Hæstiréttur íslands

Mál nr. 618/2013


Lykilorð

  • Uppsögn
  • Uppsagnarfrestur
  • Ráðningarsamningur
  • Vinnusamningur
  • Laun


                                     

Fimmtudaginn 6. mars 2014.

Nr. 618/2013.

Pípulagnaverktakar ehf.

(Tómas Jónsson hrl.)

gegn

Birgi Frey Lúðvígssyni

(Karl Ó. Karlsson hrl.)

Uppsögn. Uppsagnarfrestur. Ráðningarsamningur. Vinnusamningur. Laun.

B höfðaði mál gegn P ehf. og krafðist greiðslu launa í uppsagnarfresti. Í ráðningarsamningi hafði verið kveðið á um að B skyldi starfa fyrir P ehf. í Noregi en ekki var fallist á með P ehf. að B hefði fyrirgert rétti sínum til launa í uppsagnarfresti með því að koma ekki til starfa fyrir P ehf. á Íslandi í kjölfar uppsagnarinnar. Meðal annars var vísað til óskýrs orðalags uppsagnarbréfsins. Þá var fallist á með B að samningur sem gerður var milli P ehf. og starfsmanna félagsins í Noregi um leiðréttingu launa eftir að B lét af störfum tæki einnig til B. Var því fallist á kröfur B.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 19. september 2013. Hann krefst aðallega sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að hann verði einungis dæmdur til að greiða stefnda 531.118 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 289.800 krónum frá 1. september 2011 til 1. október sama ár, af 378.000 krónum frá þeim degi til 1. nóvember 2011 en af 531.118 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Í því tilviki krefst hann þess að málskostnaður verði felldur niður á báðum dómstigum.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Stefndi störf hjá áfrýjanda í apríl 2006 og var gerður við hann ótímabundinn ráðningarsamningur með gagnkvæmum uppsagnarfresti samkvæmt gildandi samningi milli Samtaka atvinnulífsins og Sveinafélags pípulagningamanna frá 28. júní 2004. Sveinafélag pípulagningamanna sameinaðist Félagi iðn- og tæknigreina og tók sameiningin gildi 1. janúar 2008. Þá mun kjarasamningur Sveinafélags pípulagningamanna hafa fallið niður og almennur kjarasamningur Samiðnar við Samtök atvinnulífsins tekið við. Ágreiningslaust er að síðastnefndur samningur, með gildistíma frá 22. júní 2011 til 31. janúar 2014, tók til stefnda. Í 12. kafla samningsins eru ákvæði um uppsagnarfrest og fjallar grein 12.1.3.3 hans um starfsmenn án sveinsprófs. Þar segir að uppsagnarfrestur sé þrír mánuðir eftir fimm ár hjá sama fyrirtæki og miðist við mánaðarmót.

Málsaðilar gerðu einnig með sér samning 7. maí 2011 sem ber yfirskriftina ,,Ráðningarsamningur um tímabundið starf í Noregi“. Stefndi mun hafa gegnt störfum hjá áfrýjanda samkvæmt samningnum í Noregi frá 13. júní 2011 til 8. júlí sama ár. Samkvæmt samningi þessum skyldi stefndi ,,ber[a] réttindi starfsaldurs til launa, orlofs og veikinda“ eins og það er orðað í samningnum. Í niðurlagi hans er vísað til samnings Samtaka atvinnulífsins og Sveinafélags pípulagningamanna frá 1. febrúar 2008 um kaup og kjör, skyldur og hlunnindi starfsmanns og fyrirtækis.       Áfrýjandi sagði stefnda upp störfum með bréfi 26. júlí 2011. Í bréfinu sagði að uppsagnarfrestur væri í samræmi við samninga og að ,,ekki verður um yfirvinnu að ræða út uppsagnarfrestinn né heldur reiknað með yður til starfa í Noregi.”

II

Að framan eru rakin ákvæði ráðningarsamnings aðila og kjarasamninga er giltu milli þeirra. Af þeim verður ráðið að gagnkvæmur uppsagnarfrestur aðila var þrír mánuðir, enda hafði stefndi starfað lengur en fimm ár hjá áfrýjanda.

Samkvæmt fyrrgreindu uppsagnarbréfi taldi áfrýjandi sig skuldbundinn til þess að greiða stefnda laun í uppsagnarfresti, þrátt fyrir þá málsástæðu er fyrst fram kom í greinargerð hans til héraðsdóms að ástæða uppsagnar stefnda hafi verið ætlað alvarlegt trúnaðarbrot hans. Ágreiningur er með aðilum um hvort stefndi hafi mátt álykta af efni bréfsins að vinnuframlags hans væri ekki lengur vænst eða hvort honum bæri að vinna störf sín á Íslandi í uppsagnarfresti. Telur áfrýjandi stefnda hafa fyrirgert rétti sínum til launa í uppsagnarfresti með því að koma þá ekki til starfa hér á landi.

 Samkvæmt ráðningarsamningi aðila frá 7. maí 2011 var ráð fyrir því gert að störf stefnda yrðu unnin í Noregi, en hinu tímabundna verkefni þar mun hafa lokið vorið 2012. Eins og atvikum er háttað í máli þessu og þegar litið er til óskýrs orðalags uppsagnarbréfsins, þar sem ekkert kom fram um ástæðu uppsagnarinnar, mátti stefndi líta svo á að honum bæri ekki að vinna í uppsagnarfresti, enda hafði áfrýjandi afþakkað vinnuframlag hans í Noregi. Hefur stefndi því ekki fyrirgert rétti sínum til launa í uppsagnarfresti.

III

Krafa stefnda er annars vegar vegna vangreiddra launa í uppsagnarfresti fyrir ágúst, september og október 2011, auk orlofs, orlofsuppbótar og desemberuppbótar og hins vegar vegna leiðréttingar á launum á grundvelli samnings 3. nóvember 2011 sem er á norsku, en í íslenskri þýðingu ber yfirskriftina „Viðauki/breytingar á vinnusamningi“. Aðilar samningsins voru tilgreindir áfrýjandi annars vegar og ,,Gunnar Bjarnason, Haukur Már Ingvarsson o.fl. (hér eftir nefndir launþegi)“ hins vegar. Í formála samningsins sagði að áður ,,hefur verið gerður vinnusamningur milli ofannefndra aðila. Þessi viðauki kveður á um launa- og starfskjör launþega þegar unnið er í Noregi, sbr. reglugerð um gildistöku kjarasamninga fyrir byggingarsvæði í Noregi. Að öðru leyti gildir sá samningur, sem fyrr var gerður, nema því aðeins að öðruvísi sé kveðið á  í þessum samningi.“ Eins og að framan greinir var stefndi ekki starfsmaður áfrýjanda er samningurinn var gerður.

