Hæstiréttur íslands
Mál nr. 673/2006
Lykilorð
- Fjársvik
|
|
Miðvikudaginn 16. maí 2007. |
|
Nr. 673/2006. |
Ákæruvaldið(Björn Þorvaldsson settur saksóknari) gegn Sveini Benedikt Jónassyni (Sveinn Andri Sveinsson hrl.) |
Fjársvik.
S var sakfelldur fyrir brot gegn 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa í fimmtán tilvikum pantað og neytt veitinga á veitingastöðum án þess að geta greitt fyrir þær. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að S hafði í sjö fyrri dómum verið sakfelldur fyrir alls 34 sams konar tilvik og þótti þessi háttsemi með öllu ólíðandi. Þá var litið til þess að S hafði játað greiðlega brot sín, en ekki bætt fyrir þau, og að andlag brotanna nam samtals um 65.000 krónum. Refsing S var ákveðin óskilorðsbundið fangelsi í sex mánuði. Þá var hann dæmdur til að greiða sex nánar tilgreindum veitingahúsum skaðabætur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 5. desember 2006 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst refsiþyngingar.
Ákærði krefst mildunar refsingar.
Ákærði hefur játað greiðlega brot sín en ekki bætt fyrir þau, en andlag brotanna nemur samtals um 65.000 krónum. Með vísan til þessa og að öðru leyti til forsendna hins áfrýjaða dóms er refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í sex mánuði. Ekki eru efni til að skilorðsbinda þá refsingu.
Fyrir Hæstarétti hefur ekki verið gerð krafa um endurskoðun á ákvæði hins áfrýjaða dóms um skaðabætur og verður það staðfest.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, Sveinn Benedikt Jónasson, sæti fangelsi í sex mánuði.
Ákvæði héraðsdóms um skaðabætur og sakarkostnað skulu vera óröskuð.
Ákærði greiði áfrýjunarkostnað málsins, samtals 204.196 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 186.750 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 24. nóvember 2006.
Mál þetta, sem dómtekið var 21. nóvember sl., er höfðað samkvæmt ákæru útgefinni af lögreglustjóranum í Reykjavík 27. júní 2006 á hendur Sveini Benedikt Jónassyni, kt. 280667-4479, Baughúsum 20, Reykjavík, fyrir fjársvik, með því að hafa á tímabilinu frá mars til júní 2006 pantað og neytt veitinga á veitingahúsum í Reykjavík, nema annars sé getið, samtals að andvirði 52.420 kr., án þess að geta greitt fyrir veitingarnar svo sem rakið er:
1.
Miðvikudaginn 2. mars veitinga að andvirði 5.400 kr. á veitingastaðnum Ara í Ögri, Ingólfsstræti 3.
2.
Aðfaranótt fimmtudagsins 6. apríl veitinga að andvirði 8.750 kr. á Kaffi Óperu, Lækjargötu 2.
3.
Sunnudaginn 9. apríl veitinga að andvirði 2.850 kr. á Hótel Nordica, Suðurlandsbraut 2.
4.
Mánudaginn 10. apríl veitinga að andvirði 3.650 kr. í veitingahúsinu Ruby Tuesday, Skipholti 19.
5.
Föstudaginn 11. apríl veitinga að andvirði 3.290 kr. á veitingastaðnum Kaffibrennslunni, Pósthússtræti 9.
6.
Sama dag veitinga að andvirði 8.130 kr. í veitingahúsinu A Hansen, Vesturgötu 4, Hafnarfirði.
7.
Föstudaginn 14. apríl veitinga að andvirði 2.590 kr. á veitingahúsinu Aski, Suðurlandsbraut 4a.
8.
Föstudaginn 5. maí veitinga að andvirði 3.810 kr. á veitingastaðnum Ruby Tuesday, Höfðabakka 9.
9.
Mánudaginn 8. maí veitinga að andvirði 5.150 kr. á Hótel Loftleiðum við Hlíðarfót.
10.
Aðfaranótt þriðjudagsins 11. maí veitinga að andvirði 4.010 kr. á Kringlukránni Kringlunni 4.
11.
Föstudaginn 2. júní veitinga að andvirði 4.790 á Kaffi París, Austurstræti 14.
