Hæstiréttur íslands

Mál nr. 145/2005


Lykilorð

  • Manndráp af gáleysi
  • Ökuréttarsvipting


Fimmtudaginn 20

 

Fimmtudaginn 20. október 2005.

Nr. 145/2005.

Ákæruvaldið

(Helgi Magnús Gunnarsson saksóknari)

gegn

Þórði Gunnari Þorvaldssyni

(Helgi Jóhannesson hrl.)

 

Manndráp af gáleysi. Ökuréttarsvipting.

Þ var sakfelldur fyrir manndráp af gáleysi með því að hafa bakkað bifreið út af bifreiðastæði án nægjanlegrar aðgæslu og tillitssemi út á gangstétt, með þeim afleiðingum að gangandi vegfarandi féll í götuna og lést af áverkum er hún hlaut á höfði. Var refsing Þ ákveðin fangelsi í 30 daga en fullnustu refsingar frestað. Þá var hann sviptur ökurétti í sex mánuði.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Garðar Gíslason og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 23. mars 2005 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar héraðsdóms á sakfellingu og ökuréttarsviptingu, en þyngingar á refsingu.

Ákærði krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins, en til vara að refsing verði felld niður. Að því frágengnu krefst hann þess að refsing verði milduð.

Ákærði hefur unnið sér til ökuréttarsviptingar samkvæmt 1. mgr. 101. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með áorðnum breytingum, sem er hæfilega ákveðin í 6 mánuði. Að öðru leyti verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur með vísan til forsendna hans.

Ákærði greiði allan sakarkostnað málsins í héraði og fyrir Hæstarétti samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara yfir sakarkostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákvæði héraðsdóms um refsingu ákærða, Þórðar Gunnars Þorvaldssonar, skal vera óraskað.

Ákærði er sviptur ökurétti í 6 mánuði.

Ákærði greiði allan sakarkostnað málsins í héraði og fyrir Hæstarétti, 581.927 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns í héraði, Eiríks Elís Þorlákssonar héraðsdómslögmanns, 211.650 krónur, og skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Helga Jóhannessonar hæstaréttarlögmanns, 186.750 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 28. febrúar 2005.

Mál þetta var höfðað með ákæru lögreglustjórans í Reykjavík, dagsettri 9. nóvember sl., á hendur Þórði Gunnari Þorvaldssyni, kt. 210985-2129, Nesvegi 41, Reykjavík ,,fyrir hegningar- og umferðarlagabrot með því að hafa, miðvikudaginn 26. maí 2004, á leið af bifreiðastæði við Spítalastíg 2b í Reykjavík, ekið bifreiðinni OD-959 án nægjanlegrar aðgæslu og tillitssemi aftur á bak út á gangstéttina með þeim afleiðingum að gangandi vegfarandi, sem ákærða bar að veita forgang, A, fædd 1. maí 1915, varð fyrir bifreiðinni þar á gangstéttinni, féll í götuna og hlaut við það svo mikla höfuðáverka að hún lést nokkrum klukkustundum síðar.

Telst þetta varða við 215. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 1. mgr. 4. gr., 1. mgr. 17. gr. og 2. mgr. 26. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til sviptingar ökuréttar samkvæmt 101. gr. umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993.”

Ákærði krefst sýknu af kröfum ákæruvaldsins, en til vara að refsing verði felld niður. Til þrautavara krefst ákærði þess að honum verði gerð vægasta refsing sem lög leyfa.

Þá krefst verjandi ákærða þess að sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, greiðist úr ríkissjóði.

Málsatvik.

Samkvæmt frumskýrslu lögreglunnar í Reykjavík, 26. maí 2004, var tilkynnt um umferðarslys við Spítalastíg 2b, þar sem ekið hafði verið á gangandi vegfaranda, A. Samkvæmt skýrslunni hafi bifreið ákærða verið ekið aftur á bak úr bifreiðastæði sem er sunnan gangstéttar milli Spítalastígs 2b og 4. Hafði hægra afturhorn bifreiðarinnar lent á A, sem hafði gengið til vesturs eftir gangstétt og hafði hún fallið við það út á götuna. A var meðvitundarlaus er lögregla kom að og blæddi úr vitum hennar og hnakka. Hún var flutt með sjúkrabifreið á slysadeild Landspítalans í Fossvogi.

