Hæstiréttur íslands
Mál nr. 610/2009
Lykilorð
- Lífeyrir
- Viðurkenningarkrafa
- Dráttarvextir
- Fyrning
- Gagnsök
|
|
Fimmtudaginn 23. september 2010. |
|
Nr. 610/2009. |
Hrafnkell Guðjónsson (Lára V. Júlíusdóttir hrl.) gegn Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins (Þórey S. Þórðardóttir hrl.) og gagnsök |
Lífeyrir. Viðurkenningarkrafa. Dráttarvextir. Fyrning. Gagnsök.
H krafðist viðurkenningar á skyldu L til greiðslu dráttarvaxta af vangoldnum lífeyri til hans vegna tímabilsins 31. ágúst 2002 til 30. júní 2007. L leiðrétti lífeyri H með greiðslu 18. júní 2007 en taldi sér hins vegar ekki skylt að greiða dráttarvexti. Talið var að samkvæmt 24. gr. laga nr. 1/1997 skuli lífeyrir greiddur eftir á, eftir að sjóðsfélagi hefur öðlast réttindi samkvæmt lögunum, og að samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 sé kröfuhafa heimilt, þegar gjalddagi skuldar er ákveðinn, að krefja skuldara um dráttarvexti, sem reiknast af ógreiddri peningakröfu frá og með gjalddaga fram að greiðsludegi. Bar L á grundvelli þessara ákvæða skyldu til greiðslu dráttarvaxta á hinn vangreidda lífeyri L. L var með málatilbúnaði sínum í héraði og fyrir Hæstarétti talinn hafa fallist á að dráttarvextir sem fallið hefðu til eftir 28. október 2004 væru ófyrndir. Þar sem L höfðaði ekki gagnsök í héraði gátu kröfur hans eingöngu lotið að því að taka afstöðu til kröfugerðar H. Í samræmi við framangreint var hinn áfrýjaði dómur staðfestur um viðurkenningu á skyldu L til greiðslu dráttarvaxta af vangoldnum lífeyri til H vegna tímabilsins 28. október 2004 til 30. júní 2007.
Dómar Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson og Benedikt Bogason dómstjóri.
Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 23. október 2009 að fengnu áfrýjunarleyfi. Hann krefst þess að viðurkennd verði skylda gagnáfrýjanda til að greiða honum dráttarvexti, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, af vangoldnum lífeyrisgreiðslum vegna tímabilsins 31. ágúst 2002 til 30. júní 2007 frá mánaðarlegum gjalddaga hverrar greiðslu en gagnáfrýjandi innti greiðslu hins vangoldna lífeyris af hendi 18. júní 2007.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði fyrir sitt leyti 28. desember 2009. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu aðaláfrýjanda. Til vara krefst hann sýknu af kröfu aðaláfrýjanda um dráttarvexti fyrir tímabil sem nær lengra aftur en til 28. október 2004 og að greiðsla hans til aðaláfrýjanda 18. júní 2007 vegna vangoldins lífeyris frá 1. ágúst 2002 til 30. júní 2003 að fjárhæð kr. 116.658 og greiðsla verðbóta og vaxta sama dag að fjárhæð kr. 243.725 komi til frádráttar kröfu aðaláfrýjanda um dráttarvexti. Að þessu frágengnu krefst hann sýknu af kröfu aðaláfrýjanda um greiðslu dráttarvaxta fyrir tímabil sem nær lengra aftur en til 28. október 2004 og að greiðsla hans á verðbótum og vöxtum til aðaláfrýjanda 18. júní 2007, og taka til sama tímabils og dráttarvextir sem aðaláfrýjandi kann að fá viðurkennda, komi til frádráttar kröfu aðaláfrýjanda.
Aðaláfrýjandi höfðaði mál þetta með kröfu um viðurkenningu á rétti sínum til dráttarvaxta úr hendi gagnáfrýjanda af lífeyri á þann hátt sem í kröfu hans greinir. Vísaði hann til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála um heimild sína til að leita viðurkenningardóms um þetta í stað dóms sem fullnægja mætti með aðför. Gagnáfrýjandi tók til varna gegn þessari kröfu í héraði án þess að höfða gagnsök til viðurkenningar á hvernig með greiðslur frá honum skyldi fara í því tilviki að fallist yrði á kröfu aðaláfrýjanda. Þar sem gagnáfrýjandi höfðaði ekki gagnsök í héraði gátu kröfur hans einungis lotið að því að taka afstöðu til kröfugerðar aðaláfrýjanda. Hann gat ekki, svo sem hann gerði með varakröfum sínum, krafist sjálfstæðrar viðurkenningar á meðferð greiðslna sinna til aðaláfrýjanda í uppgjöri þeirra á milli ef viðurkenningarkrafa aðaláfrýjanda yrði að einhverju leyti tekin til greina.
