Hæstiréttur íslands

Mál nr. 188/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Nauðungarsala
  • Málshöfðunarfrestur
  • Frávísunarúrskurður felldur úr gildi


                                     

Þriðjudaginn 17. mars 2015.

Nr. 188/2015.

Gljúfurbyggð ehf.

(Einar Gautur Steingrímsson hrl.)

gegn

Gunnari Andrési Jóhannssyni

(Ásgeir Þór Árnason hrl.)

Kærumál. Nauðungarsala. Málshöfðunarfrestur. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.

Í málinu krafðist G ehf. viðurkenningar á skaðabótaskyldu G vegna tjóns sem félagið taldi sig hafa orðið fyrir vegna háttsemi hans að knýja fram nauðungarsölu á eign þess með ólögmætum hætti. Héraðsdómur vísaði málinu frá dómi þar sem málshöfðunarfrestur XV. kafla laga 90/1991 um nauðungarsölu var liðinn. Í dómi Hæstaréttar kom fram að framangreindur frestur ætti ekki við ef einkamál vegna nauðungarsölu væri rekið á öðrum grundvelli en þar væri kveðið á um. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 26. febrúar 2015 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. mars sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 13. febrúar 2015 þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að lagt verði fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

I

Hinn 4. júlí og 23. september 2003 gaf sóknaraðili út ellefu skuldabréf samtals að fjárhæð 101.000.000 krónur. Bréfin voru gefin út til handhafa að frátöldu einu bréfi til varnaraðila en hann mun hafa átt öll bréfin. Eitt bréfið var til 15 ára með árlegri afborgun 1. júlí en hin bréfin voru til 25 ára með árlegri afborgun 1. ágúst. Til tryggingar bréfunum setti sóknaraðili að veði jörð sína Ingólfshvol í Sveitarfélaginu Ölfusi. Með beiðnum 19. ágúst 2008 krafðist varnaraðili nauðungarsölu á eigninni og fór hún fram 27. ágúst 2009. Átti varnaraðili hæsta boð í eignina og fékk hann afsal fyrir henni 29. janúar 2010.

Svo sem nánar er rakið í hinum kærða úrskurði heldur sóknaraðili því fram að veðskuldabréf varnaraðila hafi verið í skilum þegar hann krafðist nauðungarsölunnar. Reisir sóknaraðili málatilbúnaðinn á því að varnaraðili hafi knúið fram nauðungarsölu á eigninni án þess að fyrir því væru skilyrði og þannig bakað sér tjón. Telur sóknaraðili í fyrsta lagi að varnaraðili beri bótaábyrgð án tillits til sakar, sbr. 1. mgr. 86. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Í öðru lagi byggir sóknaraðili sjálfstætt á því að varnaraðili beri skaðabótaábyrgð á grundvelli almennu skaðabótareglunnar með því að hafa verið grandsamur um að efnisleg skilyrði skorti fyrir því að eignin yrði seld á nauðungarsölu. Við mat á sök vísar sóknaraðili einkum til þess að varnaraðili hafi brotið gegn reglum kröfuréttar um trúnaðar- og tillitsskyldu við gagnaðila.

II

Í XV. kafla laga nr. 90/1991um nauðungarsölu eru sérreglur um bótaskyldu vegna nauðungarsölu. Í þeim felst að gerðarbeiðandi ber án sakar ábyrgð á því að fullnægt sé lagaskilyrðum fyrir nauðungarsölu, sbr. 1. mgr. 86. gr. laganna. Jafnframt ber hann ábyrgð eftir almennum skaðabótareglum vegna mistaka við framkvæmd nauðungarsölunnar, sem gæti leitt til ógildingar hennar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Þá fellur ábyrgð á ríkið ef starfsmaður þess hefur sýnt af sér gáleysi við framkvæmd nauðungarsölu, sbr. 1. mgr. 87. gr. laganna. Ef bótakrafa er reist á þessum grundvelli varð að höfða mál til heimtu hennar áður en þrír mánuðir liðu frá því sá sem varð fyrir tjóni átti þess kost að hafa kröfu sína uppi, sbr. 88. gr. laganna, svo sem greinin hljóðaði áður en málshöfðunarfresturinn var lengdur með lögum nr. 72/2012, sem tóku gildi 4. júlí 2012. Þessi frestur gildir hins vegar ekki ef einkamál vegna nauðungarsölu er rekið á öðrum grundvelli, svo sem mál á hendur gerðarbeiðanda til heimtu bóta samkvæmt sakarreglunni vegna framferðis hans sjálfs eða til endurheimtu ofgreidds fjár, sbr. dóma Hæstaréttar 13. nóvember 1997 í máli nr. 449/1996, sem birtur er í dómasafni réttarins 1997 á bls. 3242, og 13. janúar 1999 í máli nr. 6/1999 í dómasafni það ár á bls. 4. Að þessu gættu verður að taka afstöðu til þess hvort málinu verður vísað frá dómi án kröfu með tilliti til þeirra málsástæðna sem sóknaraðili byggir á til stuðnings kröfu sinni um viðurkenningu á skaðabótaskyldu varnaraðila vegna tjóns sem hlaust af nauðungarsölu á jörðinni.         

