Hæstiréttur íslands
Mál nr. 32/2017
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald
- Útlendingur
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Helgi I. Jónsson hæstaréttardómari og Davíð Þór Björgvinsson og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. janúar 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. janúar 2017, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði gert að sæta gæsluvarðhaldi til föstudagsins 27. janúar 2017 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess að framangreind krafa verði tekin til greina.
Varnaraðili krefst aðallega staðfestingar hins kærða úrskurðar, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann ,,þóknunar skipaðs verjanda fyrir Hæstarétti.“
Með úrskurði kærunefndar útlendingamála 28. júlí 2016 var staðfest ákvörðun Útlendingastofnunar 12. febrúar sama ár um að réttur varnaraðila til dvalar hér á landi á grundvelli 1. mgr. 36. gr. a. þágildandi laga um útlendinga nr. 96/2002 væri niður fallinn. Með ákvörðun Útlendingastofnunar var varnaraðila gert að yfirgefa landið innan 30 daga frá móttöku ákvörðunarinnar. Úrskurður kærunefndar útlendingamála var birtur varnaraðila 12. september 2016 en hann óskaði eftir frestun réttaráhrifa samkvæmt 33. gr. fyrrgreindra laga. Þeirri kröfu hafnaði kærunefnd útlendingamála með úrskurði 15. nóvember 2016. Í samræmi við 33. gr. a. þágildandi laga um útlendinga lagði ríkislögreglustjóri fyrir varnaraðila 14. desember 2016 að mæta á lögreglustöðina að Hverfisgötu 113 í Reykjavík á hverjum virkum degi í 30 daga frá þeim degi. Í fyrirmælunum sagði að þau væru til að tryggja að ákvörðun íslenskra yfirvalda ,,geti verið framkvæmd ... samkvæmt 33. gr. laga um útlendinga nr. 96/2002.“ Var varnaraðila gefinn 30 daga frestur til að koma sér úr landi af sjálfsdáðum og bent á að ef hann bryti gegn fyrirmælunum gæti lögregla handtekið hann og krafist gæsluvarðhalds yfir honum. Er ágreiningslaust að varnaraðili braut gegn þessum fyrirmælum. Með dómi Hæstaréttar 3. janúar 2017 í máli nr. 2/2017 var fallist á að varnaraðili sætti gæsluvarðhaldi á grundvelli 4. mgr. 33. gr. a. þágildandi laga um útlendinga til 13. janúar 2017, en ákvæðið er samhljóða 4. mgr. 105. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016, sem tóku gildi 1. janúar 2017, með þeim frávíkum sem greinir í 121. gr. laganna. Í 4. mgr. 105. gr. laganna segir að ef nauðsyn beri til að tryggja framkvæmd ákvörðunar sé heimilt að handtaka útlending og úrskurða í gæsluvarðhald samkvæmt lögum um meðferð sakamála.
Eins og að framan er rakið kvað kærunefnd útlendingamála upp úrskurð 28. júlí 2016 um að réttur varnaraðila til dvalar hér á landi væri fallinn niður, sbr. 1. mgr. 40. gr. þágildandi laga um útlendinga og jafnframt liggur fyrir fyrrgreindur dómur Hæstaréttar um gæsluvarðhald varnaraðila á grundvelli 3. og 4. mgr. 33. gr. a. sömu laga. Samkvæmt framangreindu er fallist á að uppfyllt séu skilyrði 4. mgr., sbr. 5. mgr., 105. gr. laga nr. 80/2016, til þess að varnaraðili sæti gæsluvarðhaldi eins og krafist er.
Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti, greiðist úr ríkissjóði, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga nr. 88/2008.
Dómsorð:
Varnaraðili, X, sæti gæsluvarðhaldi til 27. janúar 2017 klukkan 16.
Þóknun verjanda varnaraðila, Garðars Steins Ólafssonar héraðsdómslögmanns, vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, 124.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. janúar 2017
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X kt. [...] verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi til föstudagsins 27. janúar 2017 kl. 16:00.
Í greinargerð lögreglu kemur fram að bakgrunnur málsins sé sá að þann 12. febrúar 2016 hafi Útlendingastofnun tekið ákvörðun um að réttur kærða til dvalar á landinu hafi verið felldur niður og hafi sú ákvörðun verið staðfest með úrskurði kærunefndar útlendingamála þann 28. júlí 2016.
Þann 14. desember sl. hafi kærða verið birt ákvörðun Ríkislögreglustjóra í samræmi við 33. gr. a. útlendingalaga um að honum yrði gert skylt að mæta á lögreglustöðina á Hverfisgötu 113 í Reykjavík klukkan 14:00 á hverjum virkum degi næstu 30 daga frá birtingu ákvörðunarinnar.
Fyrir liggi að kærði hafi aðeins einu sinni tilkynnt sig hjá lögreglu, þ.e. þann 15. desember. Eftir það hafi kærði aldrei komið aftur á lögreglustöðina til að sinna tilkynningarskyldunni. Þann 30. desember sl. hafi kærði svo verið handtekinn, grunaður um stórfellda líkamsárás. Kærði hafi í kjölfarið verið úrskurðaður í gæsluvarðhald á grundvelli 33. gr. a. laga um útlendinga nr. 96/2002 með úrskurði Héraðsdóms þann 31. desember til dagsins í dag. Sá úrskurður hafi síðan verið staðfestur með dómi Hæstaréttar í máli nr. 2/2017 frá 3. janúar sl.
