Hæstiréttur íslands
Mál nr. 172/2013
Lykilorð
- Gæsluvarðhald
- Miskabætur
- Eigin sök
- Útivist
- Skriflegur málflutningur
|
|
Fimmtudaginn 13. júní 2013. |
|
Nr. 172/2013.
|
Íslenska ríkið (Guðrún Margrét Árnadóttir hrl.) gegn Karli Halldóri Hafsteinssyni (enginn) |
Gæsluvarðhald. Miskabætur. Eigin sök. Útivist. Skriflegur málflutningur.
K krafði Í um skaðabætur vegna gæsluvarðhalds sem hann taldi sig hafa sætt að ósekju frá 15. júní 2009 til 31. ágúst sama ár, í tengslum við rannsókn á broti gegn 1. mgr., sbr. 2. mgr. 164. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 um brennu. Með dómi héraðsdóms, sem ekki var áfrýjað, var K sýknaður af ákæru í málinu. Í niðurstöðu Hæstaréttar kom m.a. fram að framburður K hefði tekið miklum breytingum milli fyrstu og annarrar skýrslutöku hjá lögreglu, en hefði verið nokkurn veginn samhljóða upp frá því og þar til hann gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins. Hefði verið tilefni til að handtaka K, úrskurða hann í gæsluvarðhald og halda honum í gæslu til 15. júní 2009. Hæstiréttur féllst á með héraðsdómi að K ætti rétt á miskabótum fyrir að hafa sætt gæsluvarðhaldi eftir þann tíma. Þar sem K hefði með framferði sínu átt þátt í því að hann var úrskurðaður í gæsluvarðhald þóttu bætur til hans hæfilega ákveðnar 1.000.000 krónur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 15. mars 2013. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að krafan verði lækkuð og málskostnaður látinn niður falla.
Stefndi hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti. Samkvæmt 3. mgr. 158. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála ber að líta svo á að hann krefjist staðfestingar héraðsdóms. Áfrýjanda var með bréfi Hæstaréttar 10. maí 2013 veittur frestur til að ljúka gagnaöflun í málinu. Með vísan til fyrrgreinds lagaákvæðis er kveðinn upp dómur í málinu án munnlegs málflutnings.
Málsatvikum er lýst á greinargóðan hátt í hinum áfrýjaða dómi. Eins og þar kemur fram var stefndi handtekinn ásamt þremur öðrum að morgni 6. júní 2009 í námunda við húsið nr. [...] við [...] í [...] eftir að eldur hafði verið lagður að húsinu. Síðar sama dag var stefndi úrskurðaður í gæsluvarðhald, sakaður um brennu, og sat hann í gæsluvarðhaldi til 31. ágúst 2009 eftir að hann hafði verið sýknaður af ákæru um brot á 1. mgr., sbr. 2. mgr., 164. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með dómi héraðsdóms sem kveðinn var upp þann dag. Þeim dómi hefur ekki verið áfrýjað.
Af þessum sökum á stefndi rétt til bóta eftir fyrri málslið 2. mgr., sbr. 1. mgr., 228. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Þó má fella bæturnar niður eða lækka þær ef hann hefur valdið eða stuðlað að því að hann sætti gæsluvarðhaldi þann tíma sem að framan greinir, sbr. síðari málslið 2. mgr. sömu lagagreinar.
Meðan rannsókn málsins var á frumstigi gaf stefndi skýrslu hjá lögreglu 6., 10. og 12. júní 2009. Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi tók framburður stefnda miklum breytingum frá 6. til 10. júní, en var nokkurn veginn samhljóða upp frá því og þar til hann gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins. Það sem hann bar þá samrýmdist á hinn bóginn ekki fyllilega vitnisburði tveggja vitna sem stödd voru á vettvangi að morgni 6. júní 2009, svo sem gerð er grein fyrir í áðurnefndum dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 31. ágúst sama ár. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms er fallist á að tilefni hafi verið til að handtaka stefnda, úrskurða hann í gæsluvarðhald og halda honum í gæslu til 15. júní 2009, enda er kröfugerð hans reist á því að hann eigi rétt á bótum vegna þess að hann hafi sætt gæsluvarðhaldi að ósekju frá þeim tíma til 31. ágúst sama ár.
