Hæstiréttur íslands

Mál nr. 145/2009


Lykilorð

  • Málsástæða
  • Gagnkrafa
  • Dómur
  • Ómerking héraðsdóms


Fimmtudaginn 26

 

Fimmtudaginn 26. nóvember 2009.

Nr. 145/2009.

Curron hf.

(Jóhannes B. Björnsson hrl.)

gegn

Þorsteini Geirssyni

(Anton B. Markússon hrl.)

Málsástæður. Gagnkröfur. Dómur. Ómerking héraðsdóms.    

Í málinu stefndi C hf. fyrrverandi framkvæmdastjóra félagsins Þ og krafði hann um greiðslu skuldar samkvæmt viðskiptamannareikningi. Með heimild í 28. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 hafði Þ uppi gagnkröfu til skuldajafnaðar gegn kröfum C hf. og krafðist aðallega sýknu en til vara lækkunar á kröfum félagsins. Í dómi Hæstaréttar kom fram að af málsgögnum og forsendum héraðsdóms yrði ráðið að C hf. hefði mótmælt öllum gagnkröfum Þ. Lög nr. 91/1991 gerðu ekki ráð fyrir að stefnandi máls gæti skilað sérstakri greinargerð um gagnkröfur stefnda nema þegar gagnstefnt væri og þess krafist að sjálfstæður dómur gengi um gagnkröfurnar. Mótmæli við gagnkröfum, sem einungis væri teflt fram til stuðnings sýknukröfu, gætu eftir atvikum komið fram í bókunum, gagnaöflun sem sýnilega væri beint gegn kröfunum og í munnlegum málflutningi. Samkvæmt d. og e. lið 1. mgr. 114. gr. sömu laga bæri síðan að gera grein fyrir slíkum mótmælum og ástæðum þeirra í dómi. Þar sem ekki var að þessu gætt í héraðsdómi var hinn áfrýjaði dómur ómerktur og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til löglegrar meðferðar og dómsálagningar á ný. 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 13. janúar 2009. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 25. febrúar 2009 og var áfrýjað öðru sinni 24. mars sama ár. Hann krefst aðallega ómerkingar héraðsdóms en til vara að stefnda verði gert að greiða sér 10.005.663 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. ágúst 2006 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms en til vara að kröfur áfrýjanda verði lækkaðar. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Áfrýjandi höfðaði málið 5. nóvember 2007 og var það þingfest 14. sama mánaðar. Hann gerði kröfu um að stefndi greiddi 10.005.663 krónur, sem væri skuld stefnda samkvæmt viðskiptareikningi hjá áfrýjanda miðað við stöðu reikningsins 1. ágúst 2006. Hefði stefndi í starfi sínu sem framkvæmdastjóri áfrýjanda látið félagið lána sér þetta fé, en slíkt hefði brotið í bága við 104. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög.

Stefndi skilaði greinargerð 12. desember 2007 og krafðist sýknu. Taldi hann aðallega að ekki hefði verið um lán að ræða „heldur endurgreiðslu á útgjöldum [sínum] í þágu félagsins og fyrirframgreiðslu á vangoldnum launum.“ Til vara hafði stefndi uppi kröfu um skuldajöfnuð við kröfu áfrýjanda og tefldi þar fram kröfum aðallega samtals að fjárhæð 15.604.258 krónur en til vara 6.928.020 krónur, í báðum tilvikum að viðbættum dráttarvöxtum svo sem tíundað er með kröfugerð hans í hinum áfrýjaða dómi.

Í héraðsdómi kemur fram að ekki sé deilt tölulega um stefnukröfu áfrýjanda. Þessu hefur stefndi mótmælt við málflutning fyrir Hæstarétti. Virðast þau mótmæli byggjast á því að áfrýjandi hafi ekki gert næga grein fyrir því hvað standi að baki færslum á viðskiptareikninginn sem áfrýjandi byggi kröfu sína á.

