Hæstiréttur íslands

Mál nr. 352/2010


Lykilorð

  • Kærumál
  • Vanreifun
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


                                                         

Föstudaginn 13. ágúst 2010.

Nr. 352/2010.

Kristinn Sigurjónsson

(sjálfur)

gegn

Böðvari Bragasyni

(Steingrímur Gautur Kristjánsson hrl.)

Kærumál. Vanreifun. Frávísunarúrskurður staðfestur.

K höfðaði mál gegn B og krafðist þess meðal annars að B yrði gert með dómi að fjarlægja trjágróður á mörkum lóða þeirra. Héraðsdómur taldi málatilbúnað K ekki uppfylla skilyrði e. liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og vísaði málinu frá dómi. Þá þóttu ekki skilyrði til þess að dæma nánar tilgreind ummæli K í stefnu dauð og ómerk samkvæmt 241. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Hins vegar þóttu ummælin ósæmileg og var K dæmdur til greiðslu 80.000 króna sektar samkvæmt e. lið 135. gr. laga nr. 91/1991. Var niðurstaða héraðsdóms staðfest með vísan til forsendna hans.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. maí 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 8. júní sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. maí 2010, sem sóknaraðili kveður sér fyrst hafa orðið kunnugt um 18. sama mánaðar, en með úrskurðinum var máli sóknaraðila á hendur varnaraðila vísað frá dómi og þeim fyrrnefnda gert að greiða réttarfarssekt að fjárhæð 80.000 krónur. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og lagt fyrir héraðsdóm að fella efnisdóm á málið.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Kristinn Sigurjónsson, greiði varnaraðila, Böðvari Bragasyni, 200.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. maí 2010.

Mál þetta sem dómtekið hinn 8. mars sl. var höfðað fyrir dómþinginu af Kristni Sigurjónssyni, Reykjavíkurvegi 33, Reykjavík, á hendur Böðvari Bragasyni, Reykjavíkurvegi 35, Reykjavík, með stefnu birtri hinn 18. mars 2009.

Dómkröfur stefnanda eru þær: „1.  Að stefnda verði gert með dómi, að nema á brott allan gróður v/aspartrjáa af landi stefnanda, en þessi gróður er aðallega trjágreinar, sem nema nokkrum metrum inn á lóð stefnanda, svo og ofaná liggjandi rætur, sem hvoru tveggja stafa af asparrækt stefnda á lóðamörkum.  Enn fremur, að stefndi lækki aspartré sína á lóðarmörkum niður í 1.80 metra, svo að eigi valdi aspirnar skuggamyndun á lóð stefnanda.  2.  Stefnda verði gert að greiða kr. 5.000 í dagsektir, 15 dögum eftir uppkvaðningu dóms í máli þessu, verði hann eigi við niðurstöðu dómsins.  3.  Krafist er málskostnaðar að mati dómsins ásamt dráttarvöxtum frá uppkvaðningu dóms til greiðsludags, skv. 6. gr. laga nr. 38/2001.  4.  Gerð er sú krafa, að settur verði sérstakur setudómari í máli þessu, sem sé óháður Héraðsdómi Reykjavíkur, svo og sérfróðir meðdómendur.“

Dómkröfur stefnda voru þær aðallega, að málinu verði vísað frá dómi, en til vara, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda.  Þá gerir stefndi þá kröfu að eftirgreind ummæli í stefnu: „Þessi gróðurmold var tekin ófrjálsri hendi…en moldin var tekin ófrjálsri hendi (stolið) frá stefnanda…(þökk sé stolnu gróðurmoldinni)“ verði dæmd dauð og ómerk, en til vara að stefnandi sæti réttarfarssekt.  Auk þess krefst stefndi málskostnað úr hendi stefnanda.

Hinn 7. október 2009 var með úrskurði hafnað kröfu stefnanda um að dómari viki sæti í máli þessu.  Sá úrskurður var staðfestur með dómi Hæstaréttar Íslands hinn 29. sama mánaðar.

