Hæstiréttur íslands
Mál nr. 243/1999
Lykilorð
- Skuldamál
|
|
Fimmtudaginn 18. nóvember 1999. |
|
Nr. 243/1999. |
Jakob Helgason (Stefán Geir Þórisson hrl.) gegn Helga Harðarsyni (Klemenz Eggertsson hdl.) |
Skuldamál.
J lánaði H nokkurt fé vegna kunningsskapar. Þeir sömdu svo um, að endurgreiðsla lánsins væri bundin því skilyrði að J hagnaðist ekki á markaðssetningu og sölu hljómplatna tiltekinna erlendra tónlistarmanna, sem hann hafði lagt fé í, en H tengdist starfsemi þessari ekki. Þegar J krafði H um greiðslu, bar H þetta skilyrði fyrir sig. Með vísan til þess, sem fram kom fyrir dómi um fjárhagsleg samskipti J og tónlistarmannanna var talið að H hefði ekki tekist að sanna að hagnaður hefði orðið af starfseminni. Var hann því dæmdur til að greiða kröfu J.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 16. júní 1999. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 2.047.500 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. desember 1996 til greiðsludags. Hann krefst einnig málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Eins og rakið er í héraðsdómi á málið rætur að rekja til þess að Janus Ólason lánaði stefnda 45.000 þýsk mörk. Af því tilefni gerðu þeir 26. september 1996 samning um endurgreiðslu lánsins og er sá samningur tekinn upp orðréttur í héraðsdómi. Málsaðilar deila um hvort ákvæði þriðju greinar samningsins feli í sér að stefnda sé óskylt að endurgreiða lánið eða að minnsta kosti óskylt að svo stöddu. Höfðaði Janus mál þetta í héraði 15. september 1998. Hinn 1. október sama árs framseldi hann áfrýjanda kröfu sína og tók hinn síðarnefndi þá við aðild málsins.
Áfrýjandi skýrir efni þriðju greinar samningsins svo að það feli í sér að tilteknar aðstæður geti leitt til þess að krafan falli niður. Janus Ólason hafi á árunum 1995 og 1996 átt samstarf við tvo tónlistarmenn í Þýskalandi og lagt fram verulegt fé, eða 250.000 þýsk mörk, til að kosta kynningu og útgáfu verka þeirra. Sem endurgjald hafi hann átt að fá 47,5% hagnaðar, sem af þessu hlytist. Reyndin hafi hins vegar orðið sú að enginn hagnaður hafi fengist og framlag hans tapast. Ekkert hafi því gerst, sem leyst geti stefnda undan skyldu sinni til að endurgreiða lánið.
Stefndi krefst sýknu að svo stöddu. Hefur hann lýst þeirri skoðun á efni þriðju greinar samningsins, að skylda sín til að endurgreiða sé skilyrt. Gjalddagi kröfunnar verði ekki fyrr en áfrýjandi sýni fram á að tap hafi orðið á „markaðssetningu og sölu hljómplatna Carry & Ron sem nemur meira en ofangreindri skuld“.
II.
Fyrir Hæstarétti var því lýst yfir af hálfu áfrýjanda, að Janus Ólason hafi ekki haft neitt bókhald í Þýskalandi og engin bókhalds- eða skattskylda hafi hvílt á honum þar. Einungis hafi verið um að ræða framlag til starfsemi tónlistarmannanna gegn hlut í hagnaði, sem brást. Áfrýjanda sé því ókleift að leggja fram nokkurt bókhald, svo sem stefndi krefjist.
Annar tónlistarmannanna, sem áður er getið, gaf skýrslu fyrir dómi. Kom fram hjá honum að enginn hagnaður hefði runnið til Janusar Ólasonar af starfseminni. Í símbréfi sama manns 15. mars 1999 til lögmanns áfrýjanda er tekið fram að til þess dags hafi listamönnunum ekki tekist að greiða Janusi neitt fé. Þetta er staðfest í tveim bréfum þýsks lögmanns nefndra tónlistarmanna. Þá hefur verið lagt fram í málinu bréf lögmanns áfrýjanda, þar sem leitað er eftir gögnum úr bókhaldi viðsemjenda Janusar Ólasonar. Verður ráðið, að þær tilraunir hafi engan árangur borið.
Í ljósi þess, sem að framan er rakið, hefur stefnda ekki tekist að sanna að Janus Ólason hafi hagnast af þeirri starfsemi tónlistarmannanna, sem þriðja grein samningsins 26. september 1996 tekur til. Engin atvik eru því fyrir hendi, sem leyst geta stefnda undan greiðsluskyldu sinni. Verður krafa áfrýjanda því tekin til greina með vöxtum eins og krafist er, en upphafsdegi dráttarvaxta hefur ekki verið sérstaklega mótmælt.
Stefndi skal greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem verður ákveðinn í einu lagi eins og í dómsorði segir.