Í skýrslu lögreglu kemur fram að ekki hafi verið sjáanlegar skemmdir á bifreiðinni, en ryk og óhreinindi strokin af hægra afturhorni bifreiðarinnar. Teknar voru ljósmyndir af bifreiðinni og vettvangi og uppdráttur gerður af vettvangi. Liggja ljósmyndirnar og uppdrátturinn frammi í málinu. Samkvæmt uppdrættinum og ljósmyndunum hvíldu fætur A við eða á gangstéttinni er lögregla kom að, en höfuð hennar á götunni.

Samkvæmt krufningarskýrslu Þóru S. Steffensen, réttarmeinafræðings, lést A á gjörgæsludeild Landspítala Fossvogi, 5 klukkustundum eftir slysið. Tölvusneiðmynd sýndi brot á höfuðkúpubotni og hnakkabeini og mikla blæðingu milli heila og heilahimna. Í krufningarskýrslu kemur fram að dánarorsök hafi verið höfuðáverkar og dánaratvik slys. Gerð var leit að etanóli í blóði hennar ásamt lyfjaleit, en hvorugt fannst í þvagi hennar eða blóði í mælanlegu magni.

Verður nú rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dómi.

Ákærði kvaðst hafa verið að sækja einkunnir sínar í Menntaskólann í Reykjavík í maí sl. og hafi þrír félagar hans, þau B, C og D verið með ákærða. Ákærði kvað þau öll vera mjög góða vini og hafi verið saman í skóla frá því í Hagaskóla.

Ákærði hafi veitt eftirtekt tveimur konum með barnavagna er hann gekk í átt að bifreið sinni, sem hann hafði lagt við Spítalastíg. Aðra vegfarendur hafi hann ekki séð. Hann hafi setið í bifreiðinni einhverja stund og spjallað við félaga sína áður en hann hafi gangsett bifreiðina. Þá hafi hann litið í baksýnis- og hliðarspegla og bakkað mjög hægt inn á gangstéttina. Hafi þá B hrópað: ,,Doddi þú keyrðir á konu.” Ákærði kvað ekki mögulegt að C, sem sat í aftursæti bifreiðarinnar, hafi byrgt honum sýn út um afturrúðu bifreiðarinnar, þar sem C hafi verið að lesa blað og verið niðurlútur við lesturinn. Ákærði hafi farið út úr bifreiðinni ásamt félögum sínum og hlúð að konunni, sem legið hafi með neðri hluta líkamans á gangstéttinni, en efri hluti líkamans hafi hvílt á götunni. Þá hafi konurnar tvær sem hann hafði áður séð með barnavagnana, einnig aðstoðað við að hlúa að konunni. Ákærði kvaðst hafa opnað farangursrými bifreiðarinanr til að ná í teppi, en hann hafi ekki snert við hægra afturhorni bifreiðarinnar sem sýnt er á ljósmyndum lögreglunnar.

Ákærði kvaðst hafa verið búinn að fullvissa sig um að engin umferð væri fyrir aftan bifreið sína áður en hann ók henni aftur á bak og kvaðst ekki kannast við að hafa ekið á konuna. Ákærði kvaðst hafa ekið bifreiðinni örlítið áfram, inn í bifreiðastæðið, eftir að slysið varð.

Vitnið, E, kvaðst hafa gengið með barnavagn upp Spítalastíg ásamt vinkonu sinni, F. Hún kvaðst hafa verið á móts við bílastæðið þar sem bifreið ákærða hafi verið lagt. Hún hafi komið auga á gamla konu sem gengið hafi mjög hægt á miðri gangstéttinni, hinum megin götunnar. Bifreið ákærða, sem verið hafði kyrrstæð um dálitla stund, hefði skyndilega verið ekið aftur á bak og kvaðst vitnið hafa hrópað að konunni, en konan ekki sýnt nein viðbrögð. Vitnið kvað bifreiðinni ekki hafa verið ekið hratt aftur á bak. Vitnið kvaðst hafa séð að konan myndi ekki hafa það fram hjá bifreiðinni, þar sem hún hefði gengið svo hægt, en það hafi litlu munað að henni tækist það. Gamla konan hafi lent á farangursrými bifreiðarinnar, lyfst upp á vindskeið á afturhluta bifreiðarinnar, kastast út á götuna en snúist í fallinu og lent á hnakkanum í götunni. Þá hafi bifreiðin stöðvast. Vitnið kvaðst vera þess fullvisst að bifreiðinni hefði verið ekið á gömlu konuna og að hún hafi kastast frá bifreiðinni, en bifreiðin hefði hins vegar ekki verið á mikilli ferð. Vitninu voru sýndar myndir af bifreið ákærða og staðfesti vitnið að ákomustaður væri hægra afturhorn bifreiðarinnar. Vitnið var spurt um þann framburð sinn í lögregluskýrslu að henni fyndist ólíklegt að ökumaður hafi litið í baksýnisspegla bifreiðarinnar og kvaðst þá vitnið ekki geta fullyrt að ökumaður hefði ekki gert það. Hún hefði hins vegar dregið þessa ályktun af því hversu lengi konan var að ganga fram hjá bifreiðinni og hefði vitninu þótt skrýtið að ökumaður skyldi ekki hafa séð konuna þann tíma sem hún var að ganga fram hjá bifreiðinni.

