Hæstiréttur íslands

Mál nr. 179/2016

Ákæruvaldið (Stefanía G. Sæmundsdóttir saksóknari)
gegn
Viðari Norðfjörð Guðbjartssyni (Sveinn Guðmundsson hrl.)

Lykilorð

  • Líkamsárás
  • Skilorð

Reifun

V var sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa á nánar tilgreindan hátt ráðist á nágranna sinn inni í íbúð hennar og veitt henni tilgreinda áverka. Var refsing V ákveðin fangelsi í 60 daga en fullnustu refsingarinnar frestað skilorðsbundið í þrjú ár.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 1. mars 2016 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Ákæruvaldið krefst staðfestingar héraðsdóms.

Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvaldsins, en til vara að refsing verði milduð.

Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi er ákærða gefin að sök líkamsárás 24. janúar 2015 með því að hann hafi á nánar tiltekinn hátt ráðist á nafngreindan nágranna sinn inni í íbúð hennar í fjöleignarhúsi og veitt henni tilgreinda áverka. Af framburði vitnis, sem var statt á gangi framan við íbúðir ákærða og hlutaðeigandi konu umrætt sinn, er sannað að hann hafi ráðist inn í íbúð hennar og lokað dyrum á eftir sér. Af framburði sama vitnis og tveggja íbúa í húsinu er jafnframt sannað að í framhaldi af því hafi komið til átaka inni í íbúðinni. Í héraðsdómi er gerð grein fyrir áverkum, sem konan bar í framhaldi af þessum atvikum samkvæmt vottorði læknis á bráðamóttöku, en það vottorð var staðfest fyrir dómi. Þótt ekki verði slegið föstu hvernig ákærði bar sig nánar að inni í íbúðinni er að virtu framangreindu fallist á með héraðsdómi að ákærði hafi gerst sekur um líkamsárás, sem varðar við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Að þessu gættu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Viðar Norðfjörð Guðbjartsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 816.771 krónu, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Sveins Guðmundssonar hæstaréttarlögmanns, 806.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 9. febrúar 2016.

Málið er höfðað með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dagsettri  29. september sl. á hendur ákærða,  Viðari Norðfjörð Guðbjartssyni, kt. [...], [...], Reykjavík, „fyrir líkamsárás, með því að hafa laugardaginn 24. janúar 2015, innandyra á heimili A, kt. [...], ráðist á hana með því að hrinda henni inn í íbúðina svo hún datt, hrint henni á sófa í stofunni, snúið upp á hendurnar á henni, sparkað í hægri síðu hennar og tekið hana hálstaki, allt með þeim afleiðingum að hún hlaut mar og yfirborðsáverka á læri, mar á mjöðm og brjóstkassa, yfirborðsáverka sem náðu til höfuðs með hálsi, yfirborðsáverka sem náðu til brjóstkassa með kvið, mjóbaki og mjaðmagrind, tognun og ofreynslu á hálshrygg og mar á olnboga.

Telst brot þetta varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20/1981.

Þess er krafist að ákærða verði dæmd til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

