Hæstiréttur íslands

Mál nr. 862/2014


Lykilorð

  • Nálgunarbann
  • Kærumál


                                     

Mánudaginn 5. janúar 2015.

Nr. 862/2014.

 

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H.B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Sigmundur Hannesson hrl.)

 

Kærumál. Nálgunarbann. 

Staðfest var ákvörðun L um að X skyldi sæta nálgunarbanni.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. desember 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 30. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. desember 2014 þar sem staðfest var ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu 9. desember 2014 um að varnaraðili sætti nálgunarbanni, eins og nánar greinir í úrskurðarorði. Kæruheimild er í 3. mgr. 15. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að nálgunarbanni verði markaður skemmri tími og að það nái ekki til vinnustaðar brotaþola. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Að virtum gögnum málsins, sem rakin eru í hinum kærða úrskurði, verður fallist á með héraðsdómi að fullnægt sé skilyrðum 4. gr. laga nr. 85/2011 til að varnaraðila verði gert að sæta nálgunarbanni, enda verður ekki talið að friðhelgi brotaþola verði vernduð með öðrum og vægari hætti, sbr. 1. mgr. 6. gr. laganna. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Þóknun verjanda varnaraðila fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði segir, greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 3. mgr. 38. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 14. gr. laga nr. 85/2011.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Þóknun verjanda varnaraðila, Sigmundar Hannessonar hæstaréttarlögmanns, fyrir Hæstarétti, 125.500 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur, 19. desember 2014.

                Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur staðfesti ákvörðun sína, frá 9. desember 2014 þess efnis að X skuli sæta nálgunarbanni, skv. a og b lið 1. mgr. 4. gr. laga 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili, í 6 mánuði þannig að lagt sé bann við því að hann komi á eða í námunda við heimili A að [...] í [...] og vinnustað hennar að [...] í [...], á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis framangreinda staði, mælt frá miðju húsanna. Jafnframt er lagt bann við því að X veiti A eftirför, nálgist hana á almannafæri eða setji sig í samband við hana með öðrum hætti, s.s. með tölvupósti, skilaboðum á facebook eða í síma.

                Í greinargerð lögreglu kemur fram að hún telji rökstuddum grun um að varnaraðili hafi með hegðun sinni undanfarnar vikur og mánuði valdið brotaþola miklu ónæði og vanlíðan.

                Samkvæmt framburði brotaþola, þá hafi áreitið fyrst byrjað á árinu 2011 og hafi staðið með hléum síðan þá. Í skýrslu brotaþola fyrir lögreglu lýsir hún þessu áreiti nánar. Segir hún frá því að leiðir þeirra X hafi fyrst legið saman árið 2011 þegar þau hafi sótt sama námskeið í Háskóla Íslands. Ber hún að X hafi áreitt hana í skólanum og hafi það gengið svo langt að hún hafi óskað eftir því við skólayfirvöld að þau sæju um að hún þyrfti ekki að sitja sömu tíma og hann. Áreitið hafi m.a. falist í því að hann hafi ítrekað reynt að ná tali af henni í skólanum, þótt hún hafi með skýrum hætti sagt honum að hún óskaði ekki eftir samskiptum við hann, auk þess sem hann hafi hringt í hana og móður hennar og sent henni gjöf. Umrædd gjöf hafi verið bolti og pumpa sem eftir innpökkun hafi líkst kynfærum karla. Þá hafi hann í upphafi árs 2011 króað hana af í skólanum og varnað henni útgöngu. Á sama tíma hafi henni borist hótun í nafnlausum tölvupósti auk þess sem hana gruni að hann hafi ítrekað verið á ferð í bíl í kringum heimili hennar. Þá kemur fram í greinargerð lögreglu að síðla árs 2013 hafi X sent brotaþola nokkur skilaboð á facebook þar sem hann spyr m.a. um fjarveru hennar úr sjúkraprófi í skólanum. Einnig hafi varnaraðili ítrekað reynt að gefa sig á tal við brotaþola haustið 2013. Sumarið 2014 kvaðst brotaþoli hafa rekist á varnaraðila á Þjóðarbókhlöðunni þar sem hann hafi viljað biðja hana fyrirgefningar. Er haft eftir brotaþola að henni hafi fundist þessi samskipti stuðandi og varnaraðili virðist vera veikur.