Þingsókn féll niður af hálfu stefnda í þinghaldi hinn 22. febrúar 2010 þegar málið skyldi flutt um frávísunarkröfu stefnda, og var stefnanda þá gefinn kostur á að leggja fram sókn í málinu.  Stefnandi lagði fram sókn í þinghaldi hinn 8. mars sl. og var málið dómtekið í framhaldi af því.  Þar krefst stefnandi þess, að dómur verði lagður á málið í samræmi við kröfu stefnanda. 

II

Málavextir eru þeir, samkvæmt stefnu, að stefndi hafi fengið, m.a. frá stefnanda, lóð að Reykjavíkurvegi 35, Reykjavík, sem er vestanmegin við lóð stefnanda.  Kveður stefnandi stefnda hafa hafið mikla ræktun aspartrjáa og plantað þeim svo til á lóðarmörkum svo og við Hörpugötu 1.  Um þessar ræktunarframkvæmdir hafi séð Steinþór Einarsson, garðyrkjumaður.  Tíu tonn af gróðurmold hafi verið á lóð stefnanda.  Þessi gróðurmold hafi verið tekin ófrjálsi hendi af stefnda, Böðvari.  Steinþór hafi séð um að flytja moldina af lóð stefnanda, undir stjórn stefnda.

Hinn 10. júlí 2008 óskaði stefnandi eftir því að dómkvaddur yrði mats- og skoðunarmaður af Héraðsdómi Reykjavíkur til að skoða og meta gróður á lóðamörkum Reykjavíkurvegar 33 og 35 í Reykjavík og á lóðamörkum Reykjavíkurvegar 35 og Hörpugötu 1, Reykjavík.  Stefnandi kveðst ekki hafa frétt neitt af þessari beiðni sinni og því sent símskeyti til dómstjóra Héraðsdóms Reykjavíkur hinn 24. september 2008.  Eftir sendingu símskeytisins hafi fulltrúi í Héraðsdómi hringt í stefnanda og krafist þess af honum að hann afturkallaði beiðni sína vegna galla á henni.  Stefnandi hafi hafnað því.  Hinn 24. september 2008 hafi stefnanda síðan borist skeyti frá Héraðsdómi Reykjavíkur þess efnis að krafa hans um dómkvaðningu yrði tekin fyrir hinn 3. október 2008 og þar yrði dómkvaddur matsmaðurinn Steinþór Einarsson.  Kveður stefnandi að síðar hafi komið í ljós að nefndur Steinþór hafi áður unnið með stefnda, Böðvari, við garðyrkjuna.  Sá sem dómkvatt hafi matsmanninn hafi verið Ingimundur Einarsson héraðsdómari, sem áður hafi verið aðstoðarmaður stefnda, Böðvars.  Sé því um að ræða alvarlegt brot á lögum.  Stefnandi kveður stefnda, Böðvar, ekki hafa mætt við dómkvaðninguna. 

Hinn 13. október 2008 hafi farið fram mats- og skoðunargerð, en stefndi, Böðvar, hafi þá ekki mætt.  Á þeim matsfundi hafi matsmaður ákveðið að mælingarmenn mældu lóðarmörk.  Hins vegar hafi matsmaður ekki boðað til frekari matsfunda.  Stefnandi kveður, að síðar hafi fyrirtækið, Garðyrkja ehf., Helluhrauni 4, Hafnarfirði, sent sér matsgerðina með póstkröfu og jafnframt reikning að fjárhæð 80.382 krónur.  Tekur stefnandi það fram í stefnu, að með þessu sé um skattsvik matsmanns að ræða.  Reikningurinn sé dagsettur 23. október 2008.

Stefndi mótmælir því, að matsmaður hafi séð um ræktunarframkvæmdir fyrir sig og að stefndi hafi tekið heimildarlaust 10 tonn af gróðurmold frá stefnanda.

Stefndi kveður málavexti vera þá, að á árinu 1988 hafi hann eignast byggingarlóð nr. 35 við Reykjavíkurveg, að hluta með örlætisgerningi stefnanda, en þeir séu fornvinir.  Stefndi hafi byggt sér íbúðarhús á lóðinni og flutt inn í desember 1989.  Á árunum 1991-1993 hafi hann gert trjágarð við húsið.  Hafi þá verið plantað umdeildum asparteinungum nærri lóðamörkum í fullu samráði við stefnanda og í samræmi við gildandi byggingarreglugerð.  Hafi farið hið besta á með aðilum.  Ekki sé rétt að stefndi hafi notað gróðurmold stefnanda, hann hafi fengið jarðveg annars staðar frá.  Stefndi telur sig í mesta lagi hafa fengið eina hjólbörufylli frá stefnanda, með góðfúslegu leyfi hans.

