Hæstiréttur íslands

Mál nr. 216/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Nauðasamningur


                                     

Föstudaginn 27. apríl 2012.

Nr. 216/2012.

 

Agripac AB

(Ragnheiður M. Ólafsdóttir hrl.)

gegn

Vélaborg ehf.

(Kristinn Hallgrímsson hrl.)

 

Kærumál. Nauðasamningur.

Tekin var til greina krafa V ehf. um staðfestingu nauðasamnings félagsins. Fyrir Hæstarétti dró A í efa að T hf., sem mælt hafði með nauðsamningnum, hefði ekki farið með samningskröfu á hendur V ehf. Einnig taldi A að einn lánardrottna V ehf. væri nákominn félaginu og því hefði honum hvorki borið atkvæðisréttur um frumvarp til nauðasamnings né átt að vera tekinn á kröfuskrá. Hvorug þessara málsástæðna A var tekin til greina.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson og Garðar Gíslason.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 26. mars 2012, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 29. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. mars 2012, þar sem tekin var til greina krafa varnaraðila um staðfestingu nauðasamnings. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að hafnað verði kröfu varnaraðila um staðfestingu nauðasamnings og honum gert að greiða málskostnað í héraði og kærumálskostnað.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Samkvæmt gögnum málsins var varnaraðila veitt heimild 12. október 2011 til að leita nauðasamnings á grundvelli frumvarps, sem gert var 4. sama mánaðar. Að undangenginni innköllun til lánardrottna gerði umsjónarmaður með nauðasamningsumleitunum skrá um samningskröfur og hélt fund 9. desember 2011 til atkvæðagreiðslu um frumvarpið, sem fékk að mati umsjónarmannsins nægilegt fylgi til samþykkis, bæði eftir höfðatölu lánardrottna og kröfufjárhæðum. Í framhaldi af því lagði varnaraðili fyrir héraðsdóm kröfu 14. desember 2011 um staðfestingu nauðasamnings, sem sætti andmælum af hendi sóknaraðila, og var mál þetta þingfest af því tilefni 27. janúar 2012.

Í greinargerð fyrir héraðsdómi hélt sóknaraðili meðal annars fram þeirri málsástæðu að Tryggingamiðstöðin hf., sem gaf skriflega yfirlýsingu 12. október 2011 um að hún mælti með nauðasamningi á grundvelli frumvarps varnaraðila frá 4. sama mánaðar, sbr. 2. tölulið 1. mgr. 35. gr. laga nr. 21/1991, hafi ekki farið „að stærstum hluta“ með samningskröfu á hendur varnaraðila og því ekki notið að því leyti atkvæðisréttar um frumvarp hans. Sóknaraðili rökstuddi þessa málsástæðu nánar á þann hátt að krafa Tryggingamiðstöðvarinnar hf. væri að ótilgreindum hluta komin til vegna iðgjalda af vátryggingum ökutækja, sem lögtaksréttur fylgi samkvæmt 2. mgr. 94. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, en af þeim sökum nyti félagið tryggingarréttar í eignum varnaraðila og færi ekki að þessu marki með samningskröfu á hendur honum, sbr. 4. tölulið 1. mgr. 28. gr. laga nr. 21/1991. Í greinargerð fyrir Hæstarétti ber sóknaraðili þessu sama við, en þó þannig að Tryggingamiðstöðin hf. hafi notið lögveðréttar fyrir þessum ótiltekna hluta kröfu sinnar. Um þennan málatilbúnað sóknaraðila er þess að gæta að í 2. mgr. 94. gr. umferðarlaga er vátryggingafélagi veittur lögtaksréttur á hendur vátryggingartaka fyrir iðgjöldum vegna ökutækjatrygginga, en ekki lögveðréttur í ökutæki. Lögtaksréttur felur ekki í sér tryggingarrétt í eign skuldara í skilningi 4. töluliðar 1. mgr. 28. gr. laga nr. 21/1991, heldur heimild til fjárnáms fyrir kröfu án undangenginnar dómsúrlausnar eða dómsáttar. Með þessum athugasemdum verður niðurstaða hins kærða úrskurðar um málsástæður, sem sóknaraðili hélt uppi í héraði, staðfest með vísan til forsendna hans.

Sóknaraðili hefur lagt fram skjöl fyrir Hæstarétt með upplýsingum um eignarhald að þremur hollenskum félögum og hverjir skipa stjórnir þeirra, svo og með sams konar upplýsingum um íslenskt einkahlutafélag. Eitt hinna hollensku félaga er meðal lánardrottna varnaraðila samkvæmt fyrrgreindri skrá um samningskröfur á hendur honum. Heldur sóknaraðili því fram að félagið og varnaraðili séu nákomnir í skilningi 3. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. gr. laga nr. 95/2010, og þess vegna hafi ekki átt að veita því atkvæðisrétt um frumvarp varnaraðila og taka kröfu þess á skrá um samningskröfur, sbr. 1. tölulið 1. mgr. 33. gr. og 46. gr. laganna. Engin þau tengsl eru á milli umrædds félags og varnaraðila, sem vísað er til í 3. gr. laga nr. 21/1991. Af þeim sökum er ekki hald í þessari málsástæðu sóknaraðila og verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Agripac AB, greiði varnaraðila, Vélaborg ehf., 250.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. mars 2012.

Mál þetta var tekið úrskurðar 20. febrúar sl. að loknum munnlegum málflutningi. Sóknaraðili er Vélaborg ehf., Járnhálsi 2, Reykjavík, en varnaraðili er Agripac AB, Svíþjóð.

Sóknaraðili krefst þess að nauðasamningur félagsins á grundvelli samningsfrumvarps, sem samþykkt var á fundi atkvæðismanna 9. desember 2011 verði staðfestur. Þá krefst hann málskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila um staðfestingu framangreinds nauðasamnings verði hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar.

I

Með bréfi 14. desember 2011 sem barst Héraðsdómi Reykjavíkur sama dag krafðist sóknaraðili staðfestingar nauðasamnings sem í endanlegri mynd hljóðar svo:

„Smærri lánardrottnar. Fullnaðaruppgjör með reiðufé.

Lánardrottnar sem eiga samningskröfur að heildarfjárhæð kr. 100.000 eða lægri, miðað við þann dag er félagið fékk heimild til nauðasamningsumleitana, fá þær greiddar að fullu með reiðufé innan þriggja mánaða eftir að nauðasamningur félagsins hefur verið staðfestur með endanlegum úrskurði eða dómi. Kröfur lánardrottna samkvæmt þessari grein bera ekki vexti frá þeim degi er nauðasamningur kemst á og til gjalddaga. 

Lánardrottnar sem eiga samningskröfur að heildarfjárhæð kr. 100.001 eða hærri, miðað við þann dag er félagið fékk heimild til nauðasamningsumleitana, fá jafnframt greiddar 100.000 upp í kröfur sínar, innan þriggja mánaða eftir að nauðasamningur félagsins hefur verið staðfestur með endanlegum úrskurði eða dómi. 

Ennfremur fá lánardrottnar kröfur sínar greiddar með greiðslu 30% eftirstöðva krafna sinna, eftir að kr.100.000 hafa verið inntar af hendi, miðað við þann dag er félagið fékk heimild til nauðasamningsumleitana, með sex jöfnum greiðslum á tveggja mánaða fresti, í fyrsta sinn þremur mánuðum eftir formlega staðfestingu þessa nauðasamnings.“

Rétt er að geta þess að í upphaflegu frumvarpi skuldara að nauðasamningi var gefið færi á að velja milli þess annars vegar að fá greiðslur í samræmi við ofangreint eða hins vegar að fá greiðslu í hlutafé að sama nafnverði og næmi höfuðstól skuldar. Enginn kröfuhafi valdi þennan kost á endanum og var ákvæðið því fellt brott.

II

Í greinargerð sóknaraðila er málavöxtum lýst á þann veg að hann hafi fengið heimild til nauðasamningsumleitana við lánardrottna sína með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 12. október 2011 og sama dag hafi Friðjón Örn Friðjónsson hrl. verið skipaður umsjónarmaður með nauðasamningsumleitunum. Innköllun umsjónarmanns hafi birst í fyrra sinn í Lögbirtingablaðinu hinn 19. október 2011 og hafi fjögurra vikna kröfulýsingafresti lokið 16. nóvember 2011. Fundur með lánardrottnum til atkvæðagreiðslu um nauðasamningsfrumvarpið hafi verið haldinn 9. desember 2011.

Fyrir atkvæðafundinn hafi 31 atkvæðismaður greitt atkvæði með nauðasamningsfrumvarpi sóknaraðila. Á fundinum sjálfum hafi aðeins einn greitt atkvæði um nauðasamningsfrumvarpið en það hafi verið fulltrúi varnaraðila sem fengið hafi það sérstaklega bókað að varnaraðili sæti hjá við atkvæðagreiðslu um nauðasamningsfrumvarpið.

Áður en sóknaraðili hafi fengið heimild til formlegra nauðasamningsumleitana fyrir héraðsdómi hafi hann nánast náð svokölluðum frjálsum nauðasamningi við lánardrottna sína. Til þess að slíkur frjáls samningur kæmist á hafi þurft samþykki allra lánardrottna. Varnaraðili hafi verið eini lánardrottinn sóknaraðila sem lýst hafi sig andvígan slíkum samningi og hafi þetta gert það að verkum að fara hafi orðið hina formlegu nauðasamningsleið. Auðvelt hafi því reynst að afla samþykkis annarra lánardrottna við nauðasamningi félagsins og hafi mikill meirihluti þeirra lánardrottna sem lýst hafi kröfu í nauðasamninginn skilað skriflegu atkvæði til samþykkis samhliða kröfulýsingu sinni eða áður en kröfulýsingafrestur hafi runnið út.