                Þá kveðst brotaþoli hafa orðið fyrir miklu ónæði í október 2014 við heimili sitt og við heimili kærasta síns þar sem hringt hafi verið ítrekað á bjöllu um miðnætti og í byrjun nóvember hafi verið reynt að brjótast inn í íbúð kærasta hennar með því að klifra upp á svalir íbúðarinnar en nágranni hafi stoppað manninn af. Í sama mánuði hafi brotaþoli fengið hringingu frá vini sínum þar sem hann kvaðst hafa fengið upplýsingar um að X væri með hana á heilanum, væri mjög veikur á geði og væri til alls vís. X muni hafa rætt um að siga á hana handrukkara og vinur hennar hafi spurt hvort búið væri að skemma bifreið hennar þar sem rætt hefði verið um það. Brotaþoli kærði varnaraðili 1. desember sl. vegna eignaspjalla á bifreið hennar þann 19. október 2014, málsnr. lögreglu er 007-2014-[...], og kveður einnig ítrekað hafa verið skorið í dekk á bifreið kærasta hennar síðast þann 18. nóvember 2014. Kærði neitar því.

                Þá kemur fram í greinargerð lögreglustjóra að varnaraðili hafi ítrekað sent brotaþola á facebook síðustu mánuði, fyrst í lok október 2014 og fjölda skilaboða í nóvember þar sem hann tiltekur m.a. ýmisleg persónuleg atriði um brotaþola, þ.á m. um ástarsambönd hennar við núverandi og fyrrverandi kærasta. Brotaþoli kveðst hafa reynt að gera varnaraðila skiljanlegt að hún vilji engin samskipti hafa við hann, m.a. með tölvupósti og með því að svara ekki skilaboðum en hann hafi þó ekki látið segjast.

                Brotaþoli tilkynnti til lögreglu þann 2. desember 2014 að ökumaður á bifreiðinni [...] hafi elt hana allt frá [...] að vinnustað hennar í [...], [...], mál það hefur málsnúmerið 007-2014-[...]. Varnaraðili er skráður eigandi bifreiðarinnar. Hann neitar því að hafa elt hana en kannast við að hafa ekið bifreiðinni þann dag.

                Brotaþoli hefur lýst því fyrir lögreglu að hún hafi orðið fyrir mikilli vanlíðan vegna áreitis og ónæðis varnaraðila og telji sig stafa ógn af honum.

                Lögregla tók skýrslu af varnaraðila 4. desember sl. Þar viðurkennir hann að hafa sent brotaþola fjölda skilaboða á facebook þrátt fyrir að hún hafi ekki svarað honum auk þess sem hann hafi viljað stuða hana með því að fjalla þar um ástarsambönd hennar og persónulega hagi. Varnaraðili kvaðst einnig hafa fært henni gjöf fyrir nokkrum árum og hringt í móður hennar og gengst við því að hafa ekki látið brotaþola í friði þótt hún hafi beðið hann um það. Varnaraðili lýsti því yfir í framangreindri skýrslutöku að hann muni láta brotaþola í friði eftir skýrslutökuna.

                Þann 7. desember sl. tilkynnti brotaþoli til lögreglu að henni hefðu borist skilaboð frá varnaraðila undir nafni annars manns á facebook en í skilaboðunum hafi hann kynnt sig með nafni varnaraðila. Þar hefur hann uppi hótanir, áreitir hana og vísar til samskipti sinna við lögreglu og kveðst vera búinn að hafa samband við „verktakann“ vegna hennar.

