Hæstiréttur íslands

Mál nr. 539/2008


Lykilorð

  • Börn
  • Faðerni
  • Meðlag
  • Áfrýjunarheimild
  • Frávísunarkröfu hafnað


Þriðjudaginn 7

 

Þriðjudaginn 7. apríl 2009.

Nr. 539/2008.

M

(Lára V. Júlíusdóttir hrl.)

gegn

A

(Valborg Þ. Snævarr hrl.)

 

Börn. Faðerni. Meðlag. Áfrýjunarheimild. Frávísunarkröfu hafnað.

A stefndi M og krafðist viðurkenningar á því að M væri faðir hans. Þá gerði hann kröfu um þrefalt lágmarksmeðlag á mánuði til 18 ára aldurs. Undir rekstri málsins fyrir héraðsdómi var gerð mannerfðafræðilega rannsókn sem leiddi meira en 99% líkur að því að M væri faðir A. Féll M þá frá kröfu um sýknu af kröfu A um viðurkenningu á faðerni. Ágreiningur aðila snerist því um fjárhæð meðlagsgreiðslna. Talið var að M hafi ekki glatað rétti til að leita endurskoðunar á ákvæðum héraðsdóms um meðlag þó hann hafi unað við niðurstöðu um faðerni stefnda. Var því hafnað kröfu A um frávísun málsins frá Hæstarétti af þeim sökum. Talið var að ekki væri teljandi munur á högum foreldra A. Ekkert hafi komið fram í málinu um að hann byggi við sérstakar þarfir, sem leiði til óvenjulegra útgjalda varðandi framfærslu hans. Var því talið hæfilegt að M greiddi með A meðlag sem svaraði til tvöfalds lágmarksmeðlags eins og það væri ákveðið af Tryggingastofnun ríkisins hverju sinni.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 3. október 2008 og krefst þess að hann verði aðeins dæmdur til að greiða með stefnda til fullnaðs 18 ára aldurs hans aðallega einfalt en til vara tvöfalt mánaðarlegt lágmarksmeðlag eins og það er ákveðið af Tryggingastofnun ríkisins hverju sinni frá 1. september 2007. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti, en til vara að héraðsdómur verði staðfestur. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem honum hefur verið veitt.

Stefndi, sem er fæddur í [...], höfðaði mál þetta með stefnu 22. janúar 2008 til viðurkenningar á því að áfrýjandi væri faðir hans. Jafnframt krafðist stefndi þess að viðurkennt yrði að áfrýjanda bæri frá 1. september 2007 að greiða með sér meðlag, sem næmi þreföldu lágmarksmeðlagi eins og það væri ákveðið hverju sinni af Tryggingastofnun ríkisins, til fullnaðs 18 ára aldurs stefnda. Áfrýjandi tók til varna í málinu og krafðist aðallega sýknu af báðum kröfum stefnda, en til vara af kröfu hans varðandi meðlag. Undir rekstri málsins fyrir héraðsdómi var gerð mannerfðafræðileg rannsókn, sem leiddi „meira en 99%“ líkur að því að áfrýjandi væri faðir stefnda. Af þeirri ástæðu féll áfrýjandi frá kröfu um sýknu af kröfu stefnda um viðurkenningu á faðerni, en hélt á hinn bóginn til streitu dómkröfu sinni að öðru leyti. Með hinum áfrýjaða dómi voru kröfur stefnda teknar að fullu til greina.

Svo sem ráðið verður af fyrrgreindum dómkröfum áfrýjanda fyrir Hæstarétti snýr málskot hans eingöngu að þeirri niðurstöðu héraðsdóms að honum beri að greiða með stefnda þrefalt lágmarksmeðlag. Með höfðun málsins neytti stefndi heimildar í 6. mgr. 57. gr. barnalaga nr. 76/2003 til að leita í senn dóms um faðerni sitt og viðurkenningu á rétti sínum til tiltekins meðlags úr hendi áfrýjanda. Úr því að stefndi kaus að fara þá leið getur áfrýjandi ekki glatað rétti til að leita endurskoðunar á ákvæðum héraðsdóms um meðlag þótt hann uni við niðurstöðu um faðerni stefnda. Samkvæmt því verður hafnað aðalkröfu stefnda um að málinu verði vísað frá Hæstarétti.

