Hæstiréttur íslands

Mál nr. 354/2003


Lykilorð

  • Sjómaður
  • Uppsögn


Fimmtudaginn 25

 

Fimmtudaginn 25. mars 2004.

Nr. 354/2003.

Hálfdán Hjalti Hálfdánarson

(Skúli Pálsson hrl.)

gegn

Soffaníasi Cecilssyni hf.

(Hrafnhildur Stefánsdóttir hrl.)

 

Sjómenn. Uppsögn.

H starfaði sem stýrimaður á skipi í eigu S. Í kjölfar þess að skipið var látið í slipp kom upp ágreiningur milli S og skipverja um greiðslu kauptryggingar og varð H og framkvæmdastjóra S sundurorða vegna þessa. Nokkru síðar var H sagt upp störfum með þriggja mánaða uppsagnarfresti og vann hann uppsagnarfrestinn. Taldi hann uppsögnina byggða á ólögmætum sjónarmiðum og krafðist þess að honum yrðu greidd laun í þrjá mánuði frá starfslokum. Talið var að formlega hefði verið rétt staðið að uppsögn H og honum hefðu verið greidd laun á lögbundnum uppsagnarfresti. Ekki var fallist á að jafna hefði mátt stöðu H við stöðu trúnaðarmanns stéttarfélags samkvæmt 9. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur og var S því sýknað.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 9. september 2003. Hann krefst þess að stefndi greiði 2.778.840 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 10. október 2002 til greiðsludags og málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Áfrýjandi var ráðinn 1. stýrimaður á Sigurborgu SH-12, skipaskrárnúmer 1019, 200 brúttólesta togbát í eigu stefnda 28. september 2000. Í kosningu sem fram fór meðal skipverja 4. janúar 2001 var hann kosinn til að koma fram fyrir þeirra hönd gagnvart stefnda í samræmi við 4. mgr. greinar 1.03 kjarasamnings Landssambands íslenskra útvegsmanna og Farmanna-og fiskimannasambands Íslands, sem við á þegar afli er ekki seldur á erlendum eða innlendum uppboðsmarkaði, en þar segir: „Útgerðarmaður skal hafa samráð við fulltrúa, sem kjörinn er af áhöfn í einfaldri kosningu, um áformaða sölu aflans fyrir a.m.k. mánuð í senn, og gera honum grein fyrir fyrirliggjandi upplýsingum um sölu og fiskverð.“  Í 5. mgr. sömu greinar samningsins segir síðan: „Útgerðarmaður og áhöfn skulu gera sín í milli samning um fiskverð, þegar útgerð selur afla til eigin vinnslu, þ.e.a.s. í viðskiptum milli skyldra aðila. Til að slíkur samningur öðlist gildi, skal hann staðfestur í leynilegri atkvæðagreiðslu áhafnar og að því loknu undirritaður af fulltrúum áhafnar og útgerðar. Samningurinn skal vera í stöðluðu formi, þar sem fram komi m.a. verð einstakra fisktegunda, gildistími, uppsagnarákvæði o.s.frv.“  Í 6. mgr. sömu greinar segir loks : „Telji meirihluti áhafnar sig ekki eiga kost á samningi um sanngjarnt fiskverð samkvæmt framanskráðu, skal leita úrskurðar nefndar, sem samtök sjómanna og útvegsmanna koma sér saman um að skipuð verði. Með skyldum aðilum er átt við að útgerð og vinnsla séu í ráðandi eigu sömu aðila.“ Um 5% afla Sigurborgar SH-12 fór að þessum ákvæðum en 95% aflans var hins vegar rækja, sem seld var á markaði.

Stefndi sendi skipið í slipp á Akureyri 30. apríl 2002. Lauk endurbótum 27. maí sama ár og var skipið sótt samdægurs og gert klárt til rækjuveiða. Strax að lokinni sjómannadagshelgi 3. júní 2002 var haldið til veiða. Kauptrygging hafði alltaf verið greidd fjórum sinnum í mánuði í samræmi við ákvæði kjarasamninga, en uppgjör verið einu sinni í mánuði hverjum og mun það hafa borist 15. júní 2002 fyrir maí. Þegar líða tók á júní barst skipverjum það til eyrna að framkvæmdastjóri stefnda hygðist draga af þeim kauptryggingu fyrir þann tíma sem skipið var í slipp. Voru skipverjar óánægðir með þetta og varð áfrýjanda og framkvæmdastjóra stefnda sundurorða vegna túlkunar kjarasamnings hér um. Varð niðurstaðan sú að kauptryggingin var ekki dregin frá. Áfrýjandi fór í frí 1. júlí 2002. Þegar hann kom úr fríinu 10. sama mánaðar kallaði skipstjórinn á hann upp í brú skipsins og skýrði honum frá því að sér hefði verið falið að segja honum upp störfum með þriggja mánaða uppsagnarfresti og var um það bókað í dagbók skipsins. Engar ástæður voru gefnar á uppsögninni. Áfrýjandi vann síðan út uppsagnarfrestinn eða til 10. október 2002, en lét þá af störfum og var annar ráðinn í hans stað.

Áfrýjandi heldur því fram að ástæður fyrir uppsögn hans 10. júlí 2002 hafi verið ómálefnalegar og ólögmætar og eigi því að virða uppsögnina að vettugi. Verði því að meta það svo að stefndi hafi vikið honum úr skiprúmi 10. október 2002. Ráðningartími hans hafi ekki verið liðinn og heimild hafi ekki verið til uppsagnar samkvæmt 23. eða 24. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 og eigi hann því samkvæmt 1. mgr. 25. gr. þeirra laga rétt til kaups í þrjá mánuði, sbr. 2. mgr. 9. gr. sömu laga.  Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að uppsögn áfrýjanda hafi verið lögmæt og hafi verið framkvæmd í samræmi við ákvæði kjarasamnings stýrimanna á fiskiskipum og ákvæði sjómannalaga.

II.

Fyrir Hæstarétti féll áfrýjandi frá málsástæðum, sem lúta að samanburði við réttarstöðu starfsmanna ríkisins.

Ráðningarsamningur samkvæmt sjómannalögum liggur ekki fyrir, en samkvæmt 6. gr. laganna skal útgerðarmaður sjá um að skriflegur ráðningarsamningur sé gerður. Verður ekki séð að um ráðningartíma hafi verið samið. Samkvæmt 2. mgr. 9. gr. laganna var því uppsagnarfrestur aðila gagnkvæmur í þrjá mánuði. Ber því að staðfesta niðurstöðu héraðsdóms um að formlega hafi verið rétt að uppsögn áfrýjanda staðið samkvæmt lögunum. Eins og mál þetta liggur fyrir virðist ástæða uppsagnarinnar hafa verið deilur áfrýjanda og framkvæmdarstjóra stefnda um rétt áhafnarinnar til kauptryggingar meðan skipið var í slipp á Akureyri. Kosning áfrýjanda sem fyrirsvarsmanns áhafnar samkvæmt 4. mgr. greinar 1.03 kjarasamnings náði ekki til kauptryggingar og því fyrirsvari verður ekki jafnað til stöðu trúnaðarmanns stéttarfélags samkvæmt 9. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur, sbr. 11. gr., né heldur getur 4. gr. sömu laga átt við um áfrýjanda samkvæmt orðun þess ákvæðis. Að þessu athuguðu verður héraðsdómur staðfestur.

 Rétt er að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.

                                                         Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

Dómur Héraðsdóms Vesturlands 12. júní 2003.

                Mál þetta var höfðað með birtingu stefnu 28. nóvember 2002. Það var þingfest 11. desember sama ár; dómtekið 22. maí 2003 að lokinni aðalmeðferð.

Stefnandi er Hálfdan Hjalti Hálfdánarson, kt. 260968-3199, Heiðargerði 17 Húsavík. Stefnt er Soffaníasi Cecilssyni hf., kt. 611292-2959, Borgarbraut 1, Grundarfirði.

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda fjárhæð kr. 2.778.840, auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af þeirri fjárhæð frá 10.10.2002 til greiðsludags.  Krafist er málskostnaðar að skaðlausu að teknu tilliti til virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.

Stefndi krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda og stefnandi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað að skaðlausu. Til vara krefst hann þess að stefnukrafa verði lækkuð og málskostnaður verði felldur niður.