Eins og áður getur fékk varnaraðili afsal fyrir jörðinni 29. janúar 2010 á grundvelli nauðungarsölu á henni. Tók þriggja mánaða frestur samkvæmt 88. gr. laga nr. 90/1991 í síðasta lagi að líða þá og því var hann löngu liðinn þegar málið var höfðað 10. september 2013. Samkvæmt þessu getur sóknaraðili ekki reist málsóknina á hlutlægri ábyrgð varnaraðila samkvæmt 1. mgr. 86. gr. laganna. Aftur á móti er málið einnig höfðað á þeim grundvelli að varnaraðili beri bótaábyrgð vegna sakar við framferði hans sjálfs í aðdraganda sölunnar, en með því hafi hann komið því til leiðar að eignin hafi var seld nauðungarsölu án þess að fullnægt væri lagaskilyrðum fyrir því. Fyrrgreindur frestur 88. gr. laganna á ekki við um mál sem rekið er á þeim grundvelli og því verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.

Rétt þykir að hvor aðili beri sinn kostnað af kærumáli þessu.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 13. febrúar 2015.

            Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar vegna ágreinings aðila um það hvort vísa bæri málinu frá dómi, er höfðað með stefnu birtri þann 10. september 2013.

            Stefnandi er Gljúfurbyggð ehf., kt. [...], Klettagljúfri 10, Ölfusi.

            Stefndi er Gunnar Andrés Jóhannsson, kt. [...], Árbæ, 851 Hellu.

            Dómkröfur stefnanda eru þær að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefnda sem hlaust af þeirri háttsemi stefnda að knýja fram með ólögmætum hætti nauðungarsölu á jörðinni Ingólfshvoli í Ölfusi þ. 27. ágúst 2009 og fá jörðinni afsalað til sín þ. 29. janúar 2010 á grundvelli sölunnar. Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu.

            Dómkröfur stefnda voru þær aðallega að öllum kröfum stefnanda yrði vísað frá dómi en til vara að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi.

            Með úrskurði uppkveðnum þann 22. ágúst sl. var frávísunarkröfu stefnda hrundið og ákvörðun um málskostnað látin bíða efnisdóms.

            Í þinghaldi þann 3. október sl. lagði stefnandi m.a. fram matsbeiðni þar sem þess var farið á leit að dómkvaddir yrðu tveir hæfir og óvilhallir matsmenn til að meta eftirfarandi:

1.       Hvert er enduröflunarverð á fasteigninni Ingólfshvoli Ölfusi ásamt öllu því sem fylgir og fylgja ber, landnr. 171743, 27. ágúst 2009, sem er uppboðsdagur fasteignarinnar?

2.       Hvert er markaðsvirði fasteignarinnar Ingólfshvols Ölfusi ásamt öllu því sem fylgir og fylgja ber, landnr. 171743, 27. ágúst 2009, sem er uppboðsdagur fasteignarinnar?

3.       Hvert er markaðsvirði fasteignarinnar Ingólfshvols Ölfusi ásamt öllu því sem fylgir og fylgja ber, landnr. 171743, 27. ágúst 2008?

4.       Hvert er markaðsvirði fasteignarinnar Ingólfshvols Ölfusi ásamt öllu því sem fylgir og fylgja ber, landnr. 171743, 27. ágúst 2007?

5.       Hvert er markaðsvirði fasteignarinnar Ingólfshvols Ölfusi ásamt öllu því sem fylgir og fylgja ber, landnr. 171743, 27. ágúst 2010?

6.       Hvert er markaðsvirði fasteignarinnar Ingólfshvols Ölfusi ásamt öllu því sem fylgir og fylgja ber, landnr. 171743, 27. ágúst 2013?

            Stefndi mótmælti því að dómkvatt yrði vegna matsspurninga nr. 1 og 2 þar sem þegar lægi fyrir undirmat vegna þeirra liða. Þá lýsti hann því yfir að hann teldi mat samkvæmt matsspurningum nr. 3-6 bersýnilega þarflaust til úrlausnar sakarefnisins. Við munnlegan flutning um þennan þátt málsins mótmælti stefndi matsspurningum nr. 1 og 2 en gerði að öðru leyti ekki athugasemdir við  matsspurningar.

            Að fenginni þessari afstöðu stefnda gerði stefnandi þá kröfu við munnlegan málflutning vegna ofangreinds ágreinings að yrði ekki fallist á dómkvaðningu vegna matsspurninga nr. 1 og 2, yrðu dómkvaddir yfirmatsmenn til að svara þeim spurningum. Með úrskurði uppkveðnum þann 12. desember sl. var fallist á að stefnanda væri heimilt að láta dómkveðja tvo matsmenn til þess að svara matsspurningum 1, 3, 4, 5 og 6 sem fram komu í matsbeiðni. Hins vegar var hafnað  kröfu stefnanda um að dómkvaddir yrðu tveir matsmenn til að svara matsspurningu 2 í sömu matsbeiðni.

