Hæstiréttur íslands

Mál nr. 180/2002


Lykilorð

  • Kærumál
  • Kæruheimild
  • Frávísun frá Hæstarétti


Föstudaginn 19

 

Föstudaginn 19. apríl 2002.

Nr. 180/2002.

Kumbaravogur ehf.

(Ólafur Björnsson hrl.)

gegn

Angelu Pizarro

(Ástráður Haraldsson hrl.)

 

Kærumál. Kæruheimild. Frávísun máls frá Hæstarétti.

Stefndi, K ehf., sem hafði tekið til varna í einkamáli, lagði fram skjal með fyrirsögninni „viðbót við greinargerð stefnda“. Stefnandi, A, andmælti ekki að þetta skjal yrði lagt fram, en mótmælti á hinn bóginn að málsástæða, sem þar greindi, kæmist að í málinu. Í framhaldi af því kvað héraðsdómari upp úrskurð þess efnis að „viðbót við greinargerð“ K ehf.  væri „vísað frá dómi“. K ehf. skaut úrskurðinum til Hæstaréttar. Málinu var vísað frá Hæstarétti. Í dómi Hæstaréttar segir að í lögum nr. 91/1991 um meðferð einkamála sé hvergi ráðgert að skjali, sem lagt hafi verið fram á dómþingi, verði „vísað frá dómi“ þótt dómari telji á síðari stigum að rétt hefði verið að neita aðila um að fá að leggja það fram. Enn síður standi heimild í 1. mgr. 143. gr. sömu laga til að kæra úrskurð héraðsdómara um þetta efni, en j. liður þess lagaákvæðis eigi eingöngu við ef máli sé vísað frá dómi, svo sem berlega komi þar fram.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. apríl 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 27. mars 2002, þar sem „viðbót við greinargerð“ sóknaraðila var „vísað frá dómi“. Um kæruheimild vísar sóknaraðili til j. liðar 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að „synjað verði um frávísun skjalsins“. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.

Mál þetta, sem varnaraðili höfðaði á hendur sóknaraðila 15. júní 2001, var þingfest fyrir Héraðsdómi Suðurlands 20. sama mánaðar. Sóknaraðili tók til varna með greinargerð, sem var lögð fram á dómþingi 19. september 2001. Þegar þingað var í málinu öðru sinni eftir það, 27. nóvember 2001, lagði sóknaraðili fram skjal með fyrirsögninni „viðbót við greinargerð stefnda“ og var það þingmerkt sem dómskjal nr. 43. Varnaraðili andmælti ekki að þetta skjal yrði lagt fram, en mótmælti á hinn bóginn að málsástæða, sem þar greindi, kæmist að í málinu. Héraðsdómari tók málið þessu næst fyrir 26. mars 2002, en fært var þá í þingbók að boðað hafi verið til þess þinghalds til að gefa aðilunum kost á að tjá sig um hvort „vísa eigi dómskjali nr. 43 ex officio frá dómi.“ Það gerðu aðilarnir í þinghaldinu. Var hinn kærði úrskurður síðan kveðinn upp næsta dag.

Í lögum nr. 91/1991 er hvergi ráðgert að skjali, sem lagt hefur verið fram á dómþingi, verði „vísað frá dómi“ þótt dómari telji á síðari stigum að rétt hefði verið að neita aðila um að fá að leggja það fram. Enn síður stendur heimild í 1. mgr. 143. gr. sömu laga til að kæra úrskurð héraðsdómara um þetta efni, en j. liður þess lagaákvæðis á eingöngu við ef máli er vísað frá dómi, svo sem berlega kemur þar fram. Verður máli þessu því vísað sjálfkrafa frá Hæstarétti.

Rétt er að aðilarnir beri hvort sinn kostnað af kærumáli þessu.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 27. mars 2002.

Mál þetta sem höfðað var 15. júní 2001 var tekið til úrskurðar 26. mars sl. Stefnandi er Angela Pizzaro, kt. 011073-2639, Sambyggð 4, Þorlákshöfn. Stefndi er Kumbaravogur ehf. kt. 480180-0469, Kumbaravogi, Stokkseyri.

Dómari taldi að vísa bæri dskj. nr. 43 “viðbót við GREINARGERÐ STEFNDA” frá dómi án kröfu. Af því tilefni boðaði hann aðila til þinghalds 26. mars sl., sbr. 1. mgr. 100. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að gefa þeim kost á að tjá sig. Krafðist lögmaður stefnanda þess að skjalinu yrði vísað frá dómi. Lögmaður stefnda krafðist þess að framlagning skjalsins stæði óhögguð og því yrði ekki vísað frá dómi.

Stefndi lagði greinargerð sína í málinu fram í þinghaldi 19. september 2001. Í þinghaldi 27. nóvember sama ár lagði hann síðan fram “viðbót við GREINARGERÐ STEFNDA” þar sem fram kemur ný málsástæða og var skjalið þingmerkt nr. 43. Lögmaður sem mættur var fyrir lögmann stefnanda hreyfði ekki athugasemdum við framlagningu skjalsins en óskaði bókunar á mótmælum við því að nýjar málsástæður er fram kæmu í skjalinu kæmust að í málinu.

Samkvæmt 2. mgr. 99. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála skal stefndi leggja fram greinargerð sína við lok frests skv. 1. mgr. greinarinnar. Fær stefndi þannig aðeins eitt tækifæri til að leggja fram greinargerð í máli og þar verður hann að lýsa vörnum sínum til fullnaðar, bæði um formhlið máls og efnishlið. Getur stefndi því ekki eftir framlagningu greinargerðar í máli komið að frekari kröfum og málsástæðum með framlagningu viðbótar við greinargerð. Dómskjali nr. 43 er því vísað frá dómi ex officio.

Þorgerður Erlendsdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Dómskjali nr. 43 viðbót við greinargerð stefnda er vísað frá dómi ex officio.