Hæstiréttur íslands
Mál nr. 234/2001
Lykilorð
- Vinnuslys
- Skaðabætur
- Örorka
- Húsbóndaábyrgð
|
|
Fimmtudaginn 13. desember 2001. |
|
Nr. 234/2001. |
Tryggingamiðstöðin hf. (Guðmundur Pétursson hrl.) gegn J.H.S ehf. (Hákon Árnason hrl.) |
Vinnuslys. Skaðabætur. Örorka. Húsbóndaábyrgð.
Rafvirkinn H varð fyrir slysi þegar hann var að ganga frá rafmagnstenglum, sem voru við stálbita í lofti upp undir þaki í fiskvinnsluhúsi H ehf., en J ehf. annaðist fiskverkun í húsinu fyrir fyrrnefnda félagið. Þar sem hátt var til lofts fékk H starfsmann J ehf. til að lyfta sér með rafmagnsknúnum vörulyftara, og stóð H á fiskkari, sem fest var við gaffla lyftarans. Er H bað starfsmanninn að lyfta sér hærra rakst höfuð H upp undir loftið með þeim afleiðingum að hann slasaðist. Í dómi Hæstaréttar segir að starfsmaður J ehf., sem vissi hvaða verk H var að vinna, hafi átt að gæta þess að lyfta honum mjög hægt og stutt í senn, ef með þyrfti, enda hafi verið um að ræða nákvæmnisverk, þar sem ekki voru nema um 30-50 cm frá höfði H upp í loftið þegar starfsmanninum bárust tilmæli H um að lyfta honum hærra. Við þessar aðstæður hafi starfsmanninum borið að stilla á lægsta hraðaþrep og sýna sérstaka aðgát. Að auki hafi hann ekki vanist tækinu og hraðinn hafi einnig verið meiri í þeirri hæð sem H var í. Þessa aðgát hafi starfsmaðurinn ekki sýnt heldur lyfti H í einu vetfangi á mesta hraða. Verði samkvæmt þessu að telja að slysið megi rekja til gáleysis starfsmannsins. Hæstiréttur taldi ekki skotið stoðum undir að notkun öryggishjálms hafi, eins og aðstæðum var háttað, komið í veg fyrir eða minnkað þá áverka, sem hinn slasaði hlaut. Þá hafi hvorki verið í ljós leitt að notkun svonefndrar mannkörfu hefði við þessar aðstæður komið í veg fyrir slysið né að H hefði við svo mikinn hraða haft ráðrúm til að beygja sig og þannig afstýra slysinu. Í málinu var upplýst að starfsmaðurinn hafði lyft H að beiðni vinnuveitanda síns J ehf. Var J ehf. því talið bera húsbóndaábyrgð á gáleysi starfsmanns síns.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir og Björn Þ. Guðmundsson prófessor.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 25. júní 2001. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 7.104.341 krónu með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 27. ágúst 1999 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur og áfrýjanda gert að greiða sér málskostnað fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.
Áfrýjandi hefur stefnt Vátryggingafélagi Íslands hf. til réttargæslu fyrir Hæstarétti.
I.
Atvik máls þessa eru þau að 9. júní 1997 varð Hjörtur Sandholt rafvirki, starfsmaður rafverktakafyrirtækisins Rafvarar sf., fyrir slysi við störf sín í fiskvinnsluhúsi fyrirtækisins Hnotskurnar ehf. við Unubakka 24-26 í Þorlákshöfn. Í húsinu rak fyrirtækið fiskverkun, sem stefndi vann við sem verktaki Hnotskurnar ehf. og með tækjakosti síðastnefnda félagsins. Voru tildrög slyssins þau að Hjörtur var að ganga frá rafmagnstenglum, sem voru við stálbita í lofti upp undir þaki hússins. Þar sem hátt var til lofts fékk hann starfsmann stefnda, Svein Theódórsson, til að lyfta sér með rafmagnsknúnum vörulyftara, og stóð Hjörtur á fiskkari, sem fest var við gaffla lyftarans. Hafði Sveinn réttindi til að stjórna lyftaranum. Er Hjörtur bað Svein að lyfta sér hærra rakst höfuð Hjartar upp undir loftið með þeim afleiðingum að hann slasaðist og hlaut brjósklos milli 5. og 6. hálsliðbola hægra megin.
Eins og fram kemur í héraðsdómi gekk áfrýjandi frá endanlegu skaðabótauppgjöri vegna líkamstjóns Hjartar í ágúst 1998 á grundvelli þess að Sveinn, sem talinn var eiga sök á slysinu, hefði verið starfsmaður Hnotskurnar ehf., er hann stjórnaði lyftaranum greint sinn. Taldi áfrýjandi að félagið væri með ábyrgðartryggingu fyrir atvinnurekstur hjá sér, en síðar kom í ljós að sú var ekki raunin. Óumdeilt er að stefndi hafði frjálsa ábyrgðartryggingu vegna atvinnurekstrar hjá réttargæslustefnda. Þegar ljóst varð að Sveinn var starfsmaður stefnda en ekki Hnotskurnar ehf. gerði áfrýjandi endurkröfu á hendur réttargæslustefnda 22. febrúar 2000, sem hafnaði kröfunni 29. sama mánaðar meðal annars á þeirri forsendu að vinnan við raflögnina hafi verið unnin í þágu Hnotskurnar ehf. en ekki stefnda. Höfðaði áfrýjandi mál þetta 28. apríl 2000.
