Hæstiréttur íslands
Mál nr. 571/2016
Lykilorð
- Byggingarstjóri
- Galli
- Skaðabætur
- Fyrning
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 9. ágúst 2016. Áfrýjandinn Hlíf Sturludóttir krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 5.516.356 krónur. Áfrýjendurnir Sigurlaug Sigurjónsdóttir og Bergur Pálsson krefjast þess að stefnda verði gert að greiða sér 5.513.850 krónur. Áfrýjendurnir Margeir Daníelsson og Unnur Stephensen krefjast þess að stefnda verði gert að greiða sér 5.326.085 krónur. Áfrýjandinn Arnþór Jónsson krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 5.374.329 krónur. Í öllum tilvikum gera áfrýjendur kröfu um dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu á framangreindar fjárhæðir frá 16. nóvember 2013 til greiðsludags. Þá krefjast áfrýjendur málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en ekki eru gerðar sjálfstæðar dómkröfur af hendi réttargæslustefnda.
I
Með samningi Reykjavíkurborgar og Snorra Hjaltasonar 15. júní 2001 var honum leigð lóðin að Maríubaug 105 til 113 í Reykjavík til að byggja á henni íbúðarhús, en Snorri hafði með bréfi til byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar 7. febrúar 2001 óskað eftir því að stefndi Sæmundur tæki að sér umsjón með byggingarframkvæmdum sem byggingarstjóri. Stefndi var með starfsábyrgðartryggingu byggingarstjóra hjá réttargæslustefnda frá 4. apríl 2000 til 31. desember 2001, en hjá Verði tryggingum hf. frá 1. janúar 2002 til 31. desember sama ár. Fyrrgreindur Snorri seldi Húsasmiðjunni hf. eignina að Maríubaug 105 hinn 24. ágúst 2002 tilbúna til innréttinga og fullbúna að utan. Eignina seldi Húsasmiðjan hf. áfrýjandanum Hlíf Sturludóttur með kaupsamningi 19. nóvember 2002. Í kaupsamningi var þess getið að eignin seldist í því ástandi sem hún væri í við afhendingu.
Þá seldi Snorri fasteignina að Maríubaug 107 Einingaverksmiðjunni ehf. með kaupsamningi 10. júní 2002. Í samningnum sagði að um væri að ræða raðhús í byggingu sem seldist tilbúið til innréttinga, en fullbúið að utan. Einingaverksmiðjan ehf. seldi áfrýjendunum Sigurlaugu Sigurjónsdóttur og Bergi Pálssyni eignina með kaupsamningi 4. apríl 2003.
Með afsali 18. október 2002 seldi Snorri Húsasmiðjunni hf. Maríubaug 109. Eignin var seld tilbúin til innréttinga samkvæmt íslenskum staðli, fullbúin að utan. Með kaupsamningi um þá eign 1. apríl 2003 seldi Húsasmiðjan hf. eignina til Kristjáns Jónssonar og Guðrúnar Margrétar Jónsdóttur. Síðastnefndir kaupendur seldu eignina 5. apríl 2005 þeim Kjartani Guðmundssyni og Emilíu Gunnarsdóttur, sem aftur seldu eignina áfrýjendunum Unni Stephensen og Margeiri Daníelssyni 10. júní 2006.
Loks seldi Snorri Vinnuvélum ehf. fasteignina að Maríubaug 111 með kaupsamningi 21. nóvember 2002. Í honum var tekið fram að eignin væri tilbúin til innréttinga, en að utan væri húsið með marmarasalla og ómáluðum sléttum flötum. Eignina seldu Vinnuvélar ehf. þeim Þorleifi Óskarssyni og Kristrúnu Lilju Daðadóttur 4. febrúar 2003. Í kaupsamningi var tekið fram að kaupanda væri kunnugt að þegar eignin hefði verið afhent í umsömdu ástandi þyrfti hann að skipta um byggingarstjóra á henni. Eignina seldu síðastgreindir kaupendur áfrýjandanum Arnþóri Jónssyni og Agnesi Kristjónsdóttur 15. mars 2006.
Húsin að Maríubaug 105, 107 og 109 eru samföst á einum vegg, en hús 111 og 113 eru stakstæð ef frá eru taldir stoðveggir til að jafna hæðarmun milli fram- og afturlóðar.
Í gögnum málsins er að finna kvittun fyrir greiðslu áfrýjandans Sigurlaugar 25. júní 2003 á 22.000 krónum til TSÓ tækniþjónustu ehf., sem hún kvað fyrir dómi að hefði verið vegna starfsábyrgðartryggingar stefnda. Í framburði sínum fyrir héraðsdómi kvaðst stefndi hafa afhent byggingarfulltrúa bréf þess efnis að hann væri hættur sem byggingarstjóri um það leyti sem húsin voru fokheld, sem líklega hafi verið árið 2002 og hefði seljandi húsanna, fyrrgreindur Snorri, vitað af því. Hann kvað ekki hafa farið fram neina stöðuúttekt á húsunum í kjölfar þess að hann hætti sem byggingarstjóri fasteignanna. Ágreiningslaust er að ekki var ráðinn nýr byggingarstjóri fyrir húsin fyrr en áfrýjandinn Sigurlaug réð byggingarstjóra á árinu 2014 til þess að sjá um framkvæmdir á húsunum er tengdust úrbótum vegna mygluskemmda í þeim.
II
Á árinu 2013 var eigendum að fasteignunum að Maríubaugi 105 til 111 greint frá því að mögulegt væri að mygla væri í þökum húsanna þar sem þak hússins að Maríubaug 113 væri skemmt vegna myglu. Með bréfi 16. október 2013 gerðu áfrýjendur kröfu í starfsábyrgðartryggingu stefnda á grundvelli þess sem komið hefði fram um myglu í þökum, en þeirri kröfu var hafnað. Áfrýjendur öfluðu matsgerðar sérfróðs manns um galla á fasteignum þeirra. Matsgerðin er í megindráttum tvíþætt og tekur annars vegar til galla vegna myglu í þökum og kostnaðar við úrbætur vegna þess og hins vegar til þess sem nefnt var ,,aðrir gallar á frágangi húsanna“ og kostnaðaráætlunar vegna þeirra.