Málavextir

                Samkvæmt staðfestri skýrslu B lögreglumanns var það kl. 18:15 laugardaginn 24. janúar 2015 að tilkynnt var til lögreglu um „heimilisofbeldi“ í fjölbýlishúsinu [...] í Reykjavík.  Þegar lögreglumenn komu á vettvang hittu þeir fyrir á stigagangi 3. hæðar íbúa í húsinu þau C og D, sem sögðu þeim að árásarmaðurinn, sem sagður var vera ákærði í málinu, væri farinn inn til sín og árásarþolinn, A, væri einnig farinn inn til sín í íbúðina hinum megin á ganginum. Hjá henni væri stödd E sem hefði tilkynnt um atburðinn til lögreglu.  A skýrði frá því að umrædd E hefði komið til þess að skoða íbúð sem ákærði væri með til leigu.  Hefði ákærði, sem hefði komið fram á ganginn, sagt við sig að hann myndi tala við hana á eftir.  Sagði A að ákærði hefði verið hringjandi hjá sér dyrabjöllunni og bankandi undanfarna fjóra daga en hún hefði ekki sinnt því.  Þegar ákærði hefði verið búinn að sýna E íbúðina hefði hann komið til sín og sett fótinn fyrir hurðina svo hún gat ekki lokað.  Hefði hann svo hrint henni inn í íbúðina og læst á eftir sér.  Hefði hún reynt að verja sig en ákærði hrint henni á sófa í stofunni sem við það hefði færst út að vegg.  Hefði hann tekið höfuð hennar og haldið því niðri og hótað henni því að siga á hana „mafíunni“ til að berja hana og einnig myndi hann hrekja hana úr blokkinni.  Kvaðst A vera með verki í öxlum, höfði og útlimum eftir þessar aðfarir.  Í skýrslunni segir að íbúðin hafi verið hin snyrtilegasta og ekki að sjá nein merki um átök nema það að brauðsneið lá á gólfinu út við dyr.  Tvær ljósmyndir voru teknar úr íbúðinni og fylgja skýrslunni.  Myndirnar eru litlar og ekki annað markvert að sjá á þeim en eitthvað sem gæti verið ljósleit brauðsneið, sem bitið hefur verið af, á gólfinu í íbúðarganginum.

                Eftir E er það haft í skýrslunni að eftir að hafa skoðað leiguhúsnæðið með ákærða hefði A verið frammi á gangi og þau ákærði farið að þræta.  Kvaðst hún hafa gengið frá þeim en heyrt A segja tvisvar við ákærða að láta sig í friði.  Hann hefði hins vegar farið inn til hennar og læst dyrunum.  Kvaðst hún hafa heyrt fram á ganginn að hún endurtók þetta og kveinkaði sér.  Hefði hún þá hringt á lögregluna og einnig hefði hún leitað hjálpar í annarri íbúð.  Hefði íbúi þar komið og barið að dyrum hjá A en því hefði ekki verið sinnt.  Um tveim mínútum síðar hefði ákærði þó komið út og haldið á farsíma en A hefði kallað upp að hann hefði ráðist á sig.  Ákærði hefði svo farið inn til sín en komið út aftur og haldið áfram að þræta við A.

                Eftir þeim C og D er það haft í skýrslunni að þau hefðu farið að dyrunum hjá A þar sem C reyndi að opna og barði að dyrum. Hefðu hróp heyrst úr íbúðinni og hjálparköll.  Ákærði hefði fljótlega komið út frá A með síma hennar í hendinni og hún komið á eftir honum, grátandi og í miklu uppnámi.  Hefðu þau ákærði látið skammir dynja hvort á öðru en ákærði svo farið inn til sín.

                Í skýrslunni kemur fram að lögreglumennirnir hefðu knúið dyra hjá ákærða sem komið hafi fram og verið handtekinn og færður á lögreglustöð.

                 Ákærði var yfirheyrður hjá lögreglu um atvikið og sagðist honum svo frá að hann hefði verið að sýna konu leiguhúsnæði sem hann eigi í blokkinni sem hann býr í.  Hefði A farið að skipta sér af þessu.  Þegar konan var á förum hefði A opnað hjá sér dyrnar og haldið áfram að blanda sér í samtal hans og konunnar.  Kvaðst hann hafa sett fótinn á milli stafs og hurðar hjá henni og farið inn til hennar.  Hefði hann lokað á eftir sér en ekki læst.  Hefði hún sagt honum að fara út, tekið upp símann og gert sig líklega til þess að slá hann með símanum.  Hefði hann þá tekið í höndina á henni og sveigt hana niður.  Hefði hann beðið konuna um að setjast í sófann og tala við sig en hún sagt honum að fara út og hefði hann gert það.  Hann kvaðst hafa verið æstur í skapi en ekki hafa unnið henni mein.  Ákærði sagði að þau hefðu átt í erjum áður en þetta gerðist og hefði A m.a. fengið lásasmið til þess að skipta um lás á leiguhúsnæði hans og farið þangað inn í heimildarleysi.