Meðferð málsins í héraði beindist aðallega að því að fjalla um gagnkröfur þær sem stefndi hafði, með heimild í 28. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, uppi til skuldajafnaðar gegn kröfu áfrýjanda og byggði aðallega á til sýknu en til vara til lækkunar á henni. Af framlögðum málsgögnum og forsendum héraðsdóms verður með vissu ráðið að áfrýjandi hafi mótmælt öllum gagnkröfum stefnda, enda hélt áfrýjandi við upphaflega dómkröfu sína þrátt fyrir gagnkröfurnar. Lög nr. 91/1991 gera ekki ráð fyrir að stefnandi máls skili sérstakri greinargerð um gagnkröfur stefnda nema þegar gagnstefnt er og krafist sjálfstæðs dóms um gagnkröfur. Mótmæli við gagnkröfum, sem einungis er teflt fram til stuðnings sýknukröfu, geta eftir atvikum komið fram í bókunum, gagnaöflun sem sýnilega er beint gegn kröfunum og í munnlegum málflutningi. Í dómi ber síðan að gera grein fyrir slíkum mótmælum og ástæðum þeirra, sbr. d. og e. liði 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991. Þessa var ekki gætt í héraðsdómi og verður því fallist á aðalkröfu áfrýjanda. Samkvæmt þessu verður hinn áfrýjaði dómur ómerktur og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til löglegrar meðferðar og dómsálagningar á ný.

Rétt þykir að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður.

Það athugast að í hinum áfrýjaða dómi eru gagnkröfur stefnda tilgreindar meðal dómkrafna hans eins og um sé að ræða sjálfstæðar kröfur sem koma eigi til dóms en ekki forsendur sem ætlað er að styðja sýknukröfu. Er þessi framsetning villandi.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur og er málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 16. október 2008.

Mál þetta var þingfest 14. nóvember 2007 og tekið til dóms 18. september sl. Stefnandi er Curron hf., Ármúla 13a, Reykjavík, en stefndi er Þorsteinn Geirsson, Fagrahjalla 80, Kópavogi.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 10.005.663 krónur með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 28/2001 frá 1. ágúst 2006 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.

Stefndi krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda í málinu. Til vara krefst hann þess að viðurkennd verði skuldajafnaðarkrafa stefnda á hendur stefnanda að svo miklu leyti sem dómkröfur stefnanda verði teknar til greina. Til þrautavara krefst stefndi þess að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar.

Sýknukrafa stefnda er reist á því að hann eigi gagnkröfu á hendur stefnanda sem sé hærri heldur en stefnukrafa málsins. Þessa skuldajafnaðarkröfu sundurliðar stefndi þannig: Að stefnanda beri að greiða stefnda 15.604.258 krónur ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af krónum364.684 frá 1. janúar 2004 til 1. febrúar 2004, af kr. 729.368 frá þeim degi til 1. mars 2004, af kr. 1.094.053 frá þeim degi til 1. apríl 2004, af kr. 1458.737 frá þeim degi til 1. maí 2004, af kr. 1.823.421 frá þeim degi til 1. júní 2004, af kr. 2.188.105 frá þeim degi til 1. júlí 2004, af kr. 2.532.762, frá þeim degi til 1. ágúst 2004, af kr. 2.884.095 frá þeim degi til 1. september 2004, af kr. 3.235.428 frá þeim degi til 1. október 2004, af kr. 3.586.760 frá þeim degi til 1. nóvember 2004, af kr. 3.938.093 frá þeim degi til 1. desember 2004, af kr. 4.289.426 frá þeim degi til 1. janúar 2005, af kr. 4.640.759 frá þeim degi til 1. febrúar 2005, af kr. 4.979.367 frá þeim degi til 1. mars 2005, af kr. 5.317.975 frá þeim degi til 1. apríl 2005, af kr. 5.656.584 frá þeim degi til 1. maí 2005, af kr. 5.995.192 frá þeim degi til 1. júní 2005, af kr. 6.333.800 frá þeim degi til 1. júlí 2005, af kr. 6.672.408 frá þeim degi til 1. ágúst 2005, af kr. 7.011.017 frá þeim degi til 1. september 2005, af kr. 7.349.625 frá þeim degi til 1. október 2005, af kr. 7.688.233 frá þeim degi til 1. nóvember 2005, af kr. 8.026.842 frá þeim degi til 1. desember 2005, af kr. 8.337.630 frá þeim degi til 1. janúar 2006, af kr. 8.676.238 frá þeim degi til 1. febrúar 2006, af kr. 9.003.924 frá þeim degi til 1. mars 2006, af kr. 9.331.610 frá þeim degi til 1. apríl 2006,  af kr. 9.659.295 frá þeim degi til 1. maí 2006, af kr. 9.986.981 frá þeim degi til 1. júní 2006, af kr. 10.314.667 frá þeim degi til 1. september 2006, af kr. 11.090.167 frá þeim degi til 1. október 2006, af kr. 11.865.667 frá þeim degi til 1. nóvember 2006, af kr. 12.641.167 frá þeim degi til 1. desember 2006, af kr. 13.416.667 frá þeim degi til 1. janúar 2007, af kr. 14.192.167 frá þeim degi til 1. febrúar 2007 og af kr. 15.604.258 frá þeim degi til greiðsludags.