Samkvæmt þessu þarf að taka afstöðu til þess hvort dæma skuli áfrýjanda til að greiða stefnda bætur vegna þess að hann sat í gæsluvarðhaldi á tímabilinu frá 15. júní 2009 til 31. ágúst sama ár og þá hversu háar bæturnar skuli vera. Með vísan til forsendna héraðsdóms er staðfest sú niðurstaða að stefndi eigi rétt á miskabótum úr hendi áfrýjanda fyrir að sæta frelsisskerðingu í formi gæsluvarðhalds fyrrgreint tímabil, en hins vegar ekki bótum fyrir fjártjón. Vegna þess að stefndi átti þátt í því með áðurnefndu framferði sínu að gripið var til þessa úrræðis gagnvart honum og með skírskotun til heimildar 2. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 til að lækka af þeim sökum bætur samkvæmt málsgreininni þykja bætur til hans hæfilega ákveðnar 1.000.000 krónur, að viðbættum dráttarvöxtum eins og greinir í dómsorði.
Ákvæði hins áfrýjaða dóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað verða staðfest, en málskostnaður fyrir Hæstarétti dæmist ekki .
Dómsorð:
Áfrýjandi, íslenska ríkið, greiði stefnda, Karli Halldóri Hafsteinssyni, 1.000.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 28. apríl 2012 til greiðsludags.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað stefnda skulu vera óröskuð.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. desember 2012.
Mál þetta, sem dómtekið var 29. nóvember sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Karli Halldóri Hafsteinssyni, til heimilis að Hátúni 4, Reykjavík, gegn Íslenska ríkinu, með stefnu birtri 28. mars 2012.
Stefnandi gerir þá dómkröfu að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 1.875.000 kr. auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá því mánuður er liðinn frá birtingu stefnu þessarar til greiðsludags og að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað að mati réttarins, ásamt lögmæltum virðisaukaskatti, eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.
Stefndi gerir aðallega þær kröfu að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda en til vara að bótakrafa stefnanda verði lækkuð. Í báðum tilvikum krefst stefndi þess að stefnandi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað að mati réttarins
Málavextir
Að morgni laugardagsins 6. júní 2009 barst lögreglu tilkynning um að eldur hefði verið lagður að útidyrahurð einbýlishúss að [...], [...]. Stefnandi var handtekinn á vettvangi ásamt tveimur öðrum karlmönnum, þeim A, B og einni stúlku, C.
Vegna málsins var stefnandi þann 6. júní 2009 úrskurðaður í gæsluvarðhald, á grundvelli a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, til 15. sama mánaðar, en stefnandi samþykkti þessa kröfu lögreglustjórans um gæsluvarðhald. Þann 15. júní var stefnandi úrskurðarður í áframhaldandi gæsluvarðhald til 13. júlí 2009 á grundvelli 2. mgr. 95. gr. sömu laga. Á sama grundvelli var stefnandi úrskurðaður áfram í gæsluvarðhald frá 7.-28. ágúst. Stefnandi mótmælti kröfu lögreglustjórans um gæsluvarðhald í tveimur síðastnefndum tilvikunum og kærði úrskurði héraðsdóms til Hæstaréttar, sem staðfesti þá. Loks var stefnandi úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald frá 28.-31. ágúst.
Þann 10. júlí 2009 var gefin út ákæra á hendur stefnanda, A og B. Þar voru þeir ákærðir fyrir að hafa í umrætt sinn brotið gegn 1., sbr. 2. mgr. 164. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með því að hafa hellt bensíni úr bensínbrúsa á útidyrahurð íbúðarhússins, kveikt í bensíninu og valdið með því eldsvoða sem hafi haft í för með sér almannahættu. Einnig segir í ákæru að íbúi hússins, Þórður Sigurjónsson, hafi komist út um útidyrnar eftir að eldurinn kviknaði en mikið tjón hafi orðið á húsinu og innanstokksmunum.
Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur dagsettum 31. ágúst 2009 eru málsatvik rakin. Þar segir:
„Fyrir liggur að um klukkan hálfníu laugardagsmorguninn 6. júní sl. komu ákærðu í bíl, sem B ók, að [...]. Með ákærðu í bílnum var C, systir ákærða A og kærasta ákærða B. Var fólkið ýmist í áfengis- eða fíkniefnavímu. Á [...] býr D, fæddur [...], sem er kunningi föður þeirra systkinanna. Þar er lítið bárujárnsklætt timburhús á lítið niðurgröfnum steinkjallara, sagt vera byggt [...]. Á efri hæð hússins, íbúð D, eru einar dyr og liggja steinsteyptar tröppur upp að þeim. Gluggar eru á öllum hliðum hússins. Ákærðu fóru að húsinu og var þar knúið dyra með háreysti og skarkala. Eftir skamma stund var bensíni hellt á útidyrahurðina úr litlum plastbrúsa, sem tilheyrði sláttuvél þar á lóðinni, og kveikt í því. Gaus fyrst upp mikill blossi en þótt hann virtist hafa dáið út hafði eldinum þó slegið inn í húsið. Húsráðandinn, D sem var vakandi, opnaði þá dyrnar og komst út um þær á nærklæðunum en efri hæðin brann meira og minna að innanverðu. Er það ekki rétt sem segir í ákærunni að hann hafi komist út um hurðina enda var hún heil, en að vísu sviðin mjög. Lögregla kom skjótt á vettvang í tveimur bílum, enda hafði D hringt í lögregluna þegar komumenn fóru að berja utan hús hans. Var þá talsverður eldur í húsinu. Voru ákærðu handteknir við eða á lóðinni og einnig C, sem sat í bílnum. Fólkið var allt fært á lögreglustöðina og hafa ákærðu verið í haldi upp frá því. Slökkvilið kom einnig á vettvang og slökkti eldinn.“
Með dóminum var stefnandi sýknaður af ákærunni. Í niðurstöðu dómsins segir svo um þátt stefnanda:
„Ákærði neitar sök en kannast þó við að hafa farið á eftir þeim hinum upp að dyrum hjá D og að hafa barið þar tvisvar sinnum að dyrum. Hann kveðst svo hafa farið og sótt símann í bílinn fyrir meðákærða B og rétt honum hann fyrir neðan tröppurnar en ekki farið upp á þær aftur. Hafi hann svo farið aftur út að bílnum þegar B bað hann sækja kveikjara, en þá hafði hann áður séð meðákærða A hella bensíninu. Kveðst hann hafa spurt C hvort hún væri með kveikjara og þegar hún játti því, hafi hann sagt henni að fela hann. Er að skilja ákærða svo að hann hafi ekki farið frá bílnum að húsinu aftur. C hefur staðfest það að ákærði hafi komið að bílnum til hennar og spurt hana um kveikjara. Hins vegar segist hún þá hafa rétt honum kveikjara sem var í bílnum og hann svo farið í átt að húsinu aftur. Vitnið E hefur ekki borið neitt sérstakt um ákærða, einungis sagt að hann hafi séð þrjá menn á lóðinni við [...]. Aftur á móti hefur F sagt frá athæfi dökkhærðs og dökkklædds manns sem hann taldi líkjast ljósmyndunum af ákærða. Í yfirheyrslu hjá lögreglu sagði vitnið mann þennan hafa gengið í kring um húsið og komið með brúsa. Fyrir dómi hefur hann dregið úr þessu og sagst ekki geta fullyrt hvort þessi maður hafi komið með brúsann eða ekki. D hefur að sínu leyti sagt að hann hafi ekki séð þriðja manninn, þ. e. ákærða, fyrr en hann kom út úr húsinu.
