Hæstiréttur íslands
Mál nr. 5/2008
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Þriðjudaginn 8. janúar 2008. |
|
Nr. 5/2008. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu(Jón H. B. Snorrason, saksóknari) gegn X (Hilmar Ingimundarson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. janúar 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 7. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. janúar 2008, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 1. febrúar 2008 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. janúar 2008.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur lagt fram kröfu þess efnis að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 1. febrúar nk. kl. 16:00.
Í greinargerð kemur fram að í gær, um kl. 14:30, hafi lögreglunni borist tilkynning um þjófnað í versluninni Takkar að Suðurlandsbraut 26 í Reykjavík. Í ljós hafi komið að þremur tölvum, samtals að verðmæti um 350.000 krónur, hafi verið stolið. Tilkynnandi hafi borið að hann hafi séð kærða við verslunina og hefði hann sterklega grunaðan um þjófnaðinn. Skömmu síðar, eða um kl. 15:05, hafi kærði verið handtekinn og þá með eina af hinum þremur stolnu tölvum í sínum fórum. Kærði hafi neitað sök í málinu, kveðist hafa fundið umrædda tölvu. Kærði hafi ekki heimilað lögreglu húsleit að heimili sínu að Hverfisgötu 101 í Reykjavík. (007-2008-668)
Þá hafi lögreglan til rannsóknar eftirfarandi mál þar sem kærði sé sterklega grunaður um aðild að:
Þjófnað, með því hafa miðvikudaginn 13. desember 2006, stolið tveimur fartölvum af gerðinni Acer, samtals að verðmæti kr. 259.998, úr raftækjaversluninni Max, Kauptúni 1 í Garðabæ. Á myndbandsupptöku úr eftirlitskerfi verslunarinnar sjáist hvar kærði taki tvo kassa sem umræddar tölvu hafi verið í. Í skýrslutöku fyrir lögreglu þann 5. janúar 2007 hafi kærði viðurkennt að hafa tekið kassana en neitað því að hann hefði innihaldið umræddar tölvur. (036-2006-14578)
Þjófnað, með því að hafa miðvikudaginn 17. október 2007, stolið tveimur fartölvum af gerðinni Toshiba Satellite Pro, samtals að verðmæti kr. 259.800, úr versluninni A4, Höfðabakka 3 í Reykjavík. Á myndbandsupptöku úr eftirlitskerfi verslunarinnar sjáist hvar kærði taki tvo kassa sem umræddar tölvur hafi verið í. Í skýrslutöku hjá lögreglu þann 26. október sl. hafi kærði viðurkennt að hafa stolið umræddum tölvum. (007-2007-80322)
Þjófnað, með því að hafa laugardaginn 3. nóvember 2007, stolið tveimur fartölvum af gerðinni Acer Aspire, tveimur fartölvum af gerðinni Toshiba Satellite, einu 50″ Panasonic plasma sjónvarpi, einni myndbandsupptökuvél af gerðinni Panasonic, þremur digital myndavélum af gerðinni Panasonic, einni myndavél af gerðinni Sony CyberShot og tveimur linsum af gerðinni Canon, allt samtals að verðmæti kr. 1.119.989. Á myndbandsupptöku úr eftirlitskerfi verslunarinnar sjáist hvar kærði komi inn í verslunina og inn á lager hennar. Þar taki hann innkaupakerru og fylli af vörum. Því næst fari hann út úr versluninni með umrædda muni, bakdyrameginn af lager verslunarinnar. Í skýrslutöku fyrir lögreglu þann 30. nóvember sl. hafi kærði viðurkennt að hafa stolið munum úr versluninni á umræddan hátt en kveðið lista verslunarinnar um þá muni sem stolið var ekki vera réttan. (007-2007-92141)
Þjófnað, með því að hafa þriðjudaginn 4. desember 2007 í verslun Office 1 að Skeifunni 17 í Reykjavík, stolið þremur fartölvum, samtals að verðmæti 259.700 krónur. Kærði hafi hjá lögreglu játað sök. (mál nr. 007-2007-93236)
Fjársvik, með því að hafa fimmtudaginn 6. desember 2007, í heimildarleysi látið millifæra 1.946.900 krónur af bankareikningi A nr. [...], inn á eigin reikning nr. [...]. Málið sé á frumstigi og kærði hafi ekki enn verið yfirheyrður vegna málsins. (mál nr. 007-2007-94328)
Brot þau sem kærði sé grunaður um að hafa framið, varði við ákvæði almennra hegningarlaga nr. 19/1940, þ.e. auðgunarbrotakafla þeirra laga. Í flestum tilvikanna sé um að ræða þjófnaðarbrot þar sem miklum verðmætum hafi verið stolið en kærði hafi oft komið við sögu lögreglu hvað varði þjófnaðarbrot. Þannig hafi kærði alls 6 sinnum hlotið dóm fyrir brot gegn 244. gr. almennra hegningarlaga frá árinu 2001, nú síðast með dómi héraðsdóms Reykjaness frá 15. júní 2007, í máli nr. S-1504/2006 þar sem kærði hafi verið dæmdur til að sæta fangelsi í 2 ár og 4 mánuði m.a. vegna fjölda þjófnaðarbrota.
Ljóst sé að kærði hafi viðurkennt hjá lögreglu að vera fíkniefnaneytandi og að með ofangreindum þjófnuðum hafi hann verið að greiða upp fíkniefnaskuld. Með vísan til brotaferils kærða síðustu mánuði, sem virðist vera að færast í aukana þessa dagana, sé það mat lögreglu að kærði muni halda áfram afbrotum gangi hann laus og því nauðsynlegt að hann sæti gæsluvarðhaldi á meðan rannsókn sé ólokið og þar til ákvörðun um saksókn liggi fyrir.
Kærði var handtekinn í gær eftir að vitni hafði borið að hafa séð kærða við verslunina Takka þegar stolið var þaðan þremur tölvum. Kærði hefur neitað aðild að þeim þjófnaði, en lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur nú til rannsóknar mörg auðgunarbrot sem kærði er grunaður um aðild að og hefur hann játað aðild að nokkrum þeirra. Flest þessara brota varða þjófnað þar sem miklum verðmætum var stolið. Þykir ljóst að fram sé kominn rökstuddur grunur um að kærði hafi framið verknað sem fangelsisrefsing liggur við. Þá liggur fyrir í gögnum málsins að frá árinu 2001 hefur kærði alls sex sinnum hlotið dóma fyrir brot gegn 244. gr. almennra hegningarlaga, nú síðast með dómi Héraðsdóms Reykjaness 15. júní 2007 þar sem hann var dæmdur til að sæta fangelsi í 2 ár og 4 mánuði fyrir mörg þjófnaðarbrot.
Með vísan til framlagðra gagna og brotaferils kærða síðustu mánuði þykir rétt með vísan til c liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 að taka til greina kröfu lögreglustjóra og úrskurða kærða í gæsluvarðhald. Með hliðsjón af atvikum öllum þykja ekki efni til að marka gæsluvarðhaldinu skemmri tíma en krafist er.
Greta Baldursdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 1. febrúar nk. kl. 16:00.