Hæstiréttur íslands
Mál nr. 11/2013
Lykilorð
- Gæsluvarðhald
- Miskabætur
- Fjártjón
- Gjafsókn
|
|
Fimmtudaginn 23. maí 2013. |
|
Nr. 11/2013.
|
Íslenska ríkið (Einar Karl Hallvarðsson hrl.) gegn Degi Bjarna Kristinssyni (Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.) |
Gæsluvarðhald. Miskabætur. Fjártjón. Gjafsókn.
D krafði Í um bætur vegna gæsluvarðhalds sem hann taldi sig hafa sætt að ósekju, frá 25. desember 2010 til 25. mars 2011, í tengslum við rannsókn á skotárás við íbúðarhúsnæði í Reykjavík. Í dómi héraðsdóms, sem staðfestur var með vísan til forsendna hans, kom fram að ekki yrði litið fram hjá því að D hefði veri ófús til að skýra rétt frá og lýsa sínum þætti í málinu í öndverðu. Þótti D því í upphafi hafa stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisti kröfu sína á og fullt tilefni hafi verið til þess að úrskurða hann í gæsluvarðhald daginn eftir að hann var handtekinn 25. desember 2010 allt til 4. janúar 2011 á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Átti D því ekki rétt á bótum fyrir gæsluvarðhald að ósekju fyrir þann tíma. Hins vegar þótti þáttur D frá 4. janúar að mestu hafa verið upplýstur og ekkert fram komið sem sýndi fram á að framganga D hefði gefið tilefni til áframhaldandi gæsluvarðhalds eftir þann tíma. Voru D dæmdar skaðabætur vegna miska og fjártjóns samtals að fjárhæð 2.130.600 krónur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen og Árni Kolbeinsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 8. janúar 2013. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti en til vara að tildæmdar bætur verði lækkaðar og málskostnaður látinn niður falla.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður stefnda, Dags Bjarna Kristinssonar, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 500.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 10. október 2012.
Þetta mál, sem var dómtekið 26. september sl., að lokinni aðalmeðferð, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Degi Bjarna Kristinssyni, Brekkubyggð 11, Blönduósi, á hendur íslenska ríkinu, með stefnu áritaðri um birtingu, 19. janúar 2012.
Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 5.913.251 kr. auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 26. ágúst 2011 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda eins og málið væri ekki gjafsóknarmál auk virðisaukaskatts.
Dómkröfur stefnda eru þær að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað að mati réttarins.
Málavextir
Málavextir eru þeir að á aðfangadag jóla barst lögreglu tilkynning um að menn væru að skjóta úr byssu við [...] í Reykjavík. Lögreglan kom fljótt á vettvang og sá fjóra menn hlaupa frá húsinu og hverfa á brott. Þá kom í ljós að heimilisfólkið, hjón með tvö börn, hafði forðað sér út úr húsinu bakdyramegin og leitað skjóls hjá nágrönnum sínum. Voru tvö skothylki á útidyrahurðinni og rúða í hurðinni brotin. Utan dyra fundust tóm skothylki og haglabyssa fannst skömmu síðar á bak við sorptunnu. Ljóst var að skotið hafði verið með haglabyssu á hurðina og hóf lögreglan þegar leit að mönnunum fjórum. Stuttu síðar fannst bifreið sem talið var að fjórmenningarnir hefðu notað og var stefnandi þar á gangi ásamt öðrum manni. Voru þeir báðir handteknir og færðir á lögreglustöð ásamt hinum mönnunum tveimur.
Stefnandi var yfirheyrður hjá lögreglu daginn eftir, 25. desember 2010. Kvaðst stefnandi muna lítið frá deginum áður og neitaði hann að hafa verið í slagtogi við hina mennina þrjá sem höfðu jafnframt verið handteknir. Þá kannaðist hann hvorki við að hafa verið á vettvangi þegar skotárásin átti sér stað né að hafa setið í bifreiðinni sem flutti mennina að [...].
Í framhaldi af skýrslutökunni var stefnandi leiddur fyrir dómara sem, að kröfu lögreglu, úrskurðaði hann í gæsluvarðhald til 4. janúar 2011 með vísan til a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Þá var stefnanda gert að sæta einangrun á meðan gæsluvarðhaldinu stóð samkvæmt b-lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008.
