Hæstiréttur íslands

Mál nr. 50/2012


Lykilorð

  • Lánssamningur
  • Gengistrygging


                                     

Fimmtudaginn 27. september 2012.

Nr. 50/2012.

 

Hótel Stykkishólmur ehf.

(Björgvin Þorsteinsson hrl.)

gegn

Arion banka hf.

(Stefán A. Svensson hrl.)

 

Lánssamningur. Gengistrygging.

A hf. höfðaði mál gegn H ehf. til innheimtu eftirstöðva gjaldfallins láns, sem H ehf. hafði tekið hjá S árið 2004, en aðilar deildu um hvort lánið hefði verið í íslenskum krónum og gengistryggt með ólögmætum hætti eða í erlendum myntum. Talið var að um væri að ræða lánssamning í erlendum myntum og var krafa A hf. því tekin til greina.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson, Eiríkur Tómasson, Garðar Gíslason og Gunnlaugur Claessen.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 20. janúar 2012. Hann krefst þess að málinu verði vísað frá héraðsdómi, svo og að sér verði dæmdur málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Með hinum áfrýjaða dómi var vísað frá héraðsdómi kröfu stefnda um dráttarvexti og hefur hann ekki leitað endurskoðunar á því ákvæði dómsins með kæru til Hæstaréttar. Að þessu gættu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur með vísan til forsendna hans.

Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Hótel Stykkishólmur ehf., greiði stefnda, Arion banka hf., 400.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Vesturlands 21. október 2010.

Mál þetta var höfðað 1. júní 2010 en dómtekið 30. september 2011. Stefnandi er Arion banki hf., Borgartúni 19 í Reykjavík, en stefndi er Hótel Stykkishólmur ehf., Borgarbraut 8 í Stykkishólmi.

Stefnandi krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 424.955 svissneska franka og 35.898.106 japönsk jen með 10,71167% dráttarvöxtum af svissneskum frönkum og 10,80625% dráttarvöxtum af japönskum jenum frá 15. september 2009 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda.

Stefndi krefst sýknu af kröfu stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða málskostnað.

I

Hinn 25. ágúst 2004 var gerður lánssamningur milli Sparisjóðs Mýrasýslu og stefnda. Á forsíðu samningsins var tekið fram að um væri að ræða lán í erlendum gjaldmiðlum en síðan sagði í inngangi samningsins að lánið væri til 10 ára að fjárhæð að jafnvirði 720.000 svissneskra franka og 62.000.000 japanskra jena. Lánið átti að endurgreiða með árlegum gjalddaga 15. september. Á fyrsta gjalddaga árið 2004 átti aðeins að greiða vexti en síðan átti til viðbótar að greiða 1/9 hluta lánsins á hverjum gjalddaga. Í samningnum var tekið fram að stefndi veitti lánveitanda heimild til að skuldfæra reikning sinn hjá sparisjóðnum fyrir afborgunum, vöxtum, gengismun, verðbótum, dráttarvöxtum og hvers konar kostnaði, þar með talið innheimtukostnaði, á gjalddögum lánsins.

Samkvæmt lánssamningnum átti lánið að bera tólf mánaða LIBOR-vexti viðkomandi gjaldmiðils að viðbættu 3% vaxtaálagi. Ef ekki var staðið í skilum með greiðslur af láninu bar að greiða dráttarvexti sem námu vaxtagrunni lánsins að viðbættu 7% vanskilaálagi. Einnig var tekið fram í samningnum að lánveitanda væri heimilt við vanefnd lántaka „að umreikna lánið í íslenskar krónur miðað við skráð sölugengi lánveitanda kl. 12 á hádegi á gjaldfellingardegi, á þeim myntum sem lánið samanstendur af.“ Í því tilviki bar að greiða dráttarvexti af láninu samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu. Í samningnum voru síðan nánari ákvæði um útreikning vaxta og um heimild lánveitanda til að breyta vaxtaálagi til hækkunar eða lækkunar án þess að efni séu til að rekja þau ákvæði nánar.