Í matsgerðinni kemur fram að meginorsök mygluskemmda í þökum húsanna sé að rekja til þess að loftun þeirra hafi ekki verið í samræmi við kröfur byggingarreglugerðar. Lokað hafi verið fyrir loftun á hluta þaka og hafi þéttipylsum og upprúlluðu fínu álneti verið troðið í loftrásir og takmarki það loftun þeirra. Þá hafi óþétt rakasperra einnig áhrif. Í svari matsmanns við þeirri spurningu hvenær myglan í þökum húsanna hafi komið fram segir að ,,samkvæmt matsbeiðendum var farið í framkvæmd árið 2006 við að reyna að þétta í loftunarrásir með þéttipylsum og neti. Einnig var lagður pappi yfir tengingar milli húsa sem lokaði fyrir loftrásir á hluta þaks“. Erfitt væri að greina hvenær mygla í þakrými húsanna hafi komið fram. Hugsanlegt væri að eitthvað hafi byrjað á fyrsta vetri eftir að íbúar fluttu inn, en líklegt væri að við þéttingu á loftrásum og lokun á þeim hafi vöxtur myglu í þakrými byrjað að einhverju marki. Matsmaður taldi að hönnun þaka húsanna væri í samræmi við staðla, lög og reglugerðir. Hins vegar væri frágangur þakanna og loftun þeirra ekki í samræmi við samþykkta uppdrætti og byggingarreglugerð nr. 441/1998. Þá væri klæðning þakveggja ekki í samræmi við samþykkta uppdrætti. Í matsgerðinni eru einnig raktar niðurstöður vegna annarra galla á frágangi húsanna eins og nánar er gerð grein fyrir í hinum áfrýjaða dómi.
III
Af hálfu áfrýjenda er því haldið fram að stefndi beri ábyrgð á þeim göllum á húsunum sem raktir eru í matsgerð, enda hafi þeir orðið vegna saknæmrar háttsemi hans á þeim tíma er hann var byggingarstjóri fasteigna þeirra sem um ræðir í málinu. Telja áfrýjendur að matsgerð hins dómkvadda matsmanns hafi verið rangtúlkuð í héraðsdómi að því leyti að sveppamyndun í þakrými ofan við rakasperru sé að mestu komin til vegna þess að loftun þaka sé ekki í samræmi við kröfur sem gerðar séu í byggingarreglugerð. Verði mygluskemmdir í þökum húsanna raktar til ófullnægjandi frágangs við þau, en ekki einvörðungu til þess að þéttipylsum og upprúlluðu vírneti hafi verið komið fyrir í rásum við þakkant. Auk þess verði aðrir gallar raktir til frágangs þéttinga milli glugga- og hurðarkarms og steyptra eininga. Af hálfu áfrýjenda er á því byggt að aðrir verkþættir, sem haldnir hafi verið göllum og valdið hafi tjóni áfrýjenda, hafi ýmist verið unnir áður en húsin urðu fokheld eða eftir það, en fokheldisvottorð var gefið út í lok ársins 2001.
Samkvæmt framburði áfrýjandans Sigurlaugar fyrir dómi byrjaði að leka inn í hús hennar um veturinn 2003 til 2004. Hún hafi þá haft samband við stefnda, en hann hafi verið tengiliður milli hennar og fyrrgreinds Snorra Hjaltasonar. Hafi menn á vegum þess síðarnefnda komið og reynt að ráða bót á lekanum. Þá hafi verið settar svokallaðar þéttipylsur við þak hússins, en hún viti ekki til þess að slíkar þéttipylsur hafi verið settar annars staðar en í hennar hús. Staðfesti áfrýjandinn Hlíf Sturludóttir að engar þéttipylsur hafi verið settar upp í sitt hús.
Vegna þeirrar staðhæfingar matsmanns að matsbeiðendur, sem eru áfrýjendur í máli þessu, hafi staðhæft við sig að fyrrgreindar þéttipylsur hafi verið settar upp árið 2006 var hann spurður fyrir dómi hvort verið gæti að hann hafi haft rangt eftir matsbeiðendum um ártalið. Kvaðst hann ekki muna það nákvæmlega en það væri hugsanlegt.
IV
Samkvæmt 51. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sem í gildi voru er stefndi tók að sér byggingarstjórn framangreindra húsa að Maríubaug 105 til 113, skyldi við stjórn framkvæmda hvers mannvirkis vera byggingarstjóri. Í 3. mgr. 51. gr. sagði meðal annars að byggingarstjóri væri framkvæmdastjóri byggingarframkvæmda. Hann réði iðnmeistara í upphafi verks með samþykki eiganda eða samþykkti ráðningu þeirra. Hann bæri ábyrgð á að byggt væri í samræmi við samþykkta uppdrætti, lög og reglugerðir. Þá sagði þar að hann skyldi hafa fullnægjandi ábyrgðartryggingu er gilti að minnsta kosti í fimm ár frá lokum þeirra framkvæmda sem hann stýrði, en að öðru leyti færi um umboð byggingarstjóra, verksvið hans og ábyrgð gagnvart eiganda byggingarframkvæmda eftir samningi þeirra í milli.
Ágreiningslaust er að stefndi tók að sér byggingarstjórn í þágu Snorra Hjaltasonar á árinu 2001 og var með starfsábyrgðartryggingu byggingarstjóra hjá réttargæslustefnda frá 4. apríl 2000 til 31. desember 2001, en frá 1. janúar 2002 hjá Verði tryggingum hf. til 31. desember sama ár. Hann hefur staðhæft að hann hafi afhent byggingarfulltrúa bréf um að hann væri hættur byggingarstjórn vegna framkvæmda við framangreind hús, á árinu 2002. Ekkert gagn þess efnis hefur verið lagt fram í málinu og er ágreiningslaust að engin stöðuúttekt fór þá fram á húsunum í samræmi við 5. mgr. 51. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga, sbr. ákvæði 36. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998. Er því ósönnuð sú fullyrðing hans að hann hafi sagt sig frá byggingarstjórn og fer um ábyrgð hans sem byggingarstjóra samkvæmt ákvæðum skipulags- og byggingarlaga og byggingarreglugerðar nr. 441/1998 sem í gildi voru á byggingartíma húsanna. Ábyrgð samkvæmt lögunum er hefðbundin sakarábyrgð á grundvelli almennra skaðabótareglna utan samninga.
Eins og rakið hefur verið voru húsin byggð árið 2001 og fokheldisvottorð gefið út í lok þess árs. Húsin voru öll seld tilbúin til innréttinga árið 2002. Af málatilbúnaði áfrýjenda er ljóst, svo sem meðal annars má ráða af greinargerð þeirra til Hæstaréttar, að þau telji að orsakir myglu í þökum húsanna sé ekki einvörðungu að rekja til hinna svokölluðu þéttipylsa, sem áfrýjandinn Sigurlaug kvað hafa verið settar upp veturinn 2003 til 2004, heldur einnig til þess að ekki hafi verið byggt í samræmi við samþykktar teikningar, lög og reglugerðir þegar húsin voru reist. Af vætti húsasmíðameistara þess sem sá um framkvæmdir við endurbætur á húsunum árið 2014 fyrir héraðsdómi, varð enn fremur ráðið að mygla hafi verið í öllum þökunum óháð því hvort settar hafi verið upp þéttipylsur. Samrýmist það þeim staðhæfingum áfrýjenda, að aðrir gallar en þeir sem einvörðungu voru raktir til svokallaðra þéttipylsa, hafi verið á loftræsingu þaka húsanna og að þeir hafi komið til áður en húsin urðu fokheld.