Í héraði byggði áfrýjandi kröfu sína á því að hann ætti endurkröfu á hendur stefnda, þar sem starfsmaður stefnda hafi átt sök á slysinu með saknæmum hætti, en á þessu athæfi starfsmanns síns bæri stefndi húsbóndaábyrgð. Þá hafi skort á leiðbeiningar um meðferð hins nýja lyftara og verkstjórn stefnda sjálfs verið áfátt. Héraðsdómur sýknaði stefnda þegar af þeirri ástæðu að áfrýjandi ætti ekki endurkröfurétt á grundvelli 1. mgr. 22. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 eða á grundvelli almennra reglna fjármunaréttar. Í greinargerð sinni til Hæstaréttar lýsti stefndi því hins vegar yfir að samkomulag hafi orðið með aðilum um að stefndi félli frá þeirri málsástæðu sinni að áfrýjandi ætti ekki endurkröfurétt á hendur stefnda. Lýtur ágreiningur aðila hér fyrir dómi að því hvort fyrir hendi sé sök starfsmanns stefnda á því tjóni, sem áfrýjandi hefur bætt, og ef svo yrði talið hvort stefndi beri á því húsbóndaábyrgð.
II.
Stefndi heldur því fram að slysið megi rekja til gáleysis hins slasaða, Hjartar Sandholt, sem hafi gefið stjórnanda lyftarans fyrirmæli um að sér yrði lyft hærra. Hafi hann þá verið kominn upp undir þakið og verið óviðbúinn að beygja sig þegar hann gaf fyrirmælin. Ekki sé útilokað að ef hinn slasaði hefði notað öryggishjálm og honum verið lyft í mannkörfu í stað fiskkars hefði verið unnt að koma í veg fyrir slysið. Jafnframt mótmælir stefndi þeim staðhæfingum áfrýjanda að stjórnanda lyftarans hafi skort leiðbeiningar, að hann hafi staðið fyrir utan lyftarann er hann lyfti fiskkarinu og að það hafi valdið slysinu að stillt hafi verið á mesta en ekki minnsta hraða er lyft var. Fram er komið að Sveinn hafði margsinnis lyft Hirti á sama veg, er sá síðarnefndi var að störfum við sams konar verkefni, en þá hafði Sveinn notað annan lyftara. Er haft eftir Sveini í lögregluskýrslu 16. júní 1997 að lyftarinn, sem hann stjórnaði við verkið er slysið varð, hafi verið nýr. Hann hafi ekki verið búinn að „venjast honum að fullu.“ Er einnig eftir honum haft að Hjörtur hafi kallað til hans „að hækka kerið lítilsháttar“ og hafi hann þá „tekið í stöngina sem lyftir, en ekki gætt þess að um fjóra lyftihraða [hafi verið] að ræða og var stillingin á mesta hraða.“ Sagði Sveinn að þetta hafi valdið því „að lyftingin var miklu hraðari en ella og lenti Hjörtur því með höfuðið upp í þakið.” Fyrir dómi kvaðst Sveinn hafa setið inni í lyftaranum er Hjörtur bað hann um „að lyfta aðeins hærra”. Bar hann að stillingin hafi verið á mesta hraða og hafi Hjörtur farið „aðeins of hátt”. Er þessi frásögn hans í samræmi við frumskýrslu lögreglu 13. júní 1997, en þar kemur fram að lögregla ræddi við forsvarsmann stefnda, Stefán Jónsson, sem sýndi lögreglu vettvang, en í lögregluskýrslunni var hann sagður forsvarsmaður Hnotskurnar ehf. Er þar eftir honum haft að umrætt sinn hafi rafvirkinn verið að vinna við að setja upp tengla fyrir pökkunarvél og hafi tenglarnir verið settir í stálsperru í loftinu, ríflega fjóra metra frá gólfi. Lyftarinn, sem notaður hafi verið til að lyfta rafvirkjanum, hafi verið nokkurra daga gamall og hafi Sveinn ekki verið búinn að kynna sér nægilega stjórntæki hans. Þegar rafvirkinn hafi beðið um „að hann yrði hækkaður lítilsháttar“ til að hann kæmist betur að, hafi lyftingin verið stillt „á mesta hraða og lenti Hjörtur því með höfuðið upp í loftinu sem klætt er með riffluðum stálplötum.