Hæstiréttur íslands
Mál nr. 486/2002
Lykilorð
- Kærumál
- Gjaldþrotaskipti
- Kröfulýsing
- Aðild
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Föstudaginn 8. nóvember 2002. |
|
Nr. 486/2002. |
Páll Pálsson(Jón Hjaltason hrl.) gegn Ferðamálasjóði (Jónatan Sveinsson hrl.) |
Kærumál. Gjaldþrotaskipti. Kröfulýsing. Aðild. Frávísunarúrskurður staðfestur.
Þrotamaður gat ekki verið aðili að máli um ágreining um viðurkenningu á lýstri kröfu við gjaldþrotaskipti á búi hans. Var því vísað frá máli, sem skiptastjóri í þrotabúi P hafði beint til héraðsdóms til að afla úrlausnar um ágreining, sem risið hafði milli P og F, sem hafði lýst kröfu í búið.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. október 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. október 2002, þar sem vísað var frá dómi máli, sem skiptastjóri í þrotabúi sóknaraðila hafði beint til dómsins til að afla úrlausnar um ágreining, sem risið hafði milli aðilanna við gjaldþrotaskiptin. Kæruheimild er í 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að leysa efnislega úr málinu. Þá krefst sóknaraðili kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.
Eins og nánar greinir í hinum kærða úrskurði var bú sóknaraðila tekið til gjaldþrotaskipta 30. júní 1998. Í framhaldi af innköllun skiptastjóra í þrotabúinu lýsti varnaraðili þar kröfu að fjárhæð 33.688.749 krónur vegna ófullnægðra eftirstöðva skuldabréfa, en þau höfðu verið tryggð með veði í fasteignum, sem þá höfðu verið seldar við nauðungarsölu. Ágreiningur reis um viðurkenningu þessarar kröfu við gjaldþrotaskiptin. Í tengslum við það höfðaði sóknaraðili ásamt þremur öðrum fyrrum eigendum umræddra fasteigna mál á hendur varnaraðila til að fá ófullnægðar eftirstöðvar skuldabréfanna felldar niður á grundvelli ákvæða 57. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Lauk því máli með dómi Hæstaréttar 6. júní 2002 í máli nr. 16/2002, þar sem eftirstöðvar þessara skuldabréfa voru færðar niður í samtals 4.207.907 krónur miðað við stöðu þeirra 5. maí 1998. Að gengnum þessum dómi leitaði skiptastjóri eftir því að varnaraðili gerði nýja kröfulýsingu í þrotabú sóknaraðila, sem varnaraðili varð við með bréfi 13. júní 2002. Samkvæmt því, sem þar kom fram, taldi hann sig eiga á hendur þrotabúinu almenna kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 að fjárhæð 4.313.981 krónu, en eftirstæða kröfu samkvæmt 114. gr. laganna að fjárhæð 4.508.947 krónur. Til frádráttar þessu kæmu greiðsla til varnaraðila úr þrotabúi samskuldara sóknaraðila ásamt málskostnaði, sem varnaraðila hafði verið gert að greiða sóknaraðila með fyrrnefndum dómi, en samtals taldi varnaraðili þessa liði nema 2.362.878 krónum. Í nýrri skrá, sem skiptastjóri gerði um lýstar kröfur í þrotabú sóknaraðila 24. júní 2002, lýsti hann sig samþykkan því að viðurkenna almenna kröfu varnaraðila með 1.951.103 krónum, en eftirstæða kröfu hans að fullu. Á skiptafundi, sem haldinn var í þrotabúinu 8. júlí 2002 til að fjalla um kröfuskrána, reis ágreiningur milli málsaðilanna um viðurkenningu kröfu varnaraðila. Beindi skiptastjóri þeim ágreiningi til Héraðsdóms Reykjavíkur 9. sama mánaðar og var mál þetta þingfest af því tilefni 6. ágúst 2002.
