Hæstiréttur íslands
Mál nr. 578/2010
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
Fimmtudaginn 7. október 2010. |
|
|
Nr. 578/2010. |
Lögreglustjórinn á Selfossi (Jónína Guðmundsdóttir fulltrúi) gegn X (Sigurður Sigurjónsson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Páll Hreinsson og Viðar Már Matthíasson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. október 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 5. október 2010, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 1. nóvember 2010 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og að kærumálskostnaður verði ekki dæmdur.
Verjandi varnaraðila hefur ritað Hæstarétti bréf, sem móttekið var 7. október 2010, þar sem hann upplýsir að varnaraðili hafi gefið skýrslu hjá lögreglu 6. sama mánaðar og játað aðild sína að verknaði þeim, sem um ræðir. Hann hafi gefið greinargóða skýrslu og sé málið að hans mati upplýst að því er hann varðar. Sé því ekki þörf á áframhaldandi gæsluvarðhaldi yfir honum og alls ekki svo löngu sem um ræðir í hinum kærða úrskurði.
Fallist verður á með héraðsdómi að skilyrði 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 séu fyrir hendi og verður hinn kærði úrskurður staðfestur með vísan til forsenda hans.
Kærumálskostnaður dæmist ekki, sbr. 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 5. október 2010.
Lögreglustjórinn á Selfossi hefur gert þá kröfu að X, kt. [...], [...], [...], verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 1. nóvember nk. kl. 16:00 á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Kærði mótmælir kröfunni og krefst þess að henni verði hafnað, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.
Í greinargerð lögreglustjóra segir að með úrskurði Héraðsdóms Suðurlands frá 28. september í máli nr. [...] hafi kærða verið gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 4. október 2010 kl. 16:00 og hafi honum verið gert að sæta einangrun skv. b-lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008 á gæsluvarðhaldstímanum. Úrskurðurinn hafi verið staðfestur í Hæstarétti.
Fyrri gæsluvarðhaldskrafa hafi verið sett fram á grundvelli a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Krafa um framlengingu þess nú byggi á 2. mgr. 95. gr. sömu laga þar sem talið sé nauðsynlegt að kærði sæti varðhaldi með tilliti til almannahagsmuna.
Kveður lögreglustjóri kærði vera undir sterkum grun um að hafa framið brot sem varðað geti 16 ára fangelsi, sbr. 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Árás kærða á brotaþola hafi verið hrottafengin og beinst aðallega að höfði og efri hluta líkama brotaþola. Samkvæmt skýrslu réttarmeinafræðings hafi áverkar brotaþola samræmst því að barefli eða áhaldi hafi verið beitt og almennt séð geti svo kröftugt ofbeldi leitt til dauða.
Þá séu jafnframt til rannsóknar tvö mál er varði meinta líkamsárás kærða, annars vegar þar sem kærði hafi ráðist á mann og konu (mál lögreglu nr. [...]) og hins vegar þar sem kærða sé gefið að sök að hafa ráðist á fatlaðan mann og hrint honum af reiðhjóli með þeim afleiðingum að hann hafi mjaðmagrindarbrotnað (mál lögreglu nr. [...]). Föstudaginn 1. október sl. hafi verið þingfest og dómtekin þrjú mál á hendur kærða þar sem ákært hafi fyrir akstur sviptur ökurétti og undir áhrifum fíkniefna. Kærði var í síðastgreindu máli dæmdur í gær til að sæta fangelsi í 4 mánuði.
Kveður lögreglustjóri kærða eiga að baki töluverðan sakaferil og hafi hann meðal annars í þrígang verið dæmdur fyrir líkamsárásir. Mikil hætta sé talin á að kærði muni brjóta af sér að nýju með sambærilegum hætti og hann er sakaður um að hafa gert þann 27. september 2010 en brotaþoli og vitni óttist verulega hefndaraðgerðir af hálfu kærða og erfiðlega hafi gengið að ná í vitni þar sem þau hafi farið huldu höfði frá því að atvikið hafi átt sér stað. Þá leiki jafnframt grunur á að kærði hafi sett sig í samband við brotaþola í gegnum síma eða sms-smáskilaboð undanfarnar vikur og haft uppi hótanir.