Vafalaust er að ákærði tók þátt í aðförinni ásamt meðákærðu. Frásögn hans sjálfs er þó öll á þann veg að hann hafi haft sig minna í frammi á vettvangi en hinir tveir. Fær það nokkra stoð af því sem þeir bera, D, meðákærði A og F. Á það er einnig að líta að vitnið F hefur fyrir dómi dregið úr því sem hann sagði um ákærða hjá lögreglu og treystir sér ekki til þess að fullyrða að sá maður hafi sótt bensínbrúsann. Einnig verður að hafa í huga að bensín fannst hvorki á fatnaði né skóm ákærða. Ákærða og C ber saman um það að hann hafi komið að bílnum til hennar og spurt hana um kveikjara en um framhaldið ber þeim ekki að öllu leyti saman. Ekki er óhætt að líta alveg fram hjá tengslum hennar við ákærðu A og B þegar framburður hennar er metinn. Þá verður að hafa í huga að sá síðarnefndi hefur sagt fyrir dómi að hann hafi sjálfur verið með kveikjara á sér, þótt hann að vísu segði annað hjá lögreglu. Loks hefur ákærði sagt meðákærðu hafa fljótlega komið að bílnum á eftir sér og hann séð eldinn skömmu seinna. Þótt C segi ákærða hafa farið frá bílnum í átt að húsinu hnekkir það ekki þeirri staðhæfingu hans að hann hafi ekki farið að húsinu aftur. Samkvæmt þessu þykir dóminum það varhugavert að telja það sannað að ákærði hafi verið í ráðum eða gerðum með meðákærðu þegar þeir kveiktu í húsinu og ber því að sýkna hann af ákærunni.“
Við rannsókn málsins gaf stefnandi fjórum sinnum skýrslu hjá lögreglu. Í fyrirliggjandi samantekt af framburði stefnanda hjá lögreglu þann 6. júní 2009 er bókað eftir stefnanda að hann hafi fengið far með B, A og kærustu B, frá skemmtistaðnum [...] í [...]. Hann hafi sofnaði í bifreiðinni skömmu eftir að lagt var af stað og þegar hann hafi vaknaði hafi þau verið fyrir utan eitthvert hús á [...]. Hann hafi þá farið út úr bifreiðinni til B og A sem hafi verið fyrir utan bifreiðina ásamt húsráðanda og mikið rifrildi hafi verið í gangi en hann ekki heyrt um hvað. Allir hafi svo farið aftur inn í bifreiðina og þá hafi hann séð eld neðst á hurðinni og þá farið aftur út úr bifreiðinni og ætlað að slökkva eldinn en einhver hafi tekið slökkvitækið af honum. Aðspurður kvaðst stefnandi minnst þess að hafa séð bensínbrúsa við húsið en ekki hafa tekið brúsann. Einnig er bókað í samantektinni að undir lok skýrslutökunnar hafi stefnandi minnst á að þegar B og A rifust við húsráðandann hafi hann spurt „af hverju voruð þið að kveikja í húsinu mínu?“. Stefnandi kvaðst halda að B hafi þá sagt „þú áttir það skilið“. Í lok samantektarinnar segir að stefnandi virðist eingöngu muna vel það sem hann var ekki spurður um og hann hafi verið samhengislaus í frásögn auk þess sem frásögn hans hafi ekki verið í samræmi við frásagnir annarra í málinu.
Í samantekt vegna skýrslu sem tekin var af stefnanda þann 10. júní 2009 er bókað eftir stefnanda að hann hafi sagt ástæðu þess að hann hafi farið heim til D, á [...], þá að bróðir hans hafi skuldað manni peninga og B hafi keypt þá skuld og hann hafi þurft að koma með B út af skuldinni. Hann sagði þá hafa farið heim til D til að fá upplýsingar um heimilisfang og símanúmer hjá einhverjum G í [...] og hafi það verið ótengt skuldamáli bróður hans.
Síðan er bókuð eftirfarandi lýsing stefnanda á atburðarásinni:
„Þegar þeir komu að húsinu heima hjá D, hafi B farið fyrstur út úr bílnum, A strax á eftir, og hann skömmu síðar, þeir allir staðið á tröppunum og þeir B og A að banka á dyrnar.
B segir honum að fara og reyna að finna einhverja hluti til að brjóta rúðu. B m.a. beðið hann að rétta honum felgu sem var þarna skammt frá sem hann gerir. Segir að sér lítist ekki á það sem er að gerast og fer að bílnum og talar við C og segir við hana að þetta sé að snúast upp í algera vitleysu hann viti ekki hvað hann eigi að gera. Heyrir að það eru komin meiri læti og fer aftur að dyrunum, A gengur þá framhjá honum og Karl sér að hann heldur á einhverju í vinstri hendi, hvort það sé þessi bensínbrúsi,A labbar upp stigann og byrjar a hella bensíni á hurðina og sér þá að búið er að missa stjórn á þessu öllu saman.
B sem stendur við hliðina á A segir við Karl að fara út í bíl og finna kveikjara, hann segir nei við því en fer aftur að bílnum og segir C að ef einhverjir kveikjarar eru í bílnum þá fela þá.
Nokkrum sekúndum seinna koma þeir B og A og þeir fara allir upp í bílinn og B keyrir af stað.
Hann lítur síðan til hægri og B gerir það líka, hann sér þá lítinn eld neðst í hurðinni og maður kemur þar út.
