Hæstiréttur íslands
Mál nr. 479/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
Þriðjudaginn 16. júlí 2013. |
|
|
Nr. 479/2013. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Karl Ingi Vilbergsson aðstoðarsaksóknari) gegn X (Jón Bjarni Kristjánsson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stæði.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Greta Baldursdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. júlí 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 15. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 12. júlí 2013, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi til miðvikudagsins 24. júlí 2013 kl. 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 12. júlí 2013.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur í dag krafist þess X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 26. júlí 2013, kl. 16.00, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr., laga um meðferð sakamála nr. 88, 2008. Þá er gerð krafa um að kærði sæti einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.
Kærði mótmælir kröfunni. Hann krefst þess að kröfunni verði hafnað en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Í greinargerð með kröfunni segir að lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hafi til rannsóknar ætlaða frelsissviptingu, ólögmæta nauðung eftir atvikum og líkamsmeiðingar gegn A að [...] á tímabilinu 29. júní til 1. júlí sl, en kærði sé undir rökstuddum grun um aðild að málinu. Þar sé kærði grunaður um, ásamt meðkærðu Y, Z, Þ ásamt fleiri aðilum, að hafa í byrjun júlí sl. gengið í skrokk á A með grófu ofbeldi. Lögregla hafi fengið upplýsingar frá föður brotaþola 3. júlí um að honum hafi verið haldið nauðugum að [...] þar sem gengið hafi verið í skrokk á honum af fjórum mönnum með kylfum, skærum og dúkahníf. Þegar lögregla hafi komið á vettvang hafi þar verið fyrir A og hafi mátt sjá áverka á A í andliti, hafi hann verið bólginn í framann, með skurð hægra megin við kinnbein, bólgin við hægra auga og kjálka, greinileg blæðing inn í hægra auga. Einnig hafi hann verið með fjölda skurða á vinstri handlegg. A hafi ekki viljað segja hverjir hafi verið að verki, en hann hafi hvorki játað eða neitað að Y og kærði hafi verið einn af árásarmönnunum. Samkvæmt upplýsingum lögreglu hafi umrædd árás og frelsissvipting virst hafa átt sér stað 3 dögum áður. Tekin hafi verið skýrsla af kærða X, en hann hafi verið handtekinn í gærkvöldi. Kvaðst kærði hafa komið í íbúð að [...] í [...], en þar hafi meðkærðu verið staddir ásamt brotaþola A. Þar hafi brotaþoli í upphafi verið sleginn, en síðan hafi hafist mjög grófar barsmíðar, þar sem ráðist hafi verið á A með grófu ofbeldi og honum haldið nauðugum. Kvaðst kærði að þetta ofbeldi hafi verið lítið í upphafi, en síðan hafi þetta stigmagnast og farið úr böndunum. Kærði hafi síðan yfirgefið vettvang og farið að [...], en síðar hafi A komið þangað og hafi hann verið illa farin eftir þessar barsmíðar. Kærði hafi neitað sök, en kveðst hafa verið á vettvangi að [...]. Á þessari stundu liggi ekki fyrir áverkavottorð fyrir A, en verið sé að afla þess. Brotaþoli sé mjög hræddur við meðkærðu og eftir atvikum kærða. Eftir sé að taka frekari skýrslur af kærða og skýrslur af meðkærðu, sem og skýrslur af brotaþola og vitnum. Verið sé að rannsaka þátt kærða og aðkomu en hann hafi verið á vettvangi og telji lögregla á þessu stigi nauðsynlegt vegna rannsóknarhagsmuna að kærði sæti gæsluvarðhaldi þar sem hann er undir rökstuddum grun hafa átt aðild að líkamsárás og frelsissviptingu. Ætlað sakarefni sé talið varða við 218. gr. almennra hegningarlaga, og eftir atvikum 225. gr. og eða 226. gr. almennra hegningarlaga.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hafi einnig til rannsóknar ætlaða frelsissviptingu, ólögmæta nauðung eftir atvikum og líkamsmeiðingar gegn B aðfaranótt mánudagsins 1. júlí sl. Sama dag hafi lögregla verið kölluð að slysadeild Landsspítala þar sem B og faðir hans hafi verið staddir, en þar hafi hann tjáð að hann hafi orðið fyrir líkamsárás, frelsissviptingu og verið byrlað lyf gegn vilja sínum. Samkvæmt upplýsingum lögreglu hafi B verið illa útleikinn, bólginn og blóðugur í framan og undir áhrifum lyfja.