Undir rekstri málsins fyrir Hæstarétti hefur áfrýjandi lagt fram frekari gögn um tekjur sínar og efnahag. Þau gögn leiða í ljós að tekjur hans á undanförnum árum hafa verið með þeim hætti, sem lagt var til grundvallar í niðurstöðu hins áfrýjaða dóms, en á árinu 2007 munu þær hafa numið tæpum 8.500.000 krónum. Samkvæmt skattframtali áfrýjanda og maka hans voru eignir þeirra í árslok 2007 samtals að andvirði um 29.000.000 krónur, að frátöldum hlutabréfum sem ætla verður að hafi takmarkað verðgildi nú, en skuldir um 8.500.000 krónur. Tekjur móður stefnda á árinu 2007 voru samkvæmt skattframtali hennar rúmlega 6.500.000 krónur, eignir að andvirði um 24.000.000 krónur og skuldir liðlega 9.000.000 krónur. Samkvæmt þessu er ekki teljandi munur á högum foreldra stefnda, en ekki verður séð að breytingar, sem kunna að hafa orðið á tekjum þeirra og lýst var við málflutning fyrir Hæstarétti, geti haft sérstakt vægi við úrlausn málsins. Ekkert hefur komið fram í málinu um að stefndi búi við sérstakar þarfir, sem leiði til óvenjulegra útgjalda varðandi framfærslu hans. Að þessu virtu er hæfilegt að áfrýjandi greiði með stefnda meðlag, sem svari til tvöfalds lágmarksmeðlags eins og það er ákveðið af Tryggingastofnun ríkisins hverju sinni.

Rétt er að málskostnaður milli aðilanna í héraði og fyrir Hæstarétti falli niður. Samkvæmt 11. gr. barnalaga greiðist málskostnaður stefnda á báðum dómstigum úr ríkissjóði, þar á meðal þóknun lögmanns hans fyrir flutning málsins, sem ákveðin skal í dómi. Ákvæði héraðsdóms um þá þóknun er ekki til endurskoðunar fyrir Hæstarétti og verður hún því staðfest að gættu því að ekki er um gjafsóknarkostnað að ræða. Um málskostnað stefnda fyrir Hæstarétti fer að öðru leyti samkvæmt því, sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Ákvæði héraðsdóms um faðerni stefnda, A, og greiðslu málskostnaðar hans úr ríkissjóði skulu vera óröskuð.

Viðurkennt er að áfrýjanda, M, beri að greiða með stefnda til fullnaðs 18 ára aldurs frá 1. september 2007 mánaðarlegt meðlag, sem svari til tvöfalds lágmarksmeðlags eins og það er ákveðið hverju sinni af Tryggingastofnun ríkisins.

Málskostnaður milli aðilanna í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

Málskostnaður stefnda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 450.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. september 2008.

I

Mál þetta, sem dómtekið var miðvikudaginn 3. september sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af K, [...], Reykjavík, f.h. ólögráða sonar síns, A, [...], Reykjavík, með stefnu birtri 22. janúar 2008, á hendur M, kt. [...], Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru þær, að viðurkennt  verði með dómi, að stefndi sé faðir stefnanda, A, sem fæddur er hinn [...].  Þá er gerð krafa um, að stefndi greiði sem nemur þreföldu meðalmeðlagi með stefnanda á mánuði, eins og það er ákveðið af Tryggingastofnun ríkisins hverju sinni, frá 1. september 2007 til fullnaðs 18 ára aldurs.  Þá er krafizt málskostnaðar samkvæmt málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti, eins og mál þetta væri eigi gjafsóknarmál.

Endanlegar dómkröfur stefnda eru þær, að hann verði sýknaður af kröfu stefnanda um aukið meðlag, og eingöngu dæmdur til greiðslu einfalds meðlags.

II

Málavextir

Ágreiningur aðila í máli þessu snýst um fjárhæð meðlagsgreiðslna með stefnanda, en stefndi hefur, á grundvelli niðurstöðu mannerfðafræðilegrar rannsóknar á erfðaefnum aðila, samþykkt kröfu stefnanda um, að viðurkennt verði með dómi, að hann sé faðir stefnanda, en niðurstaða rannsóknarinnar er sú, að meira en 99% líkur séu á því að stefndi sé faðir barnsins.

III

Málsástæður stefnanda

Af hálfu stefnanda er á því byggt, að móðir stefnanda og stefndi hafi kynnzt á árinu 2006.  Hafi þau verið í sambandi um þriggja mánaða skeið um vorið það ár.  Stefndi hafi komið á heimili móður stefnanda 1. desember 2006, og hafi þau haft samfarir þar, og hafi móðir stefnanda þá orðið barnshafandi.  Samkvæmt 1. gr. barnalaga nr. 76/2003 eigi barn rétt á að þekkja báða foreldra sína, og sé móður skylt að feðra barn sitt.  Móðir stefnanda hafi lagt fram beiðni um öflun faðernisviðurkenningar til sýslumannsins í Reykjavík hinn 30. ágúst 2007.  Hafi embættið vísað móður stefnanda til dómstóla vegna feðrunar barnsins með bréfi, dags. 14. janúar 2008. 