“ Hjörtur skýrði svo frá í lögregluskýrslu 1. júlí 1997 að hann hafi ekki verið í þægilegri vinnuaðstöðu og því beðið Svein er hann hafði unnið um stund að lyfta sér „örlítið hærra upp“. Sveinn hafi verið við hlið lyftarans og teygt sig í stöngina sem stýrði lyftingunni. Karið hafi farið snöggt upp og honum hafi ekki gefist ráðrúm til að beygja sig áður en höfuð hans lenti í loftinu. Kvað Hjörtur að Sveinn hafi ekki áttað sig á því að fjórar stillingar væru „á hífingunni“, sem hafi verið stillt á mesta hraða þegar óhappið varð. Um aðdraganda slyssins sagði Hjörtur fyrir dómi að Sveinn hafi verið búinn að lyfta honum, en sér hafi ekki fundist hann vera kominn nógu nálægt tenglinum og því beðið Svein að lyfta sér „örlítið hærra“. Þar sem Sveinn hafi gert þetta margoft áður hafi hann treyst honum fullkomlega. Hjörtur kvaðst vera 1,84 cm á hæð. Taldi hann að frá rafmagnstenglinum hefði verið um 20 cm upp í loftið og getur það samræmst ljósmyndum sem teknar voru af vettvangi. Sjálfur kvaðst Hjörtur höfuð sitt hafa verið í um 30-50 cm fjarlægð frá lofti er hann bað lyftustjórann að lyfta sér hærra. Meðal gagna málsins er skýrsla Útgerðartækni ehf. 12. september 2000 um skoðun á lyftaranum og tæknilegar upplýsingar um stillingar á hraða hans. Kemur þar fram að ræsing vökvadælunnar og lyftingarinnar sé stjórnað af tölvu, sem sjái um að lyftingin fari eftir ákveðinni kúrfu og stöðvist á sama hátt eftir þeirri kúrfu. Sé þetta gert til að hægara sé um vik að stjórna lyftingunni og hindra rykki. Unnt sé að lyfta í fjórum hraðaþrepum, bæði í neðri og efri stöðu. Sé lyft í fjórða hraðaþrepi í neðri stöðu sé hraðaaukningin 54% miðað við fyrsta þrep, en á sama hraðastigi í hærri stöðu sé hún 36%. Hraðinn upp að tveimur metrum sé mjög hægur, en meiri þar fyrir ofan.
Eins og lýst er að framan lyfti stjórnandi lyftarans fiskkari, sem rafvirkinn stóð í, í því skyni að sá síðarnefndi næði til raftengla, sem hann var að vinna við, með þeim afleiðingum að rafvirkinn lenti með höfuðið í loftinu. Stjórnandi lyftarans, sem vissi hvaða verk rafvirkinn var að vinna, átti að gæta þess að lyfta honum mjög hægt og stutt í senn, ef með þyrfti, enda var um að ræða nákvæmnisverk, þar sem ekki voru nema um 30-50 cm frá höfði rafvirkjans upp í loftið þegar stjórnandanum bárust tilmæli rafvirkjans um að lyfta honum hærra. Við þessar aðstæður bar lyftarastjóranum að stilla á lægsta hraðaþrep og sýna sérstaka aðgát. Að auki hafði hann ekki vanist tækinu og hraðinn var einnig meiri í þeirri hæð, sem rafvirkinn var í. Þessa aðgát sýndi lyftarastjórinn ekki heldur lyfti rafvirkjanum í einu vetfangi á mesta hraða. Verður samkvæmt þessu að telja að slysið megi rekja til gáleysis stjórnanda lyftarans. Í örorkumati 19. júní 1998 segir um áverka hins slasaða að við höggið á hvirfilinn hafi hann hlotið brjósklos milli 5. og 6. hálshryggjarliðbola hægra megin, er snerti mænu og þrengdi að mænugangi. Ekki hefur verið skotið stoðum undir að notkun öryggishjálms hefði, eins og aðstæðum var háttað, komið í veg fyrir eða minnkað þá áverka, sem hinn slasaði hlaut. Þá hefur hvorki verið í ljós leitt að notkun svonefndrar mannkörfu hefði við þessar aðstæður komið í veg fyrir slysið né að rafvirkinn hefði við svo hraða lyftingu haft ráðrúm til að beygja sig og þannig afstýra slysinu. Verður því ekki talið að hann eigi að einhverju leyti sök á slysinu.
III.
Stefndi heldur því fram að jafnvel þótt rekja megi slysið til saknæmrar háttsemi lyftarastjórans beri hann ekki ábyrgð á þeirri háttsemi hans þar sem verkið hafi ekki verið unnið í þágu stefnda heldur eiganda fasteignarinnar, Hnotskurnar ehf., og stefndi hafi heldur ekki annast stjórn verksins.
Með bréfi 19. október 1999 sendi áfrýjandi stefnda fyrirspurn þess efnis hvort Sveinn Theódórsson hafi verið starfsmaður stefnda á þeim tíma er slysið varð. Í ódagsettu svarbréfi stefnda, undirrituðu af Stefáni Jónssyni, er staðfest að svo hafi verið. Bar hann á sama veg fyrir dómi og staðfesti jafnframt að stjórnandi lyftarans hafi þegið laun hjá stefnda. Spurður um það hver hafi beðið Svein að lyfta Hirti svaraði Stefán á þá leið að það hafi komið í sinn hlut. Þykir samkvæmt framansögðu í ljós leitt að stjórnandi lyftarans hafi unnið verk sitt samkvæmt beiðni stefnda, vinnuveitanda síns, sem ber skaðabótaábyrgð á gáleysi starfsmanns síns. Breytir engu um þá niðurstöðu þótt Stefán hafi jafnframt verið rekstrarstjóri hjá Hnotskurn ehf. svo sem fram kom í skýrslu hans fyrir dómi.