Í nóvember 2007 hafi stefnandi kallað á stefnda og tilkynnt honum að aspir á lóðamörkum væru honum til ama, sérstaklega að greinar næðu inn yfir lóð hans, mynduðu skugga og byrgðu sýn, enda verið gróðursettar of nálægt lóðamörkum og þá í ósamræmi við gildandi reglur.  Stefndi hafi lagt til að þeir leituðu til byggingarfulltrúa um leiðsögn og viðunandi niðurstöðu en stefnandi hafi heldur viljað leita til lögmanns.  Stefndi kveðst hafa samþykkt það og hafi svo verið ráð fyrir gert að stefnandi annaðist þann þátt.  Hafi stefndi vonast til að lögmaðurinn myndi jafna ágreininginn.  Ekkert hafi þó orðið úr því og hafi stefnandi sagt stefnda frá því í desember 2007.  Við það tækifæri hafi hann lýst þeirri skoðun sinni að lækka þyrfti allar aspir í 1,80 m hæð, einnig þær sem væru á lóðamörkum við Hörpugötu 1.  Eftir það hafi aðilar ekki talast við.

Stefndi kveðst hafa, vorið 2008, fengið Jón Júlíus Elíasson skrúðgarðyrkjumeistara til verka í garði sínum og lagt ríka áherslu á það við hann að gera stefnanda til hæfis með því að klippa aspartrén þannig að hann þyrfti ekki að hafa ama af.  Af sjö trjám á mörkum lóða aðila hafi verið tekið ofan af fjórum þannig að þær væru ekki hærri en ca 2,20 m.  Tvær aspir, nr. 8 og 9 í matsgerð, hafi aldrei náð meiri hæð og muni hafa vaxið upp af græðlingum nokkru síðar en hinar.  Eitt þeirra þriggja fullvöxnu trjáa, sem eftir hafi verið, séu á horni lóðar en bagi ekki stefnanda.  Þá hafi tvö tré verið eftir.  Garðyrkjumeistarinn hafi þó ekki sneitt af allar greinar sem slútað hafi yfir lóð stefnanda og borið við faglegum sjónarmiðum.  Stefndi hafi svo samið við hann um að annast garðinn framvegis og næst þegar farið væri í garðverk.  Hafi hann, 12. og 13. mars 2009, fjarlægt greinar sem slútað hafi yfir lóðamörk.  Hafi þá greinar trjánna enn verið styttar þannig að aðeins séu eftir smáar greinar hátt á stofni sem skagi í mesta lagi 50 cm yfir lóðamörk.

Stefndi kveðst hafa verið erlendis frá 16. september til 14. október 2008 og hafi honum ekki verið kunnugt um matsbeiðnina þegar hann fór utan.  Þá hafi tilkynning um matsfund ekki komið til vitundar hans fyrr en eftir matsfundinn.

Stefndi kveðst aldrei hafa fengið kröfubréf frá stefnanda og formlega áskorun um tiltekin úrræði og matsgerð hafi hann ekki fengið í hendur fyrr en eftir þingfestingu.

Eins og að framan greinir var dómkvaddur matsmaður, að ósk stefnanda, og er matsgerð hans dagsett 23. október 2008 og segir þar m.a. : „Á lóð Reykjavíkurvegar 35 fast að mörkum lóðarinnar Reykjavíkurvegur 33, hefur verið plantað út 9 öspum.  Þær eru allar inná lóðinni nr. 35 en misjafnlega langt frá lóðamörkum.  Greinar margra þeirra teygja sig inná lóð Reykjavíkurvegar 33.  Mælt var hversu langt stofnar aspanna eru frá lóðamörkum.  Hæð þeirra og hversu langt greinarnar teygja sig inná lóðina nr. 33.  Sagað hefur verið ofan af nokkrum aspanna og þær síðan stýfðar.  Mælt var frá horni skúrs sem er á lóðamörkum Reykjavíkurvegar 31 og 33 og hann notaður sem fastpunktur.  Eftirfarandi niðurstöður fengust.

