Hæstiréttur íslands

Mál nr. 342/2011


Lykilorð

  • Lánssamningur
  • Fjármálafyrirtæki
  • Veðréttindi
  • Dráttarvextir


Fimmtudaginn 16. febrúar 2012.

Nr. 342/2011.

EA fjárfestingarfélag hf.

(Hörður Felix Harðarson hrl.

Hlynur Halldórsson hdl.)

gegn

Íslandsbanka hf.

(Stefán Bj. Gunnlaugsson hrl.

Haraldur Örn Ólafsson hdl.)

og gagnsök

Lánasamningur. Fjármálafyrirtæki. Veðréttindi. Dráttarvextir.

B sparisjóður, sem síðar rann inn í Í hf., höfðaði mál gegn M hf., sem síðar fékk heitið E hf., og krafðist þess að sér yrði greiddur hluti andvirðis hlutabréfa  sem M hf. hafði selt og B hafði fengið að veði til tryggingar á láni til H ehf. Fallist var á að E hf. bæri að greiða Í hf. hluta söluandvirðisins í samræmi við hlutdeild síðarnefnda félagsins í lánssamningnum, enda bæri að líta á það sem afrakstur innheimtuaðgerðar í skilningi samnings félaganna sín á milli.   

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson og Helgi I. Jónsson settur hæstaréttardómari.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 30. maí 2011. Hann krefst sýknu af kröfu gagnáfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 19. júlí 2011. Hann krefst þess að aðaláfrýjanda verði gert að greiða sér 316.952.047 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 3. desember 2008 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

 Samkvæmt því, sem fram er komið fyrir Hæstarétti, mun nafni aðaláfrýjanda hafa verið breytt eftir uppkvaðningu héraðsdóms úr MP banka hf. í EA fjárfestingarfélag hf. Þá mun Byr sparisjóður, sem var stefnandi málsins í héraði og varð síðan Byr hf., hafa runnið saman við Íslandsbanka hf., sem hefur tekið við aðild að því hér fyrir dómi.

I

Samkvæmt gögnum málsins gerði Sparisjóður vélstjóra samning við Hansa ehf. 20. desember 2006 um lán til félagsins að fjárhæð 2.500.000.000 krónur. Í samningnum var meðal annars kveðið á um að lánið bæri svonefnda REIBOR vexti með 2,2% álagi og skyldu þeir greiddir ásamt höfuðstóli þess í einu lagi 20. desember 2007. Mælt var fyrir um tryggingar fyrir greiðslu skuldarinnar, vanefndir og úrræði vegna þeirra, svo og um heimild lánveitandans til að „framselja lánssamning þennan að hluta eða öllu leyti til þriðja aðila ásamt þeim réttindum sem honum fylgja“, en sú heimild var ekki háð samþykki lántakans. Sparisjóður vélstjóra gerði í framhaldi af þessu samning við aðaláfrýjanda 28. desember 2006 um „aðild að lánssamningi“. Með honum tókst aðaláfrýjandi „á hendur 40% ... hlutdeild í hlut lánveitanda“ í lánssamningnum við Hansa ehf. með því að greiða sparisjóðnum 1.000.000.000 krónur, en samhliða því lýsti sparisjóðurinn yfir að hann veitti aðaláfrýjanda „hlutfallslega 40% hlutdeild í þeim réttindum sem ákvæði samningsins veita honum svo og öllum þeim tryggingum sem lántaki hefur afhent lánveitanda vegna lánsins.“ Í samningnum sagði einnig að aðaláfrýjandi gæti „ekki öðlast ríkari rétt en lánveitandi vegna endurgreiðslu aðildarfjárhæðar sinnar og á ekki neinskonar endurkröfurétt á hendur lánveitanda vegna taps, sem hann kann að verða fyrir vegna aðildarinnar og orsakast af vanefndum lántaka.“ Sparisjóðurinn ætti að „annast vörslu samningsins og innheimtu“ og bæri að greiða jafnharðan til aðaláfrýjanda 40% af hverri greiðslu, sem bærist inn á skuldina, en yrði vanefnd á greiðslu eða skuldin gjaldfelld skyldi sparisjóðurinn hafa fullt samráð við aðaláfrýjanda um innheimtu og „tryggja hagsmuni hans eins og sína eigin.“ Þá var tekið fram að „öllum afrakstri innheimtuaðgerða“ skyldi skipt „hlutfallslega í samræmi við hlutdeild lánsaðila í eftirstöðvum skuldarinnar, að frádregnum hvers konar innheimtukostnaði, er lánveitandi hefur orðið fyrir“.

Sparisjóður vélstjóra mun 14. mars 2007 hafa sameinast öðrum sparisjóði og við það orðið til Byr sparisjóður. Skilmálum lánssamningsins frá 20. desember 2006 var breytt með samningi Byrs sparisjóðs og Hansa ehf. 28. desember 2007 á þann veg að nýr gjalddagi skuldarinnar yrði 22. desember 2008, fjárhæð hennar yrði 2.907.822.917 krónur og bæri hún REIBOR vexti með 3,3% álagi, en í málinu liggur ekki annað fyrir en að þetta hafi verið gert með samþykki aðaláfrýjanda. Eins og nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi voru Byr sparisjóði veittar tryggingar fyrir endurgreiðslu skuldar Hansa ehf. með því að Samson eignarhaldsfélag ehf. setti á árunum 2007 og 2008 í þágu lántakans að handveði hlutabréf í Landsbanka Íslands hf. að nafnverði samtals 184.745.576 krónur. Sex af þessum veðsetningum fóru fram á árinu 2008, síðast 15. september, og munu þær hafa komið til vegna kröfu Byrs sparisjóðs um frekari tryggingar. Í yfirlýsingum um allar veðsetningarnar voru meðal annars ákvæði um að við vanskil Hansa ehf. bæri Byr sparisjóði að skora á veðsalann að greiða gjaldfallna skuld félagsins, en yrði hann ekki við því innan fimmtán daga væri sparisjóðnum heimilt að koma veðsettu hlutabréfunum í verð á þann hátt, sem hann kysi. Auk þessara veðsetninga greiddi Hansa ehf. til sparisjóðsins 275.000.000 krónur inn á skuld sína 3. október 2008, þar sem tryggingar munu þá enn hafa verið komnar niður fyrir umsamið lágmark. Óumdeilt er að sparisjóðurinn hafi staðið aðaláfrýjanda skil á 40% af þeirri greiðslu í samræmi við samninginn frá 28. desember 2006.