B stoppar rýkur út og fer að rífast við manninn. A gerir það líka. Karl fer að leita af slökkvitæki í bílnum og finnur það og fer með að dyrum, þar er það rifið af honum.
B segir honum þarna að pilla sig í burtu sem hann gerir.
Í þessu kemur lögreglan.“
Aðspurður kvaðst hann hafa séð A hella bensíni á hurðina en ekki hafa séð hver kveikti í.
Stefnandi gaf aftur skýrslu vegna málsins þann 12. júní og var framburður hans þá að mestu í samræmi við framburð hans 10. júní. Að ósk stefnanda var tekin skýrsla af honum á ný þann 26. júní 2009. Sagði stefnandi þá að A hefði sagt honum þegar þeir hittust eftir að einangrun var aflétt í gæsluvarðhaldinu að það hefði verið hann sem kveikti í ásamt því að hella bensíninu. Stefnandi sagði ástæðu þess að hann hefði ekki sagt frá þessu fyrr vera þá að hann hefði ekki þorað það þar sem en hann hefði verið í fangaklefa með A. Hann sagði að sér hefði verið hótað því að hann yrði myrtur ef hann segði ekki að hann hefði kveikt í og nú væri nóg komið af hótunum sem hann telur að stafi frá B.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Við yfirheyrslu hjá lögreglu neitaði stefnandi að hafa borið eld að húsinu, en þrátt fyrir neitun hans var hann úrskurðaður í gæsluvarðhald sem hann sat í frá 6. júní 2009 til 31. ágúst 2009 eða í 89 daga. Að lokinni lögreglurannsókn, þann 10. júlí 2009, var gefin út ákæra á hendur stefnanda og tveimur öðrum karlmönnum, A og B, þar sem þeim var m.a. gefið að sök að hafa staðið að íkveikjunni. Fyrir dómi neitaði stefnandi sök og eftir aðalmeðferð málsins þann 31. júlí 2009 og framhald aðalmeðferðar þann 27. ágúst 2009 var dómur kveðinn upp þann 31. ágúst 2009. Með dóminum var stefnandi sýknaður, en hinir tveir voru sakfelldir. Þann sama dag var stefnandi leystur úr gæsluvarðhaldi.
Þegar fyrsta gæsluvarðhaldskrafan var tekin fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 6. júní 2009 gaf stefnandi mjög ítarlega skýrslu um málið og til að aðstoða lögregluna samþykkti hann gæsluvarðhaldskröfuna. Vildi stefnandi þannig leggja sitt af mörkum til þess að málið upplýstist sem fyrst. Í réttarhaldinu var stefnandi úrskurðaður í gæsluvarðhald til 15. júní 2009. Þann dag lagði lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu fram nýja beiðni, sem stefnandi mótmælti, en héraðsdómur féllst á og var stefnandi úrskurðaður í gæsluvarðhald til 13. júlí 2009. Stefnandi kærði úrskurðinn til Hæstaréttar, sem staðfesti úrskurð héraðsdóms. Þann 10. júlí 2009 lagði ríkissaksóknari enn fram kröfu um gæsluvarðhald yfir stefnanda sem var úrskurðaður í gæsluvarðhald til 7. ágúst 2009. Stefnandi kærði þann úrskurð til Hæstaréttar sem staðfesti hann með dómi þann 14. júlí 2009. Þá var stefnandi að lokum, í héraðsdómi, úrskurðaður í gæsluvarðhald þangað til dómur féll í máli hans, sem var þann 31. ágúst 2009. Sat stefnandi í gæsluvarðhaldi til þess tíma. Í ljósi afstöðu Hæstaréttar til fyrri gæsluvarðhaldsúrskurða og til þess hve stutt var í að dómur yrði kveðinn upp kærði stefnandi ekki síðasta gæsluvarðhaldsúrskurðinn.
Stefnandi, sem er fjölskyldumaður, vann hjá fyrirtækinu [...] ehf. þegar hann var handtekinn en vegna gæsluvarðhaldsins gat hann að sjálfsögðu ekki sinnt því starfi og varð að hætta og átti ekki afturkvæmt þangað. Á meðan stefnandi gisti fangelsið á Litla-Hrauni bárust honum hótanir frá nokkrum einstaklingum tengdum meðákærðu, sem þar gistu, þar sem stefnandi strax í upphafi málsins lýsti fyrir lögreglu málavöxtum og þætti hvers og eins í málinu.