Í lánssamningnum var að finna myntbreytingarheimild en þar sagði að lántaka væri heimilt, ef lánið væri í skilum, að óska eftir myntbreytingu þess á vaxtagjalddögum, í fyrsta sinn að einu ári liðnu frá útborgun þess, þannig að eftirstöðvar lánsins miðuðust við aðra erlenda mynt eða reiknieiningu, eina eða fleiri, frá og með upphafi næsta vaxtatímabils. Þessi valréttur var bundinn við nánar tilgreinda gjaldmiðla og mátti lánið aldrei vera samsett úr fleiri gjaldmiðlum en fimm í einu. Um þetta voru nánari ákvæði sem ekki er þörf á að rekja en síðan sagði svo: „Við myntbreytingu skal við umreikning nota sölugengi þess gjaldmiðils sem hætt er að miða við og kaupgengi þess gjaldmiðils sem framvegis skal miða við, samkvæmt síðustu gengisskráningu lánveitanda á íslensku krónunni, tveimur virkum bankadögum fyrir myntbreytinguna nema um annað sé sérstaklega samið.“

Í lánssamningnum var tekið fram að stefndi hefði gefið út tryggingarbréf 11. ágúst 2004 að fjárhæð 750.000 svissneskir frankar og 65.000.000 japönsk jen til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu skuldarinnar. Í yfirskrift tryggingarbréfsins sagði að það væri í íslenskum krónum bundið vísitölu neysluverðs. Í meginmáli bréfsins sagði hins vegar að fjárhæð bréfsins væri sú upphæð í frönkum og jenum sem tilgreind var í lánssamningnum auk vaxta og kostnaðar. Til tryggingar láninu var með bréfinu veittur 1. veðréttur í fasteigninni Borgarbraut 8−8a í Stykkishólmi. Tekið var fram í bréfinu að eignin, sem væri varanlega útbúin til atvinnurekstrar (hótel), væri veðsett ásamt öllum þeim rekstartækjum sem tilheyra rekstrinum á hverjum tíma. Í bréfinu voru síðan tíðkanleg ákvæði sem ekki eru efni til að rekja nánar. Tryggingarbréfið var móttekið til þinglýsingar 18. ágúst 2004 og fært í þinglýsingabók 23. sama mánaðar. Samkvæmt veðbandayfirliti úr Landskrá fasteigna var fjárhæð tryggingarbréfsins tilgreind 85.246.000 krónur við þinglýsingu.

Samhliða lánssamningnum undirrituðu fyrirsvarsmenn stefnda viðauka með samningnum sem hafði að geyma beiðni um útborgun lánsins með því móti að öll fjárhæðin í svissneskum frönkum og japönskum jenum yrði seld fyrir íslenskar krónur og lögð inn á hlaupareikning stefnda hjá sparisjóðunum. Er ágreiningslaust með aðilum að sú innborgun inn á hlaupareikning stefnda fór fram í kjölfarið.

Meðal gagna málsins eru tvö símbréf Sparisjóðabanka Íslands hf. til Sparisjóðs Mýrasýslu 26. ágúst 2004 um lán frá bankanum til sjóðsins að fjárhæð 720.000 svissneskir frankar og 62.000.000 japönsk jen með gjalddaga 15. september sama ár.

II

Á árinu 2008 var eigið fé Sparisjóðs Mýrasýslu komið undir lögboðin mörk og hófst því vinna við fjárhagslega endurskipulagningu sjóðsins í samráði við stærstu lánardrottna. Þeim aðgerðum lauk með því að Fjármálaeftirlitið tók ákvörðun 3. apríl 2009 um að stefnandi (þá Nýi Kaupþing banki hf.) yfirtók í einu lagi réttindi og eignir sparisjóðsins samkvæmt kaupsamningi sjóðsins og stefnanda sama dag. Þar á meðal var lánssamningur sparisjóðsins við stefnda.