Í málinu liggur fyrir að aðaláfrýjandi seldi í kauphöll hlutabréf í Landsbanka Íslands hf. 2. október 2008 að nafnverði 19.425.837 krónur og degi síðar að nafnverði 8.000.000 krónur eða samtals 27.425.837 hluti. Kaupendur eru ekki tilgreindir í gögnum málsins, en söluverð í þessum viðskiptum nam alls 528.253.411 krónum. Gera átti kaupin upp 7. október 2008 vegna viðskiptanna 2. sama mánaðar, en 8. október vegna viðskiptanna 3. sama mánaðar. Í málatilbúnaði aðaláfrýjanda er því lýst að þetta hafi af hans hendi verið svonefnd skortsala, þar sem hann hafi ekki þegar viðskiptin fóru fram ráðið yfir þessum hlutabréfum í Landsbanka Íslands hf., en til að efna kaupin fyrir sitt leyti hafi hann ætlað annaðhvort að kaupa bréfin á markaði eða fá þau að láni. Aðaláfrýjandi kveður þessa ráðstöfun hafa verið þátt í „áhættuvörn bankans ... vegna neikvæðrar þróunar á mörkuðum.“

Fjármálaeftirlitið tilkynnti 6. október 2008 að það hafi ákveðið að stöðva tímabundið viðskipti á skipulegum fjármálamarkaði meðal annars með alla fjármálagerninga, sem gefnir hafi verið út af Landsbanka Íslands hf. Að undangengnu ávarpi til íslensku þjóðarinnar lagði þáverandi forsætisráðherra fram á fundi Alþingis, sem hófst klukkan 16.50 þann dag, frumvarp til laga um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., þar sem meðal annars voru lagðar til breytingar á lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Frumvarpið var samþykkt að kvöldi sama dags og varð að lögum nr. 125/2008.

Starfsmaður Byrs sparisjóðs sendi tölvubréf til Samsonar eignarhaldsfélags ehf. 6. október 2008 klukkan 17.13, þar sem leitað var eftir samþykki fyrir því að hlutabréf í Landsbanka Íslands hf. að nafnverði 21.000.000 krónur, sem stæðu til tryggingar fyrir skuld Hansa ehf. við sparisjóðinn, yrðu „flutt yfir á nýjan vörsluaðila“, sem væri aðaláfrýjandi. Að fengnu samþykki veðsalans sendi sparisjóðurinn tölvubréf til aðaláfrýjanda klukkan 18.08 sama dag, þar sem lýst var yfir að heimilt væri að flytja fyrrgreind hlutabréf af tilteknum vörslureikningi fyrir verðbréf „yfir á kennitölu MP fjárfestingarbanka ... til vörslu.“ Tekið var þar fram að „meðferð hlutanna eftir yfirfærslu“ væri „á fullri ábyrgð“ aðaláfrýjanda. Hann svaraði þessari orðsendingu um stundarfjórðungi síðar með tölvubréfi, þar sem sagði meðal annars að „BYR sé heimilt að aflétta veðböndum á bréfunum. Komi upp ágreiningur um þá aðgerð þá ábyrgist bankinn að halda BYR skaðlausum vegna veðbandslausnarinnar.“ Fyrir liggur að hlutabréfin voru færð hjá Verðbréfaskráningu Íslands af reikningi á nafni Samsonar eignarhaldsfélags ehf. yfir á reikning á nafni aðaláfrýjanda á ótilgreindum tíma 6. október 2008, en degi síðar var það sama gert við hlutabréf í Landsbanka Íslands hf. að nafnverði 7.000.000 krónur.

Samkvæmt heimild í 100. gr. a. laga nr. 161/2002, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, tók Fjármálaeftirlitið 7. október 2008 yfir vald hluthafafundar í Landsbanka Íslands hf., vék stjórn hans frá og setti yfir hann skilanefnd. Með vísan til þess sendi Byr sparisjóður bréf samdægurs til Hansa ehf., þar sem krafist var að nýjar tryggingar yrðu settar fyrir skuld félagsins fyrir klukkan 15 þann dag, en að öðrum kosti yrði lánið til þess gjaldfellt og gengið að tryggingum fyrir greiðslu lánsins. Um hálfri klukkustund eftir að þeim fresti lauk tilkynnti aðaláfrýjandi fyrir sína hönd og Byrs sparisjóðs í tölvubréfi til Samsonar eignarhaldsfélags ehf. að ákveðið hafi verið „að ganga að þeim eignum sem Samson hefur sett að veði til tryggingar skuldum félagsins.“ Þessu svaraði félagið með orðsendingu, þar sem fram kom að það hafi þegar leitað eftir heimild til greiðslustöðvunar og teldi því „vafa leika á um lagaheimild“ til þessarar ráðstöfunar, sem athugasemdir voru ekki gerðar við að öðru leyti. Eins og málið liggur fyrir verður ekki annað séð en að aðaláfrýjandi hafi að þessu búnu notað meginhluta þeirra hlutabréfa í Landsbanka Íslands hf., sem hann fékk samkvæmt áðursögðu í sínar vörslur 6. og 7. október 2008, til að efna kaupin, sem hann gerði 2. og 3. sama mánaðar. Ekki er ágreiningur um að hlutabréfin í Landsbanka Íslands hf., sem Byr sparisjóður hafði fengið að veði fyrir skuld Hansa ehf., hafi að öðru leyti ekki nýst til greiðslu hennar.

Í framhaldi af því, sem að framan greinir, hófu Byr sparisjóður og aðaláfrýjandi eftir gögnum málsins í sameiningu undirbúning aðgerða til að innheimta eftirstöðvar skuldar Hansa ehf. samkvæmt lánssamningnum frá 20. desember 2006. Í tengslum við það reis ágreiningur milli þeirra um hvort söluverð hlutabréfa í Landsbanka Íslands hf., sem aðaláfrýjandi hafði selt 2. og 3. október 2008 og afhent við uppgjör 7. og 8. sama mánaðar, ætti að skiptast milli þeirra í hlutföllum samkvæmt samningi þeirra frá 28. desember 2006 á grundvelli þess að bréfin, sem hann nýtti til að efna kaupin, hafi staðið að veði fyrir skuld Hansa ehf. Með því að sá ágreiningur varð ekki leystur höfðaði Byr sparisjóður mál þetta á hendur aðaláfrýjanda 12. janúar 2010 til greiðslu á 60% af áðurgreindu söluverði hlutabréfanna eða 316.952.047 krónum.

II

Samkvæmt samningi Sparisjóðs vélstjóra við aðaláfrýjanda 28. desember 2006 tók sá síðarnefndi yfir „hlutfallslega 40% hlutdeild“ í réttindum og skyldum þess fyrrnefnda samkvæmt lánssamningi hans við Hansa ehf. frá 20. sama mánaðar. Eftir ákvæðum samningsins 28. desember 2006 fékk aðaláfrýjandi hvorki framselt þetta hlutfall af fjárkröfu sparisjóðsins á hendur Hansa ehf. né af tryggingum, sem þá höfðu verið og síðar voru settar fyrir skuldbindingum félagsins, heldur fór sparisjóðurinn áfram með þau réttindi gagnvart lántaka og veðsala og skuldbatt sig til að innheimta kröfuna og standa aðaláfrýjanda skil á hlutdeild hans í greiðslum. Í þessum lögskiptum beindust þannig réttindi aðaláfrýjanda eingöngu að Sparisjóði vélstjóra og þeim, sem síðar komu í hans stað. Aðaláfrýjandi gat af þessum sökum hvorki ráðstafað sjálfur hluta af þeim verðmætum, sem Samson eignarhaldsfélag ehf. hafði sett að handveði til Byrs sparisjóðs, né sótt á nokkurn hátt greiðslu úr hendi Hansa ehf.

