Hæstiréttur íslands
Mál nr. 430/2017
Lykilorð
- Kærumál
- Málskostnaður
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. júní 2017 en kærumálsgögn bárust réttinum 11. júlí sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. júní 2017 þar sem málskostnaður á milli aðila var felldur niður. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að varnaraðila verði gert að greiða sér málskostnað í héraði. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess aðallega að sóknaraðila verði gert að greiða sér málskostnað í héraði, en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Í báðum tilvikum krefst hann kærumálskostnaðar.
Þar sem varnaraðili hefur ekki kært úrskurð héraðsdóms af sinni hálfu kemur krafa hans um málskostnað í héraði ekki til umfjöllunar fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Eftir atvikum er rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af meðferð málsins fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur mánudaginn 19. júní 2017
Með beiðni, sem barst dóminum 15. mars sl., krafðist sóknaraðili, 101 Austurstræti ehf., kt. 691211-1420, Austurstræti 7, Reykjavík, þess að bú varnaraðila, Kamran Keivanlou, kt. 110475-2929, Vatnsstíg 16-18, Reykjavík, yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Við fyrirtöku beiðninnar 19. apríl sl. var sótt þing af hálfu beggja aðila. Varnaraðili mótmælti kröfunni og var þá þingfest ágreiningsmál þetta, sbr. 1. mgr. 168. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og málinu frestað til 3. maí sl.
Í því þinghaldi lagði lögmaður varnaraðila fram gögn frá Þjóðskrá varðandi lögheimilisskráningu varnaraðila í Lúxemborg en lögheimilissaga kom þar ekki fram. Þá var dómari upplýst um að verið væri að reyna sættir í málinu. Þá kom fram að lögmaður varnaraðila væri nýkomin að málinu og hefði ekki haft tök á að skila greinargerð í málinu. Málinu var því frestað til framlagningar greinargerðar af hálfu varnaraðila og var hún lögð fram af hans hálfu í þinghaldi 10. maí sl. Í því þinghaldi lagði sóknaraðili fram vottorð frá Þjóðskrá þar sem fram kom að varnaraðili hefði haft lögheimili á Íslandi frá 23. september 2011 til 17. apríl 2017 en í Lúxemborg frá þeim degi til dagsins í dag. Var málinu við svo búið frestað til 17. maí sl. og var málið tekið til úrskurðar í þinghaldi þann dag að loknum munnlegum málflutningi.
Boðað var til uppkvaðningar úrskurðar 2. júní sl. með tölvubréfi dómara til lögmanna 29. maí sl. Lögmaður varnaraðila sendi dómara tölvupóst síðla dags 1. júní sl. með upplýsingum sem skilja mátti sem svo að Þjóðskrá hefði breytt lögheimilisskráningu varnaraðila afturvirkt og að lögheimili hans hefði því verið í Lúxemborg er beiðni sóknaraðila barst dóminum 15. mars sl. Voru þau gögn lögð fram í þinghaldinu 2. júní sl. Frestaði dómari þá málinu til 15. júní sl. eða þar til fyrir lægi með óyggjandi hætti hvernig lögheimilisskráningu varnaraðila væri og hefði verið háttað. Málið var næst tekið fyrir þann dag. Lagði varnaraðili þá fram vottorð frá Þjóðskrá þar sem fram kom að hann hefði haft lögheimili í Lúxemborg frá 1. mars 2017 til dagsins í dag. Við svo búið krafðist sóknaraðili niðurfellingar málsins og málskostnaðar úr hendi varnaraðila vegna athafna hans þar sem varnaraðili hefði breytt lögheimilisskráningu sinni afturvirkt undir rekstri málsins til að varna því að bú hans yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Varnaraðili mótmælti sjónarmiðum sóknaraðila og kröfu hans um málskostnað og krafðist málskostnaðar sér til handa úr hendi sóknaraðila.
Mál þetta var þingfest 19. apríl sl. og tekið tvisvar sinnum fyrir á dómþingi áður en munnlegur málflutningur fór fram í því 17. maí sl. og málið að því búnu tekið til úrskurðar. Á þeim tíma báru gögn málsins skýrlega með sér að varnaraðili hefði haft lögheimili á Íslandi er beiðni sóknaraðila barst dóminum 15. mars sl. Var málið flutt um kröfu sóknaraðila við þær aðstæður og í því réttarástandi og tekið til úrskurðar í samræmi við fyrirliggjandi gögn. Er að uppkvaðningu úrskurðar kom höfðu dóminum borist upplýsingar um að varnaraðili hefði óskað eftir afturvirkri breytingu á lögheimilisskráningu sinni og að Þjóðskrá hefði orðið við því. Frestaði dómari málinu svo að tekinn yrði af allur vafi um lögheimilisskráningu varnaraðila þann dag er beiðni sóknaraðila barst dóminum 15. mars sl. Í þinghaldi 15. júní sl. lagði varnaraðili fram gögn frá Þjóðskrá þar sem skýrlega kom fram að lögheimili hans hefði verið í Lúxemborg 15. mars sl. er beiðni sóknaraðila barst dóminum.
Með vísan til c-liðar 1. mgr. 105. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður fallist á kröfu sóknaraðila um niðurfellingu málsins, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Hvað varðar málskostnaðarþátt málsins tekur dómurinn fram að ekki verði annað séð en að málshöfðun sóknaraðila fyrir þessum dómi hafi verið í samræmi við þær upplýsingar sem þá lágu fyrir hjá opinberum aðila um lögheimilisskráningu varnaraðila. Gat sóknaraðili ekki annað en treyst því að þær væru réttar. Þá gat sóknaraðili ekki séð fyrir þau atvik sem síðar urðu og leiddu til þess að lögheimilisskráningu varnaraðila var breytt, að því er virðist, að ósk varnaraðila. Eins og málið liggur fyrir, með vísan til reksturs þess fyrir dóminum og atvika alla telur dómurinn rétt að hvor aðili beri sinn kostnað vegna málsins og málskostnaður milli aðila falli niður eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Hólmfríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Mál þetta er fellt niður.
Málskostnaður milli aðila fellur niður.