                Meðal gagna málsins er staðfest vottorð F sérfræðings í bráðalækningum við Landspítalann í Fossvogi.  Segir þar að A hafi komið á bráðamóttöku sjúkrahússins kl. 21 þetta kvöld, grátandi og í uppnámi, og sagt frá því að nágranni hennar hefði ruðst inn til hennar og ýtt henni tvisvar í gólfið, tekið hana hálstaki aftan frá, snúið upp á handlegg hennar fyrir aftan bak, slegið höfði hennar við gólfið og sparkað í hana.  Þá kemur fram í vottorðinu að hún hafi lent í alvarlegu bílslysi sl. sumar og fengið höfuðhögg, brot á hálslið og líklega mar á mænu sem gert hafi henni erfitt um að beita höndunum.  Hefði hún verið í endurhæfingu eftir þetta og þurft að nota hálskraga þar til skömmu áður.  Við skoðun á konunni hafi komið í ljós bólga yfir hægra kinnbeini, bólga um „olnboga eða úlnlið“.  Þá hafi sést bólga og ofan á henni 4-5 cm marblettur vera að koma fram við hægra lærlið og niður á lærið og örlítið út á rasskinn, ennfremur ógreinilegur marblettur hægra megin á kviði.  Konan hafi kvartað um eymsli yfir hryggjartindum á hálsi og á baki og lendahrygg, eymsli yfir kvið hægra megin, hægri rifjaboga, eymslum við hreyfingu á hægri öxl.  Einnig hafi hún kvartað um eymsli í vinstri handlegg og lýst þar skyntruflunum og minnkuðu snertiskyni.  Ekki sé vitað hvort þær breytingar hafi verið nýjar. Teknar hafi verið tölvusneiðmyndir af höfði og hálsi og röntgenmyndir af hægri mjöðm, mjaðmargrind og hægri öxl en ekki sést merki um nýja áverka á þessum myndum.                

Meðferð málsins fyrir dómi

Ákærði neitar sök. Hann skýrir frá því að málið eigi sér nokkurn aðdraganda af ýmsum rótum, svo sem út af ketti sem A átti, af ágreiningi um hjólbarða sem hún átti og hafði notað til þess að setja fyrir hurðina og loks út af afskiptum hennar af ungum pilti, leigjanda hans. Loks hafi það komið í ljós að hún hafði látið skipta um lás í húsnæðinu sem pilturinn leigði. Kveðst hann hafa reynt að ná sambandi við A en ekki tekist.  Þegar pilturinn hafði flutt út og að því kom að leigja út húsnæðið aftur hafi kona komið að líta á það. A hafi þá komið fram á gang og hann þá reynt að ná tali af henni en hún ekki viljað það. Kveðst hann þá hafa sett fótinn milli stafs og hurðar og komst inn til hennar en hún sagt honum að fara út.  Hann hafi þó getað fengið hana til þess að setjast niður með sér inni í stofu og sagst viljað fá kostnaðinn af lásnum endurgreiddan.  Hún hafi þá tekið upp farsíma og reynt að slá hann með honum en hann þá gripið um hönd hennar.  Hún hafi kallað upp og beðið hann að meiða sig ekki í hálsinum en hún hafði lent í bílslysi áður og verið nýhætt að ganga með kraga.  Hann kveðst svo hafa staðið upp og farið út án þess að snerta hana.  Engin frekari átök hafi átt sér stað milli þeirra en A hafi hins vegar runnið til og dottið fram fyrir sig á hnén á sleipu gólfinu inni hjá sér og borið hendurnar fyrir sig.  Hafi hann séð þetta þegar hann leit við eftir að hann varð þess var að hún kom á eftir honum.  Hún hafi komið á eftir honum fram á gang og sagt við konuna sem hafði komið út af húsnæðinu að hann hefði ráðist á sig og beðið hana um að vera vitni að því.  Lögreglan hafi svo komið, 5 eða 10 mínútum seinna, og handtekið hann.  Hann segir að ekkert hafi séð á konunni eftir þetta og hún verið alveg róleg.  Undir ákærða er borið það sem haft er eftir E í lögregluskýrslu að hún hefði heyrt A hrópa upp og kveinka sér.  Segir hann hugsanlegt að það hafi verið þegar hann greip um úlnlið hennar.  Ákærði kveðst ekki hafa verið reiður þegar þetta gerðist.  Hann tekur fram að vegna heyrnarskerðingar sinnar tali hann öðru vísi en annað fólk og hærri rómi.  Það þýði þó ekki að hann sé reiður.  Hann kveðst enga skýringu hafa á áverkum konunnar en segir að hún sé til alls vís ef peningavon sé annars vegar.  Ákærði kveðst ekki muna hvort hann læsti dyrunum.  Þá neitar hann því að hafa hrint konunni í sófann eða haldið höfði hennar.  Hann segist hugsanlega hafa tekið símann af A þegar hún ætlaði að berja hann með honum og haldið á honum fram á gang.