Frá upphafi málsins, sem hófst með handtöku stefnanda og fleiri aðila á vettvangi brunans þann 6. júní 2009, hefur stefnandi haldið fram sakleysi sínu og sem síðan var staðfest með sýknudómi Héraðsdóms Reykjavíkur þann 31. ágúst 2009. Taldi dómarinn, að teknu tilliti til framburðar hans, framburðar meðákærðu og til sönnunargagna, varhugavert að telja það sannað að stefnandi hefði verið í ráðum eða gerðum með meðákærðu þegar þeir kveiktu í húsinu.
Stefnandi telur, að teknu tilliti til sýknudómsins og framburðar hans frá upphafi, að hann hafi að ósekju verið úrskurðaður í gæsluvarðhald frá 15. júní 2009 til 31. ágúst 2009. Vegna þessa eigi hann rétt til bóta vegna ólögmælts gæsluvarðhalds úr hendi ríkissjóðs. Vera hans í fangelsi þennan tíma hafi raskað lífi hans allverulega og bakað honum tjón og miska. Gerir stefnandi því þá dómkröfu á hendur stefnda að hann greiði sér samtals 1.875.000 kr. í miskabætur. Stefnukröfu sína sundurliðar stefnandi þannig: 25.000 kr. fyrir hvern dag í gæsluvarðhaldi, sem varði í alls 78 daga eða samtals 1.875.000 kr.
Stefnandi telur dómkröfu mjög í hóf stillt og að hinum virðulega rétti beri, með vísan til framangreinds sýknudóms, að fallast á kröfu stefnanda.
Með gjafsóknarleyfi, dagsettu 16. október 2009 var stefnanda veitt gjafsókn til reksturs máls þessa.
Til stuðnings kröfum sínum vísar stefnandi til 5. mgr. 67. gr. og 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og XXXVII. kafla laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Þá er byggt á 5. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.
Málsástæður og lagarök stefnda
Í dómsmáli þessu reynir fyrst og fremst á bótaábyrgð stefnda á grundvelli 228. gr. laga nr. 88/2008. Í 1. mgr. lagaákvæðisins segir að maður sem borinn hefur verið sökum í sakamáli eigi rétt til bóta ef hann hefur verið sýknaður með endanlegum dómi án þess að það hafi verið gert vegna þess að hann væri talinn ósakhæfur. Í 2. mgr. sömu laga segir hins vegar að lækka megi bætur eða fella þær niður ef sakborningur hefur valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisir kröfur sínar á. Í dómsmáli þessu reynir fyrst og fremst á túlkun 2. mgr. 228. gr. laganna enda byggir stefndi sýknukröfu sína á því að efnisatriði málsgreinarinnar eigi við um bótakröfu stefnanda.
Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. S-767/2009, sem kveðinn var upp þann 31. ágúst 2009, var stefnandi sýknaður af ákæru saksóknara í málinu. Á bls. 24-25 í dóminum er fjallað ítarlega um aðkomu stefnanda að málinu. Í annarri málsgrein fyrir miðri blaðsíðu 25 segir dómarinn:
„Vafalaust er að ákærði [stefnandi] tók þátt í aðförinni ásamt meðákærðu. Frásögn hans sjálfs er þó öll á þann veg að hann hafi haft sig minna í frammi á vettvangi en hinir tveir. Fær það nokkra stoð af því sem þeir bera, D, meðákærði A og F.“
Í niðurstöðu héraðsdómarans á bls. 21, fyrir neðan miðju segir orðrétt:
„Hver sem raunveruleg undirrót fararinnar hefur annars verið álítur dómurinn aðför ákærðu að húsinu með barsmíð og hrópum benda til þess að fyrir þeim hafi vakað að taka hús á D og hrella hann eða gera honum mein. Að D skyldi hringja í lögregluna bendir einnig til þess að hann hafi ekki átt von á góðu frá ákærðu, þótt hann sýnist nú vilja gera lítið úr öllu. Þykir mega slá því föstu að þessi hafi verið tilgangur ákærðu með förinni.“
Dómarinn taldi hins vegar, sbr. neðst á bls. 25, „það varhugavert að telja það sannað að ákærði hafi verið í ráðum eða gerðum með meðákærðu þegar þeir kveiktu í húsinu og ber því að sýkna hann [stefnanda] af ákærunni.“
Samkvæmt niðurstöðu héraðsdómarans vissi stefnandi hver tilgangur fararinnar var en slóst engu að síður í för með hópnum. Á vettvangi tók hann beinan þátt í aðförinni m.a. með því að brjóta rúðu í húsinu. Stefnandi var eðlilega, samkvæmt niðurstöðu héraðsdóms og Hæstaréttar, undir rökstuddum grun um brot gegn 164. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og nauðsyn bar því til að hann sætti gæsluvarðhaldi vegna rannsóknarhagsmuna. Með þessari háttsemi sinni telst hann hafa stuðlað að því að lögreglan handtók hann á vettvangi, taldi hann eiga þátt í brennubrotinu, og gerði kröfu um að hann sætti gæsluvarðhaldi.