Skýrsla var tekin af stefnanda öðru sinni 28. desember 2010 og breytti hann þá framburði sínum. Skýrði hann svo frá að hann hafi verið heima hjá vinkonu sinni, A, að morgni aðfangadags og hafi hún ekið honum á Vog þar sem hann hafi ætlað að leggjast inn. Af því hafi hins vegar ekki orðið og hafði stefnandi því samband við einn sakborninga, B, sem hafi boðið honum heim til sín og bróður síns, C, að Sundlaugarvegi. Annar sakborningur, D, sem hafi verið með þeim bræðrum, sótti stefnanda. Hafi hann sagst þurfa að koma við á einum stað á leiðinni en það hafi verið í [...] þar sem skotárásin átti sér stað síðar sama dag. Þar hafi D verið með læti og verið barinn með einhverju áhaldi sem hafi lent í andliti hans. Eftir að hafa hringt í þá B og C hafi D ekið að Sundlaugarvegi þar sem þeir bræður hafi bæst í hópinn. Þá hafi D keyrt aftur að [...] þar sem hann hafi byrjað að skjóta í hurðina en stefnandi kvaðst hafa hlaupið í burtu um leið og hann heyrði í skotunum. D hafi síðan hlaupið á eftir honum og voru þeir handteknir af lögreglu stuttu síðar.
Hinn 3. janúar 2011 var tekin skýrsla af stefnanda á ný. Honum var tilkynnt að lögreglan hefði framkvæmt myndflettingu vitnis er bjó að [...]. Tveir menn væru grunaðir um að hafa farið þar inn að kvöldi 23. desember 2010 í tengslum við málið sem stefnandi var sakborningur í en við myndflettinguna hafi vitnið bent á stefnanda. Stefnandi tjáði lögreglunni að hann hafi á þeim tíma verið hjá vinkonu sinni, A, og að hann hefði því fjarvistarsönnun. Skýrsla var tekin af umræddri A, 28. desember 2010, þar sem hún kvaðst kannast við að stefnandi hafi verið staðsettur heima hjá sér, þar sem hann leigði herbergi, frá því snemma dags á Þorláksmessu, fram til hádegis daginn eftir.
Hinn 4. janúar 2011 var gerð krafa um að stefnanda yrði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi til 1. febrúar 2011, en þeirri kröfu var hafnað með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur. Úrskurðurinn var kærður til Hæstaréttar Íslands sem sneri honum við með dómi 12. janúar 2011 í máli nr. 15/2011. Með vísan til 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 féllst rétturinn á gæsluvarðhald yfir stefnanda frá 12. janúar 2011 til 1. febrúar 2011.
Gæsluvarðhaldsvist stefnanda var framlengd í þrígang eftir þetta. Fyrst með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 1. febrúar 2011 þar sem stefnanda var gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi til 15. febrúar 2011. Þá með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 15. febrúar 2011 þar sem stefnanda var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi til 15. mars 2011, en sá úrskurður var staðfestur af Hæstarétti Íslands með dómi 17. febrúar 2011 í máli nr. 98/2011. Loks féllst Héraðsdómur Reykjavíkur á áframhaldandi gæsluvarðhald yfir stefnanda til 1. apríl 2011 með úrskurði 15. mars 2011. Var sá úrskurður einnig kærður til Hæstaréttar sem staðfesti hann. Var í öllum fyrrgreindu úrskurðunum þremur sem og í Hæstarétti fallist á að uppfyllt væru skilyrði 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 og að gæsluvarðhald yfir stefnanda væri nauðsynlegt þar sem sterkur grunur léki á um að stefnandi hefði framið brot gegn almennum hegningarlögum nr. 19/1940, sem varðað gæti 10 ára fangelsi og að gæsluvarðhald væri nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna.
Dómur var kveðinn upp í máli S-175/2011, 25. mars 2011, og var stefnandi þá sýknaður af öllum ákærum. Aðrir sakborningar í málinu voru sakfelldir fyrir hættubrot og tilraun til húsbrots en sýknaðir af tilraun til sérstaklega hættulegrar líkamsárásar. Var stefnandi látinn laus úr gæsluvarðhaldsvistinni við dómsuppsögu.
Stefnandi krafðist bóta úr hendi stefnda með bréfi, dagsettu 26. júlí 2011. Stefndi hafnaði bótakröfu stefnanda með bréfi, dagsettu 7. október 2011.