Stefna til héraðsdóms var birt 28. október 2008. Í málatilbúnaði gagnáfrýjanda í héraði og fyrir Hæstarétti felst viðurkenning á að birting stefnunnar hafi rofið fyrningu á kröfu aðaláfrýjanda um dráttarvexti af lífeyrisgreiðslum verði viðurkenningarkrafa hans tekin til greina. Hefur gagnáfrýjandi þá fallist á að dráttarvextir sem fallið hafi til eftir 28. október 2004 séu ófyrndir. Af þessari ástæðu þarf ekki að taka afstöðu til þess hvort krafa aðaláfrýjanda um viðurkenningu á rétti til dráttarvaxta teljist lögsókn í skilningi 1. mgr. 1. gr., sbr. 1. mgr. 11. gr., laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda, en regla 1. mgr. 15. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda, sem að þessu lýtur, á ekki við þar sem kröfur aðaláfrýjanda stofnuðust fyrir gildistöku þeirra 1. janúar 2008, sbr. 28. gr. laganna.
Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um viðurkenningu á skyldu gagnáfrýjanda til að greiða aðaláfrýjanda dráttarvexti af vangoldnum lífeyrisgreiðslum til hans á þann hátt sem í dómsorði greinir.
Gagnáfrýjandi verður dæmdur til að greiða aðaláfrýjanda málskostnað í héraði og Hæstarétti sem ákveðst í einu lagi eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Viðurkennd er skylda gagnáfrýjanda, Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, til greiðslu dráttarvaxta af vangoldnum lífeyrisgreiðslum til aðaláfrýjanda, Hrafnkels Guðjónssonar, vegna tímabilsins 28. október 2004 til 30. júní 2007, sem inntar voru af hendi 18. júní 2007.
Gagnáfrýjandi greiði aðaláfrýjanda samtals 800.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 27. mars 2009.
I.
Mál þetta, sem dómtekið var 11. mars sl., er höfðað með stefnu birtri 28. október 2008, af Hrafnkatli Guðjónssyni, Sóltúni 28, Reykjavík, á hendur Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, Bankastræti 7, Reykjavík.
Stefnandi krefst þess að viðurkennd verði skylda stefnda til greiðslu dráttarvaxta af vangoldnum lífeyrisgreiðslum til stefnanda vegna tímabilsins 31. ágúst 2002 til 30. júní 2007, sem greiddar voru 18. júní 2007. Þá er krafist málskostnaðar.
Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda. Til vara er krafist sýknu af dráttarvaxtarkröfu sem nær lengra aftur en 28. október 2004 og að lífeyrisgreiðsla sem stefndi greiddi stefnanda þann 18. júní 2007 fyrir tímabilið 1. ágúst 2002 til 30. júní 2003 að fjárhæð 116.658 krónur og greiðsla verðbóta og vaxta sem greiddir voru sama dag að fjárhæð 243.725 krónur komi að fullu til frádráttar dráttarvaxtarkröfu stefnanda. Til þrautavara er þess krafist að dómurinn sýkni stefnda af dráttarvaxtarkröfu sem nær lengra aftur en 28. október 2004 og að verðbætur og vextir sem greiddir voru 18. júní 2007 og ná yfir sama tímabil og dæmdir dráttarvextir komi að fullu til frádráttar kröfunni. Loks er krafist málskostnaðar.
II.
Málavextir eru óumdeildir. Stefnandi er sjóðsfélagi í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins og tilheyrir B-deild sjóðsins, en hann var áður kennari við Sjómannaskólann í Reykjavík. Hóf hann töku ellilífeyris í apríl 2001. Fékk hann í upphafi greiddan ellilífeyri á grundvelli svonefndrar eftirmannsreglu en frá 31. ágúst 2004 fékk hann greitt samkvæmt svokallaðri meðaltalsreglu. Á árinu 2007 kom í ljós að stefnandi hafði ekki fengið greiddar umsamdar launaflokkahækkanir allt frá árinu 2002. Voru þær hækkanir leiðréttar og greiddar stefnanda í eingreiðslu 18. júní 2007 samtals að fjárhæð 1.320.475 krónur. Þegar tillit hafði verið tekið til staðgreiðslu skatta nam fjárhæðin 848.801 krónu. Var leiðréttingin verðbætt samkvæmt neysluverðsvísitölu auk þess að vera vaxtareiknuð til samræmis við útlánavexti stefnda á hverjum tíma. Hefur stefnandi ekki sætt sig við uppgjörsaðferðina en hann telur að leiðréttinguna eigi að dráttavaxtareikna frá hverjum gjalddaga fyrir sig og fram til greiðsludags.
