þess beiðst að dómurinn ákvarðaði honum þóknun vegna starfa hans sem verjandi X við framangreinda rannsókn. Í var gerð krafa um þóknun fyrir verjandastarfann að fjárhæð 4.075.554 krónur að meðtöldum útlögðum kostnaði og virðisaukaskatti. Tekið var fram að X hefði þegar innt þá fjárhæð af hendi. Í bréfinu kom fram að í málið hefði verið varið 270 vinnustundum. Fyrir dóminum lá jafnframt bréf ríkissaksóknara frá 17. desember 2008 þess efnis að málið hefði verið fellt niður gagnvart X með vísan til 112. gr. laga nr. 19/1991. Var skipuðum verjanda ákveðin þóknun vegna starfa hans á rannsóknarstigi málsins með vísan til 44. gr. laga fyrrgreindra laga, sbr. nú 38. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Var þóknunin  ákveðin 448.000 krónur, auk virðisaukaskatts að fjárhæð 109.760 krónur, eða samtals 557.760 krónur. Ákvörðunin  var tilkynnt lögmanninum með bréfi 13. febrúar 2009.

Af hálfu verjanda er lögð áhersla á mikilvægi þess að horft sé til þess að málið hafi verið sérstakt og snúist að litlu leyti um skýrslutökur hjá lögreglu. Frá upphafi hafi staðið yfir óformleg og formleg hagsmunagæsla gagnvart lögreglu og saksóknara.  Hafi hagsmunagæslan snúist um þá grundvallarspurningu hvort það stæðist ákvæði stjórnarskrár og mannréttindasáttmála Evrópu að rannsaka og ákæra mann hjá lögreglu fyrir verknað sem þegar höfðu verið ákvörðuð refsikennd viðurlög fyrir í skattkerfinu.

Við ákvörðun þóknunar er höfð hliðsjón af vinnu verjanda vegna skýrslutaka af sakborningi 21. nóvember 2006 og 9. maí 2008, er tóku samtals um fjórar klukkustundir, sem og undirbúningi fyrir skýrslugjafirnar. Þá er einnig litið til þess að á sama tíma og rannsókn ríkislögreglustjóra fór fram var skattamál sakbornings jafnframt til meðferðar hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins. Að auki er tekið tillit til þess að við rannsókn málsins var gerð húsleit, sem sakborningur var ekki beinn aðili að, en hafði þar engu að síður hagsmuna að gæta. Að lokum er horft til bréfaskrifta verjanda til ríkissaksóknara vegna málsins. Að mati dómsins þykir hæfilegur tímafjöldi fyrir þessa vinnu metinn samtals fjörtíu klukkustundir. Fyrir hverja vinnustund greiðast 11.200 krónur samkvæmt viðmiðunarreglum dómstólaráðs samkvæmt tilkynningu ráðsins nr. 3/2007. Samkvæmt því er hæfileg þóknun fyrir umræddan starfa 557.760 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Úrskurðinn kvað upp Helgi I. Jónsson dómstjóri.

Úrskurðarorð:

Greiða ber Karli Axelssyni hrl., skipuðum verjanda X,  557.760 krónur í þóknun úr ríkissjóði vegna rannsóknar máls ríkislögreglustjóra nr. 006-2004-0076.