IV.
Í málinu er ekki ágreiningur um örorkumat það sem áfrýjandi byggir kröfu sína á. Hann sundurliðar kröfuna í níu liðum á eftirfarandi hátt: Tímabundið atvinnutjón 727.813 krónur, þjáningabætur 281.000 krónur, miskabætur 1.104.500 krónur, varanleg fjárhagsleg örorka 4.150.371 króna, innágreiðsla vegna slyssins 250.000 krónur, vextir 119.652 krónur, útlagður kostnaður tjónþola og lögmanns 104.155 krónur, örorkumatskostnaðar 55.600 krónur og lögmannsþóknun með virðisaukaskatti 311.250 krónur, samtals 7.104.341 króna. Ekki er ágreiningur um tölulegt uppgjör við tjónþolann, en varakrafa stefnda byggist á því að hann mótmælir greiðslu síðasttöldu liðanna, það er vaxta, útlagðs kostnaðar tjónþola og lögmanns, örorkumatskostnaðar og lögmannsþóknunar. Stefndi hafnar þessum kröfuliðum á þeim forsendum að hann geti ekki borið ábyrgð á þeim mistökum áfrýjanda að greiða bæturnar á grundvelli ábyrgðartryggingar Hnotskurnar ehf., sem ekki hafi verið með slíka tryggingu hjá áfrýjanda. Vexti og allan kostnað, sem hann hafi sjálfviljugur greitt í þessu sambandi, verði hann sjálfur að bera. Þessum rökum mótmælir áfrýjandi og bendir á að í frumskýrslu lögreglu 16. júní 1997 sé haft eftir starfsmanni stefnda, Sveini Theódórssyni, að hann sé starfsmaður Hnotskurnar ehf. Þessar röngu upplýsingar hafi stuðlað að því að áfrýjandi greiddi bæturnar á röngum forsendum. Áfrýjandi hefur lagt fram greiðsluyfirlit sitt í uppgjöri við tjónþolann og liggur ekki annað fyrir en að eðlilega hafi verið að því staðið. Að virtu því, sem að framan er rakið, er varakrafa stefnda haldlaus og verður henni hafnað.
Niðurstaða málsins er samkvæmt framansögðu sú að fallist er á kröfu áfrýjanda með dráttarvöxtum frá þeim degi, þegar mánuður var liðinn frá því er hann setti fram kröfu sína og nánar segir í dómsorði. Verður stefndi jafnframt dæmdur til að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem verður ákveðinn í einu lagi eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Stefndi, J.H.S. ehf., greiði áfrýjanda, Tryggingamiðstöðinni hf., 7.104.341 krónu með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 22. mars 2000 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.
Stefndi greiði áfrýjanda samtals 600.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 30. mars 2001.
I.
Mál þetta, sem dómtekið var fimmtudaginn 22. marz sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Tryggingamiðstöðinni hf., kt. 660269-2079, Aðalstræti 6-8, Reykjavík, með stefnu birtri 28. apríl 2000 á hendur Guðnýju Helgadóttur Blöndal, kt. 180246-2239, Stapaseli 17, Reykjavík, sem forráðamanns vegna JHS, Reykjavík, kt. 630196-2489, og til réttargæzlu Vátryggingafélagi Íslands hf, kt. 690689-2009, Ármúla 3, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefnda verði gert að greiða stefnanda skaðabætur að fjárhæð kr. 7.104.341,00, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 ásamt síðari breytingum frá 27. ágúst 1999 til greiðsludags. Þess er krafizt, að áfallnir dráttarvextir leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti, og dráttarvextir reiknist af þeirri fjárhæð á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn 27. ágúst 2000, en síðan árlega. Þá er krafizt málskostnaðar samkvæmt málskostnaðarreikningi.
Dómkröfur stefnda, JHS Þorlákshöfn eru þær aðallega, að fyrirtækið verði sýknað af öllum kröfum stefnanda og tildæmdur málskostnaður úr hans hendi að mati dómsins, en til vara að stefnukröfur verði stórlækkaðar og málskostnaður felldur niður.
Af hálfu réttargæzlustefnda, Vátryggingafélags Íslands hf., eru ekki gerðar sjálfstæðar dómkröfur, enda engar kröfur gerðar á hendur félaginu.
II.