Á dskj. nr. 16 eru athugasemdir er stefnandi hefur ritað í ágúst 2007 vegna leiðréttinga á lífeyrisgreiðslum til sín. Verður ráðið af efni athugasemdanna að þeim sé beint til stefnda. Hefur stefndi í greinargerð sinni viðurkennt að svo sé. Í niðurlagi athugasemdanna hefur stefnandi haft uppi athugasemdir við útreikning vaxta og bendir á að dómur Hæstaréttar Íslands í máli nr. 5/2007 geti verið leiðbeinandi í málinu. Með bréfi lögmanns stefnanda til stefnda 21. maí 2008 var leitað skýringa hjá stefnda á greiðslu þeirri er stefnandi fékk greidda 18. júní 2007, m.a. á því hvaða vextir hafi verið greiddir af leiðréttingunni og hvernig þeir hafi verið reiknaðir út. Var því erindi svarað með bréfi stefnda 29. maí 2008, þar sem m.a. er vikið að því að stefndi hafi samþykkt á fundi í stjórn 16. febrúar 2001 hvernig leiðrétta skuli vangreiddan lífeyri ef leiðréttingartímabil næði lengra aftur í tímann en eitt ár. Stefnandi áætlar að þeir hagsmunir sem um sé deilt í málinu nemi á bilinu 750.000 til 800.000 krónum.
Við aðalmeðferð málsins gaf Haukur Hafsteinsson framkvæmdastjóri stefnda skýrslu fyrir dóminum.
III.
Stefnandi kveðst byggja mál sitt á ákvæðum laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, en í 1. mgr. 5. gr. laganna segi að hafi gjalddagi verið fyrir fram ákveðinn sé kröfuhafa heimilt að krefja skuldara um dráttarvexti sem reiknist af ógreiddri peningakröfu frá og með gjalddaga fram að greiðsludegi. Gjalddagi einstaka ellilífeyrisgreiðslna sé fyrir fram ákveðinn og sé kveðið á um greiðslu lífeyris til þeirra sem eigi rétt til ellilífeyris í III. kafla laga um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins nr. 1/1997. Þau svör sem stefnandi hafi fengið við kröfum sínum séu þau að stjórn stefnda hafi samþykkt á fundi sínum 16. febrúar 2001 að vangreiddur lífeyrir ef leiðréttingartímabil nái lengra en eitt ár aftur í tímann sé verðbættur með vísitölu neysluverðs auk vaxta sem fylgi vöxtum nýrra lána til sjóðsfélaga eins og þeir séu á hverjum tíma. Sú regla eigi sér ekki stoð í lögum og geti stefndi ekki, þvert á skýr fyrirmæli um dráttarvexti í lögum nr. 38/2001, sett sínar eigin reglur um vexti á vangreiddan lífeyri. Með vísan til laga nr. 38/2001 og dóms Hæstaréttar Íslands sem upp var kveðinn 14. júní 2007 í máli nr. 5/2007 telji stefnandi túlkun stefnda á reglum um greiðslu á vangreiddum lífeyri ekki fá staðist.
Stefnandi vísar til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Um málskostnað er vísað til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.
IV.
Stefndi byggir aðalkröfu sína um sýknu á því að reglur þær sem stefndi hafi sett sér við leiðréttingu á vangreiddum lífeyri við framkvæmd á eftirmannsreglu hafi fullt gildi enda þyki þær eðlilegar og sanngjarnar og styðjist við áratugalanga venju sem skapast hafi við framkvæmd leiðréttingarmála vegna vangreiðslu á lífeyri til sjóðsfélaga í B-deild stefnda.
Sérstakar reglur um leiðréttingu á lífeyrisgreiðslum til sjóðsfélaga megi rekja til þess séreðlis sem fylgi eftirfylgni við framkvæmd eftirmannsreglunnar, sbr. 35. gr. laga nr. 1/1997.
Eftirfylgni við það að sjóðsfélagar fái rétt launaviðmið samkvæmt eftirmannsreglu sé í eðli sínu með þeim hætti að lífeyrisgreiðslur séu iðulega leiðréttar. Vegna þessa séreðlis sem felist í reglubundinni upplýsingaöflun um laun fyrir umrædd störf ásamt því sem reglan sé í eðli sínu matskennd hafi stjórn stefnda talið brýna þörf fyrir ákveðnar reglur er taki til leiðréttinga á vangreiddan lífeyri.