Málsatvik og lagarök stefnanda
Stefnandi vísar til þess að þær þvingunarráðstafanir, sem heimilaðar séu í lögum nr. 88/2008 feli í sér skerðingu á mikilvægum réttindum manna, þar á meðal persónufrelsi, friðhelgi einkalífs og heimilis og eignarétti, sem að öðru jöfnu njóti ríkrar réttarverndar að lögum. Gæsluvarðhald sé þvingunarráðstöfun sem skerði með afgerandi hætti persónufrelsi manna og hafi verið litið á sem þá þvingunarráðstöfun sem að jafnaði gangi lengst í þá átt að skerða réttindi manna. Af þessum sökum verði að gera ríkar kröfur til þess að skilyrði gæsluvarðhalds séu uppfyllt auk þess sem ákvæði um heimild til að úrskurða sakborning í gæsluvarðhald verði að vera skýrð þröngt.
Stefnandi heldur því fram að skilyrði 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 hafi ekki verið uppfyllt gagnvart stefnanda og stefndi sé því bótaskyldur gagnvart honum. Samkvæmt ofangreindu ákvæði megi úrskurða sakborning í gæsluvarðhald ef sterkur grunur leikur á að hann hafi framið afbrot sem að lögum geti varðað 10 ára fangelsi, enda sé brotið þess eðlis að ætla megi varðhald nauðsynlegt til almannahagsmuna. Í samræmi við það sem þegar hafi verið sagt um þvingunarráðstafanir verði að skýra skilyrðið um sterkan grun þröngt og því sé mótmælt að það hafi verið uppfyllt í þessu máli. Stefnandi hafi útskýrt aðkomu sína að málinu aðeins þremur dögum eftir handtöku og þar að auki hafi allir hinir sakborningarnir borið um það að stefnandi hefði verið þarna fyrir tilviljun og í raun og veru ekki átt neinn þátt í því að skipuleggja eða framkvæma skotárásina. Á þessum tímapunkti hefði átt að sleppa stefnanda enda skilyrði gæsluvarðhalds ekki lengur fyrir hendi, sbr. 2. mgr. 97. gr. laga nr. 88/2008. Ekkert í skýrslum stefnanda hjá lögreglu hafi gefið tilefni til að álíta hann sekan af þeim brotum sem hann hafi síðar verið ákærður fyrir eins og komi vel fram í niðurstöðu héraðsdóms, 4. janúar 2011, þegar gæsluvarðhaldskröfu hafi verið hafnað, og í sératkvæði eins dómara Hæstaréttar í úrskurði, 12. janúar 2011.
Þá sé það einnig skilyrði í 2. mgr. 95 gr. sakamálalaga, að brot sem sakborningur sé grunaður um sé þess eðlis að ætla megi varðhald nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Verði með engu móti séð að þetta skilyrði hafi verið uppfyllt. Ljóst sé að stefnandi tók ekki beinan þátt í árásinni og að af honum stafaði engin hætta. Þá skuli bent á það að eftir að héraðsdómur hafnaði áframhaldandi gæsluvarðhaldi, 4. janúar 2011, hafi stefnandi verið frjáls ferða sinna allt til 12. janúar þegar hann hafi aftur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald af Hæstarétti. Þannig hafi stefnandi verið laus í nokkra daga án þess að almannahagsmunum væri raskað enda ljóst að þetta skilyrði hafi aldrei verið uppfyllt gagnvart stefnanda.
Stefnandi telur afar hæpið og ekki samrýmast grundvallarhugsuninni um réttarríki að hann hafi verið úrskurðaður í gæsluvarðhald, hvað þá í svo langan tíma sem raun bar vitni. Það hafi strax legið fyrir á fyrstu dögum rannsóknar lögreglu að stefnandi hafi ekki átt neinn þátt í atburðarás þeirri sem leiddi síðar til ákæru á hendur honum, sem leiddi svo aftur til sýknu. Stefnandi hafi mátt sæta því að sitja saklaus í gæsluvarðhaldi í þrjá mánuði sem hafi leitt til mikils mannorðsmiska fyrir hann og m.a. valdið því að hann missti atvinnu sína.