Vitnið, F, kvaðst hafa verið ásamt E á gangi upp Spítalastíg umræddan dag. Hún hafi veitt athygli konu hinum megin götunnar. Allt í einu hafi E hrópað eitthvað og þá hafi vitninu verið litið yfir götuna. Þar hafi hún séð konuna sem þar hafði verið á gangi, detta beint út á götuna. Vitnið kvað að sér hefði þótt fallið vera með þeim hætti að bifreið ákærða hefði rekist í hana. Bifreið ákærða hafi verið komin út á miðja gangstétt þegar vitnið hafi séð konuna detta og hafi konan fallið beint á höfuðið. Vitnið kvað konuna ekki hafa verið lágvaxna, og kvaðst vitnið giska á að hún hefði verið um 170 sm á hæð.

Vitnið, B, kvaðst hafa setið í farþegasæti fyrir aftan ákærða umræddan dag. Ákærði hafi gangsett bifreiðina og bakkað af stað. Af gömlum vana hafi vitnið litið út um afturrúðu bifreiðarinnar og séð konu fyrir aftan bifreiðina. Vitnið kvaðst hafa séð andlit konunnar rétt áður en hún féll í götuna og hefði svipur hennar verið eins og hún segði ,,sjáið þið mig ekki” og ,,ekki fara að keyra á mig.”

Vitnið hafi strax hrópað ,,Þórður við erum að keyra á konu.” Ákærði hafi stöðvað bifreiðina og þau hafi öll farið út og reynt að hlúa að konunni. Vitnið kvaðst ekki hafa tekið eftir því hvort ákærði hafi verið að horfa í baksýnis- eða hliðarspegla bifreiðarinnar er hann ók aftur á bak. Vitnið kvaðst ekki hafa fundið neinn dynk og hefði ekki vitað hvort bifreiðin lenti á konunni, en svo hafi vitnið séð konuna liggja á götunni.

Vitnið, D, kvaðst hafa setið í farþegasæti bifreiðarinnar við hlið ákærða umræddan dag. Fljótlega eftir að ákærði hefði ekið bifreiðinni aftur á bak úr bílastæði hefði B hrópað eitthvað um að ákærði hefði rekist í gamla konu. Hún hefði svo hrópað aftur og þá hefðu allir farið út úr bílnum. Vitnið kvaðst ekki hafa veitt því athygli hvort ákærði hafi verið að líta í baksýnis- eða hliðarspegla á meðan hann ók bifreiðinni aftur á bak. Vitnið kvað ákærða hafa ekið mjög hægt.

Vitnið, C, kvaðst hafa setið í aftursæti bifreiðarinnar við hlið B umrætt sinn. Hann hafi verið að lesa skólablað og allt í einu heyrt B hrópa upp yfir sig að ,,Doddi hefði bakkað á einhverja konu”. Vitnið kvaðst ekki hafa athugað hvort ákærði hefði litið í baksýnis- eða hliðarspegla áður en hann ók aftur á bak. Vitnið kvað ákærða hafa ekið mjög hægt aftur á bak umrætt sinn og kvaðst ekki hafa tekið eftir neinu aðgæsluleysi ákærða.

Vitnið, Kristbjörn Guðlaugsson lögreglumaður kvaðst ekki geta staðfest að strokufar á afturhorni bifreiðarinnar væri eftir A. Vitnið kvað ekkert hafa verið sérstaklega kannað varðandi öryggisbúnað bifreiðarinnar, en speglar bifreiðarinnar hafi verið eðlilega stilltir.

