Hæstiréttur íslands

Mál nr. 72/2003


Lykilorð

  • Kærumál
  • Málshöfðunarfrestur
  • Frávísunarúrskurður felldur úr gildi


Fimmtudaginn 6

 

Fimmtudaginn 6. mars 2003.

Nr. 72/2003.

Hvalur hf.

(Haraldur Blöndal hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Einar Karl Hallvarðsson hrl.)

 

Kærumál. Málshöfðunarfrestur. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.

Með úrskurði sérstakrar úrskurðarnefndar var lagt á H sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla samkvæmt ákvæðum laga nr. 37/1992 um það efni. Barst H úrskurðurinn 3. júlí 2001, en lögmanni hans 18. sama mánaðar. H höfðaði mál gegn íslenska ríkinu 5. júní 2002 og krafðist þess aðallega að úrskurðurinn yrði felldur úr gildi og ríkinu gert að endurgreiða sér fjárhæðina. Með hinum kærða úrskurði varð héraðsdómari við kröfu ríkisins um frávísun málsins á þeirri forsendu að H hafi ekki höfðað það innan eins mánaðar frests, sem mælt er fyrir um í lögum nr. 37/1992, frá því að úrskurður gekk um kæru hans fyrir áðurgreindri nefnd. Varakrafa H, um að álagt gjald yrði lækkað, var að nokkru studd við röksemdir varðandi andvirði aflans, sem hann veiddi umfram heimild, en annars lutu málsástæður hans hvorki að magni þessa afla né andvirði hans. Að virtum dómi Hæstaréttar í máli nr. 73/2000, varð málsókn H ekki talin háð umræddu frestsákvæði laga nr. 37/1992 að því leyti, sem hún varðaði ekki ágreining um magn eða andvirði umframaflans. Því til samræmis var hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. febrúar 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 21. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. janúar 2003, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.

Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.

I.

Eins og greinir í hinum kærða úrskurði á málið rætur að rekja til þess að sóknaraðili gerði út á árinu 2000 fiskiskip sitt Venus HF 519 til veiða meðal annars á úthafskarfa, en af honum hafði skipið þá heimild til að veiða tæplega 2.412 tonn. Fiskistofa tilkynnti sóknaraðila með bréfi 11. janúar 2001 að veiðar skipsins á þessari fisktegund hafi á fyrrnefndu ári farið 61.856 kg fram úr aflamarki og var þess jafnframt getið að andvirði umframaflans væri talið alls 4.455.706 krónur. Sóknaraðila var gefinn kostur á að gera athugasemdir innan tiltekins frests. Að undangengnum frekari bréfaskiptum við sóknaraðila tilkynnti Fiskistofa honum 5. mars 2001 um álagningu sérstaks gjalds vegna ólögmæts sjávarafla samkvæmt ákvæðum laga nr. 37/1992 um það efni. Var fjárhæð gjaldsins sú sama og áðurgreint andvirði umframafla samkvæmt ákvörðun Fiskistofu. Sóknaraðili kærði þessa álagningu 18. mars 2001 til Fiskistofu, sem kvað upp úrskurð um kæruefnið 29. sama mánaðar og staðfesti hana. Greiddi sóknaraðili 4. apríl 2001 umræddar 4.455.706 krónur með fyrirvara um réttmæti álagningar gjaldsins og áskilnaði um rétt til endurheimtu fjárins. Í framhaldi af því skaut sóknaraðili 11. apríl 2001 úrskurði Fiskistofu til sérstakrar úrskurðarnefndar, sem starfar samkvæmt 6. gr. laga nr. 37/1992. Með úrskurði 29. júní 2001 staðfesti nefndin úrskurð Fiskistofu. Fyrir liggur að sóknaraðila barst úrskurðurinn 3. júlí 2001, en lögmanni hans 18. sama mánaðar.

Sóknaraðili höfðaði mál þetta 5. júní 2002 og krafðist þess að áðurnefndur úrskurður frá 29. júní 2001 yrði felldur úr gildi og varnaraðila gert að endurgreiða sér 4.455.706 krónur með nánar tilgreindum vöxtum. Til vara krafðist sóknaraðili þess að álagt gjald yrði lækkað. Með hinum kærða úrskurði varð héraðsdómari við kröfu varnaraðila um frávísun málsins á þeirri forsendu að sóknaraðili hafi ekki höfðað það innan eins mánaðar frests, sem mælt er fyrir um í 4. mgr. 10. gr. laga nr. 37/1992, frá því að úrskurður gekk um kæru hans fyrir áðurgreindri nefnd samkvæmt 6. gr. sömu laga.