A hefur í meginatriðum skýrt svo frá að hún hafi í umrætt sinn opnað dyrnar hjá sér til þess að fara út með sorp en þá rekist á ákærða fyrir framan hjá sér með stúlku sem hafði verið að skoða íbúð hjá honum.  Þegar hún kom aftur inn hafi ákærði sagst vilja tala við hana en hún sagt að hún ætti ekkert vantalað við hann.  Þegar hún var að loka dyrunum hafi hann komið og sett fótinn milli stafs og hurðar, ýtt henni frá, ruðst inn til hennar og læst dyrunum.  Hafi hann verið mjög ákveðinn í fasi og reiður að sjá.  Kveðst hún hafa tekið símann og sagst mundu hringja í lögregluna en hann þá tekið hann af henni og haldið henni fastri svo hún gat sig ekki hreyft.  Hafi hann stungið símanum í vasann og látið skammir dynja á henni.  Þá hafi hann sagst hafa fengið undirheimamenn til liðs við sig gegn henni.  Kveðst hún hafa beðið hann að hætta þessu og reynt að losna frá honum til þess að komast út.  Hafi hann hrint henni að sófanum í stofunni hjá henni, svo hún datt en hún hafi staðið á fætur og reynt að komast út en hann hindrað hana í því.  Hafi hann haldið hendi hennar fyrir aftan bak, tekið um háls hennar aftan frá og ýtt henni þar niður og barið hana en hún kveðst hafa æpt af sársauka.  Hafi þetta gerst tvisvar sinnum.  Þá hafi verið barið að dyrum og lögreglan verið komin þar og kallað að ákærði skyldi opna.  Hafi lögreglan verið við dyrnar í „svolítið langan tíma“.   Kveðst hún svo hafa náð að opna og lögreglan hafi komið inn í íbúð hennar og ákærði þá enn verið að halda henni niðri og ýta henni og meiða hana.  Hafi lögreglan handtekið ákærða þarna í íbúðinni en sjálf hafi hún ekki farið út úr íbúðinni eftir það þótt hún kunni að hafa gert það „seinna meir“.  Hún kveðst hafa verið marin og blá eftir þetta, hafði tognað í hálsi, með áverka í andliti og verið aum og marin í alllangan tíma.  Hafi þetta tafið fyrir bata hennar eftir bílslysið.  Hún kveðst ekki hafa slegið til ákærða með símanum heldur hafi hann tekið símann af henni og stungið í vasa sinn.  Hafi hún ekki getað gert annað en að verja sig.  Hún segir aðspurð að brauðsneiðin, sem sést á ljósmyndinni af ganginum, geti verið úr sorpinu sem hún hafði farið með út áður.  Aðspurð segist hún ekki muna hvort þeirra ákærða hafi opnað fyrir lögreglunni.   

