Hæstiréttur íslands

Mál nr. 475/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
  • Frávísun frá Hæstarétti


Mánudaginn 15. júlí 2013.

Nr. 475/2013.

Sérstakur saksóknari

(Björn Þorvaldsson saksóknari)

gegn

X

(Davíð Guðmundsson hdl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. B. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Frávísun frá Hæstarétti.

X kærði úrskurði héraðsdóms um að hann skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. og b. liða 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stæði. Þar sem X hafði þegar verið verið látinn laus úr gæsluvarðhaldinu taldi Hæstiréttur hann ekki lengur hafa lögvarða hagsmuni af því að leyst yrði úr kæru hans. Var málinu því vísað frá Hæstarétti.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson. 

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. júlí 2013, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 11. júlí 2013, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 15. júlí 2013 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara „að í stað gæsluvarðhalds- og einangrunarvistunar, verði vægustu úrræðum beitt“ samkvæmt ákvæðum sakamálalaga. Verði ekki fallist á aðalkröfu krefst varnaraðili þess að réttindi hans samkvæmt c., d. og e. liðum 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008 haldist óskert, sbr. 3. mgr. sömu greinar.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Fyrir liggur að varnaraðili var látinn laus aðfaranótt 14. júlí 2013. Samkvæmt því hefur varnaraðili ekki lengur lögvarða hagsmuni af að leyst verði úr kæru hans. Verður málinu því vísað frá Hæstarétti.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

                                                    

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 11. júlí 2013.

Embætti sérstaks saksóknara hefur í dag krafist þess að X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi til mánudagsins 15. júlí 2013 kl. 16.00. Þess er jafnframt krafist að X verði látinn vera í einrúmi á meðan á gæsluvarðhaldi stendur. Til vara er þess krafist að X verði gert að sæta farbanni allt til 31. júlí 2013 kl. 16.00.

Kærði mótmælir kröfunni og krefst þess að henni verði hafnað en til vara að vægari úrræðum eins og farbanni verði beitt.

Í greinargerð með kröfunni segir að sérstakur saksóknari hafi til rannsóknar mál er varði einkahlutafélagið A og fjármagnsflutninga til og frá því félagi.

Rannsókn málsins hófst á grundvelli kæru B sem hafi sent sérstökum saksóknara kæru hinn 24. júní síðastliðinn þar sem hann hafi sakað Y um fjárdrátt og/eða fjársvik. Af fylgigögnum B hafi mátt ráða að tvö félög, C sf. og D Ltd., hafi lagt 30 milljónir króna til kærða til kaupa á hlutdeildarskírteinum í einhvers konar sjóði A. Hafi kærandi ekki fengið fjármunina greidda tilbaka og hafi mátt ráða það af málatilbúnaði hans að hann teldi sig hafa verið blekktan til fjárfestinga í sjóðnum.

Til að rekja afdrif fjármunanna hafi sérstakur saksóknari aflað úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur 5. júlí sl. þar sem þar nánar tilgreindum bankastofnunum hafi verið gert að afhenda upplýsingar um færslur og stöður á öllum bankareikningum í eigu einkahlutafélagsins A og félagsins E LLC. Þær upplýsingar hafi borist sérstökum saksóknara á tímabilinu 5. júlí til 9. júlí. Við skoðun bankareikninganna hafi komið í ljós að verulegar fjárhæðir hafi runnið um bankareikninga A ehf. auk þess sem vörslureikningur E LLC hjá Arion banka hf. hafði að geyma skuldabréf að andvirði 368.996.919 krónur. Þá hafi mjög háar úttektir reiðufjár vakið athygli rannsakenda, en á tímabilinu frá 24. ágúst 2012 til 21. júní hafi verið teknar út 120.373.000 krónur í reiðufé, þar af hafi um 36 milljónir verið teknar út 21. júní sl. og tæplega 32 milljónir 31. maí sl. Óljóst hafi verið með öllu hvert peningarnir runnu.

Ákveðið hafi verið að víkka út rannsókn lögreglu og rannsaka fjárstreymið á reikningum [...]-félaganna sem hugsanlegt peningaþvætti. Rannsakendur hafi fengið upplýsingar um að Y ætti bókað far með áætlunarflugi til Bandaríkjanna 10. júlí. Til að tryggja návist Y og til að tryggja það að sönnunargögnum í málinu yrði ekki spillt hafi verið talið nauðsynlegt að handtaka Y og hafi það verið gert að kvöldi 9. júlí.