Málavextir:
Málavextir eru þeir, að mánudaginn 9. júní 1997 kom rafvirkinn, Hjörtur Sandholt, starfsmaður Rafvarar sf. í Þorlákshöfn, í fiskvinnsluhús Hnotskurnar ehf. að Unubakka 24-26, Þorlákshöfn, þeirra erinda að setja þar upp raftengla fyrir pökkunarpressu. Átti Hnotskurn ehf. allar vélar og tæki þarna, svo og hráefni og unnar afurðir, en hafði ráðið JHS sem verktaka til að vinna úr hráefninu í húsinu, og notaði hann til þess vélar og tæki Hnotskurnar ehf.
Raftenglarnir fyrir pökkunarpressuna voru settir á stálsperru upp undir lofti í húsinu í um 4 m hæð frá gólfi. Til að ná upp í tengilinn þurfti rafvirkinn að láta lyfta sér upp. Var það gert með þeim hætti, að hann stóð uppi í fiskkari, sem lyft var upp með lyftara. Stjórnandi lyftarans var Sveinn Theódórsson, starfsmaður stefnda JHS. Stóð rafvirkinn í plastkarinu og vann um stund við tenglana. Hann hafði ekki öryggishjálm á höfði við verkið. Bað hann Svein síðan að lyfta karinu aðeins hærra upp. Þegar karinu var lyft, rak rafvirkinn höfuðið upp í þakið. Fékk hann við það högg á hvirfilinn. Hann hélt þó áfram vinnu um stund og lauk við að tengja, en lét síðan flytja sig niður í karinu og var þá kominn með svima. Var honum komið undir læknishendur. Reyndist hann hafa fengið brjósklos milli 5. og 6. hálsliðabola með þrýstingi á taug niður í hægri hönd. Samkvæmt örorkumati Atla Þórs Ólasonar læknis, dags. 19. júní 1998, hlaut hann 100% örorku í 10 mánuði, 50% í 2 mánuð og 25% varanlega örorku og miska af völdum slyssins.
Samkvæmt umsögn Vinnueftirlitsins, sem tilkynnt var um slysið, var orsök þess talin vera sú, að rafvirkinn, Hjörtur, var ekki með öryggishjálm á höfði, og að ekki var notuð mannkarfa til að lyfta honum.
Þann 12. ágúst 1998 gekk stefnandi, Tryggingamiðstöðin hf., frá endanlegu skaðabótauppgjöri á slysi rafvirkjans, Hjartar Sandholt. Var það gert á grundvelli þess, að Sveinn Theódórsson, sem talinn var eiga sök á slysinu, var álitinn vera starfsmaður Hnotskurnar ehf., sem var í tryggingaviðskiptum hjá stefnanda. Þá taldi tryggingafélagið, að slysið félli undir ábyrgðartryggingu, sem Hnotskurn ehf. hafði hjá félaginu. Síðar kom hins vegar í ljós, að Sveinn Theódórsson var ekki starfsmaður Hnotskurnar ehf., heldur stefnda, JHS, og enn fremur, að Hnotskurn ehf. hafði ekki ábyrgðartryggingu hjá stefnda, sem tók til slyssins. Fyrirtækið var með ábyrgðartryggingu fyrir lyftara, en sú trygging náði ekki til ábyrgðar vegna lyftarastjórnunar. Stefndi, JHS, var hins vegar með frjálsa ábyrgðartryggingu vegna atvinnurekstrar hjá réttargæzlustefnda, Vátryggingafélagi Íslands hf. Stefnandi hafði uppi endurkröfu á hendur réttargæzlustefnda, sem hafnaði kröfunni.
Byggja stefndu kröfu sína á því, að þeir eigi endurkröfu á hendur stefnda, JHS, þar sem starfsmaður fyrirtækisins hafi valdið slysinu með saknæmum hætti, og beri fyrirtækið húsbóndaábyrgð á honum.
Stefndi hafnar því, að stefnandi eigi kröfu á fyrirtækið, óháð skaðabótaskyldu, en telja að auki, að slys rafvirkjans, Hjartar Sandholt, sé ekki skaðabótaskylt.
III.
Málsástæður stefnanda:
Stefnandi byggir á því, að slys þetta megi rekja til gáleysislegra vinnubragða lyftarastjórans, Sveins Theódórssonar, starfsmanns stefnda, og skorts á leiðbeiningum og verkstjórn stefnda.
Lyftarinn, sem var af gerðinni Hyster, árg. 1997, skráningarnúmer JL-2919, hafi verið nýr og í fullkomnu lagi. Hafi hann verið tekinn í notkun nokkrum dögum fyrir slysið, og hafi Sveinn ekki verið búinn að kynna sér nægjanlega stjórn hans. Þetta sé sérlega ámælisvert, þegar horft sé til þess, að Sveinn hafi verið með réttindi til lyftarastjórnunar, og hafi því átt að gera sér grein fyrir mikilvægi þess, að hann lærði vel á lyftarann, áður en hann færi að nota hann.
Þá verði ekki séð, að stefndi, eða verkstjóri á vegum stefnda, hafi sinnt þeirri skyldu sinni að sjá til þess, að Sveinn fengi nauðsynlega tilsögn og þjálfun í meðferð hins nýja lyftara, áður en hann var látinn taka við almennri stjórnun hans. Telji stefnandi það fela í sér brot á leiðbeiningarskyldu og verkstjórn vinnuveitanda og verkstjóra, sbr. IV. og V. kafla laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustað.