Eini tilgangur gæsluvarðhaldsins virðist þannig hafa verið sá að tryggja aðgang lögreglu að kæranda til frekari skýrslutöku. Slík beiting gæsluvarðhaldsúrræðisins samrýmist ekki tilgangi þess samkvæmt lögum og sé í raun alvarlegt brot á persónuréttindum stefnanda. Þannig hafi stefnandi verið úrskurðaður aftur í gæsluvarðhald, 12. janúar, 1. febrúar, 15. febrúar og 15. mars án þess að neitt nýtt hafi komið fram í málinu sem styrkti grun lögreglunnar um að stefnandi hefði átt einhvern þátt í umræddri árás. Þar að auki voru gæsluvarðhaldskröfur yfir stefnda ávallt studdar sömu rökum, alveg sama á hvaða rannsóknarstigi málið var statt. Stefnandi þurfti áfram að sæta gæsluvarðhaldi eftir að búið var að gefa út ákæru og meira að segja eftir að búið var að flytja málið og dómtaka það en þá hafi ekkert verið fram komið sem studdi nauðsyn þess að hafa stefnanda í gæsluvarðhaldi enda hafi það ekki verið rökstutt með nokkrum hætti af hálfu ákæruvaldsins.
Þar sem skilyrði gæsluvarðhalds hafi ekki verið uppfyllt gagnvart stefnanda eigi hann rétt á bótum úr hendi stefnanda sbr. 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008, sem kveði á um að greiða skuli sakborningi bætur sem borinn hefur verið sökum í sakamáli og málið verið fellt niður eða sakborningur sýknaður af ákæru. Í 2. mgr. 228. gr. sé tekið fram að dæma skuli bætur vegna aðgerða IX-XIV. kafla laganna ef skilyrði 1. mgr. séu fyrir hendi. Sambærilega reglu sé að finna í 5. mgr. 67. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands.
Undantekningu frá þessari hlutlægu bótareglu sé að finna í síðari málslið 2. mgr. sömu greinar þar sem tekið sé fram að heimilt sé að fella niður eða lækka bætur ef sakborningur hefur valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum sem beitt var. Þessa undantekningarreglu verði að skýra þröngt og hún eigi ekki við hér þar sem stefnandi mótmæli því alfarið að hann hafi á nokkurn hátt stuðlað að áðurnefndum aðgerðum. Framburður hans hafi verið skýr og afdráttarlaus og hann hafi verið samvinnuþýður á allan hátt. Þannig sé ekkert komið fram sem geti réttlætt gæsluvarðhaldsvist stefnanda.
Bótakrafa stefnanda byggir á þeim miska sem hann hafi orðið fyrir vegna gæsluvarðhaldsvistarinnar. Miski stefnanda felist í mannorðsmissi, þjáningum og óþægindum vegna framangreindrar rannsóknar, frelsissviptingar og málaferla. Eðli sínu samkvæmt sé frelsissvipting sem þessi alvarleg skerðing á mannréttindum auk þess sem hún sé mikil andleg þrekraun fyrir þann sem fyrir henni verði. Stefnandi sætti einnig einangrun hluta af gæsluvarðhaldstímanum, heimsóknarbanni, bréfaskoðun og fjölmiðlabanni. Hann hafi því haft áhyggjur af ættingjum og ástvinum sínum og átt við andlega vanlíðan og svefnleysi að stríða.
Bótakrafa stefnanda byggir einnig á því fjárhagslega tjóni sem hann hafi orðið fyrir en stefnandi hafi tapað tekjum auk þess að missa vinnu sína og hafi hann ekki enn fengið vinnu eftir þessa atburði.
Sundurliðun kröfugerðar stefnanda: Miskabótakrafa stefnanda er 5.000.000 kr. Um upphafsdag dráttarvaxta er vísað til 9. gr. laga nr. 38/2001, en ríkislögmanni var sent kröfubréf 26. júlí 2011 og því beri krafan dráttarvexti frá 26. ágúst 2011. Til vara sé krafist dráttarvaxta frá þingfestingardegi stefnu. Til stuðnings kröfunni er vísað til dómaframkvæmdar um bætur vegna ólögmæts gæsluvarðhalds og 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og dómaframkvæmdar á grundvelli hennar.
Fjárhæð skaðabótakröfu vegna tímabundins tekjutaps stefnanda byggir á meðaltalslaunum stefnanda frá október til desember 2010 og miðist við þann tíma er stefnandi sat í gæsluvarðhaldi og þangað til dómur féll, þ.e. 25. desember til 25. mars 2011. Meðalmánaðarlaun stefnanda á þessu tímabili hafi verið 304.417 kr. og sé því krafa vegna þessara mánaða alls 913.251 kr.