Verði talið að stefnandi hafi þegar staðið stefnda skil á vangoldnum launum og tengdum greiðslum fram til ársloka 2005 gerir stefndi þá kröfu að stefnandi greiði honum 6.928.020 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af kr. 327.686 frá 1. febrúar 2006 til 1. mars. 2006, af kr. 655.371 frá þeim degi til 1. apríl 2006, af kr. 983.057 frá þeim degi til 1. maí 2006, af kr. 1.310.743 frá þeim degi til 1. júní 2006, af kr. 1.638.429 frá þeim degi til 1. september 2006, af kr. 2.413.929 frá þeim degi til 1. október 2006, af kr. 3.189.429 frá þeim degi til 1. nóvember 2006, af kr. 3.964.929 frá þeim degi til 1. desember 2006, af kr. 4.740.429 frá þeim degi til 1. janúar 2007, af kr. 5.515.929 frá þeim degi til 1. febrúar 2007 og af kr. 6.928.020 frá þeim degi til greiðsludags.

I.

Í málinu krefur stefnandi fyrrverandi framkvæmdastjóra stefnanda um greiðslu skuldar að fjárhæð 10.005.663 krónur sem stefnandi telur að stefndi skuldi félaginu samkvæmt viðskiptamannareikningi. Ekki er deilt um fjárhæð stefnukröfunnar en stefndi mótmælir aftur á móti  kröfu stefnanda á þeirri forsendu að ógreiddum launum hans hafi ekki verið skuldajafnað við úttektir hans hjá félaginu og eins á þeirri forsendu að stefndi hafi ekki fengið greidd laun í uppsagnarfrest eins og honum hafi borið samkvæmt samningi aðila.

Forsaga máls þessa er sú að árið 1996 stofnaði stefndi hugbúnaðarfyrirtæki. Var hann eini starfsmaður fyrirtækisins framan af en fljótlega komu fleiri að fyrirtækinu og árið 1999 varð stefndi framkvæmdastjóri þess. Hann segist þó fyrst og fremst hafa sinnt samningsgerð og markaðs- og sölumálum en aðrir séð um fjármál fyrirtækisins. Hann var lengst af stærsti hluthafinn en kvaðst hafa valið reynda fjármálamenn í stjórn enda ekki haft sjálfur þekkingu á því sviði en hann sé menntaður líffræðingur og lífeðlisfræðingur. KPMG Endurskoðun hf. sá um allt bókhald félagsins og að auki launagreiðslur lengst af.

Þann 1. júlí 1999 var gerður ráðningarsamningur við stefnda og hann ráðinn sem framkvæmdastjóri. Umsamin mánaðarlaun voru 350.000 krónur og var ekki greitt sérstaklega fyrir yfirvinnu. Launakjör stefnda skyldu endurskoðuð árlega og taka jafnframt breytingum samkvæmt samningum Verslunarmannafélags Reykjavíkur. Þá skuldbatt stefnandi sig til að útvega stefnda bifreið til eigin nota að verðmæti allt að 3.500.000 krónur og til að greiða allan almennan rekstrarkostnað hennar. Gagnkvæmur uppsagnarfrestur samningsins var ákveðinn 3 mánuðir. Í ráðningarsamningnum sagði ennfremur að óski stjórn stefnanda að stefndi láti af störfum innan umsamins uppsagnartíma skuli greiða honum full laun samkvæmt samningnum út uppsagnartímann, óháð því hvað hann tekur sér fyrir hendur í millitíðinni. Launakjör stefnda sættu að minnsta kosti tvívegis endurskoðun á starfstíma hans hjá stefnanda. Hinn 1. apríl 2001 voru mánaðarlaun stefnda hækkuð í 500.000 krónur og hinn 1. apríl 2002 voru mánaðarlaun stefnda hækkuð í 650.000 krónur og uppsagnarfrestur ráðningarsamningsins lengdur í 6 mánuði.