Málsatvik  

Þeim er svo lýst í stefnu að stefnandi hafi hinn 28. september 2000 verið ráðinn 1. stýrimaður á Sigurborgu SH-12, skipaskrárnúmer 1019, 200 brl. togbát í eigu og útgerð stefnda.  Stefnandi hafi verið kosinn trúnaðarmaður skipverjanna 4. janúar 2001, og hafi sú kosning farið fram í borðsal bátsins.  Í stefnu eru taldir upp þeir skipverjar sem atkvæði greiddu, samtals 8, og er stefnandi ekki í þeim hópi.  Tilefni kosningarinnar hafi verið verðtilboð útgerðarinnar á þorski, 70 sm og lengri, sem stefndi hafði ákveðið að landa í eigin vinnslu, en fyrir þann tíma hafi þessi fiskur verið seldur í gámum til útlanda.  Stefnandi hafi verið sendur á fund með fyrirsvarsmönnum stefnda eftir að áhöfn bátsins hafði fellt tilboð stefnda í leynilegri atkvæðagreiðslu.  Framkvæmdastjóri stefnda, Sigurður Sigurbergsson, hafi brugðist illa við tíðindunum.  Stefnandi hafi þá tjáð honum að þetta væri ekki hans ákvörðun; hann væri bara trúnaðarmaður áhafnarinnar, en skylt sé að hafa slíka trúnaðarmenn á fiskiskipum, sbr. 4. mgr. greinar 1.03. í kjarasamningi milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, en þar segi: ,,Útgerðarmaður skal hafa samráð við fulltrúa, sem kjörinn er af áhöfn í einfaldri kosningu, um áformaða sölu aflans fyrir a.m.k. mánuð í senn, og gera honum grein fyrir fyrirliggjandi upplýsingum um sölu og fiskverð."

Eftir að stefnandi hafi lokið erindagjörðum sínum hafi framkvæmdastjórinn ekið niður á bryggju og átt eintal við skipstjórann.  Skipstjórinn hafi komið til baka með þau skilaboð að áhöfnin þyrfti að endurskoða verðtilboðið því að skipið færi ekki á sjó fyrr en tilboðinu yrði tekið.  Þó kæmi einnig til greina að senda skipið á rækju með fimm skipverja innanborðs í stað þeirra níu sem ráðnir hefðu verið á bátinn til botnvörpuveiða.  Af þessum sökum hafi skipverjarnir gengið að tilboði stefnda, að tveimur skipverjum undanskildum, stefnanda og Halldóri Loga Friðgeirssyni.

Þá segir í stefnu að stefndi hafi sent Sigurborgu SH í slipp á Akureyri 30. apríl 2002.  Endurbótum á skipinu þar hafi lokið 27. sama mánaðar.  Skipið hafi verið sótt samdægurs til Akureyrar og gert klárt til rækjuveiða.  Strax að lokinni sjómannadagshelginni, 03. júní, hafi verið haldið til veiða.  Kauptrygging hafi ávallt verið greidd fjórum sinnum í mánuði og hafi það verið í samræmi við ákvæði kjarasamninga.  Uppgjör hafi farið fram einu sinni í mánuði, 15. hvers mánaðar, og þar af leiðandi hafi uppgjör fyrir maí borist 15. júní 2002.

Þegar líða tók á júnímánuð hafi yfirvélstjóri skipsins, Hlynur Hringsson, hringt í framkvæmdastjóra stefnda og spurt hann út í tímavinnu sína meðan skipið var í slipp. Þau svör hafi hann fengið að hann fengi tímavinnuna greidda, enda myndi þegar greidd kauptrygging dragast frá tímavinnunni.  Aðrir skipverjar þyrftu þó að sæta því að greidd kauptrygging í maí drægist frá launum þeirra í júnímánuði, enda hefðu þeir ekkert unnið við skipið í slippnum.

Skipstjórinn hafi hringt í framkvæmdastjóra stefnda eftir að yfirvélstjórinn hefði skýrt frá samtali sínu við hann.  Daginn eftir hafi stefnandi talað sjálfur við framkvæmdastjórann, og þá hafi framkvæmdastjórinn tjáð honum að hann hefði látið skipverjana vinna allan slipptímann og haft þá á hóteli á staðnum hefði hann grunað að þeir hygðust fara fram á greiðslu kauptryggingar. Stefnandi hafi þá sagt framkvæmdastjóranum að honum bæri að fara eftir kjarasamningum við greiðslu launa.  Framkvæmdastjórinn hafi þá svarað því til að þeir menn sem vitnað hafi mikið í kjarasamninga hafi aldrei verið langlífir hjá þessu fyrirtæki.

Skipinu var lagt að bryggju í Húsavíkurhöfn 1. júlí 2002 og hafi þá framkvæmdastjóri stefnda verið þar kominn.  Hann hafi í fyrstu rætt einslega við skipstjórann í brú skipsins meðan hinir skipverjarnir hafi beðið í borðsalnum.  Skipstjórinn hafi síðan komið niður úr brúnni og tjáð áhöfninni að framkvæmdastjórinn væri mjög ósáttur við að þurfa að greiða kauptryggingu umrætt tímabil.  Hafi hann borið upp þá tillögu við skipverjana, sem hann hafi sagt stafa frá sjálfum sér en ekki framkvæmdastjóranum, að þeir samþykktu greiðslu hálfrar kauptryggingar.  Stefnandi hafi þá óskað eftir því að fá framkvæmdastjórann niður í borðsalinn til viðræðna við áhöfnina og hafi skipstjórinn orðið við því.

Framkvæmdastjórinn hafi viljað fá það á hreint hvort greiða ætti kauptryggingu eða tímakaup yfirleitt, og hafi hann með því verið að vísa til vinnu við löndun og í hafnarfríum; klára ætti allt það sem gera þyrfti við skipið meðan skipið væri á sjó.  Umræður hafi hafist um þessi atriði og hafi stefnandi og aðrir skipverjar verið óhressir; talið að verið væri að koma í bakið á þeim með því að draga kauptryggingu maímánaðar frá launum þeirra í júní.  Framkvæmdastjórinn hafi sagt þeim að svona hefði þetta alltaf verið framkvæmt hjá stefnda.  Hin skipin hefðu alltaf verið stöðvuð á sumrin, kauptrygging greidd, en hún síðan dregin aftur af þegar róðrar hefðu hafist að nýju.  Þessi túlkun framkvæmdastjórans á kjarasamningum sjómanna og útvegsmanna hafi komið skipverjum Sigurborgar SH spánskt fyrir sjónir.

Skipstjórinn hafi viljað hætta að tala um þessa hluti; það væri nær lagi að hugsa um hvernig þetta ætti að vera í framtíðinni.  Hafi hann innt stefnanda eftir því hvernig hann vildi hafa þetta.  Stefnandi hafi þá slegið í borðið og sagt að þegar þeir væru í slipp vildi hann fá kauptryggingu, þegar hann ynni í hafnarfríi vildi hann fá tímakaup og þegar hann væri á sjó vildi hann fá aflahlut.  Við þau orð stefnanda hafi framkvæmdastjóri stefnda sagt að þetta þýddi ekkert og rokið því næst í burtu.  Skipstjórinn hafi elt hann upp í brú, en stefnandi farið niður í stakkageymslu og beðið 1. vélstjóra skipsins að aka sér heim.  Í framhaldi af því hafi verið fundað um borð í Sigurborgu SH að stefnanda fjarstöddum, og hafi niðurstaða fundarins verið sú að stefndi drægi ekki frá launum í júní greidda kauptryggingu fyrir maí.

Stefnandi kveðst hafa verið í fríi frá því að umrædd atvik áttu sér stað til 10. júlí 2002.  Þegar hann hafi komið aftur til skips hafi skipstjórinn tjáð honum að hann þyrfti að segja honum upp störfum.  Það væri ekki hans ákvörðun heldur framkvæmdastjóra stefnda.  Hafi skipstjórinn sagst hafa mikið reynt að fá framkvæmdastjórann ofan af þeirri ákvörðun, en hann hefði ekki haggast í afstöðu sinni.  Aðspurður um ástæður uppsagnarinnar hafi skipstjórinn sagt stefnanda að engin ástæða lægi þar að baki.  Uppsögn stefnanda úr starfi sé staðfest í dagbók skipsins. Siglt hafi verið sérstaklega með stefnanda í land á Húsavík 10.október 2002, og hafi stefnandi þá endanlega verið afskráður af skipinu.