Í grein 3.1 samningsins var kveðið á um ákveðinn launataxta og í grein 3.5 sagði að launþegi hafi móttekið og fallist á eftirágreiðslu í samræmi við skyldur vinnuveitanda samkvæmt reglugerð um gildistöku launasamninga „fyrir byggingarsvæði í Noregi ... fyrir vinnu sem áður var unnin í Noregi“. Með undirritun samningsins væri litið svo á að öllum þáttum varðandi kröfur um eftirágreiðslur væri lokið og um þær samið. Undir samninginn rituðu Þorsteinn Pétursson fyrir hönd áfrýjanda og tveir norskir lögmenn fyrir hönd ,,launþega“ auk áðurnefndra Gunnars Bjarnasonar og Hauks Más Ingvarssonar.

Um aðdraganda þess að samningur þessi var gerður liggur fyrir bréf lögmannsins Sven Ivar Sanstøl til vinnueftirlits Østfold og Akershus svæðisskrifstofu Lillestrøm,Trondheim, 4. nóvember 2011. Í upphafi þess segir að „Vitnað er til fyrirmæla Vinnueftirlitsins frá 03.10.22 og síðari bréfasamskipta“. Einnig sagði:  „Aðilar hafa orðið sammála um þau ágreiningsatriði sem eftir voru, og gerður hefur verið skriflegur vinnusamningur um fyrir hönd allra starfsmanna“ og vísað til fyrrgreinds samnings. Jafnframt bar fyrrnefndur starfsmaður áfrýjanda, Gunnar Bjarnason, fyrir dómi að tildrög samningsins hefðu verið þau að vinnueftirlitið í Noregi hefði komið á vinnustaðinn og óskað eftir upplýsingum starfsmanna um launakjör. Komið hefði í ljós að launakjör starfsmanna áfrýjanda hefðu ekki verið í samræmi við launakjör í Noregi. Hafi starfsmönnum áfrýjanda verið ráðlegt að útvega sér lögfræðing til þess að vinna að málinu, en markmiðið hafi verið að leiðrétta kjör starfsmanna áfrýjanda til samræmis þeim kjörum sem gildandi væru í Noregi. Hafi hann setið fundi sem haldnir voru í Noregi með lögfræðingum og þeir Haukur hefðu verið talsmenn starfsmannanna. Eftir samninginn hafi starfsmenn áfrýjanda fengið afturvirka leiðréttingu á launakjörum samkvæmt samningnum, en um mismikla leiðréttingu hefði verið að ræða. Hefði átt að miða hana við þann tíma er vinna hófst í Noregi.

Fyrrgreindur samningur er milli áfrýjanda og starfsmanna hans og átti samkvæmt efni sínu að gilda um launagreiðslur til starfsmanna áfrýjanda. Af aðdraganda samningsins og efni hans verður ályktað að starfsmenn þeir, sem samningurinn tók til, höfðu ekki fengið greidd laun sem voru í samræmi við lágmarkskjör í sambærilegum störfum á norskum vinnumarkaði. Í grein 3.5 fólst að áfrýjandi skuldbatt sig til þess að leiðrétta laun starfsmanna afturvirkt, til samræmis við launakjör þeirra er störfuðu á byggingasvæðum í Noregi og hefur áfrýjandi viðurkennt að laun hafi verið leiðrétt til samræmis við „niðurstöður samningaviðræðna“ þótt áhrif leiðréttingarinnar hafi verið misjöfn eftir starfsmönnum.

Í ljósi áðurnefnds bréfs Sven Ivar Sanstøl 4. nóvember 2011, þar sem fram kom að samningurinn væri gerður fyrir hönd allra starfsmanna áfrýjanda og þess að enginn fyrirvari var í samningnum sjálfum um að hann tæki einungis til ákveðinna starfsmanna er fallist á með stefnda að hann sé þar ekki undanskilinn.

 Af hálfu stefnda hefur því verið haldið fram að samkvæmt samningnum skyldi tímakaup hans í dagvinnu vera 149 norskar krónur fyrir 1. október 2011 en frá þeim tíma 200 norskar krónur. Hefur fjárhæðum þessum ekki verið andmælt af hálfu áfrýjanda, en kröfugerð stefnda tekur mið af þeim. Þá er ekki ágreiningur um upphafstíma vaxta, en sú málsástæða áfrýjanda að ekki hafi verið tekið tillit til greiðslna dagpeninga til stefnda við útreikning kröfu hans kom fyrst fram í greinargerð  til Hæstaréttar. Er hún því of seint fram komin, sbr. 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Samkvæmt öllu framangreindu verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest.

Eftir þessum úrslitum verður áfrýjandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Pípulagnaverktakar ehf., greiði stefnda, Birgi Frey Lúðvígssyni, 600.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 20. júní 2013.

Mál þetta, sem var dómtekið 13. júní sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Birgi Frey Lúðvígssyni, Blöndubakka 10, Reykjavík á hendur Pípulagnaverktökum ehf., Árbraut 11, Blönduósi, fyrirsvarsmaður Bjarni Jónas Jónsson, Hlíðarvegi 33, Kópavogi með stefnu birtri 18. desember 2012.

Stefnandi gerir kröfu um greiðslu skuldar að fjárhæð 2.289.747 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga 38/2001, um vexti og verðtryggingu, af 227.820 kr. frá 1.8.2011 til 1.9.2011, af 992.364 kr. frá 1.9.2011 til 1.10.2011, af 1.532.988 kr. frá 1.10.2011 til 1.11.2011, af 2.289.747 kr. frá 1.11.2011 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar auk virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.

Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda. Til vara krefst stefndi verulegrar lækkunar á dómkröfum stefnanda. Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu.

I

                Stefnandi hóf störf hjá stefnda í apríl 2006 sem aðstoðarmaður pípulagningarmanns. Í maí 2011 gerðu aðilar ráðningarsamning um tímabundið starf í Noregi. Stefnandi fór í fyrsta úthald til Noregs á tímabilinu 13. júní til 8. júlí 2011. Stefndi kveður að í upphafi júlímánaðar 2011 hafi mistök orðið við tímaskráningu starfsmanna þannig að launagreiðslur til starfsmanna stefnda í Noregi drógust til 4. júlí. Stefndi kveður að stefnandi hafi brugðist illa við þessum drætti og hafi reynt að sannfæra samstarfsmenn sína í Noregi um að leggja niður alla vinnu í þágu stefnda þar til laun hefðu verið greidd. Frásögn þessi fær ekki stoð hjá öðrum starfsmönnum stefnda er komu fyrir dóminn. Töldu fyrirsvarsmenn stefnda að um verulegan trúnaðarbrest væri að ræða af hálfu stefnanda. Með uppsagnarbréfi, dags. 26. júlí 2011, var stefnanda sagt upp störfum með kjarasamningsbundnum uppsagnarfresti og tekið fram að hvorki væri um yfirvinnu að ræða á uppsagnarfresti né óskað eftir honum til starfa í Noregi. Ástæðu uppsagnarinnar var ekki getið í bréfinu. Stefnandi fékk uppsagnarbréfið afhent þegar hann var í sumarorlofi.