Framangreind brot eru talin varða við 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þess er krafist, að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Í málinu krefjast eftirgreindir aðilar þess að ákærði verði dæmdur til greiðslu skaðabóta:
Silfurbraut ehf., kt. 560605-1290, skaðabóta að fjárhæð 8.759 kr. ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. vaxtalaga nr. 38, 2001 frá 5. apríl 2006 en síðan dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. sömu laga að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags.
RT veitingar ehf., kt. 510496-2569, skaðabóta að fjárhæð 3.670 kr. ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. vaxtalaga frá 10. apríl 2006 en síðan dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. sömu laga að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags.
Pé Níu ehf., kt. 690402-3190, skaðabóta að fjárhæð 3.290 kr. ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. vaxtalaga frá 11. apríl 2006 en síðan dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. sömu laga að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags.
RT veitingar ehf., kt. 510496-2569, skaðabóta að fjárhæð 3.810 kr. ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. vaxtalaga frá 5. maí 2006 en síðan dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. sömu laga að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags.
M. 010-2006-20655
JT veitingar ehf., kt. 510900-3670, skaðabóta að fjárhæð 5.150 kr. ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. vaxtalaga frá 8. maí 2006 en síðan dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. sömu laga að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags.
Hinn 4. september sl. var sakamálið nr. 1153/2006 sameinað þessu máli en þar er ákærða gefið að sök með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum í Reykjavík 15. ágúst 2006, fjársvik framin í apríl 2006 með því að hafa pantað og neytt veitinga á eftirgreindum veitingastöðum að Hagasmára 1, Kópavogi, án þess að geta greitt fyrir veitingarnar:
1.
Fimmtudaginn 6. apríl veitinga að andvirði 3.420 kr. á Pizza Hut.
2.
Laugardaginn 8. apríl veitinga að andvirði 3.790 kr. á Energia.
Þetta er talið varða við 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Hinn 21. nóvember sl. var sakamálið nr. 2038/2006 sameinað þessu máli en þar er ákærða gefið að sök með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum í Reykjavík sama dag, fjársvik framin í október og nóvember 2006 með því að panta og neyta veitinga á eftirgreindum veitingastöðum í Reykjavík, svo sem rakið er, án þess að geta greitt fyrir veitingarnar:
1.
Föstudaginn 13. október veitinga að andvirði 3.320 kr. á Pizza Hut, Suðurlandsbraut 2.
2.
Mánudaginn 6. nóvember veitinga að andvirði 2.200 kr. á veitingastaðnum Enricos, Laugavegi 3.
Þetta er talið varða við 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Í málinu er þess krafist að ákærði verði dæmdur til greiðslu skaðabóta sem hér greinir:
Pönnu Pizza ehf., kt. 530695-2479, krefst skaðabóta að fjárhæð 3.320 kr. ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 13. október 2006 en síðan dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. sömu laga að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags.
Sigurbraut ehf., kt. 560605-1290, krefst skaðabóta að fjárhæð 2.200 kr. ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. vaxtalaga frá 6. nóvember 2006 en síðan dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. sömu laga að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags.
Verjandi ákærða krefst vægustu refsingar er lög leyfa og hæfilegrar þóknunar sér til handa. Þá krefst hann frávísunar á skaðabótakröfum í málinu.
Ákærði hefur skýlaust játað öll brot sín.
Farið var með mál þetta samkvæmt 125. gr. laga nr. 19/1991 og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu er sækjanda og verjanda ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.
Sannað er með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og eru brot hans rétt heimfærð til refsiákvæða í ákærum.