            Að fengnum síðastgreindum úrskurði vakti lögmaður stefnda athygli dómsins á því að hugsanlega bæri að vísa málinu frá dómi ex officio á þeim grundvelli að málshöfðunarfrestur væri liðinn og var í því sambandi vísað til dóma Hæstaréttar í málum nr. 782/2014 og 783/2014. Lögmaður stefnanda mótmælti þessum skilningi og var lögmönnum aðila því gefinn kostur á að reifa ágreiningsefnið í þinghaldi þann 16. janúar sl.

Málavextir.

            Stefnandi lýsir málsatvikum svo í stefnu að stefndi hafi átt 11 veðskuldabréf með veði í jörð stefnanda, Ingólfshvoli í Ölfusi, að heildarverðmæti kr. 101.000.000 sem annars vegar hafi verið gefin út þann 4. júlí 2003 (kr. 25.000.000), með árlegum gjalddögum 1. júlí ár hver og hins vegar þ. 23. september sama ár (10 x kr. 7.600.000),  með árlegum gjalddögum 1. ágúst ár hvert. Stefndi hafi þann 1. október 2007 sent greiðsluáskoranir til stefnanda sem undanfara beiðna um nauðungarsölu, eina fyrir hvert veðskuldabréf, með tilheyrandi kostnaði en engar innborganir, sem sannanlega hefðu verið greiddar af stefnanda, hafi verið tilgreindar. Hafi stefnandi ómögulega getað brugðist við þessum greiðsluáskorunum þar sem tilgreind skuld hafi verið röng og háð mikilli óvissu. Hafi greiðsluáskoranir þessar verið svo fjarri lagi að mati stefnanda að þær hafi ekki getað haft tilætluð réttaráhrif. Þann 19. október 2007 hafi stefndi upphaflega krafist nauðungarsölu á eigninni á grundvelli bréfanna og hafi hann haldið því fram að öll veðskuldabréfin hefðu verið í vanskilum frá og með gjalddaga 2006, þ.e. 2 gjalddagar í vanskilum. Hafi stefnandi þó greitt samtals kr. 22.400.000 þann 17. ágúst 2007 inn á veðskuldabréfin vegna gjalddaga 2006 og 2007. Stefndi hafi ekki fært þessar innborganir inn á veðskuldabréfin og ekki ráðstafað þeim til greiðslu ákveðinna gjalddaga. Sé miðað við að stefndi hefði ráðstafað greiðslum fyrst upp í elsta gjalddaga 25 milljón króna veðskuldabréfsins og síðan upp í elsta gjalddaga 10 samhljóða veðskuldabréfanna, svo sem eðlilegt hefði verið, teldust öll skuldabréfin í skilum. Á yfirliti á dskj. nr. 27 megi sjá hvernig innborganir hefðu ráðstafast inn á skuldabréfin. Þann 1. júlí 2006 hafi þegar verið búið að greiða upp þann gjalddaga með greiðslu þann 30. desember 2005 að fjárhæð kr. 6.000.000 og megi lesa þetta úr dskj. nr. 28 a. En sú fjárhæð umfram afborgun 1. júlí 2006 hafi farið upp í ágúst gjalddaga 10 samhljóða skuldabréfanna. Þann 1. ágúst sama ár hafi átt að greiða afborgun af 10 samhljóða skuldabréfunum en hún hafi þegar verið greidd með innborgunum stefnanda til og með 13. júlí 2006. Megi lesa þetta úr dskj. nr. 29 a. Það sem stefnandi hafi ofgreitt hefði átt að fara inn á síðari gjalddaga veðskuldabréfanna. Stefnandi telur innborganir þann 9. júlí og 17. ágúst 2007 hafa verið innborganir inn á 25 milljón króna veðskuldabréfið. Stefnandi telur að þann 3. október sama ár hafi hann verið búinn að greiða stefnda kr. 28.400.000 en afborgun með gjalddaga 2006 og 2007 hafi verið að fjárhæð kr. 22.692.939 og hafi stefnandi þannig verið búinn að ofgreiða stefnda kr. 5.707.061, en það sýni að enginn grundvöllur hafi verið fyrir beiðni um nauðungarsölu þann 19. október 2007.

            Stefnandi kveðst hafa misst alveg yfirsýn yfir stöðu veðskuldabréfanna og hafi stefndi aldrei getað gefið fullnægjandi upplýsingar á stöðu þeirra þó að leitað hafi verið eftir því og ekki hafi veðskuldabréfin verið árituð um innborganir. Stefndi hafi alltaf staðhæft að veðskuldabréfin væru í vanskilum og því hafi stefnandi haldið áfram að greiða þrátt fyrir að hann hafi ofgreitt inn á þau. Nauðungarsölu hafi verið frestað þann 9. apríl 2008. Þótt fasteignin hafi verið seld nauðungarsölu þann 6. maí 2008 hafi allar nauðungarsölubeiðnir verið afturkallaðar þann 3. júní sama ár, þ.e. á síðasta degi samþykkisfrests, með greiðslu á kr. 12.000.000. Stefnandi hafi einnig greitt upp allar skuldir vegna lögveða á eigninni í samþykkisfresti. Stefnandi telur dóm Hæstaréttar í máli nr. 453/2011 staðfesta að þann 1. ágúst 2005 hafi allir gjalddagar verið greiddir og vel það. Samkvæmt dóminum hafi 10 samhljóða veðskuldabréfin verið í skilum þann dag og þar af leiðandi líka 25 milljón króna veðskuldabréfið en það hafi verið með sömu áritun. Eftir það hafi verið greiddar innborganir inn á veðskuldabréfin eins og að framan greinir.