                Þar sem stefnandi fékk laun sín ekki greidd í uppsagnarfresti leitaði hann til Eflingar-stéttarfélags. Með bréfi stéttarfélagsins dags. 27. október 2011 var skorað á stefnda að greiða stefnanda vangoldin laun. Með bréfi lögmanns stefnda dags. 9. nóvember 2011 var kröfunni hafnað með vísan til þess að stefnandi hefði ekki mætt til vinnu á uppsagnarfresti en stefndi vildi meina að stefnandi hefði átt að vinna uppsagnarfrest sinn hér á landi. Með bréfi Eflingar-stéttarfélags, dags. 17. nóvember 2011, var bent á að með ráðningarsamningi, dags. 7. maí 2011, hefðu aðilar samið um breytt störf stefnanda fyrir stefnda, þ.e. starf í Noregi. Jafnframt var tekið fram að ráðningarkjörum stefnanda yrði ekki breytt einhliða á uppsagnarfresti. Með bréfi stéttarfélagsins, dags. 14. febrúar 2012, var sett fram launakrafa fyrir hönd stefnanda og hún síðar leiðrétt með bréfi, dags. 15. mars 2012. Þar sem engin viðbrögð urðu við síðastnefndum tveimur bréfum stéttarfélagsins fór krafan til frekari innheimtu, sbr. bréf dags. 30. mars 2012. Bréfinu var svarað af lögmanni stefnda hinn 25. júní 2012 þar sem fram kom að stefnandi hefði fyrirgert rétti sínum til launa með fyrirvaralausu brotthlaupi úr starfi. Lögmaður stefnanda svaraði bréfinu hinn 10. júlí 2012 þar sem krafan var ítrekuð. Kröfu stefnanda var enn hafnað með bréfi lögmanns stefnda, dags. 29. ágúst 2012, og var mál þetta höfðað í kjölfarið.

II

                   Í upphafi tekur stefnandi fram að hinn 3. nóvember 2011 hafi verið gerður samningur á milli stefnda og starfsmanna hans sem beri yfirskriftina Tillegg/endringer til arbeidsavtale eða viðauki/breytingar á vinnusamningi. Tilgangur samningsins var sá að samræma kaup og kjör starfsmanna stefnda við gildandi kjör á norskum vinnumarkaði. Við gerð samningsins hafi orðið samkomulag um að kaup fyrir starf stefnanda skyldi vera 149 norskar krónur fyrir dagvinnu og 208,60 norskar krónur fyrir yfirvinnu fyrir 1. október 2011. Frá 1. október 2011 átti kaupið að vera 200 norskar krónur fyrir dagvinnu og 280 norskar krónur fyrir yfirvinnu. Vísast hér til greinar 3.1 og 3.3 í samningnum svo og fyrirliggjandi launaseðla ónafngreinds starfsmanns stefnda. Samkvæmt samningnum átti vinnuvikan vera 48 dagvinnustundir og 9 yfirvinnustundir, samtals 57 unnar stundir á viku.

                   Eins og áður segir hafi stefnandi ráðið sig í tímabundið starf í Noregi og hafi fyrsta úthald hans verið á tímabilinu 13. júní til 8. júlí 2011. Á umræddu tímabili hafi stefnandi fengið greiddar 1.575 kr. fyrir dagvinnu og 2.836 kr. fyrir yfirvinnu, sbr. launaseðla hans fyrir júní- og júlímánuði 2011. Við gerð fyrrgreinds samnings frá 3. nóvember 2011 hafi samkomulag orðið um að kaup fyrir 1. október 2011 skyldi vera 149 norskar krónur fyrir dagvinnu og 208,60 norskar krónur fyrir yfirvinnu. Samhliða og á grundvelli samningsins hafi verið gerð leiðrétting á kjörum starfsmanna stefnda vegna liðins tíma en stefnandi hafi ekki fengið notið þeirrar leiðréttingar. Gerir stefnandi því kröfu um leiðréttingu á launum sínum í júní og júlí 2011. Vísast hér til ákvæðis 3.5 í samningnum frá 3. nóvember 2011.

                   Við útreikning á launakjörum stefnanda sé miðað við miðgengi Seðlabanka Íslands á gjalddaga launanna, þ.e. 2. ágúst 2011. Þannig hafi dagvinnutímakaup stefnanda átt að vera 3.204 kr. (149 norskar krónur x 21,5) og yfirvinnutímakaup 4.485 kr. (208,60 norskar krónur x 21,5) í júní og júlí 2011. Samtals sé gerð krafa um greiðslu vegna 192 klst. í dagvinnu (48 klst. x 4 vikur) og 36 klst. í yfirvinnu (9 klst. x 4 vikur) sem sé í samræmi við umsaminn vinnutíma skv. fyrrgreindum samningi. Krafa stefnanda vegna launaleiðréttingar sé samtals að fjárhæð 776.628 kr. Til frádráttar komi áður greidd laun fyrir sama tímabil skv. launaseðlum að fjárhæð 548.808 kr.

                   Með ráðningarsamningi, dags. 7. maí 2011, hafi stefnandi ráðið sig til starfa hjá fyrirtæki stefnda í Noregi líkt og titill samningsins kveði á um. Hafi stefnandi verið ráðinn til óákveðins tíma með gagnkvæmum uppsagnarfresti sem hafi miðast við mánaðamót. Með bréfi, dags. 26. júlí 2011, hafi stefnanda verið sagt upp störfum en engin ástæða hafi verið tilgreind fyrir uppsögninni. Skýrt komi fram í bréfinu að ekki sé reiknað með stefnanda til starfa í Noregi þrátt fyrir að gerður hafi verið ráðningarsamningur um störf hans þar í landi. Vísast hér einnig til áðurnefnds samnings frá 3. nóvember 2011 sem stefndi hafi gert við starfsmenn sína. Í ákvæði 1.0 sé gert ráð fyrir því að í meginatriðum sé starf unnið í Osló.

Kröfu stefnanda um vangreidd laun á uppsagnarfresti hafi verið hafnað með þeim rökum að þar sem stefnandi hafi ekki mætt til starfa hjá stefnda hér á Íslandi hafi hann fyrirgert rétti sínum til launagreiðslna á uppsagnarfresti. Sérstaklega sé bent á að stefnandi kannist hvorki við að hafa átt vinnuskyldu hér á landi eftir að hann hafi ráðið sig til starfa í Noregi né að óskað hafi verið sérstaklega eftir vinnuframlagi hans hér eftir að honum hafi verið sagt upp. Eftir að stefnandi hafi nálgast uppsagnarbréf, dags. 26. júlí 2011, á pósthúsi hafi hann ítrekað reynt að ná tali af yfirmanni sínum en án árangurs.