Þannig sé heildarfjárhæð kröfu stefnanda á hendur íslenska ríkinu að fjárhæð 5.913.251 kr.
Framangreindar kröfur eru byggðar á lögum nr. 88/2008 um meðferð sakamála, einkum 228. gr. og XIV. kafla laganna. Þá er byggt á 95. og 97. gr. sömu laga. Einnig er byggt á 5. mgr. 67. gr. og 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og 5. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. l. nr. 62/1994. Þá er að lokum vísað til almennra reglna skaðabótaréttarins og 26. gr. laga nr. 50/1993.
Um gjalddaga bótakröfu og dráttarvexti vísast til 6. gr. og 9. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Krafa um málskostnað er byggð á 130. gr. l. nr. 91/1991. Krafa um virðisaukaskatt af málskostnaði er grundvölluð á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattsskyldur og beri honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir þeim skatti. Málið sé höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur með vísan til 32. gr. l. nr. 91/1991.
Málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og telur að ekki séu forsendur til að dæma stefnanda bætur eins og gerð er krafa um.
Bótaréttur á grundvelli 228. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála sé háður því að mál hafi verið fellt niður eða sýknað hafi verið af ákæruatriðum þeim sem við eigi og tengist þeim úrræðum í þágu sakamáls sem fyrir sé mælt um. Skuli dæma bætur vegna aðgerða á grundvelli IX.-XIV. kafla laganna ef skilyrði 1. mgr. séu fyrir hendi. Þá segi í greininni að fella megi niður bætur eða lækka hafi sakborningur valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisir kröfu sína á.
Framkoma stefnanda og athafnir hafi verið þess eðlis að ekki séu skilyrði til greiðslu bóta samkvæmt fyrrgreindu ákvæði. Óumdeilt sé að stefnandi hafi verið við [...], í félagi við annan mann, skömmu áður en skotárásin hafi átt sér stað. Þar hafi þeim verið stuggað á brott af húsráðanda eftir einhver átök. Stefnandi hafi farið þaðan á bifreið ásamt félaga sínum sem sótti haglabyssu og skotfæri og tvo menn til viðbótar. Stefnanda hafi ekki getað dulist að skotvopn væri meðferðis og hann hafi raunar fengið að vita að nota ætti vopnið til þess að hræða með því. Stefnandi hafi fylgt félögum sínum að viðkomandi húsi og hann hafi því verið á vettvangi þegar sjálf árásin hafi verið gerð. Eftir árásina hafi hann forðað sér af vettvangi en verið handtekinn af lögreglu þegar hann, ásamt einum félaga sínum, hafi ætlað að ná í bifreiðina sem skilin hafði verið eftir í grennd við árásarstaðinn. Stefnandi hafi því ekki gefið sig fram við lögreglu og hafi í upphafi verið mjög ósamvinnuþýður við lögregluna.
Við fyrstu yfirheyrslur hafi stefnandi greint ranglega frá flestu sem lögreglan hafi spurt hann um. Framburður hans hafi heldur ekki verið í neinu samræmi við framburð annarra sakborninga í málinu. Þetta, ásamt öðru, hafi leitt til þess að meðan á rannsókninni stóð hafi verið uppi sterkur grunur um að stefnandi hafi ætlað með félögum sínum að brjóta sér leið inn í íbúðarhús, vopnaður haglabyssu, og fremja þar líkamsárás.
Með þessu framferði sínu telji stefndi að stefnandi hafi valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisir bótakröfur sínar á, í skilningi 2. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008. Stefnandi hafi sjálfur komið sér í þær aðstæður sem hann hafi verið í á aðfangadag 2010. Hann hafi vitað að vopnuð árás hafi verið yfirvofandi. Hann hafi tekið þátt í henni af fúsum og frjálsum vilja og fylgt henni eftir. Hann hafi ekki gefið sig fram við lögreglu á vettvangi og hann hafi skýrt ranglega frá við fyrstu yfirheyrslu hjá lögreglunni. Stefnandi beri því sjálfur ábyrgð á þeirri atburðarás sem hafi leitt til handtöku hans og eftirfarandi gæsluvarðhaldsvistar. Forsendur bótakrafna séu því ekki fyrir hendi í þessu máli og því beri héraðsdómi að sýkna stefnda af öllum dómkröfum stefnanda.