            Stefnandi kveðst hafa verið búinn að greiða samtals kr. 43.400.000 inn á veðskuldabréfin þann 3. júní 2008 þegar fyrri nauðungarsala hafi verið afturkölluð. Þá hafi hann greitt kr. 2.500.000 inn á veðskuldabréfin þann 30. júní 2008. Þannig hafi stefnandi verið búinn að ofgreiða inn á veðskuldabréfin á gjaldaga þeirra þann 1. júlí 2008 og 1. ágúst sama ár en þrátt fyrir það hafi stefndi aftur byrjað nauðungarsöluferli með því að senda þann 18. júlí 2008 greiðsluáskoranir vegna allra veðskuldabréfanna 11 með tilheyrandi kostnaði. Eins og með fyrri greiðsluáskoranir hafi stefnandi ekki getað brugðist við þeim vegna rangs útreiknings og óvissu um skuld sína. Þann 19. ágúst 2008 hafi 11 beiðnir um nauðungarsölu verið sendar og hafi nauðungarsölunni verið frestað þann 16. desember 2008 og aftur þann 12. maí 2009 en síðan hafi hún farið fram þann 27. ágúst 2009 þrátt fyrir að stefnandi hefði greitt kr. 20.000.000 þann 15. desember 2008 skv. samkomulagi aðila. Samkvæmt því hafi stefnandi mátt koma bréfunum í skil fyrir 1. maí 2009, sem og hann hefði þegar gert með ofgreiðslu sinni á bréfin. Þegar nauðungarsalan hafi farið fram hafi stefnandi verið búinn að greiða samtals kr. 65.000.000 inn á veðskuldabréfin, þ.e.gjalddaga 2006, 2007, 2008 og 2009 og greiða umfram gjaldfallna gjalddaga þeirra. Nauðungarsalan hafi því farið fram með stórvægilegu tjóni fyrir stefnanda og að ófyrirsynju. Hafi jörðin Ingólfshvoll verði metin á kr. 362.000.000 þann 15. nóvember 2007. Þrátt fyrir skrifleg mótmæli stefnanda á nauðungarsöludegi með þeirri fullyrðingu að skuldabréfin hefðu verið í skilum í nauðungarsöluferlinu, hafi stefndi látið hjá líða að ganga til skuldauppgjörs við stefnanda og afturkalla nauðungarsöluna þegar í ljós hefði komið að greiðsluáskoranir og aðfararbeiðnir hafi verið rangar og skuldabréfin í skilum. Hafi stefndi haft frest til þessa til loka samþykkisfrests, eða til 10. september 2009.

Málsástæður og lagarök stefnanda.

            Stefnandi byggir á því að stefndi hafi knúið fram nauðungarsölu á fasteign í hans eigu án þess að efnisleg skilyrði nauðungarsölu væru fyrir hendi og þannig bakað stefnanda stórfellt tjón. Stefndi beri bótaábyrgð án sakar samkvæmt 80. gr. og 86. gr. laga um nauðungarsölu, enda sé ljóst að nauðungarsalan hafi verið ógildanleg. Án tillits til þessa byggir stefnandi á því að stefndi beri skaðabótaábyrgð á grundvelli almennu skaðabótareglunnar með því að hafa verið grandsamur um að efnisleg skilyrði hafi skort til nauðungarsölunnar. Við mat á sök stefnda vísar stefnandi einkum til þess að stefndi hafi brotið reglu kröfuréttarins um trúnaðar- og tillitsskyldu við gagnaðila. Stefnandi byggir einnig á því að stefndi hafi brotið gegn tilskipun um áritun afborgana á skuldabréf frá 9. febrúar 1798.

            Stefnandi byggir á því að með ólögmætri háttsemi sé m.a. átt við að stefndi hafi ekki tekið tillit til innborgana frá nóvember 2005 til september 2007, svo og helmings innborgunar þann 2. júní 2008 við innheimtu á umræddum 11 veðskuldabréfum. Þá hafi stefndi ráðist í innheimtuaðgerðir á grundvelli framangreindra veðskuldabréfa án þess að taka tillit til ofangreindra innborgana, þannig að allar greiðsluáskoranir og beiðnir um nauðungarsölu hafi verið með rangan útreikning á kröfu. Þá hafi stefndi ráðist í innheimtuaðgerðir á hverju skuldabréfi fyrir sig í stað þess að ráðstafa innborgunum þannig að sem fæst veðskuldabréfa væru í vanskilum. Einnig er byggt á því að stefndi hafi ekki sameinað innheimtu hinna samhljóða veðskuldabréfa þannig að eitt innheimtumál væri rekið í stað 10 innheimtumála og aukið þannig allan kostnað við innheimtu kröfunnar.

