Hæstiréttur íslands

Mál nr. 197/2002


Lykilorð

  • Kærumál
  • Vanreifun
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


Föstudaginn 3

 

Föstudaginn 3. maí 2002.

Nr. 197/2002.

Stangveiðifélagið Lax-á ehf.

(Halldór Jónsson hdl.)

gegn

Jóni Ólafssyni & Co. sf.

Helgu Hilmarsdóttur

Jóni Ólafssyni Friðgeirssyni og

Skífunni hf.

(enginn)

 

Kærumál. Vanreifun. Frávísunarúrskurður staðfestur.

Máli S ehf. gegn J sf., H, J og S hf. var vísað frá héraðsdómi vegna vanreifunar.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 17. apríl 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. apríl 2002, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðilar hafa ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

I.

Sóknaraðili höfðaði þetta mál með stefnu 22. október 2001, þar sem hann krafðist þess að varnaraðilar yrðu í sameiningu „dæmdir persónulega og vegna sameignarfélags þeirra Jón Ólafsson & Co. sf.“ til að greiða sér skuld að fjárhæð 108.356 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 27. júlí 2000 til 1. júlí 2001, en samkvæmt „III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001“ frá þeim degi til greiðsludags. Auk þess krafðist sóknaraðili málskostnaðar. Um atvik málsins sagði eftirfarandi í stefnunni: „Skuld þessi er vegna viðskipta stefnanda og stefndu, en stefndu keyptu veiði í Haukadalsá hjá stefnanda samkvæmt reikningi nr. 1362, dags. 27.07.2000, að fjárhæð kr. 98.146,- og reikningi nr. 1333, dags. 27.07.2000, að fjárhæð kr. 10.210,-. Samtala reikninganna er kr. 108.356,- og er það stefnufjárhæð máls þessa. Skuld þessi hefur ekki fengist greidd þrátt fyrir innheimtutilraunir og er því nauðsynlegt að höfða mál til greiðslu hennar.“ Við þingfestingu málsins 8. nóvember 2001 lagði sóknaraðili fram stefnu, skrá um framlögð skjöl, tvo reikninga með fyrrgreindum númerum, útgáfudegi og heildarfjárhæð, innheimtubréf og útskrift úr hlutafélagaskrá vegna varnaraðilans Skífunnar hf. Umræddir reikningar voru stílaðir á varnaraðilann Jón Ólafsson & Co. sf. Á hærri reikningnum sagði að hann væri vegna „Veiðif í Haukadalsá 2d. ½ st. @ 1057$“, en jafnframt „Est. v/Welldoo“ og „Est. v/J. Hatfield“, annars vegar að því er virðist 100 bandaríkjadalir og hins vegar 105 bandaríkjadalir. Heildarfjárhæð reikningsins var samkvæmt þessu 1.262 bandaríkjadalir, sem með nánar tilgreindu gengi námu 98.146 krónum. Á lægri reikningnum sagði að hann væri vegna „Gengismunar v/veiðif Haukadalsá“ að fjárhæð 10.210 krónur.

Tekið var til varna í málinu. Í sameiginlegri greinargerð varnaraðilanna Jóns Ólafssonar & Co. sf., Helgu Hilmarsdóttur og Jóns Ólafssonar Friðgeirssonar var þess aðallega krafist að málinu yrði vísað frá dómi, en til vara að þau yrðu sýknuð af kröfu sóknaraðila. Í greinargerð varnaraðilans Skífunnar hf. var krafist sýknu.

Með hinum kærða úrskurði var málinu í heild vísað frá dómi. Verður að líta svo á að með því hafi héraðsdómari fallist á kröfu þess efnis, sem varnaraðilarnir Jón Ólafsson & Co. sf., Helga Hilmarsdóttir og Jón Ólafsson Friðgeirsson gerðu fyrir sitt leyti, en vísað málinu sjálfkrafa frá dómi að því er varðar varnaraðilann Skífuna hf.

II.