Dómsorð:
Stefndi, Helgi Harðarson, greiði áfrýjanda, Jakobi Helgasyni, 2.047.500 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. desember 1996 til greiðsludags.
Stefndi greiði áfrýjanda samtals 400.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 25. mars 1999.
Mál þetta, sem dómtekið var 18. mars sl., var þingfest 30. september 1998. Stefnandi er Jakob Helgason, kt. 090861-7199, Engjaseli 86, Reykjavík en stefndi Helgi Harðarson, kt. 261261-7669, Stuðlabergi 32, Hafnarfirði.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til greiðslu skuldar að fjárhæð kr. 2.047.500 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 85/1997 frá 1. desember 1996 til greiðsludags og til greiðslu málskostnaðar.
Stefndi krefst sýknu að svo stöddu og málskostnaðar úr hendi stefnanda.
Málavextir og málsástæður.
Þann 26. september 1996 gerðu vitnið Janus Ólason og stefndi með sér eftirfarandi samning:
„1. Helgi mun endurgreiða Janusi lán að upphæð DEM 45.000.- (á gengi 45.5.) með mánaðarlegum afborgunum þannig að mánaðarleg greiðsla verði 5% af launum fyrstu tvö árin og hækki síðan í 6% og verði að fullu greitt eftir 10 ár. Gjalddagar eru 1.-5. hvers mánaðar, í fyrsta sinn þann 1. desember nk. Lán þetta er vaxtalaust.
2. Greiðslur þessar verða inntar af hendi inn á bankareikning í Landesgirokasse í Albstadt Ebingen hjá Prothmann útibússtjóra, reikningsnúmer 2857433.
Greiðslusamkomulag þetta fellur úr gildi hagnist Janus af markaðssetningu og sölu hljómplatna Carry & Ron sem nemur meira en ofangreind skuld.”
Þann 1. október 1999 framseldi vitnið Janus Ólason kröfu samkvæmt þessu samkomulagi til stefnanda máls þessa, Jakobs Helgasonar.
Vitninu Janusi og stefnda ber saman um að góður kunningsskapur hafi verið með þeim sem leitt hefði til þess að Janus veitti stefnda lán í fjárhagserfiðleikum stefnda. Greinir Janus svo frá að hann hafi lagt peningana inn á reikning fyrirtækis sem stefndi vann hjá um áramótin 1995/1996. Fyrirtækið hefði dregið að afhenda stefnda peningana um einhvern tíma. Umtalað hefði verið að stefndi afhenti vitninu til tryggingar víxil með ábyrgðarmanni. Það hefði hins vegar dregist en stefndi jafnan sagt að víxillinn væri á leiðinni er hann var inntur eftir víxlinum. Janus kveðst nú hafa gengið á stefnda um greiðslu skuldarinnar og þá komið í ljós að eignir hans voru yfirveðsettar. Þess vegna hefðu þeir gengið frá samkomulagi þess efnis að afborganir væru miðaðar við 5-6% af mánaðarlaunum. Stefndi hefði einfaldlega ekki haft meiri greiðslugetu.
Janus var á þessum tíma umboðsmaður hljómlistafólksins Carry og Ron. Aðspurður um hvers vegna endurgreiðsla lánsins var tengd markaðsetningu og sölu hljómplatna Carry og Ron, svaraði vitnið Janus því til að hann hefði notað þetta ákvæði samkomulagsins til þess að lokka stefnda til samninga. Stefndi hefði á engan hátt tengst viðskiptum vitnisins við tónlistarfólkið. Janus sagði að á þessum tíma hefði hann verið orðin úrkula vonar um að stefndi ætlaði sér að greiða skuldina og yfirleitt viðurkenna hana. Hefði honum því dottið í hug að nota 3. tl. samkomulagsins sem eins konar beitu.
Vitnið Janus sagði að hann hefði verið umboðsmaður Carry og Ron frá því í janúar 1995 fram í ágúst 1996. Markaðssetning hefði hafist í maí 1995. Hann hefði í upphafi lagt fram 250.000 DEM til þess að koma hljómsveitinni á framfæri. Staðið hefði til að hann fengi 47,50% af hagnaði í sinn hlut. Enginn hagnaður hefði hins vegar orðið og allt stofnfé tapast.
Stefndi segist hafa fengið peningana um hálfu ári eftir undirritun samkomulagsins. Hann minntist þess ekki að rætt hefði verið um víxil. Stefndi staðfesti að hann hefði ekki tengst viðskiptum Janusar og tónlistarfólksins á nokkurn hátt. Það hefði verið alfarið hugmynd Janusar að skilyrða samkomulagið með þessum hætti. Hann hefði hitt Janus annað slagið í gegnum tíðina og Janus alltaf borið sig vel og sagt honum að markaðssetning hljómplatna gengi vel og að tónlistarfólkið væri með stór verkefni út um allan heim. Innheimtubréf lögmanns hefði því komið honum verulega á óvart.