Í stefnu er frá því greint að hinn 12. september 2002 hafi lögmaður stefnanda ritað stefnda bréf. Þar hafi verið rakin frásögn stefnanda af atvikum máls og fyrirsvarsmönnum stefnda veittur kostur á að gera athugasemdir við frásögnina fyrir 25. september 2002.  Í bréfinu sé því lýst af hálfu lögmanns stefnanda að hann telji uppsögnina ólögmæta reynist frásögn stefnanda eiga við rök að styðjast.  Yrði stefndi þá krafinn um greiðslu skaðabóta með vísan til 25. gr. sjómannalaga nr. 35/1985, þriggja mánaða laun, frá 10. október 2002 að telja.  Lögmaður stefnda hafi svarað bréfi lögmanns stefnanda með bréfi dags. 19. september 2002.  Í því komi fram að fyrirsvarsmenn stefnda geri athugasemdir við frásögn stefnanda eins og hún birtist í bréfi lögmanns hans.  Hins vegar sé á engan hátt gerð tilraun til að vefengja frásögn stefnanda eða einstök atriði hennar.  Þá vísi lögmaður stefnda til þess að fyrirsvarsmenn stefnda telji enga ástæðu til að geta um ástæðu uppsagnar skipverja, enda væri uppsagnarfrestur gagnkvæmur sbr. 9. gr. sjómannalaga.  Í niðurlagi bréfs síns óski lögmaður stefnda eftir lagarökum fyrir erindinu þannig að hægt væri að taka afstöðu til þess.  Í því sambandi væri það mikilvægast að fram kæmi hvort stefnandi hefði litið á sig sem trúnaðarmann skipverja í skilningi laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur.  Vakin hafi verið athygli á því að af þeim átta mönnum sem að sögn stefnanda hafi kosið hann trúnaðarmann skipverja 04.01.2001 væru tveir skipverjar skipsins í dag; skipstjórinn og matsveinninn. Lögmaður stefnanda og lögmaður stefnda hafi frá því umrædd bréfaskifti áttu sér stað átt samskipti símleiðis, og telji lögmaður stefnanda að í þeim samtölum hafi komið skýrt fram á hverju hann byggði kröfur stefnanda í málinu. 

Framangreind bréfaskrif lögmanns stefnanda til stefnda og samtöl hans við lögmann stefnda hafi ekki haft þau áhrif að stefndi endurskoðaði ákvörðun sína um uppsögn stefnanda.  Af þeim sökum sé málshöfðun þessi nauðsynleg. 

Málsatvikum er lýst í greinargerð stefnda, en ekki svo nákvæmlega sem í stefnu. Þar er tekið fram að í ársbyrjun 2001 hafi stefnandi verið tilnefndur fulltrúi áhafnar, í samræmi við gr. 1.03 í kjarasamningi, vegna undirbúnings samnings milli áhafnar og útgerðar um fiskverð vegna sölu þess hlutar afla sem færi til eigin vinnslu.  Um það bil 95% af afla skipsins sé rækja, sem seld sé á markaði, en um það bil 5% aflans sé þorskur og annar afli sem seldur sé til eigin vinnslu.  Um sölu til eigin vinnslu sé gerður samningur einu sinni á ári, og hafi stefnandi verið fulltrúi áhafnar í samningi um fiskverð fyrir árið 2001, en í samningnum sem gerður var 2002 hafi annar skipverji verið fulltrúi áhafnar.

Þá segir í greinargerð stefnda að skipverjar hafi verið afskráðir þegar Sigurborg SH fór í slipp á Akureyri vorið 2002. Einungis vélstjóri hafi unnið um borð í skipinu í slippnum.  Svo hafi verið litið á að aðrir skipverjar, sem ekki komu til vinnu um borð, vildu vera í fríi, og hafi þeim því ekki verið greidd kauptrygging.  Fram hafi komið athugasemdir við þetta af hálfu skipverja, sem byggðar hafi verið á því, að þar sem útgerðin hefði ekki gengið úr skugga um það hverjir vildu heldur vera í fríi frekar en vinna um borð í slippnum, bæri henni að greiða þeim kauptryggingu þó þeir ynnu ekkert um borð í slippnum.  Niðurstaðan hafi orðið sú að stefndi greiddi öllum skipverjunum kauptryggingu.

Eins og tilgreint sé í fram lögðu ljósriti úr dagbók skipsins hafi stefnanda verið sagt upp starfi sem stýrimanni 10. júlí 2002 með þriggja mánaða lög- og samningsbundnum fyrirvara í samræmi við ákvæði 9. gr. sjómannalaga og kjarasamnings stýrimanna á fiskiskipum.  Stefnandi hafi starfað á Sigurborgu SH-12 til loka ráðningartíma síns 10. október 2002, en ráðið sig strax í framhaldinu sem stýrimaður á Röst SK-17 og síðan á Björn RE-79, og þar sé hann enn eftir því sem best sé vitað.

Þegar rúmir tveir mánuðir hafi verið liðnir af uppsagnarfrestinum hafi stefnda borist bréf lögmanns stefnanda á dskj. nr. 6.  Í bréfinu sé einhliða frásögn stefnanda um samskipti og samtöl manna undanfarið eitt og hálft ár sem stefnandi telji skýra ástæður uppsagnar sinnar.  Lögmaðurinn hafi haldið því fram að uppsögn stefnanda hafi verið ólögmæt, og yrðu ekki færðar fullnægjandi skýringar fyrir uppsögninni yrði krafist bóta fyrir ólögmæta uppsögn.  Í svari lögmanns stefnda hafi verið áréttað að uppsagnarfrestur samkvæmt sjómannalögum væri gagnkvæmur og hvorugur aðila þyrfti að tilgreina ástæður uppsagnar, ef uppsagnarfrestur 9. gr. laganna væri virtur.  Þá væri óskað lagaraka  fyrir erindi lögmanns stefnanda svo stefndi gæti tekið afstöðu til þess.  Jafnframt er óskað upplýsinga um það hvort stefnandi hafi litið á sig sem trúnaðarmann skipverja í skilningi laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur.

Lögmaður stefnanda hafi ekki látið svo lítið að svara framangreindu bréfi eins og óskað hefði verið, heldur gefið út stefnu í máli þessu.

Málsástæður stefnanda og lagarök

Stefnandi kveðst byggja bótarétt sinn á 1. mgr. 25. gr. sjómannalaga nr. 35/1985, enda hafi honum verið vikið úr skiprúmi áður en ráðningartími hans var liðinn án þess að heimild væri til þess í 23. eða 24. gr. sjómannalaga.  Hann eigi því rétt til skaðabóta, kaups, miðað við þrjá mánuði samkvæmt 2. mgr. 9. gr. sjómannalaga enda hafi hann verið yfirmaður á Sigurborgu SH-12, 1. stýrimaður, sbr. 2. mgr. 5. gr. sjómannalaga.

Krafan um bætur samkvæmt 25. gr. sjómannalaga styðjist við þau rök að uppsögn stefnda á skiprúmssamningi stefnanda 10. júlí 2002 hafi byggst á ómálefnalegum og ólögmætum sjónarmiðum.  Stefndi hafi vikið stefnanda úr skiprúmi 10. október 2002.  Þar sem uppsögn skiprúmssamningsins 10. júlí 2002 teljist vera ólögmæt verði að virða hana að vettugi og telja að stefnanda hafi á ólögmætan hátt verið vikið úr skiprúmi 10. október 2002.  Ráðningarslitin leiði til skaðabótaskyldu stefnda samkvæmt 25. gr. sjómannalaga nr. 35/1985, þriggja mánaða meðalbóta, miðað við meðalaflahlut 1. stýrimanns á Sigurborgu SH-12 síðustu mánuðina áður en til ráðningarslitanna kom, sbr. t.d. Hrd. nr. 326/2000, Hrd. nr. 186, 187, 188, 189, 197, 198, 199 og 214/2001.