Ekki verður af matsgerð eða öðrum gögnum málsins ráðið hvenær áfrýjendur máttu gera sér grein fyrir göllum á loftræsingu þaka húsanna, sem myglan var rakin til. Samkvæmt meginreglu skaðabótaréttar stofnast skaðabótakrafa þegar hin bótaskylda háttsemi á sér stað og miðast gjalddagi kröfunnar við sama tímamark, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda, sem hér eiga við, sbr. 28. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda. Af framangreindu leiðir að fyrningarfrestur kröfu áfrýjenda byrjaði í síðasta lagi að líða þegar títtnefndar þéttipylsur voru settar upp, sem samkvæmt því sem áður hefur verið rakið mun hafa verið veturinn 2003 til 2004. Krafan fyrndist 10 árum síðar, sbr. 2. tölulið 4. gr. laga nr. 14/1905 og var því krafa vegna galla sem rakinn var til myglu í þaki fyrnd þegar áfrýjendur höfðuðu mál þetta 19. júní 2014. Dómur Hæstaréttar 15. nóvember 2007 í máli nr. 489/2006 breytir engu þar um, enda varðar mál það sem hér er til úrlausnar hina sérstöku ábyrgð byggingarstjóra sem leidd verður af skipulags- og byggingarlögum.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um að kröfur áfrýjenda vegna annarra galla séu einnig fyrndar. Samkvæmt öllu framangreindu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur um annað en málskostnað.
Rétt er að málskostnaður falli niður á báðum dómstigum.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 17. maí 2016.
Mál þetta, sem var dómtekið 19. apríl sl., var höfðað af Hlíf Sturludóttur, Maríubaugi 105, Reykjavík, Sigurlaugu Sigurjónsdóttur, Maríubaugi 107, Reykjavík Bergi Pálssyni, Maríubaugi 107, Reykjavík, Margeiri Rúnari Daníelssyni, Maríubaugi 109, Reykjavík, Unni Stephensen, Maríubaugi 109, Reykjavík og Arnþóri Jónssyni, Maríubaugi 111, Reykjavík, með stefnu birtri 19. júní 2014, á hendur Sæmundi Ágústi Óskarssyni, Hrísateigi 7, Reykjavík og Sjóvá-Almennum tryggingum hf., Kringlunni 5, Reykjavík til réttargæslu.
Stefnendur krefjast þess að stefndi verði dæmdur til að greiða Hlíf Sturludóttur, 5.516.356 kr. ásamt dráttarvöxtum skv. 9. gr. sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 16. nóvember 2013 til greiðsludags, Sigurlaugu Sigurjónsdóttur og Bergi Pálssyni 5.513.850 kr. ásamt dráttarvöxtum skv. 9. gr. sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 16. nóvember 2013 til greiðsludags, Margeiri Daníelssyni og Unni G. Stephensen 5.326.085 kr. auk dráttarvaxta skv. 9. gr. sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 16. nóvember til greiðsludags og Arnþóri Jónssyni 5.374.329 kr. ásamt dráttarvöxtum skv. 9. gr. sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 16. nóvember 2013 til greiðsludags.
Stefnda, Sjóvá-Almennum tryggingum hf., er stefnt til réttargæslu.
Stefnendur krefjast málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefndu að teknu tilliti til virðisaukaskatts.
Stefndi krefst aðallega sýknu auk málskostnaðar að mati réttarins en til vara að kröfur stefnenda verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður.
Af hálfu réttargæslustefnda, Sjóvá-Almennum tryggingum hf., er tekið undir kröfur stefnda, Sæmundar Ágústs Óskarssonar, auk þess sem krafist er málskostnaðar.
I.
Mál þetta lýtur að kröfu fasteignaeigenda um skaðabætur úr hendi byggingarstjóra eignanna vegna skemmda á húsum þeirra sem þeir telja að rekja megi til saknæmrar háttsemi hans.
Fasteignirnar Maríubaugur 105-111 eru L-laga einlyft íbúðarhús, svokölluð keðjuhús, sem byggð voru á árunum 2001-2002. Öll húsin, utan húss númer 111, eru tengd saman á einum vegg en hús 109 og 111 eru tengd saman með léttri girðingu. Maríubaugur 113, sem ekki er hluti þessa máls, er byggt af sama aðila á sama tíma. Það hús tengist húsi númer 111 með léttri girðingu sams konar þeirri sem er milli húsa númer 109 og 111.
Húsin eru í stefnu sögð byggð af Trésmiðju Snorra Hjaltasonar ehf., sem síðar var tekin til gjaldþrotaskipta. Þau voru seld fullbúin að utan en tilbúin til innréttingar að innan. Húsin voru skráð fokheld þann 28. nóvember 2001 en lokaúttekt hefur enn ekki farið fram. Samkvæmt fyrirliggjandi kaupsamningum og afsölum kemur fram að Trésmiðja Snorra Hjaltasonar ehf. hafi árið 2002 selt Húsasmiðjunni hf., Einingaverksmiðjunni ehf., og Vinnuvélum ehf. húsin. Stefnendur keyptu húsin af framangreindum aðilum. Arnþór Jónsson keypti Maríubaug 111 þann 15. mars 2006, Sigurlaug Sigurjónsdóttir og Bergur Pálsson keyptu Maríubaug 107 þann 4. apríl 2003, Margeir Rúnar Daníelsson og Unnur Stephensen keyptu Maríubaug 109 þann 10. júní 2006 og Hlíf Sturludóttir keypti Maríubaug 105 þann 19. nóvember 2002.
Stefndi var byggingarstjóri við byggingu framangreindra húsa. Bréf þar að lútandi er sent byggingarfulltrúa Reykjavíkur þann 7. febrúar 2001. Í bréfi frá réttargæslustefnda til sama aðila þann 4. apríl 2000 er staðfest að stefndi hafi gilda starfsábyrgðartryggingu og jafnframt að tryggingunni verði haldið í gildi þar til öðruvísi verði tilkynnt. Þá staðfestir Vörður vátryggingafélag, með yfirlýsingu þann 17. júlí 2002, að stefndi hafi starfsábyrgðartryggingu hjá því félagi sem sé í gildi til 31. desember 2002. Ekki nýtur við gagna um það hvort eða hvenær stefndi hætti störfum sem byggingarstjóri en í greinargerð hans segir að hann telji það hafa verið þegar húsin voru fokheld.