Eins og áður var getið aflaði Byr sparisjóður samþykkis Samsonar eignarhaldsfélags ehf. 6. október 2008 „til að vista“ hlutabréf í eigu félagsins í Landsbanka Íslands hf. að nafnverði 21.000.000 krónur „yfir á nýjan vörsluaðila“, sem var aðaláfrýjandi. Í framhaldi af því heimilaði sparisjóðurinn að hlutabréfin yrðu færð í vörslur aðaláfrýjanda gegn því að hann bæri ábyrgð á meðferð þeirra, en aðaláfrýjandi óskaði þá eftir að sparisjóðurinn leysti þau úr veðböndum, enda ábyrgðist aðaláfrýjandi „að halda BYR skaðlausum vegna veðbandslausnarinnar“. Á því stigi naut Byr sparisjóður engra heimilda til að koma hlutabréfunum í verð til fullnustu á skuld Hansa ehf. við sig og heimilaði hann heldur ekki aðaláfrýjanda að gera annað en að taka við vörslum bréfanna. Aðaláfrýjandi fór út fyrir þá heimild með því að ráðstafa hlutabréfum að nafnvirði samtals 27.425.837 krónur til efnda á kaupum, sem hann hafði eins og áður greinir gert 2. og 3. október 2008, en án tillits til þess verður að líta svo á að féð, sem hann fékk í hendur á þennan hátt, hafi verið afrakstur innheimtuaðgerða í skilningi samningsins frá 28. desember 2006, sem skipta skyldi hlutfallslega milli aðila hans. Þegar af þessum ástæðum eru ekki efni til annars en að taka til greina kröfu gagnáfrýjanda um greiðslu á 316.952.047 krónum.

Í málinu hefur verið lagt fram afrit af bréfi lögmanns Byrs sparisjóðs til aðaláfrýjanda 30. október 2008, þar sem krafist var greiðslu fjárhæðarinnar, sem gagnáfrýjanda er hér dæmd samkvæmt framansögðu. Einnig liggur fyrir að bréf frá lögmanninum til aðaláfrýjanda var afhent til póstsendingar sama dag, svo og að sá síðarnefndi hafi tekið við því 3. nóvember 2008. Standa því ekki rök til annars en að fallast á með gagnáfrýjanda að aðaláfrýjanda beri að greiða dráttarvexti af kröfunni frá 3. desember sama ár.

Aðaláfrýjanda verður gert að greiða gagnáfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn er í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Aðaláfrýjandi, EA fjárfestingarfélag hf., greiði gagnáfrýjanda, Íslandsbanka hf., 316.952.047 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 3. desember 2008 til greiðsludags.

Aðaláfrýjandi greiði gagnáfrýjanda samtals 2.000.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 22. mars 2011.

Mál þetta, sem dómtekið var 22. febrúar sl., var höfðað með stefnu birtri 12. janúar 2010.

Stefnandi er BYR hf., Borgartúni 18, Reykjavík, en stefndi er MP banki hf., Skipholti 50d, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefnda verði gert að greiða stefnanda 316.952.047 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, sbr. og  III. og V. kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu 8. október 2008 til greiðsludags. Þá er þess krafist að stefnanda verði heimilað að færa dráttarvexti upp á höfuðstól skuldarinnar á 12 mánaða fresti, í fyrsta skipti 8. október 2009, sbr. 12. gr. laga nr. 38/2001.

Loks krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda samkvæmt mati dómsins, eða samkvæmt málskostnaðarreikningi sem lagður verður fram á síðari stigum málsins. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og sé þess því krafist að málskostnaður beri virðisaukaskatt.

Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til þess að greiða stefnda málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eða samkvæmt mati dómsins.

Upphaflegur stefnandi málsins er Byr sparisjóður, kt. 610269-2229, en við fyrirtöku máls þessa 12. maí 2010 lagði stefnandi fram yfirlýsingu framkvæmdastjóra Byrs hf., dagsetta 27. apríl 2010, þar sem fram kemur að með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, dagsettri 22. apríl 2010, hafi eignum og skuldum Byrs sparisjóðs verið ráðstafað til Byrs hf., kt. 620410-0200. Var aðild máls þessa sóknarmegin því breytt í þinghaldinu og er stefnandi málsins því Byr hf. 

I.

Stefnandi kveður helstu málavextir þá, að hinn 20. desember 2006 hafi Sparisjóður vélstjóra, sem lánveitandi, og Hansa ehf., sem lántaki, gert með sér lánssamning um lántöku Hansa hjá Sparisjóði vélstjóra að fjárhæð 2,5 milljarðar króna. Byr sparisjóður, upphaflegur stefnandi málsins, tók þá við öllum réttindum og skyldum þáverandi lánveitanda, Sparisjóðs vélstjóra, er Sparisjóður vélstjóra sameinaðist Sparisjóði Hafnarfjarðar undir merkjum Byrs sparisjóðs hinn 15. desember 2006. Stefnandi tók við aðild máls þessa sóknarmegin af Byr sparisjóði í þinghaldi 12. maí 2010.

Samkvæmt 3. gr. lánssamningsins skyldi lánið bera eins árs REIBOR vexti (Reykjavik Interbank Offered Rate) að viðbættu 2,20% vaxtaálagi og skyldu vextir reiknast frá útborgunardegi lánsins. Skyldi lántaki endurgreiða höfuðstól skuldarinnar að fullu ásamt áföllnum vöxtum og öllum kostnaði hinn 20. desember 2007.

Hinn 28. desember 2006 hafi BYR sparisjóður og stefndi, sem þá hét MP fjárfestingarbanki hf., gert með sér aðildarsamning þar sem stefndi gerðist 40% aðili að lánsamningnum. Byr sparisjóður hafi eftir það átt 60% hlut og var lánssamningurinn í vörslu Byrs sparisjóðs.

Með skilmálabreytingu, dagsettri 28. desember 2007, hafi verið samið um nýjan höfuðstól lánsins, miðað við 20. desember 2007, að fjárhæð 2.907.822.917 krónur. Var samningsvöxtum lánsins jafnframt breytt úr eins árs REIBOR vöxtum að viðbættu 2,20% vaxtaálagi í eins árs REIBOR vexti að viðbættu 3,30% álagi. Við sama tækifæri hafi gjalddaga lánsins verið breytt á þann veg að stefndi skyldi endurgreiða lánið ásamt áföllnum vöxtum í einu lagi á gjalddaga þann 20. desember 2008.