Samkvæmt meginreglum vinnuréttarins verði ráðningarsambandi ekki breytt einhliða né fyrirvaralaust svo löglegt sé og gildi það einnig varðandi vinnu á uppsagnarfresti. Hyggist atvinnurekandi breyta einhliða ráðningarkjörum starfsmanns beri honum að tilkynna starfsmanni sínum það með sama hætti og ef um uppsögn er að ræða. Breytingar sem gera eigi á gildandi ráðningarsamningi taki þannig ekki gildi fyrr en að afloknum lög- og kjarasamningsbundnum uppsagnarfresti. Sé því ljóst að ætluð krafa stefnda um að stefnandi ynni uppsagnarfrest sinn alfarið hér landi hafi falið í sér meiriháttar breytingar á ráðningarkjörum hans. Litið sé svo á að einhliða breytingar á starfssviði starfsmanna jafngildi fyrirvaralausri uppsögn og sé því ljóst að stefnanda hafi engin skylda borið til að vinna uppsagnarfrest sinn hér á landi enda hafi hann ekki verið ráðinn til þess. Hafi þessi sjónarmið verið staðfest í nokkrum dómum.

Stefnandi byggir kröfu sína á því að honum beri réttur til launa á uppsagnarfresti. Vísast hér til ákvæðis 12.1.3.1 í kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins og Samiðnar-sambands iðnfélaga en þar komi fram að eftir fimm ára starf á starfsmaður þriggja mánaða uppsagnarfrest. Sami uppsagnarfrestur verði leiddur af ákvæði aðalkjarasamnings Eflingar-stéttarfélags og Samtaka atvinnulífsins, en félagsgjöld hafi verið dregin af stefnanda og greidd til þess félags.

                   Að gefnu tilefni sé því mótmælt sem haldið hafi verið fram í bréfum lögmanns stefnda að stefnandi hafi aðeins átt tveggja vikna uppsagnarfrest. Með ráðningarsamningi, dags. 7. maí 2011, hafi stefnandi ráðið sig í annað starf hjá stefnda. Í þessu hafi ekki falist uppsögn og nýtt ráðningarsamband. Með því að ráða sig til vinnu hjá stefnda í Noregi hafi stefnandi ekki getað samið af sér lágmarkskjör sín, þ. á m. uppsagnarfrest sinn, skv. 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda. Hafi því starfsaldur stefnanda gilt hjá stefnda um uppsögnina og kjarasamningsbundinn uppsagnarfrestur. 

                   Krafa stefnanda byggist á því sem áður hafi komið fram um umsaminn vikulegan vinnutíma. Samtals hafi stefnandi átt að vinna 192 klst. í dagvinnu (48 klst. x 4 vikur) og 36 klst. í yfirvinnu (9 klst. x 4 vikur) í hverju fjögurra vikna úthaldi. Miði krafan við að stefnandi hafi átt að vera í þremur úthöldum á uppsagnarfrestinum, þ.e. frá 1. til 26. ágúst 2011, 5. til 30. september 2011 og 10. til 31. október 2011 (3 vikur). Eftir 1. október 2011 hafi laun stefnanda átt að vera 200 norskar krónur í dagvinnu og 280 norskar krónur í yfirvinnu skv. ákvæði 3.1 í títtnefndum samningi frá 3. nóvember 2011.

                   Við útreikning á launakjörum sé miðað við miðgengi Seðlabanka Íslands á gjalddaga launanna, þ.e. 1. september, 3. október og 1. nóvember 2011. Hvað útreikninga varði vísast til sundurliðunar kröfunnar sem hér síðar. Til frádráttar kröfunni komi greiðslur frá þriðja aðila á uppsagnarfresti. Stefnandi hafi fengið greiddar 189.000 kr. í september og 276.990 kr. í október 2011, samtals 465.990 kr. Þess beri að geta að fyrir liggi að stefnandi hafi verið óvinnufær vegna sjúkdóms fram yfir lok uppsagnarfrestsins. Sú staðreynd hafi ekki áhrif á kröfu stefanda um laun á uppsagnarfresti, sbr. áunninn veikindarétt hans skv. 8. kafla í gildandi kjarasamningi. Krafa stefnanda vegna vangreiddra launa á uppsagnarfresti sé samtals að fjárhæð 1.772.109 kr.

                   Stefnandi gerir kröfu um greiðslu 10,64% orlofs á öll vangreidd laun. Vísast hér til laga nr. 30/1987 um orlof og 4. kafla gildandi kjarasamnings. Krafan sé samtals að fjárhæð 212.792 kr.

                   Stefnandi gerir kröfu um greiðslu orlofsuppbótar sem hafi verið að fjárhæð 27.800 kr. á orlofsárinu sem hófst 1. maí 2012 miðað við fullt starf. Fullt ársstarf teljist í þessu sambandi 45 unnar vikur eða meira fyrir utan orlof. Uppbótin greiðist hinn 1. júní, miðað við starfshlutfall og starfstíma á orlofsárinu, öllum starfsmönnum sem verið hafi samfellt í starfi hjá atvinnurekanda í 12 vikur á síðustu 12 mánuðum m.v. 30. apríl eða séu í starfi fyrstu viku í maí. Áunna orlofsuppbót skuli gera upp samhliða starfslokum verði þau fyrir gjalddaga uppbótarinnar.

                   Stefnandi gerir kröfu um greiðslu desemberuppbótar sem hafi verið að fjárhæð 63.800 kr. árið 2011. Fullt ársstarf teljist í þessu sambandi 45 unnar vikur eða meira fyrir utan orlof. Uppbótin greiðist eigi síðar en 15. desember ár hvert, miðað við starfshlutfall og starfstíma, öllum starfsmönnum sem verið hafa samfellt í starfi hjá atvinnurekanda í 12 vikur á síðustu 12 mánuðum eða séu í starfi fyrstu viku í desember. Áunna desemberuppbót skuli gera upp samhliða starfslokum verði þau fyrir gjalddaga uppbótarinnar.

Krafa stefnanda sundurliðist þannig:

                Leiðrétting launa

                13. júní til 8. júlí 2011

- DV                       3.204 kr. x 192 klst.                                           kr.           615.168,-

- YV                       4.485 kr. x 36 klst.                                             kr.           161.460,-

Samtals                                                                                               kr.           776.628,-

- Áður greitt                                                                                       kr.           548.808,-

Samtals                                                                                               kr.           227.820,-

                Vangreidd laun á uppsagnarfresti

                1.-26. ágúst 2011

                - DV       3.154 kr. x 192 klst.                                                          kr.           605.568,-

                - YV       4.416 kr. x 36 klst.                                                             kr.           158.976,-

                Samtals                                                                                                kr.           764.544,-

                4.-30. september 2011

                - DV       3.010 kr. x 192 klst.                                                          kr.           577.920,-

                - YV       4.214 kr. x 36 klst.                                                             kr.           151.704,-

                Samtals                                                                                                kr.           729.624,-

                - Greiðslur frá 3. aðila                                                                     kr.           189.000,-

                Samtals                                                                                                kr.           540.624,-

9.-31. október 2011

                - DV       4.092 kr. x 144 klst.                                                          kr.           589.248,-

                - YV       5.729 kr. x 27 klst.                                                             kr.           154.683,-

                Samtals                                                                                                kr.           743.931,-

                -Greiðslur frá 3. aðila                                                                      kr.           276.990,-

                Samtals                                                                                               kr.           466.941,-

                              

Samtals                                                                                               kr.           1.772.109,-

                Orlof

                Launaleiðr.           227.820 kr. x 10,64%                                       kr.           24.240,-

                Uppsagnarfr.        1.772.109 kr. x 10,64%                                    kr.           188.552,-

                Samtals                                                                                               kr.           212.792,-

                Orlofsuppbót

                27.800 kr. / 45 vikur x 26 vikur                                                      kr.           16.062,-

                Desemberuppbót

                63.800 kr. / 45 vikur x 43 vikur                                                      kr.           60.964,-

           Samtals                                                                                                    kr.  2.289.747,-

                   Skuld þessi hafi ekki fengist greidd þrátt fyrir innheimtutilraunir og sé því nauðsynlegt að höfða mál til greiðslu hennar.