Fram hefur komið í málinu að rekstur fyrirtækisins reyndist frá upphafi mikil þrautaganga. Unnið var að vöruþróun með tilheyrandi kostnaði en miklar tafir urðu á að fyrirtækið aflaði sér tekna svo nokkru næmi og var fjárhagsstaða stefnanda því afar bágborin. Þegar illa áraði lánaði stefndi fyrirtækinu fé, tugi milljóna að hans sögn, og tók stefndi auk þess sjaldnast út full laun. Hann hafði þó fyrir fjölskyldu að sjá og því skapaðist sú venja að hann fór með ógreidda reikninga heimilisins til bókara stefnanda sem greiddi persónulega reikninga stefnda eftir því sem efni stefnanda leyfðu hverju sinni. Voru þessar greiðslur færðar á viðskiptamannareikning sem skuld stefnda við stefnanda en ógreidd laun og lán stefnda til stefnanda voru færð á lánadrottnareikning. Um hver áramót var skuldajafnað milli þessara tveggja reikninga og skuld stefnda á viðskiptamannareikningi færð niður í 0 krónur vegna þess að stefnandi skuldaði stefnda ávallt hærri fjárhæð en nam úttekt stefnda hjá stefnanda. Gekk þetta svona fyrir sig í gegnum árin og í árslok 2005 var staðan einnig þannig að skuld stefnda við stefnanda var 0 krónur á viðskiptamannareikningi. Síðar kom í ljós að ranglega hafði verið skuldajafnað 8.135.984 krónum og var sú færsla leiðrétt síðar. Kom þá í ljós að stefndi stóð í skuld við stefnanda í árslok 2005 að fjárhæð 7.349.219 krónur. Þessi skuld jókst á árinu 2006 og stóð í 10.005.663 krónur er stefndi hætti störfum hjá stefnanda í lok júní það ár. Þessi fjárhæð er stefnukrafa málsins og eins og áður sagði er ekki deilt tölulega um hana.

Í lok árs 2002 kom til tals að gefa starfsmönnum stefnanda, sem áttu inni launagreiðslur hjá stefnanda,  kost á að skrifa sig fyrir nýjum hlutum í félaginu í kjölfar hlutafjárhækkunar og greiða þá með gjaldföllnum launagreiðslum. Ekki varð af hlutafjárhækkuninni fyrr en árið 2005 en á hluthafafundi stefnanda hinn 11. ágúst 2005 var samþykkt tillaga stjórnar félagsins, sem fól í sér heimild til hækkunar á hlutafé um allt að 90.000.000 krónur. Með hlutafjárhækkuninni var fyrirætlun stefnanda m.a. að gera upp uppsafnaðar launaskuldir við starfsmenn. Var starfsmönnum veittur réttur til að skrá sig fyrir nýju hlutafé á genginu 1,0 og var aðeins heimilt að greiða fyrir hlutafé með skuldajöfnuði við gjaldfallnar launaskuldir sem samþykktar voru af stjórn stefnanda. Segir m.a. í breyttum samþykktum félagsins að þessi heimild skuli standa til 31. október 2005 en falla þá niður. Einungis sé heimilt að greiða fyrir nýtt hlutafé í þessum hluta með skuldajöfnuði við gjaldfallnar launaskuldir sem stjórn félagsins samþykki. Það átti að vera skilyrði fyrir skráningu á nýju hlutafé í þessum hluta að starfsmaður hefði áður greitt til félagsins fjárhæð sem nam tekjuskatti og hlutdeild í greiðslu til lífeyrirsjóðs.

Í málinu liggur fyrir bréf Ágústar Jóhannssonar, löggilts endurskoðanda hjá KPMG Endurskoðun hf., frá 15. ágúst 2006 þar sem samanburður er gerður á reiknuðum launum stefnda og greiddum launum hans tímabilið 2000 til 2005. Kemur þar m.a. fram að reiknuð laun stefnda á þessu tímabili hafi verið 48.003.007 krónur en inn í þeirri tölu séu ekki reiknuð bifreiðahlunnindi. Á sama tíma hafi greidd laun numið 32.015.971 krónu. Vangreidd laun séu því 15.987.036 krónur en með vöxtum nemi skuld stefnanda við stefnda 18.997.036 krónum. Þá kemur fram í bréfinu varðandi bifreiðamál stefnda að samkvæmt ráðningarsamingi hafi verið gert ráð fyrir því að félagið ætti bifreið sem stefndi hefði til eigin nota. Þetta ákvæði hafi stefnandi aldrei efnt og stefndi notaði eigin bifreið en stefnandi greitt rekstrarkostnað vegna hennar.