Árið 2012 vaknaði grunur um mygluskemmdir í þaki húss við Maríubaug 113. Í skýrslu verkfræðistofunnar Mannvits, dagsettri 15. október það ár, er staðfest að um myglu sé að ræða og kemur fram að skoðaðir hafi verið fimm staðir á þakinu. Um orsakir myglunnar segir í skýrslunni að loftun þaksins hafi verið ófullnægjandi, miðað við gerð þaksins og kröfur sem fram komi í greinum 136.4 og 184 í byggingarreglugerð nr. 441/1998. Vanti um það bil 3312 mm2 loftun í hvert bil. Þá segir í skýrslunni að líkur séu á að þakplöturnar hafi verið blautar þegar þær voru lagðar á húsið og hafi það aukið á mygluna, þótt það atriði hafi ekki haft úrslitaáhrif að mati skýrsluhöfunda. Önnur skýrsla varðandi lagfæringar á eigninni var unnin af Mannvist og Mannvirki í janúar 2013.
Stefnendur segjast hafa fengið upplýsingar um mygluskemmdir í Maríubaugi 113 á fundi húseigenda í lok júní 2013. Hafi þau í kjölfarið rannsakað ástand eigin eigna. Í skýrslu Húss og heilsu ehf., dagsettri 28. ágúst sama ár, kemur fram sýni úr þökum allra eigna stefnenda sem sýni að mygla sé í þökunum. Þá er þess einnig getið í skýrslunni að skoðunarmenn hafi komið auga á ágalla á húsunum, m.a. rakaskemmdir á veggjum með fram gluggum og dyrum og að þaktúður hafi vantað í lokuð gluggalaus rými.
Með bréfi til réttargæslustefnda þann 16. október 2013 óskuðu stefnendur eftir því að félagið viðurkenndi ábyrgð á tjóni þeirra á grundvelli byggingarstjóratryggingar stefnda. Í bréfinu kemur fram að stefnendur hafi jafnframt gert sams konar kröfu á tryggingarfélag aðalhönnuðar hússins. Með bréfi þess frá 21. nóvember s.á. hafnar félagið ábyrgð hönnuða þegar af þeirri ástæðu að krafan gagnvart honum sé fyrnd. Réttagæslustefndi svaraði bréfinu með tölvuskeyti þann 6. nóvember s.á. Þar kemur fram að hann álíti kröfur stefnanda að öllum líkindum fyrndar auk þess sem hann hafnar því að gögn sem einhliða hafi verið aflað af hálfu þeirra geti verið grundvöllur kröfugerðar. Þann 7. febrúar 2014 var stefnda gert bréflega viðvart um kröfur stefnenda og málsatvik.
Auðunn Elísson, byggingarfræðingur og húsasmíðameistari, var dómkvaddur matsmaður að beiðni stefnenda. Í skýrslu matsmanns frá maí 2014 er staðfest að mygla sé í þökum húsanna, að fenginni frekari sýnatöku. Um orsakir hennar segir matsmaður að rekja megi mygluskemmdir til ófullnægjandi loftunar á þökum húsanna. Í matsbeiðni er nánar spurt hvort orsakir skemmda sé að rekja til hönnunar, uppsetningar eða frágangs þakanna.
Niðurstaða matsmanns er sú að hönnun þakanna sé í samræmi við staðla, lög og reglugerðir að því er loftun varðar. Kemur sú niðurstaða fram undir matslið 6. Í umfjöllun matsmanns um hönnunina kemur fram að fjöldi loftunarröra og stærð þeirra fullnægi kröfum í grein 136.4 í byggingarreglugerð nr. 441/1998, sem var í gildi þegar húsin voru reist. Þá kemur fram að ekki sé teiknaður frágangur á loftun þaks þar sem hús tengist og sperrur liggi að aðliggjandi húsum og segir matsmaður að gera megi ráð fyrir að sambærilegur frágangurinn sé við þá þakveggi og aðra veggi við ofanverða þakfleti. Þá segir matsmaður að loftun þaks yfir kverkasperru og vegg í bílskúr sé óheppileg þar sem loft þurfi í einhverjum tilvikum að fara nokkuð langa leið og gegnum skörð í kverksperru. Sé útreiknuð loftun þaks á þessum stöðum á mörkunum að vera fullnægjandi, miðað við kröfur byggingarreglugerðar.
Það er jafnframt niðurstaða matsmanns að meginorsök mygluskemmda sé að rekja til frágagns þaks, þ.e. bæði til loftunar þaksins og frágangs á rakavörn og þéttleika hennar. Í umfjöllun matsmanns um þessi atriði kemur fram að settar hafi verið þéttipylsur og upprúllað fínt álnet í loftunarrauf við þakveggi til að koma í veg fyrir að snjór fari inn á þakrými. Þá hafi pappalögn verið lögð yfir þakveggi þar sem húsin tengjast til þess að koma í veg fyrir leka en með því hafi verið lokað fyrir loftrásir á þessum stöðum. Í matsgerð er haft eftir ónafngreindum matsbeiðanda að þessar framkvæmdir hafi verið gerðar árið 2006, eftir að flutt var inn í húsin. Í niðurstöðu matsgerðar segir að framkvæmdirnar séu hvorki í samræmi við samþykktar teikningar né ákvæði greinar 184.1 í byggingarreglugerð nr. 441/1998. Hvað rakavarnarlagið varðar er í matsgerðinni rakið, að þar sem unnt hafi verið að skoða það hafi komið í ljós að frágangur þess var ófullnægjandi. Hafi mátt sjá göt á rakasperrunni þar sem rafmagnsrör hafi gengið í gegnum hana. Sé það einnig andstætt framangreindu ákvæði byggingarreglugerðar.
Þá er í niðurstöðu matsgerðar einnig getið um að frágangur á þakveggjum á göflum húsanna sé í andstöðu við hönnunargögn.
Auk framangreinds er í matsgerð fjallað um rakaskemmdir á veggjum húsa stefnenda. Í niðurstöðu matsgerðar kemur fram að finna megi rakaskemmdir á tilgreindum stöðum í veggjum húsa við Maríubaug 105, 107 og 111 en matsmaður fann ekki lekaskemmdir við Maríubaug 109. Um ástæður þessara rakaskemmda segir í niðurstöðu matsgerðar að frágangur þéttingar milli glugga- og hurðakarma og steyptra eininga hafi hvorki verið í samræmi við séruppdrátt þeirra byggingarhluta né vandaðan frágang. Hann telur erfitt að meta hvenær lekaskemmdir hafi komið fram en telur hugsanlegt að það hafi í einhverjum tilvikum verið fljótlega eftir að gengið hafi verið frá gluggunum.
Stefnufjárhæð málsins er í samræmi við niðurstöðu matsgerðar um kostnað við að lagfæra framangreinda ágalla á húsunum.