Við yfirheyrslu hafi Y neitað í fyrstu að tjá sig um af hverju rúmlega 120 milljónir hefðu verið teknar út í reiðufé að öðru leyti en því að úttektirnar hefðu verið „fyrir ákveðin viðskipti“. Hann hafi ekki viljað greina nánar frá þeim viðskiptum. Við skýrslutöku í gær hafi svör hans um uppruna fjármunanna verið óljós, en helst hafi mátti skilja á Y að fjármunirnir hafi stafað frá Íslendingum sem byggju yfir erlendu fjármagni. Framburður Y sé þó óljós í þessum efnum, til að mynda hafi hann ekki viljað upplýsa um hverjir eiga fjármagnið og hversu stór eigendahópurinn sé. Í gær hafi framburður Y breyst og haldi hann því nú fram að hann hafi sjálfur verið eigandi allra fjármunanna. Engar skýringar liggi fyrir um ástæðu breytts framburðar og telji lögregla síðari framburð ótrúverðugan í ljósi fjárhaglegrar stöðu Y.

Bróðir Y, Z, hafi gefið skýrslu hjá lögreglu í gær. Hafi Z lítið viljað tjá sig um málsatvik að öðru leyti en því að hann segir mann að nafni X hafa tekið við því reiðufé sem hann hafi tekið út af reikningum A ehf. Hafi Z þó ekkert sagt um þær hvatir sem hafi legið að baki móttöku X á fjármununum. Lögregla hafi boðað X til tafarlausrar skýrslutöku í gærdag. Hafi hann játað þar að þekkja til þeirra bræðra, en þvertók fyrir að hafa tekið við peningum af Z.

Y hafi verið yfirheyrður í gærkvöld á ný. Eftir að lögregla hafði kynnt Y framburð bróður hans um aðkomu X hafi hann sagt X hafa tekið við fjármununum.

Y og Z hafi í gærkvöldi verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald til 15. júlí næstkomandi. Við sama tækifæri hafi X verið færður aftur til skýrslutöku. Honum hafi verið kynnt að lögregla hafi það sama kvöld ákveðið að bæta við rannsóknina upplýsingum frá ótilgreindri fjármálastofnun þar sem peningaþvættisskrifstofu Ríkislögreglustjóra hafi verið tilkynnt um hugsanlegt peningaþvætti tengt félagi X. Framburður Y og Z hafi einnig verið borinn undir X. Hafi hann þá óskað að breyta framburði sínum á þá leið að hann gekkst nú við því að hafa tekið við peningum í reiðufé frá þeim bræðrum. Þá hafi hann sagt að hann hefði lagt fjármunina inn á reikninga félaganna F ehf. og G ehf., en hann er í forsvari fyrir bæði félögin. Í framburði hans hafi komið fram að hann hefði ekki lagt allan peninginn inn á reikninga félaganna, en hann hafi þá ekki viljað gefa upp hvar afgangurinn væri. Hann sagðist ekki vita um uppruna félaganna.

Flest bendi til að fjármununum hafi verið veitt áfram til félaganna F ehf. og G ehf., en X hafi ekki fyrstu tvær skýrslutökurnar viljað gera grein fyrir þeim fjármunum sem ekki voru lagðir inn á þau félög. Við þriðju skýrslutökuna hafi hann þó sagt að þeir fjármunir hefðu með einum eða öðrum hætti runnið til reksturs félaganna. Óljóst hafi verið af framburði X hvort hann telji að um lán hafi verið að ræða frá A en hann segir að ekki hafi verið gengið frá færslunum í bókhaldi félaganna. X kvað að peningarnir hafi aðallega verið notaðir í markaðskostnað. Lögreglu þykja þær skýringar haldlitlar.

Aðspurður um af hverju hann hefði móttekið peningana í reiðufé hafi X sagt að á því væri engin sérstök skýring, en almennt séð treysti hann illa íslenska bankakerfinu. Hann hafi verið spurður hvernig sú skýring færi saman við þá staðreynd að hann hafi lagt meginþorra reiðufjárins aftur inn á banka. Hafi hann gefið þá skýringu að honum væri illa við að láta háar upphæðir liggja inni á reikningnum á hverjum tíma.

Lögregla sé litlu nær um uppruna fjármunanna sem teknir hafa verið út í reiðufé og þykja þær litlu skýringar sem málsaðilar bjóða upp á tortryggilegar.

Gerð hafi verið húsleit á lögheimili X að [...] í [...] síðdegis í dag. Hafi þá fundist óverulegt reiðufé. Í framhaldinu hafi verið leitað á lögheimili félags hans að [...] í [...]. Í framhaldinu hafi leyfi X fengist til að leita í húsakynnum H, sem sé trúfélag að því er virðist skráð [...], sem X veiti forstöðu og Z og Y hafi tengsl við. Fyrir utan fjórhjól og bát hafi fundist þar mynd af einhvers konar félagstrúktúr tengdum A, sem teiknuð hafi verið upp á tússtöflu.