Ennfremur hefur verið lagt fram bréf KPMG Endurskoðunar hf., dagsett 8. ágúst 2006. Efni bréfsins er ársreikningur stefnanda 2005 og segir í bréfinu að með því óski KPMG eftir að gera grein fyrir nokkrum liðum ársreikningsins og helstu niðurstöðum endurskoðunarinnar. Í bréfinu kemur m.a. fram að vegna þröngrar fjárhagsstöðu félagsins hafi ekki tekist að greiða nokkrum starfsmönnum umsamin laun. Heildarskuld vegna þessara starfsmanna nemi 26.900.000 krónum í ársbyrjun 2005 auk áætlaðra launatengdra gjalda að fjárhæð 3.000.000 króna. Skuld stefnanda við stefnda sé 22.689.530 krónur. Á grundvelli þessarar fjárhæðar hafi náðst samkomulag um að breyta skuldinni í hlutafé. Stefndi hafi greitt staðgreiðslu við uppgjör kröfunnar auk lífeyrissjóðsgjalda, samtals að fjárhæð 9.100.000 krónur. Þá segir ennfremur í þessu bréfi að í ársreikningi séu áætlaðar 5.200.000 krónur sem séu ófengin laun til handa stefnda sem stefndi telji að stefnandi beri að greiða sér. Í árslok 2005 nemi krafa stefnanda á hendur stefnda 7.300.000 krónum vegna úttekta hans hjá félaginu.

Ágúst Jóhannesson, löggiltur endurskoðandi, kom fyrir dóm og kvaðst telja að miðað hafi verið við árslok 2005 þegar uppgjör á launaskuld við stefnda hafi farið fram og skuldinni breytt í hlutafé. Spurður um af hverju 5.200.000 krónur, sem væru áætluð ófengin laun í árslok 2005, hefðu ekki verið tekin með í þennan útreikning, svaraði hann því til að hann teldi að það hafi ekki verið unnt vegna þess að talan hafi verið áætluð og eftir hafi verið að greiða staðgreiðslu af þeim launum og launatengd gjöld.

Í málinu hefur verið lagður fram hluthafasamningur, dagsettur 11. mars 2005. Segir í honum að Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis, stefndi og Gunnar Ellert Geirsson geri með sér hluthafasamning sem hluthafar í Smartkortum hf. en það hét félagið á þeim tíma. Segir jafnframt í samningnum að tilefni þessa hluthafasamnings sé aðild Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis að félaginu og ásetningur aðila að efla félagið og tryggja því fjármagn til uppbyggingar næstu árin. Tilgangur þessa samkomulags sé að staðfesta með formlegum hætti reglur sem samningsaðilar hafi komið sér saman um um meðferð hlutafjár og ákvarðanatökur í félaginu. Síðan segir í 4. mgr. 4. gr. samningsins: ,,Aðilar eru sammála um að ÞG nýti rétt til þess að skrifa sig fyrir hlutafé að fjárhæð kr. 34.000.000, skv. yfirlýsingu um ábyrgð dagsett 22. apríl 2003, en með þeim kaupum fer m.a. fram fullnaðaruppgjör á skuldum félagsins við ÞG.”

Stefndi segir að endurskoðandi félagsins, stjórnarformaður þess og bókari hafi komið að uppgjöri við hann en stefndi segir að það hafi ekki samræmst hagsmunum félagsins að hann kæmi persónulega að þeim útreikningi. Eftirstöðvar greiðslu fyrir nýjum hlutum í félaginu hafi stefndi fjármagnað með láni frá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis sem hafi verið orðinn stærsti eigandi hlutafjár í félaginu ásamt stefnanda. Stefndi hafi sett hlutabréfin til tryggingar greiðslu skuldarinnar. Nokkrar sviptingar hafi orðið í rekstri stefnanda á árinu 2006 þegar lykilstarfsmenn stefnanda hafi verið ráðnir til Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis og til Tölvumiðstöðvar sparisjóðanna. Með því að hafi verðmæti fyrirtækisins rýrnað verulega. Gjalddagi skuldar stefnda við Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis hafi verið í byrjun sumars 2006 og hafi stefndi neyðst þá til að framselja stærsta hlut hlutafjáreignar sinnar til sparisjóðsins sem hafi þá orðið meirihlutaeigandi í félaginu.

Stefndi hafi starfað sem framkvæmdastjóri stefnanda fram í lok júlí árið 2006 en þegar stefndi hugðist mæta til vinnu hafi verið búið að skipta um læsingar í starfsstöð stefnanda og stefnda gert ókleift að sinna vinnu sinni. Engin formleg uppsögn ráðningarsamnings hafi farið fram af hálfu stefnanda og engin krafa hafi verið gerð um vinnuframlag hans í uppsagnarfresti. Honum hafi ekki verið staðið skil á launagreiðslum í uppsagnarfresti.