Niðurstaða
Í þessu máli hefur stefnandi gert kröfu á hendur ríkinu til greiðslu miskabóta og bóta fyrir fjártjón vegna meints ólögmæts gæsluvarðhalds sem stefnandi var látinn sæta frá 25. desember 2010 til 25. mars 2011 að undanskildu tímabilinu 4. janúar 2011 til 12. janúar 2011.
Stefnandi byggir á því að réttur hans til bóta leiði af lögum nr. 88/2008 um meðferð sakamála og vísar í 2. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008, svo og XIV. kafla laganna. Þá byggir stefnandi jafnframt á 5. mgr. 67. gr. og 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og 5. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, auk almennra reglna skaðabótaréttarins og 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.
Hafa ákvæði 5. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar og 5. mgr. 5. gr. mannréttindasáttmála Evrópu verið skýrð svo af Hæstarétti Íslands, að með þeim sé sakborningi ekki veittur ríkari réttur til skaðabóta en mælt er fyrir um í ákvæðum laga nr. 88/2008 en 228. gr. laga nr. 88/2008 kveður á um þau skilyrði sem þarf að uppfylla svo greiddar verði bætur vegna sakamáls.
Samkvæmt 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála á maður sem borinn hefur verið sökum í sakamáli rétt til bóta samkvæmt 2. mgr. ef mál hans hefur verið fellt niður eða hann verið sýknaður með endanlegum dómi. Eins og greinir í 2. mgr. 228. gr. skulu bætur dæmdar sakborningi vegna aðgerða skv. IX.-XIV. kafla laganna ef skilyrði 1. mgr. eru fyrir hendi. Þó er gerð undantekning þar á ef sakborningur hefur valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisir kröfu sína á en í þeim tilvikum má fella bætur niður eða lækka þær.
Eins og þegar er fram komið var stefnandi í þessu máli úrskurðaður í gæsluvarðhald í tíu daga, 25. desember 2010, með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, þar sem rökstuddur grunur lék á að hann hefði gerst sekur um brot gegn 2. mgr. 218. gr. eða 211. gr. sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Kröfu lögreglu um að stefnandi skyldi sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi var hafnað með úrskurði héraðsdóms 4. janúar 2011. Þeim úrskurði var snúið við í Hæstarétti 12. janúar 2011 í máli nr. 15/2011 þar sem rétturinn féllst á að sterkur grunur væri kominn fram um að stefnandi hefði framið brot gegn almennum hegningarlögum nr. 19/1940, sem varðað gæti 10 ára fangelsi, með því að hafa í félagi við aðra, vopnaður haglabyssu, ætlað að brjóta sér leið inn í íbúðarhús í því skyni að fremja þar líkamsárás. Þá var fallist á að ætlað brot stefnanda hafi verið þess eðlis að uppfyllt væru skilyrði 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um að gæsluvarðhald væri nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Var stefnandi því dæmdur til að sæta gæsluvarðhaldi til 1. febrúar 2011.
Stefnandi var úrskurðaður í gæsluvarðhald í þrígang til viðbótar. Fyrst með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 1. febrúar 2011 þar sem vísað var til fyrrgreinds dóms Hæstaréttar nr. 15/2011 og stefnanda gert að sitja áfram í gæsluvarðhaldi til 15. febrúar 2011. Þar næst með úrskurði héraðsdóms 15. febrúar 2011 og var stefnandi þá, með vísan til sömu sjónarmiða og í fyrri málum, úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald til 15. mars. Var sá úrskurður kærður til Hæstaréttar sem staðfesti hann með vísan til forsendna, 17. febrúar 2011 í máli nr. 98/2011. Loks var stefnandi úrskurðaður, 15. mars 2011, til að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt þar til dómur gengi í máli hans, en þó ekki lengur en til 1. apríl 2011. Í þeim úrskurði var, með vísan til dóma Hæstaréttar í málum nr. 15/2011 og nr. 98/2011, talið að skilyrði 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 væru uppfyllt. Var úrskurðurinn staðfestur af Hæstarétti með vísan til forsendna hans.
