Hæstiréttur íslands

Mál nr. 572/2011


Lykilorð

  • Kynferðisbrot
  • Skaðabætur


                                     

Miðvikudaginn 16. maí 2012.

Nr. 572/2011.

Ákæruvaldið

(Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari)

gegn

Ólafi Guðmundssyni

(Bjarni Hauksson hrl.

Þórdís Bjarnadóttir hrl. réttargæslumaður)

Kynferðisbrot. Skaðabætur.

Ó var sakfelldur fyrir nauðgun með því að hafa veist að A, þar sem hún var að hafa þvaglát, og sett tvo fingur í endaþarm hennar, henni að óvörum. Var Ó dæmdur í 18 mánaða fangelsi og til að greiða A 700.000 krónur í miskabætur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir og Þorgeir Örlygsson og Benedikt Bogason settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 5. október 2011 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvalds er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst þess að refsing verði milduð og fjárhæð einkaréttarkröfu lækkuð.

A krefst þess að ákærða verði gert að greiða sér 1.200.000 krónur með sömu vöxtum og dæmdir voru í héraði.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur að öðru leyti en því að til frádráttar refsingu kemur gæsluvarðhald sem ákærði sætti undir rannsókn málsins.

Ákærða verður gert að að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns og þóknun réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður að öðru leyti en því að til frádráttar refsingu ákærða, Ólafs Guðmundssonar, kemur gæsluvarðhald hans frá 3. til 7. maí 2011.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 402.442 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Bjarna Haukssonar hæstaréttarlögmanns, 251.000 krónur, og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Þórdísar Bjarnadóttur hæstaréttarlögmanns, 125.500 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 16. september 2011.

Mál þetta, sem dómtekið var hinn 14. september 2011, er höfðað samkvæmt ákæru, útgefinni af ríkissaksóknara 24. júní 2011 á hendur Ólafi Guðmundssyni, kt. [...], [...], [...], fyrir nauðgun, aðfaranótt þriðjudagsins 3. maí 2011, með því að hafa með ofbeldi eða ólögmætri nauðung veist að A utandyra á Austurvelli í Reykjavík þar sem hún var að hafa þvaglát og sett tvo fingur í endaþarm hennar. Afleiðingar árásarinnar urðu þær að A hlaut nokkrar rifur við endaþarmsop.

Telst brot ákærða varða við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 3. gr. laga nr. 61/2007.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Af hálfu A, kt. [...], er krafist miskabóta að fjárhæð 1.200.000 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 3. maí 2011 til þess dags er mánuður er liðinn frá því bótakrafa þessi er kynnt ákærða, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags, auk greiðslu þóknunar við réttargæslu að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi auk virðisaukaskatts á réttargæsluþóknun.

Ákærði játar þá háttsemi rétta sem í ákæru er lýst, en hafnar því að um nauðgun hafi verið að ræða. Verjandi ákærða krefst þess að honum verði dæmd vægasta refsing sem lög leyfa, sem jafnframt verði bundin skilorði, og að skaðabótakrafa sæti verulegri lækkun. Þá krefst verjandi hæfilegra málsvarnarlauna sér til handa.

Málavextir

Aðfaranótt þriðjudagsins 3. maí 2011 barst lögreglu tilkynning um kynferðisbrot á Austurvelli í Reykjavík. Á vettvangi hittu lögreglumenn fyrir A, brotaþola í máli þessu, sem þar var ásamt vinafólki. Kvaðst A skömmu áður hafa verið stödd á Austurvelli og haft þar þvaglát, en þá hefði maður komið aftan að henni og rekið fingur inn í endaþarm hennar. A kvaðst hafa hrokkið undan manninum og spurt hann hvað hann væri að gera, en hann hefði gengið hlægjandi á brott. Kom fram að vinur og vinkona A hefðu veitt manninum eftirför, en hann komist undan á hlaupum út í Reykjavíkurtjörn, yfir í Pósthússtræti og ekið á brott þaðan á leigubifreið. Höfðu vitnin tekið niður skráningarnúmer bifreiðarinnar, en athugun lögreglu leiddi í ljós að ákærði stundaði leiguakstur á bifreiðinni. Var ákærði handtekinn í kjölfarið.

Meðal gagna málsins er vottorð B, [...]læknis [...] á Landspítala, dagsett 3. maí 2011, þar sem kemur fram að A hafi komið á bráðamóttöku þá um nóttina. Við læknisskoðun hafi mátt sjá litlar rifur við endaþarmsop og fylgja ljósmyndir af áverkunum.