Vitnið, Guðmundur St. Sigmundsson lögreglumaður, kvaðst hafa teiknað uppdrátt þann sem liggur frammi í málinu. Vitnið kvaðst ekki geta staðfest að strokufar á afturhorni bifreiðarinnar væri vegna þess að bifreiðinni hefði verið ekið á A, en um nýtt strokufar hefði verið að ræða. Vitnið kvað ekki hafa verið kannað hvort ryk hefði verið í fatnaði A. Þá kvaðst vitnið ekki muna hvort búnaður bifreiðarinnar hefði verið kannaður að einhverju leyti.

Vitnið, Kristján Kristjánsson, lögreglumaður kvaðst hafa tekið ljósmyndir á vettvangi. Vitnið kvaðst ekki vita til þess að lögregla hafi skoðað öryggisbúnað bifreiðarinnar.

Niðurstaða.

Samkvæmt krufningarskýrslu í málinu lést A af völdum höfuðáverka vegna slyss.

Samkvæmt gögnum málsins hafði bifreið ákærða verið lagt milli húsanna við Spítalastíg 2b og 4, en gangstétt er fyrir framan bifreiðastæðið.

Ákærði kvaðst ekki hafa veitt öðrum vegfarendum eftirtekt, á leið sinni að bifreiðinni umræddan dag, en tveimur konum með barnavagna. Hann kvaðst hafa litið í baksýnis- og hliðarspegla áður en hann ók bifreið sinni aftur á bak út úr bílastæðinu og kvað ekki mögulegt að vinur hans, C, hefði byrgt honum sýn út um afturrúðu bifreiðarinnar. Þá kvaðst ákærði ekki hafa snert við hægra afturhorni bifreiðarinnar, er hann sótti teppi í farangursrými bifreiðarinnar, en á ljósmyndum tæknideildar lögreglu má sjá rykstrokur á hægra afturhorni bifreiðarinnar. 

Vitnið, E, sem var önnur þeirra kvenna er ákærði veitti eftirtekt á Spítalastígnum umræddan dag, kvaðst hafa verið á móts við bílastæðið þar sem bíl ákærða hafði verið lagt er hún hafi séð gamla konu, er gengið hefði mjög hægt á gangstéttinni hinum megin götunnar. Hafi hún verið lengi að ganga hjá bifreið ákærða og litlu munað að hún kæmist fram hjá henni. Vitnið kvaðst hafa séð bifreið ákærða ekið aftur á bak og hafi konan lyfst upp á vindskeið bifreiðarinnar er hægra afturhorn bifreiðar ákærða hafi rekist í hana. Konan hefði snúist í fallinu og höfuð hennar skollið í götunni. Vitnið var ítrekað spurt hvort bifreiðinni hefði verið ekið á konuna og kvaðst vitnið vera þess fullvisst.

Vitnið, F, sem var hin konan sem ákærði veitti athygli á Spítalastíg umræddan dag, kvaðst ekki hafa séð konuna lenda á bifreið ákærða, en hún hafi hins vegar séð er hún hafi fallið beint á götuna, en ekki í þá stefnu er konan hafi gengið. Vitnið kvað fallið hafa verið með þeim hætti að hún teldi líklegt að bifreið ákærða hefði rekist í hana og hefði bifreið ákærða verið komin út á miðja gangstétt er vitnið hafi séð konuna falla. Vitnið kvað konuna ekki hafa verið lágvaxna og giskaði á að hún hefði verið um 170 sm á hæð.

Vitnin, C og D, kváðust ekki hafa verið að fylgjast með því hvort ákærði hefði litið í baksýnis- eða hliðarspegla bifreiðarinnar áður en ákærði ók aftur á bak út úr bifreiðastæðinu, en lýstu því að B hefði hrópað upp yfir sig að ákærði hefði bakkað á einhverja konu.

Vitnið, B, kvaðst hafa séð andlit konunnar áður en hún féll í götuna. Svipur hennar hefði verið eins og hún segði ,,sjáið þið mig ekki” og ,,ekki fara að keyra á mig” og hafi þá vitnið strax hrópað ,,Þórður við erum að keyra á konu.”

Framburður vitnisins, E, var afar skýr og trúverðugur. Vitnið lýsti því á greinargóðan og ýkjulausan hátt að hún hefði séð bifreið ákærða rekast í A með þeim afleiðingum að A lyftist upp á vindskeið bifreiðar ákærða, snerist í fallinu og féll í götuna. Það eykur mjög trúverðugleika framburðar hennar, að vitnisburður hennar var að mati dómsins varfærnislegur og dró vitnið fram það sem hún taldi ákærða til hagsbóta, meðal annars það að vitnið kvað ákærða hafa ekið hægt aftur á bak.