Í ljósi framangreinds krefst stefndi aðallega sýknu af kröfum stefnanda en til vara að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar.
Stefnufjárhæð stefnanda er sérstaklega mótmælt sem of hárri og órökstuddri.
Niðurstaða
Í máli þessu gerir stefnandi þá kröfu að stefndi, íslenska ríkið, verði dæmt til að greiða honum bætur vegna ólögmæts gæsluvarðhalds. Stefnandi byggir á því að hann hafi strax eftir að hann var handtekinn skýrt frá sakleysi sínu og greint skilmerkilega frá þætti hvers og eins í málinu.
Samkvæmt 228. gr. laga nr. 88/2008 á maður sem borinn hefur verið sökum í sakamáli rétt til bóta ef hann hefur verið sýknaður með endanlegum dómi án þess að það hafi verið gert vegna þess að hann hafi verið talinn ósakhæfur. Þó má fella niður bætur eða lækka þær ef sakborningur hefur valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisir kröfu sína á. Með sömu skilyrðum verður þeim sem sætt hefur gæsluvarðhaldi vegna rannsóknar máls dæmdar bætur.
Stefnandi var í gæsluvarðhaldi þar til hann var sýknaður með dómi héraðsdóms þann 31. ágúst 2009.
Stefndi byggir kröfur sínar á því að stefnandi hafi stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisir bótakröfu sína á og vísar því til stuðnings til niðurstöðu héraðsdóms í máli nr. S-767/2009 eins og rakið er hér að framan. Telur stefndi með hliðsjón af því sem fram kemur í niðurstöðu héraðsdóms að stefnandi hafi vitað hver tilgangurinn hafi verið með því að fara að [...] en hafi engu að síður slegist í för með hópnum og þegar þangað var komið tekið beinan þátt í aðförinni m.a. með því að brjóta rúðu í húsinu. Stefnandi hafi því eðlilega verið undir rökstuddum grun um að hafa framið brennubrotið.
Af dómi héraðsdóms frá 31. ágúst 2009 má ráða að dómarinn telur að vafalaust sé að stefnandi hafi átt þátt í aðförinni ásamt meðákærðu en varhugavert sé að telja það sannað að ákærði hafi verið með í ráðum eða gerðum meðákærðu þegar þeir kveiktu í húsinu og því hafi borið að sýkna hann af ákærunni.
Stefnandi var handtekinn á vettvangi brotsins og í kjölfar þess úrskurðaður í gæsluvarðhald. Þá var uppi rökstuddur grunur um að hann hefði í félagi við aðra framið brot gegn 164. gr. almennra hegningarlaga en brot gegn ákvæðinu getur varðað allt að tveggja ára fangelsi. Rannsókn málsins var þá á frumstigi og enn var eftir að fá þá heildarmynd af atvikum sem síðar kom í ljós. Stefnandi gaf skýrslu hjá lögreglu 6., 10. og 12. júní 2009 eins og rakið hefur verið. Framburður stefnanda tók miklum breytingum frá því að hann gaf skýrslu þann 6. júní og þar til hann gaf skýrslu þann 10. júní, en neitaði þó ávallt sök. Framburður stefnanda var í meginatriðum samhljóða frá því að hann gaf skýrsluna hjá lögreglu þann 10. júní 2009 og þar til að hann gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins. Með hliðsjón af ofangreindu verður að telja að fullnægjandi rök hafi verið til að handtaka stefnanda og úrskurða hann í gæsluvarðhald í upphafi rannsóknarinnar, sbr. a-lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum var þann 15. júní 2009 kominn fram allur framburður um athafnir stefnanda á vettvangi sem fyrir lá þegar ákært var í málinu og fram kom við aðalmeðferð fyrir utan það að F, sem var vitni að einhverjum hluta atburðarásarinnar, dró til baka framburð sinn gagnvart stefnanda við aðalmeðferð málsins. Í skýrslu þann 15. júní hafði hann bent á stefnanda á mynd sem þann aðila sem hafi farið í kringum húsið og komið með bensínbrúsa til baka. Hann bar þó jafnframt að hann hefði ekki séð hver hellti úr brúsanum. Í skýrslu sinni við aðalmeðferð málsins gat hann ekki fullyrt að það hafi verið stefnandi sem kom með brúsann. Hann sagði mennina hafa verið það langt í burtu að hann hafi ekki greint andlitsdrætti. Einnig var þá að mestu kominn fram framburður sem leiddi til þess að A og B voru sakfelldir fyrir brotið.