Vitnið Ron Traub, annar meðlimur dúettsins, var yfirheyrður símleiðis, en hann er búsettur í Þýskalandi. Hann staðfesti að vitnið Janus hefði lagt fram 250.000 DEM í upphafi og hefði það fé allt tapast.
Stefnandi byggir málsókn sína á samkomulagi aðila og að tap hafi orðið á markaðssetningu og sölu hljómplatna tónlistarfólksins Carry og Ron.
Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að endurgreiðslukrafan sé skilyrt. Stefnandi hafi ekki á fullnægjandi hátt sýnt fram á að tap hafi orðið á verkefninu. Gjalddagi kröfunnar sé ekki kominn fyrr en stefndi hafi sýnt fram á það með fullnægjandi hætti að tap hafi orðið á markaðssetningu og sölu hljómplatna Carry og Ron. Beri því að sýkna stefnda að svo stödddu þar til stefnandi hafi efnt sinn hluta samkomulagsins.
Niðurstaða.
Í stefnu, sem þingfest var 30. september 1998, segir að tap hafi orðið á viðskiptum vitnisins Janusar Ólasonar við Carry og Ron. Var sú fullyrðing ekki studd frekari gögnum. Í greinargerð stefnda, sem lögð var fram 4. nóvember 1998, er skorað á stefnanda að upplýsa frekar um þetta atriði með framlagningu rekstrar- og efnahagsreiknings. Við aðalmeðferð lagði stefnandi fram símbréf Ron Traub, annars meðlims dúettsins, þar sem staðfest er að Carry og Ron hafi ekkert getað greitt Janusi Ólasyni og að enginn hagnaður hefði orðið á sölu hljómplatna í S-Kóreu þar sem plötufyrirtækið hefði orðið gjaldþrota. Við aðalmeðferð lagði stefnandi einnig fram símbréf lögfræðingsins Manfred Schutt í Stuttgard, þar sem frásögn Ron Traub var staðfest.
Fyrir dómi upplýsti vitnið Janus Ólason að lögfræðingurinn Schutt hefði annast lagalega hlið mála en endurskoðandinn Knofle hefði séð um reikningsskil. Rekstrar- og efnahagsreikningar lægju fyrir hjá Knofle.
Stefndi hefur lagt fram nokkur gögn varðandi feril dúettsins Carry og Ron. Eru öll þessi gögn fengin af heimasíðu hljómlistafólksins á veraldarvefnum. Þar kemur m.a. fram að á árinu 1995 hafi Carry og Ron verið á hljómleikaferð í Bandaríkjunum og fengið verðlaun sem dúett ársins. Þá hafi þau einnig farið í tvær hljómleikaferðir í Þýskalandi þetta árið. Á fyrri hluta árs 1996 hafi þau dvalið í Nashville í Bandaríkjunum við plötuupptöku. Á sama ári hafi plata þeirra „I.O.U.“ frá árinu 1991 slegið í gegn í S-Kóreu og verið 12 vikur efst á vinsældarlista þar í landi. Hafi dúettinn hlotið að launum platinplötu vegna mikillar sölu.
Aðilar deila ekki um tilefni og forsögu framangreinds ákvæðis í samkomulaginu frá 26. september 1996. Óumdeilt er að skuldin skyldi falla niður ef hagnaður yrði á „markaðssetningu og sölu hljómplatna Carry og Ron sem nemur meira en ofangreind skuld.“ Ágreiningur aðila stendur um það eitt hvort skilyrði 3. tl. samkomulagsins séu komin fram og hvor þeirra skuli hafa sönnunarbyrðina fyrir því hvort að tap eða hagnaður hafi orðið á markaðssetningunni.
Talið verður að stefnandi hafi sönnunarbyrðina fyrir þeirri staðhæfingu sinni að tap hafi orðið á rekstrinum. Er það í samræmi við almennar sönnunarreglur, enda verður ekki talið að stefndi hafi aðgang að bókhaldi vitnisins Janusar Ólasonar í Þýskalandi.
Eins og áður sagði hefur stefnandi lagt fram tvö símbréf til sönnunar um að tap hafi orðið á rekstrinum. Gegn mótmælum stefnda verður ekki talið að þessi tvö bréf fullnægi þeim sönnunarkröfum sem gera verður í dómsmáli sem þessu. Stefnandi þykir því ekki hafa sannað að ofangreint skilyrði samkomulagsins hafi komið fram. Ber því að fallast á með stefnda að hann verði sýknaður að svo stöddu, sbr. 2. mgr. 26. gr. laga nr. 91/1991. Málskostnaður ákveðst 110.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til þess kostnaðar sem sóknaraðili þarf að bera vegna virðisaukaskatts af endurgjaldi fyrir þjónustu lögmanns síns samkvæmt lögum nr. 50/1988.
Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
Dómsorð:
Stefndi, Helgi Harðarson, skal vera sýkn að svo stöddu af kröfum stefnanda, Jakobs Helgasonar, í málinu.
Stefnandi greiði stefnda 110.000 krónur í málskostnað.