Stefnandi heldur því fram að stefndi hafi sagt honum upp störfum vegna þess hann hafi neitaði að gefa eftir samningsbundin laun sín, kauptryggingu, í maí 2002.  Þar sem stefnandi hafi ekki látið þvinga sig til eftirgjafar sem leitt hefði til ólögmætrar auðgunar stefnda, hafi honum verið sagt upp störfum. Í þessu sambandi vísar stefnandi til þeirra orða, sem hann hefur eftir framkvæmdastjóra stefnda, að þeir sem vitnað hafi mikið í kjarasamninga hjá stefnda hafi aldrei orðið langlífir í starfi.  Framkoma af þessum toga, að segja stefnanda upp störfum vegna afskipta hans af málefnum stéttarfélags síns, vegna kröfu um kaup og kjör samkvæmt kjarasamningi, brjóti í bága við 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, sbr. 3. gr. laga nr. 97/1995, en þar segi: ,,Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti."   Rekja megi uppsögn stefnanda til stöðu hans að öðru leyti samkvæmt framangreindu ákvæði stjórnarskrárinnar. Stéttarfélagsvitund hans og neitun hans á því að gefa eftir samningsbundin og lögvarin laun sín sé látin leiða til þess að hann missi starf sitt, en þeir skipverjar Sigurborgar SH-12 sem ekki gerðu slíkt hið sama halda sínum störfum.  Engin málefnanleg rök geti leitt til þessarar niðurstöðu; þvert á móti sé hér um alvarlega þvingun að ræða sem feli í sér ráðagerð stefnda um lögbrot, enda séu samningsbundin kjör stefnanda varin samkvæmt framangreindum kjarasamningi í 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, sbr. 5. gr. laga nr. 69/1993, en þar segi: ,,Laun og önnur starfskjör, sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins semja um, skulu vera lágmarkskjör, óháð kyni, þjóðerni eða ráðningartíma fyrir alla launamenn í viðkomandi starfsgrein á svæði því er samningurinn tekur til.  Samningar einstakra launamanna og atvinnurekenda um lakari kjör en hinir almennu kjarasamningar ákveða skulu ógildir." 

Uppsögnin sé samkvæmt þessu byggð á ómálefnanlegum og ólögmætum sjónarmiðum. Auk þess að uppsögnin feli í sér brot á framangreindu stjórnarskrárákvæði sé hún í andstöðu við almennar reglur vinnuréttar, að lögum og samningum sé fylgt við uppgjör launa. 

Þá byggir stefnandi á því að stefndi hafi brotið gegn a-lið 1. mgr. 4. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur, enda hafi stefndi með háttsemi sinni verið  að hafa áhrif á afstöðu og afskipti stefnanda af stéttarfélögum með uppsögn úr vinnu.  Í því sambandi sé einnig byggt á 7. gr. laga nr. 80/1938 en þar segir að samningar einstakra verkamanna við atvinnurekendur séu ógildir að svo miklu leyti sem þeir fari í bága við samninga stéttarfélags við atvinnurekandann enda hafi félagið ekki samþykkt þá.

Stefnandi heldur því fram að afleiðingarnar af uppsögninni hafi orðið verulegar fyrir sig.  Hér sé um röskun á stöðu og högum að ræða, og uppsöfnuð réttindi hans sem 1. stýrimanns á Sigurborgu SH-12 samkvæmt kjarasamningi og sjómannalögum nr. 35/1985, hafi glatast.  Hér megi og líta til launaréttar í slysa- og veikindaforföllum samkvæmt 36. gr. sjómannalaga nr. 35/1985, en sá réttur sé að stórum hluta til byggður á starfsaldri.  Þá hafi nýir húsbændur stefnanda innt hann eftir ástæðum uppsagnar hans, en óútskýrð uppsögn útgerðarmanns á ráðningarsamningi skipverja auðveldi viðkomandi skipverja ekki leitina að nýrri vinnu.  Ef þær afleiðingar sem uppsögnin hafi fyrir stefnanda séu bornar saman við við þau markmið sem framangreind mismunun byggir á; að hafa af stefnanda lög- og samningsbundin laun, verði að telja að engin hlutlæg og eðlileg sjónarmið liggi til grundvallar þeirri mismunun sem felist í uppsögninni. 

Stefnandi byggir á því að stefnda hafi verið skylt að rökstyðja uppsögn hans úr starfi. Kveðst hann í þeim efnum styðjast meðal annars við 2. mgr. 44. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Samkvæmt 2. mgr. 75. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. 13. gr. laga nr. 97/1995, skuli í lögum kveðið á um rétt manna til að semja um starfskjör sín og önnur réttindi tengd vinnu.  Nú þegar sé fyrir hendi löggjöf á sviði vinnuréttar; almenns eðlis og sérgreinds, sbr. til að mynda lög nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur ásamt síðari breytingum og lög nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna, en framangreindir lagabálkar séu almenns eðlis og taki annars vegar til allra launþega á hinum almenna vinnumarkaði og hins vegar til launþega sem starfa hjá hinu opinbera. Finna megi ýmsa lagabálka þar sem sérstakar reglur séu settar fyrir tiltekin starfssvið sérstöðu þeirra vegna.  Slíkar lagareglur séu settar af tillit til ýmissa þátta sem séu sérstæðir eða einstæðir á vinnumarkaðinum og tengist tilteknum hópi launþega.  Í þessu sambandi megi benda á sjómannalög nr. 35/1985 og lög nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins; þá tvo lagabálka sem skipti máli við úrlausn þessa máls.

Stefnandi vitnar til 2. mgr. 9. gr. sjómannalaga þar sem segir að uppsagnarfrestur á skiprúmssamningi yfirmanns skuli vera þrír mánuðir nema um annað hafi sérstaklega verið samið, og það eigi einnig við um skipverja sem starfað hafi sem afleysingamaður í yfirmannsstöðu í níu mánuði samfleytt hjá sama útgerðarmanni.  Í lagagreininni sé ekkert minnst á forsendur uppsagnar eða rétt sjómanna til rökstuðnings uppsagnar af hálfu útgerðarmanns.  Vernd sjómanna fyrir ólögmætum og ómálefnanlegum uppsögnum sé ekki beinlínis til staðar í sjómannalögum nr. 35/1985.

Í 1. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins segi að lögin taki til hvers manns sem er skipaður, settur eða ráðinn í þjónustu ríkisins til lengri tíma en eins mánaðar, án tillits til þess hvort og þá hvaða stéttarfélagi hann tilheyri enda verði starf hans talið aðalstarf.  Þá segir í 2. mgr. 1. gr. að ákvæði II. hluta laganna taki einvörðungu til embættismanna samkvæmt 22. gr. laganna og ákvæði III. hluta laganna einvörðungu til annarra starfsmanna ríkisins. Í III. hluta laga nr. 70/1996 sé að finna sérstök ákvæði um aðra starfsmenn ríkisins en embættismenn.  Um sé að ræða starfsmenn sem hafa samnings- og verkfallsrétt, rétt eins og starfsmenn á hinum almenna vinnumarkaði.  Munur þessara tveggja hópa, starfsmanna ríkisins annarra en embættismanna og starfsmanna á hinum almenna vinnumarkaði, sé því enginn um þessar mundir.  Samt sem áður njóti þessi hópur ríkisstarfsmanna mun ríkari réttarverndar er kemur að uppsögn úr starfi en launþegar á hinum almenna vinnumarkaði.  Í þeim efnum vísast til 44. gr. laga nr. 70/1996.

Samkvæmt 1. málslið 1. mgr. 44. gr. laga nr. 70/1996 sé skylt að veita starfsmanni áminningu samkvæmt 21. gr. laganna og gefa honum færi á að bæta ráð sitt áður en honum er sagt upp störfum ef uppsögn á rætur að rekja til ástæðna sem þar eru greindar.  Í 21. gr. laganna séu greindar eftirtaldar ástæður fyrir uppsögn þar sem veita þarf áminningu áður en til hennar getur komið:  óstundvísi eða önnur vanræksla, óhlýðni við löglegt boð eða bann yfirmanns síns, vankunnátta eða óvandvirkni í starfi, hefur ekki náð fullnægjandi árangri í starfi, hefur verið ölvaður að starfi eða framkoma hans eða athafnir í því eða utan þess þykja að öðru leyti ósæmilegar, óhæfilegar eða ósamrýmanlegar starfinu.  Í lokamálslið 21. gr. er lögfest sú regla að starfsmanni skuli gefinn kostur á, ef unnt er, að tala máli sínu áður en áminningu er beitt.