Samkvæmt frásögn brotaþola hafi hann verið að heimili sínu [...] í [...] þegar 4 menn hafi ruðst inn í íbúðina og hafi byrjað að berja hann, en hann hafi kannast við tvo þessara aðila, þá Z meðkærða og annan sem hann hefur nafngreint sem Æ. Hafi þeir verið vopnaðir kylfum og töngum og hafi þeir leitt hann út úr íbúðinni í bifreið, sem hafi verið ekið í [...] líklega að [...] ([...]) og þar hafi meðkærði Z komið með og síðan hafi verið ekið að [...] í [...] að heimili föður Y, C. Þar hafi hann verið bundinn höndum og fótum og honum misþyrmt með barsmíðum og spörkum, sem og þvingaður til að gleypa 20 töflur af óþekktu lyfi, sem og hann hafi verið sprautaður í rassinn með óþekktu lyfi. Eftir þetta hafi meðkærðu Z og annar aðili ekið með hann að [...] á [...] á heimili meðkærða Ö, og þar hafi þeir m.a. slegið B með belti í bakið og gengið í skrokk á honum. Í framhaldinu hafi þeir afklætt B og sett hann í svarta ruslapoka niður í kjallara hússins og þar hafi hann verið keflaður og bundinn við staur, en kærðu síðan yfirgefið vettvang. B hafi síðan verið losaður af aðila sem virtist hafi verið í húsinu, og hafi þeir farið í söluskála í kjölfarið og hafi B hringt í föður sinn sem hafi náð í hann og hafi þeir farið á slysadeildina. Þegar lögreglan hafi rætt við B á spítalanum hafi mátt sjá spotta lafa frá munni hans og hafi verið upplýst af lækni að þegar hann hafi verið saumaður á slysadeildinni þá hafi komið í ljós að efri vör B hafði verið saumuð saman og þegar spottarnir hafi verið teknir úr þá hafi vörin dottið niður. Samkvæmt frásögn brotaþola þá hafi kærðu verið að tala um það sín á milli að klippa vörina af þar sem hún hafi hangið, en einn þeirra hafi talið sig geta saumað vörina á. Samkvæmt lögreglu hafi mátt sjá sár á andliti B sem gætu hafa verið eftir tangir, en kærði hafi verið klipinn víðsvegar um líkamann og hafi framtönn B verið brotin. Einnig hafi mátt sjá djúpar rauðar rákir eftir belti á baki hans. Lögreglan hafi farið í húsleit að [...], en lýsing sem brotaþoli hafi gefið á slysadeild gat átt við það hús, en í húsinu hafi verið vel falinn kjallari. Ruslapoki sem hafði verið klipptur til hafi fundist í ruslatunnu, sem og mél sem brotaþoli lýsti að hafi verið sett upp í sig.
Samkvæmt upplýsingum lögreglu, sem liggi fyrir, þá hafi brotaþoli nefnt fjóra aðila, og hafi lögregla fengið upplýsingar um að kærði ásamt þremur öðrum aðilum hafi tekið þátt í frelsissviptingunni að [...]. Kærði hafi verið handtekinn í gærkvöldi kl. 22.00 skammt fyrir utan [...], en lögregla hafði upplýsingar um að kærði héldi sig með meðkærða Y. Kærði hafi neitað sök og kannist ekki við umætt atvik. Brotaþoli sé farinn úr landi og hafi formleg skýrsla ekki verið tekin af honum. Samkvæmt vottorði læknis virðist sem brotaþoli hafi verið misþyrmt og hann beittur grófu ofbeldi. Lögregla hafi náð símasambandi við brotaþola, en hann sé sagður mjög hræddur við kærða, eftir atvikum meðkærðu og aðra sem tengist málinu. Ætlað sakarefni sé einkum talið varða við 218. gr., 226. gr. og 225. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 er varði alvarlega líkamsárás, frelsissviptingu og eftir atvikum ólögmæta nauðung.
Kærði X hafi verið handtekinn í gær og sé ásamt meðkærðu undir rökstuddum grun um að hafa tekið þátt í frelsissviptingu, eftir atvikum ólögmætri nauðung og stórfelldri líkamsárás, með því að ganga í skrokk á A og B. Eftir sé að taka frekari skýrslur af meðkærðu, af vitnum og formlega skýrslu af brotaþola og frekari skýrslur af kærða, en rannsókn sé á frumstigi. Þykir því brýnt með hliðsjón af gögnum málsins og rökstuddum grunsemdum lögreglu að vernda rannsóknarhagsmuni á þessu stigi málsins með því að varna því að kærði gangi laus en veruleg hætta sé talin á að hann torveldi rannsókn málsins með því að hafa áhrif, eftir atvikum á aðra samseka og eftir atvikum vitni ef hann fái að fara frjáls ferða sinna. Þá liggi fyrir að annar brotaþola hafi farið af landi brott vegna hótana og hræðslu við meðkærðu og eftir atvikum kærða. Kærði sé nú undir rökstuddum grun um alvarlega líkamsárás, frelsissviptingu, og eftir atvikum ólögmæta nauðung, en um sé að ræða rannsókn á alvarlegu broti og telji lögregla að miklir rannsóknarhagsmunir séu í húfi. Þáttur kærða sé óljós, en hann virðist hafa tekið þátt í ætluðu broti að [...], þar sem ofbeldi hafi verið beitt, en kærði hafi verið á vettvangi. Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga 88/2008 um meðferð sakamála og til að sæta einangrun samkvæmt b. lið 1. mgr. 99. gr. sömu laga, sé þess krafist að krafan nái fram að ganga eins og hún er sett fram.
Eins og rakið er að framan er kærði grunaður um aðild að frelsissviptingu, líkamsárás og ólögmætri nauðung. Með vísan til alls framanritaðs, svo og gagna málsins, er fallist á það með lögreglustjóra að kærði sé undir rökstuddum grun um að hafa framið brot sem fangelsisrefsing liggur við. Rannsókn málanna er ekki lokið og að sögn lögreglustjóra á frumstigi í sumum tilvikum. Gangi kærði laus má ætla að hann muni torvelda rannsókn málsins með því að skjóta undan munum eða hafa áhrif á samseka eða vitni. Samkvæmt þessu telst fullnægt skilyrðum a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála til þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi eins og nánar greinir í úrskurðarorði. Jafnframt er með sömu rökum fallist á að kærði sæti einangrun á meðan á gæsluvarðhaldsvist hans stendur. sbr. b. lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Jón Höskuldsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 24. júlí nk. kl. 16:00.
Kærði sæti einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.