Þegar Sveinn hugðist verða við ósk tjónþola um að lyfta honum örlítið hærra, hafi hann staðið fyrir utan lyftarann og teygt sig í stjórntæki til að lyfta. Stefnandi telji slík vinnubrögð gálaus, enda til þess fallin að draga úr yfirsýn Sveins yfir stjórntæki lyftarans.
Í lögregluskýrslu, dags. 16. júní 1997, lýsi Sveinn slysinu með eftirfarandi hætti:
"Eftir nokkra stund kallaði Hjörtur til mætta að hækka kerið lítils háttar og kveðst mætti þá hafa tekið í stöngina sem lyftir, en ekki gætt þess að um fjóra lyftihraða var að ræða og var stilling á mesta hraða. Þetta olli því að lyftingin var miklu hraðari en ella og lenti Hjörtur með höfuðið upp í þakið. Mætti varð þess strax var að Hjörtur hafði meiðzt og lét því kerið strax síga. Hjörtur var síðan fluttur til læknis."
Hnotskurn ehf., sem sé eigandi húsnæðis og tækja að Unubakka 24-26, Þorlákshöfn, geti undir engum kringumstæðum borið skaðabótaábyrgð á tjóni, sem rakið verði til gáleysis starfsmanns stefnda og skorts á leiðbeiningu og verkstjórn stefnda. Stefnandi hafni því fullyrðingu í þá átt, sem fram komi í bréfi lögmanns réttargæzlustefnda, dags. 29. febrúar 2000.
Tjónþoli hafi beðið Svein að lyfta sér örlítið hærra upp. Slíkt hafi átt að vera einfalt verk, og hafi tjónþoli, sem áður hafði fengið Svein til að lyfta sér með sama hætti, mátt treysta því, að Sveinn myndi framkvæma það, án þess að nokkur hætta skapaðist. Þegar Sveinn lyfti tjónþola hinsvegar upp með mesta hraða, hafi tjónþola enginn tími unnizt til að beygja sig, áður en hann skall með höfuðið upp í loftið.
Í bréfi lögmanns réttargæzlustefnda, dags. 29. febrúar 2000, sé því m.a. haldið fram að rekja megi slysið til þess, að ekki hafi verið notuð mannkarfa, sem og þess, að tjónþoli notaði ekki öryggishjálm. Þá segi í bréfinu, að tjónþoli hafi stjórnað framkvæmd verksins.
Stefnandi hafni þessari röksemdafærslu lögmanns réttargæzlustefnda.
Í fyrsta lagi telji stefnandi ljóst, þegar litið sé til atburðarrásarinnar, að notkun mannkörfu hefði ekki getað komið í veg fyrir slysið, enda sé slík mannkarfa opin að ofan með nákvæmlega sama hætti og fiskkar það, sem notað var.
Í öðru lagi bendi stefnandi á, að á vinnustað stefnda hafi ekki verið skylda að nota öryggishjálma, enda verði að telja, að við vinnustaðinn hafi ekki verið bundin slík áhætta, að þörf væri á slíkri notkun. Sama hafi gilt um verk það, sem tjónþoli vann, en það hafi verið hættulítið, og tjónþoli hafi ekki vitað betur en að lyftarastjórinn kynni fullkomlega til verka. Lyftarastjórinn hafi hinsvegar gert sér grein fyrir því, að hann hefði ekki fengið nægjanlega þjálfun í notkun hins nýja lyftara, og hefði því staðið næst að vara tjónþola við og benda honum á að nota öryggishjálm, ef hann hefði talið, að einhver hætta gæti skapazt.
Í þriðja lagi bendi stefnandi á, að þó svo að tjónþoli hafi ráðið því, hvernig hann vann sitt verk sem rafvirki, sé orsaka slyssins ekki að leita í þeirri staðreynd, heldur í mistökum starfsmanns stefnda og skorti á leiðbeiningu og verkstjórn stefnda.
Það hafi vissulega verið mistök hjá stefnanda að greiða bætur í umrætt sinn, en það sé hinsvegar skiljanlegt, miðað við upplýsingar í frumgögnum málsins, sem stefnandi hafi ekki haft ástæðu til að vefengja. Hvernig sem á það verði litið, telji stefnandi, að mistök sem þessi hljóti alltaf að mega leiðrétta, sé það gert innan eðlilegra tímamarka, eins og hér sé raunin, enda eðlilegt, að hinn raunverulegi tjónvaldur greiði hinar endalegu bætur, þegar upp sé staðið.
Um ábyrgðina vísar stefnandi til almennra reglna skaðabótaréttar um bótaábyrgð vinnuveitanda. Um rétt til endurkröfu er vísað til 1. mgr. 22. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og almennra reglna fjármunaréttar. Um vaxtakröfu er vísað til 15. gr., sbr. 10. og 12. gr. vaxtalaga nr. 25/1987. Krafa um málskostnað er studd við 129. og 130. gr. 1. nr. 91/1991.