Samkvæmt 3. mgr. 45. gr. laga nr. 70/1996 skal uppsögn rökstudd skriflega ef starfsmaður óskar þess; ef uppsögnin á rætur að rekja til ástæðna sem greindar eru í 21. gr. laganna má bera hana undir hlutaðeigandi ráðherra.

Eins og áður segi njóti ríkisstarfsmenn, aðrir en embættismenn, mun ríkari réttarverndar en launþegar á hinum almenna vinnumarkaði þegar kemur að uppsögnum úr starfi, sbr. 44. gr. laga nr. 70/1996.  Engin efnisleg rök séu fyrir þessari mismunun og raunar hafi löggjafinn staðfest í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 70/1996 að þessi mismunun komi til með að vera til staðar með staðfestingu laganna og að engin sérstök rök geti réttlætt hana, sbr. eftirfarandi ummæli í greinargerðinni: 

,,Frumvarpinu er ætlað að ráða bót á þessu misrétti, auk þess sem stefnt er að því að réttindi hvers og eins starfsmanns samsvari þeim skyldum, sem honum eru lagðar á herðar, á sama hátt og gert var á sínum tíma þegar lög nr. 38/1954 voru sett.  Samkvæmt því gerir frumvarpið ráð fyrir að mismunandi reglur gildi um starfsmenn ríkisins eftir því hver réttarstaða þeirra er.  Þannig er lagt til að starfsöryggi þeirra starfsmanna, er njóta hvorki samnings- né verkfallsréttar, verði tryggt nokkru betur en venja er meðan aðrir starfsmenn ríkisins, er njóta- almennt samnings- og verkfallsréttar, búi við svipað öryggi í starfi og launþegar á hinum almenna vinnumarkaði.  Þó er rétt að leggja áherslu á að samkvæmt frumvarpinu er ríkisstarfsmönnum tryggt meira réttaröryggi í samskiptum sínum við ríkið en launþegar búa við almennt í skiptum við vinnuveitendur á almennum vinnumarkaði."

Stefnandi segir að í greinargerðinni sé beinlínis tekið fram að verið sé að mismuna ríkisstarfsmönnum og launþegum á hinum almenna vinnumarkaði.  Ekki verði séð að nein rök réttlæti þessa mismunun, enda sé réttarstaða þessara tveggja launþegahópa að öðru leyti sú sama. Stefnandi kveðst byggja á því að mismunun af þessum toga brjóti í bága við ákvæði 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 3. gr. laga nr. 97/1995. Af því leiði að ákvæði 44. gr., sbr. og 21. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins gildi einnig um réttarstöðu stefnanda.  Annað hvort með lögjöfnun við tilvik eða aðstöðu stefnanda eða með rýmkandi lögskýringu á ákvæði 44. gr. laga nr. 70/1996.

Hafi ástæður uppsagnar stefnanda byggst á einhverjum þeim atriðum sem tilgreind eru í 21. gr. laga nr. 70/1996, hafi stefnda borið skylda til að áminna stefnanda áður en til uppsagnar kom.  Stefnandi hefði þá að sjálfsögðu ekki getað borið hina skriflegu uppsögn undir ráðherra, sbr. 2. mgr. 44. gr. laganna, en ætla mætti að dómstólaleiðin hefði verið honum fær.  Stefnandi hafi óskað eftir skriflegum rökstuðningi fyrir uppsögninni en stefndi hafnað þeirri ósk hans.  Teljist það vera brot á 2. mgr. 44. gr. laga nr. 70/1996, ef ákvæðinu væri beitt með lögjöfnun um réttarstöðu stefnanda; um ólögákveðið atriði sé að ræða samkvæmt framansögðu, sem sé samkynja þeirri réttarreglu sem sett hafi verið til hagsbóta ríkisstarfsmönnum samkvæmt framangreindu lagaákvæði. 

Stefnandi segir að ekki sé hægt að rekja ástæður uppsagnarinnar til fækkunar starfsmanna eða hagræðingar hjá stefnda, enda hafi stefnandi verið sá eini sem fengið hafi uppsagnarbréf, og nýr maður hafi verið ráðinn í hans stað.  Stefndi geti af þeim sökum ekki borið fyrir sig ákvæði 2. ml. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 70/1996.

Engin efnisleg rök séu fyrir þeirri mismunun sem sé á réttarstöðu stefnanda og annarra sjómanna og ríkisstarfsmanna þegar kemur að uppsögnum.  Ekki verði séð að ríkisstarfsmenn þurfi í þeim efnum á sérstakri réttarvernd að halda umfram launþega á hinum almenna vinnumarkaði.  Þvert á móti verði að gera ráð fyrir ríkari réttarvernd á hinum almenna vinnumarkaði en hjá hinu opinbera, og liggi þar að baki eðlilegar skýringar.  Sérstaklega verði að tiltaka réttarstöðu sjómanna í þessum efnum, enda sé auðlind sjávar takmörkuð sem og úthlutun veiðiheimilda og störf í sjávarútvegi séu því af skornum skammti.  Stefnandi hafi langt skipsstjórnarnám að baki auk langrar starfsreynslu á fiskiskipum, en atvinnutækifæri hans byggist nánast að öllu leyti á sjómennsku.  Stefndi sé eitt öflugasta sjávarútvegsfyrirtæki landsins og hafi fengið úthlutað samtals 2.821.869 kg í þorskígildum fyrir fiskveiðiárið 01.09.2002 – 31.08.2003 samkvæmt. upplýsingum frá Fiskistofu.  Það geti ekki staðist að helstu sjávarútvegsfyrirtæki landsins geti ákveðið að setja ómálefnanleg sjónarmið til grundvallar ráðningu sjómanna og við uppsagnir án þess að við því verði spornað.

Þá vitnar stefnandi til 1. mgr. 75. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. 13. gr. laga nr. 97/1995. Samkvæmt henni sé öllum frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa.  Þessu frelsi megi þó setja skorður með lögum enda krefjist almannahagsmunir þess.  Stefnandi hafi atvinnu af sjómennsku, skipsstjórn, og hafi menntað sig sérstaklega til þeirra starfa.  Byggt sé á því að atvinnufrelsi hans séu settar skorður með ólögmætum hætti ef stefnda verður gert kleift að segja honum upp störfum með vísan til ómálefnanlegra og ólögmætra sjónarmiða.

Stefnandi kveðst hafa verið kjörinn trúnaðarmaður áhafnar Sigurborgar SH-12 4. janúar 2001 með heimild í 4. mgr. greinar 1.03. í kjarasamningi milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og Farmanna- og fiskimannasambands Íslands.  Samkvæmt ákvæðinu séu það skipverjar sjálfir sem kjósa sér trúnaðarmann, og þurfi ekki staðfestingu frá viðkomandi stéttarfélögum eins og krafist sé samkvæmt 9. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur. Segist stefnandi byggja á því að stefndi hafi brotið gegn 11. gr. laga nr. 80/1938 með því að víkja stefnanda úr starfi án lögmætrar eða málefnanlegrar ástæðu 10. október 2002.  Ákvæði þetta taki yfir aðstöðu stefnanda sem trúnaðarmanns áhafnar Sigurborgar SH, annað hvort með beinum hætti, rýmkandi lögskýringu eða lögjöfnun, enda sé ljóst að ,,fulltrúi” áhafnar þurfi ekki síður á vernd að halda gegn ómálefnanlegum uppsögnum en þeir trúnaðarmenn sem skýlaust falla undir ákvæði laga nr. 80/1938.

