Hæstiréttur íslands

Mál nr. 823/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Farbann


                                     

Þriðjudaginn 8. desember 2015.

Nr. 823/2015.

Ákæruvaldið

(Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari)

gegn

X

(Guðmundur St. Ragnarsson hdl.)

Kærumál. Farbann.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert að sæta áfram farbanni á grundvelli b. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 1. mgr. 100. gr. sömu laga.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir, Helgi I. Jónsson og Karl Axelsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. desember 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 7. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. desember 2015, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram farbanni allt til miðvikudagsins 30. desember 2015 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hún kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður dæmist ekki, sbr. 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

                                                             

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur miðvikudaginn 2. desember 2015.

                Ríkissaksóknari hefur lagt fram kröfu um að X, f.d. [...], verði gert að sæta áfram farbanni þar til dómur fellur í máli hennar, þó eigi lengur en til miðvikudagsins 30. desember 2015, kl. 16.00.

 Í greinargerð ríkissaksóknara kemur fram að 8. september sl. hafi Y og X komið með farþegarferjunni [...] til [...].  Þau hafi verið á húsbíl og hafi Yekið bifreiðinni af ferjunni. Ákveðið hafi verið að leita í bifreiðinni og hafi töluvert magn fíkniefna fundist við þá leit. Y hafi frá upphafi játað að hafa vitað af efnunum og sagst vera svokallað burðardýr. Hann hafi hins vegar borið að X hafi ekki vitað af efnunum. X hafi neitað sök frá upphafi. Að mati ákæruvaldsins sé framburður þeirra um þátt X ótrúverðugur og sé á því byggt að X hafi tekið þátt í innflutningi fíkniefnanna. Hollenska lögreglan hafi tekið skýrslu af dóttur X og nágranna hennar. Báðar beri um það að X hafi sagt að þau Y væru á leið til Suður-Spánar í frí. Þá hafi ferðatilhögun verið með sérstökum hætti en fyrir liggi að ákærðu hafi ekið um 500 km af leið í upphafi ferðar og hafi X að mati ákæruvalds ekki gefið trúverðugar skýringar á því. Loks hafi ákærða X borið um að þau Y hafi verið í miklum fjárhagserfiðleikum en ekki getað gefið skýringar á því hvernig þau gátu farið í dýrt ferðalag til Íslands. Með ákæru ríkissaksóknara dagsettri 1. þ.m. hafi þau verið ákærð fyrir framangreindan innflutning, nánar til tekið sé þeim gefið að sök stórfellt fíkniefnalagabrot, með því að hafa nefndan dag staðið saman að innflutningi á samtals 209.473 MDMA töflum, 10.043,93 g af MDMA mulningi og 34,55 g af amfetamíni, ætluðu til söludreifingar í ágóðaskyni. Teljist brotið varða við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með síðari breytingum.

Ákærða X hafi sætt gæsluvarðhaldi vegna málsins frá 9. september til 13. október 2015 en farbanni frá þeim degi. Hafi Hæstiréttur tvívegis staðfest úrskurð um áframhaldandi farbann yfir ákærðu, sbr. dóma í málum nr. 723/2015 og 784/2015.

Ákæruvaldið telji með hliðsjón af því sem rannsókn hafi leitt í ljós að ákærða sé undir rökstuddum grun um að hafa framið brot á 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og varðar allt að 12 ára fangelsi. Ákærða sé [...] ríkisborgari og hafi engin tengsl við landið. Sé þannig mikil hætta á því að hún muni koma sér undan málsókn verði ekki fallist á kröfuna.

Niðurstaða

                Gefin hefur verið út ákæra á hendur X þar sem henni er gefið að sök stórfellt fíkniefnalagabrot, sbr. 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með því að hafa ásamt Y staðið á innflutningi á miklu magni fíkniefna til landsins. Gögn málsins styrkja grun um að aðild hennar að innflutningum. Hún er erlendur ríkisborgari og hefur engin tengsl við landið. Samkvæmt framanrituðu og með vísan til b-liðar 1. mgr. 95. gr. og 1. mgr. 100. gr. laga nr. 88/2008 verður að telja að enn séu uppfyllt skilyrði til þess að banna kærðu brottför af landinu. Er því fallist á kröfu ríkissaksóknara.

Kolbrún Sævarsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Varnaraðili, X, f.d. [...], skal áfram sæta farbanni þar til dómur fellur í máli hennar, þó eigi lengur en til miðvikudagsins 30. desember 2015, kl. 16.00.