Vegna þess umfangs sem felist í eftirfylgni á réttu launaviðmiði til lífeyrisþega sé sérstök deild hjá stefnda svonefnd eftirmannsregludeild. Starfsfólk deildarinnar hafi það hlutverk að afla upplýsinga frá launagreiðendum um laun fyrir þau störf sem séu viðmiðunarstörf fyrir lífeyri allra sjóðsfélaga sem kjósi að lífeyrir þeirra taki mið af þeim launum sem greidd séu á hverjum tíma fyrir viðmiðunarstarfið. Þar sem störf séu ætíð að breytast með ýmsum hætti, t.d. með sameiningum eða niðurlagningum á störfum og stofnunum sé oft örðugt að meta hvert sé hið rétta launaviðmið fyrir viðkomandi sjóðsfélaga. Jafnframt hafi kjarasamningar verið að þróast með þeim hætti að viðkomandi stofnanir hafi meira vald til að meta launaröðun starfsmanna samkvæmt matskenndum þáttum eins og raunin sé í því máli sem hér sé til úrlausnar. Af þessum sökum sé starfandi starfsnefnd, sbr. 7. gr. samþykkta stefnda, sem hafi m.a. það hlutverk að fjalla um álitamál er varði viðmiðunarlaun fyrir lífeyri hverju sinni. Nefndin sé skipuð sjö mönnum og séu þrír þeirra tilnefndir af fulltrúum fjármálaráðherra í stjórn sjóðsins, einn tilnefndur af fulltrúum BSRB, einn af BHM og einn af KÍ. Framkvæmdastjóri sjóðsins eigi jafnframt sæti í nefndinni, sbr. 2. mgr. 7. gr. samþykktanna. Með þessari samsetningu á nefndarmönnum sé þess gætt að jafnvægis sé haldið milli sjónarmiða stéttarfélaganna og fjárveitingarvaldsins. Allar fundargerðir nefndarinnar séu lagðar fyrir stjórn stefnda auk þess sem mál þar sem nefndarmenn séu ekki einróma um afgreiðslu fari á dagskrá stjórnar sjóðsins, sbr. 3. mgr. 12. gr. málsmeðferðarreglna starfsnefndar, en þær séu á dskj. nr. 13.
Vegna þessa séreðlis við eftirfylgni á réttu launaviðmiði samkvæmt eftirmannsreglunni hafi stjórn stefnda talið þörf fyrir sérstakar reglur sem gildi við leiðréttingar á vangreiddum lífeyri. Nokkuð sé um það að leiðréttingar séu framkvæmdar aftur til fjölda ára og einstaka tilvik hafi náð yfir áratugaskeið. Stjórn stefnda hafi jafnframt sett sér þá reglu að beita ekki fyrir sig fyrningu í leiðréttingarmálum og greiða verðbætur og vexti yfir allt leiðréttingartímabilið samkvæmt umræddum reglum.
Þegar núgildandi reglur hafi verið samþykktar í stjórn stefnda á árinu 2001 hafi eldri reglur verið felldar úr gildi en þær hafi verið í gildi frá 14. maí 1986, sbr. samþykkt stjórnar á dskj. nr. 19. Þær reglur hafi falið í sér einskonar núvirðingu á leiðréttingar á lífeyri en á árinu 2001 hafi verið ákveðið að breyta reglunum þar sem þær hafi verið taldar hafa nokkra ókosti í för með sér þar sem verulegu máli gat skipt hvenær leiðréttingargreiðsla hafi átt sér stað þar sem greiðslan hafi fylgt launaákvörðun á greiðsludegi. Þessum reglum hafi þó verið beitt við leiðréttingar frá árinu 1986 allt þar til núgildandi reglur hafi verið settar 16. febrúar 2001, sbr. dskj. nr. 6. Við breytingarnar á árinu 2001 hafi reglunni um að beita ekki fyrir sig fyrningu á leiðréttingarmálum verið haldið óbreyttri þar sem það hafi þótt sanngjarnt og eðlilegt fyrir viðkomandi lífeyrisþega.