Nauðasamningsfrumvarp sóknaraðila hafi verið samþykkt með nauðsynlegum meirihluta atkvæða á atkvæðafundi 9. desember 2011. Í samræmi við 54. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti hafi sóknaraðili lagt fram skriflega kröfu um staðfestingu nauðasamningsins hjá héraðsdómi 14. desember 2011. Í kröfunni sé ítarleg grein gerð fyrir því hvernig sóknaraðili telji sig munu geta staðið í skilum við lánardrottna sína ef nauðasamningur verði staðfestur. Þá hafi fylgt með yfirlýsing umsjónarmanns, sbr. 2. mgr. 54. gr. laganna, ásamt kröfuskrá og fundargerð atkvæðafundarins.

Varnaraðili lýsir málsatvikum á þann veg að hann eigi kröfu á hendur sóknaraðila sem gerð hafi verið dómsátt um í Héraðsdómi Reykjavíkur 9. september 2010 í máli nr. E-3870/2010. Samkvæmt dómsáttinni hafi sóknaraðili lofað að greiða varnaraðila skuld að fjárhæð EUR 420.000,- með sjö afborgunum sem hafi átt að greiðast á nánar greindum dagsetningum frá 30. september 2012 til 1. október 2011. Þá hafi sóknaraðili að auki átt að greiða 3% af fjárhæðinni, sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Jafnframt hafi verið kveðið á um að sáttin félli í gjalddaga án frekari fyrirvara ef greiðslufall yrði á afborgunum af hálfu sóknaraðila og að sáttin væri aðfararhæf. Sóknaraðili hafi greitt þrjár fyrstu afborganirnar, en frá og með 31. mars 2011 hafi sóknaraðili ekki staðið skil á afborgunum.

Varnaraðili hafi því fullnægt skilyrðum 33. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., til að eiga atkvæðisrétt um nauðasamningsfrumvarp sóknaraðila, sem sóknaraðili krefjist nú staðfestingar á.

Með beiðni sóknaraðila, 7. október 2011, sem liggi frammi á dómskjali nr. 1, hafi þess verið farið á leit við að Héraðsdóm Reykjavíkur að sóknaraðila yrði veitt heimild til nauðasamningsumleitana. Í beiðninni komi fram að ákvörðun um að óska eftir heimild til nauðasamningsumleitana hafi verið tekin á fundi stjórnar sóknaraðila 23. ágúst 2011, sbr. meðfylgjandi fundargerð.

Hinn 12. október 2011 hafi Héraðsdómur Reykjavíkur veitt sóknaraðila heimild til að leita nauðasamnings samkvæmt þriðja þætti laga nr. 21/1991, og hafi skipað Friðjón Örn Friðjónsson hrl. til að vera umsjónarmann með nauðasamningsumleitunum sóknaraðila. Innköllun hafi verið birt í Lögbirtingablaðinu 19. október 2011, en 9. nóvember 2011 hafi varnaraðili lýst framangreindri kröfu sinni.

Hinn 5. desember 2011 hafi kröfuhöfum verið send kröfuskrá og 9. sama mánaðar hafi verið haldinn fundur með kröfuhöfum vegna nauðasamningsumleitana. Nauðasamningur varnaraðila hafi verið samþykktur á fundinum, en varnaraðili hafi setið hjá við atkvæðagreiðsluna.

Í fundargerð sem liggi frammi á dómskjali nr. 14, komi meðal annars fram að á fundinum hafi kröfuhöfum verið kynnt kröfuskráin og heildarfjöldi skriflegra samþykkta. Þá hafi umsjónarmaður gert grein fyrir tengdum aðilum en Steinn Finnbogason, fulltrúi hans, hafi farið yfir hugsanlegar kröfur sóknaraðila á hendur eigendum vegna hækkunar hlutafjár. Loks hafi Stefán Bragi Bjarnason, fjármálastjóri sóknaraðila, gert grein fyrir tilurð krafna í eigu tengdra aðila á hendur sóknaraðila en í máli hans hafi komið fram að þeim skriflegu atkvæðum sem umræddir aðilar hefðu þegar greitt fyrir fundinn, þar sem liður A hefði verið valinn, væri breytt á þann veg að sömu aðilar veldu nú lið B.

Ekki hafi verið farið yfir kröfur annarra kröfuhafa að öðru leyti en því að lögmaður Lýsingar hf. hafi áskilið félaginu rétt til að líta svo á að nauðasamningur sóknaraðila tæki til fullrar kröfulýsingarfjárhæðar Lýsingar hf., félli dómur Hæstaréttar í máli gegn Smákrönum ehf. Lýsingu hf. í vil. Hafi kröfuhafafundinum verið slitið kl. 14:50, en niðurstaða hans hafi verið sú að nauðasamningur sóknaraðila hafi talist samþykktur.

Að fundi loknum hafi varnaraðila gefist ráðrúm til að fara nánar yfir kröfulýsingarnar, atkvæðagreiðsluna og niðurstöðu hennar, meðal annars með hliðsjón af framangreindum upplýsingum sem komið hafi fram á fundinum. Varnaraðila hafi fljótlega orðið ljóst að líklega hefðu nokkrir annmarkar verið á meðferð kröfulýsinga og framkvæmd atkvæðagreiðslunnar og hafi hann því þegar hafist handa við að afla gagna og inna umsjónarmann eftir nánari skýringum á framangreindu.

Síðar sama dag og kröfuhafafundurinn hafi verið haldinn, hafi lögmaður sóknaraðila haft samband við Stein Finnbogason, fulltrúa umsjónarmanns, og hafi óskað eftir upplýsingum um meðferð kröfulýsingar Lýsingar hf. Í framhaldinu hafi fulltrúinn sent lögmanni sóknaraðila kröfuskrána með niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar eins og hann hafi kveðið hana hafa litið út eftir kröfuhafafundinn, sbr. dskj. nr. 35. Við athugun lögmanns varnaraðila á kröfuskránni hafi komið í ljós að tengdum aðilum hafi verið veittur atkvæðisréttur og að atkvæði þeirra hafi verið talin og tekin með í  niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar. Lögmaður varnaraðila hafi því þegar í stað haft samband símleiðis við fulltrúa umsjónarmanns og hafi bent honum á þennan augljósa annmarka. Fulltrúi umsjónarmanns hafi þá sent lögmanni varnaraðila tölvuskeyti þar sem búið hafi verið að taka út tengda aðila, en að hans sögn breytti það engu um niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar, sbr. dskj. nr. 36.

                Við enn nánari skoðun varnaraðila á meðferð kröfulýsinga og tilhögun og niðurstöðu atkvæðagreiðslu, þar á meðal meðferð kröfu Lýsingar hf., kröfu Tryggingamiðstöðvarinnar hf. og krafna í eigu aðila sem teljist vera nákomnir skuldara, hafi niðurstaðan orðið sú að varnaraðili telji svo ranglega hafa verið staðið að nauðasamningsumleitunum sóknaraðila, að það samræmist ekki ákvæðum laga nr. 21/1991. Varnaraðili hafi því talið rétt að vekja athygli héraðsdóms á umræddum annmörkum, sbr. 3. tölul. 1. mgr. 57. gr. laga nr. 21/1991, og hafi af því tilefni sent bréf, 12. desember 2011, sem liggi frammi í málinu, með ábendingum um framangreint til  Héraðsdóms Reykjavíkur.

III

Sóknaraðili kveður í greinargerð sinni að varnaraðili hafi 20. janúar 2012 lagt fram ábendingar vegna nauðasamnings sóknaraðila þar sem hann telji fjögur nánar tiltekin atriði geta leitt til þess að héraðsdómara beri að synja nauðasamningnum staðfestingar, sbr. 3. tölul. 1. mgr. 57. gr. laga nr. 21/1991. Þrátt fyrir frekari skýringar sóknaraðila á nokkrum þessara atriða hafi varnaraðili ákveðið að fara fram á frest til greinargerðarskila í málinu 27. janúar s.l. Sóknaraðili hafi rétt til þess að skila greinargerð í málinu á sama tíma og varnaraðili og verði hér á eftir gerð grein fyrir sjónarmiðum sóknaraðila vegna fram kominna athugasemda varnaraðila.

Að því er varði sjónarmið varnaraðila um nákomna aðila kveður sóknaraðili að samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 33. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti eigi lánardrottnar sem nákomnir séu skuldaranum ekki atkvæðisrétt um nauðasamning. Þrátt fyrir að fyrirsvarsmönnum Hverár ehf., Leiguvéla ehf., VB vörumeðhöndlunar ehf., VB landbúnaðar ehf., Spár ehf. og Táar ehf., ásamt Gunnari Viðari Bjarnasyni, hafi verið kunnugt um að þeir féllu undir það að vera nákomnir sóknaraðila hafi verið nauðsynlegt að þeirra mati að greiða atkvæði um nauðasamninginn svo öðrum lánardrottnum væri ljóst hvort þeir veldu uppgjör sinna krafna á grundvelli A- eða B- liðar greinar 1.2. í nauðasamningsfrumvarpi sóknaraðila. Ítrekað hafi verið rætt við umsjónarmann af hálfu fyrirsvarsmanna sóknaraðila um að umræddir aðilar væru nákomnir og teldust því ekki atkvæðismenn um frumvarpið. Hafi þeir talið tilgreiningu umsjónarmanns í kröfuskrá á umræddum aðilum vera í þeim tilgangi að upplýsa um hvorn valkostinn þessir aðilar hefðu valið. Sökum þess hafi jafnframt verið sérstaklega gerð grein fyrir því á atkvæðafundinum 9. desember 2011 að fjórir af umræddum aðilum hygðust breyta atkvæði sínu og velja B-lið í stað A-liðar.