Samkvæmt 2. mgr. 57. gr. barnalaga skuli ákveða meðlag með hliðsjón af þörfum barns og fjárhagsstöðu og öðrum högum beggja foreldra, þar á meðal aflahæfi þeirra. Stefnandi hafi ekki upplýsingar um tekjur stefnda. Reynist tekjur stefnda lægri en svo, að þær verði taldar bera skyldur til greiðslu þrefalds meðalmeðlags, eins og það sé ákveðið af Tryggingastofnun ríkisins á hverjum tíma, sbr. viðmiðunarfjárhæðir, sem dómsmálaráðuneytið gefi út til ákvörðunartöku af þessu tagi, skv. 5. gr. 57. gr. barnalaga, leysi dómari úr ágreiningi hér að lútandi í málinu.

Mál þetta sé höfðað á grundvelli II. kafla barnalaga nr. 76/2003, sbr. 1. og 3. gr. s.l. Krafa um meðlag sé reist á  57. gr. barnalaga nr. 76/2003. Krafa um málskostnað sé reist á 11. gr. barnalaga nr. 76/2003, sbr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, og um virðisaukaskatt vísist til laga nr. 50/1988. 

Málsástæður stefnda

Sýknukröfu sína um þrefalt meðlag byggir stefndi á því, að engin dómafordæmi séu frá Hæstarétti fyrir svo háu meðlagi. Leiðbeiningar dóms- og kirkjumálaráðuneytisins um meðlagsgreiðslur geri ekki ráð fyrir hærri meðlagsgreiðslu en tvöföldu meðlagi, reynist framfærsluskyldur aðili mjög tekjuhár. Stefndi geri kröfu til þess, að honum verði ekki gert að greiða hærra meðlag en einfalt, með vísan til meginsjónarmiða laga um meðlagsgreiðslur. Vísi stefndi til eftirtalinna atriða:

                Móðir stefnanda sé í góðri stöðu og hafi væntanlega háar tekjur.

                Móðir stefnanda verði sjálf að taka ábyrgð á eigin gerðum og ákvörðunum.

                Kynni aðila hafi hvorki verið náin né staðið lengi.

                Móðir stefnanda hafi tekið einhliða ákvörðun um að eiga barnið, þó að aðstæður og vilji stefnda hafi legið fyrir frá upphafi.

Stefndi sé ekki mjög tekjuhár maður og sé í hjúskap og hafi framfærsluskyldu gagnvart sinni fjölskyldu,  m.a. sé eiginkona hans í ólánshæfu námi erlendis.  Byggist þessi krafa á 1. mgr. 53. gr. barnalaga nr. 76/2003.

Gögn um framfærslukostnað barna einstæðra foreldra bendi ekki til annars en að einfalt meðlag sé nálægt helmingi af mældum meðalkostnaði við að framfleyta barni samkvæmt gögnum frá Ráðgjafastofu um fjármál heimilanna. Einfalt meðlag sé kr. 18.000 árið 2008, en  helmingur viðbótarkostnaðar við eitt barn sé kr. 19.850.

Hætta sé á, að réttindi stefnanda til umgengni við föður sinn verði skert, þar sem stefndi búi, ásamt konu sinni, í tveggja herbergja íbúð. Fyrir liggi, að stefndi þurfi að leggja í umtalsverða fjárfestingu til þess að aðstæður til umgengni við stefnanda verði viðunandi. Rétt sé að geta þess, að móðir stefnanda búi sjálf í stærri íbúð en stefndi og kona hans.

Það sé réttlætismál, að stefndi hafi svigrúm til að veita stefnanda atlæti og aðstæður við hæfi, og að stefnandi skynji, að vegna þess hafi stefndi lagt til uppeldis og atlætis stefnanda, þegar fram líði stundir.

Málskostnaðarkröfu sína styður stefndi við ákvæði laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, einkum 129. og 130. gr.

IV

Forsendur og niðurstaða

Upphaflega krafðist stefndi sýknu af faðerniskröfu stefnanda. Með úrskurði héraðsdóms, uppkveðnum 31. marz 2008, var stefnda gert að gangast undir mannerfðafræðilega rannsókn, í því skyni að skera úr um faðernið.  Niðurstaða frá Rannsóknarstofu í réttarlæknisfræði lá fyrir hinn 25. júní sl. og var lög fram í máli þessu 2. júlí sl.  Kemur þar fram, að niðurstöður úr rannsókninni samrýmist því, að stefndi sé faðir stefnanda, og eru líkur á faðerninu sagðar geysisterkar, eða meira en 99%. Í þinghaldi 3. september sl. féll stefndi frá mótmælum sínum varðandi faðerni stefnanda og viðurkenndi það á grundvelli framangreindra niðurstaðna.