II.

Stefnandi byggir kröfur sínar á almennum reglum um kröfu- og samningaréttar um greiðslu skulda, skuldbindingagildi loforða og endurgreiðslu lána. Stefnandi byggir á því að stefndi hafi fengið umræddar fjárhæðir að láni frá stefnanda vegna persónulegra útteka eða útgjalda en ekki endurgreitt. Í öllum tilfellum hafi stefndi sjálfur tekið ákvörðun um að láta félagið lána sér eða greiða fyrir sig umræddar fjárhæðir og fært sér þær til skuldar í reikningum félagsins. Þessi lántaka hafi honum verið óheimil samkvæmt ákvæðum 104. gr. hlutafélagalaga nr. 2/1995. Fyrir umræddum lántökum hafi stefndi ekki fengið sérstaka heimild eða samþykki stjórnar. Dráttarvaxta sé aðeins krafist frá starfslokum stefnda. Kröfu sína um málskostnað styður stefndi 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.

Stefndi gerir þær athugasemdir við málatilbúnað stefnanda að samkvæmt viðskiptamannareikningi hinn 31. júlí 2006 hafi skuld stefnda við stefnanda numið 2.656.444 krónum en tvær færslur hinn 30. desember 2005 hafi verið leiðréttar af endurskoðanda því að þær hafi ekki verið taldar eiga rétt á sér. Með því hafi staða á viðskiptamannareikningi hækkað í 10.005.663 krónur sem sé stefnufjárhæð málsins. Stefndi telur það gagnrýnisvert að ekki sé fjallað efnislega um þessar færslur, sem myndi svo drjúgan hluta dómkrafna stefnanda, og eigi því stefndi erfitt um vik að verjast kröfugerðinni. Telur stefndi að stefnandi hafi ekki gætt nægilega að þeirri grundvallarreglu einkamálaréttarfars að gera nægilega grein fyrir þeim atvikum sem búi að baki kröfugerðinni.

Stefndi mótmælir því að um lántöku stefnda hafi verið að ræða. Stefnandi hafi verið í sívaxandi skuld við stefnda vegna vangoldinna launa. Þá beri einstakar færslur á viðskiptareikningi stefnda jafnframt með sér að um sé að ræða endurgreiðslu á útlögðum kostnaði stefnda í þágu félagsins en skuldastaða hafi ávallt verið leiðrétt í árslok. Stefnanda hafi borið að taka tillit til skuldastöðu á viðskiptareikningi við launauppgjör í árslok 2005 sem fram hafi farið með áskrift nýs hlutafjár. Því standist það ekki að grundvalla kröfu sína á ákvæðum hlutafjárlaga um lánveitingu til stjórnenda hlutafélags.

Verði dómkröfur stefnanda teknar til greina að hluta eða öllu leyti krefst stefndi þess að skuld stefnanda við hann vegna vangoldinna launa, bifreiðastyrks, launa í uppsagnarfresti, óuppgerðs orlofs og mótframlags í lífeyrissjóð vegna launa og orlofs, komi til skuldajafnaðar. Stefnandi hafi ekki staðið stefnda að fullu skil á launagreiðslum samkvæmt ráðningarsamningi frá upphafi árs 2003 en skuld stefnanda vegna vangoldinna launa fram að þeim tíma hafi verið gerð upp með áskrift að nýju hlutafé árið 2005. Elstu ófyrndar launakröfur stefnda séu vegna desember 2003 sem hafi fallið í gjalddaga 1. janúar 2004. Stefndi geri því kröfu um að stefnandi standi honum skil á vangoldnum launum frá þeim tíma til og með maí 2006 en stefnandi hafi fengið greidd full laun samkvæmt ráðningarsamningi vegna júní og júlí 2006. Þá sé jafnframt gerð krafa um vangoldinn bifreiðastyrk að fjárhæð 80.000 mánaðarlega en hann hafi aðeins verið greiddur tvívegis á þessu tímabili. Þá sé einnig gerð krafa um 7% mótframlag stefnanda í lífeyrissjóð af vangoldnum launum.