Aðalmeðferð málsins fór fram 5. nóvember sl. Þá gáfur aðilaskýrslu þau Hlíf Sturludóttir, Sigurlaug Sigurjónsdóttir, Arnþór Jónsson og Sæmundur Ágúst Óskarsson. Vitni báru Snorri Hjaltason og Hannes Þór Baldursson húsasmíðameistarar og Auðunn Elísson matsmaður. Vegna tafa á dómsuppsögu var málið endurflutt þann 19. apríl og dómtekið að nýju að því loknu.
II.
Stefnendur byggja á því að stefndi, Sæmundur Ágúst Óskarsson, hafi verið byggingarstjóri verksins þegar þau verk, sem síðar reyndust gölluð, voru unnin. Beri hann bótaábyrgð á þeim verkum í samræmi við 51. gr. þágildandi byggingar- og skipulagslaga nr. 73/1997 og 32-33. gr. reglugerðar nr. 441/1998. Stefnda hafi borið, sem byggingarstjóra, að sjá til þess að byggt væri í samræmi við samþykkta uppdrætti, lög og reglugerðir og hafa eftirlit með því að framkvæmdin væri tæknilega og faglega fullnægjandi. Stefndi hafi brugðist þessum starfsskyldum sínum og það hafi valdið stefnendum tjóni.
Í fyrirliggjandi matsgerð komi fram að tilgreinda galla á húsum stefnenda megi rekja til þess að framkvæmdir hafi ekki verið í samræmi við samþykkta uppdrætti og byggingarreglugerð og vinnubrögð hafi verið óvönduð. Gallarnir lúti að frágangi þaka og þéttinga milli glugga- og hurðakarms og steyptra eininga. Tjón stefnenda megi rekja til þess að stefndi hafi ekki sinnt eftirlitsskyldu sinni og yfirumsjón á framkvæmdastað með fullnægjandi hætti.
Stefnendur telja að myglu í þökum húsanna megi rekja til þess að ekki hafi verið forsvaranlega staðið að framkvæmdum. Í fyrirliggjandi matsgerð komi fram að loftun þaks á einstökum stöðum hafi verið verulega skert, sérstaklega þar sem húsin tengjast saman. Lokað hafi verið fyrir loftun á hluta þaks auk þess sem þéttipylsum og upprúlluðu fínu álneti hafi verið troðið í loftrásir sem hafi takmarkað loftun. Rakasperra hafi reynst óþétt og ætla megi að víða séu göt á henni með hliðsjón af því hvar raflagnir komi upp úr steyptum einingum. Þá hafi sveppafræðingur greint myglu af tegundinni Cladosporium í þökunum sem stefnendur telja fyrirliggjandi matsgerð sýna fram á að sé tilkomin vegna bágs frágangs þaksins, þ.e. bæði vegna loftunar og frágangs rakasperru og þéttleika hennar. Af niðurstöðu matsgerðar sé ljóst að stefndi hafi hvorki gætt að því að loftun þaka uppfyllti þær kröfur sem gerðar séu í reglugerð nr. 441/1998 né gengið eftir því að farið væri eftir byggingarlýsingu og samþykktum uppdráttum við byggingarframkvæmdir. Stefndi hafi þannig sýnt af sér gáleysi við eftirlit með framkvæmdunum sem varði ábyrgð hans með vísan til 51. gr. laga nr. 71/1997, sbr. 29. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.
Þá hafi stefnda borið, samkvæmt 48. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998, að láta fara fram áfangaúttektir, m.a. á rakavarnarlagi og frágangi klæðningar þaka. Slíkar úttektir hafi aldrei farið fram auk þess sem lokaúttekt hafi enn ekki farið fram. Skortur á loftun þakanna hefði uppgötvast við lögboðnar úttektir, hefðu þær farið fram. Þá megi leiða líkur að því að þakplötuefni hafi verið rakt þegar það var sett upp og öruggt að það hefði uppgötvast við úttektir á þökum húsanna. Hefði þannig mátt lagfæra gallana og koma í veg fyrir það tjón sem varð hefðu úttektir farið fram á réttum tíma. Stefnendur byggja á því að stefndi hafi sýnt af sér saknæma háttsemi með því að láta það farast fyrir að gera lögboðnar úttektir og sú háttsemi hafi leitt til tjóns fyrir stefnendur sem stefndi beri ábyrgð á.
Enn fremur byggja stefnendur á því að aðra galla en myglu í þökum megi rekja til háttsemi stefnda. Mikill kuldi og gólfkuldi sé í húsunum sem rekja megi til þess að þétting glugga og hurða sé ófullnægjandi. Þá vanti einangrun á sökkul neðan við hurð út á pall og neðan við hurð inn í svefnherbergi á húsi nr. 105 sem geti að mati matsmanns myndað kuldaleiðni. Í niðurstöðu matsmanns komi fram að vindblástur megi rekja til óþéttrar rakasperru í þaki eða óþéttra glugga og hurða. Auk þessa séu rakaskemmdir í sumum húsunum, nánar tiltekið í húsum nr. 105, 107 og 111. Þær sé að rekja til raka sem safnist fyrir í innviðum veggja. Rakaskemmdirnar séu flestar við glugga eða hurðir að undanskildum rakaummerkjum í lofti í gangi á húsi nr. 107. Rakskemmdirnar sé að rekja til ófullnægjandi frágangs á þéttingu milli glugga- og hurðarkarms og steyptra eininga sem sé hvorki í samræmi við séruppdrátt glugga né vandaðan frágang. Stefndi beri ábyrgð á þessum göllum þar sem hann hafi vanrækt eftirlitsskyldu og yfirumsjón með byggingu hússins.
Stefnendur hafi fyrst fengið upplýsingar um mögulega myglu í þökum húsa sinna á fundi í lok júní 2013. Í kjölfar hans hafi strax verið fengnir sérfræðingar til að kanna ástand þakanna og niðurstaða þeirra hafi legið fyrir í september 2013. Því gildi lög nr. 150/2007, um fyrningu kröfuréttinda, um kröfur þeirra enda fyrnist skaðabætur skv. 9. gr. laganna á fjórum árum frá þeim degi sem tjónþoli fékk nauðsynlegar upplýsingar um tjónið. Krafa þeirra sé því ekki fyrnd. Stefnendur hafi fyrst orðið varir við rakaskemmdir um svipað leyti og mygluna, þ.e. sumarið 2013.
Stefnendur telja rétt að stefna Sjóvá-almennum tryggingum hf. til réttargæslu enda hafi stefndi haft í gildi starfsábyrgðartryggingu sína hjá félaginu er hin bótaskylda háttsemi átti sér stað.
Stefnendur krefjast dráttarvaxta af kröfum sínum frá 16. nóvember 2013 enda hafi þá verið liðinn mánuður frá því að lögmaður stefnenda krafði stefndu sannanlega um greiðslu bóta. Fjárhæðir og útreikningur bótakrafna miðist við kostnaðarmat matsmanns samkvæmt fyrirliggjandi matsgerð.