Stefnandi sundurliðar kröfu sína svo:
|
1. Tímabundið atvinnutjón |
kr. 727.813 |
|
2. Þjáningabætur |
kr. 281.000 |
|
3. Miskabætur |
kr. 1.104.500 |
|
4. Varanleg fjárhagsleg örorka |
kr. 4.150.371 |
|
5. Innágreiðsla vegna slyss |
kr. 250.000 |
|
6. Vextir |
kr. 119.652 |
|
7. Útlagður kostnaður tjónþola og lögmanns |
kr. 104.155 |
|
8. Örorkumatskostnaður |
kr. 55.600 |
|
9. Lögmannsþóknun m/vsk. |
kr. 311.250 |
|
Samtals kr. 7.104.341 |
|
Stefnandi telji, að ekki eigi að vera ágreiningur um tölulega útfærslu uppgjörsins, sem sé í einu og öllu í samræmi við það, sem tíðkist í málum sem þessum.
Málsástæður stefnda:
Stefndi, JHS, byggir sýknukröfu sína á því í fyrsta lagi, að stefnandi, Tryggingamiðstöðin hf., eigi enga kröfu á hendur honum að lögum, hvað sem líði skaðabótaskyldu á slysinu, og beri að sýkna stefnda þegar af þeirri ástæðu.
Sé Tryggingamiðstöðin hf. hér ekki í stöðu vátryggingafélags, sem átt sé við í 1. mgr. 22. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, með því að Tryggingamiðstöðin hf. hafi greitt rafvirkjanum bætur fyrir mistök, en ekki sem ábyrgðartryggjandi fyrir skaðbótaskyldan aðila, en hvorki Hnotskurn ehf. né neinir aðrir hafi verið með ábyrgðartryggingu hjá stefnanda, er tók til slyssins. Sé skilyrði fyrir endurkröfurétti vátryggingafélags samkvæmt 1. mgr. 22. gr. skaðabótalaga það, að skaðatrygging hjá félaginu hafi tekið til tjónsins, en því sé ekki að heilsa í þessu tilviki. Eigi Tryggingamiðstöðin hf. því engan endurkröfurétt á grundvelli 1. mgr. 22. gr. skaðabótalaga, svo sem félagið haldi fram.
Stefnandi eigi heldur ekki endurkröfurétt á hendur stefnda eftir almennum reglum kröfuréttar. Hafi stefnandi hvorki greitt rafvirkjanum bætur, vegna þess að stefnanda væri það skylt, né heldur á grundvelli óbeðins erindreksturs fyrir Hnotskurn ehf, stefnda, JHS, eða aðra. Hafi því engin endurkrafa stofnazt til handa stefnanda á hendur stefnda, JHS, samkvæmt almennum reglum kröfuréttar. Hins vegar hafi rafvirkinn fengið bætur úr hendi stefnanda, sem hann hafi með rétti ekki átt að fá, og eigi stefnandi því væntanlega endurkröfu á hendur honum.
Í annan stað sé sýknukrafa stefnda byggð á því, að hann beri ekki skaðabótaábyrgð á slysi Hjartar Sandholt, og beri að sýkna stefnda einnig af þeirri ástæðu. Geti kröfuréttur stefnanda aldrei orðið annar og meiri en réttur Hjartar Sandholt sjálfs til skaðabóta fyrir slys sitt. Byggi stefndi, JHS, á því, að Hjörtur Sandholt hafi aldrei átt neinn skaðabótarétt á hendur stefnda .
Sé hér þess fyrst að gæta, að slys Hjartar hafi ekki hlotizt af vinnu eða framkvæmd starfs Sveins Theodórssonar í þágu vinnuveitanda síns, JHS. Beri JHS því ekki húsbóndaábyrgð á lyftingum Sveins á rafvirkjanum með lyftara Hnotskurnar ehf., og beri þegar af þeirri ástæðu að sýkna stefnda. Hafi verk það, sem rafvirkinn slasaðist við, verið framkvæmt á vegum húsbónda hans, Rafvarar sf., sem var sjálfstæður verktaki við uppsetningu tenglanna fyrir pökkunarpressuna, og unnið í þágu eiganda pressunnar, húss og tækja að Unubakka 24-26, þ.e. Hnotskurnar ehf. Hafi lyftingar Sveins á rafvirkjanum verið liður í því verki, gerðar að beiðni rafvirkjans og framkvæmdar undir hans stjórn og fyrirmælum, en hafi ekki verið þáttur í starfi Sveins hjá vinnuveitanda sínum, stefnda JHS, eða unnar undir stjórn JHS. Þær hafi þannig verið stefnda J.H.S óviðkomandi. Það sé skilyrði vinnuveitendaábyrgðar, að meintur tjónvaldur hafi valdið tjóninu við framkvæmd starfs síns í þágu vinnuveitanda síns, en hér standi ekki svo á.