Í málinu liggur fyrir að hlaupareikningur stefnda í sparisjóðnum var skuldfærður til greiðslu afborgana og vaxta meðan lánið var þar til innheimtu. Eftir að láninu hafði verið ráðstafað til stefnanda greiddi stefndi hins vegar ekki gjalddaga 15. september 2009 og upp frá því hefur lánið verið í vanskilum. Samkvæmt yfirliti stefnanda nam höfuðstóll skuldarinnar á þeim degi 424.955 svissneskum frönkum og 35.898.106 japönskum jenum. Þann dag voru tólf mánaða LIBOR-vextir af frönkum 0,71167% og af jenum 0,80625%. Að viðbættum 3% vaxtagrunni og 7% vaxtaálagi námu dráttarvextir 10,71167% af frönkum en 10,80625% af jenum. Stefnandi sendi stefnda greiðsluáskorun 10. mars 2010 og fullyrðir að hún hafi verið birt fyrirsvarsmanni stefnda 20. apríl sama ár. Í áskoruninni kom fram að stefnandi hefði gjaldfellt lánið samkvæmt heimild í lánssamningnum, en þar voru fjárhæðir tilgreindar í frönkum og jenum að frátöldum innheimtukostnaði. Í niðurlagi áskorunarinnar kom einnig fram heildarfjárhæð skuldarinnar í íslenskum krónum miðað við gengi 24. mars 2010 en fjárhæðin nam þá 117.056.081 krónu.

III

Stefnandi heldur því fram að lánið til stefnda frá Sparisjóði Mýrasýslu samkvæmt lánssamningnum frá 25. ágúst 2004 hafi verið í erlendum myntum en ekki íslenskum krónum. Því eigi ekki við í málinu 13. og 14. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, sem hindri að lán í íslenskum krónum verði bundið við gengi erlendra gjaldmiðla. Til stuðnings þessu tekur stefnandi fram að fjárhæð lánsins sé tilgreint í erlendum myntum og því telur stefnandi að dómar í málum þar sem lánsfjárhæðir voru tilgreindar í íslenskum krónum geti ekki haft fordæmisgildi í þessu máli.

Stefnandi vísar til meginreglu samningaréttar um samningsfrelsið en það feli í sér að samningsaðilum sé frjálst að semja eins og þeir kjósa nema það fari í bága við lög. Telur stefnandi að virða verði lánssamninginn í því ljósi en engum málum sé blandið að vilji beggja samningsaðila hafi staðið til þess að lánið yrði veitt í íslenskum krónum. Í þeim efnum tekur stefnandi fram að í ársreikningum stefnda 2006 og 2007 sé lánið tilgreint sem skuld í umsömdum erlendum gjaldmiðlum.

Stefnandi telur að heildstætt mat á lánssamningi stefnda við Sparisjóð Mýrasýslu leiði óhjákvæmilega til þeirrar niðurstöðu að um hafi verið að ræða lán í erlendum myntum. Hér bendir stefnandi á að í samningnum sé vísað til tryggingarbréfs sem bundið hafi verið fjárhæðum í sömu erlendu myntum og lánið var veitt í. Jafnframt hafi umsamdir samningsvextir á lánstíma og dráttarvextir verið ákveðnir í samræmi við að lánið var veitt í erlendum myntum. Þá sé tekið fram í yfirskrift lánsins á forsíðu lánssamningsins að um sé að ræða lán í erlendum gjaldmiðlum, auk þess sem fram hafi komið á kvittunum og tilkynningum að lánið sé í erlendum myntum. Loks telur stefnandi engu breyta þótt í ákvæði lánssamningsins um myntbreytingu sé rætt um að lánið verði miðað við aðra erlenda mynt eða reiknieiningu, enda feli ákvæðið aðeins í sér heimild sem aldrei hafi verið beitt.