Stefnandi gerir kröfu um greiðslu skaðabóta, meðalbóta, samkvæmt 25. gr. sjómannalaga nr. 35/1985.  Meðalbæturnar nemi kaupi í 90 daga, sbr. 2. mgr. 9. gr. sjómannalaga.  Við útreikning meðalbótanna sé tekið mið af launum stefnanda mánuðina maí til október 2001, báðir mánuðir meðtaldir, og mánuðina mars, apríl og júní 2002.  Launaseðla vantar fyrir fyrir þá mánuði sem ekki eru tilgreindir tímabilið 16.05.2001 til 10.10.2002.  Laun stefnanda framangreinda mánuði hafi verið sem hér segir:

a)             maí 2001                                                 16 dagar                 kr.               387.270

b)            júní 2001                                                                23 dagar                 kr.               808.145

c)             júlí 2001                                                                  21 dagur                 kr.               706.695

d)            ágúst 2001                                                             24 dagar                 kr.               696.901

e)             september 2001                                                     22 dagar                 kr.               765.247

f)             október 2001                                                         22 dagar                 kr.               586.871

g)            mars 2002                                                               15 dagar                 kr.               352.335

h)            apríl 2002                                                               26 dagar                 kr.               423.504

i)              júní 2002-11-27                                                      23 dagar                 kr.               492.959

                Samtals                                                                  192 dagar               kr.         5.219.927

                Í stefnu segir að stefndi hafi ekki gert rétt upp við stefnanda frá því að verkfallsaðgerðum sjómannasamtakanna lauk með lagasetningu 16.05.2002. Mismunurinn nemi með orlofi kr. 708.284, en stefndi hafi nú þegar viðurkennt mismun að fjárhæð kr. 544.770.  Samkvæmt þessu hafi heildarlaun stefnanda umrædd tímabil numið kr. 5.928.211 eða að meðaltali kr. 30.876 á dag.  Meðalbætur samkvæmt 25. gr. sjómannalaga, sbr. 2. mgr. 9. gr. laganna nemi því kr. 2.778.840 (90*30.876 = 2.778.840).  Dráttarvextir af þeirri fjárhæð reiknist frá ráðningarlokum stefnanda, 10.10.2002, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 326/2000, Róbert Pálsson gegn Þormóði ramma-Sæbergi hf.

                Við aðalmeðferð var þetta bókað í þingbók: ,,Lögmaður stefnda lýsir yfir að stefndi viðurkenni að stefnandi eigi rétt á þeim mismun á uppgjöri fyrir tímabilið 16. maí 2001 til 30. júní 2001, sem gerð er grein fyrir í stefnu á bls. 8, þ. e., kr. 708.248-544.770=kr. 163.514."

Lagatilvísanir stefnanda. Hann byggir kröfur sínar aðallega á 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. 3. gr. laga nr. 97/1995 og 75. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 13. gr. laga nr. 97/1995.  Þá byggir stefnandi á 5., 9., 23. og 24. og 25. gr. sjómannalaga nr. 35/1985, 1., 21., 44. og 3. mgr. 45. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, með lögjöfnun um aðstöðu stefnanda.  Þá byggir stefnandi á Hrd. nr. 186, 187, 188, 189, 197, 198, 199 og 214/2001 og Hrd. nr. 326/2000, 1. mgr. 4. gr., 7. gr. og 8. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur og 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, sbr. 5. gr. laga nr. 69/1993.  Um dráttarvexti vísast til Hrd. 326/2000 og vaxtalaga nr. 38/2001.  Um málskostnað vísast til 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.  Um virðisaukaskatt vísast til laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988.

Málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi mótmælir því að stefnandi geti átt rétt á bótum vegna uppsagnar sinnar og byggir sýknukröfu sína á því að uppsögn stefnanda hafi verið lögmæt.  Uppsögnin hafi verið framkvæmd og kaup greitt í uppsagnarfresti í samræmi við ákvæði kjarasamnings stýrimanna á fiskiskipum og ákvæði sjómannalaga nr. 35/1985.

Kröfur stefnanda um bætur séu byggðar á 1. mgr. 25. gr. sjómannalaga.  Bætur samkvæmt 1. mgr. 25. gr. verði einungis dæmdar þeim sem vikið er úr starfi fyrirvaralaust, án þess að heimild sé til þess í 23. eða 24. gr. laganna.  Samkvæmt nefndu ákvæði eigi yfirmaður, sem vikið væri úr starfi, án þess að heimild væri til þess í 23. eða 24. gr., rétt á kaupi í 3 mánuði samkvæmt 9. gr.  Heimildir 23. gr. byggist á því að skipverji verði ófær til vinnu vegna sjúkdóms eða meiðsla, en slíkt eigi ekki við í þessu máli.  Víki skipstjóri skipverja úr starfi á grundvelli 24. gr. sé skilyrði lögmætis brottvikningarinnar eitthvert þeirra tilvika eða brota sem tilgreind eru í greininni, en skipstjóri verði að sanna að ástæða brottvikningar sé einhver þeirra sem tilgreindar eru í 24. gr.  Fallist dómari ekki á rökin yrðu skipverja dæmdar bætur, sem næmu kaupi fyrir uppsagnarfrest samkvæmt 9. gr., 7 dagar til þrír mánuðir á fiskiskipum, eftir því hvaða stöðu skipverji gegnir.  Yrði hins vegar fallist á það að skipstjóra hefði verið heimilt að víkja skipverja á grundvelli 24. gr. myndi skipverji skv. 3. mgr. 24. gr. ekki eiga rétt á kaupi lengur en hann gegndi starfi sínu.

Stefndi segir að gerðar séu strangar kröfur til útgerðar og skipstjóra þegar ákvæðum 24. gr. er beitt og skipverji þar með sviptur rétti sínum til uppsagnarfrests, sbr. dóma Hæstaréttar 16. maí 2002 í málunum nr. 457/2001 og 108/2002.  Þar hafi verið um ótvírætt brot að ræða, sem varðaði við 6. tl. 1. mgr. 24. gr., en útgerð hafi verið dæmd til að greiða bætur skv. 1. mgr. 25. gr. þar sem skipstjóri hafði ekki skýrt skipverjunum frá því innan 7 daga frá því hann fékk vitneskju um brotið, að hann myndi víkja þeim úr starfi.  Þessi ströngu skilyrði séu ekki í lögum um starfsmenn í landi.

Þá segir stefndi að allar götur frá 1930 hafi verið sérstök lög um kaup og kjör, réttindi og skyldur sjómanna.  Fyrir 1930 hafi slík ákvæði verið í siglingalögum nr. 56/1914, en sérstök sjómannalög hafi fyrst verið sett árið 1930 með lögum nr. 41/1930.  Sjómannalögum hafi síðan verið breytt með lögum nr.  67/1963 og lögum nr. 35/1985.  Málatilbúnaður stefnanda sé því með ólíkindum þar sem lagt sé út af  lögum nr. 70/1996 um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, sem séu deilu þessari alls óskyld, og verði með engu móti séð hvernig ætti að komast að þeirri niðurstöðu að ákvæði laga um opinbera starfsmenn væru sjómannalögum fremri þegar fjallað væri um ágreiningsmál milli sjómanns og útgerðar. 

Í 1. gr. sjómannalaga sé tekið fram að þau gildi um alla sjómenn á íslenskum skipum og í 4. gr. sé kveðið á um að samtök sjómanna og útgerðarmanna geti samið um betri réttindi sjómönnum til handa en leiði af ákvæðum laganna og að lögin skerði í engu fyllri rétt þeirra samkvæmt kjarasamningum.

Stefndi telur að ekki verði litið fram hjá skýrum ákvæðum laganna og sé því ekki hægt að fjalla um mál þetta á öðrum grundvelli en ákvæðum sjómannalaga og kjarasamninga stýrimanna á fiskiskipum.  Það eina sem gæti vikið þessu til hliðar væri að ákvæði sjómannalaga stönguðust á við ákvæði stjórnarskrár, en svo sé ekki.

Af hálfu stefnda er því mótmælt er að ákvæði sérlaga um aðra hópa starfsmanna, svo sem laga nr. 70/1996 um opinbera starfsmenn, geti verið lögð til grundvallar í deilumáli sjómanns og útgerðarmanns.  Grundvallarmunur sé á reglum um meðferð opinbers valds og reglum um ákvarðanir einkaréttarlegs eðlis. Mismunur þessi byggist á gömlum merg, sem og reglur um réttindi borgara til frelsis í samningum og viðskiptum, m.a. frelsis til að semja um leikreglur á vinnumarkaði með gerð kjarasamninga og ráðningarsamninga, sbr. 2. mgr. 75. gr. stjórnarskrárinnar.  Það væri því í andstöðu við ráðningarsamning stefnanda og stefnda að telja lög nr. 70/1996 gilda um þeirra samskipti, þar sem kaup og kjör eru byggð á viðkomandi kjarasamningi og sjómannalögum, sbr. 6. gr. sjómannalaga og 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launþega.