II.

Samkvæmt héraðsdómsstefnu reisir sóknaraðila málsókn þessa aðallega á því að fyrrgreind álagning Fiskistofu 5. mars 2001 styðjist ekki við viðhlítandi lagaheimild. Ákvæði laga nr. 37/1992 eigi þannig ekki við um úthafskarfaveiðar hans, því þær hafi farið fram undir alþjóðlegri stjórn Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar, en innan hennar eigi að gera samkomulag um veiðarnar. Liggi ekkert fyrir í málinu um hvort slíkt samkomulag hafi verið gert varðandi úthafskarfaveiðar á árinu 2000 eða hvers efnis það hafi verið, hvort Íslendingar hafi þá veitt meira en það, sem þeim var ætlað, eða aðrar þjóðir nýtt aflaheimildir sínar til fulls. Ekkert liggi heldur fyrir um hvort skip sóknaraðila hafi veitt umframafla sinn innan íslenskrar fiskveiðilögsögu eða utan hennar. Í annan stað ber sóknaraðili fyrir sig að brotið sé gegn jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar með því að þeir, sem leggi stund á úthafskarfaveiðar, megi ekki flytja ónýttar aflaheimildir milli ára eins og almennt megi gera við aðrar veiðar samkvæmt 10. gr. laga nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða. Varakröfu sína reisir sóknaraðili á því að álagning Fiskistofu hafi tekið mið af afurðaverði, en ekki verðmæti þess afla, sem hann hafi veitt umfram heimild. Eigi álagningin því að sæta lækkun á nánar tilteknum grunni. Loks ber sóknaraðili því við að afli skips hans umfram heimild hafi verið svo óverulegur að ekki geti átt við að leggja á hann gjald af þessum sökum, enda útilokað að nýta aflaheimildina án þess að eiga á hættu að lítils háttar umframafli geti fylgt með.

Eins og ráðið verður af framansögðu er varakrafa sóknaraðila að nokkru studd við röksemdir varðandi andvirði aflans, sem hann veiddi umfram heimild, en annars lúta málsástæður hans hvorki að magni þessa afla né andvirði hans. Að virtum dómi Hæstaréttar 15. júní 2000 í máli nr. 73/2000, sem birtist í dómasafni þess árs á bls. 2315, verður málsókn sóknaraðila ekki talin háð frestsákvæði 4. mgr. 10. gr. laga nr. 37/1992 að því leyti, sem hún varðar ekki ágreining um magn eða andvirði umframaflans. Því til samræmis er óhjákvæmilegt að fella hinn kærða úrskurð úr gildi og leggja fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.

Með því að sóknaraðili hefur ekki krafist fyrir Hæstarétti málskostnaðar í héraði eða kærumálskostnaðar verður hvor aðili látinn bera sinn kostnað af þessum þætti málsins á báðum dómstigum.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.

Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. janúar 2003.

 

I

                Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar fyrr í dag, var höfðað fyrir dómþinginu af Hvali hf., kt. 650169-6549, Reykjavíkurvegi 46-48, Hafnarfirði, á hendur íslenska ríkinu.

                Dómkröfur stefnanda voru þær aðallega, að úrskurður úrskurðarnefndar samkvæmt 6. gr. laga nr. 37/1992, hinn 29. júní 2001, í málinu Hvalur hf. gegn Fiskistofu, skuli felldur úr gildi, og Fiskistofa dæmd til að greiða stefnanda 4.455.706 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. maí 2001 til 1. júlí 2001, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.  Til vara er þess krafist, að álagt gjald verði úrskurðað mun lægra.  Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda.

                Dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að málinu verði vísað frá dómi og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað samkvæmt mati dómsins.  Til vara krefst stefndi þess, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað samkvæmt mati dómsins.  Til þrautavara krefst stefndi þess, að fjárkröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar og að málskostnaður verði látinn niður falla.