Ákærði er fæddur í júní 1967. Samkvæmt sakavottorði var hann 14. mars 2002 dæmdur í sekt fyrir fjársvik. Hann var 4. desember 2002 dæmdur í 30 daga skilorðsbundið fangelsi á ný fyrir fjársvik. Hann var 28. október 2003 dæmdur í 60 daga fangelsi fyrir fjársvik. Var skilorðsdómurinn frá í desember 2002 þá dæmdur með. Ákærði var 10. febrúar 2004 dæmdur í 60 daga fangelsi á ný fyrir fjársvik. Næst var hann 16. desember 2004 dæmdur í 5 mánaða fangelsi fyrir brot gegn 2. mgr. 202. gr. laga nr. 19/1940 og fjársvik. Var rof á reynslulausn ákærða vegna tveggja fyrri dóma hans þá dæmt með. Ákærði var 16. janúar 2006 dæmdur í 3ja mánaða fangelsi fyrir fjársvik. Var þá tekin upp reynslulausn vegna dómsins frá í desember 2004. Ákærði var dæmdur í 30 daga fangelsi 2. febrúar 2006 vegna fjársvika. Þá var honum ekki gerð sérstök refsing í dómi 24. febrúar 2006 vegna brota gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Loks var ákærða ekki gerð sérstök refsing í dómi 28. febrúar 2006 vegna fjársvika, en brotið var hegningarauki.
Sakaferill ákærða er með eindæmum. Í þessu máli hefur hann verið sakfelldur fyrir 15 tilvik þar sem hann hefur pantað og neytt veitinga á veitingastöðum án þess að geta greitt fyrir veitingarnar. Í þeim fimm dómum sem dæmdir voru í Héraðsdómi Reykjavíkur á árunum 2002, 2003, 2004 og 2006, hefur hann samtals 32 sinnum verið sakfelldur fyrir samkynja háttsemi. Í dómi Héraðsdóms Suðurlands frá 28. febrúar 2006 var ákærði dæmdur vegna eins samkynja tilviks. Loks var ákærði í dómi Héraðsdóms Reykjaness frá 16. janúar 2006 dæmdur fyrir annað samkynja tilvik. Eru tilvikin þá alls orðin 49. Háttsemi ákærða er með öllu ólíðandi, en hann hefur margsinnis verið dæmdur fyrir að panta og neyta matar á veitingastöðum án þess að geta greitt fyrir slíkar veitingar. Er nærri að telja að ákærði sé síbrotamaður að þessu leyti og ljóst að hann færist heldur í aukana fremur en hitt, en ekkert þeirra brota er ákærði hefur nú verið sakfelldur fyrir er hegningarauki við fyrri brot. Með hliðsjón af þessu, sbr. og 77. gr. og 255. gr. laga nr. 19/1940, er refsing ákærða ákveðin fangelsi í 12 mánuði. Verður refsingin ekki skilorðsbundin að neinu leyti.
Í málinu liggja frammi skaðabótakröfur af hálfu tilgreindra veitingastaða þar sem ákærði neytti veitinga. Hafa þær verið teknar upp í ákæru. Ákærði hefur mótmælt skaðabótakröfunum. Fjárhæðir þeirra nema þeim reikningum er ákærði kom sér undan að greiða. Eru kröfurnar skýrar að þessu leyti og ekki ástæða til annars en að taka þær allar til greina. Bera þær vexti svo sem í dómsorði greinir
Ákærði greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar héraðsdómslögmanns, að meðtöldum virðisaukaskatti, með þeim hætti er í dómsorði greinir.
Símon Sigvaldason héraðsdómari kvað upp dóminn.
D ó m s o r ð :
Ákærði, Sveinn Benedikt Jónason, sæti fangelsi í 12 mánuði.
Ákærði greiði Silfurbraut ehf. 8.750 krónur í skaðabætur ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 6. apríl 2006 til 4. október 2006 en með vöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laganna frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði RT veitingum ehf. 7.480 krónur í skaðabætur ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 af 3.670 krónum frá 10. apríl 2006 til 5. maí sama ár, en af 7.480 krónum frá þeim degi til 4. október 2006 en með vöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laganna af fjárhæðinni frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði Pé Níu ehf. 3.290 krónur í skaðabætur ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 11. apríl 2006 til 4. október 2006 en með vöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laganna frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði JT veitingum ehf. 5.150 krónur í skaðabætur ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 8. maí 2006 til 4. október 2006 en með vöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laganna frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði Pönnu Pizza ehf. 3.320 krónur í skaðabætur ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 13. október 2006 til 21. desember 2006 en með vöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laganna frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði Sigurbraut ehf. 2.200 krónur í skaðabætur ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 6. nóvember 2006 til 21. desember 2006 en með vöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laganna frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar héraðsdómslögmanns 74.700 krónur.