Stefnandi þessa máls var, 10. febrúar 2010, ákærður ásamt þeim D, B og C, fyrir hættubrot, tilraun til sérstaklega hættulegrar líkamsárásar og tilraun til húsbrots, með því að hafa lagt á ráðin um og farið saman að heimili E að [...] í Reykjavík, vopnaðir haglabyssu og ætlað að brjóta sér leið inn í húsið til að ráðast með ofbeldi á E og hafa í því skyni skotið tveimur skotum úr byssunni á útidyrahurð íbúðarinnar. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, 25. mars 2011 í máli S-[...]/2011, var stefnandi sýknaður af öllum ákæruliðum. Voru aðrir sakborningar í málinu sakfelldir fyrir tilraun til húsbrots og hættubrot. Í niðurstöðu dómsins er því lýst að stefnandi hafi neitað því að hafa átt hlut að aðförinni á heimili E og kvaðst hann fyrst hafa komið að málinu á aðfangadagsmorgun árið 2010 þegar D sótti hann til að aka honum til þeirra bræðra, B og C. Talið var að framburður stefnanda hefði stuðning af framburði meðákærðu fyrir dómi og ákærða B hjá lögreglu og sumpart af vætti A. Þá kemur fram að öllum ákærðu hefði borið saman um það fyrir dóminum að stefnandi hefði ekki lagt á ráðin um aðför að E, að hann hafi ekki annað aðhafst en að ganga með meðákærðu að [...] og að hann hefði staðið þar aðgerðarlaus. Að síðustu segir að stefnanda og öðrum meðákærðu hafi borið saman um það að stefnandi hafi forðað sér á brott þegar fyrra skotinu var hleypt af.
Þykir ljóst að samkvæmt 2. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 á stefnandi rétt á bótum vegna gæsluvarðhaldsvistar sem hann þurfti að sæta í allt að þrjá mánuði nema slá megi því föstu að stefnandi hafi stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisir kröfu sína á.
Stefndi byggir á því að ekki séu skilyrði til greiðslu bóta samkvæmt ákvæðinu. Stefnandi hafi verið virkur þátttakandi í aðför hinna sakborninganna að húsráðanda að [...] og hann hafi flúið af vettvangi að lokinni skotárásinni. Stefnandi hafi einnig verið ósamvinnuþýður við lögreglu og greint rangt frá í upphafi. Vegna þessa hafi stefnandi sjálfur stuðlað að því með háttsemi sinni að hann var úrskurðaður í gæsluvarðhald.
Svo sem fyrr er rakið gaf stefnandi fyrst skýrslu hjá lögreglu á jóladag, 25. desember 2010. Kannaðist hann þá hvorki við að hafa farið að [...] deginum á undan né að hafa átt í samskiptum við aðra sakborninga þann dag.
Þegar meta skal hvort skilyrði séu fyrir bótaskyldu stefnda í málinu verður ekki litið fram hjá því að stefnandi var ófús til að skýra rétt frá og lýsa sínum þætti í málinu í öndverðu. Á þeim tíma var rannsókn málsins á frumstigi og stefnandi grunaður um árás sem talin var stórfelld og lífshættuleg sem hefði getað haft í för með sér alvarlegt líkamstjón eða dauða. Að því virtu þykir stefnandi í upphafi hafa stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisir kröfu sína á. Mat dómsins er að fullt tilefni hafi verið til þess að úrskurða hann í gæsluvarðhald daginn eftir handtöku og að þá hafi lögmæt skilyrði verið til þess að stefnandi sætti gæsluvarðhaldi á grundvelli a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Ekki verður því fallist á það með stefnanda að hann eigi rétt á bótum fyrir gæsluvarðahald að ósekju frá 25. desember 2010 til 4. janúar 2011.
Kemur þá næst til athugunar hvort nauðsyn hafi borið til að halda stefnanda í gæsluvarðhaldi eftir 4. janúar 2011 þangað til honum var sleppt, 25. mars 2011, tæpum þremur mánuðum síðar.
Stefnandi var yfirheyrður af lögreglu, 28. desember 2011, þar sem hann kvaðst vilja breyta framburði sínum. Þá fyrst viðurkenndi stefnandi að hafa farið að [...] ásamt öðrum sakborningum. Stefnandi kvaðst hafa tekið eftir því á leiðinni þangað að það væri byssa í bílnum og spurt D hvað hún væri að gera þarna. Hafi D þá svarað að hann ætlaði að hræða með henni. Kvaðst stefnandi ekki hafa vitað hvort byssan hefði verið hlaðin í bílnum eða hvort einhver hlóð hana á leiðinni. Stefnandi viðurkenndi að hafa gengið að húsinu ásamt D og þeim bræðrum, C og B, en sagðist hafa hlaupið í burtu um leið og hann heyrði í skotunum.