Stefndi hafi leiðrétt vangreiddan lífeyri samkvæmt sérreglum sem stjórn stefnda hafi sett sjóðnum og hvíli sú framkvæmd á áratugalangri venju. Hjá stjórn stefnda sem sé samansett af fjórum fulltrúum fjármálaráðherra og fjórum fulltrúum stéttarfélaganna ríki mikil sátt við núverandi framkvæmd við leiðréttingu á lífeyrisgreiðslum til sjóðsfélaga en á fundi stjórnar þann 14. maí 2008 hafi málið enn á ný verið tekið upp í stjórn og ekki þótt tilefni til að endurskoða núgildandi framkvæmd, sbr. dskj. nr. 20. Hins vegar hafi verið ákveðið að reglunum skyldi jafnframt beitt við leiðréttingu á iðgjaldagreiðslum, þ.e. þegar sjóðsfélagar hafi greitt iðgjöld eftir að þeir ættu að vera iðgjaldafríir. Skyldi endurgreiðsla iðgjalda til sjóðsfélaga í slíkum tilvikum verða bætt og vaxtareiknuð.
Leiðbeiningarreglur stefnda hafi þótt sanngjarnar og í raun mun eðlilegri og sanngjarnari en ef almennum reglum kröfuréttarins yrði beitt á leiðréttingu lífeyris, þ.e. að bera fyrir sig fyrningu á leiðréttingar sem ná yfir lengra tímabil en fjögur ár og greiða þá eftir atvikum dráttarvexti allt að fjögur ár, sbr. 3. gr. laga um fyrningu kröfuréttinda nr. 150/2007 og ákvæði 2. tl. 1. mgr. 3. gr. eldri laga um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda nr. 14/1905.
Samkvæmt lögum nr. 38/2001 sé með beinum hætti gert ráð fyrir því að venja geti verið til staðar um greiðslu vaxta sem gangi framar reglum laganna, sbr. 2. gr. og 6. gr. Sé því gengið út frá því með beinum hætti að venja geti skapast og að ákvæði laganna taki ekki til slíkra mála. Í eldri vaxtalögum nr. 25/1987 hafi að sama skapi verið gert ráð fyrir því að venja gæti skapast sem gengi framar ákvæðum laganna, sbr. 2. gr. laganna. Því sé ljóst að venja, sem viðhöfð hafi verið í langan tíma og almenn sátt ríki um, geti gengið framar ákvæðum um dráttarvexti í lögum nr. 38/2001. Þó svo lög nr. 38/2001 gerðu ekki með beinum hætti ráð fyrir því að venja gæti ekki gengið framar settum ákvæðum laganna sé það almennt viðurkennt að venja geti vikið settum lagaákvæðum til hliðar. Þar sem áratugalangri venju sé fyrir að fara hjá sjóðnum er viðkomi setningu sérreglna um leiðréttingu lífeyrisgreiðslna beri að verða við aðalkröfu um sýknu.
Verði dómurinn ekki við sýknukröfu stefnda á þeirri forsendu að venja hafi skapast sé krafist sýknu þar sem gjalddagi kröfu stefnanda hafi ekki verið kominn í skilningi 5. gr. laga nr. 38/2001. Eins og rakið hafi verið sé framkvæmd eftirmannsreglu 35. gr. laga nr. 1/1997 matskennd í framkvæmd og því ekki skýrt hverju sinni hvenær unnt sé að telja kröfu gjaldfallna í skilningi 5. gr. laga nr. 38/2001. Af þessum sökum hafi stefndi sett sérreglur um leiðréttingu á vangreiddan lífeyri og styðjist reglurnar við eðli máls og hafi þótt eðlilegar og sanngjarnar við leiðréttingu greiðslna. Reglunum hafi nú verið framfylgt í það langan tíma að um þær ríki almenn sátt á grundvelli venjuhelgaðrar framkvæmdar.
Séreðli við framkvæmd eftirmannsreglu sem felist í hinum matskenndu atriðum sem eigi við í málinu geti ekki orðið grundvöllur að kröfu um dráttarvexti. Almennt sé litið á dráttarvexti sem skaðabætur eða ígildi þeirra eftir að vanefndir hafi orðið. Í máli þessu sé ekki fyrir að fara saknæmi sem grundvallað geti greiðslu dráttarvaxta. Dráttarvaxtakrafa geti ekki átt rétt á sér fyrr en sýnt sé að skuldari láti hjá líða að efna og fyrir liggi því vanefnd af hans hálfu í formi greiðsludráttar. Slíku sé ekki fyrir að fara í málinu. Stefndi hafi verið í góðri trú allan tímann um að greiðslur til stefnanda hafi verið réttar og um leið og tilefni hafi gefist til yfirferðar á málinu hafi það verið gert með þann vilja að leiðarljósi að greiða réttar greiðslur til stefnanda hverju sinni. Það sé fjarri lagi að stefndi haldi aftur af réttmætum greiðslum lífeyris til sjóðsfélaga. Því beri að sýkna stefnda þar sem stefnandi hafi ekki sýnt fram á að gjalddagi kröfunnar hafi verið fyrr en málið kom, að frumkvæði stefnda, til athugunar en greiðslur til stefnanda hafi verið leiðréttar í framhaldi af þeirri athugun.