                Lögreglan telur að af þessu megi vera ljóst að varnaraðili hafi ekki látið af hegðun sinni eftir fyrri skýrslutöku hjá lögreglu og nýjustu skilaboð hans séu sérstaklega til þess fallin að vekja ótta hjá brotaþola um velferð og líf sitt með því m.a. að þar sé vísað til að hann hafi haft eða muni hafi samband við verktaka sem sitji inni. Við skýrslutöku hjá lögreglu þann 15. desember hafi varnaraðili viðurkennt að hafa sent þessi skilaboð. Það hafi hann gert í gegnum facebooksíðu B með hans leyfi. Hann neiti því að um hótanir sé að ræða, þótt orðalagið sé tvírætt. Hann kvaðst hafa haft fyrirætlanir um að hrella brotaþola með annarri gjafasendingu líkt og hann hafði gert áður, nú í formi mannaskíts gerðum úr hnetum og súkkulaði. Varnaraðili hafi sagt að ein eða tvær myndir af brotaþola kynnu að vera í haldlögðum tölvum sínum sem lögregla sé nú með til rannsóknar.

          Í ljósi ofangreinds telur lögreglustjóri að skilyrði laga nr. 85/2011 séu uppfyllt að því leyti að hætta sé á að varnaraðili muni halda áfram að raska friði brotaþola í skilningi ákvæðisins njóti hann fulls athafnafrelsis. Ekki sé talið sennilegt að friðhelgi brotaþola verði vernduð með öðrum og vægari hætti eins og sakir standa.

          Varnaraðili mótmælir því að krafa sóknaraðila nái fram að ganga. Hann mótmæli því að skilyrði laga nr. 85/2011 séu til staðar jafnvel þótt brotaþoli kunni að hafa haft einhvern ama af honum. Verði ekki fallist á þá kröfu krefst hann þess til vara að nálgunarbanninu verði markaður skemmri tími og jafnframt að það nái ekki til vinnustaðar brotaþola. Bendir hann á að vinnustaður brotaþola sé í sama húsi og [...] sem sé opinber vettvangur sem varnaraðili geti átt lögmætt erindi á.

Niðurstaða:

Vísað er til málsatvika sem að framan er lýst. Þar kemur fram að brotaþoli telur að varnaraðili hafi brotið gegn friðhelgi hennar með hléum í nokkuð langan tíma. Þá hefur hún lagt fram kæru á hendur honum vegna eignaspjalla og skýrir jafnframt frá því að hún hafi fengið nafnlaust hótunarbréf árið 2011 og jafnframt að gerð hafi verið tilraun til að brjótast inn í íbúð kærasta hennar. Að svo miklu leyti sem yfirheyrslur yfir varnaraðila hafa lotið að þessum atriðum hefur hann neitað sök og í gögnum málsins eru ekki vísbendingar sem nægja til að álykta svo að rökstuddur grunur sé uppi um að hann hafi átt aðild að þessum atvikum. Á hinn bóginn styður framburður hans fyrir lögreglu og dómi að meginstefnu frásögn brotaþola á samskiptum aðila þegar leiðir þeirra lágu saman í Háskólanum árið 2011 og 2013, þótt varnaraðili telji engin tilefni fyrir brotaþola til að óttast hann vegna þeirra. Þá hefur hann gengist við því að hafa sent brotaþola öll þau samskipti í gegnum facebook sem liggja fyrir í málinu, sem og umrædda gjafasendingu og símtöl á árinu 2011. Þá liggur einnig fyrir að varnaraðili hefur ekki látið af háttsemi sinni þrátt fyrir að brotaþoli hafi kært hann til lögreglu og þrátt fyrir yfirlýsingar hans sjálfs í skýrslutöku hjá lögreglu þann 4. desember um að hann myndi láta af háttsemi sinni. Skilaboðin sem hann sendi brotaþola í kjölfar þeirrar skýrslutöku verða ekki skilin öðru vísi en svo að þau feli í sér hótun sem ætlað er að vekja ótta hjá brotaþola en þar segir hann að réttast sé að senda á hana verktaka núna en þeir fáist gegn vægu verði ef þeir sitji þá ekki inni. Jafnframt segir í skilaboðunum að hann hafi á fyrri stigum verið búin að hafa samband við verktaka. Með skilaboðunum fylgdi mynd af krepptum hnefa með áletruninni „be your own hero“. Fyrir dómi gaf varnaraðili þá skýringu á þessum skilaboðum að hann hafi haft í huga að fá verktaka til að útbúa gjöf handa brotaþola líka því sem hann hafi áður sent. Hvað sem líður trúverðugleika þess framburðar er það mat dómsins að brotaþoli hafi með réttu getað dregið þá ályktun af þessum skilaboðum að henni stæði ógn af varnaraðila og jafnframt að honum hafi mátt vera það ljóst þegar hann sendi skilaboðin. Verður í því sambandi einnig að skoða þessi síðustu skilaboð hans í ljósi fyrri samskipta aðila. Skeytin sem varnaraðili hefur sent brotaþola undanfarna mánuði eru mjög oft reiðileg og ágeng, þar sem varnaraðili virðist líta svo á að hann eigi kröfu á hendur brotaþola um persónuleg samskipti auk þess sem ljóst má vera af efni þeirra að hann hefur aflað upplýsinga um persónulega hagi brotaþola sem eru honum með öllu óviðkomandi. Þegar horft er á framkomu hans heildstætt er ekki fallist á það með varnaraðila að þau hafi einungis verið brotaþola til ama heldur hefur hann að mati dómsins með ólögmætum hætti raskað friðhelgi hennar og hefur framkoma hans verið til þess fallin að vekja ótta hjá brotaþola. Eru því skilyrði a. og b. liðar 4. gr. laga nr. 85/2011 fyrir hendi til að staðfesta ákvörðun lögreglu um nálgunarbann hans gagnvart brotaþola. Jafnframt er fallist á, með vísan til hegðunar brotaþola að undanförnu, að ekki sé líklegt friðhelgi brotaþola verði vernduð með öðrum og vægari hætti en nálgunarbanni sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 85/2011. Er hér einkum vísað til þess að síðustu samskipti varnaraðila við brotaþola, sem hann sendi eftir að afskipti lögreglu hófust, eru sýnu alvarlegri en fyrra áreiti. Verður ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu því staðfest og er hvorki tilefni til að marka því skemmri tíma né frekari afmörkunar en krafist er.

                Að kröfu skipaðs verjandi varnaraðila, Sigmunar Hannessonar hrl., verður honum úrskurðuð þóknun, sem að teknu tilliti til umfangs málsins, þykir hæfilega ákveðin 180.000 krónur. Þá er þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Kolbrúnar Garðarsdóttur hdl., hæfilega ákveðin 135.000 krónur. Þóknunin greiðist úr ríkissjóði og telst til sakarkostnaðar sbr. 3. mgr. 48. gr. og 216. gr. laga nr. 88/2008.

                Ingibjörg Þorsteinsdóttir héraðsdómari kvað upp þennan úrskurð.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

                Staðfest er ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu frá 9. desember 2014 þess efnis að X skuli sæta nálgunarbanni, skv. a og b lið 1. mgr. 4. gr. laga 85/2011, um nálgunarbann og brottvísun af heimili, í 6 mánuði þannig að lagt sé bann við því að hann komi á eða í námunda við heimili A að [...] í [...] og vinnustað hennar að [...] í [...], á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis framangreinda staði, mælt frá miðju húsanna. Jafnframt er lagt bann við því að X veiti A eftirför, nálgist hana á almannafæri eða setji sig í samband við hana með öðrum hætti, s.s. með tölvupósti, skilaboðum á facebook eða í síma.

                Þóknun skipaðs verjanda hans, Sigmundar Hannessonar hrl., 180.000 krónur, og þóknun tilnefnds réttargæslumanns brotaþola, Kolbrúnar Garðarsdóttur hdl., að fjárhæð 135.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.