Endanlegur ágreiningur aðila í máli þessu snýst um meðlagsgreiðslur með stefnanda, A. Krafa stefnanda er um þrefalt lágmarksmeðlag, en stefndi krefst þess, að honum verði ekki gert að greiða hærra meðlag en einfalt lágmarksmeðlag, sem nemur nú kr. 19.000 á mánuði, samkvæmt gögnum málsins.

Meðlagsgreiðslur eru ætlaðar til framfærslu barns, og segir svo m.a. í 53. gr. barnalaga nr. 76/2003, að framfærslu barns skuli haga með hliðsjón af högum foreldra og þörfum barns.

Af hálfu stefnda hafa verið lagðar fram tölvuútskriftir frá Skattstjóranum í Reykjavík, þar sem fram koma tekjur stefnda tekjuárin 2005-2007. Nema skattskyldar tekjur hans samkvæmt þeim gögnum að meðaltali nálægt kr. 650.000 á mánuði. Ekki liggja fyrir upplýsingar um mánaðartekjur stefnda á árinu 2008. Þá liggja engar upplýsingar fyrir um eigna- eða skuldastöðu stefnda.

Fyrir liggur, að stefndi á ekki önnur börn en stefnanda.  Hann er kvæntur og býr ásamt eiginkonu sinni í tveggja herbergja íbúð, að því er fram kemur í greinargerð hans. Skattskyldar tekjur stefnanda samkvæmt skattframtölum vegna tekjuáranna 2006 og 2007 og launaseðli vegna fyrri hluta árs 2008 eru nokkru lægri að meðaltali, eða ríflega kr. 500.000 á mánuði.

Samkvæmt upplýsingum af upplýsingavef dóms- og kirkjumálaráðuneytisins um viðmiðunarreglur, sem gilt hafa frá 1. október 2007, og hafa verið sýslumönnum til leiðbeiningar við ákvarðanatöku í meðlagsmálum í þeim tilgangi að tryggja, að samræmis og jafnræðis sé gætt við þá ákvarðanatöku, sbr. 5. mgr. 57. gr. barnalaga, er við það miðað, að aðila, sem hefur u.þ.b. kr. 364.000 í tekjur á mánuði, verði gert að greiða tvöfalt lágmarksmeðlag með einu barni. Enga viðmiðun er að finna þar um greiðslu þrefalds lágmarksmeðlags með barni, en hæstu laun, sem þar eru tilgreind eru u.þ.b. kr. 532.000 á mánuði, þar sem gert er ráð fyrir tvöföldu lágmarksmeðlagi með þremur börnum.  Ljóst er, að skattskyldar tekjur stefnanda á mánuði eru nálægt tvöfaldri þeirri fjárhæð, sem gerir ráð fyrir tvöföldu meðlagi með einu barni, og nokkru hærri en hæstu tekjur, sem taflan tekur til.

Þegar litið er til þess, að laun stefnda eru langt fyrir ofan framangreindar viðmiðunarfjárhæðir við meðlagsákvarðanir þykja meðlagskröfur stefnanda sanngjarnar, enda ekki um slíkar fjárhæðir að ræða, að telja megi óhóflegar eða óþarfar við framfærslu barns og umönnun. Þá hefur stefndi ekki fært fram nein haldbær rök, sem leiða til þess að fjárhagur hans eða aðrar aðstæður, beri ekki þrefalt lágmarksmeðlag. Verða meðlagskröfur stefnanda því teknar til greina, eins og þær eru fram settar.

Gjafsóknarkostnaður stefnda ákveðst kr. 260.000 og greiðist úr ríkissjóði. Hefur þá ekki verið litið til virðisaukaskatts.

Eins og mál þetta er vaxið ber að dæma stefnda til að greiða málskostnað, sem rennur í ríkissjóð, og þykir hæfilega ákveðinn kr. 260.000, en við ákvörðun málskostnaðar er m.a. haft í huga, að stefnda var nauðsyn að höfða faðernismál og beita þurfti dómsúrskurði, svo stefndi færi í mannerfðafræðilega rannsókn svo skera mætti úr um faðernið. Við ákvörðun málskostnaðar er ekki litið til virðisaukaskatts.

Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.

DÓMSORÐ

Stefndi, M, er faðir stefnanda, A.

Stefndi greiði þrefalt lágmarksmeðlag með stefnanda á mánuði, eins og það er ákveðið af Tryggingastofnun ríkisins hverju sinni, frá 1. september 2007 til fullnaðs 18 ára aldurs hans.  Enn fremur greiði stefndi kr. 260.000 í málskostnað, sem rennur í ríkissjóð.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda, kr. 260.000, greiðist úr ríkissjóði.