Eins og sóknaraðili lagði mál þetta fyrir dómstóla voru ekki gefnar viðhlítandi skýringar á þeim lögskiptum, sem eiga að hafa búið að baki áðurgreindum tveimur reikningum hans, enda verður lítið sem ekkert ráðið um þau af héraðsdómsstefnu eða reikningunum sem slíkum. Þá var ekkert vikið að því á hvaða grunni sóknaraðili beindi kröfu sinni að Skífunni hf. ásamt öðrum varnaraðilum, en í því sambandi verður engan veginn séð af orðalagi dómkröfu sóknaraðila, þar sem hann krefst þess að „stefndu verði dæmdir persónulega og vegna sameignarfélags þeirra Jón Ólafsson & Co. sf.“, að það geti átt við um nefnt hlutafélag. Að þessu gættu eru slíkir brestir á málatilbúnaði sóknaraðila, sbr. einkum e. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, að héraðsdómara var rétt að vísa málinu í heild frá dómi, en úr þeim getur sóknaraðili ekki bætt nú með nýjum gögnum, sem hann hefur lagt fyrir Hæstarétt.

Samkvæmt framangreindu verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest um annað en málskostnað, en sóknaraðili verður dæmdur til að greiða hverjum varnaraðila fyrir sig, sbr. 2. mgr. 132. gr. laga nr. 91/1991, málskostnað í héraði eins og í dómsorði greinir.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur um annað en málskostnað.

Sóknaraðili, Stangveiðifélagið Lax-á ehf., greiði varnaraðilum, Jóni Ólafssyni & Co. sf., Helgu Hilmarsdóttur, Jóni Ólafssyni Friðgeirssyni og Skífunni hf., hverjum fyrir sig 18.750 krónur í málskostnað í héraði.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. apríl 2002.

Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 26. október 2001 og 3. nóvember 2001 af Stangaveiðifélaginu Lax-á ehf., Laugavegi 26, Reykjavík gegn Jóni Ólafssyni &Co. sf., Helgu Hilmarsdóttur, Stigahlíð 82, Jóni Ólafssyni Friðgeirssyni, báðum persónulega og fyrir hönd sameignarfélags þeirra, og Skífunni hf., Lynghálsi 5, Reykjavík.

Dómkröfur

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndu verði dæmdir persónulega og vegna sameignarfélags þeirra, Jóns Ólafssonar & Co sf., in solidum, til þess að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 108.356 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 27. júlí 2000 til 1. júlí 2001 en frá þeim degi er krafist dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 til greiðsludags.

Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt mati dómsins, en málskostnaðarreikningur verður lagður fram við aðalflutning málsins ef til kemur.

Stefndu, Helga Hilmarsdóttir, Jón Ólafsson og Jón Ólafsson & Co sf., gera þá kröfu aðallega að máli þessu verði vísað frá dómi en til vara að stefndu verði sýknuð af kröfum stefnanda.

Til þrautavara gera stefndu, Jón Ólafsson og Helga Hilmarsdóttir persónulega og fyrir hönd stefnda, Jóns Ólafssonar & Co hf., kröfu til skuldajafnaðar við kröfu stefnanda í máli þessu, án sjálfstæðs dóms, kröfu að fjárhæð 271.913 krónur eða svo mikið af henni sem þarf til þess að ljúka kröfu stefnanda auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 3. ágúst 2000 til 1. júlí 2001 en frá þeim degi samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

Þá gera stefndu þá kröfu að stefnandi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar að mati réttarins til handa hverjum og einum hinna stefndu og að við ákvörðun málskostnaðar til handa stefndu, Helgu og Jóni, verði horft til þess að þau eru ekki virðisaukaskattsskyld.

Stefndi, Skífan hf., krefst þess að félagið verði sýknað af öllum dómkröfum stefnanda  og að stefnandi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar að mati réttarins.

Munnlegur málflutningur um framkomna frávísunarkröfu fór fram 7. mars sl. og var málið þá tekið til úrskurðar.

Kröfur stefndu, Helgu Hilmarsdóttur, Jóns Ólafssonar Friðgeirssonar og Jóns Ólafssonar & Co sf., í þessum þætti málsins, eru þær að málinu verði vísað frá dómi og hverjum hinna stefndu verði úrskurðaður málskostnaður úr hendi stefnanda.

Stefnandi gerir þær kröfur að frávísunarkröfu verði hafnað og að stefndu verði gert að greiða hæfilegan málskostnað í þessum þætti málsins.