Ösp 1  1 metra frá skúr.  Stofninn er 22 cm frá lóðamörkum.  Mæld hæð 12,10 metrar.  Teygir sig mest 3,6 metra inná lóðina nr. 33.

Ösp 2  2,4 metrar frá skúr.  Stofninn er 32 cm frá lóðarmörkum.  Hefur verið stýfð, hæð 2,2 metrar.  Teygir sig mest 80 cm inná lóðina nr. 33.

Ösp 3  3,7 metra frá skúr.  Stofninn er 30 cm frá lóðarmörkum.  Hefur verið stýfð, hæð 2,2 metrar.  Teygir sig mest 1,2 metra inná lóðina nr. 33.

Ösp 4  5,2 metra frá skúr.  Stofninn er 36 cm frá lóðarmörkum.  Metin hæð 11,5 metrar.  Teygir sig mest 2,05 metra inná lóðina nr. 33.

Ösp 5  6,7 metra frá skúr.  Stofninn er 48 cm frá lóðarmörkum.  Hefur verið stýfð, hæð 2,10 metrar.  Teygir sig mest 5 cm inná lóðina nr. 33.

Ösp 6  8,1 metra frá skúr.  Stofninn er 50 cm frá lóðarmörkum.  Hefur verið stýfð, hæð 2,10 metrar.  Teygir sig ekki inn fyrir lóðarmörk.

Ösp 7  9,35 metra frá skúr.  Stofninn er 49 cm frá lóðarmörkum.  Metin hæð 10,8 metrar.  Teygir sig mest 50 cm inná lóðina nr. 33.

Ösp 8  10,55 metra frá skúr.  Stofninn er 61 cm frá lóðarmörkum.  Hæð 2,2 metrar.  Teygir sig mest 30 cm inná lóðina nr. 33

Ösp 9  11,75 metra frá skúr.  Stofninn er 65 cm frá lóðarmörkum.  Hæð 2,2 metrar.  Teygir sig ekki inn fyrir lóðarmörk.“

III

Stefnandi kveður mál þetta í raun vera tvíþætt.  Í fyrsta lagi verði að dæma stefnda til þess að fara að lögum vegna grenndarmála og brot á eignarrétti og skipulagslögum og hins vegar sé um alvarlegt lögbrot stefnda, Böðvars, og eins dómara hjá Héraðsdómi Reykjavíkur, Ingimundar Einarssonar, sem brotið hafi hlutleysisreglur dómara.   

Stefnandi kveður, að í matsgerð sé m.a. sagt, að aspirnar dafni mjög vel og teygi sig upp í 12-14 metra og séu í örum vexti.  Þá meti matsmaður 10 tonn af gróðurmoldinni á 25.500 krónur, en gróðurmoldin sé seld á 299 krónur í 5 lítra pokum í gróðurfyrirtækjum.  Matsmaður minnist ekki á ofanáliggjandi rætur, sem fari inn á lóð stefnanda, og ekki á hæð aspa á lóðamörkum stefnanda og stefnda og ekki heldur á skuggamyndun af öspunum á lóð stefnanda.  Þó geti matsmaður þess að greinar frá stefnda nái 3 metra inn á lóð stefnanda.  Stefnandi kveður stefnda telja sig eiga rétt á þessu, sem bendi til þess, að hann sé „júridískur tómthúsmaður“, sem og Ingimundur Einarsson.  Hér sé um samsæri að ræða, illa sem ekki dulbúið.

Kveður stefnandi „setudómara“ verða að hafa sérfróða meðdómendur sér við hlið og ganga á vettvang, en ekki sé fýsilegt að óska eftir yfirmati við þessar aðstæður.

Um lagarök vísar stefnandi til grenndarréttar, eignarréttarákvæðis stjórnarskrárinnar, gr. 72. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 41/1997, og byggingarreglugerðar nr. 44/1998, sérstaklega gr. 68.

Kröfu um dráttarvexti byggir stefnandi á 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.

Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

IV

Stefndi kveður aðalkröfu sína um ómerkingu vera vægari en refsikröfu og ætti hún samkvæmt því fremur að vera sett fram til vara, en stefndi sé þess ekki fýsandi að stefnandi sæti réttarfarssekt og telji nægilegt að ummælin verði ómerkt.  Varakrafan sé sett fram með það í huga að ómerkingarheimild kunni að virðast óljós, en óþolandi sé fyrir stefnda að búa undir óhnekktri aðdróttun stefnanda um þjófnað.

Stefndi mótmælir þeim staðhæfingum stefnanda, að Steinþór Einarsson hafi séð um ræktunarframkvæmdir fyrir sig og því, að stefndi hafi tekið heimildarlaust 10 tonn af gróðurmold frá stefnanda.

Stefndi byggir kröfu sína um frávísun á því, að í stefnu sé því haldið fram, að stefndi hafi tekið af stefnanda heimildarlaust fémæti fyrir hartnær tveimur áratugum síðan, án þess að þessi staðhæfing tengist málsefninu með þeim hætti að ályktun verði af henni dregin um niðurstöðu málsins andstætt ofangreindum meginreglum og lagaákvæðum um greiða málsmeðferð.  Stefndi telur hin umstefndu ummæli efnislega röng og móðgandi auk þess sem þau feli í sér aðdróttun um refsiverðan verknað og ámælisverðan verknað þannig að varði refsingu og ómerkingu, einkum samkvæmt ofangreindum ákvæðum almennra hegningarlaga.  Ekki dragi það úr ámælisverðleika ummælanna að stefndi hafi verið lögreglustjóri þegar stefnandi segi hann hafa tekið moldina ófrjálsri hendi og beri sérstaklega að sporna við slíku athæfi og sækja til saka fyrir það.  Jafnframt telji stefndi að efni séu til að leggja táknræna réttarfarssekt á stefnanda fyrir ummælin með eða án kröfu.  Telur stefndi það vera við hæfi  að það verði gert í frávísunarúrskurði þannig að ljóst sé að stefnandi komist ekki upp með að blanda röngum aðdróttunum  við málið kjósi hann að höfða mál um sakarefnið að nýju.  En úr því sem komið er kjósi stefndi að úr ágreiningi aðila verði skorið fyrir dómi.  Stefnda varði það miklu að fá málinu vísað frá dómi þannig að ummælin verði ekki endurtekin á opinberum dómþingum í tengslum við úrlausn ágreinings aðila, jafnvel á tveimur dómstigum.

Almennt sé stefnanda heimilt að leggja fram skriflega aðilaskýrslu með stefndu en ekki önnur málflutningsskjöl en mál skuli munnlega flutt.  Í málflutningsumræðu gefst málflytjendum kostur á að gera grein fyrir lögskýringargögnum og fræðilegum útlistunum sem þeir styðji kröfur sínar við.  Með framlagningu hluta fræðilegrar ritgerðar um réttaratriði sem málið varði telur stefndi að stefnandi hafi vikið svo frá réttum málsmeðferðarreglum að það eigi, ásamt áðurgreindri ástæðu, að leiða til þess að máli hans verði vísað frá dómi.

Stefnandi hafi aflað matsgerðar þeirrar, sem hann leggi fram í málinu, en finni henni allt til foráttu.  Hann hafi mætt á dómþing við dómkvaðninguna, en ekki gert athugasemdir við hæfi dómara eða matsmanns undir rekstri matsmálsins og hann hafi ekki aflað yfirmats.  Stefndi hafi ekki átt annan hlut að öflun þessa gagns en samtal við matsmanninn á vettvangi.  Svo sé að sjá að stefnandi, sem lagt hafi fram matið, telji það ekkert sönnunargildi hafa, en stefndi líti svo á að það sé samið af óhlutdrægum sérfræðingi og hafi sönnunargildi að því leyti sem það samrýmist því sem hann haldi fram.