            Stefnandi byggir á því að stefndi hafi beðið um uppboð þrátt fyrir að hann hafi vitað að stefnandi hafi ekki verið í vanskilum með veðskuldabréfin og hafði þegar ofgreitt ríflega. Hafi einhver vanskil verið á þeim tíma hefðu réttar greiðsluáskoranir borið tilætlaðan árangur og stefnandi hefði greitt upp ætluð vanskil. Ekkert tilefni hafi verið til að krefjast nauðungarsölu og hafi stefndi gengið mun lengra en efni hafi staðið til á þeim tíma. Hafi aðgerðir stefnda leitt til stórvægilegs tjóns fyrir stefnanda.

            Stefnandi byggir einnig á tilskipun um áritun afborgana á skuldabréf frá 9. febrúar 1798 og jafnframt að stefnda hafi borið að gæta að trúnaðar- og tillitsskyldu gagnvart gagnaðila sínum. Hafi borið að sýna þá sanngjörnu tillitssemi og góða viðskiptahætti að færa allar innborganir inn á veðskuldabréfin, klára gjalddaga á bréfunum þannig að hagstæðast væri fyrir stefnanda og að öll veðskuldabréfin væru ekki í vanskilum í einu, senda réttar greiðsluáskoranir og réttar beiðnir um nauðungarsölu. Allar aðgerðir stefnda hafi verið til þess fallnar að rugla og þvæla málið fyrir stefnanda og hann hafi með engu móti getað fengið réttar og áreiðanlegar upplýsingar um skuldastöðu sína.

            Þá hafi stefnda borið að haga innheimtuaðgerðum sínum þannig að þær hefðu leitt til sem minnsta tjóns fyrir stefnanda, bæði fjárhagslegs og með tilliti til röskunar á starfsemi. Stofnað hafi verið sér mál fyrir hvert veðskuldabréf sem gert hafi það að verkum að innheimtukostnaður hafi farið úr hófi fram og náð þeim hæðum að stefnandi hafi ekki getað brugðist við innheimtuaðgerðum stefnda. Stefnandi mótmælir því að stefndi hafi átt rétt á skaðabótum vegna innheimtukostnaðar, hafi einhver vanskil verið myndi réttmæt krafa aðeins geta verið lítið brot af umkröfðum kostnaði. Stefnandi vísar til meginreglu 24. gr. lögmannalaga og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 91/1991 eða þeirrar meginreglu sem leiða megi af henni. Lögmannsþóknun skuli vera hæfileg, en svo hafi ekki verið í þessu tilviki.

            Stefnandi byggir á því til vara að brotið hafi verið gegn almennu skaðabótareglunni en ljóst sé að stefndi hafi bakað sér skaðabótaábyrgð með saknæmum og ólögmætum hætti með því að hafa ítrekað gengið að stefnanda með því að krefjast nauðungarsölu á grundvelli rangs útreiknings vegna þess að innborganir hafi ekki verið rétt tilgreindar og skuldir stefnanda hafi aldrei legið fyrir með þeim hætti að stefnandi gæti brugðist við. Þegar seinna uppboðsferlið hafi farið af stað hafi legið fyrir að stefnandi hafði ofgreitt inn á veðskuldabréfin og ekkert tilefni hafi verið til innheimtuaðgerða. Hafi stefndi því með saknæmum hætti bakað stefnanda tjón með því að brjóta á öllum reglum og rétti stefnanda og þannig hafi stefnandi misst jörð sína að ósekju. Þess er krafist að stefnandi verði eins settur og ef rétt hefði verið staðið að innheimtuaðgerðum af hálfu stefnda. Þá liggur fyrir að stefndi hafi brotið almenna reglu skaðabótaréttar um að aðilum beri að draga úr tjóni sínu, bæði að því er varðar innheimtukostnað og lögbundnar skaðabætur eins og dráttarvexti.