Í 9. tölulið 8. gr. lánssamningsins sé kveðið á um, að ef svo færi að uppreiknaðar eftirstöðvar lánsins færu upp í eða yfir 85% af markaðsvirði þeirra hlutabréfa, sem sett voru til tryggingar láninu samkvæmt 7. gr. lánssamningsins, miðað við meðaltal þriggja samliggjandi viðskiptadaga, skyldi lántaki leggja fram viðbótartryggingar, sem skyldu vera fullnægjandi að mati lánveitanda, þannig að eftirstöðvar lánsins yrðu 85% eða minna af markaðsvirði viðkomandi trygginga. Samkvæmt ákvæðum 9. gr. lánssamningsins skyldi lánveitandi að jafnaði veita lántaka 5 daga frest til að leggja fram frekari tryggingar eða ella til að greiða lánið niður. Hins vegar hafi einnig verið tekið fram, að áhrifamiklar breytingar á markaðsverði hlutabréfanna, sem sett voru til tryggingar láninu, réttlættu að lánveitandi setti skemmri frest eða stytti áður veittan frest, „jafnvel innan dagsins“ eins og segi í þeirri grein samningsins.

Til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu skuldarinnar ásamt vöxtum, dráttarvöxtum, verðbótum og öllum kostnaði hafi lántaki í upphafi afhent lánveitanda handveðsyfirlýsingu, dagsetta 18. desember 2006, („Pledge of collateral – collateral in financial instruments – pursuant to Articles 22 and 43 of Act No. 75/1997 on Contractual Liens“) þar sem Samson Global Holdings S.a.r.l. setti lánveitanda að handveði hlutabréf Samson Global Holdings S.a.r.l. í Straumi-Burðarási hf. að nafnverði 230.000.000 krónur til tryggingar endurgreiðslu lánsins, sbr. 7. gr. lánssamningsins.

Í september 2007 hafi lántaki og lánveitandi enn á ný gert skilmálabreytingu á lánssamningnum. Hafi 7. gr. samningsins þá verið breytt efnislega á þann veg að kveðið var á um, að til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu skuldarinnar ásamt vöxtum, dráttarvöxtum, verðbótum og öllum kostnaði, sem leiða kynni af vanskilum, hafi lántaki afhent Byr sparisjóði handveðsyfirlýsingu, þar sem Samson eignarhaldsfélag ehf. setti sjóðnum að handveði hlutabréf Samsonar eignarhaldsfélags ehf. í Landsbanka Íslands hf. að nafnverði 115.000.000 krónur til tryggingar láninu. Handveðsyfirlýsing þar um sé dagsett 7. september 2007. Hafi þær veðtryggingar (hlutir í Landsbanka Íslands hf.) komið í stað fyrri veðtrygginga (hlutir í Straumi-Burðarási hf.).

Hinn 26. febrúar 2008 hafi Byr sparisjóður og Hansa ehf. gert með sér viðauka við lánssamninginn, þar sem samið var um að lántaki afhenti lánveitendum handveðsyfirlýsingu þar sem Samson eignarhaldsfélag ehf. setti stefnanda að handveði hlutabréf í Landsbanka Íslands hf. að nafnverði 21.000.000 króna til viðbótar fyrri tryggingum fyrir endurgreiðslu lánsins. Handveðsyfirlýsing Samsonar eignarhaldsfélags ehf. vegna þessara hluta sé dagsett 20. febrúar 2008.

Hinn 30. apríl 2008 hafi lánveitendur tekið við hlutafé að nafnverði 3.745.576 krónur í Landsbanka Íslands hf. sem komið hafi til vegna arðgreiðslu frá sama aðila. Hafi það einnig orðið hluti af handveði til tryggingar láninu í samræmi við ákvæði handveðsyfirlýsingar. Hinn 30. maí 2008 hafi lántaki enn lagt fram viðbótartryggingu í formi handveðsyfirlýsingar Samsonar eignarhaldsfélags ehf., þar sem síðastnefnt félag setti hluti sína í Landsbanka Íslands hf. að nafnverði 10.000.000 króna að handveði til tryggingar endurgreiðslu lánsins, til viðbótar fyrri tryggingum.

Hinn 12. júní 2008 hafi lántaki enn lagt fram viðbótartryggingu í formi handveðsyfirlýsingar Samsonar eignarhaldsfélags ehf., þar sem síðastnefnt félag setti hluti sína í Landsbanka Íslands hf., aftur að nafnverði 10.000.000 króna, að handveði til tryggingar endurgreiðslu lánsins, til viðbótar fyrri tryggingum.

Hinn 23. júní 2008 hafi lántaki á nýjan leik lagt fram viðbótartryggingu í formi handveðsyfirlýsingar Samson eignarhaldsfélags ehf., þar sem síðastnefnt félag setti hluti sína í Landsbanka Íslands hf. að nafnverði 5.000.000 kóna, að handveði til tryggingar endurgreiðslu lánsins, til viðbótar fyrri tryggingum.

Loks hafi lántaki lagt fram viðbótartryggingu hinn 23. júlí 2008 í formi handveðsyfirlýsingar Samsonar eignarhaldsfélags ehf., þar sem síðastnefnt félag setti hluti sína í Landsbanka Íslands hf., aftur að nafnverði 5.000.000 króna, að handveði til tryggingar endurgreiðslu lánsins, til viðbótar fyrri tryggingum.

Í byrjun september 2008 hafi aðilar komist að samkomulagi um að lántaki legði fram frekari tryggingar í formi nýrrar handveðsyfirlýsingar Samsonar eignarhaldsfélags ehf., þar sem settir yrðu að handveði hlutir síðastnefnds félags í Landsbanka Íslands hf. að nafnverði 15.000.000 króna til viðbótar fyrri tryggingum. Hinn 15. september 2008 hafi lánveitendur sent lántaka og Samson eignarhaldsfélagi ehf. drög að handveðsyfirlýsingu þar að lútandi en þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir stefnanda hefði lántaki hins vegar ekki afhent lánveitendum undirritaðar handveðsyfirlýsingar vegna þessara hluta.

Þar sem verðgildi fyrirliggjandi veðtrygginga hafi haldið áfram að lækka, hafi Byr sparisjóður freistað þess að ná samkomulagi við lántaka um framlagningu frekari trygginga í lok september og byrjun október 2008. Hefði lántaki þá greitt 275.000.000 króna upp í skuld sína 3. október 2008 með það fyrir augum að koma tryggingarhlutföllum í lag. Upp í kröfu stefnanda hafi komið 60% af þeirri fjárhæð eða 165.000.000 króna og 40% í hlut stefnda eða 110.000.000 króna. Verðmæti hinna veðsettu handveðshluta í Landsbanka Íslands hf. hafi hins vegar haldið áfram að lækka og því hafi verið nauðsynlegt af hálfu stefnanda og stefnda að ganga að veðsettum hlutum að nafnvirði 28.000.000 króna. Með samþykki veðsala og að kröfu stefnda hafi hlutirnir verið fluttir til stefnda 6. og 7. október 2008. Stefndi hafi, að eigin sögn, selt þá fyrir 528.253.411 krónur. Stefnandi telji að í hlut hans hafi átt að koma 60% af þeirri fjárhæð eða 316.952.047 krónur sem sé stefnufjárhæð máls þessa. Stefnandi haldi því fram að stefndi hafi ekki staðið réttilega skil á fjárhæðinni og því hafi verið tekið tillit til þessara fjárhæða við framsal stefnanda til stefnda hinn 3. nóvember 2008 á 40% hlut stefnda af eftirstöðvum lánssamningsins.