Stefndi heldur því fram að hann eigi rétt á launum í uppsagnarfresti sem sé 6 mánuðir samkvæmt ráðningarsamningi. Stefnanda beri að standa skil á umsömdum mánaðarlaunum, 650.000 krónum í 6 mánuði, fyrir tímabilið ágúst til desember 2006 og janúar 2007 auk bifreiðastyrks að fjárhæð 80.000 krónur, ásamt 7% mótframlagi í lífeyrissjóð af vangoldnum launum í uppsagnarfresti. Þá gerir stefndi jafnframt kröfu um uppgjör orlofs vegna orlofsársins 2006 sem hefði átt að fara fram við starfslok. Stefndi eigi að lágmarki rétt á 24 daga orlofi og nemi orlofsprósenta 10,17%. Gerð sé krafa um greiðslu orlofs vegna tímabilis frá 1. maí 2006 til 31. janúar 2007, þ.e. út uppsagnarfrest stefnda. Þá sé jafnframt gerð krafa um 7% mótframlag stefnanda í lífeyrissjóð af orlofsgreiðslum. Stefndi telur að krafa hans eigi að bera dráttarvexti frá 1. hvers mánaðar enda hafi gjalddagi launagreiðslna verið ákveðinn með þeim hætti. Þá skuli óuppgert orlof ásamt mótframlagi stefnanda í lífeyrissjóð á óuppgerðu orlofi jafnframt bera dráttarvexti frá 1. febrúar 2007, þ.e. að liðnum 6 mánaða uppsagnarfresti stefnda. Þannig nemi krafa stefnda að þessu leyti 15.604.258 krónur.

Verði talið að stefnandi hafi við launauppgjör í árslok 2005 staðið stefnda skil á vangoldnum launum, bifreiðastyrk og mótframlagi í lífeyrissjóð vegna launa fram til þess tíma geri stefndi kröfu um að til skuldajafnaðar komi krafa stefnda um vangoldin laun frá janúar 2007, bifreiðastyrkur, laun í uppsagnarfresti t.o.m. janúar 2007, óuppgert orlof og mótframlag stefnanda í lífeyrissjóð vegna launaorlofs. Um forsendur þessa útreiknings vísar stefndi til gagna málsins en heildarfjárhæð nemi 6.928.020 krónum.

Þrautavarakröfu sína um lækkun styður stefndi við sömu rök og fram koma í framangreindum málsástæðum.

Sýknu- og lækkunarkröfu sína byggir stefndi á meginreglum íslensks vinnuréttar, lögum nr. 30/1987 um orlof og lögum nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Þá vísar stefnandi til meginreglna um skuldbindingagildi samninga. Um heimild til að hafa uppi gagnkröfu til skuldajafnaðar vísar stefndi til 1. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

III.

Af hálfu stefnanda er málið höfðað sem skuldamál á hendur stefnda og voru takmörkuð gögn lögð fram í upphafi. Olli það stefnda erfiðleikum í vörninni og í greinargerð hans er eftirfarandi áskorun: ,,Skorað er á stefnanda að leggja fram ársreikninga félagsins, fundargerðir stjórnar er málið varða, fylgiskjöl úr bókhaldi félagsins vegna þeirra færslna er mynda stefnufjárhæð málsins og samkomulag aðila um uppgjör á launaskuld stefnanda við stefnda og þá útreikninga er liggja að baki uppgjörinu.  Þá er jafnframt skorað á stefnanda að gera sérstaklega grein fyrir með hvaða hætti launaskuldir stefnanda við starfsmenn voru færðar í bækur félagsins.“ Stefnandi hefur orðið við áskorun stefnda og lagt fram ýmiss gögn, m.a. úr bókhaldi sínu. Verður litið svo á að stefnandi hafi ekki frekari gögn fram að færa  sem varpað gætu ljósi á málavexti.

Hér að framan er það rakið hvernig stefnandi stóð að jafnaði í skuld við stefnda um hver áramót. Var það vegna bágrar fjárhagsstöðu félagsins. Fram kemur í tölvupósti Jóns Steingrímssonar, fyrrverandi stjórnarformanns stefnanda, og einnig í skýrslu hans hér fyrir dómi að félagið hafi að stórum hluta verið rekið í gegnum viðskiptamannareikning stefnda hjá stefnanda. Þessi háttur var því hafður á með samþykki og vitund stjórnar stefnanda. Verður því ekki fallist á með stefnanda að 104. gr. hlutafélagalaga nr. 2/1995 eigi við í málinu.

Stefnda var sagt upp störfum fyrirvaralaust í lok júlí 2006 og á því rétt á launum í uppsagnarfresti í 6 mánuði frá 1. ágúst 2006 samkvæmt ráðningarsamningi aðila. Hann á rétt á umsömdum launum, 650.000 krónum á mánuði, auk umsamins bifreiðakostnaðar að fjárhæð 80.000 krónur á mánuði, 7% mótframlagi í lífeyrissjóð og orlofi. Auk þess liggur fyrir í málinu, samkvæmt framlögðum launaseðlum frá janúar 2006 til loka júlí 2006, að stefndi fékk ekki að fullu greidd laun á þessu tímabili. Skuldajafnaðarkrafa hans samkvæmt ofangreindu nemur samtals 6.928.020 krónum og ber að taka þá fjárhæð að fullu til greina eins og hún er sett fram af hálfu stefnda.