III.
Stefndi byggir sýknukröfu sína aðallega á því að ósannað sé að galla húsa stefnenda sé að rekja til framkvæmda á þeim tíma sem stefndi ber ábyrgð á þeim sem byggingarstjóri. Stefndi hafi verið byggingarstjóri frá því framkvæmdir hófust og til ársloka 2002. Þá hafi Snorri Hjaltason selt húsin. Stefndi byggir á því að ábyrgð hans sem byggingarstjóra hafi fallið niður þegar eignirnar voru seldar þriðja aðila auk þess sem hann hafi á sama tíma sagt sig af verkinu. Beri hann því ekki ábyrgð á framkvæmdum sem fram fóru eftir það. Tekur hann fram í greinargerð að það hafi verið Snorri Hjaltason persónulega en ekki trésmiðja í hans nafni sem byggði og seldi húsin. Húsin hafi verið fokheld þegar þau voru seld og stefndi ekki komið að byggingarstjórn á síðari stigum. Kaupendur húsanna hafi verið fyrirtæki en ekki einstaklingar og kaupendum hafi verið fullkunnugt um að fá hafi þurft nýjan byggingarstjóra. Einungis eitt þessara fyrirtækja hafi tilkynnt nýjum kaupendum um nauðsyn þessa.
Stefndi byggir á því að uppbygging þaks og loftun milli sperra hafi verið í samræmi við byggingarlýsingu. Jafnframt hafi smíði og frágangur þakkants verið í samræmi við teikningar. Vísar hann þessu til stuðnings til niðurstöðu matsgerðar. Hafi loftun eftir sem áður verið ófullnægjandi sé um hönnunargalla að ræða sem stefndi beri ekki ábyrgð á. Þá mótmælir stefndi sem rangri og ósannaðri staðhæfingu í stefnu um að þakdúkur verið lagður á blautar þakplötur.
Niðurstaða matsmanns er sú að mygluskemmdir megi að stærstum hluta rekja til þess að vírnet og þéttipylsur hafi verið settar í loftrásir. Þær framkvæmdir hafi verið unnar á árinu 2006, svo sem fram komi í matsgerð, löngu eftir að stefndi lauk störfum sem byggingarstjóri.
Stefndi byggir á því að á framkvæmdatíma sem hann beri ábyrgð á hafi verið gengið frá þökum húsanna með einangrun og rakavarnarlagi sem hafi verið í fullkomnu lagi. Göt á rakasperrum, sem matsmaður kom auga á, séu ekki á hans ábyrgð. Húsin hafi verið tekin í notkun löngu áður en gengið hafi verið frá rafmagni í lofti og klæðningu þeirra og komi m.a. fram í gögnum málsins að fullnaðarfrágangi á rafmagni hafi ekki verið lokið fyrr en á árinu 2005. Hafi af einhverjum ástæðum orðið skemmdir á rakasperru áður en loftin voru klædd séu þær ekki á ábyrgð stefnda.
Hvað sem líði mögulegri ábyrgð stefnda byggir hann einnig á því að krafa á hendur honum sé fyrnd, samkvæmt lögum nr. 14/1905, sem hafi verið í gildi þegar húsin voru seld og við það tímamark beri að miða upphaf fyrningarfrests, þ.e. í árslok 2002.
Stefndi byggir á því að Snorri Hjaltason persónulega en ekki trésmiðja í hans nafni, hafi verið eigandi húsanna þegar hann vann við þau. Snorri hafi selt húsin haustið 2002 og hafi þau þá verið tilbúin undir tréverk. Kaupendur húsanna hafi verið Húsasmiðjan, Einingaverksmiðjan og Vinnuvélar, sem hafi selt húsin í sama ástandi og þeir keyptu þau. Stefnendur hafi tekið að sér að fullgera húsin, þ.m.t. að klæða þök o.fl. Hugsanlegir annmarkar við þær framkvæmdir séu ekki á ábyrgð stefnda, enda hafi ábyrgð hans einungis verið í gildi við framkvæmdir sem unnar voru þegar hann var byggingarstjóri í þágu upphaflegs eiganda húsanna, Snorra Hjaltasonar.
Þeir sem keyptu húsin af Snorra árið 2002 voru fagaðilar sem öllum var kunnugt um nauðsyn þess að skipta um byggingarstjóra. Aðeins einn þessara aðila hafi tilkynt kaupanda um nauðsyn þessa. Ráða megi af fyrirliggjandi matsgerð að meginannmarka á loftun húsanna megi rekja til framkvæmda á árinu 2006, þar sem lokað hafi verið fyrir loftun á hluta þaks og rakasperra hafi ekki verið nægilega þétt. Þá komi fram í matsgerðinni um þakkanta húsanna að þeir séu í samræmi við séruppdrátt. Miðað við lýsingar í matsgerð sé ljóst að stefndi beri ekki ábyrgð á myglu af völdum ónógrar loftræstingar á þökum. Stefndi telur að stefnendur hafi tekið við húsunum með einangruðu lofti og rakasperrulagi í fullkomnu lagi. Þeir hafi sjálfir lokið framkvæmdum með ófullnægjandi hætti. Þá megi ráða af matsgerð að hönnun kunni að vera ábótavant, en slíkt falli utan ábyrgðarsviðs byggingarstjóra. Stefndi telur með vísan til framangreinds að mygla sé ekki á hans ábyrgð.
Skortur á lokaúttekt húsanna skipti ekki máli. Við sölu húsanna árið 2002 hafi skilalýsingar legið fyrir. Þar komi fram að húsin séu tilbúin undir tréverk. Hafi orðið misbrestur á því að Húsasmiðjan og Einingaverksmiðjan hafi tilkynnt nýjum eigendum að ráða þyrfti nýjan iðnmeistara og byggingarstjóra til framkvæmda, beri stefndi ekki ábyrgð á því.
Þá byggir stefndi á því að hugsanleg ábyrgð hans sé fallin niður fyrir fyrningu skv. fyrningarlögum nr. 14/1905 sem gildi í tilviki aðila. Húsin hafi verið seld nýjum eigendum árið 2002 og miða beri upphaf fyrningar við það tímamark eða við árslok 2002. Stefnda hafi fyrst verið tilkynnt um ætlaða galla með bréfi árið 2014, rúmum 12 árum frá því byggingarstjórn hans lauk með sölu húsanna. Kröfur vegna vinnu fyrnist á fjórum árum skv. 1. tölul. 3. gr. laga nr. 14/1905. Samkvæmt 2. tölul. 4. gr. sömu laga sé 10 ára fyrning hið lengsta á kröfum vegna máls þessa.