Þá var stefnandi yfirheyrður að nýju, 3. janúar 2011, og kvaðst hann þá staðfesta fyrri framburð sinn. Aðspurður sagðist hann ekki hafa komið að [...] á Þorláksmessukvöldi, 23. desember 2010, heldur hafi hann þá verið í Hraunbæ hjá vinkonu sinni, A. A hafði áður tjáð lögreglu að stefnandi hafi verið í íbúð hennar allan Þorláksmessudag.
Eins og að framan greinir hélt stefnandi því fram í skýrslutökum hjá lögreglu 28. desember 2010 og 3. janúar 2011 að hann hafi dregist inn í atburðarásina með því einu að hafa fylgt félögum sínum, hann hafi ekki vitað að byssa væri með í för er ferðinni var heitið að [...] og hann hafi snúið sér undan um leið og skotið var á hurðina. Fær framburður stefnanda stuðning af framburði C en hann skýrði svo frá í yfirheyrslu hjá lögreglu að stefnandi hafi ekki komið að atvikinu með öðrum hætti en að hafa verið á staðnum með hinum sakborningum málsins.
Með vísan til framangreinds verður litið svo á að framburður stefnanda hafi ekki tekið breytingum eftir að hann gaf skýrslu hjá lögreglu 28. desember 2010 og 3. janúar 2011. Þá hefur stefndi jafnframt ekki borið því við að stefnandi hafi breytt eða bætt við framburð sinn eftir þann tíma.
Í ljósi þessa þykir þáttur stefnanda í málinu að mestu hafa verið upplýstur ekki síðar en 4. janúar 2011 enda liggja engin gögn fyrir í málinu sem benda til annars og ekkert fram komið sem sýnir fram á að tilefni hafi verið til áframhaldandi gæsluvarðhalds stefnanda eftir þann tíma.
Samkvæmt öllu framansögðu verður fallist á það með stefnanda að hann hafi sætt gæsluvarðhaldi lengur en efni voru til og á hann rétt á bótum úr hendi stefnda af þeim sökum sem þykja hæfilega metnar 1.400.000 kr.
Stefnandi hefur krafið stefnda um bætur fyrir fjártjón. Óumdeilt er að stefnandi var í fastri vinnu áður en honum var gert að sæta gæsluvarðhaldsvist. Hefur stefnandi lagt fram launaseðla frá október 2010 til febrúar 2011 til stuðnings fjárkröfu sinni. Að virtri framangreindri niðurstöðu dómsins og þess að fjárkrafa stefnanda er studd fullnægjandi gögnum og rökum, sem hefur ekki verið hnekkt af hálfu stefnda, verður fallist á kröfu hans um bætur vegna fjártjóns. Með hliðsjón af því að ekki hefur verið fallist á að stefnandi eigi rétt á bótum vegna gæsluvarðhalds sem hann sætti frá 25. desember 2010 til 4. janúar 2011 og því að stefnandi sat ekki í gæsluvarðhaldi í nokkra daga eftir þann tíma þykir rétt að fjárhæð bóta vegna tekjutaps sé ákvörðuð 730.600 kr.
Dæmdar bætur beri dráttarvexti frá 26. ágúst 2011, það er mánuði frá dagsetningu kröfubréfs stefnanda, til greiðsludags, sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001.
Rétt þykir að málskostnaður milli aðila falli niður.
Stefnandi nýtur gjafsóknar í þessu máli samkvæmt gjafsóknarleyfi frá 2. september 2011. Gjafsóknarkostnaður stefnanda, sem er þóknun lögmanns hans, Vilhjálms H. Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns, og ákveðst 627.500 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti, greiðist úr ríkissjóði.
Lilja Rún Sigurðardóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan dóm.
D Ó M S O R Ð :
Stefndi, íslenska ríkið, greiði stefnanda, Degi Bjarna Kristinssyni, 2.130.600 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 26. ágúst 2011 til greiðsludags.
Málskostnaður fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda, 627.500 krónur, sem er málflutningsþóknun lögmanns hans, greiðist úr ríkissjóði.