                Hinn 27. nóvember fór fram munnlegur málflutningur um frávísunarkröfu stefnda, en málið var endurupptekið og flutt að nýju í dag og tekið til úrskurðar að honum loknum.  Er einungis frávísunarþáttur málsins hér til úrlausnar.  Dómkröfur stefnanda í þessum þætti málsins eru þær, að frávísunarkröfu verði hrundið, en auk þess krefst hann málskostnaðar.

II

                Málavextir eru þeir, að stefnandi gerði út skuttogarann Venus HF 519.  Á árinu 2000 hafði stefnandi leyfi til þess að veiða 2.411.995 kg. af úthafskarfa fiskveiðiárið 1. janúar 2000 til 31. desember 2000 samkvæmt útgefnu veiðileyfi Fiskistofu, dagsettu 23. mars 2000.  Með bréfi, dagsettu 11. janúar 2001, tilkynnti Fiskistofa stefnanda, að veiði á úthafskarfa fyrir þetta tímabil hefði verið 61.856 kg umfram heimildir.  Fiskistofa taldi, að þessi umframafli sætti álagningu gjalds samkvæmt ákvæðum laga nr. 37/1992.  Var umframafli tilgreindur 61.865 kg og andvirði hans væri 4.455.706 krónur.  Stefnanda var veittur frestur til þess að tjá sig um málið og boðaða álagningu til 19. janúar 2001.  Í framhaldi af því urðu nokkur bréfaskipti milli stefnanda og Fiskistofu.

                Með bréfi, dagsettu 5. mars 2001, tilkynnti Fiskistofa stefnanda, að lagt hefði verið á hann sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla samtals 4.455.706 krónur.  Byggði niðurstaða Fiskistofu á því, að 61.856 kg teldist vera ólögmætur sjávarafli, sbr. III. kafla laga nr. 151/1996, IV. kafla laga nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, og 7. gr. reglugerðar nr. 175/2000, um veiðar úr úthafskarfastofninum árið 2000, sbr. einnig V. kafla í leyfisbréfi til veiða á úthafskarfa árið 2000.  Gjald skyldi lagt á þann sem gert hefði út skip, sem veitt hefði gjaldskyldan afla, sbr. 2. mgr. 1. gr. og 1. mgr. 2. gr. laga nr. 37/1992, og að gjaldið skyldi nema andvirði aflans með vísan til 1. mgr. 3. gr. sömu laga.  Hinn 18. mars 2001 kærði stefnandi þessa álagningu til Fiskistofu.  Með úrskurði, dagsettum 29. mars 2001, hafnaði Fiskistofa kæru stefnanda og í kjölfarið greiddi stefnandi álagt gjald með fyrirvara um réttmæti þess.

                Hinn 11. apríl 2001 kærði stefnandi úrskurð Fiskistofu til úrskurðarnefndar samkvæmt 6. gr. laga nr. 37/1992.  Kvað nefndin upp úrskurð í því máli hinn 29. júní 2001.

                Samkvæmt gögnum málsins var umræddur úrskurður sendur til stefnanda og lögmanns hans með ábyrgðarbréfi og voru bréfin móttekin af stefnanda hinn 3. júlí 2001 og af lögmanni hans hinn 18. júlí s.á.

                Hinn 5. júní 2002 var stefna í máli þessu birt lögmanni stefnda, þar sem hann lýsti yfir að fallið væri frá stefnufresti.  Málið var þingfest hinn 6. júní sl.

III

                Stefndi byggir aðalkröfu sína, um frávísun málsins, á því, að stefnandi hafi ekki höfðað mál þetta fyrr en með stefnu birtri 5. júní sl.  Hafi þá verið liðinn málshöfðunarfrestur sá er mælt er fyrir um í 4. mgr. 10. gr. laga nr. 37/1992.  Af þeim sökum beri að vísa málinu frá dómi.  Breyti engu um, þótt ekki hafi verið getið um málshöfðunarfrest í úrskurði úrskurðarnefndarinnar.  Hvorki aðilar málsins né úrskurðarnefndin hafi vald til að hafa áhrif á þann málshöfðunarfrest og víkja þessu ákvæði laganna til hliðar.  Þá hafi ekki verið skylt að geta um það í úrskurði, hver málshöfðunarfrestur væri, þar sem um kærumál hafi verið að ræða.  Gildi 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, um form og efni úrskurða æðra stjórnvalds í kærumáli, en ekki ákvæði 2. mgr. 20. gr. laganna.