Varakrafa stefnda og þrautavarakrafa séu byggðar á því að krafa stefnanda um dráttarvexti sem nái til lengri tíma aftur í tímann en fjögur ár frá birtingu stefnu sé fyrnd, sbr. 2. tl. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 14/1905. Vísað sé til laga nr. 14/01905 þar sem núgildandi lög um fyrningu kröfuréttinda nr. 150/2007 taki aðeins til krafna sem stofnast hafi eftir gildistöku laganna, sbr. 28. gr. Samkvæmt almennum reglum um fyrningu vaxta sé krafa stefnanda um dráttarvexti sem nái aftur fyrir tímabilið 28. október 2004 fyrnd. Því beri að sýkna stefnda um dráttarvexti frá 1. ágúst 2002 til 28. október 2004.
Í varakröfu stefnda sé þess jafnframt krafist að greiðsla, sem stefndi hafi getað borið fyrir sig fyrningu samkvæmt almennum reglum þegar greitt hafi verið 18. júní 2007, komi að fullu til frádráttar kröfu um dráttarvexti. Um sé að ræða leiðréttingargreiðslu fyrir tímabilið 1. ágúst 2002 til 30. júní 2003, samtals að fjárhæð 116.658 krónur, sbr. dskj. nr. 3. Krafa þessi sé byggð á því að brostnar forsendur séu fyrir greiðslunni þar sem stefndi hefði borið fyrir sig fyrningu hefðu dráttarvextir verið greiddir. Þegar gerð sé krafa um dráttarvexti sé brostin forsenda fyrir greiðslum samkvæmt reglum sjóðsins sem séu þess eðlis að bera ekki fyrir sig fyrningu á leiðréttingargreiðslum og greiða verðbætur og vexti á leiðréttingu, sbr. reglur á dskj. nr. 6 og samþykkt stjórnar á dskj. nr. 19. Sé því eðlilegt að greiðsla fyrir umrætt tímabil komi að fullu til frádráttar kröfu stefnanda þar sem að baki henni séu brostnar forsendur.
Í varakröfu stefnda sé þess krafist að verðbætur og vextir að fjárhæð 243.725 krónur sem greiddar hafi verið þann 18. júní 2007 komi að fullu til frádráttar dráttavaxtarkröfu stefnanda þar sem ekki sé réttur til kröfu þeirrar samhliða dráttarvöxtum.
Samkvæmt þrautavarakröfu sé krafist frádráttar á greiddum vöxtum og verðbótum og sé krafan byggð á því að ekki sé unnt að eiga kröfu um dráttarvexti auk verðbóta og vaxta samkvæmt sérreglum sjóðsins yfir sama tímabil. Því sé þess krafist að slík vaxtagreiðsla komi að fullu til frádráttar dæmdum dráttarvöxtum.
Í stefnu sé fullyrt að ,,stefnandi hafi ekki fengið greiddar umsamdar launaflokkahækkanir allt frá árinu 2002“. Þessu mótmæli stefndi sem röngu enda hafi umrædd ákvæði í kjarasamningi ekki falið í sér ,,flata“ launaflokkahækkun á alla starfandi kennara og því sé ekki einsýnt að þær tækju til allra lífeyrisþega sem tekið hafi lífeyri samkvæmt viðmiði við kjarasamninginn.
Stefndi vísar til laga nr. 1/1997 um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, sérstaklega 24. gr. og 35. gr. Þá er vísað til samþykkta stefnda frá maí 2007, aðallega 7. gr. og 78. gr. Þá er byggt á venju um setningu sérreglna um vangreiddan lífeyri og reglna samþykktra í stjórn stefnda 16. febrúar 2001. Vísað er í vaxtalög nr. 38/2001, sérstaklega 2. gr., 5. gr. og 6. gr. Þá er vísað 3. gr. og 9. gr. eldri vaxtalaga nr. 25/1987, 28. gr. laga um fyrningu kröfuréttinda nr. 150/2007 og 2. tl. 1. mgr. 3. gr. eldri laga um sama efni nr. 14/1905. Loks er vísað til almennra reglna kröfuréttar. Varðandi kröfu um málskostnað er vísað til 1. mgr. 130. gr., sbr. 4. mgr. 129. gr. laga nr. 91/1991.
