Hæstiréttur íslands

Mál nr. 565/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
  • Frávísun frá Hæstarétti


                                                                                              

Miðvikudaginn 19. október 2011.

Nr. 565/2011.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Sigurður Freyr Sigurðsson fulltrúi)

gegn

X

(Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. A-liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Frávísun máls frá Hæstarétti.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert skylt að sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, og einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stæði. Eftir að málið barst Hæstarétti var rétturinn upplýstur um að rannsóknarhagsmunir krefðust þess ekki lengur að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi og væri hann því frjáls ferða sinna. Var hinum kærða úrskurði því vísað frá Hæstarétti, sbr. 4. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008. 

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Eiríkur Tómasson og Greta Baldursdóttir.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. október 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum síðar sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. október 2011, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 24. október sama ár klukkan 16 og einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili kærði úrskurðinn til Hæstaréttar við uppkvaðningu hans og lýsti því þá að tilgangur kæru væri að úrskurðurinn yrði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu yrði markaður skemmri tími.

Eftir að málið barst Hæstarétti sendi sóknaraðili réttinum bréf 18. október 2011 þar sem upplýst var að rannsóknarhagsmunir krefðust þess ekki lengur að varnaraðili sætti gæsluvarðhaldi. Væri hann því frjáls ferða sinna. Samkvæmt því er ljóst að það ástand, sem leitt hefur af hinum kærða úrskurði, er þegar um garð gengið. Skal málinu þá vísað frá Hæstarétti, sbr. 4. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.