Framburður vitnisins, F, rennir og stoðum undir framburð vitnisins, E, þar sem vitnið F lýsti því að bifreið ákærða hafi verið komin út á miðja gangstétt þegar vitnið hafi séð A detta og hafi A fallið beint á höfuðið.

Þá rennir vitnisburður B einnig stoðum undir þann framburð E, að ákærði hefði ekið á A, enda bar B fyrir dómi að hún hefði séð lýsa af svip A ,,ekki fara að keyra á mig” og hefði þá B hrópað upp yfir sig: ,,Þórður við erum að keyra á konu.”

Nýlegar rykstrokur á afturhorni bifreiðarinnar benda og til þessarar niðurstöðu, en ákærði lýsti því fyrir dómi að hann hefði ekki snert hægra afturhorn bifreiðarinnar er hann opnaði farangursrými hennar.

Í ljósi framangreinds er hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi miðvikudaginn 26. maí 2004, á leið af bifreiðastæði við Spítalastíg 2 b í Reykjavík, ekið bifreiðinni OD-959 á A með þeim afleiðingum sem í ákæru greinir.

Við mat á því hvort ákærði hafi umrætt sinn sýnt nægjanlega aðgæslu og tillitssemi ber að líta til þess að ákærði hafði lagt bifreið sinni milli tveggja húsa við Spítalastíg. Til þess að komast aftur út á Spítalastíg þurfti ákærði að aka aftur á bak út á gangstétt, þar sem ætíð má búast við gangandi vegfarendum. Með skýrum framburði vitnisins, E, er sannað að A, sem var tæplega níræð er hún lést, var lengi að komast leiðar sinnar fram hjá bifreið ákærða, en bifreiðin hafði verið kyrrstæð töluverða stund, áður en henni var ekið aftur á bak. Hefði ákærði sýnt nægjanlega aðgæslu og tillitssemi, með því að líta í baksýnis- og hliðarspegla gat honum ekki dulist að A gekk hægt fram hjá bifreið hans og hefur ákærði lýst því sjálfur að félagi hans, C, hafi ekki byrgt honum sýn út um afturrúðu bifreiðarinnar. Samkvæmt framangreindu er sannað að ákærði ók bifreiðinni án nægjanlegrar aðgæslu og tillitsssemi aftur á bak út á gangstéttina við Spítalastíg, með þeim afleiðingum sem í ákæru greinir. Ákærði verður því sakfelldur fyrir þá háttsemi sem í ákæru greinir og er þar réttilega heimfærð til refsiákvæða.

Af hálfu ákærða hefur því ekki verið haldið fram að orsök slyssins megi rekja til öryggisbúnaðar bifreiðarinnar og ekkert í málinu bendir til þess. Þá sýna ljósmyndir þær sem liggja frammi að hliðarspeglar voru á bifreiðinni, sem og baksýnisspegill og vitnið, Kristbjörn Guðlaugsson, lýsti því að speglar bifreiðarinnar hafi verið eðlilega stilltir.

Refsiákvörðun.

Ákærði hefur aldrei gerst sekur um refsiverða háttsemi svo vitað sé. Þá er ákærði ungur að árum og hafa atvik máls þessa án efa reynst ákærða þungbær.

Þegar framangreint er virt er refsing ákærða ákveðin fangelsi í 30 daga, en frestað er fullnustu refsingar ákærða og falli hún niður að liðnu 1 ári frá birtingu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Þá er ákærði sviptur ökurétti í 12 mánuði frá birtingu dómsins að telja, samkvæmt 101. gr. umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993.

Með vísan til 1. mgr. 165. gr. laga nr. 19/1991 greiði ákærði allan sakarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, sem eru hæfilega ákveðin 170.000 krónur.

Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.

d ó m s o r ð:

Ákærði, Þórður Gunnar Þorvaldsson, sæti fangelsi í 30 daga, en frestað er fullnustu refsivistar ákærða og falli hún niður að liðnu ári frá birtingu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði er sviptur ökurétti í 12 mánuði frá birtingu dómsins að telja.

Ákærði greiði allan sakarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Eiríks Elís Þorlákssonar héraðsdómslögmanns, 170.000 krónur.