Samkvæmt 46. gr. laga nr. 21/1991 hvíli ábyrgð á gerð kröfuskrár aðeins á umsjónarmanni með nauðasamningsumleitunum og hafi sóknaraðili ekkert haft um það að segja með hvaða hætti skráin hafi verið úr garði gerð. Fyrirsvarsmönnum sóknaraðila hafi ekki verið veitt tækifæri til þess að tjá sig um kröfuskránna áður en hún hafi verið send lánardrottnum félagsins hinn 5. desember 2011.

Í fundargerð umsjónarmanns af atkvæðafundi komi fram að gerð hafi verið grein fyrir tengdum aðilum og sérstaklega farið yfir hvað búið hafi að baki kröfum tengdra aðila. Í framhaldinu hafi fyrirsvarsmaður Vélaborgar gert sérstaka grein fyrir að ákveðnir tengdir aðilar hafi ákveðið að velja B-lið í stað áður valins A-liðar við uppgjör krafna. Eftir að farið hafi verið yfir þessa tengdu aðila hafi umsjónarmaður kallað eftir mótmælum fundarmanna við kröfuskrá. Engin mótmæli hafi borist frá lögmanni varnaraðila eða öðrum fundarmönnum.

Í yfirlýsingu umsjónarmanns til héraðsdóms, vegna kröfu um staðfestingu nauðasamnings, sé sérstaklega tilgreint að nauðasamningsfrumvarp sóknaraðila hafi verið samþykkt bæði hvað varði kröfufjárhæðir og höfðatölu þrátt fyrir að atkvæði nákominna aðila væru ekki talin með.

Samkvæmt 3. tölul. 1. mgr. 57. gr. laga nr. 21/1991 þurfi annmarkar á atkvæðagreiðslu um nauðasamningsfrumvarp að hafa skipt sköpum um niðurstöður atkvæðagreiðslu svo héraðsdómara beri að synja nauðasamningi staðfestingar. Eins og fyrirliggjandi gögn beri með sér hafi allir þeir lánardrottnar félagsins sem greitt hafi skriflegt atkvæði með nauðasamningsfrumvarpi sóknaraðila (sjá dskj. nr. 34) sent umsjónarmanni atkvæði sitt áður en þeir hafi fengið sent afrit af kröfuskrá félagsins þann 5. desember 2011. Eini lánardrottinn sóknaraðila sem ekki hafi þá þegar sent skriflegt atkvæði sitt hafi verið Lýsing hf. en fyrirliggjandi sé samkomulag milli sóknaraðila og Lýsingar hf., dags. 4. október 2011 (dskj. nr. 35), þar sem Lýsing hf. skuldbindi sig til þess að samþykkja nauðasamning sóknaraðila. Þá hafi Lýsingu hf. jafnframt verið kunnugt um að umræddir aðilar hafi verið nákomnir sóknaraðila.

Með vísan til framangreinds megi ljóst vera að hugsanlegir annmarkar á kröfuskrá umsjónarmanns vegna tilgreiningar nákominna aðila hafi engin áhrif haft á niðurstöður atkvæðagreiðslu um nauðasamningsfrumvarp sóknaraðila.

Varnaraðili telji hluta kröfu Lýsingar hf. ranglega samþykkta á kröfuskrá vegna nauða­samnings­umleitana sóknaraðila. Annars vegar sé byggt á því að hluti kröfunnar sé skilyrtur og eigi ekki að hafa atkvæðisrétt. Hins vegar sé byggt á því að hluti kröfu Lýsingar hf. sé tryggður og því ekki um samningskröfu að ræða heldur veðkröfu.

Eins og áður greini hafi sóknaraðili og Lýsing hf. gert með sér samkomulag hinn 4. október 2011 um uppgjör vegna skuldbindinga sóknaraðila við Lýsingu hf. í tengslum við nauðasamningsumleitanir félagsins. Í samkomulaginu sé greint frá því að Lýsing hf. telji sig eiga eftirfarandi kröfur á hendur sóknaraðila við gerð samkomulagsins:

1.         Krafa vegna fjármögnunarleigusamninga u.þ.b. 276 milljónir króna auk           virðisaukaskatts.

2.         Krafa vegna ádráttarláns u.þ.b. 325 milljónir króna.

3.         Krafa vegna kaupleigusamnings u.þ.b. 1,5 milljón króna.

4.         Krafa vegna rekstrarleigusamninga u.þ.b. 325 þúsund krónur, auk virðisaukaskatts.

5.         Krafa vegna yfirtökuábyrgðar u.þ.b. 11,5 milljónir króna.

                Kröfur Lýsingar hf. á hendur sóknaraðila séu samkvæmt ofangreindu samtals tæpar 615 milljónir króna, auk virðisaukaskatts vegna fjármögnunar- og rekstrarleigusamninga.

Í samkomulaginu komi jafnframt fram að samkomulag sé milli aðila um að meta þau tæki sem standi að baki fjármögnunarleigusamningum á u.þ.b. 104 milljónir króna, auk virðisaukaskatts. Þá séu tryggingar vegna ádráttarláns í formi vörureikninga metnar á um 20 milljónir króna. Fram komi að miðað við sameiginlegt mat aðila á verðmæti trygginga og undirliggjandi eigna fjármögnunarleigusamninga nemi almennar ótryggðar kröfur Lýsingar hf., eða kröfur sem njóti tryggingaréttinda sem ekki verði fullnægt af andvirði eigna, á hendur sóknaraðila um 330 milljónum króna án virðisaukaskatts. Umræddum kröfum verði lýst í nauðasamning félagsins auk krafna vegna ógreidds virðisaukaskatts á grundvelli ógreiddra útgefinna reikninga.

Kröfulýsing Lýsingar hf. hafi byggt á framangreindum forsendum og hafi eingöngu samningskröfum, það er kröfum sem voru annað hvort ótryggðar eða ekki fullnægjandi trygging fyrir, verið lýst í nauðasamninginn.

Í þeirri kröfuskrá sem umsjónarmaður hafi sent öllum lánardrottnum sóknaraðila hinn 5. desember 2011 komi fram að veðkrafa Lýsingar hf. sé að fjárhæð 125.281.186 krónur en samningskrafa að fjárhæð 328.949.185 krónur. Með vísan til framangreindra gagna sé ljóst að enginn hluti þeirrar kröfu Lýsingar hf. sem tekin hafi verið á kröfuskrá sé veðkrafa. Mótmælum varnaraðila hvað það varði sé vísað á bug sem röngum.

                Varnaraðili geri jafnframt athugasemd við að sá hluti kröfu Lýsingar hf. sem ágreiningur hafi verið um hafi jafnframt fengið atkvæði um nauðasamning félagsins. Heildarkrafa Lýsingar hf. hafi verið 329.049.185 krónur og hafi hún að frádregnum 100.000 krónum verið tekin á kröfuskrá umsjónarmanns. Samkvæmt kröfulýsingu Lýsingar hf. sé sérstaklega tilgreint að komi til þess að fjármögnunarleigusamningar Lýsingar hf. verði dæmdir með ólögmætri gengistryggingu myndi krafa Lýsingar hf. lækka um u.þ.b. 138.560.015 krónur. Með vísan til framangreinds megi því telja að 138.560.015 krónur hafi verið ágreiningskrafa. Þegar umsjónarmaður fari yfir niðurstöður atkvæðagreiðslu skuli hann fyrst kanna hvort önnur atkvæði en ágreiningsatkvæði skv. 3. mgr. 50. gr. nægi ein til úrslita þótt öll ágreiningsatkvæði yrðu talin með, sbr. 2. mgr. 52. gr. laga nr. 21/1991. Ef svo sé ráðast úrslit atkvæðagreiðslu án frekari aðgerða.

Miðað við niðurstöður atkvæðagreiðslunnar sé ótvírætt að nauðasamningsfrumvarp sóknaraðila hafi verið samþykkt með 83,33% atkvæða samkvæmt höfðatölu og 70,275% atkvæða samkvæmt kröfufjárhæðum þrátt fyrir að ágreiningskrafa sé tekin með en ekki talið með atkvæði vegna hennar, auk þess sem atkvæði nákominna aðila séu ekki tekin með. Á dskj. nr. 33 sé uppfærð kröfuskrá umsjónarmanns, staðfest af honum 9. febrúar 2012. Þar sem nauðasamningur sóknaraðila hafi verið samþykktur án þess að tekið væri tillit til ágreiningsatkvæðisins hafi ekki þurft að aðhafast frekar.

Þrátt fyrir að fjárhæðaatkvæði hefðu ekki náð 70% án ágreiningsatkvæðisins hefði nauðasamningurinn ekki verið fallinn. Þá hefði umsjónarmanni borið að freista þess að jafna ágreining á fundinum, sbr. 3. mgr. 52. gr. laga nr. 21/1991. Gefa megi sér að ekki hefði tekist að jafna ágreining á fundinum og hafi umsjónarmanni þá borið að telja ágreiningsatkvæði sem fallið hafi til samþykkis nauðasamningsfrumvarpinu með en virða öll önnur ágreiningsatkvæði að vettugi. Þannig fengin úrslit hefðu því ráðið niðurstöðu nauðasamningsumleitananna, sbr. 4. mgr. 52. gr. laga nr. 21/1991.

Rétt sé að geta þess að á atkvæðafundi hafi umsjónarmaður fjallað sérstaklega um kröfu Lýsingar hf. og hafi bent á þann hluta hennar sem ágreiningur hafi verið um. Á fundinum hafi sérstaklega verið bókað fyrir hönd Lýsingar hf. að fyrirtækið áskildi sér rétt til að líta svo á að nauðasamningur tæki til fullrar kröfufjárhæðar ef dómur Hæstaréttar í máli gegn Smákrönum ehf. félli Lýsingu hf. í vil. Augljóst sé því að fjallað hafi verið um þann hluta kröfu Lýsingar hf. sem ágreiningur hafi verið um. Þrátt fyrir framangreinda umfjöllun hafi lögmaður varnaraðila engar athugasemdir gert við kröfuskrá umsjónarmanns á atkvæðafundinum.

