Hæstiréttur íslands
Mál nr. 827/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Nauðungarvistun
|
|
Þriðjudaginn 15. desember 2015. |
|
Nr. 827/2015.
|
A (Auður Björg Jónsdóttir hrl.) gegn Velferðarsviði Reykjavíkurborgar (Kristbjörg Stephensen hrl.) |
Kærumál. Nauðungarvistun.
Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um nauðungarvistun A á sjúkrahúsi, sem ákveðin hafði verið af innanríkisráðuneytinu.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 3. desember 2015 en kærumálsgögn bárust réttinum 10. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. desember 2015 þar sem synjað var kröfu sóknaraðila um að felld yrði úr gildi ákvörðun innanríkisráðuneytisins 26. nóvember sama ár um nauðungarvistun sóknaraðila á sjúkrahúsi. Kæruheimild er í 4. mgr. 31. gr., sbr. 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess að ákvörðun innanríkisráðuneytisins verði felld úr gildi og þóknun skipaðs talsmanns hennar vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti greidd úr ríkissjóði.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist úr ríkissjóði þóknun talsmanns sóknaraðila vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Þóknun talsmanns sóknaraðila, Auðar Bjargar Jónsdóttur hæstaréttarlögmanns, 124.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. desember 2015.
Með kröfu, sem dagsett er 27. f.m. og þingfest var í dag, hefur A, kt. [...], til lögheimilis í [...], Reykjavík, en dveljandi á geðdeild Landspítalans við Hringbraut, Reykjavík, krafist þess að felld verði úr gildi ákvörðun innanríkisráðuneytisins 26. f.m. um það hún skuli vistast á sjúkrahúsi.
Kröfunni er mótmælt af hálfu varnaraðila, velferðarsviðs Reykjavíkurborgar.
Um aðild vísast til 20. gr., sbr. a-lið 2. mgr. 7. gr. lögræðislaga nr. 71, 1997.
Fyrir liggur í málinu álit tveggja geðlækna, þeirra B og C. Að áliti B er A ófær um að ráða högum sínum þar sem hún sé án alls vafa haldin alvarlegum geðsjúkdómi, geðhvarfasýki. Sé hún haldin vaxandi örlyndi, svefn- og atferlistruflunum og með einkenni geðrofs. Sé hún óútreiknanleg og valdi ekki samskiptum við aðra. Fái hún ekki meðferð við sjúkdóminum sé heilsu hennar stefnt í voða og því sé nauðungarvistun óhjákvæmileg. C segir hana vera haldna geðhvarfasýki og í mikilli maníu. Hún hafi þó ekki sýnt merki um geðrof upp á síðkastið. Hún hafi lítið innsæi í sjúkdóminn en samþykki þó að taka lyf við honum. Hún þoli illa áreiti og mikilvægur hluti að meðferð við maníu sé að verja sjúklinginn fyrir áreiti. Verði slíkt ekki gert nema með dvöl á geðdeild og meðferð á heimili viðkomandi sé því ófullnægjandi. Nauðsynlegt sé að vinna bug á maníunni enda geti mikil og langvarandi manía verið hættuleg. Vist á geðdeild sé þannig algerlega nauðsynleg.
Dómurinn álítur að það sé nægilega í ljós leitt með áliti læknanna að brýna nauðsyn beri til þess að sóknaraðili dvelji um sinn á sjúkrahúsi og fái þar nauðsynlega læknishjálp við alvarlegum geðsjúkdómi. Ber því, með vísan til 3. mgr. 19. gr. lögræðislaga, að synja kröfu sóknaraðila.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga ber að greiða úr ríkissjóði þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila, Auðar Jónsdóttur hdl., 75.000 krónur. Þóknun talsmannsins er ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti.
Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp þennan úrskurð.
Úrskurðarorð:
Synjað er kröfu sóknaraðila, A, kt. [...], til lögheimilis í [...], Reykjavík, en dveljandi á geðdeild Landspítalans við Hringbraut, Reykjavík, um það að felld verði úr gildi sú ákvörðun innanríkisráðuneytisins, 27. nóvember 2015, að hún skuli vistast á sjúkrahúsi.
Þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila, Auðar Jónsdóttur hdl., 75.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.