Lögmaður stefnanda hafi sent stefnda bréf 30. október 2008 þar sem krafist var greiðslu á stefnufjárhæðinni. Stefnda hafi verið send greiðsluáskorun 16. október 2009 og í kjölfarið bréf, dagsett 19. sama mánaðar, þar sem enn var krafist greiðslu sömu fjárhæðar. 

Af hálfu stefnda er málavaxtalýsingu stefnanda í stefnu mótmælt að því er varðar annars vegar aðdraganda þess að gengið var að hlutum Samsonar ehf. í Landsbanka Íslands hf., er félagið hafði sett til tryggingar greiðslu láns stefnanda til Hansa ehf., og hins vegar varðandi atburðarásina í kjölfarið.

Stefndi lýsir málavöxtum svo í greinargerð, að með tölvubréfi Péturs M. Jónssonar, viðskiptastjóra stefnanda, dagsettu 6. október 2008, hafi verið óskað heimildar Sigþórs Sigmarssonar, f.h. Samsonar ehf., til að flytja 21.000.000 hluta í Landsbanka Íslands hf., sem þá voru í vörslum VBS til tryggingar láns Hansa ehf. við stefnanda, dagsetts 20. desember 2006, yfir í vörslur stefnda. Sigþór hafi veitt þá heimild samdægurs. Að beiðni Péturs hafi hlutirnir í kjölfarið verið fluttir úr vörslum VBS yfir í vörslur stefnda. Flutningur hlutanna hafi átt sér stað 6. október. Þá hafi 7.000.000 hluta í Landsbanka Íslands hf. verið fluttir frá VBS til stefnda 7. október 2008. Ástæða þessara flutninga hafi fyrst og fremst verið fjöldi undangenginna veðkalla og beiðna um frekari tryggingar gagnvart Hansa ehf., sem höfðu að miklu leyti verið settar fram að frumkvæði stefnda, sem og óstöðugt ástand fjármálamarkaða. Stefndi hafi þannig talið tryggara að umræddir hlutir væru færðir úr vörslum þriðja aðila í beinar vörslur stefnda en með því móti væri öruggt að hlutirnir væru raunverulega til staðar ef síðar yrði þörf á þeim til tryggingar greiðslu. 

Með bréfi Byrs sparisjóðs til Hansa ehf., dagsettu 7. október 2008, hafi verið tilkynnt um fyrirhugaða gjaldfellingu láns stefnanda til Hansa ehf., með síðari breytingum, yrði ekki orðið við kröfu sparisjóðsins um frekari tryggingar. Frestur hafi verið veittur til kl. 15:00 þennan sama dag. Í bréfinu hafi jafnframt verið tekið fram, að yrði ekki orðið við kröfunni myndi stefnandi ganga á og ráðstafa þeim tryggingum sem settar hefðu verið til tryggingar á endurgreiðslu lánsins án frekari fyrirvara.

Hansa ehf. hafi ekki orðið við kröfu stefnanda um frekari tryggingar. Með tölvubréfi Jóhanns Tómasar Sigurðssonar, forstöðumanns lögfræðisviðs stefnda, til Sigþórs Sigmarssonar, f.h. Samsonar ehf., dagsettu 7. október 2008, hafi því verið greint frá því að stefnandi og stefndi hefðu ákveðið að ganga að þeim eignum, sem Samson ehf. hefði sett að veði til tryggingar skuldum félagsins, þ.e. hlutum í Landsbanka Íslands hf., og að sala bréfanna yrði framkvæmd þá þegar. Í kjölfarið hafi stefnandi og stefndi leyst til sín hlutina í Landsbanka Íslands hf. Ekkert hafi þó orðið af sölu hlutanna, þar sem Fjármálaeftirlitið hefði deginum áður ákveðið að stöðva tímabundið viðskipti með alla fjármálagerninga sem gefnir voru út af nánar tilteknum fjármálafyrirtækjum, þ. á m. Landsbanka Íslands hf. Þar að auki hefði viðskiptakerfi Kauphallar Íslands (nú OMX Nordic Exchange á Íslandi hf.) verið lokað kl. 15:23 hinn 7. október 2008 eða nokkrum mínútum áður en Jóhann Tómas Sigurðsson sendi áðurnefnt tölvubréf til Sigþórs Sigmarssonar.

Samkvæmt útskrift úr upplýsingakerfinu LIBRA hafi viðskipti stefnda með hluti í Landsbanka Íslands hf. á tímabilinu frá 2. október 2008 og fram til stöðvunar viðskipta með hluti í Landsbanka Íslands hf. 7. október 2008 verið sem hér segir:

A.      Viðskipta- og skráningardagur: 2. október 2008, kl. 15:26.

Uppgjörsdagur: 7. október 2008.

Tegund: Kaup (í raun sala stefnda).

Nafnverð: 11.463.134.

Námundað sölugengi: 19,28.

Upphæð: 221.017.125.

B.      Viðskipta- og skráningardagur: 2. október 2008, kl. 15:38.

Uppgjörsdagur: 7. október 2008.

Tegund: Kaup (í raun sala stefnda).

Nafnverð: 4.938.751.

Námundað sölugengi: 19,67.

Upphæð: 98.029.884.

C.      Viðskipta- og skráningardagur: 2. október 2008, kl. 16:14.

Uppgjörsdagur: 7. október 2008.

Tegund: Kaup (í raun sala stefnda).

Nafnverð: 2.978.952.

Námundað sölugengi: 18,7.

Upphæð: 55.706.402.

D.      Viðskipta- og skráningardagur: 3. október 2008, kl. 15:15.

Uppgjörsdagur: 8. október 2008.

Tegund: Kaup (í raun sala stefnda).

Nafnverð: 8.000.000.

Námundað sölugengi: 19,19.

Upphæð: 153.500.000.

Stefndi kveðst hafa selt umrædda hluti í Landsbanka Íslands hf. skortsölu 2. og 3. október 2008 en viðskiptin hafi síðan verið gerð upp 7. og 8. október 2008.

II.