Með vísan til framangreinds verði ekki séð að meðferð umsjónarmanns á kröfulýsingu Lýsingar hf. hafi haft áhrif á niðurstöður atkvæðagreiðslunnar og geti því ákvæði 3. tölul. 1. mgr. 57. gr. laga nr. 21/1991 ekki leitt til þess að synja eigi nauðasamningnum staðfestingar.

Að því er varði athugasemdir varnaraðila vegna kröfu Mannvits hf. kemur fram hjá sóknaraðila að í 4. mgr. 30. gr. laga nr. 21/1991 segi að eigi sami lánardrottinn fleiri samningskröfur en eina á hendur skuldaranum skuli leggja fjárhæðir þeirra saman og telja heildarfjárhæðina eina samningskröfu án tillits til uppruna krafnanna eða annarra atvika. Varnaraðili haldi því fram að framangreint ákvæði hafi ekki verið uppfyllt þar sem tvær kröfur Mannvits hf. séu tilgreindar í kröfuskrá. Af kröfuskrá megi sjá í fyrsta lagi kröfu Mannvits nr. 8 sem sé veitt 2,33% höfðatöluatkvæði og 0,03% kröfufjárhæðaratkvæði. Síðar í kröfuskránni, á milli kröfu nr. 36 og 37, sé tilgreind önnur krafa Mannvits hf. þar sem ekkert höfðatöluatkvæði sé veitt en 0,02% kröfufjárhæðaratkvæði. Ljóst megi vera að krafan sé eingöngu talin sem ein krafa og höfðatöluatkvæði aðeins eitt. Athugasemdum varnaraðila sökum þessa sé því vísað á bug sem röngum.

Að því er varði athugasemdir varnaraðila varðandi atkvæðaseðil kveður sóknaraðili að 27. október 2011 hafi umsjónarmaður með nauðasamningsumleitunum sent öllum þekktum lánardrottnum sóknaraðila tilkynningu um að sóknaraðila hafi verið veitt heimild til nauðasamningsumleitana með úrskurði héraðsdóms. Í tilkynningunni hafi jafnframt komið fram hver kröfulýsingafrestur væri og hvenær fundur til atkvæðagreiðslu um nauðasamninginn yrði haldinn. Með tilkynningunni hafi fylgt nauðasamningsfrumvarp sóknaraðila og auk þess fyrirmynd að kröfulýsingu og atkvæðaseðli til þess að greiða atkvæði um nauðasamningsfrumvarpið til hægðarauka fyrir lánardrottna félagsins.

Eins og áður hafi komið fram hafi sóknaraðili nærri náð svokölluðum frjálsum nauðasamningum við lánardrottna sína. Sóknaraðili hafi verið í miklum og stöðugum samskiptum við lánardrottna sína vegna hinnar fjárhagslegu endurskipulagningar sem félaginu hafi verið nauðsynleg og hafi því verið kunnugt um að yfirgnæfandi meirihluti lánardrottna myndi styðja fyrirliggjandi nauðasamningsfrumvarp. Til þess að einfalda lánardrottnum félagsins að lýsa kröfu og greiða atkvæði um nauðasamningsfrumvarpið hafi sú leið verið valin að óska þess að umsjónarmaður sendi lánardrottnum fyrirmyndir af þessum skjölum með tilkynningu sinni.

Með vísan til þess að iðulega sé það svo að þeir lánardrottnar sem ekki greiði nauða­samn­ings­frum­varpi atkvæði sitt taki ekki þátt í atkvæðagreiðslu hafi atkvæðaseðillinn eingöngu verið settur upp með þeim hætti að unnt væri að samþykkja frumvarpið og gera grein fyrir hvor valkosturinn væri valinn. Viðurkenna megi að óheppilegt hafi verið að ekki hafi jafnframt verið gefinn kostur á því að synja nauðasamningsfrumvarpinu staðfestingar. Það liggi hins vegar ljóst fyrir að enginn þeirra lánardrottna sóknaraðila sem ekki hafi haft hug á að samþykkja nauðasamningsfrumvarpið hafi nýtt sér umræddan atkvæðaseðil heldur hafi þeir einfaldlega ekki tekið þátt í atkvæðagreiðslu um nauða­samn­ings­frum­varpið. Þeir aðilar sem ekki hafi þegar samþykkt nauðasamningsfrumvarpið skriflega fyrir atkvæðafundinn hafi þannig ekki mætt á fundinn nema lögmaður varnaraðila. Þrátt fyrir að mætt hafi verið á fundinn af hálfu varnaraðila hafi hann ekki tekið þátt í atkvæðagreiðslunni og hafi lögmaður hans bókað sérstaklega að setið væri hjá við atkvæðagreiðsluna.

Samkvæmt 3. tl. 1. mgr. 57. gr. laga nr. 21/1991 þurfi annmarkar á atkvæðagreiðslu að hafa skipt sköpum um niðurstöður hennar svo þeir geti leitt til þess að synja eigi staðfestingar nauðasamnings. Í ljósi þess að eingöngu þeir lánardrottnar sem áður hafi lýst því munnlega yfir að þeir styddu nauðasamningsfrumvarp sóknaraðila hafi greitt atkvæði með atkvæðaseðlinum en aðrir lánardrottnar sem ekki hafi stutt frumvarpið hafi kosið að nota hann ekki liggi fyrir að umræddur atkvæðaseðill hafi engin áhrif haft á niðurstöður atkvæðagreiðslunnar.

Með vísan til framangreindrar umfjöllunar telji sóknaraðili ljóst að engin þau atriði sem fram komi í 57. gr. laga nr. 21/1991 og leiða eigi til þess að héraðsdómari hafni kröfu sóknaraðila um staðfestingu nauðasamnings eigi við hér. Þá hafi varnaraðili ekki byggt á því að nein þeirra atriða sem fjallað sé um í 58. gr. laga nr. 21/1991 eigi við um nauðasamning sóknaraðila. Varnaraðili gæti hugsanlega vísað til þess að ákvæði 4. tl. 58. gr. eigi við þar sem atkvæðagreiðsla hafi ráðist af ágreiningsatkvæði vegna kröfu Lýsingar hf. Í yfirlýsingu umsjónarmanns sé þó sérstaklega tekið fram að nauðasamningur félagsins sé samþykktur þrátt fyrir að ekki sé tekið tillit til þess hluta kröfu Lýsingar hf. sem ágreiningur sé um. Þetta sé jafnframt staðfest í uppfærðri kröfuskrá umsjónarmanns sem komi fram á dómskjali nr. 33.

Krafa um málskostnað byggi á XXI. kafla laga nr. 91/1991, einkum 129. til 131. gr. Við ákvörðun málskostnaðar telji sóknaraðili að hafa eigi í huga að þrátt fyrir veittar skýringar og gögn frá sóknaraðila hafi varnaraðili samt sem áður ákveðið að halda athugasemdum sínum til streitu. Þá hafi honum verið boðið að fara yfir athugasemdirnar á fundi sem skýrt hefðu málið að verulegu leyti, enda byggi mótmæli varnaraðila að stórum hluta á misskilningi, en því boði hafi verið hafnað.

Við munnlegan málflutning kom fram hjá lögmanni sóknaraðila að þegar ljóst hafi verið að enginn kröfuhafi, sem ekki taldist nákominn sóknaraðila, hefði valið að breyta kröfu sinni í hlutafé, eins og gefinn hafi verið kostur á í upphaflegu nauðasamningsfrumvarpi sóknaraðila, þá hafi þeir fjórir nákomnu kröfuhafar sem valið hafi þann kost, breytt vali sínu og hafi því verið lýst á fundi með umsjónarmanni að þeir veldu 30% leiðina. Þeir nákomnu kröfuhafar hafi ákveðið að breyta kröfum sínum svo breyttum í hlutafé.

IV

Í greinargerð sinni kveður varnaraðili að krafa hans um að staðfestingarkröfu nauðasamnings sóknaraðila (Vélaborgar ehf.) verði hafnað byggist á 57. gr. laga nr. 21/1991. Nánar tiltekið sé krafan reist á fjórum málsástæðum. Í fyrsta lagi byggi varnaraðili á því að synja hefði átt um heimild til nauðasamningsumleitana þegar sóknaraðili hafi leitað eftir henni, þar sem ófrávíkjanlegt skilyrði 2. tl. 1. mgr. 35. gr. laga nr. 21/1991 hafi ekki verið uppfyllt. Í annan stað byggi varnaraðili á því að ranglega hafi verið samþykktar og teknar á kröfuskrá kröfur í eigu aðila sem séu nákomnir skuldara í skilningi 3. gr. laga nr. 21/1991. Sömu aðilum hafi verið veittur atkvæðisréttur á kröfuhafafundinum 9. desember 2011. Í þriðja lagi byggi varnaraðili á því að atkvæðaseðill sá sem sendur hafi verið kröfuhöfum um atkvæðagreiðslu nauðasamnings sóknaraðila hafi verið leiðandi og villandi fyrir kröfuhafa. Í fjórða og síðasta lagi telji varnaraðili að ranglega hafi verið staðið að meðferð og skráningu tveggja krafna í eigu Mannvits hf. á hendur sóknaraðila.

Krafa varnaraðila byggi í fyrsta lagi á því að synja hefði átt um heimild til að leita nauðasamnings í öndverðu, þar sem skilyrði 2. tölul. 1. mgr. 35. gr. laga nr. 21/1991 hafi ekki verið uppfyllt. Samkvæmt ákvæðinu þurfi skrifleg yfirlýsing frá að minnsta kosti fjórðungi atkvæðismanna samkvæmt talningu skulda í beiðni skuldarans, eftir fjárhæðum krafna þeirra, um að þeir mæli með nauðasamningi, að fylgja með beiðni til héraðsdóms.