V.
Stefnanda, sem er lífeyrisþegi og nýtur lífeyrisgreiðslna úr B-deild stefnda, var 18. júní 2007 send greiðsla frá stefnda að fjárhæð 1.320.475 krónur vegna leiðréttingar á vangreiddum lífeyri. Náði leiðréttingartímabilið aftur til 1. ágúst 2002 og var afgreitt á fundi starfsnefndar stefnda 24. maí 2007. Á fundi stjórnar stefnda 16. febrúar 2001 voru m.a. samþykktar þær viðmiðunarreglur varðandi greiðslu á lífeyri að ef leiðréttingartímabil fyrir vangreiddan lífeyri næði lengra en eitt ár aftur í tímann yrði vangreiddur lífeyrir verðbættur með vísitölu neysluverð auk vaxta sem fylgja vöxtum nýrra lána til sjóðsfélaga eins og þeir eru ákveðnir á hverjum tíma. Í samræmi við þessa ákvörðun stjórnar stefnda var við leiðréttingu á lífeyri stefnanda fyrir ofangreint tímabil bætt við fjárhæðina vísitölu neysluverðs og vöxtum í samræmi við lán til sjóðsfélaga. Stefnandi telur að ofangreind leiðrétting á lífeyrisgreiðslum eigi að bera dráttarvexti í samræmi við 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001, en ekki verðbætur og vexti í samræmi við samþykkt stefnda frá 16. febrúar 2001. Því hafnar stefndi og vísar þar um til þess að vegna séreðlis leiðréttingar lífeyrisgreiðslna þegar um sé að ræða lífeyri á grundvelli svonefndrar eftirmannsreglu 1. mgr. 35. gr. laga nr. 1/1997 hafi myndast venja um leiðréttingar á lífeyri í samræmi við ákvörðun stjórnar stefnda.
Með dómi Hæstaréttar Íslands, sem upp var kveðinn 14. júní 2007 í máli nr. 5/2007, var leyst úr ágreiningi um skyldu til að greiða dráttarvexti af vangoldnum launum starfsmanns fyrir tímabilið 1. september 2001 til 1. maí 2004, en ágreiningur hafði verið uppi um túlkun á kjarasamningi og stofnanasamningi milli launþega, launagreiðanda og stéttarfélags. Úr þeim ágreiningi hafði verið leyst með dómi Hæstaréttar Íslands á árinu 2004. Hafði launagreiðandinn leiðrétt laun í samræmi við dóm Hæstaréttar en ekki talið sér skylt að greiða dráttarvexti á hin vangoldnu laun. Í dóminum frá 14. júní 2007 var talið að á grundvelli 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 hefði launagreiðanda borið skylda til greiða dráttarvexti á hin vangreiddu laun, en samkvæmt 10. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins skyldu laun greidd eftir á fyrsta virkan dag hvers mánaðar, en sá dagur myndaði gjalddaga launagreiðslunnar.
Í máli því sem hér er til meðferðar hvílir sú skylda á stefnda eftir lögum nr. 1/1997 að greiða stefnanda mánaðarlega lífeyrisgreiðslur í samræmi við þau réttindi sem stefnandi á í B-deild stefnda. Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laganna á hver sjóðsfélagi, sem greitt hefur iðgjald til sjóðsins, rétt á lífeyri frá næstu mánaðarmótum eftir að hann verður 65 ára, enda hafi hann þá látið af þeim störfum sem veitt hafa honum aðild að sjóðnum. Um svonefnda 95 ára reglu, sem fram kemur í 4. mgr. ákvæðisins, gilda sérstök sjónarmið að því er varðar aldur lífeyrisþega og rétt hans til lífeyrisgreiðslna. Sú regla haggar ekki þeirri grunnreglu laganna að lífeyrisþegi á rétt á lífeyri frá næstu mánaðarmótum eftir að hann hefur öðlast réttindi samkvæmt lögunum og verður í því sambandi eðli málsins samkvæmt að miða við fyrsta virkan dag. Markar dagur þessi gjalddaga kröfunnar í skilningi laga nr. 1/1997.