Samkvæmt 1. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991 getur kröfuhafi borið fram mótmæli gegn afstöðu, sem skiptastjóri lætur í ljós í kröfuskrá, til viðurkenningar á lýstri kröfu hans sjálfs. Hann getur einnig mótmælt afstöðu skiptastjóra til viðurkenningar á kröfu annars kröfuhafa. Með þessu er greint á tæmandi hátt hverjir geti orðið aðilar að ágreiningi um viðurkenningu á lýstri kröfu við gjaldþrotaskipti. Slíkt er ekki á færi þrotamanns. Samkvæmt því verður hinn kærði úrskurður staðfestur.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Páll Pálsson, greiði varnaraðila, Ferðamálasjóði, 50.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. október 2002.
Mál þetta var þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 6. ágúst 2002, en málflutningur um frávísunarkröfu Ferðamálasjóðs fór fram 7. þ.m.
Sóknaraðili er Páll Pálsson, kt. 250266-3169, Kleppsvegi 44, Reykjavík.
Ferðamálasjóður, kt. 630179-0689, Hverfisgötu 6, Reykjavík, heldur uppi vörnum í málinu, en af hálfu varnaraðila, H. Sigurmundssyni ehf. og Karli Kristmanns, hefur verið lýst yfir að þar sem engum kröfum sé beint að þeim hafi þau ekki uppi kröfur í málinu.
Dómkröfur Ferðamálasjóðs eru aðallega að málinu verði vísað frá dómi og sóknaraðila verði gert að greiða varnaraðila hæfilegan málskostnað að mati réttarins. Sóknaraðili krefst þess hins vegar að frávísunarkröfu varnaraðila, Ferðamálasjóðs, verði hafnað. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi sóknaraðila að mati réttarins.
Helstu málavextir eru að með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 30. júní 1998 var bú sóknaraðila tekið til gjaldþrotaskipta. Lýstar kröfur námu alls 37.036.059 kr. en þar af voru veðkröfur varnaraðila samtals að fjárhæð 33.688.749 kr. sem skiptastjóri féllst á með fyrirvara um samþykki á skiptafundi.
Í bréfi skiptastjóra til héraðsdóms frá 9. júlí sl., þar sem farið er fram á úrlausn dómsins vegna ágreinings við gjaldþrotaskiptin, segir m.a. að á skiptafundi 28. september 1998 hafi þrotamaður mótmælt kröfu varnaraðila sem rangri, en áður en skiptastjóra hefði gefist ráðrúm til að taka afstöðu til ágreinings aðila um kröfuna hafi málið verið verið borið undir dómstóla og lokið með dómi Hæstaréttar Íslands 6. júní sl. Dæmt hefði verið að eftirstöðvar umdeildra skuldabréfa væru 4.207.907 kr. miðað við stöðu bréfanna 5. maí 1998. Þá segir að skiptastjóri hafi óskað eftir því að varnaraðili kæmi fram með nýja kröfulýsingu sem tæki mið af þessari niðurstöðu. Kröfulýsingin hafi borist honum 13. júní sl. Skiptastjóri hefði tjáð aðilum að hann samþykkti lýstar kröfur varnaraðila með tilteknum hætti. Mótmæli hefðu þegar borist frá sóknaraðila og hefði á skiptafundi [8. júlí sl.] verið ákveðið að ágreiningi aðila yrði skotið til héraðsdóms. Þá segir í bréfi skiptastjóra til réttarins að hann telji að þrotabúið eigi ekki aðild að þessu ágreiningsmáli.
Í málinu hefur verið lagt fram ljósrit af fundargerð fundar í þrotabúi sóknaraðila frá 2. september sl. Þar segir m.a. að mættir séu auk skiptastjóra Jónatan Sveinsson f.h. Ferðamálasjóðs og Jón Hjaltason f.h. þrotamanns, en Jóni og þrotamanni hafi verið boðið á fundinn. Þá segir að skiptastjóri hafi ákveðið að Jón fengi f.h. þrotamanns málfrelsi og tillögurétt á fundinum. Lýsti skiptastjóri því yfir að hann hefði verið í þeirri trú að fyrir lægi samkomulag um fella málið niður - þ.e. mál það sem hér er til meðferðar fyrir héraðsdómi - og að þrotamaður myndi höfða nýtt mál. Hafi skiptafundur þessi verið boðaður í því skyni að flýta þeirri meðferð. Hins vegar hafi Jón Hjaltson fyrir fundinn boðað að málið yrði ekki fellt niður af hans hálfu.