                Stefndi byggir á því, að 4. mgr. 10. gr. laga nr. 37/1992, sé í fullu samræmi við 60. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, og mannréttindasáttmála Evrópu og vísar í því sambandi til Hæstaréttardóma frá 1995, bls. 2879, 1998, bls. 829, og frá 22. apríl 2002 í málinu nr. 156/2001.  Varhugavert sé að telja gjaldtöku vegna umframveiði refsingu eða refsikennd viðurlög, heldur miði hún að því, að aðili geti ekki haft beinan hagnað af veiðum umfram aflaheimildir og réttlætist af brýnni nauðsyn á verndun fiskistofna.  Gjaldtakan fari fram án tillits til refsinæmis verknaðar og miðist við verðmæti þess afla sem umfram sé leyfðrar aflaheimildar skips.  Í málinu geri stefnandi kröfu um ógildingu úrskurðar úrskurðarnefndar samkvæmt 6. gr. laga nr. 37/1992 og til endurgreiðslu gjalds, sem lagt hafi verið á samkvæmt 1. gr. laganna.  Ákvæði 4. mgr. 10. gr. laganna taki skýrlega til þess sakarefnis sem dómkröfur stefnanda geymi og málatilbúnaður að öðru leyti.  Hinn lögákveðni 30 daga málshöfðunarfrestur hafi verið liðinn löngu áður en málið hafi verið höfðað og beri því að vísa málinu frá.

                Stefnandi byggir kröfu sína, um að hrinda beri kröfu um frávísun málsins, á því, að samkvæmt 60. gr. stjórnarskrárinnar nr. 3/1944 skeri dómstólar úr um embættismörk yfirvalda.  Þetta ákvæði hafi iðulega verið túlkað svo, að menn eigi rétt til þess að bera mál sín undir dómstóla.  Ekki síst eigi það við, þegar verið sé að leggja á menn refsingar eða refsiviðurlög.  Það stríði gegn stjórnarskránni að setja tímamörk á það, þegar menn vilji hnekkja refsingum, refsiviðurlögum eða refsikenndum viðurlögum, sbr. og I. kafla mannréttindasáttmála Evrópu, einkum 6. gr.   Málshöfðunarfrestur 4. mgr. 10. gr. laga nr.37/1999 brjóti því í bága við 60. gr. stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu og sé að engu hafandi.

                Einnig byggir stefnandi á því, að úrskurður nefndar samkvæmt 6. gr. laga nr. 37/1992 sé haldinn þeim alvarlega annmarka, að ekki sé getið um hinn stutta málshöfðunarfrest, en skýr fyrirmæli séu um það í 3. tl. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að veita skuli leiðbeiningar um lögbundna málshöfðunarfresti.  Þar sem þessa hafi ekki verið gætt, leiði það til þess, að málshöfðunarfresturinn hafi ekki gildi gagnvart stefnanda.  Þá beri að líta til þess, að úrskurðurinn hafi verið kveðinn upp degi áður en rétthlé hafi hafist og einnig þess, að lögmaður stefnanda hafi verið erlendis frá 8. júní 2002 til 8. júlí 2002, en greinargerð Fiskistofu hafi verið rituð 6. júní 2002.  Lögmaður stefnanda hafi því ekki getað gert athugasemdir við hana, en lögmaðurinn hafi talið að flytja ætti málið munnlega fyrir nefndinni, eins og fordæmi séu til.  Aðilar hafi hins vegar aldrei komið fyrir nefndina.  Byggir stefnandi á því, að þetta eigi að leiða til ógildingar málsmeðferðarinnar.  Einnig vísar stefnandi til dóms Hæstaréttar Íslands hinn 15. júní 2000, í málinu: Íslenska ríkið gegn Vinnslustöðinni h/f. 