Sé gjalddagi peningakrafna fyrir fram ákveðinn er mælt fyrir um í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 að kröfuhafa sé heimilt að krefja skuldara um dráttarvexti sem reiknast af ógreiddri peningakröfu frá og með gjalddaga fram að greiðsludegi. Ákvæði 2. gr. laganna heimila ekki að vikið verði frá þessari reglu á grundvelli venju svo sem stefndi miðar við. Verður það hvorki ráðið af ákvæði 2. gr., né af samanburðarskýringu ákvæðisins við samsvarandi ákvæði eldri vaxtalaga nr. 25/1987. Með hliðsjón af þessu getur stefndi ekki borið fyrir sig þá málsvörn að heimilt sé að ganga framar ákvæði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 á grundvelli venju sem fram komi í reglum sem stefndi hafi samþykkt á fundi sínum 16. febrúar 2001. Er þá einnig til þess að líta að samkvæmt því sem stefndi heldur sjálfur fram ná reglur þær sem stefndi telur að hafi myndað venjuna ekki lengra aftur en til ársins 2001. Í því ljósi verður ekki talið að myndast hafi venja að þessu leyti er gangi framar settum lögum. Að mati dómsins verður ekki litið fram hjá fordæmisgildi dóms Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 5/2007. Þau atriði er þar var leyst úr gefa ekki tilefni til annars en að beita samsvarandi lögskýringu um úrlausnarefni þessa máls. Með hliðsjón af því verður viðurkenningarkrafa stefnanda tekin til greina.
Í varakröfu sinni byggir stefndi á því að krafa um dráttarvexti sem ná lengra aftur í tímann en fjögur ár frá birtingu stefnu í málinu sé fyrnd, sbr. 2. tl. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 14/1905. Samkvæmt 2. tl. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 14/1905 fyrnast vextir á fjórum árum. Í dómi Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 5/2007 var ekki talið að í greiðslu á höfuðstól kröfu hafi falist viðurkenning á skyldu til greiðslu dráttarvaxta. Með vísan til þessarar niðurstöðu Hæstaréttar og samkynja tilvika að þessu leyti er við það miðað í þessu máli að stefndi hafi ekki viðurkennt skyldu sína til greiðslu dráttarvaxta þó svo lífeyrisgreiðslur stefnanda hafi verið leiðréttar lengra aftur í tímann en það. Með hliðsjón af því verður stefndi sýknaður af dráttarvaxtakröfu sem nær lengra aftur en 28. október 2004.
Þá byggir stefndi á því í varakröfu að koma eigi að fullu til frádráttar greiðsla sem stefndi hefði getað borið fyrir sig að væri fyrnd samkvæmt almennum reglum. Um er að ræða leiðréttingargreiðslur fyrir tímabilið 1. ágúst 2002 til 30. júní 2003, samtals að fjárhæð 116.658 krónur. Byggt sé á því að brostnar séu forsendur fyrir greiðslunni þar sem stefndi hefði borið fyrir sig fyrningu á þeim hefðu dráttarvextir verið greiddir. Ekki verður á þessa málsvörn stefnda fallist. Að mati dómsins fólst í leiðréttingargreiðslunni frá 18. júní 2007 viðurkenning á skyldu til greiðslu vangoldins lífeyris aftur til 1. ágúst 2002.
Loks hefur stefnandi í málflutningi samþykkt þá varakröfu stefnda að ef stefnanda verði heimilað að reikna dráttarvexti á vangreidd tímabil verði að fella niður þá leiðréttingu sem þegar hafi verið gerð og miðar við að á fjárhæðina sé bætt að því er varðar verðbætur og vexti samtals 243.725 krónum. Í samræmi við þetta verður fallist á kröfu stefnda um frádrátt leiðréttingargreiðslu að fjáræð 243.725 krónur, en stefnandi hefur ekki andmælt útreikningi kröfunnar að þessu leyti. Í ljósi þessa fellst dómurinn á þrautavarakröfu stefnda.
Með vísan til þessara úrslita málsins verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 300.000 krónur í málskostnað.
Af hálfu stefnanda flutti mál þetta Lára V. Júlíusdóttir hæstaréttarlögmaður en af hálfu stefnda Þórey S. Þórðardóttir hæstaréttarlögmaður.
Símon Sigvaldason héraðsdómari kveður upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Viðurkennd er skylda stefnda, Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, til greiðslu dráttarvaxta af vangoldnum lífeyrisgreiðslum til stefnanda, Hrafnkels Guðjónssonar, vegna tímabilsins 28. október 2004 til 30. júní 2007, sem greiddar voru 18. júní 2007. Til frádráttar dráttarvaxtakröfu stefnanda kemur greiðsla verðbóta og vaxta sem greiddar voru 18. júní 2007 samtals að fjárhæð 243.725 krónur.
Stefndi greiði stefnanda 300.000 krónur í málskostnað.