Í beiðni sóknaraðila um heimild til nauðasamnings, sbr. dskj. nr. 1, komi fram á bls. 5, að einn aðili hafi formlega mælt með því að nauðasamningsfrumvarpið yrði lagt fram. Hefði sá aðili að baki sér samningskröfur á hendur sóknaraðila að fjárhæð 330.000.000 krónur sem falli undir nauðasamninginn. Jafnframt komi fram í beiðninni að „erlendir aðilar [hefðu] óformlega mælt með þessu af sinni hálfu“.

Í niðurstöðukafla úrskurðar Héraðsdóms um veitingu heimildar til handa sóknaraðila um nauðasamningsumleitanir segi meðal annars um framangreint:

„Liggur meðal annars fyrir að sex ótengdir samningskröfuhafar mæla með gerð nauðasamnings, á svo háa kröfu hlutfallslega að uppfyllt eru skilyrði 2. tölul. 1. mgr. 35. gr. síðastnefndrar lagagreinar [sic].“

Samkvæmt fylgiskjali með frumvarpi að nauðasamningi sem liggi frammi á dómskjali nr. 2, þá hafi Lýsing hf. verið sá kröfuhafi sem stutt hafi að sóknaraðila yrði veitt heimild til nauðasamningsumleitana. Auk þess hafi við fyrirtöku beiðninnar í héraðsdómi verið tilgreindir nýir aðilar sem mælt hafi með því að sóknaraðila yrði veitt slík heimild, en af þeim hafi verið fimm kröfuhafar ótengdir sóknaraðila og sex kröfuhafar tengdir sóknaraðila.

Á dómskjali nr. 7 hafi allir þekktir kröfuhafar sóknaraðila verið tilgreindir og greint frá fjárhæðum krafna þeirra. Hin ótengdu félög, sem tilgreind séu sem stuðningsmenn nauðasamningstilrauna sóknaraðila á dómskjali nr. 11 séu Advel lögfræðiþjónusta ehf., með kröfu að fjárhæð 2.803.065 krónur, Deloitte ehf. með kröfu að fjárhæð 2.225.304 krónur, Hugur/Ax ehf. með kröfu að fjárhæð 583.529 krónur, Logos slf. með kröfu að fjárhæð 2.506.329 krónur og loks Tryggingamiðstöðin hf. með kröfu að fjárhæð 1.498.457 krónur. Krafa Lýsingar hf. nemi samkvæmt nefndu dómskjali 350.000.000 krónum.

Varnaraðili byggi í fyrsta lagi á því að skilyrði 2. tölul. 1. mgr. 35. gr. laga nr. 21/1991 hafi í öndverðu ekki verið uppfyllt af hálfu sóknaraðila, þar sem Lýsing hf. fari ekki með samningskröfu og geti heldur ekki notið atkvæðisréttar um nauðasamningsfrumvarp sóknaraðila. Helgist sú niðurstaða af því að umrædd krafa njóti tryggingaréttinda, en samkvæmt 4. tölul. 1. mgr. 28. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 5. og 22. gr. laga nr. 95/2010, hafi nauðasamningur ekki áhrif á kröfu sem trygging er fyrir. Samkvæmt 5. mgr. 33. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 6. og 22. gr. laga nr. 95/2010, fari lánardrottinn ekki með atkvæðisrétt um nauðasamning nema að því leyti sem hann hafi afsalað sér tryggingarrétti fyrir kröfu sinni, sbr. 2. mgr. 28. gr. laganna. Hyggist lánardrottinn afsala sér tryggingarréttindum fyrir kröfu sinni skuli hann gera það með yfirlýsingu sem hann gefi við undirbúning skuldarans að öflun heimildar til að leita nauðasamnings (eða við kröfulýsingu við nauðasamningsumleitanir).

Með yfirlýsingu Lýsingar hf. um stuðning félagsins við að sóknaraðila yrði veitt heimild til nauðasamningsumleitana, sem liggi fyrir á fylgiskjali með dómskjali nr. 2, sé ekki að finna (samhliða) yfirlýsingu um að félagið afsali sér tryggingarréttindum þeim sem liggi að baki kröfu þess. Þá sé heldur enga slíka yfirlýsingu að finna í kröfulýsingu Lýsingar hf. sem liggi frammi á dómskjali nr. 18.

Tryggingaréttindi Lýsingar hf. séu í formi eignarhalds félagsins á þeim tækjum og/eða vélum sem svonefndir fjármögnunarleigusamningar og/eða kaupleigusamningar gildi um, en umrædd krafa Lýsingar hf. byggist á þeim. Ljóst sé að Lýsing hf. hafi litið svo á að í eignarhaldi félagsins á umræddum tækjum og/ eða vélum séu tryggingaréttindi, sbr. dskj. nr. 21-22. Eigi sá skilningur Lýsingar hf. sér stoð í 42. gr. laga nr. 75/1997, um samningsveð, en ákvæðið mæli fyrir um að hafi seljandi eða lánveitandi áskilið sér eignarrétt að hinu selda eða rétt til þess að taka hlutinn við greiðslufall, þar til kaupandi hafi að fullu greitt kaupverðið, skuli fara með slíkan samning eins og um söluveðssamning væri að ræða. Samkvæmt framangreindu sé ljóst að eignarhald Lýsingar hf. á gildistíma umræddra samninga séu fullgild tryggingaréttindi sem Lýsing hf. hefði þurft að afsala sér hefði félagið kosið að njóta atkvæðisréttar um nauðasamningsfrumvarp sóknaraðila samkvæmt 2. mgr. 28. gr. laga nr. 21/1991.

Þá verði af 4. tölul. 1. mgr. 28. gr. laga nr. 21/1991 ekki ráðið, að tryggingar sem undanþiggi kröfur áhrifum nauðasamnings séu takmarkaðar við tilteknar tegundir trygginga heldur verði af orðalagi ákvæðisins ráðið að öll form tryggingarréttinda falli þar undir.

Verði ekki fallist á að krafa Lýsingar hf. njóti tryggingarréttar, byggi varnaraðili á því að krafa Lýsingar hf. sé skilyrt, þar sem hún sé háð niðurstöðu Hæstaréttar í máli er varði fjármögnunarleigusamninga Lýsingar hf. Stærsti hluti kröfunnar sé tilkominn vegna slíkra samninga. Fái sá skilningur varnaraðila jafnframt stoð í bókun lögmanns Lýsingar hf. í fundargerð kröfuhafafundar, en þar segi að „Lýsing áskilji sér rétt til að líta svo á að nauðasamningur taki til fullrar kröfulýsingarfjárhæðar ef dómur Hæstaréttar í máli gegn Smákrana [sic] ehf. fellur Lýsingu í vil.“ Samkvæmt 2. tl. 1. mgr. 33. gr. laga nr. 91/1991 njóti slíkar kröfur ekki atkvæðisréttar.

Varnaraðili taki einnig fram að þegar af framangreindum ástæðum geti slík skilyrt krafa ekki verið ágreiningskrafa, enda segi í 3. mgr. 50. gr. laga nr. 21/1991, að krafa skuli teljast ágreiningskrafa ef henni hafi verið mótmælt við nánar tilteknar aðstæður. Kröfu Lýsingar hf. hafi ekki verið mótmælt sem slíkri, heldur hafi hún aldrei átt að komast að og vera tekin upp í kröfuskrá.

Bendi varnaraðili einnig á í þessu sambandi að ef krafa eigi ekki að njóta atkvæðisréttar eða teljast samningskrafa, þá samræmist það vart tilgangi gjaldþrotalaganna að kröfuhafi geti lagt fram mótmæli og með þeim hætti, komið kröfunni allri eða hluta hennar undir nauðasamninginn. Að mati varnaraðila sé engum vafa undirorpið að krafa Lýsingar hf. sé ekki ágreiningskrafa, heldur skilyrt krafa sem eigi ekki að fylgja atkvæðisréttur.

Samkvæmt framansögðu þá hafi skilyrði 2. tölul. 1. mgr. 35. gr. laga nr. 21/1991 ekki verið uppfyllt, þar sem Lýsing hf. hafi hvorki getað talist eiga samningskröfu né að njóta atkvæðisréttar um nauðasamningsfrumvarp sóknaraðila.

Varnaraðili byggi í annan stað á því að skilyrði 2. tölul. 1. mgr. 35. gr. laga nr. 21/1991 hafi í öndverðu ekki verið uppfyllt af hálfu sóknaraðila, þar sem Tryggingamiðstöðin hf. fari að stærstum hluta heldur ekki með samningskröfu og geti ekki notið atkvæðisréttar vegna þess hluta kröfunnar um nauðasamningsfrumvarp sóknaraðila. Styðjist sú fullyrðing varnaraðila við það að krafa Tryggingamiðstöðvarinnar hf. á hendur sóknaraðila sé að stærstum hluta tilkomin vegna skyldutrygginga ökutækja, en iðgjöldum fyrir þeim fylgi lögtaksréttur samkvæmt heimild í umferðarlögum nr. 50/1987, sbr. 2. mgr. 94. gr. laganna. Því sé um tryggingaréttindi að ræða, en samkvæmt 4. tölul. 1. mgr. 28. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 5. og 22. gr. laga nr. 95/2010, hafi nauðasamningur ekki áhrif á kröfu sem trygging er fyrir. Samkvæmt 5. mgr. 33. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 6. og 22. gr. laga nr. 95/2010, fari lánardrottinn ekki með atkvæðisrétt um nauðasamning nema að því leyti sem hann hafi afsalað sér tryggingarrétti fyrir kröfu sinni, sbr. 2. mgr. 28. gr. laganna.

Það að Tryggingamiðstöðin hf. hafi verið einn þeirra kröfuhafa sem mælt hafi með því að sóknaraðila yrði veitt heimild til nauðasamningsumleitana renni endanlegum stoðum undir fullyrðingu í málsástæðu varnaraðila um að ekki hafi legið fyrir samþykki frá að minnsta kosti fjórðungi kröfuhafa samkvæmt talningu skulda, eftir fjárhæðum krafna þeirra, í beiðni skuldarans um heimild til að leita nauðasamnings, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 35. gr. laga nr. 21/1991.