Þegar gögn málsins eru virt og þá sérstaklega fyrirliggjandi framburður verður að líta svo á að stefnandi hafi sætt gæsluvarðhaldi lengur en efni stóðu til sem sé í andstöðu við þá meginreglu sem fram kemur í 3. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar að maður skuli aldrei sæta gæsluvarðhaldi lengur en nauðsyn krefur. Á stefnandi því rétt til bóta með vísan til 1., sbr. 2. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008.
Af hálfu stefnanda er þess krafist að honum verði dæmdar bætur að fjárhæð 1.875.000 kr. Rökstyður stefnandi fjárhæðina svo að hann gerir kröfu um 25.000 kr. fyrir hvern dag sem hann var í gæsluvarðhaldi utan 6.-15. júní en þá sat hann í gæsluvarðhaldi eftir að hafa samþykkt kröfu lögreglu um gæsluvarðhald.
Samkvæmt 5. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 skal bæta fjártjón og miska samkvæmt ákvæðinu. Stefnandi byggir á því að lífi hans hafi verið raskað allverulega með gæsluvarðhaldinu sem hafi bakað honum tjón og miska. Hann hafi ekki getað sinnt vinnu meðan á gæsluvarðhaldinu stóð og tapað vinnunni vegna þess. Ekki hafa verið lögð fram nein gögn sem sýna fram á fjárhæð þess tjóns sem hann varð fyrir af þessum sökum.
Í skýrslu sinni við aðalmeðferð málsins lýsti stefnandi því að gæsluvarðhaldið hefði haft gríðarleg áhrif, hann hefði ekki getað sofið, hefði fengið martraðir, misst vinnuna og misst bifreið vegna bílaláns sem hann hafi ekki getað greitt. Þá hafi hann vegna þess enn í dag ekki fengið aðra vinnu en hjá móður sinni. Að mati dómarans liggja engin gögn fyrir sem gera það kleift að greina á milli afleiðinga þess tímabils sem stefnandi sat í gæsluvarðhaldi á grundvelli rannsóknarhagsmuna og þess tímabils sem síðan tók við og varaði fram til 31. ágúst 2009. Verður því ekki á þessu byggt við ákvörðun um fjárhæð bóta.
Stefnandi var handtekinn, úrskurðaður í gæsluvarðhald, ákærður og síðan sýknaður með dómi héraðsdóms. Í ljósi atvika og þess þáttar sem stefnandi átti sjálfur í þeim aðgerðum sem lögregla greip til gagnvart honum þykja bæturnar vera hæfilega ákvarðaðar 1.300.000 kr. auk dráttarvaxta eins og greinir í dómsorði.
Stefnandi hefur fengið gjafsóknarleyfi og greiðist allur málskostnaður hans, sem er þóknun lögmanns stefnanda, Brynjólfs Eyvindssonar hdl., að meðtöldum virðisaukaskatti, 600.000 kr., úr ríkissjóði.
Málskostnaður á milli aðila fellur niður.
Sigríður Elsa Kjartansdóttir, settur héraðsdómari, kvað upp dóminn.
D Ó M S O R Ð
Stefndi, íslenska ríkið, greiði stefnanda, Karli Halldóri Hafsteinssyni, 1.300.000 kr., auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 28. apríl 2012 til greiðsludags.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda, 600.000 kr., sem er málflutningsþóknun lögmanns hans, greiðist úr ríkissjóði.
Málskostnaður fellur niður.