V

                Eins og áður greinir gaf Fiskistofa út leyfi til handa stefnanda til veiða á úthafskarfa árið 2000.  Var leyfið gefið út á grundvelli laga nr. 151/1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, laga nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, reglugerðar nr. 175/2000, um veiðar úr úthafskarfastofninum árið 2000, með síðari breytingum, og reglugerðar nr. 447/1999, um veiðieftirlit á samningssvæði Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar (NEAFC).  Samkvæmt leyfinu voru veiðar umfram aflamark skips í úthafskarfa óheimilar og tekið fram að sérstakt gjald vegna slíks afla yrði lagt á, samkvæmt ákvæðum laga nr. 37/1992.  Samkvæmt  úrskurði Fiskistofu, sem staðfestur var af úrskurðarnefnd samkvæmt 6. gr. laga nr. 37/1992, var slíkt gjald lagt á stefnanda.  Með málssókn þessari hyggst stefnandi fá þann úrskurð felldan úr gildi.  Ágreiningur máls þessa lýtur að skyldu stefnanda til greiðslu gjalds samkvæmt 1. gr. laga nr. 37/1992.  

                Stefnandi í máli þessu byggir kröfu sína um ógildingu úrskurðar úrskurðarnefndar á því, að lög nr. 37/1992 eigi ekki við um veiðar á úthafskarfa, brotið hafi verið gegn jafnræðisreglu með því, að stefnanda hafi ekki verið heimilt að flytja afla milli veiðiára, álagningin væri ekki miðuð við réttar forsendur og að frávik frá veiðum hafi verið óverulegt, en ógerlegt væri að veiða af þeirri nákvæmni, að ekki væri farið út fyrir úthlutað aflamark.  Stefnandi byggði kæru sína til úrskurðarnefndarinnar á sömu málsástæðum, en, eins og áður greinir, hafnaði úrskurðarnefndin öllum þessum málsástæðum stefnanda og staðfesti úrskurð Fiskistofu um álagningu gjaldsins og fjárhæð þess.  Tók úrskurðarnefndin afstöðu til allra þeirra málsástæðna stefnanda í úrskurði sínum.

                Samkvæmt skýrri meginreglu laga er heimilt að bera réttarágreining undir endanlegan úrskurð dómstóla, sbr. 60. gr. stjórnarskrárinnar, svo og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.  Takmörkun á þeim rétti verður að vera skýr og ótvíræð, svo að hún komi til álita.  Samkvæmt lögum nr. 37/1992, um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla, takmarkast þessi réttur af málshöfðunarfresti samkvæmt 4. mgr. 10. gr. laganna, en greinin hljóðar svo: „          Ágreiningur um skyldu til greiðslu gjalds skv. 1. gr. eða um ábyrgð á greiðslu þess má bera undir dómstóla sé það gert innan 30 daga frá uppkvaðningu úrskurðar skv. 6. gr.  Slíkt málsskot frestar ekki fullnustu úrskurðar.”    Ákvæðið er skýrt og ótvírætt um málshöfðunarfrest þann sem þar er mælt fyrir um. 

                Fyrir liggur að úrskurðarnefndin gat ekki um málshöfðunarfrestinn í úrskurði sínum, eins og bar að gera samkvæmt 3. tl. 2. mgr. 20. gr.  stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Þó svo þessa hafi ekki verið gætt verður ekki talið að  leiði eigi til þess, að stefnandi sé ekki bundin af fresti til þess að bera réttarágreining þennan undir dómstóla, eins og gert er í máli þessu, þegar málshöfðunarfrestur er lögmæltur og skýr.  Þá verða væntingar stefnanda um að flytja skyldi málið munnlega fyrir úrskurðarnefndinni, eða árstími sá, sem úrskurður nefndarinnar er kveðinn upp á, ekki þess valdandi, að fyrrgreind lagagrein eigi ekki við um ágreininginn.

                Úrskurður úrskurðarnefndarinnar barst lögmanni stefnanda 18. júlí 2001.  Er mál þetta var höfðað, var því löngu liðinn málshöfðunarfrestur samkvæmt 4. mgr. 10. gr. fyrrgreindra laga.  Enda þótt fallist verði á, að málshöfðunarfrestur laganna sé skammur, verður samkvæmt framansögðu ekki litið fram hjá því, að 4. mgr. 10. gr. laga nr. 37/1992 er afdráttarlaus.  Samkvæmt því ber að vísa málinu frá dómi.

                Samkvæmt þessari niðurstöðu ber, með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, að úrskurða stefnanda til þess að greiða stefnda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 50.000 krónur.

                Hervör Þorvaldsdóttir, héraðsdómari, kvað upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

                Máli þessu er vísað frá dómi.

                Stefnandi, Hvalur hf., greiði stefnda, íslenska ríkinu, 50.000 krónur í málskostnað.