Vitnið segir misklíð hafa verið milli þeirra ákærða af ýmsum ástæðum, þ. á m. þeirri að hún fór inn í leiguhúsnæðið með hjálp lásasmiðs þar sem hún hafði átt erindi við leigjandann, en henni fannst hann hafa hundsað sig. 

E hefur skýrt frá því að hún hefði komið til þess að skoða íbúð hjá ákærða.  Hafi verið opið inn hjá ákærða og hjá konunni á móti og þau verið að rífast.  Hafi ákærði sett fótinn fyrir hurðina, ýtt konunni inn í búð hennar, farið inn á eftir henni og læst á eftir sér.  Hafi hún svo heyrt konuna hrópa upp og þá hafa hringt á lögregluna, enda óttast, eftir ópunum að dæma, að maðurinn væri að fara illa með hana.  Konan hafi hrópað á hjálp og að hún myndi hringja á lögregluna.  Kveðst hún hafa barið að dyrum á íbúð á hæðinni fyrir neðan og maðurinn þar hafi komið til hjálpar.  Ekki muni hún hvort sá maður bankaði á dyrnar hjá konunni eða ekki en ákærði hafi svo opnað og komið þaðan út.  Hafi hann virst vera reiður en konan virst hrædd.  Ekki hafi hún séð áverka á henni.  Hún segist ekki muna þessi atvik nákvæmlega en segir aðspurð að hún kunni að hafa heyrt einhver fleiri hljóð út úr íbúðinni en ópin í konunni.  

C hefur greint frá því að kona hafi komið til þeirra D og sagt að maður á efri hæðinni hefði ráðist inn til konunnar á móti.  Kveðst hann hafa farið með konunni og heyrt læti innan úr íbúð A og minni hann að hún hafi kallað á hjálp.  Hafi hann reynt að opna en dyrnar verið læstar.  Hann hafi þá barið að dyrum og stuttu síðar hafi þau komið út, ákærði á undan, æstur í fasi, og A á eftir, grátandi, og sagst finna til.  Ákærði hafi verið með síma sem A hafi tekið af honum. Hafi ásakanir gengið á milli ákærða og hennar en vitnið man ekki að rekja þær nákvæmlega.  Vitnið kveðst ekki hafa séð neina áverka á A en hún hafi eitthvað sagt að áverkarnir frá bílslysinu gætu hafa tekið sig upp. 

D hefur greint frá því að umrætt kvöld hafi verið hringt dyrabjöllunni hjá þeim C, manni hennar, og þar verið kona í uppnámi.  Hafi C farið með konunni en hún hafa fylgt á eftir. Hafi C staðið við dyr A og sagt að þær væru læstar.  Einhver köll segir vitnið að hafi heyrst frá A innan úr íbúðinni.  C hafi barið að dyrum og stuttu seinna hafi fyrst ákærði og svo A komið út úr íbúð hennar.  Hafi hún verið grátandi og rauð og þrútin í framan.  Hafi hún sagt að ákærði væri með símann hennar sem hann þá afhenti henni.  Þá hafi hún sagt að ákærði hefði ráðist á sig og að nú myndu meiðsli hennar taka sig upp aftur.  Ekki kveðst hún hafa séð áverka á konunni.

F læknir hefur skýrt frá því að þar sem A hafði ekki löngu áður orðið fyrir alvarlegu slysi hafi verið erfiðleikum bundið að greina á milli eldri og nýrri áverka.  Nýrri áverkar hafi svo ýft upp eldri mein og valdið auknum óþægindum á þeim stöðum sem hún bar áverka eftir slysið.  Aðspurður segir hann ólíklegt að konan hafi veitt sér þessa áverka sjálf.

B lögreglumaður hefur greint frá því að allt hafi verið orðið rólegt í húsinu þegar lögreglan kom á vettvang.  Hafi nágrannar A, E og A sjálf sagt frá því sem gerst hafði.  Hafi A verið mjög miður sín.  Minnir vitnið að roði hafi verið á hálsi hennar.  Næst hafi verið knúið dyra hjá ákærða og rætt við hann.  Hafi hann verið mjög rólegur.  Hún kveðst hafa farið inn í íbúð A og ekki séð þar annað athugavert en að brauðsneið lá á gólfinu.  Þá hafi A sagt að sófinn hefði færst upp að vegg. 