Sýknukröfu sína byggir stefndi á því, að stefnandi eigi aðeins rétt á úrbótum ef gróður valdi honum óþægindum með því að skerða verulega birtu í íbúð hans eða á lóð og að aspartrén séu ekki of nærri lóðarmörkum.  Í því efni verði að miða við byggingarreglur sem í gildi hafi verið þegar teinungarnar hafi verið gróðursettir og líta til þess að það hafi verið gert með fullu samþykki stefnanda.  Óþægindi hans hafi ekki orðið meiri en þau sem hann hafi orðið að sætta sig við í íbúðarhverfi í þéttbýli samkvæmt reglum nábýlisréttar.  Menn geti ekki borið fyrir sig óveruleg óþægindi nema illfýsi búi að baki.  Ákvæði 3. mgr. 68. gr. núgildandi byggingarreglugerðar nr. 441/1998, um skyldu til að halda vexti trjáa innan lóðarmarka, og fjarlægð trjáa og hæð gróðurs á lóðarmörkum, séu nýmæli sem ekki sé ætlað að þrengja kost lóðareigenda, sem þeir hafi hlotið samkvæmt eldri rétti.

Áratugum saman hafi menn um alla borg og víðar verið að rækta tré við hús sín sem hafi orðið hávaxin og skuggsæl án þess að amast væri við því.  Hávaxin tré hafi notið hylli og verndar yfirvalda, sbr. reglugerð 292/1979 og 177/1992, gr. 5.12.4.4.  Góðir grannar taki þó tillit til óska hvers annars og leggi sig fram um að draga úr óþægindum.

Stefndi kveður rétt, að umræddar aspir séu nær lóðamörkum en núgildandi reglugerð geri ráð fyrir.  Að mati stefnda hafi réttur hans til þess að láta þær standa ekki haggaðist með nýrri reglugerð sem miðist eðlilega við það sem gróðursett sé eftir gildistöku hennar.  Ákvæði 3. mgr. 68. gr. um að greinar megi ekki ná inn yfir nágrannalóð og að gróður á lóðamörkum megi ekki vera hærri en 1,8 m verði að túlka þannig um eldri gróður, að granni eigi ekki rétt á að tré séu klippt niður í 1,8 m hæð og allt lim sneitt við lóðamörk ef tréð afskræmdist við það.  Stefndi telur sig hafa komið eins langt til móts við stefnanda og hægt sé án þess að valda verulegum spjöllum á fasteign sinni og þegar málið hafi verið höfðað hafi engin ástæða verið til málsýfinga.

Stefndi kveður rétt, að rætur liggi á yfirborði á lóð stefnanda.  Engin ákvæði séu um rætur í lögum eða almennum fyrirmælum sem um málsefnið gildi og verði reglur nábýlisréttar um veruleg óþægindi að nægja til verndar rétti stefnanda að þessu leyti.  Stefnandi hafi aldrei skorað á stefnda að fjarlægja ræturnar og hafi stefndi ekki talið sér það heimilt og ekki ráðlegt að ráðast í það eins og komið hafi verið samkomulagi aðila.

Stefnandi hafi látið það undir höfuð leggjast að skora á stefnda að verða við kröfum sínum áður en málið hafi verið höfðað.  Hann hafi hvorki látið stefnda í té matsgerð né hafi hann sent kröfubréf.  Eigi stefnandi, samkvæmt dómvenju, ekki rétt á málskostnaði þótt fallist verði á aðalkröfu hans.

Stefndi telur að með hinum tilvitnuðu ummælum í stefnu hafi stefnandi farið út fyrir þau mörk sem málflytjendum séu sett um málfrelsi fyrir dómi enda tengist ummælin ekki sakarefninu með þeim hætti að staðhæfingar hans geti talist málsástæður.  Löng dómvenja sé fyrir því að láta nægja að ómerkja ummæli í stað fésektar, sbr. Hæstaréttardóma í dómasafni réttarins nr. VIII bls. 44 , sbr. nr. XXXIII bls. 213, en ómerking sé vægari viðurlög en fésekt.

Þrátt fyrir nefnda dómvenju megi skilja ákvæði 241. gr. almennra hegningarlaga þannig að ómerking verði aðeins dæmd í meiðyrðamáli.  Verði sá skilningur ofan á ríði á miklu fyrir stefnda, að fá ummælin fordæmd með fésekt en ekki skipti máli að hún nemi hárri fjárhæð.