            Stefnandi tíundar tjón sitt í fjórum liðum. Í fyrsta lagi hafi hann við nauðungarsöluna misst starfsstöð sína og allan rekstur, en stefnandi hafi rekið hestamiðstöð og hrossarækt á jörðinni og hafi legið fyrir leyfi til reksturs reiðskóla á framhaldsskólastigi. Hafi hann því orðið fyrir töluverðu tekjutapi og framtíðartekjum af rekstri skóla og ferðaþjónustu. Hann hafi einnig tapað háum fjárhæðum sem hann hafi lagt í reksturinn í von um framtíðarhagnað. Í öðru lagi hafi nauðungarsalan kallað á mikla og kostnaðarsama flutninga, en starfsemi stefnanda hafi verið undir þaki, u.þ.b. 4000 m². Í þriðja lagi hafi fasteignin verið seld á nauðungarsölu þann 27. ágúst 2009 á kr. 41.204.950, en verðmat á eigninni í nóvember 2007 hafi verið kr. 362.000.000. Í fjórða lagi telur stefnandi að tjón sitt megi reikna út frá enduröflunarverði, til vara stofnkostnaði en til þrautavara miðað við markaðsverð. Samkvæmt matsgerð Inga Tryggvasonar hdl. frá maí 2013 sé enduröflunarverð stefnanda um kr. 341.800.000 sem hann telur að miða eigi við. Samkvæmt samningi milli stefnanda og stefnda frá 2004 hafi stefndi verið meðvitaður um að tilgangur með uppbyggingu Ingólfshvols hafi verið rekstur reiðskóla og ferðaþjónustu. Slík eign sé ekki til á markaði og þyrfti því að endurbyggja sambærilega aðstöðu í næsta nágrenni til að stefnandi geti talist jafnsettur.

            Stefnandi byggir málskostnaðarkröfu sína á XXI. kafla laga nr. 91/1991, sérstaklega 129. gr. og 130. gr.

Málsástæður og lagarök stefnda.

             Stefndi byggir á því að stefnandi hafi freistað þess að fá nauðungarsöluna á jörðinni Ingólfshvoli þann 27. ágúst 2009 ógilta á grundvelli 1. mgr. 80. gr. laga nr. 90/1991, en kröfum hans hafi verið vísað frá dómi ex officio, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 614/2009. Frestur hans til þess að fara með þá kröfu að nýju fyrir dóm sé löngu liðinn. Stefnandi leiti nú eftir viðurkenningu dóms á því að stefndi beri að svara sér skaðabótum vegna þess að hann  hafi knúið fram nauðungarsölu með ólögmætum hætti á grundvelli heimildar í 3. mgr. 80. gr. sömu laga. Virðist stefnandi byggja á því að stefndi hafi ekki mátt óska eftir nauðungarsölunni þann 19. ágúst 2008 vegna þess að stefnandi hafi þá verið í skilum með skuldir sínar samkvæmt veðskuldabréfunum eða að stefnda hafi borið að afturkalla beiðnir sínar á síðara tímamarki vegna greiðslna frá stefnanda. Stefndi telur stefnanda byggja málatilbúnað sinn á röngum grundvelli vegna þess að hann gangi út frá því að gjalddagar af veðskuldabréfunum sem fallið hafi í gjalddaga á árunum 2004 og 2005 hafi verið uppgerðir þegar hann hafi byrjað að inna af hendi greiðslur þær sem tilgreindar séu á dómskjölum 9-14 þann 30. desember 2005. Því sé síðan haldið fram að stefnandi hafi byrjað að greiða fyrirfram vegna gjalddaga veðskuldabréfanna á árinu 2006, hálfu ári áður en þau hafi fallið í gjalddaga. Stefndi mótmælir þessu harðlega og kveður stefnanda ekki hafa lokið við að greiða gjaldfallnar afborganir veðskuldabréfanna vegna áranna 2004 og 2005 fyrr en 17. ágúst 2007. Á þeim degi hafi gjalddagar ársins 2006 hins vegar verið ógreiddir og gjalddagar ársins 2007 nýlega fallnir í gjalddaga. Hafi stefnda því verið rétt á þessum tímapunkti að gjaldfella eftirstöðvar veðskuldabréfanna og krefjast nauðungarsölu á veðandlaginu skv. heimild í veðskuldabréfunum. Stefndi telur að leggja verði til grundvallar þá frásögn hans um ráðstöfun innborgana og að stefnandi hafi þann 17. ágúst 2007 staðið í skuld við stefnda að fjárhæð 5.704.372 krónur vegna gjalddaga ársins 2005, þrátt fyrir að hafa greitt 22.400.000 krónur vegna gjalddaga áranna 2004 og 2005. Geti því undir engum kringumstæðum verið réttmætt að fallast á þann málatilbúnað stefnanda að ráðstafa beri þeim sömu fjármunum líka inn á afborganir frá og með árinu 2006. Stefndi vísar til heimilda í veðskuldabréfunum til að reikna hæstu lögleyfðu dráttarvexti af vanskilum.

            Stefndi byggir á því að þar sem gjaldfelling veðskulda stefnanda hafi verið lögmæt af hálfu stefnda þegar ákvöð um gjaldfellinguna hafi verið send stefnanda með greiðsluáskorun 1. október 2007, komi ekki til greina að fallist verði á þann málsgrundvöll stefnanda að stefndi hafi knúið fram nauðungarsölu með ólögmætum hætti. Sú háttsemi stefnda að knýja síðan fram nauðungarsölu á  jörðinni 27. ágúst 2009 og fá henni afsalað til sín í kjölfarið hafi að sama skapi verið lögmæt og geti engu breytt um mat á því lögmæti þótt stefnandi hafi nokkrum sinnum greitt inn á skuldir sínar eftir að þær hafi verið gjaldfelldar, enda hafi stefndi aldrei samþykkt beiðni stefnanda um að mega koma skuldabréfunum í skil eftir gjaldfellingu þeirra. Bresti því allan grundvöll undir málatilbúnað stefnanda og beri því að sýkna stefnda af öllum kröfum hans.