Stefnandi byggir dómkröfu sína á almennum reglum samningaréttar um skuldbindingargildi samninga og almennum reglum kröfuréttar um réttar efndir. Sparisjóður vélstjóra, sem sameinaðist Sparisjóði Hafnarfjarðar undir merkjum stefnanda þann 15. desember 2006, og stefndi, sem þá hét MP fjárfestingarbanki hf., hafi hinn 28. desember 2006 gert með sér aðildarsamning þess efnis að stefndi gerðist 40% aðili að lánssamningi, sem Sparisjóður vélstjóra og Hansa ehf. gerðu 20. sama mánaðar um lántöku Hansa ehf. hjá sparisjóðnum, og hafi Byr sparisjóður eftir það átt 60% hlut. Hinn 3. október 2008 hafi Hansa ehf. greitt 275.000.000 inn á lánssamninginn og stefndi fengið 40% af þeirri fjárhæð inn á kröfu sína eins og aðildarsamningurinn kvað á um.

Þann 6. og 7. október 2008 hafi stefndi fengið afhent hlutafé að nafnvirði  28.000.000 króna af handveðsettu hlutafé, sem sett var til tryggingar lánssamningnum. Stefndi hafi selt hlutaféð 7. október 2008 fyrir 528.253.411 krónur en ekki greitt fjárhæðina inn á lánssamninginn. Stefnandi telji, sem vörsluaðili að lánssamningnum, að umrædda fjárhæð hefði átt  greiða inn á lánssamninginn, sbr. ákvæði aðildarsamningsins þar um. Stefnandi hefði því átt að fá 60% af söluandvirðinu eða 316.952.047 krónur.

Byr sparisjóður hafi framselt stefnda 40% hluta lánssamningsins hinn 3. nóvember 2008. Sparisjóðurinn hafi tekið tillit til þess við framsal, að greiddar höfðu verið 528.253.411 krónur inn á lánssamninginn en jafnframt áskilið sér rétt til að krefja stefnda um 60% af þeirri fjárhæð eða 316.952.047 krónur, sem sé stefnufjárhæð málsins.

Stefndi hafi staðfest umrædda sölu á 28.000.000 hluta í tölvubréfi og jafnframt sagt að krafa stefnda lækkaði sem því næmi. Þessu hafi stefnandi ekki verið sammála og talið að þetta væri brot á aðildarsamningi aðila en þar segi:

„Lánsaðili getur ekki öðlast ríkari rétt en lánveitandi vegna endurgreiðslu aðildarfjárhæðar sinnar og á ekki neinskonar endurkröfurétt á hendur lánveitanda vegna taps, sem hann kann að verða fyrir vegna aðildarinnar og orsakast af vanefndum lántaka.

Með vísan til þessa telji stefnandi ljóst, að stefndi seldi hlutabréf í Landsbanka Íslands að nafnvirði 28.000.000 króna af veðsettum eignum vegna ofangreinds láns. Söluverð þess hafi samkvæmt upplýsingum stefnanda sjálfs numið 528.253.411 krónum og hafi forstöðumaður lögfræðiþjónustu stefnda staðfest það, bæði við stefnanda og við Viðar Lúðvíksson hrl sem unnið hafi fyrir málsaðila að gerð kyrrsetningarbeiðni. Þá hafi forstjóra stefnda, Styrmi Þór Bragasyni, á þessum tíma verið kunnugt um málið. Stefndi hafi gefið yfirlýsingu um að hann hafi selt bréfin 7. október, 15. október og 20. október 2008 fyrir tiltekna fjárhæð. Stefndi hafi talið, að þetta ætti eingöngu að koma til lækkunar á hlut stefnda í lánssamningnum en því hafi stefnandi mótmælt. Slíkt sé brot á aðildarsamningnum og því ekki gerlegt nema með samþykki stefnanda.

Mótbárur stefnda, sem fram hafi komið í bréfi hans, dagsettu 20. nóvember 2009, um að hann hafi ekki getað selt bréfin 7. október sama ár, geti því ekki staðist og séu allt of seint fram komnar. Þær stangist á við allar yfirlýsingar stefnda sem feli í sér fulla sönnun á því að salan hafi farið fram og sönnunarbyrði um annað hvíli á stefnda. Forstöðumaður lögfræðiþjónustu stefnda hafi staðfest, bæði hinn 15. og 20. október 2008, að hafa selt bréfin. Stefndi hafi gefið út yfirlýsingu um að hann hafi selt bréfin fyrir ákveðið verð, þ.e. 528.253.411 krónur (söluverðið er því 528.253.411/28.000.000=18.886 á hvern hlut). Stefndi hafi ekki sýnt fram á að þau kaup hafi gengið til baka. Þessar yfirlýsingar séu gerðar löngu eftir 7. október og þá hafi stefndi ekki skilað hinum veðsettu bréfum.

Með vísan til aðildarsamnings aðila og staðfestingar stefnda um sölu á 28.000.000 hluta í Landsbanka Íslands hinn 6. og 7. október 2008 af veðtryggingum vegna sameiginlegs láns aðila til Hansa ehf. fyrir 528.253.411 krónur, telji stefnandi að stefndi skuldi sér 60% af söluandvirðinu (528.253.411), eða 316.952.047 krónur, auk dráttarvaxta frá 7. október 2008 til greiðsludags.

Um lagarök vísar stefnandi einkum til meginreglna samninga- og kröfuréttar um samningsgerð og skuldbindingargildi samninga. Þá byggir hann á meginreglum kröfuréttar um efndaskyldu og vanefndaúrræði. Jafnframt kveðst stefnandi styðja kröfur sínar við lánssamning aðila, dagsettan 20. desember 2006, með síðari skilmálabreytingum og viðaukum, og aðildarsamning aðila, dagsettan 28. sama mánaðar. Dráttarvaxtakröfuna byggir stefnandi á 5. gr., 1. mgr. 6. gr. og 12. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Málskostnaðarkrafa stefnanda á sér stoð í 129. og 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.  Um varnarþing vísast til  1. mgr. 33. gr. þeirra laga.

III.

Stefndi byggir sýknukröfu sína einkum á því, að sala hans á hlutabréfum í Landsbanka Íslands hafi verið hluti af áhættuvörn stefnda og með öllu ótengd stefnanda. Jafnframt byggir hann á því að hann hafi átt hlutdeild í tryggingum vegna lánsins til Hansa ehf. og fengið þær að hluta afhentar án þess að fyrir afhendingunni væru sett nokkur skilyrði af hálfu stefnanda.

Stefndi kveður framangreinda skortsölu hafa verið hluti af áhættuvörn bankans en bankinn hefði allt frá hausti 2007 leitast við að skortselja bréf á íslenskan markað vegna neikvæðrar þróunar á mörkuðum. Með þessum aðgerðum hafi verið unnið gegn öðrum áhættum bankans á íslenska markaðnum, sem ekki var unnt að takmarka, svo sem vegna útlána sem ekki var unnt að gjaldfella.