Eins og að framan er rakið safnaðist upp kaupréttur stefnda á hlutabréfum í stefnanda. Komið hefur fram í málinu að stjórn stefnanda gaf stefnda kost á að kaupa hlutabréf sem nam skuld stefnanda við stefnda. Var gengið til slíks uppgjörs á árinu 2005 en aðilar deila um hvenær ársins uppgjörið hafi farið fram. Hluthafafundur var haldinn 11. ágúst 2005 og var þá samþykkt hlutafjáraukning í þessu skyni. Á fundinum var samþykkt breyting á 5. grein samþykktar félagsins þar sem kemur m.a. fram að stefndi hafi haft frest til 30. október 2005 til þess að skrá sig fyrir hlut með þessum hætti, þ.e. að breyta launaskuld í hlutafé. Segir að einungis sé heimilt í þessum hluta að greiða fyrir nýtt hlutafé með skuldajöfnuði við gjaldfallnar launaskuldir og ennfremur að það sé skilyrði að starfsmaður hafi áður greitt til félagsins tekjuskatt af launum og hlutdeild í greiðslu til lífeyrissjóðs. Í dómskýrslu Ágústar Jóhannessonar, löggilts endurskoðanda, en hann kom að uppgjöri við stefnda, kom fram að vangreidd laun til stefnda hafi verið skuldajafnað til kaupa á hlutabréfum miðað við árslok 2005. Sagði hann jafnframt að í skýringum með ársreikningi 2005 væri getið um ógreidd laun til stefnda að fjárhæð 5.200.000 krónur sem væri áætluð tala. Hafi svo verið gert vegna þess að sú launaskuld hafi ekki verið tæk til skuldajafnaðar þar sem eftir hafi verið að draga frá staðgreiðslu og launatengd gjöld. Fjárhæðin hafi því verið áætluð. Ágúst kvaðst ekki geta fullyrt neitt í þessu sambandi en samkvæmt skýringum með ársreikningi 2005 væri ekki annað að sjá en að stefnandi stæði í 5.200.000 króna skuld við stefnda í árslok 2005 vegna launa.

Þegar litið er til þess að stefndi hefur skorað á stefnanda að leggja fram öll gögn úr bókhaldi félagsins sem varpað gætu ljósi á framangreint, og stefndi á þess ekki kost að leggja fram frekari gögn í þessu sambandi, þykir stefndi eiga að njóta vafans um það ágreiningsefni hvort hann hafi átt inni laun hjá stefnanda í árslok 2005 eins og hann hefur haldið fram. Styðst það einnig við 5. gr. samþykktar stefnanda, eins og henni var breytt á hluthafafundi 11. ágúst 2005, að aðeins mætti skuldajafna ógreiddum launum sem starfsmaður hafði greitt staðgreiðslu af ásamt framlagi sínu til lífeyrissjóðs. Samkvæmt framansögðu verður litið svo á að við uppgjör aðila, þegar launaskuld við stefnda var breytt í hlutafé, hafi verið miðað við árslok 2005 og gjaldfallin en vangreidd laun til stefnda skuldajafnað við hlutabréfakaup hans að undanskildum 5.200.000 krónum en sú fjárhæð þótti ekki tækt til skuldajafnaðar af þeim ástæðum sem áður greindi.

Niðurstaða málsins verður því sú að stefnukrafa er að fullu tekin til greina. Skuldajafnaðarkrafa stefnanda samtals að fjárhæð 12.128.020 krónur (6.928.020 + 5.200.000) er jafnframt tekin til greina. Heildarniðurstaða málsins verður því sú að aðalkrafa stefnda um sýknu verður tekin til greina þar sem samþykkt skuldajafnaðarkrafa stefnda er hærri en stefnukrafa málsins.

Eftir þessari niðurstöðu verður stefnandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 700.000 krónur og er þá virðisaukaskattur meðtalinn.

Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

Dómsorð

Stefndi, Þorsteinn Geirsson, er sýkn af kröfum stefnanda, Curron hf. í máli þessu.

Stefnandi greiði stefnda 700.000  krónur í málskostnað.