            Þá telur stefndi að stefnanda hafi ekki tekist að sýna fram á að hann hafi raunverulega orðið fyrir tjóni af völdum stefnda, enda hafi dómkvaddur matsmaður þvert á móti komist að þeirri niðurstöðu að markaðsverð Ingólfshvols hafi numið 95.000.000 króna í ágúst 2009, en það hafi verið langt undir fjárhæð skulda stefnanda á uppboðsdeginum. Sé málatilbúnaður stefnanda því andstæður meginreglunni um að bæta beri raunverulegt tjón en ekki að ætlaður tjónþoli eigi að verða betur settur með bætur en hann hafi verið fyrir ætlaðan tjónatburð.

            Stefndi mótmælir rökstuðningi stefnanda um það tjón sem hann telur sig hafa orðið fyrir. Telur stefndi rangt að stefnandi hafi orðið fyrir rekstrartapi og framtíðartekjum af rekstri skóla og ferðaþjónustu og bendir á að aðrir lögaðilar en stefnandi séu tilgreindir rekstraraðilar í framlögðum dómskjölum. Þá beri gögnin með sér að þau séu byggð á upplýsingum forráðamanna þessara lögaðila og geri skýrsluhöfundar fyrirvara um að áætlanir gefi rétta mynd af stöðu og framtíð félaganna. Þá er mótmælt sem ósannaðri fullyrðingu stefnanda um að hann hafi tapað háum fjárhæðum sem hann hafi lagt í reksturinn í von um framtíðarhagnað. Þá mótmælir stefndi því að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni vegna flutninga á starfsemi og séu engin gögn lögð fram sem sýni þetta. Þá mótmælir stefndi því að ætlað tjón stefnanda eigi að reikna út frá ætluðu verðmæti eignanna skv. dómskjali nr. 18 og bendir á að dómkvaddur matsmaður hafi metið allt annað markaðsverð eignanna á uppboðsdegi. Stefndi mótmælir því einnig að ætlað tjón stefnanda beri að reikna út frá enduröflunarverði eða stofnkostnaði, enda hafi stefnandi ekki sýnt fram á hvernig slíkt verðmat eigi að geta orðið grundvöllur bóta. Þá mótmælir hann hugleiðingum um að þýðingu geti haft í þessu sambandi að málsaðilar hafi á árinu 2004 gert með sér samning og að stefnda hafi verið kunnugt um áætlanir um uppbyggingu á Ingólfshvoli.

            Stefndi mótmælir því að hann hafi staðið að innheimtu veðskuldabréfa sinna á ósanngjarnan eða saknæman hátt og að hann hafi brotið gegn almennu reglunni um trúnaðar- og tillitsskyldu við gagnaðila. Þá verði saknæmi ekki leitt af því að upplýsingar um einstakar greiðslur hafi ekki verið færðar inn á skuldabréfin. Verði að líta til þess að hvert veðskuldabréfanna marki samkvæmt efni sínu sjálfstætt réttarsamband milli málsaðilanna og hafi sjálfstæða gjaldfellingar- og nauðungarsöluheimild. Þá mótmælir stefndi því að þóknun lögmanns vegna innheimtu hvers skuldabréfs hafi verið úr hófi og segir ljóst að sú fjárhæð hafi engin áhrif haft á getu stefnanda til að greiða skuldirnar.

            Stefndi byggir á því að stefnandi hafi í reynd viðurkennt útreikninga stefnda á stöðu skulda samkvæmt veðskuldabréfunum á hverjum tíma og kröfu hans til innheimtulauna.  Stefnandi hafi engar athugasemdir gert við útreikning stefnda heldur oft og iðulega leitað eftir frestun á fyrirtökum nauðungarsölumála gegn innborgunum án þess að minnast einu orði á að hann teldi útreikninga ranga, áskilda innheimtuþóknun úr hófi eða að veðskuldirnar væru raunverulega í skilum. Þá hafi stefnandi iðulega freistað þess að fá samþykki stefnda fyrir því að hann mætti greiða veðskuldirnar í skil, þrátt fyrir gjaldfellingu þeirra. Hafi stefndi því mátt treysta því að stefnandi samþykkti útreikninga stefnda á stöðu skuldanna á hverjum tíma. Stefndi mótmælir þeirri fullyrðingu stefnanda að hann hafi aldrei gefið fullnægjandi upplýsingar um stöðu skuldanna og segir greiðsluáskoranir og nauðungarsölubeiðnir sýna svo ekki verði um villst nákvæma stöðu hvers skuldabréfs á þar greindum dögum. Þá hafi stefnanda verið sendar innborgunarkvittanir í hvert sinn sem hann hafi greitt inn á skuldir sínar.