Stefndi kveðst leggja sérstaka áherslu á að flutningar áðurnefndra hluta í Landsbanka Íslands hf. úr vörslum VBS yfir í vörslur stefnda hafi hvorki verið forsenda uppgjörs viðskiptanna né tengst viðskiptunum eða ákvörðun um þau með nokkrum öðrum hætti. Á þeim tíma er stefndi tók ákvörðun um skortsöluna, þ.e. 2. og 3. október 2008, hafi ekkert legið fyrir um afhendingu umræddra 28.000.000 hluta. Stefndi hefði hins vegar á þeim tíma tryggt sér rétt til 30.000.000 hluta í Landsbanka Íslands hf. til að uppfylla samninga um skortsölu. Það hafi verið á grundvelli þess samkomulags sem stefndi skortseldi hlutina í Landsbankanum 2. og 3. október 2008. Stefnandi hafi engan þátt átt í umræddri skortsölu, enda um að ræða sjálfstæða viðskiptaákvörðun stefnda sem var enn fremur hluti af áhættuvörn bankans. Stefnandi hafi aldrei getað borið áhættu af þeim viðskiptum. Af sömu ástæðu geti stefnandi ekki átt kröfu til hlutdeildar í söluverði eða hagnaði af viðskiptunum. Stefnandi hafi án efa margsinnis gripið til sambærilegra ráðstafana í eigin áhættuvörn, án þess að stefndi gæti haft nokkuð um það að segja.

Krafa stefnanda byggist á því að þeir hlutir í Landsbanka Íslands hf., sem fluttir voru úr vörslum VBS í vörslur stefnda 6. og 7. október 2008 (samtals 28.000.000 hluta), hafi verið seldir 7. október 2008 og að söluandvirði hlutanna hafi verið 528.253.411 krónur. Í samræmi við aðildarsamning aðilanna eigi stefndi að greiða stefnanda 60% af söluandvirðinu, þ.e. 316.952.047 krónur, ásamt dráttarvöxtum. Með vísun til þess sem áður hafi verið rakið, mótmæli stefndi öllum kröfum stefnanda, enda megi ljóst vera að stefnda hafi verið ómögulegt að selja umrædda hluti í kjölfar afhendingar þeirra 6. og 7. október 2008. Ummæli í tölvubréfum starfsmanna stefnda, sem stefnandi virðist telja til marks um sölu bréfanna á þessum tíma, breyti í engu þessum staðreyndum málsins, enda sé það tekið skýrlega fram í formlegu svarbréfi stefnda til stefnanda að „eins og oft hefur áður verið upplýst er ljóst að [stefndi] átti hvorki né gat átt viðskipti með hlutabréf í Landsbanka Íslands eftir 6. október [2008]. Því getur ekki verið um neinn rétt [stefnanda] til hlutdeildar í andvirði á sölu undirliggjandi bréfa.“

Stefndi vísi enn fremur til þess að þær 28.000.000 hluta í Landsbanka Íslands hf., sem stefndi hafi fengið afhentar, hafi verið lítill hluti þeirra trygginga sem stóðu að handveði til tryggingar greiðslu láns stefnanda til Hansa ehf. Samtals muni Samson ehf. hafa látið 184.745.576 hluti í Landsbanka Íslands hf. að handveði til tryggingar greiðslu lánsins. Samkvæmt aðildarsamningnum hafi stefnda borið að fá í sinn hlut 40% þeirra trygginga, þ.e. samtals 73.898.230 hluti. Með framsalinu hafi stefndi því fengið um 37,9% af þeim tryggingum sem honum bar (28.000.000 af 73.898.230). Umræddir hlutir hafi verið afhentir stefnda til ráðstöfunar án nokkurra skilyrða.

Stefndi mótmæli því að með ætlaðri sölu hlutanna hafi stefndi „öðlast ríkari rétt“ gagnvart stefnanda, enda segi í aðildarsamningnum að lánsaðili geti ekki öðlast ríkari rétt en lánveitandi vegna endurgreiðslu aðildarfjárhæðar sinnar. Líkt og ráðið verði af þessu orðalagi, og efni aðildarsamningsins að öðru leyti, sé þessu ákvæði ætlað að koma í veg fyrir að stefndi vinni hugsanlega betri rétt gagnvart stefnanda með því að fá greitt umfram það sem stefnda ber samkvæmt samningnum. Ljóst megi hins vegar vera að sú hafi ekki verið raunin við ráðstöfun umræddra hluta í Landsbanka Íslands hf. Jafnframt sé hvergi í aðildarsamningnum minnst á innbyrðis uppgjör stefnanda og stefnda vegna greiðslu samkvæmt undirliggjandi tryggingum sem og hvernig skuli farið með uppgjör greiðslna vegna hluta skuldarinnar, enda vísi orðalagið „endurgreiðslu aðildarfjárhæðar“ til greiðslu allrar skuldarinnar.

Í tengslum við ofangreint bendi stefndi einnig á að samkvæmt aðildarsamningnum hafi stefnandi annast vörslu lánssamningsins við Hansa ehf. og innheimtu. Þá hafi allar tryggingar til greiðslu lánsins í formi hluta Samsonar ehf. í Landsbanka Íslands hf. verið í vörslum stefnanda hjá VBS. Enn fremur hafi stefnanda verið ætlað að annast innheimtu skuldarinnar gagnvart Hansa ehf. samkvæmt lánssamningnum og ganga að tryggingum ef svo bæri við og greiða síðan áfram til stefnda hans hluta hinnar innheimtu fjárhæðar. Megi því segja að stefnandi hafi haft forræði á lánssamningnum. Með því að fallast á færslu umræddra hluta í Landsbanka Íslands hf. úr vörslum VBS í vörslur stefnda hafi stefnandi hins vegar kosið að víkja frá þessu fyrirkomulagi og þá jafnframt borið áhættuna af slíku fráviki.

Þá mótmæli stefndi sérstaklega dráttarvaxtakröfu stefnanda. Stefnandi hafi ekki krafið stefnda sannanlega um greiðslu hinnar ætluðu skuldar fyrr en með greiðsluáskorun, dagsettri 16. október 2009. Í stefnu sé hins vegar krafist dráttarvaxta frá 8. október 2008. Stefndi kannast ekki við að hafa nokkurn tíma móttekið bréf stefnanda, dagsett 30. október 2008. Til marks um það megi m.a. benda á að þrátt fyrir að bréfið sé dagsett 30. október 2008 segi þar m.a.: „Þann 30.10.2008 sendi undirritaður bréf til stjórnar MP fjárfestingabanka. Ekkert svar hefur borist við því bréfi til undirritaðs.“ Sama texta sé að finna í bréfi stefnanda, dagsettu 19. október 2009. Bendi þetta til þess að bréfið hafi verið ritað á sama tíma eða um svipað leyti og síðarnefnt bréf. 

Um málskostnaðarkröfu sína kveðst stefndi vísa til 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

IV.