Þá liggur fyrir skýrsla C sálfræðings um mat á þroska og heilbrigðisástandi ákærða, sem byggt er á samtölum við ákærða og niðurstöðum prófana sem hann gekkst undir í júní og júlí 2011. Í niðurstöðukafla skýrslunnar kemur m.a. fram að ákærði hafi átt við fjárhagsvanda að stríða og hafi það valdið honum streitu. Hann hafi snöggreiðst við að valda tjóni á bifreiðinni sem hann ók, með fyrirsjáanlegum fjárútlátum. Jafnframt kemur fram að ákærði hafi um skeið haft óeðlilega kynferðislega fantasíu sem hafi tengst hugsunum um konur sem hefðu þvaglát og hafi sú ímynd örvað hann kynferðislega. Í málinu liggur bréf D sálfræðings, dagsett 27. ágúst sl., þar sem kemur fram að ákærði hyggist gangast undir meðferð vegna tilfinninga og hegðunar sem lýst er í framangreindri skýrslu.

Við yfirheyrslu hjá lögreglu, daginn eftir atvikið, kvaðst ákærði hafa verið að aka leigubifreið um nóttina og hefði hann bakkað bifreiðinni á stólpa við Pósthússtræti. Hann hafi gengið í hringi á Austurvelli eftir þetta og þá komið auga á stúlku sem þar var að hafa þvaglát. Hann hafi ákveðið að káfa á stúlkunni, gengið þvert yfir Austurvöll og komið aftan að henni, svo að hún hafi ekki séð hann. Hann hafi síðan sett tvo fingur upp í leggöng hennar, að því er hann taldi. Ákærði kvaðst hafa gert þetta af fíflaskap.

Við þingfestingu málsins játaði ákærði að hafa sett tvo fingur í endaþarm stúlkunnar, svo sem í ákæru greinir, en kvaðst ekki telja að um nauðgun hafi verið að ræða. Stúlkan hafi snúið baki í hann þegar hann gekk í átt til hennar og hafi hún því ekki orðið hans vör þegar hann nálgaðist hana. Ákærði kvaðst hafa ætlað að hrekkja stúlkuna með þessu athæfi sínu. Nánar aðspurður kvaðst hann hafa fengið útrás fyrir reiði með verknaðinum. Hann eigi í fjárhagsvandræðum og hafi honum liðið illa yfir því að valda tjóni á bifreiðinni sem hann ók. Það hefði losnað um einhverja spennu hjá honum við þetta. Þá kvað ákærði verknaðinn jafnframt hafa tengst kynferðislegum órum. Hann tók fram að hann hygðist leita aðstoðar sálfræðings vegna vandamála sem tengdust skapsmunum hans og kynferðislegra óra, sem hann hefði fundið fyrir.

Niðurstaða

Ákærði hefur viðurkennt að hafa komið aftan að A þar sem hún var að hafa þvaglát á Austurvelli og sett tvo fingur í endaþarm stúlkunnar, henni að óvörum. Með þessu hefur ákærði gerst sekur um að veitast að stúlkunni með ofbeldi og telst háttsemi hans önnur kynferðismök í skilningi almennra hegningarlaga. Verður ákærði sakfelldur fyrir nauðgun samkvæmt 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga.

Ákærði er fæddur árið 1981. Hann hefur ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi. Ákærði braut gegn friðhelgi líkama brotaþola og var háttsemi hans gagnvart henni niðurlægjandi. Með hliðsjón af framansögðu, og með vísan til 1. og 2. tölul. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga, þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 18 mánuði.

Með broti því sem ákærði er sakfelldur fyrir hefur hann bakað sér miskabótaábyrgð gagnvart brotaþola samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga. Brot ákærða var til þess fallið að valda brotaþola mikilli vanlíðan, auk þess sem hún hlaut líkamlega áverka af. Þykja miskabætur hæfilega ákveðnar 700.000 krónur, sem beri vexti sem í dómsorði greinir.

Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sigmundar Hannessonar hrl., 251.000 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Þórdísar Bjarnadóttur hrl., 188.250 krónur. Við ákvörðun þóknunar lögmanna hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts. Ákærði greiði 365.159 krónur í annan sakarkostnað.

Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Sigríður Elsa Kjartansdóttir, settur vararíkissaksóknari.

Ragnheiður Harðardóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.

Dómsorð:

Ákærði, Ólafur Guðmundsson, sæti fangelsi í 18 mánuði.

Ákærði greiði A 700.000 krónur, auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 3. maí til 6. júní 2011, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sigmundar Hannessonar hrl., 251.000 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Þórdísar Bjarnadóttur hrl., 188.250 krónur. Ákærði greiði 365.159 krónur í annan sakarkostnað.