                   Stefnandi hafi verið félagsmaður í Eflingu-stéttarfélagi á því tímabili er krafa hans hafi stofnast. Vísað sé til meginreglu vinnu-, kröfu- og samningaréttar um að laun beri að greiða í samræmi við umsamda launataxta skv. gildandi ráðningar- og/eða  kjarasamningi. Vísast um réttindi hans aðallega til 1., 2., 3., 4. og 12. kafla gildandi aðalkjarasamnings Eflingar-stéttarfélags. Enn fremur vísast til kjarasamnings Samiðnar–sambands iðnfélaga. Jafnframt sé vísað til laga 55/1980 um starfskjör launafólks o.fl., aðallega 1. gr., laga 28/1930 um greiðslu verkkaups, laga 30/1987 um orlof, aðallega 1., 7., og 8. gr., og laga 19/1979 um rétt launafólks til uppsagnarfrests o.fl. Byggt sé á því að stefndi hafi vanefnt bindandi ráðningarsamning við stefnanda með því að greiða ekki umsamin laun og uppfylla aðrar samningsskyldur sínar. Samkvæmt framangreindum réttarheimildum og samningum sé greiðsluskylda stefnda ótvíræð. Um sönnun sé jafnframt vísað til stjórnunarréttar stefnda og þess að hann sé bókhaldsskyldur að lögum.

                   Kröfur um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti, styður stefnandi við reglur III. og V. kafla laga 38/2001, um vexti og verðtryggingu, með síðari breytingum. Krafan um málskostnað styðst við XXl. kafla laga 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun sé reist á lögum númer 50/1988. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og beri honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda.

III

Af hálfu stefnda sé á því vakin athygli að meginstarfsemi hans sé hér á landi. Áður en stefnanda hafi verið falin tímabundin vinna í Noregi, hafi hann unnið um langa hríð fyrir stefnda við ýmis verkefni hér á landi. Ráðningarsamningur stefnda og stefnanda vegna vinnu stefnda í Noregi hafi aðeins verið tímabundinn og varðað aðeins eitt verkefni. Það hafi verið í samræmi við skilning beggja aðila á samningssambandi þeirra, líkt og annarra starfsmanna stefnda. Stefnandi hafi ekki búið í Noregi, heldur hér á landi, ásamt fjölskyldu sinni. Ekkert í fari stefnanda hafi bent til annars en að gagnkvæmur skilningur á inntaki samningsins væri sá að um tímabundna breytingu á fyrra réttarsambandi væri að ræða, en ekki um breytingu til lengri tíma. Sem dæmi megi nefna að ekkert sé kveðið á um í samningi aðila frá 2011, um að fyrri ráðningarsamningur aðila skyldi falla niður.

Sem fyrr segi hafi málsaðilar hinn 1. júlí 2006 gert með sér ráðningarsamning. Hinn 7. maí 2011 hafi aðilar gert með sér annan ráðningarsamning til viðbótar við fyrrgreindan samning, vegna tímabundins verkefnis í Noregi. Fyrirsögn samningsins hafi verið „Ráðningarsamningur um tímabundið starf í Noregi“. Samningurinn hafi verið gerður að beiðni verkkaupa stefnda í Noregi, Boros. Við gerð hins tímabundna samnings, hafi eldri samningi aðila hvorki verið sagt upp né rift, heldur gert ráð fyrir því að hann tæki gildi þegar verkefnið í Noregi væri á enda, eða þegar stefnandi léti af vinnu við verkefnið af öðrum orsökum. Hafi því báðir aðilar ávallt gert ráð fyrir því að stefnandi kæmi til vinnu á Íslandi að nýju, eftir að tímabundin verkefnavinna hans í Noregi væri á enda. Forsendur beggja aðila við gerð samningsins hafi verið þessar. Eigi stefnandi heimili á Íslandi en ekki í Noregi og því örðugt að sjá að hann hafi haft nokkra hagsmuni af því að sinna vinnu í Noregi frekar en á Íslandi.

Í uppsagnarbréfi stefnda til stefnanda, hafi vinnuframlags stefnanda ekki verið óskað framvegis í Noregi í uppsagnarfresti. Ástæður þess hafi fyrst og fremst verið sá trúnaðarbrestur sem stefnandi hafi orðið uppvís að á meðan hann hafi verið við störf í Noregi, er hann hafi hvatt starfsmenn stefndu til að leggja niður störf og hafa þannig gríðarleg áhrif á rekstur stefnda. Í uppsagnarbréfinu hafi enn fremur verið tekið fram að um uppsagnarfrest hans færi í samræmi við gildandi samninga. Þá hafi jafnframt verið tekið fram að stefnanda yrði ekki falin nein yfirvinna meðan á uppsagnarfresti hans stæði. Með sanngirni fáist alls ekki séð að stefnandi hafi getað lagt annan skilning í orðalag bréfsins en að um skyldur beggja aðila, meðan á uppsagnarfresti stæði, færi eftir þeim samningi sem í gildi hafi verið á milli þeirra. Ekki verði annað ráðið af uppsagnarbréfinu en að vinnuframlags stefnanda væri framvegis ekki óskað í Noregi á meðan samningssamband væri til staðar milli aðila. Þar af leiðandi væri vinnuframlags hans aðeins óskað á Íslandi. Stefnanda stæði hins vegar ekki lengur til boða að sinna yfirvinnu, enda stefndi ekki skyldugur til þess að bjóða stefnanda að vinna yfirvinnu, hvorki samkvæmt samningum aðila né að lögum. Ítrekað skuli að hafi stefndi ekki óskað og gert ráð fyrir vinnuframlagi stefnanda hér á landi, hafi engin ástæða verið til þess af hans hálfu að taka það sérstaklega fram í uppsagnarbréfinu að „ekki [yrði] um yfirvinnu að ræða út uppsagnarfrestinn“.