Með vísan til þess að kærði hafi í engu sinnt lögboðinni tilkynningarskyldu sem á honum hafi hvílt auk þess sem hann liggi undir rökstuddum grun að hafa framið alvarlega líkamsárás verði að telja að skilyrði c. liðar 1. mgr. 115. gr. og 3. mgr. sömu greinar, sbr. 4. mgr. 105. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og sbr. áður 33. gr. a. laga um útlendinga nr. 96/2002 séu uppfyllt til að kærði sæti áframhaldandi gæsluvarðhaldi til að tryggja framkvæmd ákvörðunar Útlendingastofnunar.
Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og ofangreindra ákvæða laga um útlendinga og viðeigandi ákvæða laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.
Niðurstaða:
Eins og rakið hefur verið var varnaraðila gert að tilkynna sig daglega á lögreglustöð með ákvörðun Ríkislögreglustjóra þann 14. desember sl. en sú ákvörðun var reist á heimild í þágildandi 1. mgr. 33. gr. a. í lögum nr. 96/2002 um útlendinga. Eins og fram er komið sinnti varnaraðili ekki þeirri skyldu nema í eitt skipti. Í ákvörðuninni segir að varnaraðila sé gefinn 30 daga frestur til að koma sér af landinu af sjálfsdáðum. Kjósi hann að nýta sér það þá þurfi hann að upplýsa lögreglu um það þegar hann mæti í tilkynningaskyldu og falli hún niður um leið og hann yfirgefi landið.
Varnaraðili var handtekinn 30. desember sl. vegna líkamsárásar á karlmann. Í kjölfar þess var hann úrskurðaður í fyrrnefnt gæsluvarðhald á grundvelli 4. mgr. 33. gr. a. laga nr. 96/2002. Verður ekki annað séð en að það hafi verið gert á grundvelli c. liðar 1. mgr. 115. gr. laganna sbr. 3. mgr. núgildandi laga um útlendinga nr. 80/2017, þ.e. vegna þess að varnaraðili sinnti ekki kröfu um tilkynningaskyldu. Krafa sóknaraðila um framlengingu gæsluvarðhalds nú byggir á sama grunni, en fyrrgreint ákvæði c. liðar 1. mgr. 115. gr. kveður á um að heimilt sé að færa útlending í gæsluvarðhald hafi hann ekki sinnt kröfu um tilkynningaskyldu eða skyldu til dvalar á ákveðnum stað skv. 114. gr. og mál hans sé enn til meðferðar hjá stjórnvöldum.
Af gögnum málsins má ljóst vera að ný ákvörðun í máli varnaraðili hefur ekki enn verið tekin. Samkvæmt tölvubréfi frá Útlendingastofnun sem lagt var fram í dómi kemur fram að frestur varnaraðila til að fara brott af landinu af sjálfsdáðum renni út í dag og muni hann á næstu dögum fá tilkynningu um hugsanlega brottvísun. Enn sé beðið gagna frá lögreglu varðandi mál hans en að því búnu verði tilkynningin send til birtingar. Þá kemur fram að varnaraðila verði gefinn kostur á að leggja fram greinargerð innan tilskilins frest áður en slík ákvörðun verði tekin.
Í 105. gr. laga nr. 80/2016 er fjallað um þvingunarúrræði til að tryggja framkvæmd ákvörðunar. Þar segir í 4. mgr. að ef nauðsyn beri til að tryggja framkvæmd sé heimilt að handtaka útlendinginn og úrskurða í gæsluvarðhald samkvæmt lögum um meðferð sakamála eftir því sem við á. Þá segir í 5. mgr. að gæslu skuli ekki ákveðin lengur en í tvær vikur. Gæslutíma megi því aðeins framlengja að útlendingurinn fari ekki sjálfviljugur úr landi og líkur séu á að hann muni annars koma sér undan framkvæmd ákvörðunar, sbr. 104. gr. Má þá framlengja frestinn í allt að tvær vikur en þó ekki oftar en tvisvar. Þessi regla kemur ennfremur fram í 3. mgr. 115. gr. laganna og vísað til. d-, e- g- eða h- liðar 1. mgr. ákvæðisins.
Dómurinn telur með vísan til þess sem rakið að krafa sóknaraðila um áframhaldandi gæsluvarðhald verði ekki byggt á fyrrgreindum c. lið 1. mgr. 115. gr. laga nr. 80/2016 en ekki verði séð að reynt hafi á það hvort að varnaraðili kjósi að fara sjálfviljugur úr landi og að honum kunni að bjóðast fjárhagsaðstoð til þess en eins og fram er komið hefur hann setið lengst af í gæsluvarðhaldi. Þá hefur ekki verið tekin ákvörðun um brottvísun hans enn, en í fyrrnefndu ákvæði er samkvæmt d lið ákvæðisins unnt að krefjast gæsluvarðhalds hafi endanleg ákvörðun verið tekin um brottvísun en skilyrði er þá að brottvísunin sé vegna brots og að út frá aðstæðum útlendingsins megi telja líkur á því að hann fremji frekari brot. Telur dómurinn af þeim ástæðum sem hér hafa verið raktar ekki unnt að fallast á kröfu sóknaraðila og verður henni því hafnað.
Sigríður Hjaltested héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kröfu sóknaraðila, lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um að varnaraðila, X, verði gert að sæta gæsluvarðhaldi, er hafnað.
Þóknun til skipaðs verjanda varnaraðila, Garðars Steins Ólafssonar hdl., 105.400 krónur, greiðist úr ríkissjóði.