Verði ekki fallist á málatilbúnað stefnanda og lánið talið veitt í íslenskum krónum telur stefnandi að ekki beri að sýkna heldur vísa málinu frá dómi, enda viðurkenni stefndi í málatilbúnaði sínum að standa í skuld við stefnanda.

IV

Stefndi hafnar því að um hafi verið að ræða lán í erlendum myntum heldur hafi lánið verið veitt í íslenskum krónum. Því fari gengistrygging lánsins í bága við 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001. Til stuðnings þessu bendir stefndi á að tekið sé fram í lánssamningnum að lánið sé „að jafnvirði“ tiltekinnar fjárhæðar. Telur stefndi að þessum orðum sé með öllu ofaukið ef til stóð að veita lánið í erlendum gjaldmiðli. Einnig bendir stefndi á að í heimild lántaka samkvæmt samningnum til að óska eftir myntbreytingu komi ítrekað fram að lánið „miðist við“ erlenda gjaldmiðla í stað þess að rætt sé um að lánið sé í erlendum gjaldmiðlum. Þá sé þess að gæta að lánið hafi verið afgreitt til stefnda í íslenskum krónum og greiðslur af því skuldfærðar af reikningi stefnda í sama gjaldmiðli. Auk þess hafi fjárhæð lánsins verið tilgreind í íslenskum krónum í greiðsluáskorun stefnanda 20. apríl 2010.

Einnig vísar stefndi til þess að fram komi á tryggingarbréfi fyrir skuldinni að fjárhæð þess sé í íslenskum krónum bundið vísitölu neysluverðs. Þá hafi skuldin verið tilgreind í íslenskum krónum við þinglýsingu bréfsins. Telur stefndi að þetta megi skýra þannig að fyrirsvarsmenn stefnda hafi leitað eftir 85 milljóna króna láni hjá Sparisjóði Mýrasýslu og starfsmenn sjóðsins hafi afgreitt lánið með þessu móti. Vafa að þessu leyti verði í öllu falli að virða stefnda til hagsbóta. Einnig sé þess að gæta að stefndi hafi verið krafinn um greiðslur miðað við erlent lán og þannig hafi stefndi ofgreitt af láninu.

Samkvæmt öllu framansögðu telur stefndi vafalaust að lánið sé í íslenskum krónum. Af því leiði að krafa í þessu horfi sé ekki fyrir hendi í lögskiptum aðila og því beri að sýkna stefnda.

V

Málsaðilar deila um hvort stefndi hafi með lánssamningi 25. ágúst 2004 gengist undir skuldbindingu í erlendum gjaldmiðlum eða hvort lánið hafi verið í íslenskum krónum og fjárhæð þess bundin við gengi þeirra gjaldmiðla sem tilgreindir voru í samningnum. Heldur stefnandi því fram að um sé að ræða erlent lán og því falli það ekki undir reglur VI. kafla laga nr. 38/2001. Aftur á móti telur stefndi að lánið sé í íslenskum krónum bundið gengi erlendra gjaldmiðla, en slík skuldbinding fer í bága við ófrávíkjanlegar reglur 13. og 14. gr., sbr. 2. gr. laganna, sbr. dóma Hæstaréttar 16. júní 2010 í málum 92/2010 og 153/2010 um svonefnd bílalán og dóma 14. febrúar 2011 í málum nr. 603/2010 og 604/2010 um skuldbindingar samkvæmt skuldabréfum tryggt með veði í fasteignum. Hér verður einnig vísað til dóma Hæstaréttar 8. mars 2011 í málum nr. 30/2011 og 31/2011 og dóms 9. júní sama ár í máli nr. 155/2011 um lánssamninga.