Með hliðsjón af öllu framangreindu beri því að hafna kröfu sóknaraðila um staðfestingu nauðasamnings samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 57. gr. sömu laga.

Varnaraðili byggi í öðru lagi á því, að ranglega hafi verið samþykktar og teknar á kröfuskrá kröfur aðila, sem teljist vera nákomnir sóknaraðila í skilningi 3. gr. laga nr. 21/1991. Sé um að ræða kröfur nr. 19, 21, 23, 26, 34 og 38-39 á kröfuskrá sem dagsett sé og undirrituð af Steini S. Finnbogasyni hdl., f.h. umsjónarmanns hinn 9. desember 2011 og liggi fyrir á dómskjali nr. 16. Númer krafnanna sé lítillega breytt frá kröfuskrá sem send hafi verið kröfuhöfum fyrir fundinn og sé dagsett 5. desember 2011 og liggi fyrir á dómskjali nr. 39, en um er að ræða kröfuhafana Hverá ehf., Leiguvélar ehf., VB vörumeðhöndlun ehf., VB landbúnað, Gunnar Viðar Bjarnason, Spá ehf. og Tá ehf.

Samkvæmt útprentunum úr hlutafélagaskrá, sem liggi frammi á dómskjölum nr. 23-31, sé ljóst að framangreindir kröfuhafar teljist nákomnir sóknaraðila í skilningi 3. gr. laga nr. 21/1991. Samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 33. gr. laganna hefðu þessir kröfuhafar því ekki átt að njóta atkvæðisréttar um nauðasamningsfrumvarp sóknaraðila.

Hvorki af fundargerð framangreinds kröfuhafafundar né af ódagsettu bréfi umsjónarmanns með nauðasamningsumleitunum sóknaraðila sem liggi fyrir á dómskjali nr. 13 verði ráðið að hinir nákomnu aðilar hafi ekki notið atkvæðisréttar um nauðasamningsfrumvarp sóknaraðila. Þvert á móti bendi fundargerðin til þess að umræddir aðilar hafi í raun notið atkvæðisréttar, enda komi fram í henni  að afhent hafi verið skrifleg atkvæði um samþykki þar sem b-liður hafi verið valinn í stað áður valins a-liðar. Þessi ummæli eigi einungis við um atkvæði framangreindra kröfuhafa, sem teljist allir vera nákomnir sóknaraðila, sbr. kröfuskrá sem er dagsett 9. desember 2011, ásamt niðurstöðu um atkvæðagreiðslu.

Í 3. mgr. 46. gr. laga nr. 21/1991 komi jafnframt fram að hafi kröfu verið lýst fyrir umsjónarmanni sem hann telji ekki vera samningskröfu, eða hafi samningskröfu verið lýst af lánardrottni sem umsjónarmaður telji ekki vera atkvæðismann, skuli krafan ekki talin í skrá um samningskröfur samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins. Með hliðsjón af framangreindu og tilvitnuðum gögnum málsins sé hins vegar ljóst að það hafi verið gert.

Síðar til komnar skýringar eins og sé að finna í tilkynningu umsjónarmanns, sem liggi frammi á dómskjali nr. 13, breyti engu þar um, enda ljóst að skilningur kröfuhafa sem setið hafi framangreindan kröfuhafafund hafi verið á þá leið að umræddir aðilar nytu atkvæðisréttar. Að mati sóknaraðila breyti því engu í þessu sambandi þó að tilkynning umsjónarmanns til héraðsdómara, sbr. 2. mgr. 54. gr. laga nr. 21/1991, leiðrétti framkvæmd og niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar, enda liggi ekki fyrir nein heimild í lögum til að koma að leiðréttingum með þessum hætti eftir kröfuhafafund þar sem atkvæðagreiðsla hafi farið fram. Varnaraðili telji því að boða þurfi til nýs kröfuhafafundar til að bæta úr þess háttar alvarlegum annmörkum, enda sé ljóst að framangreind meðhöndlun umsjónarmanns á kröfulýsingum og breytingar á niðurstöðum atkvæðagreiðslu hafi verið verulega villandi fyrir kröfuhafa.

Þá bendi varnaraðili á að umsjónarmanni hafi borið að gera og leggja fram skrá um kröfur sem tryggingaréttindi séu fyrir í eign skuldarans, óháð því hvort umræddum kröfum hafi verið lýst eður ei, sbr. 2. mgr. 46. gr. laga nr. 21/1991. Engin skrá um tryggingaréttindi liggi fyrir í málinu, en einsýnt þyki að slík skrá hefði auðveldað kröfuhöfum til muna að gera sér grein fyrir efni hverrar kröfulýsingar og þeim tryggingaréttindum sem liggi að baki einstökum kröfum.

Sóknaraðili mótmæli því að umsjónarmaður með nauðasamningsumleitunum sóknaraðila eða fjármálastjóri sóknaraðila hafi á fundinum kynnt tengda aðila, kröfur þeirra og/eða tilurð þeirra með öðrum hætti en þeim, að skilja bæri að þeir nytu atkvæðisréttur. Hafi þessi meðferð umsjónarmanns á kröfum umræddra aðila verið röng, þar sem framkvæmdin hafi gengið í berhögg við 1. tölul. 1. mgr. 33. gr. laga nr. 21/1991.

Þá liggi ekki fyrir í málinu hvers vegna umræddir aðilar, sem allir séu nákomnir sóknaraðila, hafi talið nauðsynlegt að lýsa kröfum sínum á hendur sóknaraðila við innköllun. Einkum og sér í lagi þegar þessum kröfuhöfum hafi mátt vera það fullljóst að þeir fengju aldrei notið atkvæðisréttar. Verðugt sé að benda á að Gunnar Viðar Bjarnason og Stefán Bragi Bjarnason stjórnarmenn sóknaraðila séu einnig í stjórn allra framangreindra félaga, ýmist annar þeirra eða báðir. Virðist varnaraðila, að með því að þessi háttur hafi verið hafður á, hafi umræddir kröfuhafar freistað þess að fá að njóta atkvæðisréttar. Enda komi fram í máli Steins Finnbogasonar, hdl. og fulltrúa umsjónarmanns, þegar Arna Bryndís Baldvinsdóttir, hdl. og lögmaður varnaraðila, hafi rætt við hann hinn 9. desember 2011, að hann hafi virst standa í þeirri trú að umræddir ættu að njóta og hefðu notið atkvæðisréttar á kröfuhafafundinum. Þá skuli bent á tölvuskeyti Steins Finnbogasonar til Örnu Bryndísar Baldvinsdóttur, sem liggi frammi á dómskjali nr. 41 og sent hafi verið eftir að sú síðarnefnda hafi gert athugasemdir við þessa tilhögun atkvæðagreiðslu á kröfuhafafundinum, en af því megi ráða að kröfuskránni hafi verið breytt eftir fundinn og um leið niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar.

Í þriðja lagi byggi varnaraðili á því að atkvæðaseðill sá, sem liggi frammi á dómskjali nr. 19 og sendur hafi verið kröfuhöfum með frumvarpi að nauðasamningi sóknaraðila hafi að efni til verið leiðandi og villandi fyrir kröfuhafa. Á atkvæðaseðlinum hafi ekki verið gert ráð fyrir þeim valmöguleika að kröfuhafi gæti synjað frumvarpinu staðfestingar, heldur hafi kröfuhafa einungis staðið til boða að samþykkja aðra hvora tveggja greiðsluleiða á grundvelli frumvarpsins, þ.e. að velja annaðhvort að fá greiðslu samkvæmt a-lið eða að fá greitt í samræmi við b-lið. Telji varnaraðili að slík framsetning valkosta á atkvæðaseðli, sé ekki til þess fallin að upplýsa lánardrottna, sem njóti atkvæðisréttar, um raunverulega valkosti sem þeir hafi lögum samkvæmt þegar þeir taki afstöðu til samningsfrumvarps skuldara. Þar sem kröfuhafar sem njóta atkvæðisréttar eigi ávallt val um að hafna frumvarpi skuldara að nauðasamningi, telji varnaraðili eðlilegt að atkvæðaseðill hefði einnig boðið upp á þann valmöguleika. Ekki sé þannig útilokað að einhverjir kröfuhafa hafi í raun litið svo á að val þeirra stæði einungis á milli þess að velja annaðhvort fá greiðslu samkvæmt a-lið eða b-lið og verið þannig alls ókunnugt um að unnt væri að hafna nauðasamningsfrumvarpi sóknaraðila.

Í fjórða lagi byggi varnaraðili á því að ranglega hafi verið staðið að meðferð og skráningu tveggja krafna Mannvits hf. á hendur sóknaraðila. Önnur þeirra sé merkt númer 8 í kröfuskrá en hin sé ótölusett. Samkvæmt 4. mgr. 30. gr. laga nr. 21/1991 sé umsjónarmanni skylt, ef sami lánardrottinn eigi tvær eða fleiri samningskröfur á hendur skuldara, að leggja fjárhæðir þeirra saman og telja heildarfjárhæðina sem eina samningskröfu án tillits til uppruna krafnanna eða annarra atvika. Þessi meðferð á kröfum Mannvits hf. á hendur sóknaraðila gangi í berhögg við áðurnefnt ákvæði 4. mgr. 30. gr. laganna.

Að öllu framangreindu virtu og að öðru leyti með vísan til gagna málsins, telji varnaraðili ekki unnt að bæta úr framangreindum annmörkum án þess að boðað verði til nýs kröfuhafafundar og að atkvæðagreiðsla fari fram að nýju.

