Hæstiréttur íslands
Mál nr. 150/2011
Lykilorð
- Skuldamál
- Málsástæða
|
|
Fimmtudaginn 17. nóvember 2011. |
|
Nr. 150/2011.
|
Guðmundur A. Birgisson (Sigurður Sigurjónsson hrl.) gegn Landsbankanum hf. (Erlendur Þór Gunnarsson hrl.) |
Skuldamál. Málsástæður.
L hf. krafði G um greiðslu skuldar vegna innistæðulausra færslna á bankareikningi G. Í niðurstöðu héraðsdóms, sem staðfest var í Hæstarétti með vísan til forsendna hans, segir m.a. að í reikningsyfirlitum, sem G bæri ekki brigður á að hafa fengið, væru ákvæði þess efnis að athugasemdir óskuðust gerðar innan 20 daga frá viðtöku yfirlitsins, annars teldist reikningurinn réttur. Var G því gert að greiða L hf. skuldina. Fyrir Hæstarétti hélt G því fram að honum hefðu ekki borist yfirlit yfir inn- og útborganir af reikningnum á árinu 2007. Þar sem þessi málsástæða hafði ekki verið höfð uppi af hans hálfu í héraði varð ekki litið til hennar við úrlausn málsins fyrir Hæstarétti.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Eiríkur Tómasson og Greta Baldursdóttir.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 15. mars 2011. Hann krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af kröfu stefnda, en til vara að krafan verði lækkuð. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Fyrir liggur að nafni NBI hf. var breytt í Landsbankinn hf. 28. apríl 2011.
Fyrir Hæstarétti heldur áfrýjandi því fram að honum hafi ekki á árinu 2007 borist yfirlit yfir inn- og útborganir á bankareikningi þeim sem málið lýtur að. Þessi málsástæða var ekki höfð uppi af hans hálfu í héraði og verður því ekki litið til hennar við úrlausn málsins hér fyrir dómi, sbr. 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur eins og í dómsorði greinir.
Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Áfrýjandi, Guðmundur A. Birgisson, greiði stefnda, Landsbankanum hf., 76.296.747 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 30. janúar 2009 til greiðsludags. Ákvæði hins áfrýjaða dóms um málskostnað er óraskað.
Áfrýjandi greiði stefnda 250.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Suðurlands 15. desember 2010.
Mál þetta, sem tekið var til dóms8. nóvember sl., er höfðað með stefnu birtri 7. apríl 2009.
Stefnandi er NBI hf., kt. 471008-0280, Austurstræti 11, 155 Reykjavík.
Stefndi er Guðmundur A. Birgisson, kt. 010761-2049, Núpum 3, 801 Selfossi.
Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 76.296.747 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 3. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 og 1. mgr. 6. gr. sömu laga af 76.296.747 krónum frá 30. janúar 2009 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi vaxtavaxta samkvæmt 12. gr. sömu laga er leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti. Loks krefst stefnandi málskostnaðar að mati dómsins auk virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.
Stefndi krafðist þess aðallega að málinu yrði vísað frá dómi en með úrskurði upp kveðnum 3. febrúar sl. var frávísunarkröfunni hafnað.
Stefndi krefst nú sýknu, en til vara sýknu að svo stöddu. Í báðum tilvikum krefst stefndi málskostnaðar að mati dómsins auk virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.
Málavextir.
Málavöxtum er svo lýst í stefnu að 22. apríl 1997 hafi stefndi stofnað tékkareikning nr. 193 við útibú stefnanda að Austurvegi 20 á Selfossi. 30. janúar 2009 hafi innistæðulausar færslur á reikningnum numið 76.296.747 krónum og hafi reikningnum þá verið lokað. Stefnda hafi verið sent innheimtubréf 9. febrúar 2009.
Stefndi lýsir málavöxtum svo að stefndi hafi verið í verðbréfaviðskiptum við Landsbanka Íslands hf. og að langstærstum hluta séu hreyfingar á reikningi stefnda vegna slíkra viðskipta og hafi þær verið felldar á reikninginn án beiðni og samþykkis stefnda. Stefndi hefði sett tryggingar fyrir fjárhæð verðbréfaveltu af sinni hálfu, en Landsbanki Íslands hf. hafi farið langt yfir það. Stefnandi hafi verið stofnaður upp úr Landsbanka Íslands hf. Sérstök skilanefnd, sem tilgreind sé sem stjórn bankans og skipuð hafi verið 7. október 2008, fari með tiltekna úrvinnslu, einkum á grundvelli 9. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, og hafi eignum verið skipt á milli stefnanda og Landsbanka Íslands hf. Auk þess hafi Héraðsdómur Reykjavíkur skipað sérstaka slitastjórn samkvæmt ákvæðum laga nr. 161/2002. Skilanefnd Landsbanka Íslands hf. hafi gert háar kröfur á hendur stefnda vegna meintra verðbréfaviðskipta sem stefndi hafi gert verulegar athugasemdir við. Þau álitamál séu ekki til úrlausnar í máli þessu og yrðu þá útkljáð í hugsanlegu dómsmáli milli skilanefndar Landsbanka Íslands hf. og stefnda.