Mótmælt er fullyrðingum stefnanda um að hann hafi með beinum hætti, rýmkandi lögskýringu eða lögjöfnun öðlast stöðu trúnaðarmanns skv. lögum nr. 80/1938 með því að vera kosinn fulltrúi áhafnar við gerð fiskverðssamnings í samræmi við ákvæði. gr. 1.03. í kjarasamningi.  Um sölu á um það bil 5% afla skipsins til eigin vinnslu sé gerður samningur milli útgerðar og áhafnar einu sinni á ári, og hafi stefnandi verið fulltrúi áhafnar við samning um fiskverð fyrir árið 2001, en í samningnum sem gerður var 2002 hafi annar skipverji verið fulltrúi áhafnar.  Trúnaðarmaður í skilningi laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur sé trúnaðarmaður viðkomandi stéttarfélags sem tilnefndur sé af stéttarfélaginu, skv. 9. gr.  Uppsagnarvernd skv. 11. gr. laganna sé háð því skilyrði að um sé að ræða trúnaðarmann sem valinn hefur verið í samræmi við ákvæði  9.gr.

Ákvæði um lengd uppsagnarfrests og hvar skipverji fari úr skiprúmi við lok uppsagnarfrests séu í 9. og 10. gr. sjómannalaga.  Í 27. og 28. gr. séu ákvæði um kaupgreiðslur á ráðningartímanum og útreikning kaups.  Telji stefndi sig hafa í einu og öllu farið eftir framangreindum reglum og gert upp við stefnanda laun í uppsagnarfresti í samræmi við ákvæði kjarasamnings.  Eina frávikið gæti verið það að ágreiningur kom upp milli LÍÚ og stéttarfélaganna um frá hvaða tíma skyldi greiða dráttarvexti vegna leiðréttingar hlutar í samræmi við niðurstöðu Félagsdóms 11. júlí 2002 í máli nr. F-6/2002, svokölluðum rækjudómi.  Stefndi hafi farið að áliti og ráðleggingum LÍÚ til útgerða rækjuskipa varðandi þau uppgjör.  Því séum að ræða deilu milli stéttarfélaga og allra útgerða rækjuskipa, en ekki einungis milli stefnanda og stefnda.

Stefndi telur að uppsagnarfrestur samkvæmt sjómannalögum sé gagnkvæmur og ekki þurfi að gefa upp ástæður uppsagnar, virði aðilar tímalengd uppsagnarfrests.  Einungis sé gerð krafa til þess að tilgreina ástæður uppsagnar ef um er að ræða styttingu eða sviptingu uppsagnarfrests skv. 23. eða 24. gr. sjómannalaga.  Af því tilefni minnir stefndi á það að í sjómannalögum eru ákvæði um gagnkvæman rétt til þess að víkja frá ákvæðum 9. gr. um tímalengd uppsagnarfrests.

Þá segir stefndi að í 16.–22. gr. sjómannalaga séu sérstakar heimildir skipverja til að krefjast lausnar úr skiprúmi án þess að virða uppsagnarfrest samkvæmt 9. gr.  Óþarfi sé að rekja þær ástæður nánar, en slíkar heimildir séu einsdæmi í íslenskum lögum.  Hvorki almennir starfsmenn í landi né opinberir starfsmenn hafi viðlíka heimildir til að víkja til hliðar uppsagnarfresti.  Beri skipverji einhverja af framangreindum ástæðum fyrir sig verði hann að færa rök fyrir því að tilvik hans eigi við.  Að öðrum kosti geti hann orðið skaðabótaskyldur við útgerðina samkvæmt 60. gr. laganna. Í  23. – 24. gr. laganna séu heimildir skipstjóra til að víkja skipverja úr skiprúmi án þess að virða uppsagnarfrest hans samkvæmt 9. gr. laganna.    Beri skipstjóri einhverja af framangreindum ástæðum fyrir sig verði hann að færa sönnur á það að skipverji hafi brotið af sér þannig að hann hafi svipt sig rétti til uppsagnarfrests skv. 9. gr. laganna.  Að öðrum kosti geti útgerðin orðið skaðabótaskyld við skipverjann samkvæmt 25. gr. laganna.

Þá segir stefndi að vert sé að minna á ákvæði 72. gr. laganna, þar sem gefinn er kostur á fljótvirkri leið til að ná niðurstöðu í ágreiningsmálum um uppgjör eða ágreiningsmálum út af starfi skipverja.

Stefndi mótmælir sem ósönnuðum fullyrðingum í stefnu um að uppsögnin hafi leitt til röskunar á stöðu og högum, missi réttinda og erfiðleika við að fá aðra vinnu.  Eftir því sem næst verði komist hafi stefnandi strax um miðjan október 2002 farið sem stýrimaður á Röst SK-17 í um það bil hálfan mánuð og ráðist síðan í lok október á Björn RE-79 þar sem hann sé væntanlega enn. 

Stefndi segist ekki fá séð hvernig ákvæði 65. gr. stjórnarskrárinnar geti komið til skoðunar við úrlausn á lögmæti uppsagnar stefnanda. Umrætt ákvæði fjalli um jafnræði borgaranna í lagalegu tilliti. Ákvæðið nái ekki til einstakra ákvarðana sem einkaaðilar taka, og kannist stefndi ekki við að því hafi verið haldið fram af fræðimönnum, eða á því byggt í dómi, að hægt sé að beita ákvæðinu með þeim hætti. Stefndi fær ekki séð að lagaákvæði það sem veitir sjómönnum og útgerðarmönnum gagnkvæman rétt til uppsagnar, án skilyrða, þ.e. 9. gr. sjómannalaga, fari gegn ákvæðum 65. gr. stjórnarskrárinnar.

Varakrafa: Verði talið að stefnandi geti átt rétt til bóta úr hendi stefnda skv. 25. gr. sjómannalaga, er á því byggt af hálfu stefnda að útreikningur stefnanda á svokölluðum  meðalbótum sé ekki réttur, og gefi ekki rétta mynd af meðallaunum stefnanda er hann var í vinnu hjá stefnda. Til að finna út meðallaun á mánuði eða meðallaun á dag verði að reikna út meðaltekjur stefnanda á mánuði miðað við alla mánuði ársins að teknu tilliti til fría.  Stefnandi hafi stjórnað því sjálfur hvenær hann var um borð og hvenær í fríi.  Heildartekjur stefnanda fyrir 12 mánaða tímabil frá október 2001 til október 2002, bæði fyrir stýrimannsstarf og starf sem afleysingaskipstjóri hafi verið kr. 7.269.960.  Nái þetta tímabil yfir 12 mánuði eða 360 daga miðað við 28. gr. sjómannalaga, sem gef því kr. 605.830 í meðaltekjur á mánuði og kr. 20.194 á dag, að meðtöldum launum sem skipstjóri og öðrum greiðslum, svo sem fatapeningum, starfsaldursálagi, fæðispeningum og orlofi.

Kröfu stefnanda um greiðslu á 6% aukatillagi vegna lífeyrisréttinda er mótmælt, enda hafi hann ekki sýnt fram á að hann hafi glatað lífeyrisréttindum eða sýnt fram á það hvernig hann hafi eignast kröfu Lífeyrissjóðs sjómanna að þessu leyti. Þá kveður 25. gr. sjómannalaga aðeins á um rétt til bóta sem nema kaupi en ekki er kveðið á um að við kaup skuli bæta framlagi vinnuveitanda í lífeyrissjóð.

Kröfu stefnanda um dráttarvexti er mótmælt og telur stefndi að ekki séu forsendur til þess að dæma dráttarvexti fyrr en frá dómsuppkvaðningu verði fallist á einhverjar kröfur stefnanda.

Tilvísun til helstu lagaákvæða: Stefndi styður kröfur sínar við meginreglur samninga- og vinnuréttar og dómafordæmi varðandi uppsagnir starfsmanna.  Stefndi vísar jafnframt til kjarasamnings stýrimanna á fiskiskipum og 1., 9., 10., 16.-22., 23.-25., 27. og 72. gr. sjómannalaga nr. 35/1985, svo og 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launþega og 9. – 11. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur. Varðandi kröfu um dráttarvexti er vísað til vaxtalaga nr. 38/2001. Kröfu um málskostnað styður stefndi við XXI. kafla laga 91/1991 um meðferð einkamála.