Þá er bókað m.a. að skiptastjóri álykti að hann eigi ekki forræði í málaferlum aðila fyrir héraðsdómi. Einnig er bókað:
Skiptastjóri tilkynnir að hann telji ekkert fram komið í málinu af hálfu þrotamanns sem breyti afstöðu hans til lýstra krafna. Kröfuskrá er því samþykkt með vísan til 3. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991.
Í umræddri kröfuskrá segir að afstaða skiptastjóra til kröfu Ferðamálasjóðs á hendur sóknaraðila sé að 1.951.103 kr. teljist almenn krafa en 4.508.947 kr. eftirstæð krafa, en þá hafi verið ráðstafað innborgunum að fjárhæð 2.362.878 kr.
Af hálfu varnaraðila, Ferðamálasjóðs, er byggt á því að sóknaraðila sem þrotamanni sé óheimilt að reka mál eftir leiðum 171. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., í því skyni að hnekkja eða breyta samþykktri kröfuskrá. Samkvæmt 120. gr. sömu laga eigi þeir einir rétt til að reka mál eftir þessum leiðum sem lýst hafi kröfum í viðkomandi þrotabú.
Þá byggir varnaraðili á því að krafa sóknaraðila um að staðfest verði með dómi að Ferðamálasjóður eigi engar kröfur í þrotabú Páls Pálssonar sé með öllu ódómtæk sökum óskýrleika og ekki til þess fallin að ná fram þeirri ætlun sóknaraðila að hnekkja hinni endurgerðu kröfuskrá skiptastjóra. Sama gegni um kröfu sóknaraðila að héraðsdómur fallist á að Páll Pálsson eigi skaðabótarétt á hendur Ferðamálasjóði, svo sem þar er orðað, en slíka kröfu beri sóknaraðila að reka í almennu dómsmáli en ekki sem ágreiningsmál um atriði við gjaldþrotaskipti.
Af hálfu sóknaraðila er á því byggt að heimilt sé að sækja mál með þeim hætti sem hér er gert og kröfugerð sóknaraðila sé eins glögg og verða megi.
Niðurstaða: Málsókn sóknaraðila er reist á því að Ferðamálasjóður eigi ekki lögmæta kröfu á hendur þrotabúinu. Þegar úrskurðað var í héraðsdómi 30. júní 1998 að bú sóknaraðila væri tekið til gjaldþrotaskipta tók þrotabú sóknaraðila við öllum fjárhagslegum réttindum sem hann átti eða naut við uppkvaðningu úrskurðarins, sbr. 1. mgr. 72. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991. Samkvæmt 1. mgr. 122. gr. sömu laga fer skiptastjóri með forræði þrotabúsins og er einn bær um að ráðstafa hagsmunum og svara fyrir skyldur þess, sbr. þó 130. gr. Er skiptastjóri var skipaður til að fara með skipti á þrotabúinu tók hann við umráðum og ráðstöfunarrétti á búinu en sóknaraðili missti þessi umráð að sama skapi. Sóknaraðili hafði ekki eftir það sjálfstæða heimild til að hafi afskipti af fjárhagslegum réttindum og skyldum sem hvíla á þrotabúinu nema samkvæmt 2. mgr. 130. gr. laganna.
Varnaraðili, Ferðamálasjóður, á hvorki í deilum við þrotabú Páls Pálssonar né aðila sem lýst hafa kröfum í búið. Þarflaust var því af skiptastjóra að vísa máli þessu til héraðsdóms.
Samkvæmt framangreindu og að öðru leyti með vísun til röksemda varnaraðila verður fallist á kröfu varnaraðila um að málinu verði vísað frá dómi.
Rétt er að sóknaraðili greiði varnaraðila 40.000 kr. í málskostnað.
Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
ÚRSKURÐARORÐ:
Málinu er vísað frá dómi.
Sóknaraðili, Páll Pálsson, greiði varnaraðila, Ferðamálasjóði, 40.000 kr. í málskostnað.