Málsástæður og lagarök stefnanda.
Stefnandi byggir kröfu sína á því að 30. janúar 2009 hafi innistæðulausar færslur á reikningi stefnda hjá stefnanda, nr. 193, numið 76.296.747 krónum. Skuldin hafi ekki fengist greidd þrátt fyrir innheimtutilraunir og því hafi reynst nauðsynlegt að höfða mál til greiðslu hennar.
Um lagarök kveðst stefnandi vísa til meginreglna kröfu- og samningaréttar um greiðsluskyldu fjárskuldbindinga. Varðandi kröfu um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti, vísar stefnandi til reglna 3. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 og 1. mgr. 6. gr. og 12. gr. sömu laga. Kröfu um málskostnað styður stefnandi við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991. Um kröfu um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun vísar stefnandi til laga nr. 50/1988 en stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og beri því nauðsyn til að fá dóm fyrir skattinum úr hendi stefnda. Um varnarþing vísar stefnandi til 32. gr. laga nr. 91/1991.
Málsástæður og lagarök stefnda.
Stefndi byggir kröfu sína um sýknu á því að hann hafi hvorki beðið um né heimilað stærstan hluta af færslum á umræddum tékkareikningi. Varakrafa um sýknu að svo stöddu er byggð á því að fyrst þurfi að útkljá það milli skilanefndar bankans og stefnda hvort fyrir sé að fara réttmætum kröfum á hendur stefnda. Eftir að það sé orðið ljóst yrði krafa stefnanda fyrst dómtæk.
Um lagarök vísar stefndi til meginreglna um gildi samninga og hvort samningar hafi komist á, sbr. 36. gr. c laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Stefndi vísar einnig til laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti. Málskostnaðarkröfu sína byggir stefndi á 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 129. gr. sömu laga. Um kröfu um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun vísar stefndi til laga nr. 50/1988.
Niðurstaða.
Stefnandi hefur í máli þessu lagt fram gögn vegna innistæðulausra færslna á tiltekinn reikning stefnda hjá stefnanda og kemur þar fram að þann 30. janúar 2009 hafi innistæðulausar færslur numið stefnufjárhæðinni og hafi reikningnum þá verið lokað. Í þessum gögnum kemur fram hver fjárhæð kröfunnar er og útskýring á því við hvaða dag krafa stefnanda um dráttarvexti er miðuð. Í yfirlitum þeim, sem stefndi hefur ekki borið brigður á að hafa fengið, er ákvæði þess efnis að athugasemdir óskist gerðar innan 20 daga frá viðtöku yfirlitsins, annars teljist reikningurinn réttur. Stefndi heldur því fram að hann hafi hvorki beðið um né heimilað stærstan hluta umræddra færslna en ekki er að sjá að hann hafi gert neinar athugasemdir af þessum sökum fyrr en við framlagningu greinargerðar í máli þessu. Þá hefur stefndi engin gögn lagt fram þessari málsástæðu til stuðnings. Stefndi vísar einnig til 36. gr. c í lögum nr. 7/1936 án þess að rökstyðja með hvaða hætti sú lagagrein geti átt við um viðskipti aðila. Er því ekki unnt að byggja á þeirri lagagrein við úrlausn máls þessa. Þá gerir stefndi þá varakröfu að sýknað verði að svo stöddu þar sem útkljá þurfi fyrst milli skilanefndar bankans og stefnda hvort kröfur stefnanda á hendur stefnda séu réttmætar. Að mati dómsins gerir stefndi enga tilraun til þess að útskýra hvaða óleystu ágreiningsefni það eru sem koma í veg fyrir að leysti verði úr ágreiningi aðila í máli þessu. Ber því að hafna þessari málsástæðu stefnda. Þá telur stefndi að stefnandi hafi brotið rétt á honum samkvæmt lögum nr. 108/2007 en engan rökstuðning er að finna fyrir þeirri staðhæfingu stefnda. Verður þeirri málsástæðu því einnig hafnað.
Með vísan til alls framangreinds verða kröfur stefnanda teknar til greina og stefnda gert að greiða stefnanda 800.000 krónur í málskostnað að meðtöldum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.
Hjörtur O. Aðalsteinsson dómstjóri kveður upp þennan. Dómsuppkvaðning hefur dregist fram yfir lögbundinn frest en dómari og lögmenn aðila töldu ekki þörf endurflutnings.
D Ó M S O R Ð:
Stefndi, Guðmundur A. Birgisson, greiði stefnanda, NBI hf., 76.296.747 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 3. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 og 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá 30. janúar 2009 til greiðsludags og 800.000 krónur í málskostnað að meðtöldum virðisaukaskatti af málflutningsþóknun.