Um lagarök vísar stefndi til laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.  Einnig vísar stefndi til óskráðra reglna íslensks grenndarréttar, sérstaklega um gróður á nágrannalóð, byggingarreglur um garðagróður, sem í gildi hafi verið í Reykjavík frá vori til vors árin 1991-1993, sbr. byggingarlög nr. 54/1978, byggingarreglugerð nr. 292/1979 og nr. 177/1992, sbr. nú byggingarreglugerð nr. 441/1998.

Kröfu um ómerkingu byggir stefndi á 241. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og XXII. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

Refsikröfu byggir stefndi á 235. gr. og 236. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og XXII. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

Kröfu um málskostnað byggir stefndi á 130. gr. og 131. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

V

Í máli þessu er deilt um óþægindi vegna trjágróðurs á lóðamörkum málsaðila. 

Eins og að framan greinir féll þingsókn niður af hálfu stefnda í þinghaldi hinn 22. febrúar sl., er málið skyldi flutt um frávísunarkröfu hans.  Málið var síðan dómtekið er stefnandi hafði lagt fram skriflega sókn í málinu, þar sem hann krafðist þess að málið yrði dæmt að kröfum.

Samkvæmt 3. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, skal málið þá dæmt eftir framkomnum kröfum, gögnum og sókn stefnanda, með tilliti til þess sem fram hefur komið af hálfu stefnda. Hins vegar er í sókn stefnda ekkert fjallað um málsástæður hans eða mótmæli við málsástæðum stefnda, og einungis vikið að atriðum, sem eru málinu óviðkomandi.

Stefnandi heldur því fram, að trjágróður á lóðamörkum aðila sé til óþæginda og ama fyrir sig, sérstaklega þar sem greinar nái inn yfir lóð hans og trén myndi skugga og byrgi sýn.              Stefndi hefur ekki mótmælt því að umræddur aspargróður sé nær lóðamörkum en núgildandi reglugerð gerir ráð fyrir, en byggir á því, að það sé réttur hans, þar sem ákvæði byggingarreglugerðar nr. 441/1998, um skyldu til þess að halda vexti trjáa innan lóðarmarka, og fjarlægð trjáa og hæð gróðurs á lóðarmörkum, séu nýmæli, komin til eftir að trjánum var plantað.  Þá hafi stefnandi ekki, áður en málið var höfðað, skorað á stefnda að verða við kröfum sínum. 

Liggur frammi matsgerð, þar sem lýst er þeim trjágróðri sem er á lóðamörkum, hæð þeirra sem og fjarlægð frá lóðamörkunum.  Kemur þar fram að um sé að ræða níu aspartré, sem plantað hefur verið nokkrum cm frá lóðamörkum og eru allar aspirnar nokkurra metra háar.  Samkvæmt matsgerðinni  teygja margar greinar umræddra aspartrjáa sig inn á lóð stefnanda og stefndi hefur ekki mótmælt þeirri fullyrðingu stefnanda, að rætur trjánna teygja sig yfir á lóð stefnanda.  Af hálfu stefnda hefur það verið dregið í efa að trén kunni að varpa skugga á lóð stefnanda, umfram það sem hann þurfi að þola samkvæmt nábýlisrétti.