Málsástæður stefnanda og lagarök

Umstefnda skuld kveður stefnandi vera tilkomna vegna viðskipta stefnanda og stefndu, en stefndu hafi keypt veiði í Haukadalsá hjá stefnanda samkvæmt reikningi nr. 1362, dags. 27. júlí 2000 að fjárhæð 98.146 krónur

Stefnandi höfðaði einnig mál samkvæmt reikningi nr. 1333, dags. 27. júlí 2000 að fjárhæð 10.210 krónur en féll frá kröfum samkvæmt honum við munnlegan flutning um frávísunarkröfu.

Málsástæður stefnda, Skífunnar hf.

Stefndi, Skífan hf., kveður ekkert í málavaxtalýsingu stefnanda í stefnu eða framlögðum gögnum stefnanda gefa til kynna að stefndi, Skífan hf., eigi einhverja aðild að máli þessu.  Augljóst sé að sýkna beri vegna aðildarskorts og dæma stefnanda til greiðslu málskostnaðar.

Málsástæður Helgu Hilmarsdóttur, Jóns Ólafssonar og Jóns Ólafssonar & Co sf. varðandi frávísunarkröfu.

Stefndu byggja frávísunarkröfu sína á því að málið sé svo hroðvirknislega unnið af hálfu lögmanns stefnanda að undrun sæti.  Þannig virðist ekkert hafa verið hugað að því við gerð stefnu að lýsing málsatvika og málsástæður, sem byggt sé á, falli að framlögðum gögnum.

Stefndu benda á að auk þeirra sé Skífunni hf., félagi sem þau eigi ekkert í í dag, stefnt og þess krafist að félagið verði, ásamt þeim, dæmt til greiðslu reikninga sem sagðir séu tilkomnir vegna kaupa stefndu á veiðileyfum í Haukadalsá 1991 (sic).  Stefndu sé með öllu ómögulegt að finna fót fyrir kröfugerð þessari.  Á reikningi komi fram að um sé að ræða eftirstöðvar v/Welldoo og J. Hatfield og engin grein sé gerð fyrir því af hverju stefndu eigi að greiða fyrir þessa menn.

Málatilbúnaður stefnanda fullnægi hvergi nærri e. og g. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 og því beri að vísa máli þessu frá dómi og dæma stefnanda til greiðslu málskostnaðar.

Niðurstaða

Vaxtakrafa stefnanda frá 1. júlí 2001 er ekki nægilega tilgreind þar sem einungis er vísað til III. kafla laga nr. 38/2001 en ekki nánar tilgreint samkvæmt hvaða grein eða málsgrein vaxta er krafist.

Ósamræmi er í stefnu varðandi aðild stefnda, Skífunnar hf.  Af tilgreiningu stefndu í stefnu verður ekki ráðið að Skífunni hf. sé stefnt sem sameiganda Jóns Ólafssonar & Co sf.  Dómkröfu stefnanda þykir hins vegar verða að skilja svo að Skífunni hf. sé stefnt sem sameiganda félagsins.  Ekki er að finna nánari skýringar á aðild Skífunnar hf. í kafla um málsástæður stefnanda.

Ekki er getið um það í stefnu hvenær umrædd veiði fór fram, hve lengi hún stóð yfir eða hverjir áttu þar hlut að máli. 

Samkvæmt framlögðum reikningi virðist sem um eftirstöðvar af reikningi sé að ræða þar sem á reikningnum stendur est. v/Welldoo og est. v/ J. Hatfield.  Hins vegar er þess ekki getið í stefnu að um eftirstöðvar reiknings sé að ræða.  Þá er engin grein gerð fyrir því í stefnu hverjir Welldoo og J. Hatfield séu og hvers vegna stefndu beri að greiða reikning þeirra vegna.

Þegar litið er til málatilbúnaðar stefnanda verður að fallast á með stefndu að honum sé verulega áfátt.  Þykir kröfugerð og málatilbúnaður ekki vera í samræmi við d. og e. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.

Ber því samkvæmt framansögðu að taka til greina kröfu stefndu og vísa máli þessu frá dómi.

Samkvæmt þessari niðurstöðu ber stefnanda að greiða stefndu in solidum málskostnað sem ákveðst 75.000 krónur.

Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Máli þessu er vísað frá dómi.

Stefnandi, Stangveiðifélagið Lax-á ehf., greiði stefndu, Jóni Ólafssyni & Co sf., Helgu Hilmarsdóttur, Jóni Ólafssyni Friðgeirssyni og Skífunni hf., in solidum 75.000 krónur í málskostnað.