Verði talið ósannað að fyrri ráðningarsamningur aðila hafi einnig átt að gilda jafnhliða ráðningarsamningi þeirra um tímabundið starf stefnanda í Noregi, sé því hafnað með öllu að stefndi hafi ekki getað breytt staðsetningu vinnustaðar stefnanda á grundvelli stjórnunarréttar síns sem vinnuveitanda. Ekki verði talið með nokkru móti að þær breytingar hafi verið stefnanda þungbærar á nokkurn hátt, enda eigi hann bæði heimili og fjölskyldu hér á landi, en ekki í Noregi. Því sé mótmælt að fyrirmæli vinnuveitanda um breytingar á vinnustað starfsmanna sinna jafngildi ávallt meiriháttar breytingum á ráðningarkjörum þeirra og jafngildi fyrirvaralausri uppsögn. Slíkt verði að meta eftir atvikum hverju sinni, eftir því hversu mikil áhrif breytingin hafi á vinnu starfsmannsins í heild, velferð hans og aðra þætti sem skipta kunni máli fyrir starfsmann. Ákvörðun stefnda um að krefjast vinnuframlags stefnanda hér á landi, en ekki í Noregi, hafi engan veginn verið til þess fallin að hafa nokkur slík áhrif á stefnanda og hafi því ekki jafngilt uppsögn hans úr starfi.

Verði talið að tímabundni ráðningarsamningurinn sem stefnandi byggir á, hafi átt að gilda um réttindi stefnanda, þannig að hann geti byggt sjálfstæðan rétt á launum í uppsagnarfresti á grundvelli hans, þá sé á því byggt að samkvæmt þeim ráðningarsamningi hafi stefnandi aðeins verið ráðinn tímabundið og að samkvæmt samningnum hafi stefndi haft ótvíræðan rétt til að segja stefnanda upp með tveggja vikna fyrirvara á grundvelli ákvæða gildandi kjarasamninga um starfsmenn sem ráðnir séu til tímabundinna verkefna, sbr. einkum gr. 12.1.2 í kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins og Samiðnar. Vilji stefnandi því byggja sjálfstæðan rétt á samningi aðila, til launa í uppsagnarfresti, leiði það af sjálfu sér að hann geti aðeins átt rétt til launa í uppsagnarfresti miðað við að um tímabundið verkefni hafi verið að ræða, enda hafi það verið raunin.

Stefnanda hafi verið sagt upp störfum hinn 26. júlí 2011. Sá samningur sem gerður hafi verið við starfsmenn stefnda 3. nóvember 2011 um breytingu á kjörum hafi eðli máls samkvæmt aðeins verið gerður við starfsmenn sem hafi verið í vinnu á þeim tíma, en ekki við starfsmenn sem hafi verið hættir störfum eða búið að segja upp. Hafi stefnandi þá verið búinn að láta af störfum, en að auki hafi meintur uppsagnarfrestur hans verið liðinn þegar laun samstarfsmanna hans hafi verið hækkuð með afturvirkum hætti. Hafi þar einungis verið um breytingu á gildandi ráðningarsamningum að ræða og eðli máls samkvæmt aðeins starfsmenn, sem hafi verið í samningssambandi við stefnda þegar breytingarnar hafi verið gerðar, sem byggt geti rétt á þeim breytingum. Hafi stefnandi því einfaldlega ekki verið aðili að samningnum og geti því ekki byggt rétt á honum, ekki frekar en aðrir starfsmenn stefnda sem látið hafi af störfum áður en breytingar á vinnusambandi hafi verið gerðar.

Það sé hvorki sanngjarnt né unnt á grundvelli laga að krefjast þess að breytingar verði gerðar á vinnuréttarsambandi, þ.m.t. launakjörum, eftir að því samningssambandi sé lokið sem slíkar breytingar varði. Þá skuli það nefnt að stefnda hafi engin skylda borið til þess samkvæmt lögum eða kjarasamningum, hvorki íslenskum né norskum, að leiðrétta laun starfsmanna sinna í Noregi með afturvirkum hætti, en hafi engu að síður kosið að gera það í þeim tilgangi að leyfa starfsmönnum sínum að njóta vafans um rétt þeirra til hærri launa. Styðjist því krafa stefnanda um „leiðréttingu“ launa í samræmi við nefndan samning stefnda og starfsmanna stefnda hvorki við samningsbundin réttindi stefnanda né lög, íslensk eða norsk og sé henni hafnað sem rangri og ólögmætri.

Hvað varði kröfur stefnanda um greiðslu ógreiddrar yfirvinnu á uppsagnarfresti skuli á því vakin athygli að yfirvinna skyldi aðeins unnin að kröfu stefnda, samkvæmt samningum aðila. Í samningi aðila um tímabundið starf stefnanda í Noregi, segi um yfirvinnu: „Starfsmaður skuldbindur sig til að vinna yfirvinnu í samræmi við verkefnastöðu fyrirtækisins og að ósk yfirmanns.[...] Dagvinnulaun eru skv. kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins og Sveinafélags pípulagningamanna. Samkomulag er um að starfsmaður njóti yfirborgunar samkvæmt samningi. Fyrir unna yfirvinnutíma greiðist yfirvinnukaup.“ 

Í ráðningarsamningi stefnanda frá 1.7.2006, segi það sama um yfirvinnu stefnanda í þágu stefnda. Hafi stefnandi því ekki átt kröfu um fasta yfirvinnutíma í starfi sínu og því ekki heldur kröfu um greiðslu launa vegna slíkrar vinnu, nema hennar hafi verið krafist og hún þá innt af hendi af hálfu stefnanda. Hafi yfirvinna því ekki verið hluti af föstum launatekjum stefnanda og skyldi aðeins unnin að sérstakri beiðni stefnda. Enda þótt fallist yrði á málatilbúnað stefnanda um rétt til launa í uppsagnarfresti, sé ljóst að greiðslur vegna yfirvinnu geti aldrei fallið undir þann rétt. Með vísan til ofangreinds sé óljóst hvers vegna stefnandi krefjist yfirvinnu í uppsagnarfresti í stefnu, en þessir liðir krafna hans og ástæður þeirra séu vanreifaðir að þessu leyti.

Verði ekki fallist á ofangreint sé á því byggt að í uppsögn stefnanda hafi í raun falist lögmæt riftun á ráðningarsamningi hans vegna framkomu hans í starfi sem í hafi falist veruleg vanefnd á starfsskyldum hans og augljóst trúnaðarbrot gagnvart stefnda, sem og brot gegn gagnkvæmri tillitsskyldu stefnanda gagnvart stefnda. Eigi stefnandi því ekki rétt á launum í uppsagnarfresti. Sé áskilinn réttur til þess að kveða fyrir dóm vitni sem varpað geti ljósi á þær vanefndir stefnanda.

Um lagarök vísast til almennra regla vinnuréttar, kjarasamninga, laga um starfskjör launafólks o.fl.