G lögreglumaður segir ákærða hafa verið inni hjá sér þegar þeir lögreglumennirnir komu á staðinn.  Konan hafi verið í mikilli geðshræringu, virst hrædd og sagt ákærða hafa veist að sér.  Hefði hann verið að banka hjá sér að undanförnu en í þetta sinn hefði hann ruðst inn til hennar, læst á eftir sér og hrint henni í sófa og haldið henni þannig í smátíma.  Ákærði hafi opnað hjá sér og verið rólegur.  Hafi hann viðurkennt að hafa farið inn hjá konunni en ekki læst á eftir sér.  Hann muni þó ekki hafa viðurkennt að hafa veitt henni neina áverka.  Ekki kveðst vitnið muna eftir áverkum á A eða séð ummerki um átök inni hjá henni, nema þá að brauðsneið var á gólfinu.  Konan hafi talað um að sófinn, sem hann hefði hrint henni í, hefði færst úr stað. 

H lögreglumaður segir ákærða hafa verið inni hjá sér þegar þeir lögreglumennirnir komu á vettvang.  Minnir vitnið að A hafi verið grátandi. 

Niðurstaða

                Ákærði neitar því að hafa ráðist á A og veitt henni þá áverka sem greinir í ákærunni.  Þó viðurkennir hann að hafa tekið um úlnlið hennar þegar hann tók af henni símann.  Framburður A hefur verið nokkuð losaralegur, ekki laus við ýkjur og rekist um sumt á annað sem komið hefur fram í málinu.  Áverkavottorð F læknis styður hins vegar frásögn hennar um að ráðist hafi verið á hana með ofbeldi og hið sama er að segja um framburð þeirra E, C og D.  Þykir dóminum vera sannað með vætti A, læknisvottorðinu og vætti þeirra þriggja svo og B lögreglumanns, m.a. um roða á hálsi konunnar, að ákærði réðst á hana með því að hrinda henni, snúa upp á hönd hennar, sparka í hana og að taka hana hálstaki svo að hún hlaut bólgu yfir hægra kinnbeini, mar hægra megin á kviði, bólgu á hægri handlegg og loks mar og bólgu á hægri mjöðm.  Með vísan til þess sem áður sagði um framburð A þykir ekki óhætt að telja sannað að hún hafi hlotið frekari áverka af völdum ákærða.  Verknaður ákærða þykir varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga.  

Refsing og sakarkostnaður

                Sakaferill ákærða hefur ekki þýðingu í málinu.  Það telst refsingu ákærða til þyngingar að hann ruddist inn á heimili A, læsti dyrunum og beitti hana ofbeldi, þótt hann vissi að hún hefði orðið fyrir talsverðu slysi ekki löngu áður.  Refsing ákærða þykir hæfilega ákveðin fangelsi í 60 daga.  Þar sem ákærði hefur ekki áður gerst sekur um ofbeldisbrot er rétt að fresta refsingu þessari og ákveða að hún falli niður að liðnum 3 árum frá dómsuppsögu að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

                Dæma ber ákærða til þess að greiða verjanda sínum, Sævari Þór Jónssyni hdl., 491.040 krónur í málsvarnarlaun að meðtöldum virðisaukaskatti.

                Loks ber að dæma að ákærði greiði annan kostnað af málinu, 48.000 krónur.

Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

DÓMSORÐ:

Ákærði, Viðar Norðfjörð Guðbjartsson, sæti fangelsi í 60 daga.  Refsingunni er frestað og fellur hún niður að liðnum 3 árum frá dómsuppsögu að telja, haldi ákærði almennt skilorð.

                Ákærði greiði verjanda sínum, Sævari Þór Jónssyni hdl., 491.040 krónur í málsvarnarlaun.

                Ákærði greiði annan kostnað af málinu, 48.000 krónur.