Sá þáttur málsins sem snúi að peningaflutningum á milli félaga og úttektum í reiðufé sé rannsakaður sem hugsanlegt brot á peningaþvættisákvæði 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Peningaþvætti geti staðið sem sjálfstætt brot. Sé þar m.a. gert refsivert að taka við eða flytja ávinning af refsiverðu broti á lögum og skipti þar engu hvort um sé að ræða hegningarlagabrot eða sérrefsilagabrot. Það sem Y hafi upphaflega sagt um uppruna fjármunanna sé að þeir stafi frá ótilgreindum hópi Íslendinga sem eigi fjármuni í útlöndum. Það eitt og sér veki grun um brot á 13. gr. a.-j. sbr. 4. tl. 1. mgr. 16. gr. laga nr. 87/1992 um gjaldeyrismál og kunni Y þá að hafa gerst sekur um peningaþvætti með því að hafa annað hvort tekið við eða flutt fjármunina á milli félaga. Væri refsirammi vegna þessa brot allt að 6 ára fangelsi.

Sá þáttur málsins sem snúi að kæru B sé rannsakaður sem fjársvika- og/eða fjárdráttarmál.

Lögregla telji hættu á að X muni torvelda rannsókn málsins með því að hafa áhrif á samseka aðila eða vitni. Slíkt væri freistandi fyrir X þar sem rannsókn málsins sé á frumstigi og hafi lögregla enn óljósa mynd af atvikum máls. Þá hafi X sýnt lögreglu takmarkaðan samstarfsvilja og hafi framburður hans um aðild hans að málinu tekið örum breytingum. Þannig hafi hann í fyrstu ekkert kannast við að hafa tekið við peningum af Z en þegar gögn hafi verið borin á hann hafi hann breytt framburði sínum á þann veg að nú kannist hann við að hafa tekið við fjármununum. Eftir sem áður hafi hann ekkert sagst vita um uppruna fjármunanna. Telji lögregla af þessum sökum nauðsynlegt að fara fram á X verði látinn sæta gæsluvarðhaldi til mánudagsins 15. júlí næstkomandi svo unnt sé að tryggja nærveru hans og til að tryggja að hann reyni ekki að hafa áhrif á aðila málsins. Byggir sérstakur saksóknari þannig aðallega á b-lið 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, sbr. og 2. mgr. 2. gr. og 6. gr. laga um embætti sérstaks saksóknara nr. 135/2008.

Telji sérstakur saksóknari jafnframt nauðsynlegt að X verði látin sæta einangrun, enda myndi gæsluvarðhaldsvistin koma að minni notum ef hann hefði ráðrúm til að ráðfæra sig við aðra aðila málsins og samræma framburð sinn.

Verði ekki fallist á kröfu sérstaks saksóknara um gæsluvarðhald sé til vara gerð krafa um að X verði látinn sæta farbanni til miðvikudagsins 31. júlí næstkomandi. Myndi sú ráðstöfun tryggja nærveru X, en að sama skapi ekki hindra það að hann samræmi framburð sinn við aðra aðila málsins. Byggir sérstakur saksóknari hér á b-lið 1. mgr. 95. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, sbr. og 2. mgr. 2. gr. og 6. gr. laga um embætti sérstaks saksóknara nr. 135/2008.

Með vísan til framangreinds sé þess farið á leit að þessi þvingunarráðstöfun verði heimiluð eins og krafist er.

Samkvæmt því sem rakið hefur verið er kærði grunaður um aðild að fjárdrætti og/eða fjársvikum samkvæmt kæru þar um. Þá er til rannsóknar ætlað brot gegn ákvæði 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með vísan til þessa, alls framanritaðs, svo og gagna málsins, er fallist á það með sérstökum saksóknara að kærði sé undir rökstuddum grun um að hafa framið brot sem fangelsisrefsing liggur við. Rannsókn málsins er sögð á frumstigi. Gangi kærði laus má ætla að hann muni torvelda rannsókn málsins með því að skjóta undan munum eða hafa áhrif á samseka eða vitni. Samkvæmt þessu telst fullnægt skilyrðum a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála til þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi. Er krafa sérstaks saksóknara því tekin til greina eins og hún er sett fram og nánar greinir í úrskurðarorði. Jafnframt er með sömu rökum fallist á að kærði sæti einangrun á meðan á gæsluvarðhaldsvist hans stendur. sbr. b. lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Jón Höskuldsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi til mánudagsins 15. júlí 2013 kl. 16:00.

Kærði skal sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.