Eins og mál þetta liggur fyrir virðist stefnandi byggja á því annars vegar að gróður á lóðamörkum megi ekki vera hærri en kveðið sé á um í byggingarreglugerð frá árinu 1998 og hins vegar að trjágróðurinn hafi valdið stefnanda óþægindum og tjóni umfram það sem hann þurfi að þola samkvæmt almennum reglum nábýlisréttar.  Hins vegar er hvorki í stefnu né í matsgerð að finna rök eða nánari lýsingu á því með hvaða hætti umrædd tré varpi skugga á lóð stefnanda þannig að í andstöðu sé við almennar reglur nábýlisréttar, en ljóst er að nágrannar verða að sætta sig við óþægindi að vissu marki.  Eins og fyrr greinir var dómkvaddur matsmaður til þess að meta trjágróður á lóðamörkum aðila og hefur niðurstöðu þeirrar matsgerðar verið lýst hér að framan.  Í matsgerðinni er ekki minnst á ofanáliggjandi rætur, sem fari inn á lóð stefnanda, og þar er ekki lýst þeirri skuggamyndun sem stefnandi kveður vera af trjágróðrinum eða hvernig gróðurinn hindrar nýtingu stefnanda á lóð sinni.  Er matsgerðin því ekki til þess fallin að byggja undir kröfur stefnanda.  Þá er ekki ljóst af málatilbúnaði stefnanda hvernig tilvitnuð ákvæði núgildandi reglugerðar frá 1998 geti átt við um gróður, sem plantað var fyrir gildistöku reglugerðarinnar, eða hvernig önnur ákvæði laga styðji kröfu hans.  Málatilbúnaður stefnanda er og því marki brenndur að lýsa atriðum sem virðast málinu alls óviðkomandi sem og að í málinu var lagt fram dómskjal sem er ljósrit af hluta af kandídatsritgerð í lögfræði, og er því ekki, samkvæmt almennum réttarfarsreglum, skjal sem stefnandi getur byggt kröfu sína á í málinu.

Þegar allt framangreint er virt þykir stefnandi ekki hafa lagt málið upp með nægjanlega skýrum hætti og ekki lagt þann grundvöll að málinu, sem nauðsynlegur er til þess að efnisdómur verði á það lagður.  Eins og málatilbúnaði stefnanda er háttað er hann því svo óljós og óskýr að hann fullnægir ekki kröfum e. liðar 80. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, til þess að efnisdómur verði lagður á málið.  Verður því ekki hjá því komist að vísa kröfum stefnanda frá dómi ex officio.

Þá krafðist stefndi þess aðallega, að eftirgreind ummæli í stefnu: „Þessi gróðurmold var tekin ófrjálsri hendi…en moldin var tekin ófrjálsri hendi (stolið) frá stefnanda…(þökk sé stolnu gróðurmoldinni)“ verði dæmd dauð og ómerk samkvæmt 241. gr. almennra hegningarlaga, en til vara að stefnanda verði gerð sekt samkvæmt 135. gr. laga nr. 19/199, um meðferð einkamála, fyrir eftirfarandi ummæli í stefnu, sem stefndi telur vera  meiðandi og ósæmileg. 

Orð stefnanda hér að ofan, um að stefndi hafi tekið eign stefnanda ófrjálsri hendi, eru sérstaklega vítaverð enda er með þeim gefið í skyn að stefndi hafi framið refsiverðan verknað og hefur stefnandi ekki sýnt fram á eða gert sennilegt að þau eigi við rök að styðjast. Samkvæmt 241. gr. almennra hegningarlaga má, í meiðyrðamáli, dæma óviðurkvæmileg ummæli ómerk.  Þegar af þeirri ástæðu, að ekki er um meiðyrðamál að ræða, auk þess sem þingsókn féll niður af hálfu stefnda, þannig að hann hélt þessari kröfu sinni ekki til streitu, eru ekki skilyrði til þess, samkvæmt tilvitnaðri grein, að dæma ummælin ómerk í máli þessu. Hins vegar þykja ummælin ósæmileg og ber að átelja stefnanda fyrir þau.  Þá þykja ummæli stefnanda í stefnu, um Ingimund Einarsson héraðsdómara einnig vera lítilsvirðandi, óviðurkvæmileg og mjög vítaverð, enda er með þeim gefið í skyn að umræddur dómari hafi í embættisverkum sínum gerst sekur um lögbrot.  Þá tengist  málatilbúnaður þessi á engan hátt ágreiningsefni málsins og ber að átelja stefnanda fyrir ummælin.

Verður stefnanda gerð sekt fyrir þau eftir e- lið 135. gr. laga nr. 91/1991, sem ákveðst 80.000 krónur og rennur í ríkissjóð.

Samkvæmt framansögðu verður málinu vísað frá dómi ex officio.

Rétt þykir að málskostnaður milli aðila falli niður.

Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan, en uppkvaðning hans hefur dregist sökum veikinda og embættisanna dómara.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Máli þessu er vísað frá dómi ex officio.

Málskostnaður fellur niður.

Stefnandi, Kristinn Sigurjónsson, greiði 80.000 króna sekt í ríkissjóð.