Í annan stað sé rangt og ósannað, að Sveinn Theodórsson eigi nokkra sök á óhappi Hjartar Sandholt rafvirkja. Hafi Hjörtur látið lyfta sér upp með lyftaranum og stjórnað sjálfur framkvæmd verksins og hafi sjálfur gefið Sveini fyrirmælin um að lyfta hærra, þegar hann varð fyrir slysinu. Hafi Hjörtur því vitað, að honum yrði lyft hærra upp og hafi átt að vera því viðbúinn, en það hafi verið brýnt, þar sem hann hafi þegar áður verið kominn upp undir þak hússins. Hafi Sveinn ekki gert annað en Hjörtur sagði honum að gera. Sé ekki sök Sveins, að Hjörtur hafi ekki gætt sín á þakinu og ekki notað öryggishjálm, en til þess megi fyrst og fremst rekja slysið. Þá sé rangt og ósannað, að Sveinn hafi lyft Hirti hratt eða snöggt upp, en aðeins sé hægt að lyfta hægt með lyftaranum og aðeins hafi verið lyft upp um 30 cm. Sé því ekkert við Svein að sakast um slys stefnanda. Beri einnig af þeirri ástæðu að sýkna stefnda JHS, jafnvel þótt talið yrði, að umræddar lyftingar Sveins væru hluti starfs hans hjá JHS.
Hins vegar sé ljóst, að Hjörtur Sandholt eigi sjálfur sök á slysi sínu. Hafi hann fyrir slysið látið lyfta sér alveg upp undir þakið á húsinu og unnið þar, án þess að nota öryggishjálm. Síðan hafi hann gefið fyrirmæli um að lyfta sér hærra, en hafi svo ekki gætt sín á þakinu, þegar lyft var, og rekið óvarið höfuðið upp í þakið. Hafi hann með þessu sýnt mikið gáleysi. Hefði ekkert slys orðið, ef hann hefði notað öryggishjálm, eða gætt sín á þakinu og beygt sig, þegar lyft var að fyrirmælum hans. Séu þannig engin skilyrði til skaðabótaábyrgðar JHS og endurkröfu á hendur honum.
Verði ekki á sýknukröfu fallizt, sé varakrafa stefnda byggð á því að synja beri um endurkröfu í hlutfalli við eigin sök Hjartar Sandholt á slysinu, hvað sem öðru líði, auk þess sem lækka beri einstaka liði í endurkröfu stefnanda, en þeim sé mótmælt sem of háum og órökstuddum. Kröfuliðir 6-9 í stefnu séu stefnda alls óviðkomandi, en stefndi beri enga ábyrgð á því að lögum, þó stefnandi hafi fyrir mistök greitt manni bætur, án þess að vátrygging væri fyrir hendi. Vexti og allan kostnað, sem stefnandi hafi sjálfviljugur greitt í því sambandi, verði hann því að bera sjálfur. Þá sé dráttarvöxtum mótmælt frá fyrri tíma en dómsuppsögudegi.
IV.
Forsendur og niðurstaða:
Við aðalmeðferð varð samkomulag með lögmönnum um, að líta skuli á dómkröfu stefnanda sem endurkröfu, en ekki skaðabótakröfu, eins og hún er fram sett.
Er endurkrafa stefnanda byggð á 1. mgr. 22. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, auk þess sem hann vísar til almennra reglna fjármunaréttar.
Það er óumdeilt, að stefnandi greiddi bætur til tjónþola fyrir mistök. Fólust þau mistök í því, að sá aðili, sem stefnandi taldi bótaskyldan, þ.e. stjórnandi lyftarans, Sveinn Theódórsson, starfaði ekki hjá fyrirtækinu, Hnotskurn ehf., heldur hjá stefnda, JHS, sem hafði ekki tryggingar hjá stefnanda. Að auki reyndist trygging sú, sem Hnotskurn ehf. var með hjá stefnanda, ekki ná til ábyrgðar vegna lyftarastjórnunar. Samkvæmt 1. mgr. 22. gr. skaðabótalaganna öðlast tryggingafélag hins vátryggða, sem á grundvelli gildrar tryggingar greiðir tjónþola skaðabætur, rétt tjónþola á hendur hinum skaðabótaskylda. Um slíkt var ekki að ræða í þessu máli, og er ekki fallizt á, að stefnandi eigi endurkröfurétt samkvæmt tilvitnuðu lagaákvæði, eins og málsatvikum var háttað.
Stefnandi hefur á engan hátt reifað í málatilbúnaði sínum eða fært að því rök að endurgreiðsla eigi við á grundvelli almennra reglna fjármunaréttarins, heldur lætur sér nægja að vísa til þeirra almennt í kafla um lagarök. Er ekki fallizt á, eins og máli þessu er háttað, að stefnandi eigi endurkröfu á stefnda JHS á þeim grunni. Ber því að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.
Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu.
Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.
D Ó M S O R Ð :
Stefndi, JHS Reykjavík, skal vera sýkn af öllum kröfum stefnanda, Tryggingamiðstöðvarinnar hf.
Málskostnaður fellur niðu