Við aðalmeðferð málsins gáfu skýrslur Pétur Már Jónsson, viðskiptastjóri hjá BYR hf., Carl Hemming Erlingsson, fyrrverandi yfirmaður fyrirtækjasviðs hjá BYR hf., Styrmir Þór Bragason, fyrrverandi forstjóri MP banka, og Jóhann Tómas Sigurðsson, forstöðumaður lögfræðisviðs MP banka. Verður framburður þeirra rakinn eins og þurfa þykir.

Í máli þessu er um það deilt, hvort stefnandi eigi hlutdeild í söluandvirði tiltekinna hlutabréfa í Landsbanka Íslands hf. Eins og áður er rakið gerðu málsaðilar með sér aðildarsamning 28. desember 2006 þar sem stefndi tókst á hendur 40% hlutdeild í hlut stefnanda sem lánveitanda í lánssamningi sem Hansa ehf. gerði við Sparisjóð vélstjóra 20. sama mánaðar að fjárhæð 2.500.000.000 króna. Til tryggingar á skuld Hansa ehf. setti Samson eignarhaldsfélag ehf. stefnanda að handveði hlutabréf í Landsbanka Íslands hf. að nafnvirði samtals 184.745.576 krónur. Fyrir liggur og er óumdeilt að hinn 6. og 7. október 2008 fékk stefndi afhent frá stefnanda 28.000.000 hluta af hinu handveðsetta hlutafé. Vitnin Pétur Már Jónsson og Carl Hemming Erlingsson, sem störfuðu hjá stefnanda þegar þetta var, báru fyrir dóminum á þann veg að gengið hafi verið út frá því að stefnandi fengi 60% hlutdeild í söluandvirði hlutanna og hefði verið ljóst að ekki var um það að ræða að verið væri að losa hlutdeild stefnda í hlutunum. Þá kveða þeir hafa komið til tals á fundi sínum með starfsmönnum stefnda um miðjan október að slíkt uppgjör færi fram. Þessu hefur verið mótmælt af hálfu stefnda og kváðu vitnin Styrmir Þór Bragason og Jóhann Tómas Sigurðsson, sem störfuðu hjá stefnda á þessum tíma, að aldrei hafi verið um þetta rætt og að framangreindir hlutir hafi verið hlutur stefnda í hinum veðsettu hlutabréfum sem stefndi hafi mátt ráðstafa að vild, enda hafi engin skilyrði verið sett fyrir afhendingu þeirra.

Fyrir liggur í gögnum málsins að nokkru fyrr greiddi Hansa ehf. 275.000.000 króna inn á lánssamninginn og að stefndi fékk í sinn hlut 40% af þeirri fjárhæð inn á kröfu sína, þ.e. 110.000.000 króna, í samræmi við aðildarsamning aðila vegna lánsins. Þá er óumdeilt að hinir 28.000.000 hlutir, sem stefndi fékk afhenta, voru hluti af veðandlaginu, sem stóð til tryggingar framangreindu láni.

Af hálfu stefnda er hins vegar á því byggt, að umræddir hlutir hafi verið hluti hans sjálfs í veðandlaginu og að þeir hafi verið afhentir án skilyrða og að stefndi hafi mátt ráðstafa þeim að vild og óbundinn af aðildarsamningi aðila. Með ráðstöfun sinni á hlutunum hafi stefndi leitast við að minnka áhættu sína vegna þeirra og varði stefnanda ekkert um áhættustýringu stefnda, sem sé innra mál félagsins. Á þetta verður ekki fallist með stefnda, enda verður að telja að þótt afhending hlutanna hafi ekki verið bundin sérstökum skilyrðum sé stefndi allt að einu bundinn af aðildarsamningi aðila þar sem mælt er fyrir um að lánveitandi, stefnandi þessa máls, veiti lánsaðila, þ.e. stefnda, 40% hlutdeild í þeim réttindum sem ákvæði samningsins veita honum svo og öllum þeim tryggingum sem lántaki hefur afhent lánveitanda vegna lánsins. Þegar litið er til áðurrakins vættis starfsmanna stefnanda verður ekki litið svo á, að stefnandi hafi með afhendingu hlutanna vikið frá því fyrirkomulagi, sem mælt er fyrir um í aðildarsamningnum. Þá breytir hér engu um niðurstöðuna hvernig stefndi bókfærði sölu hlutanna í reikningum sínum.

Í ljósi gildandi aðildarsamnings aðila verður ekki séð að rök hnígi að því, að sú staðreynd að stefnandi átti samkvæmt samningnum að fara með innheimtu framangreinds láns til Hansa ehf. leiði til þess að hann hefði þurft að skilyrða afhendingu til stefnda á hluta tryggingarinnar að baki láninu. Þá verður ekki talið að yfirlýsing Péturs Más Jónssonar, starfsmanns stefnanda, sem fram kemur í tölvupósti hans til Sigþórs Sigmarssonar, starfsmanns VBS, eftir að gefin er heimild til flutnings á 21.000.000 hluta í Landsbanka Íslands hf. yfir á kennitölu MP fjárfestingarbanka, um að meðferð hlutanna eftir yfirfærslu til stefnda sé á ábyrgð stefnda, sé óræk vísbending um að um afhendingu á hlutdeild stefnda í hinum veðsettu bréfum hafi verið að ræða sem hann hafi mátt ráðstafa að eigin vild. Hefur enda Pétur Már fyrir dóminum gefið þá skýringu á þessu orðalagi, að það vísaði til þess, að á þessum tíma hafi ekki verið skilyrði til að gjaldfella lánið til Hansa ehf.  Þá verður hér að líta til þess að hinir seldu hlutir voru hluti af þeim tryggingum, sem stóðu til tryggingar umræddu láni til Hansa ehf.

Að þessu virtu, og jafnframt með vísan til alls þess, sem hér að framan er rakið, er það niðurstaða dómsins að stefnanda beri 60% hlutdeild í því andvirði, sem fyrir liggur að stefnda var greitt fyrir áðurnefnda hluti í Landsbanka Íslands hf. Verður stefndi því dæmdur til að greiða stefnanda 316.952.047 krónur.

Stefndi hefur mótmælt dráttarvaxtakröfu stefnanda að því er varðar upphafstíma dráttarvaxta. Samkvæmt gögnum málsins sendi stefnandi stefnda greiðsluáskorun 16. október 2009 þar sem stefndi var krafinn um greiðslu stefnufjárhæðarinnar ásamt vöxtum og kostnaði. Með vísan til ákvæða 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, þykir rétt að miða upphafsdag dráttarvaxta við 16. nóvember 2009 eins og nánar greinir í dómsorði.

Eftir úrslitum málsins, og með vísan til meginreglu 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, verður stefnda gert að greiða stefnanda málskostnað sem telst hæfilega ákveðinn 550.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

DómsorÐ:

Stefndi, MP banki hf., greiði stefnanda, Byr hf., 316.952.047 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 16. nóvember 2009 til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda 550.000 krónur í málskostnað að meðtöldum virðisaukaskatti.