Rannsókn málsins sé vel á veg komin en veruleg hætta sé talin á því að kærði muni setja sig samband við brotaþola og/eða önnur vitni og reyna að hafa áhrif á framburð þeirra, en það hafi sýnt sig að bæði brotaþoli og vitni hræðist að tjá sig vegna mögulegra hefndaraðgerða kærða.
Það sé mat lögreglustjóra að lagaskilyrðum 2. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 sé fullnægt, enda sé kærði undir sterkum grun um að hafa framið afbrot sem varðað geti að lögum allt að 16 ára fangelsi og sé þess eðlis að almannahagsmunir krefjist gæsluvarðhalds.
Í gögnum málsins kemur fram að mánudaginn 27. september 2010, hafi verið óskað eftir aðstoð lögreglu að [...] í [...] þar sem maður hafi ruðst inn í húsið og gengið þar berserksgang. Þegar lögregla kom á vettvang hitti hún fyrir brotaþola og tvö vitni. Mikið mun hafa blætt úr höfði brotaþola og var óskað eftir sjúkrabifreið á vettvang. Hafi mátt sjá mikið blóð á gólfi, blóðkám á veggjum og á rúmi. Gerandinn mun hafa yfirgefið vettvang en vitni gefið lýsingu á manninum og náð skráningarnúmeri bifreiðarinnar, [...], sem kallað hafi verið út til lögreglumanna. Bifreiðin var stöðvuð við [...] í Reykjavík og kærði handtekinn. Í bifreiðinni fundust blóðug hnúajárn og blóðugir vettlingar, en jafnframt var blóð á peysu kærða.
Kærði hefur neitað að tjá sig að öðru leyti en því að hann hefur fyrir dómi neitað að kannast við sakargiftir.
Samkvæmt skýrslu réttarmeinafræðings hafði brotaþoli talsverða áverka og er þeim lýst í skýrslunni. Kemur fram að brotaþoli hafi haft ýmis sár og blæðingar mest megnis á höfði og hálsi, en jafnframt á handleggjum og brjósti. Megin áverkar hafi verið á höfði og andliti og er lýst a.m.k. fimm höggáverkum á því svæði. Þá hafi hún kvartað undan verkjum í höfði, hálsi og brjósti. Samkvæmt skýrslunni benda áverkar á brotaþola til þess að barefli eða öðru áhaldi hafi verið beitt við árásina, en sumir áverkanna á höfði brotaþola séu þess eðlis að geti ekki verið eftir hönd eða hnefa og þannig staðsettir að geti vart verið eftir fall, en samrýmist því að barefli eða áhaldi hafi verið beitt. Almennt geti svo kröftugt ofbeldi, sem brotaþoli hafi orðið fyrir, leitt til dauða, en brotaþoli hafi þó ekki verið í lífshættu.
Samkvæmt rannsóknargögnum var allnokkuð blóð á vettvangi. Í viðræðum við vitni á vettvangi kom fram að árásarmaðurinn hefði ekið burt á bifreið með númerinu [...], og lýstu vitni útliti og klæðnaði árásarmannsins að nokkru leyti.
Þegar kærði var handtekinn var hann við akstur við [...] í Reykjavík, á bifreiðinni [...]. Kærði var klæddur í peysu sem samræmist lýsingu vitna, m.a. samrýmist áletrun á peysunni lýsingu vitna. Lýsing á árásarmanninum fellur að útliti kærða. Við leit í bifreið kærða fundust hnúajárn og svartir hanskar og mátti sjá blóðkám á hlutum þessum og var það staðfest með prófun tæknideildar lögreglu. Þá mátti sjá blóðkám á peysu sem kærði var í við handtöku, skv. rannsóknargögnum.