Verði ekki á fallist á framangreindar málsástæður byggir stefndi á því að kröfur stefnenda séu fallnar niður sökum tómlætis. Fyrirliggjandi gögn sýni að eigendur húss númer 105 hafi keypt húsið árið 2002. Ekki liggi fyrir nein gögn um að kvartað hafi verið við seljanda eða stefnda sem þáverandi byggingarstjóra. Fyrst hafi verið vakin athygli á meintum göllum árið 2014. Eigendur húss nr. 107 hafi gert athugasemdir við kaupin vegna skorts á loftræstingu í lokuðum rýmum og vegna þess að vinnu við vinnurafmagn hafi ekki verið lokið. Samkvæmt kaupsamningi hafi þau tekið að sér að ljúka því verki auk þess sem í kaupsamningi hafi komið fram að þau hefðu orðið vör við raka. Húseigandi húss nr. 107 hafi haft samband við stefnda á árinu 2003 og kynnt stefnda athugasemdir sínar. Stefndi kveðst hafa tilkynnt stefnendum, Sigurlaugu og Bergi, að hann væri ekki lengur byggingarstjóri og rétt væri að snúa sér til seljanda, auk þess sem hann benti þeim á að fá sér nýjan byggingarstjóra. Aðrir stefnendur hafi keypt hús sín árið 2006. Stefndi telur að í fyrri kaupsamningum um þessar eignir hafi verið ákvæði sem vekja ættu þessa kaupendur til umhugsunar. Ljóst sé að sumir stefnenda hafi á árunum 2002 eða 2003 vitað að loftræstingu vantaði í lokuð rými og að raka hefði orðið vart af þeim sökum. Stefnendur hafi því vitað af annmörkum og ráðist í framkvæmdir á árinu 2006 án samráðs við hönnuði og/eða fagmenn og með því háttalagi fyrirgert öllum hugsanlegum bótarétti.
Verði fallist á kröfur stefnanda byggir stefndi á því að takmarka beri ábyrgð hans við 5.702.785 kr. sem sé hámarksábyrgð starfsábyrgðartryggingar hans, með vísan til 23. gr. og 24. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Bótaábyrgð umfram hámark tryggingar yrði honum ofviða og myndi óhjákvæmilega leiða til gjaldþrots hans enda sé hann eignalaus.
Forsendur og niðurstaða
Í máli þessu er deilt um hvort stefndi, sem var byggingarstjóri við byggingu fasteigna stefnenda, beri skaðabótaábyrgð á göllum sem komið hafa í ljós á eignunum. Fyrst og fremst er um að ræða myglu í þökum húsanna en einnig er deilt um aðra og minni galla. Óumdeilt er að talsverð mygla er í húsunum sem kom í ljós árið 2013. Fyrir liggur matsgerð Auðuns Elíssonar þar sem lýst er annmörkum á byggingu hússins sem skýra orsakir myglunnar. Ekki er deilt um fjárhagslegar forsendur kröfugerðar stefnenda en þær byggja á niðurstöðu matsgerðar um kostnað við nauðsynlegar úrbætur. Stefnendur byggja á því að stefndi hafi vanrækt skyldur byggingarstjóra og að sú vanræksla hafi valdið þeim skemmdum sem komu í ljós árið 2013.
Stefndi tókst á hendur byggingarstjórn í upphafi árs 2001 við upphaf smíða húsanna. Samkvæmt gögnum málsins hafði hann gildar byggingarstjóratryggingar a.m.k. til ársloka 2002. Stefndi hefur ekki fært sönnur á að hann hafi tilkynnt byggingarfulltrúa um að hann hafi sagt sig frá starfi byggingarstjóra, svo sem honum bar að gera skv. 6. mgr. 51. gr. laga nr. 73/1997 og ekkert liggur fyrir um að byggingarstjóraskipti hafi farið fram. Ekki er hald í þeirri málsástæðu stefnda að ábyrgð hans hafi fallið niður við sölu á eignunum, enda styðst sú staðhæfing hvorki við sett lög, dómaframkvæmd né aðra réttarheimild. Verður því að leysa úr ábyrgð stefnda út frá þeim reglum sem gilda um ábyrgð byggingarstjóra. Um ábyrgð hans fer samkvæmt ákvæðum skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og byggingarreglugerð nr. 441/1998, sem í gildi voru á byggingartíma eignanna.
Í fyrirliggjandi matsgerð er ágöllum á byggingu húsanna lýst. Niðurstaða matsmanns er sú að loftun þaka fasteigna stefnanda hafi verið ófullnægjandi og það hafi valdið mygluskemmdunum í þökunum. Í niðurstöðu matsgerðar kemur fram að meginorsakir ófullnægjandi loftunar hafi verið þær að þéttipylsum og upprúlluðu vírneti hafði verið komið fyrir í loftunarrásir við þakkant og að lokað hafði verið fyrir loftun við þakveggi þar sem húsin tengjast með því að leggja þakpappa yfir þakveggi. Auk þess hafi rakavarnalag verið óþétt, sem hafi átt þátt í skemmdunum. Í niðurstöðu matsgerðar kemur fram að þessi frágangur sé hvorki í samræmi við samþykktar teikningar né 4. mgr. 136. og 1. mgr. 184. gr. gildandi byggingarreglugerðrar.
Eins og áður greinir er óvissa um það hvenær byggingarframkvæmdum við fasteignir stefnenda lauk og lokaúttekt hefur ekki enn farið fram. Af fyrirliggjandi kaupsamningum um eignirnar frá árinu 2002 má ráða að þær hafi á þeim tíma verið tilbúnar til innréttinga. Þá liggur fyrir að flutt var inn í húsið við Maríubaug 105 í árslok 2002, hús númer 107 árið 2003 og hús númer 111 árið 2006. Ekki liggja fyrir upplýsingar um hvenær flutt var inn í hús númer 109 en samkvæmt kaupsamningi milli húsbyggjanda og Húsasmiðjunnar hf., dagsettum, 18. október 2002, var húsið þá fullfrágengið að utan og tilbúið til innréttingar að innan. Húsasmiðjan seldi einstaklingum eignina 1. apríl 2003 og verður að gera ráð fyrir að það hafi verið tekið í notkun fljótlega eftir það eða að minnsta kosti þegar stefnendur Margeir Daníelsson og Unnur G. Stephensen keyptu húsið, í apríl 2005.