Í umræddum lánssamningi frá 25. ágúst 2004 segir að lánið sé að jafnvirði 720.000 svissneskir frankar og 62.000.000 japönsk jen. Þannig er eina tilgreining lánsins í erlendum gjaldmiðlum, en hvergi í samningnum er vikið að fjárhæð skuldarinnar í íslenskum krónum. Er þess jafnframt að gæta að stefndi hefur ekki gefið viðhlítandi skýringu á því hvers vegna fjárhæð lánsins var ákveðin með þessu móti ef til stóð að lánið væri í íslenskum krónum. Lá þá beint við að fjárhæð lánsins yrði tilgreind í krónum en fyrir liggur í málinu að ávallt stóð til að afgreiða lánið til stefnda í þeim gjaldmiðli. Þykir enn fremur óhætt að slá því föstu að vilji lánveitanda og stefnda hafi í upphafi við samningsgerðina staðið til þess að haga skuldbindingum þannig að lánið yrði veitt í erlendum gjaldmiðlum, eins og beinlínis er tekið fram á forsíðu samningsins um efni hans. Þá er þess að gæta að tryggingarbréf 11. ágúst 2004, sem gefið var út vegna lánsins, hefur einnig aðeins að geyma fjárhæðir í sömu gjaldmiðlum og lánssamningurinn. Skiptir þá engu þótt fram komi í yfirskrift bréfsins að það sé í íslenskum krónum bundið vísitölu neysluverðs, en þessi tilgreining kemur með engu móti heim og saman við efni bréfsins að öðru leyti. Breytir heldur engu þótt fjárhæð tryggingarbréfsins hafi verið umreiknuð í krónur við þinglýsingu og sé tilgreind með því móti sem áhvílandi veð í þinglýsingabók. Loks verður ekki fallist á það með stefnda að önnur ákvæði lánssamningsins séu í ósamræmi við að lánið hafi verið veitt í erlendum gjaldmiðlum, en sú niðurstaða verður hvorki ráðin af því hvernig hagað er orðalagi á ákvæði um heimild stefnda til að óska eftir myntbreytingu né heldur því að stefndi veitti heimild til að hlaupareikningur hans hjá lánveitanda í íslenskum krónum yrði skuldfærður til greiðslu af láninu og óskaði sjálfur eftir að lánið yrði afgreitt í krónum inn á sama reikning.

Að virtu því sem hér hefur verið rakið um lánssamninginn sem stefndi gekkst undir verður ekki talið að fyrrgreindir dómar Hæstaréttar hafi fordæmisgildi í málinu eins og skuldbindingunni var hagað. Verður því fallist á það með stefnanda að um sé að ræða erlent lán en ekki lán í íslenskum krónum bundið gengi erlendra gjaldmiðla. Samkvæmt þessu verður fjárkrafa stefnanda á hendur stefnda tekin til greina en ekki er tölulegur ágreiningur með aðilum.

Í samræmi við lánssamning aðila krefst stefnandi dráttarvaxta sem nema tólf mánaða LIBOR-vöxtum í viðkomandi gjaldmiðli, eins og þeir ákvarðast hverju sinni, auk 3% álags og 7% vanskilaálags. Þannig breytast umsamdir dráttarvextir eftir LIBOR-vöxtum á hverjum tíma. Krafa stefnanda um dráttarvexti, eins og hún er sett fram sem fastur hundraðshluti, er því í ósamræmi við samning aðila án þess að það hafi verið skýrt með nokkru móti og er því óhjákvæmilegt að vísa vaxtakröfunni frá dómi, sbr. einnig 11. gr. laga nr. 38/2001.

Eftir þessum málsúrslitum verður stefnda gert að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn svo sem greinir í dómsorði.

Benedikt Bogason, héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.   

D Ó M S O R Ð:

Stefndi, Hótel Stykkishólmur ehf., greiði stefnanda, Arion banka hf., 424.955 svissneska franka og 35.898.106 japönsk jen.

Vísað er frá dómi dráttarvaxtakröfu stefnanda.

Stefndi greiði stefnanda 400.000 krónur í málskostnað.