Stefnandi gaf skýrslu fyrir dómi.  Hann sagðist hafa verið fulltrúi áhafnar samkv. kjarasamningi. Hann hefði verið kosinn leynilegri atkvæðagreiðslu. Það hefði verið eftir áramót 2001, í janúar. Enginn annar hefði síðar verið kjörinn fulltrúi áhafnar. Hann hefði því verið í þessari stöðu þegar honum var sagt upp. Alla tíð hefði verið til hans leitað sem slíks. Í upphafi hefði verið talað um að það vantaði trúnaðarmann um borð í skipinu. M.a. hefði skipstjórinn talað um það. Það hefði vantað mann til að vera milliliður milli áhafnar og útgerðar í sambandi við fiskverðið, en í framhaldi af því hefðu komið upp mál sem þurft hefði að tala um. Þá hefði hann gert það.

Stefnandi skýrði frá atvikum máls frá því að Sigurborg SH-12 fór í slipp á Akureyri síðast í apríl 2002 og þangað til honum var sagt upp störfum. Var frásögnin efnislega samhljóða atvikalýsingu stefnu. Fram kom hjá stefnanda að hann hefði í þeirri deilu sem upp kom um kauptryggingu skipverja verið fulltrúi áhafnar gagnvart útgerð skipsins.

Hann ítrekaði það sem fram kemur í stefnu að framkvæmdastjóri stefnda hefði sagt við sig þegar hann talaði við hann í síma, að þeir sem vitnuðu mikið í kjarasamninga hefðu ekki orðið langlífir hjá þessu fyrirtæki. Stefnandi kvaðst hafa hermt þessi orð upp á framkvæmdastjórann á fundi í borðsal skipsins, og framkvæmdastjórinn hefði jánkað því. Liðið hefðu 9 dagar frá þeim fundi þangað til skipstjórinn tilkynnti honum að honum væri sagt upp störfum.

Stefnandi kvaðst hafa verið yfirstýrimaður og afleysingaskipstjóri á Sigurborgu. Hann sagði að aldrei hefði verið sett út á störf sín. Hann kvaðst vera klár á því að ástæða uppsagnarinnar væri átök hans við útgerðina um kjör skipverja. Skipstjórinn hefði ekki rætt við sig um ástæður uppsagnarinnar, og hann hefði ekki spurt skipstjórann út í hana. 

Stefnandi sagði að Sigurborg hefði stundað veiðar með fiskitroll og rækjutroll. Meginuppistaðan í afla í tonnum talið hefði verið rækja. Hún hefði verið seld Fiskiðjusamlagi Húsavíkur í föstum viðskiptum samkvæmt samningi útgerðarinnar við samlagið. Ekki hefði verið gerður samningur við áhöfnina um þetta. Aðspurður sagði stefnandi að hann gæti trúað að stór þorskur, 70 sm á lengd og lengri og 4 kg á þyngd eða þyngri, hefði verið 5-10% af afla skipsins. Fiskverðssamningurinn í ársbyrjun 2001 hefði verið um slíkan fisk. Ekki hefði verið gerður neinn slíkur samningur 2002; skipstjórinn hefði bara komið og sagt: Þetta er verðið. Það hefði enginn annar en hann verið fulltrúi áhafnar 2002. Stefnandi sagði að menn væru bara ,,hræddir við þennan mann," og mun þar hafa átt við framkvæmdastjóra stefnda.

Eftir gerð fiskverðssamningsins 2001 hefði áhöfnin fengið minna fyrir 4ra kg fisk en hún hefði áður fengið. Hann gæti trúað að munað hefði hátt í 50%. Áhöfnin hefði fengið meira fyrir minni fiskinn, sem fór á markað, en hún fékk fyrir stærri fiskinn, 50% meira fyrir þann minni en þann stærri. Stefnandi var spurður af hverju áhöfnin hefði ekki mótmælt þessu. Svar: ,,Þá hefði bara þetta gerst sem gerðist hjá mér, gerst helmingi fyrr." Menn hefðu verið hræddir við útgerðarmanninn, ,,og eru það í dag".

Stefnandi kvaðst enn stunda sjó. Hann væri nú skipstjóri á sínum eigin báti, 25 tonna kvótalausum báti, sem hann hefði keypt sér, eftir að hann hefði lent í erfiðleikum með að fá starf. Eftir að hann hætti á Sigurborgu hefði hann leyst af í 15 daga á báti sem heitir Röst, frá Sauðárkróki. Eftir það hefði hann komist á bát sem heitir Björn RE, fyrir náð skipstjórans, sem hann kvaðst þekkja. Skipstjórinn hefði átt í erfiðleikum með að ráða hann vegna útgerðarmannsins, sem hefði viljað fá að vita út af hverju hann hefði verið rekinn af Sigurborginni. Á Birni hefði hann verið samtals í fjóra mánuði. Þá hefði hann farið í eigin rekstur.

Stefnandi var spurður hvort hann teldi sig hafa verið fulltrúa útgerðar eða áhafnar þegar hann hefði gegnt stöðu skipstjóra. Hann kvaðst telja sig þá vera fulltrúa útgerðar.

Stefnandi tók fram að hann hefði á engan hátt átt skilið að vera sagt upp störfum. Hann hefði unnið af heilindum og skilað góðu verki í alla staði.

Forsendur og niðurstöður

                Það er álit dómara að atvikalýsing stefnanda sé rétt eins og hún er skráð í stefnu, sbr. og skýrslu stefnanda fyrir dóminum. Af hálfu stefnda hefur lýsingu þessari ekki verið andmælt í einstökum atriðum. Af  hans hálfu var ekki gefin skýrsla fyrir dómi.

                Fallast má á það með stefnanda að uppsögn hans hafi verið ómálefnaleg og þáttur í þvingunaraðgerðum framkvæmdastjóra stefnda, til þess ætluðum að styrkja boðvald útgerðarinnar yfir áhöfn skipsins Sigurborgar til ákvörðunar um kaup og kjör, þ. á m. ákvörðunar um fiskverð.

                Stefnandi krefst bóta á grundvelli 25. gr. sjómannalaga nr. 35/1985. Í þeirri grein segir í 1. ml. 1. mgr.: ,,Ef skipverja er vikið úr skiprúmi áður en ráðningartími hans er liðinn og án þess að heimild sé til þess í 23. eða 24. gr. á hann rétt á kaupi þann tíma sem mælt er fyrir um í 9. gr."  Í nefndri 9. gr. er mælt fyrir um uppsagnarfresti skiprúmssamninga. Samkvæmt 2. mgr. greinarinnar skal uppsagnarfrestur yfirmanna vera þrír mánuðir, nema um annað hafi sérstaklega verið samið. Stefnandi var yfirmaður á skipinu Sigurborgu SH-12.

                Stefndi sagði stefnanda upp störfum með þriggja mánaða fyrirvara samkv. 2. mgr. 9. gr. sjómannalaga. Formlega var því réttilega að uppsögn stefnanda staðið. Honum var því ekki vikið úr skiprúmi áður en ráðningartími hans var liðinn. Þess vegna er stefnanda ekki, að áliti dómara, rétt að krefjast bóta úr hendi stefnda á grundvelli 25. gr. sjómannalaga. Þegar af þessari ástæðu koma ekki til álita önnur þau lagarök sem stefnandi beitir í þessu máli.

                Samkvæmt þessu verður það niðurstaða dómara í þessu máli að stefndi verður sýknaður af kröfum stefnanda.

                Rétt er að málskostnaður falli niður eins og atvikum máls er háttað.

                Mál þetta sótti Friðrik Á Hermannsson hdl. f.h. stefnanda, en Jón H. Magnússon hdl. hélt uppi vörnum fyrir stefnda.

                Dóm þennan kveður upp Finnur Torfi Hjörleifsson héraðsdómari.

D Ó M S O R Ð

Stefndi, Soffanías Cecilsson hf., á að vera sýkn af kröfum stefnanda, Hálfdanar Hjalta Hálfdanarsonar, í þessu máli.

Málskostnaður fellur niður.