Samkvæmt skriflegri yfirlýsingu Sigurlaugar Sigurjónsdóttur, eiganda Maríubaugs 107, var þéttipylsum og vírneti komið fyrir í loftunarraufum veturinn 2003-2004 og þakpappinn lagður yfir samskeyti húsanna árið 2006. Sama kom fram í skýrslu hennar fyrir dómi. Sagði hún ástæðu þess að ráðist hefði verið í þessar framkvæmdir þær að snjóað hafi inn á þakið í gegnum loftunarraufar og leka hefði orðið vart á samskeytum húsanna. Í matsgerð hefur matsmaður eftir ónafngreindum matsbeiðanda að þessar framkvæmdir hafi verið unnar árið 2006. Hvað sem líður ósamræmi í tímasetningum er ljóst að þessar framkvæmdir voru gerðar eftir að stefndi skilaði af sér þessum hluta verksins og eftir að eignirnar voru teknar í notkun. Ekki hefur verið leitt í ljós með fullnægjandi hætti hver annaðist þessar framkvæmdir en í framangreindri yfirlýsingu Sigurbjargar segir að það hafi verið menn á vegum Snorra Hjaltasonar sem settu þéttipylsurnar og vírnetið í veturinn 2003-2004. Annarra gagna nýtur ekki við um þetta atriði en í greinargerð stefnda er þeirri áskorun beint til stefnenda að upplýsa um það hverjir unnu að þessum framkvæmdum. Svo sem að framan greinir er það niðurstaða matsgerðar, sem ekki hefur verið hnekkt með öðrum gögnum, að þessar aðgerðir séu meginorsök þess að loftun þakanna varð ónóg sem aftur leiddi til þeirra skemmda sem krafist er bóta fyrir í málinu.
Stefndi var á framangreindum tíma enn skráður byggingarstjóri húsanna. Á honum hvíldi því ábyrgð samkvæmt 51. gr. laga nr. 73/1997 svo sem nánar er fjallað um í 2. kafla reglugerðar nr. 441/1998. Í ábyrgð samkvæmt tilvitnuðum ákvæðum laga og reglugerðar felst að byggingarstjóra ber að sjá til þess að byggt sé í samræmi við samþykkta uppdrætti, lög og reglugerðir. Jafnframt ber honum skylda til að hafa yfirumsjón og eftirlit með byggingarframkvæmdum sem hann stýrir, þar á meðal að sjá til þess að iðnmeistarar, sem komi að verkinu fyrir hans atbeina, sinni skyldum sínum og að framkvæmdin sé faglega og tæknilega fullnægjandi.
Gegn eindregnum mótmælum stefnda er ósannað að honum hafi verið kunnugt um þær framkvæmdir sem að framan er lýst, að hann hafi gefið fyrirmæli um hvernig þær skyldu framkvæmdar eða haft eftirlit með þeim, eða að þær hafi verið unnar af iðnmeisturum sem komu að verkinu fyrir hans atbeina. Verður af þessum sökum ekki lögð á stefnda skaðabótaábyrgð sem byggingarstjóri á þessum framkvæmdum. Breytir það ekki þessari niðurstöðu þótt í málinu liggi fyrir kvittun um millifærslu fjárhæðar inn á reikning TSÓ Tækniþjónustu ehf., þann 25. júní 2003, sem stefnendur halda fram að sé greiðsla fyrir byggingarstjóratryggingu stefnda á því ári, enda varpar það gagn ekki frekara ljósi á aðkomu hans að verkinu.
Svo sem áður er rakið er í ljós leitt að rakavarnarlag þakanna var ófullnægjandi þegar skoðun matsmanns fór fram árið 2014 og telur matsmaður að það hafi einnig haft áhrif á mygluskemmdirnar. Stefndi óskaði ekki eftir úttekt á raka- og vindavarnarlögum, svo sem honum bar samkvæmt d-lið 1. mgr. 48. gr. reglugerðar 441/1998. Verður því engu slegið föstu um ástand rakavarna á þeim tíma er slík úttekt skyldi fara fram. Á hinn bóginn verður, með hliðsjón af því sem að framan greinir um meginorsök mygluskemmdanna, að telja ósannað að þetta atriði eitt og sér hafi leitt til tjóns stefnenda.
Með hliðsjón af því sem nú hefur verið rakið er það niðurstaða dómsins að ósannað sé að orsakir tjóns stefnanda vegna mygluskemmda í þaki séu vegna framkvæmda sem stefndi getur borið skaðabótaábyrgð á sem byggingarstjóri eigna þeirra. Ber því að sýkna hann af þessum kröfulið málsins.
Aðrar kröfur stefnenda byggja á því að stefndi beri skaðabótaábyrgð á tjóni vegna rakaskemmda við glugga og hurðir. Í matsgerð er því lýst að raki hafi komið fram á tilteknum stöðum og orsaka hans sé að leita í ófullnægjandi frágangi á samskeytum steyptra veggja og glugga og hurða. Niðurstaða matsmanns er sú að frágangurinn hafi hvorki verið í samræmi við teikningar né vandaða byggingarhætti.
Hvað þessa liði í kröfugerð stefnenda varðar er til þess að líta að húsin voru byggð árið 2001 og fokheld í nóvember það ár. Framangreindum framkvæmdum var því lokið á árinu 2001 og flutt var inn í fyrstu húsin á árið 2002 og 2003. Ekkert liggur fyrir um hvenær stefnendur hafi fyrst mátt gera sér grein fyrir þessum ágalla og í niðurstöðu matsgerðar kemur fram að hugsanlega hafi hann byrjað að koma fram fljótlega eftir að gengið var frá gluggum. Engra annarra gagna nýtur við hvað þetta atriði varðar annarra en matsgerðar sem unnin var á árinu 2014, eða 13 árum eftir að húsin voru fokheld. Er því ekki annað unnt, eins og atvikum er háttað, en miða upphaf fyrningarfrests þessara krafna við þann tíma þegar framkvæmdum var lokið, sem hefur verið áður en fokheldisvottorð voru gefin út. Samkvæmt þágildandi lögum um fyrningu, nr. 14/1905, er fyrningartími skaðabótakröfu 10 ár sbr. 2. mgr. 4. gr. laganna. Samkvæmt þessu voru kröfurnar fyrndar fyrir upphaf málshöfðunar þann 19. júní 2014. Þegar af þessari ástæðu verður stefndi sýknaður af þessum kröfuliðum.
Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður stefndi sýknaður af öllum kröfum stefnenda. Stefnendum ber skv. 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 að greiða stefnanda málskostnað, sem telst hæfilega ákveðinn 850.000 krónur, að teknu tilliti til virðisaukaskatts.
Ingibjörg Þorsteinsdóttir héraðsdómari og dómsformaður kvað upp þennan dóm ásamt meðdómsmönnunum Ásmundi Ingvarssyni byggingarverkfræðingi og Jóni Ágústi Péturssyni byggingartæknifræðingi.
Dómsorð:
Stefndi, Sæmundur Ágúst Ólafsson, er sýkn af kröfum stefnenda, Hlífar Sturludóttur, Sigurlaugar Sigurjónsdóttur, Bergs Pálssonar, Margeirs Rúnars Daníelssonar, Unnar Stephensen og Arnþórs Jónssonar. Stefnendur greiði stefnda óskipt 850.000. krónur í málskostnað.