Krafa stefnda um málskostnað byggist á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

IV

                Í aðilaskýrslu stefnanda fyrir dómi kom fram að er hann var að koma úr sumarfríi í ágústbyrjun hafi hann haft samband við Bjarna Jónsson til að fá upplýsingar um hvenær hann ætti að fara út til Noregs aftur. Bjarni hafi sagt, að honum hefði verið sagt upp störfum og að uppsagnarbréf væri í ábyrgðarpósti. Eftir að stefnandi hafi sótt uppsagnarbréfið kvaðst hann hafa reynt að hringja til Bjarna, meðal annars til að fá að vita ástæðu uppsagnarinnar en Bjarni hafi ekki svarað. Honum hafi ekki verið tilkynnt um starfsstað hér á landi. Hann leit svo á að hann ætti að vinna uppsagnarfrestinn í Noregi.

                Stefnandi kvað að föstudaginn 1. júlí 2011 hafi starfsmönnunum ekki verið greidd laun. Eftir vinnu hafi einn starfsmanna hringt til Bjarna Jónssonar og hann síðan hringt til Þorsteins Pétursson verkefnastjóra sem hefði tilkynnt þeim um dráttinn og sagt að launin yrðu greidd í síðast lagi á mánudeginum. Menn hafi verið frekar æstir yfir því að fulltrúi fyrirtækisins hefði ekki tilkynnt um dráttinn af fyrra bragði. Stefnandi hafnar því alfarið að hafa hvatt til þess að lögð yrði niður vinna og hann hafi ekkert verið æstari en aðrir. Hann telur sig frekar hafa verið að róa menn en hitt, því hann vissi að stefndi myndi standa við sitt.

                Stefnandi kvað að óánægja hafi verið hjá einstökum starfsmönnun, til dæmis vegna dagpeninga, netsambands, launataxta á 17. júní og fleira og hafi stefnandi boðist til að tala við Bjarna er heim var komið. Hann hafi gert það og allt farið fram í bróðerni.

                Varðandi vinnutilhögunina kveðst hann hafa unnið 12 klst. á dag í Noregi og 7 klst. á laugardögum og þeir hafi unnið á sama kaupi og hér á landi. Sú vika sem þeir voru á Íslandi hafi verið án vinnuskyldu.

                Í skýrslu Gunnars Bjarnasonar, fyrrverandi starfsmanns stefnda, kom fram að hann var í vinnu í Noregi á sama tíma og stefndi. Þetta hafi verið úthald þannig að þeir fóru út á mánudagsmorgni og unnu í fjórar viku, komu heim á föstudegi og þá var frí í viku. Hann kvaðst ekki hafa verið erlendis um mánaðamótin júní/júlí 2011. Varðandi samninginn frá 3. nóvember 2011 þá kvaðst hann hafa útvegað starfmönnunum lögfræðinginn erlendis og hafi einnig sjálfur staðið í samningagerðinni. Ástæða samningsins hafi verið sú að vinnueftirlitið í Noregi krafðist upplýsinga um launin þeirra í Noregi. Eftir að hafa fengið upplýsingar hjá stefnda kom vinnueftirlitið aftur og þá einnig fulltrúi frá fagfélaginu og var starfsmönnum tjáð að þeir væru ekki á réttmætum launum. Þar sem starfsmennirnir voru ekki í norska fagfélaginu yrðu þeir að útvega sér lögfræðing, sem þeir gerðu. Starfsmenn stefnda fengu leiðréttingu aftur í tímann á kjörum sínum. Fyrir suma var þetta töluverð leiðrétting en fyrir aðra var hún óveruleg. Hann kvaðst skrifa undir samninginn fyrir hönd allra starfsmanna stefnda og hann og Haukur Már Ingvarsson hafi verið talsmenn starfsmanna. Stefnandi hafi ekki falið honum persónulega að annast samningsgerð fyrir sína hönd. Mætti kveður að kjörin samkvæmt samningnum hafi ekki verið lágmarkskjör.

                Í skýrslu Ólafs Pedersen, sem starfaði hjá stefnda í Noregi, kom fram að hann hafi verið viðstaddur hinn 1. júlí 2011 þegar launin skiluðu sér ekki. Hann kvað óánægju hafa verið og að stefnandi hafi ekki verið óhressari en aðrir. Hann kannast ekki við að stefnandi hafi sérstaklega hvatt menn til að leggja niður störf. Hann kvaðst hafa sagt samstarfsmönnum sínum að hann hefði unnið þarna í 13 ár og það hafi aldrei komið fyrir að laun skiluðu sér ekki.

                Í skýrslu Guðjóns Valdimarssonar, sem starfaði hjá stefnda í Noregi, kom fram að hann hafi verið erlendis 1. júlí 2011. Hann kvað viðbrögð Birgis við þessum launadrætti ekki hafa verið slæm. Það hafi einhverjir viljað leggja niður vinnu á laugardeginum en hann og stefnandi hafi frekar verið að reyna að róa mannskapinn.

                Í skýrslu Bjarna Jónasar Jónssonar, annars eiganda stefnda, kom fram að ástæða uppsagnar stefnanda hafi verið sú að þegar dráttur varð á útborgun hinn 1. júlí 2011 hafi stefnandi æst málin upp þannig, að ef ekki yrði búið að borga launin út um hádegi á mánudeginum yrði farið í verkfall. Launin voru síðan greidd fyrir hádegi á mánudeginum og því hafi ekkert orðið af verkfallinu. Mætti kvað hafa upplýst stefnanda í símtali að hann ætti að vinna í Straumsvík í uppsagnarfrestinum en stefnandi hafi ekki mætt.

                Í skýrslu Einars Pálssonar, sem starfaði hjá stefnda í Noregi, kom fram að hann hafi verið erlendis 1. júlí 2011. Hann kvað viðbrögð stefnanda vera eins og allra annarra, því allir voru ósáttir. Þá hafi stefnandi ekki haft sig í frammi.

                Í skýrslu Þorsteins Péturssonar, verkefnastjóra stefnda í Noregi, kom fram að þegar dráttur hafi orðið á launagreiðslu frá stefnda 1. júlí 2011 hafi stefnandi verið mjög ósáttur. Hann hafi hvatt til þess að allir myndu leggja niður störf ef launin yrðu ekki greidd fyrir hádegi á mánudeginum. Þessu hafi stefnandi komið á framfæri við mætta en þá hafi stefnandi verið undir áhrifum áfengis og hafi þetta verið á föstudagskvöldinu. Mætti kveður stefnanda ekki hafa tekið neinum rökum þegar hann hafi hitt starfsmennina á föstudagskvöldinu til að gera þeim grein fyrir stöðu mála. Stefnandi hafi ekki gefið mætta tækifæri til að skýra gang mála og reyndi stefnandi að fá menn til að leggja niður vinnu. Hann kvað mótmæli stefnanda hafa verið kröftugri en annarra starfsmanna.

                Mætti kveður að samningurinn 3. nóvember 2011 hefði verið gerður eftir að vinnueftirlitið ytra óskaði eftir gögnum og gildum ráðningarsamningum sem uppfylltu að lágmarki norska kjarasamninga. Samningurinn hafi gilt um alla þá starfsmenn sem voru í því starfsmannafélagi sem var stofnað úti og stefnandi var ekki meðal þeirra. Mætti kvað að samningurinn ætti ekki að gilda um þá sem hættir voru störfum. Að lokum upplýsti mætti að hann væri bróðursonar annars eiganda stefnda.