Í framburði þriggja vitna sem gefið hafa skýrslu hjá lögreglu og voru á vettvangi kemur fram að þau hafi vaknað við brothljóð og öskur og strax áttað sig á því að verið væri að brjóta upp útidyrahurðina, en stór glerrúða í útidyrahurð var mölbrotin. Þá kemur fram að kærði hafi verið í húsinu þegar ætluð líkamsárás átti sér stað. Kemur fram hjá tveimur þeirra að kærði hafi komið á eftir brotaþola út úr herbergi á neðri hæð hússins, en brotaþoli hafi þá verið alblóðug. Hafi verið öskur og læti og brotaþoli greinilega verið mjög hrædd og hún hafi sagt „ekki gera þetta“. Þá hafi brotaþoli sagt „ekki lemja mig meira“ og kærði svarað „Nei, ég skal ekki lemja þig meira, þú skalt koma með mér heim.“ Hafi kærði jafnframt haft á orði að ef brotaþoli myndi „halda framhjá honum aftur“ myndi hann ganga frá henni. Kemur fram hjá vitnunum að brotaþoli og kærði hafi verið í sambandi sem hafi slitnað upp úr tveimur vikum áður.
Í kröfu lögreglustjóra er ekki byggt á því að rannsóknarnauðsynjar krefjist gæsluvarðhalds, heldur er aðeins vísað til 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 og þess að almannahagsmunir krefjist þess að kærði sæti áframhaldandi gæsluvarðhaldi.
Þrátt fyrir að kærði hafi ekki viljað tjá sig um sakargiftir, þykir með hliðsjón af ummerkjum á vettvangi, framburði vitna sem gefið hafa skýrslur hjá lögreglu, sem og öðrum rannsóknargögnum, mega fallast á að fram sé kominn sterkur grunur um að kærði hafi framið umrædd brot.
Það er mat dómsins að ekki sé óvarlegt að telja að það árásarbrot sem kærði er grunaður um, geti talist varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga með hliðsjón af áverkum og staðsetningu þeirra, sem og því að grunur er um að hnúajárni eða öðru áhaldi, s.s barefli, hafi verið beitt. Brot gegn ákvæðinu geta varðað allt að 16 ára fangelsi. Jafnframt er kærði grunaður um húsbrot skv. 231. gr. almennra hegningarlaga. Meðal skilyrða þess að gæsluvarðhaldi verði beitt skv. ákvæði 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, er að ætla megi gæsluvarðhald nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Samkvæmt framansögðu er kærði að mati dómsins undir sterkum grun um að hafa brotið sér leið inn á heimili fólks með ofbeldi og ráðist þar að líkama annars manns með barefli eða hnúajárnum og beint árásinni fyrst og fremst að höfði og andliti þolandans, en mat réttarmeinafræðings er að slík árás sé til þess fallin að geta valdið dauða þess er fyrir verður. Þykir óhjákvæmilegt að fallast á það með lögreglustjóra að almannahagsmunir krefjist þess að kærði sæti gæsluvarðhaldi áfram, en ætluð brot kærða þykja hafa verið ófyrirleitin og árásin heiftúðug. Ber jafnframt að líta til þess að ekki er ósennilegt að kærði kunni að veitast að brotaþola, eftir atvikum með refsiverðum hætti, ef hann fær frelsi sitt aftur nú.
Með vísan til þessa og á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 verður því fallist á að kærði sæti gæsluvarðhaldi eins og nánar greinir í úrskurðarorði, en ekki þykja vera efni til að marka gæsluvarðhaldinu skemmri tíma með hliðsjón af því að nokkuð er í land með að málið sé fullbúið til ákærumeðferðar.
Sigurður G. Gíslason héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 1. nóvember 2010 kl. 16:00.