            Stefndi byggir einnig á því að skaðabótakrafa stefnanda sé fyrnd, sbr. 9. gr. laga nr. 150/2007. Beri að telja fyrningarfrest frá því er hamar hafi fallið til samþykkis á boði stefnda á uppboðsdegi 27. ágúst 2009, en málið sé ekki höfðað fyrr en röskum fjórum árum síðar.

            Loks byggir stefndi á því að stefnandi hafi sýnt af sér slíkt tómlæti að sýkna beri hann af þeim sökum. Málið sé höfðað röskum fjórum árum eftir að hamar hafi fallið og þá hafi stefnandi aldrei hreyft andmælum við útreikningum stefnda um stöðu skulda stefnanda á hverjum tíma. Hafi stefndi ekki fengið vitneskju um að stefnandi væri ekki sáttur við útreikninga stefnda fyrr en fulltrúi sýslumanns hafi upplýst stefnda um að stefnandi hefði krafist ógildingar á nauðungarsölunni þann 24. september 2009, eða liðlega tveimur árum frá því löginnheimta hófst. Sé því ljóst að tómlæti stefnanda við málatilbúnað sinn hafi skapað það traust hjá stefnda að stefnandi myndi ekki aðhafast neitt í málinu og hafi í því sambandi verið sérstaklega brýnt fyrir stefnanda að höfða mál án undandráttar eftir að kröfu hans um ógildingu nauðungarsölunnar hafði verið hafnað með dómi Hæstaréttar í máli nr. 614/2009.

Niðurstaða.

            Í þessum þætti málsins greinir aðila á um það hvort vísa beri málinu frá dómi á þeim grundvelli að frestur til málshöfðunar sé liðinn.

            Stefnandi byggir í máli þessu kröfur sínar á því að stefnda beri að bæta honum tjón sem hlotist hafi af þeirri háttsemi stefnda að knýja fram nauðungarsölu á eign stefnanda með ólögmætum hætti. Í XV. kafla laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu er fjallað um ábyrgð á nauðungarsölu. Samkvæmt 1. mgr. 86. gr. laganna skal gerðarbeiðandi bæta allt tjón sem aðrir hafa beðið hafi hann krafist nauðungarsölu sem síðar er leitt í ljós að skilyrði skorti til. Hafi nauðungarsala annars farið fram með þeim hætti að hún hafi eða gæti sætt ógildingu, á sá sem orðið  hefur fyrir tjóni af henni rétt til bóta úr hendi gerðarbeiðanda eftir almennum skaðabótareglum, sbr. 2. mgr. 86. gr. laganna. Samkvæmt 3. mgr. sömu lagagreinar má dæma skaðabætur skv. 1. eða 2. mgr. eftir álitum ef ljóst þykir að fjárhagslegt tjón hafi orðið en ekki er unnt að sanna fjárhæð þess. Þá er í 1. mgr. 87. gr. laganna ákvæði þess efnis að þeim sem eigi tilkall til bóta skv. 86. gr. sé  heimilt að beina málsón til heimtu þeirra að ríkinu óskipt með gerðarbeiðanda ef sá sem hafði framkvæmd nauðungarsölunnar með höndum sýndi af sér gáleysi við þá athöfn sem leiddi til tjóns. Í 88. gr. laganna segir að mál til heimtu bóta skv. 86. gr., sbr. 1. mgr. 87. gr., beri að  höfða fyrir héraðsdómi áður en sex mánuðir eru liðnir frá því sá sem hefur orðið fyrir tjóni átti þess fyrst kost að hafa kröfu sína uppi. Þessi frestur var upphaflega þrír mánuðir en hann var lengdur í sex mánuði með 3. gr. laga nr. 72/2012. Stefnandi byggir kröfur sínar á því að stefndi hafi með ólögmætum hætti knúið fram nauðungarsölu á jörðinni Ingólfshvoli í Ölfusi þann 27. ágúst 2009 og fengið jörðinni afsalað til sín þann 29. janúar 2010 á grundvelli sölunnar og krefst stefnandi þess að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefnda af þessum sökum. Samkvæmt framansögðu byggir stefnandi á því að stefndi sé skaðabótaskyldur þar sem ekki hafi verið skilyrði fyrir nauðungarsölu sem farið hafi fram að hans beiðni. Er því um að ræða sambærilegar aðstæður og lýst er í 86. gr. laga nr. 90/1991 og verður því ekki annað séð en að ætluð bótaábyrgð stefnda byggi alfarið á sérreglum laganna um ábyrgð á nauðungarsölu. Umrædd nauðungarsala fór fram þann 27. ágúst 2009 en mál þetta var ekki höfðað fyrr en með birtingu stefnu þann 10. september 2013. Málshöfðunarfrestur skv. 88. gr. laganna var því löngu liðinn þegar mál þetta var höfðað. Verður því ekki hjá því komist að vísa málinu frá dómi.

            Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.

            Hjörtur O. Aðalsteinsson dómstjóri kvað upp úrskurðinn. 

ÚRSKURÐARORÐ:

            Máli þessu er vísað frá dómi.

            Málskostnaður fellur niður.