V

                Stefnanda var sagt upp störfum hjá stefnda með bréfi dags. 26. júlí 2011. Ágreiningur málsins er tvíþættur og lýtur annars vegar að lögmæti uppsagnarinnar og hins vegar að því hvort stefnandi eigi rétt til launaleiðréttingar miðað við samning sem gerður var 3. nóvember 2011.

                Stefnandi hóf störf hjá stefnda í apríl 2006. Í maí 2011 gerðu málsaðilar samning sín á milli um tímabundið starf í Noregi. Samkvæmt samningnum var stefnandi ráðinn til óákveðins tíma með uppsagnarfresti af beggja hálfu samkvæmt gildandi samningi Samtaka atvinnulífsins og Sveinafélags pípulagningarmanna frá 1. febrúar 2008. Samið var um 8 dagvinnustundir á dag og að yfirvinna yrði unnin í samræmi við verkefnastöðu fyrirtækisins. Þá var lengd úthalda þannig að unnið var í 4 vikur og síðan 1 vika hér á landi sem var frívika. Fyrsta úthald stefnanda var frá 13. júní 2011 til 8. júlí 2011. Þá kom stefnandi heim og fór í sumarfrí. Hinn 26. júlí 2011 fékk stefnandi uppsagnarbréf.

                Eftir að starfsmenn stefnda hófu störf í Noregi fengu þeir greidd sömu laun og þeir höfðu haft hér á landi. Að frumkvæði norska vinnueftirlitsins var gerð breyting á launatöxtum hjá stefnda og var hinn 3. nóvember 2011 gerður samningur um breytingu á launum starfsmanna stefnda og samið um hækkun launa til samræmis við þau laun sem greidd voru fyrir vinnu á byggingarsvæðum í Noregi. Ekki er ágreiningur með málsaðilum um taxta samkvæmt samningnum heldur telur stefndi að samningur þessi nái ekki til stefnanda. Fyrir liggur að samstarfsmenn stefnanda fengu launaleiðréttingu aftur í tímann miðað við þennan samning, mismikla þó. Verður það bæði ráðið af framburði Gunnars Bjarnasonar fyrir dómi sem og ákvæði 3.5 í samningnum. Í ljósi þess að með samningi þessum var verið að leiðrétta laun þau er stefndi greiddi, til samræmis við það sem gilti í Noregi, á stefnandi einnig rétt á leiðréttingu þessari fyrir þann tíma er hann starfaði þar. Skiptir þá engu þótt stefnandi hafi látið af störfum sínum fyrir stefnda.

                Eins og að framan greinir var stefnanda sagt upp störfum 26. júlí 2011. Í bréfinu kom fram að uppsagnarfrestur yrði í samræmi við samninga. Síðan segir að hvorki verði um yfirvinnu að ræða út uppsagnarfrestinn né heldur reiknað með stefnanda til starfa í Noregi. Af uppsagnarbréfinu verður ekki annað ráðið en að stefnandi hafi átt að starfa hér á landi í uppsagnarfrestinum. Kemur það heim og saman við framburð fyrirsvarsmanns stefnda, Bjarna Jónssonar, fyrir dómi. Stefnandi mætti ekki til vinnu í uppsagnarfresti þar sem hann taldi að honum hefði borið að vinna uppsagnarfrestinn ytra.

                Eins og að framan greinir gerðu málsaðilar tímabundinn samning um starf stefnanda í Noregi. Stefndi kveðst hafa sagt stefnanda upp vegna trúnaðarbrests en hann hafi hvatt samstarfsmenn sína til að leggja niður vinnu. Þetta hafi hann gert föstudaginn 1. júlí 2011 en þann dag varð dráttur á launagreiðslu frá stefnda. Fullyrðing þessi fær ekki stoð í framburðum starfsmanna stefnda fyrir dómi, þ.e. Guðjóns Valdimarssonar, Einars Pálssonar og Ólafs Pedersen. Því er ósannað að stefnandi hafi brotið trúnað við stefnda. Þá getur stefndi ekki einhliða gert þá breytingu á samningi málsaðila að krefjast vinnuframlags stefnanda hér á landi, þegar í gildi var tímabundinn vinnusamningur um vinnu stefnanda í Noregi. Því verður að líta svo á að með uppsagnarbréfinu frá 26. júlí 2011 hafi stefndi rift ráðningarsamningi við stefnanda.

                Mál þetta er höfðað til greiðslu skuldar samanber dómkröfu málsins. Málsástæða við aðalmeðferð málsins, byggð á því að krafist sé skaðabóta, er of seint fram komin, sbr. 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

                Samkvæmt gr. 12.1.3.1 í kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins og Samiðnar -sambands iðnfélaga á stefnandi þriggja mánaða uppsagnarfrest. Í málinu gerir stefnandi kröfu um greiðslu á vangreiddum launum í uppsagnarfresti. Er þá bæði krafist dagvinnu og yfirvinnu. Fjölda dagvinnutíma hefur ekki verið mótmælt og með vísan til þess sem að framan greinir um gildi samningsins frá 3. nóvember 2011 verður krafa stefnanda hvað þetta atriði varðar tekin til greina.

                Samkvæmt samningi málsaðila frá 7. maí 2011 um tímabundið starf í Noregi er kveðið á um 8 dagvinnustundir og að starfsmaður skuldbindi sig til að vinna yfirvinnu í samræmi við verkefnastöðuna og að ósk yfirmanns. Með vísan til þessa ákvæðis er stefndi sýknaður af kröfum stefnanda um greiðslu yfirvinnu á uppsagnarfresti.

                Niðurstaða málsins er því sú að stefnandi á rétt til launaleiðréttingar samanber samninginn frá 3. nóvember 2011, að fjárhæð 227.820, vangreiddra launa fyrir ágústmánuð að fjárhæð 605.568 kr., fyrir septembermánuð að fjárhæð 388.920 kr. og fyrir októbermánuð að fjárhæð 312.258 kr. Þá ber stefnanda að greiða stefnda orlof að fjárhæð 163.857 kr., orlofsuppbót að fjárhæð 16.062 kr. og desemberuppbót að fjárhæð 60.964 kr. eða samtals 1.775.449 kr.

                Með vísan til 130. gr. laga nr. 91/1991 ber stefnda að greiða stefnanda 750.000 kr. í málskostnað og er þá tekið tillit til virðisaukaskatts.

                Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

DÓMSORÐ

Stefndi, Pípulagnaverktakar ehf., greiði stefnanda, Birgi Frey Lúðvígssyni, 1.775.449 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga 38/2001, um vexti og verðtryggingu, af 227.820 kr. frá 1.8.2011 til 1.9.2011, af 833.388 kr. frá 1.9.2011 til 1.10.2011, af 1.222.308 kr. frá 1.10.2011 til 1.11.2011, af 1.775.449 kr. frá 1.11.2011 til greiðsludags og 750.000 kr. í málskostnað.