Fjárhæð samþykktra samningskrafna kröfuhafa, sem teljist vera nákomnir sóknaraðila í skilningi gjaldþrotalaga, nemi samkvæmt kröfuskrá, dags. 5. desember 2011 alls 256.387.020 krónum  af samtals 1.138.307.321 krónum, sem sé samanlögð fjárhæð þeirra krafna sem umsjónarmaður hafi samþykkt sem samningskröfur. Hafi því umræddir kröfuhafar farið með rúmlega 22,5% samningskrafna eftir fjárhæðum. Krafa Lýsingar hf. hafi samkvæmt sömu kröfuskrá numið alls 328.949.185 krónum eða nærri 29% allra samningskrafna eftir fjárhæðum. Þá sé ótalin krafa Tryggingamiðstöðvarinnar hf. sem að stærstum hluta sé tryggð lögraksrétti samkvæmt heimild í umferðarlögum nr. 50/1987 og hefði þeim hluta kröfunnar því ekki átt að fylgja atkvæðisréttur. Enginn þessara aðila hafi átt með réttu að njóta atkvæðisréttar um frumvarp að nauðasamningi sóknaraðila, en samkvæmt kröfuskrá, dagsettri 5. desember 2011, hafi þeir samanlagt farið með rúmlega helming atkvæðamagns, eftir fjárhæðum krafna þeirra.

Varnaraðili telji yfir allan vafa hafið að atkvæði framangreindra aðila hafi skipt sköpum um niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar, og að ekki sé loku fyrir það skotið að atkvæði þeirra hafi haft áhrif á það hvernig aðrir kröfuhafar sem eigi lægri kröfur á hendur sóknaraðila hafi kosið í umrætt sinn. Þá telji varnaraðili illskiljanlegt hvers vegna kröfuhafar, sem teljist nákomnir sóknaraðila, og komi að og þekki rekstur sóknaraðila til hlítar, hafi yfirleitt lýst kröfum sínum við innköllun. Enda hafi þeim mátt vera ljóst að slíkt fyrirkomulag gæti verið til þess fallið að hafa leiðandi og villandi áhrif á aðra kröfuhafa. Að mati varnaraðila séu framangreindir aðilar svo stórir kröfuhafar gagnvart sóknaraðila, bæði að höfðatölu og fjárhæð, að ekki sé hægt að bæta úr þessum annmörkum, sem hér hafi verið lýst að framan, án þess að boðað verði til nýs kröfuhafafundar þar sem fari fram atkvæðisgreiðsla um nýtt frumvarp að nauðasamningi sóknaraðila. Breyti engu í þessu sambandi að jafnvel þó að tekið hafi verið tillit til framangreindra athugasemda kunni nauðasamningsfrumvarp sóknaraðila engu að síður að teljast samþykkt, enda liggi fyrir að þegar sóknaraðili hafi sent beiðni til héraðsdóms um heimild til nauðasamningsumleitana hinn 7. október 2011, hafi ekki legið fyrir samþykki fjórðungs atkvæðismanna samkvæmt talningu skulda í beiðni skuldarans, eftir fjárhæðum krafna þeirra, svo sem áskilið sé í 2. tölul. 1. mgr. 35. gr. laga nr. 21/1991.

Samkvæmt öllu framansögðu telji varnaraðili að nauðasamningur sóknaraðila sé haldinn svo alvarlegum og mörgum annmörkum að leiða eigi til synjunar á staðfestingarkröfu hans, sbr. 1. og 3. tölul. 1. mgr. og 2. mgr. 57. gr. laga nr. 21/1991. Þá séu flestir þessara annmarka því marki brenndir að ekki sé unnt að bæta úr þeim undir rekstri málsins fyrir dómi.

Um lagarök kveðst varnaraðili einkum vísa til laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., laga nr. 75/1997, um samningsveð, umferðarlaga nr. 50/1987 og laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

Málskostnaðarkrafa varnaraðila sé byggð á XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

Við munnlegan  málflutning hafði lögmaður varnaraðila uppi þau sjónmarið að samningur Lýsingar hf. og sóknaraðila sem lagður var fram með greinargerð sóknaraðila væri of seint fram kominn og væri því óheimilt að líta til efnis hans við úrlausn málsins. Þá bar lögmaðurinn einnig brigður á að sýnt hefði verið fram á með fullnægjandi hætti að skuldara væri fært að efna nauðasamninginn og taldi ósannað í málinu að nákomnir aðilar hefðu samþykkt að fá greiðslu sína í hlutafé í sóknaraðila.

V

Krafa sóknaraðila um staðfestingu nauðasamnings barst héraðsdómi innan þeirra tímamarka sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 54. gr. laga nr. 21/1991 og er þar gerð ítarleg grein fyrir því hvernig sóknaraðili hyggst standa við greiðslur samkvæmt samningnum. Má ráða af þeirri greinargerð og meðfylgjandi greiðsluyfirliti að gert er þar ráð fyrir að nánar tilgreindir fjórir aðilar þiggi hlutafé í sóknaraðila sem greiðslu 30% krafna sinna, en umræddir aðilar eru meðal þeirra sem óumdeilt er í málinu að eru nákomnir sóknaraðila í skilningi 3. gr. laga nr. 21/1991. Þá er og gerð grein fyrir því hvernig þrír umræddra aðila hyggist styðja fjárhagslega við sóknaraðila þannig að félaginu verði kleift að standa við nauðasamning sinn. Málsástæður sem varnaraðili hafði fyrst uppi við munnlegan málflutning og lúta að því að ekki liggi fyrir sönnun þess að umræddir aðilar hyggist þiggja hlutafé sem greiðslu vegna krafna sinn teljast of seint fram komnar og koma því ekki til álita. Rétt er að geta þess að í frumvarpi að nauðasamningi sem mun hafa verið sent öllum þekktum kröfuhöfum er kafli um forsendur nauðasamningsins þar sem m.a. er gerð grein fyrir því að hluthafar í sóknaraðila leggi félaginu til nýtt hlutafé og/eða hluthafalán til að gera félaginu kleift að standa við samningsboð sitt. Ekki eru því að mati dómsins efni til þess eins og gögn málsins liggja fyrir að telja að ástæða sé til að draga verulega í efa að skuldari muni efna nauðasamninginn eins og dómara ber að gæta af sjálfsdáðum, sbr. 5. tl. 1. mgr. 38. gr. i.f. laga nr. 21/1991.

Varnaraðili hefur ekki í málatilbúnaði sínum vísað til 58. gr. laga nr. 21/1991 en í þeirri lagagrein eru talin upp þau atriði sem leitt geta til þess að héraðsdómari hafni því að staðfesta nauðasamning að kröfu þess sem lögmætra hagsmuna hefur að gæta. Byggir varnaraðila á því að í málinu sé uppi sú aðstaða að héraðsdómara beri að hafna beiðni sóknaraðila af sjálfsdáðum og vísar um það til 1. tl. og 3. tl. 1. mgr. og 2. mgr. 57. gr. laga nr. 21/1991.

Verður fyrst vikið að atriðum sem lúta að 1. tl. 1. mgr. tilvitnaðrar lagagreinar þar sem kveðið er á um að héraðsdómari skuli hafna kröfu skuldarans um staðfestingu nauðasamnings ef synja hefði átt um heimild til að leita nauðasamnings í öndverðu skv. 1. mgr. 38. gr. laganna, eða hún hefur þegar fallið niður skv. 41. gr. Ekki veldur vafa að heimild skuldara var ekki fallin niður skv. 41. gr. og verður ekki nánar hugað að þeirri lagagrein. Á hinn bóginn þarf að líta til þess hvort einhver þau atriði sem vísað er til í 1. mgr. 38. gr. teljist ekki hafa verið uppfyllt þegar beiðni skuldara um heimild til að leita nauðasamnings var lögð fram í upphafi þannig að hafna beri staðfestingu nauðasamnings nú. Af hálfu varnaraðila er á því byggt að ekki hafi verið fullnægt því skilyrði 2. tl. 35. gr. laga nr. 21/1991 að beiðni skuldara fylgdi skrifleg yfirlýsing frá að minnsta kosti fjórðungi atkvæðismanna samkvæmt talningu skulda í beiðni skuldarans eftir fjárhæðum krafna þeirra, um að þeir mæli með nauðasamningi á grundvelli frumvarps skuldarans. Kom fram við munnlegan málflutning að þetta leiði til þess að héraðsdómara hefði borið að synja beiðni skuldara í öndverðu á grundvelli 4.tl. 1. mgr. 38. gr. þar sem beiðni skuldara hafi verið áfátt, fylgigögn hafi skort eða annmarkar hafi verið á þeim eins og greinir í ákvæðinu. Færir varnaraðili rök fyrir því í löngu máli að þar sem Lýsing hf. hafi átt kröfu sem trygging hafi verið fyrir og að félagið hafi ekki afsalað sér þeim tryggingaréttindum að þá væri félagið ekki atkvæðismaður og meðmæli þess hefðu því ekki haft gildi, sbr. 4. tl. 1. mgr. og 2. mgr. 28. gr. laga nr. 21/1991. Hefði krafa sóknaraðila um heimild til að leita nauðasamnings því verið tekin ranglega til greina í öndverðu og því beri að hafna staðfestingu samningsins nú. Varnaraðili byggir og á því að krafa Tryggingamiðstöðvarinnar hf. sé sama marki brennd en sú krafa njóti að stórum hluta lögtaksréttar.

Það er mat dómsins að í þeirri ráðagerð sem fram kemur í áður tilvitnuðum 1. tl. 1. mgr. 57. gr. laga nr. 21/1991 felist heimild dómara til að endurmeta atriði sem þegar hafi verið metin komi í ljós að upplýsingar sem legið hafi fyrir í upphafi hafi reynst rangar um einhver þau atriði sem greinir í 1. mgr. 28. gr. laganna.

Þegar skuldari óskaði heimildar til að leita nauðasamnings lagði hann fram frumvarp sitt, en þar er sérstakur kafli sem greinir forsendur þess. Í þeim forsendum greinir m.a.: „Samkomulag hefur náðst við Lýsingu hf. um uppgjör tryggra krafna við félagið og afmörkun fjárhæðar ótryggra krafna sem falla þá undir nauðasamninginn sem er einn af hornsteinum þess að Vélaborg ehf. treystir sér til þess að leita nauðasamnings við lánardrottna sína á grundvelli frumvarps þessa.“ Skuldari lagði fram eintak framangreinds frumvarps með áritun Lýsingar hf. um að félagið mælti með því að heimild til nauðasamningsumleitana yrði veitt og er undirritun af hálfu Lýsingar hf. dagsett 5. október 2011. Sóknaraðili hefur lagt fram samning sinn við Lýsingu hf. sem varðar umræddar kröfur og er hann dagsettur 4. október 2011. Þá liggur fyrir að Lýsing hf. lýsti kröfu fyrir umsjónarmanni með nauðasamningsumleitunum sem er í samræmi við umræddan samning og er þess getið í kröfulýsingu að samningurinn sé fylgiskjal með kröfulýsingunni. Það er mat dómsins að með framangreindum samningi hafi Lýsing hf. afmarkað veðkröfu sína gagnvart sóknaraðila þannig að jafna megi til þess að gefin hafi verið yfirlýsing í skilningi 2. mgr. 28. gr. laga nr. 21/1991. Verður ekki annað séð en að kröfulýsing félagsins sé í fullu samræmi við umræddan samning. Er veðkrafan þar tilgreind með tiltekinni krónutölu og er kröfunnar einnig getið í kröfuskrá umsjónmarmanns með skýrum hætti. Eru því ekki efni til annars en að telja að sóknaraðili og síðan umsjónarmaður með nauðasamningsumleitunum hafi báðir réttilega gengið út frá því að Lýsing hf. ætti samningskröfu og væri atkvæðismaður vegna kröfu sem lýst var umfram þá fjárhæð sem talið var að tryggingarréttur væri fyrir eins og heimilað er í áður tilvitnaðri 2. mgr. 28. gr. laga nr. 21/1991. Með sama hætti má líta svo á að Tryggingamiðstöðin hf. hafi með því að lýsa kröfu sinni og samþykkja nauðasamning fallist á að krafa félagsins verði færð niður um 70%. Má á sama hátt telja að umræddur aðili teljist hafa með þessu gefið eftir hugsanleg tryggingaréttindi sín gagnvart skuldaranum og hafi því réttilega verið talinn atkvæðismaður. Verður samkvæmt framansögðu ekki fallist á með varnaraðila að málatilbúnaður sóknaraðila hafi verið haldinn ágalla að þessu leyti sem leiða hefði átt til höfnunar beiðni hans í öndverðu. Sömu röksemdir leiða til þess að krafa Lýsingar hf. taldist réttilega samningskrafa að því marki sem krafan naut ekki veðtryggingar þegar greidd voru atkvæði um nauðasamningsfrumvarp sóknaraðila á fundi 9. desember 2011. Af fundargerð umsjónarmanns frá þeim fundi verður ekki annað ráðið en að skuldari hafi mótmælt tilgreindum hluta kröfu Lýsingar hf. Eru engin efni til að fallast á það með varnaraðila að sá hluti kröfunnar geti talist skilyrtur. Er hér einfaldlega um efnislegan ágreining um réttmæti kröfu að ræða sem menn hafa orðið ásáttir um að leysa með nánar tilgreindum hætti, eftir atvikum með atbeina dómstóla. Í yfirlýsingu umsjónarmanns er hins vegar tekið fram að niðurstaða atkvæðagreiðslunnar hafi ekki ráðist af umræddu ágreiningsatkvæði og því hafi ekki reynst nauðsynlegt að umsjónarmaður reyndi að jafna ágreining.

Af gögnum máls þessa má sjá og er óumdeilt að meðal kröfuhafa eru sjö aðilar sem teljast nákomnir sóknaraðila í skilningi 3. gr. laga nr. 21/1991. Þá liggur einnig fyrir að í kröfuskrá þeirri sem umsjónmarmaður gerði upphaflega og sendi til atkvæðismanna var gert ráð fyrir að umræddir aðilar nytu atkvæðisréttar. Er kröfuskrá haldin ágöllum hvað þetta varðar. Þá er það einnig rétt að þess hefur ekki verið gætt að Mannvit hf. er talið tvívegis í kröfuskrá og krafa félagsins því ekki lögð saman eins og vera ber. Félagið naut þó aðeins eins höfðatöluatkvæðis. Samkvæmt nýrri kröfuskrá umsjónarmanns sem dagsett er 9. febrúar 2012 er að nokkru bætt úr þessu og kemur þar fram að nauðasamningur sóknaraðila hafi verið samþykktur með 83,33% atkvæða eftir höfðatölu og 70,275% samkvæmt kröfufjárhæðum en ágreiningsatkvæði hafi ekki verið talið með í síðarnefndu tölunni. Þá er í tilkynningu umsjónarmanns skv. 2. mgr. 54. gr. laga nr. 21/1991 sem fylgdi beiðni skuldara um staðfestingu nauðasamnings gerð skýr grein fyrir nákomnum aðilum og fjárhæðum krafna þeirra. Þetta þýðir að úrslit atkvæðagreiðslu réðust án tillits til ágreiningsatkvæðisins og einnig liggur fyrir að þó að atkvæði nákominna væru felld niður breytti það ekki því að fullnægjandi fjöldi atkvæða hafði fallið til samþykktar samningnum. Þá verður ekki séð að tilgreining kröfu Mannvits hf. í tvennu lagi hafi hér nokkur áhrif, enda um kröfu að ræða sem rétt losar 500.000 krónur. Má þannig sjá að framangreindar athugasemdir og aðfinnslur varnaraðila um framkvæmd umræddrar atkvæðagreiðslu hafa ekki þær afleiðingar að nauðasamningsfrumvarpið teljist hafa verið fellt, en skýrlega er áskilið í 3. tl. 1. mgr. 57. gr. laga nr. 21/1991 að skilyrði þess að ágalli leiði til höfnunar er að svo ranglega hafi verið staðið að atkvæðagreiðslu og öðrum þeim atriðum sem þar eru talin að það kunni að hafa skipt sköpum um niðurstöður atkvæðagreiðslunnar. Er ekki fallist á að sú staða sé uppi í þessu máli, enda ljóst af gögnum að fyrir lá frá öndverðu hverjir voru tengdir aðilar og að atkvæði höfðu að stærstum hluta verið greidd skriflega fyrir fundinn. Er sjónarmiðum varnaraðila um að þetta kunni að hafa haft áhrif á atkvæðagreiðsluna hafnað.

Þá er ekki unnt að fallast á með varnaraðila að atkvæðaseðill sem sendur var út ásamt frumvarpinu hafi getað vakið hjá atkvæðismönnum þá hugmynd að þeim væri aðeins unnt að velja annan tveggja kosta en ekki að hafna nauðasamningnum. Er seðillinn settur fram skýrlega sem yfirlýsing um samþykki og blasir að mati dómsins við að þeir sem ekki vilja samþykkja slíka yfirlýsingu rita ekki undir hana og því geti ekki talist gildisskilyrði að sérstaklega sé gefinn sá valkostur að hafna nauðasamningnum.

Í tilkynningu umsjónarmanns til héraðsdóms skv. 2. mgr. 54. gr. laga nr. 21/1991 er því lýst að atkvæðismenn hafi verið 36 og af þeim hafi þrjátíu samþykkt nauðasamninginn en það séu 83,34% atkvæðismanna samkvæmt höfðatölu. Kemur fram að heildarkröfur atkvæðismanna séu 754.098.438 krónur en þeir atkvæðismenn sem samþykki ekki samninginn eigi kröfur að fjárhæð 85.621.983 krónur. Samningurinn hafi því verið samþykktur með 88,65% atkvæða eftir kröfufjárhæð. Þá gerir umsjónarmaður grein fyrir því að ágreiningur hafi verið um hluta af kröfu Lýsingar hf. eða 138.560.015 krónur og tekur fram að þó svo heildarkröfufjárhæð væri lækkuð af þessum sökum í 615.538.423 krónur sé samningurinn samþykktur með 86,09% atkvæða eftir kröfufjárhæðum. Þá kemur fram í uppfærðri kröfuskrá umsjónarmanns dags. 9. febrúar sl. sem áður er vitnað til að ef heildarfjárhæð krafna atkvæðismanna er ekki lækkuð sem nemur fjárhæð ágreiningskröfu en atkvæði vegna hennar ekki tekið með nemi samþykki 70,275% eftir fjárhæð. Af síðastnefndri tölu má ráða að niðurstaða hafi ekki ráðist af ágreiningsatkvæði en nauðsynlegt hlutfall til samþykkis nauðasamningi var 70%. Í umræddri yfirlýsingu umsjónarmanns kemur fram að hann mæli með því að nauðasamningurinn verði staðfestur.

Þegar af þeim ástæðum sem að framan hafa verið raktar eru engin efni til að fallast á mótmæli varnaraðila við að nauðasamningur sóknaraðila hljóti samþykki. Eru að mati dómsins heldur engin þau atvik fyrir hendi í máli þessu sem gera það að verkum að dómara beri að hafna að staðfesta nauðasamninginn af sjálfsdáðum, sbr. 57. gr. laga nr. 21/1991. Verður krafa sóknaraðila því tekin til greina.

Í ljósi framangreindrar niðurstöðu verður varnaraðila gert að greiða sóknaraðila málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn með þeirri fjárhæð sem greinir í úrskurðarorði.

Halldór Björnsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Framangreindur nauðasamningur sóknaraðila Vélaborgar ehf., kt. 670504-2550, er staðfestur.

Varnaraðili, Agripac AB, greiði sóknaraðila 400.000 krónur í málskostnað.